Hæstiréttur íslands
Mál nr. 133/1999
Lykilorð
- Tollalagabrot
- Lyf
- Tilraun
- Hlutdeild
- Bifreið
- Umferðarlagabrot
- Akstur sviptur ökurétti
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 1999. |
|
Nr. 133/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Völundi Helga Þorbjörnssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Tollagabrot. Lyfjainnflutningur. Tilraun. Hlutdeild. Bifreiðir. Umferðarlagabrot. Akstur án ökuréttar. Upptaka.
V var ákærður fyrir tilraun til ólögmæts innflutnings lyfja, með því að hafa smyglað til landsins 32.000 töflum er hann taldi innihalda karlkynshormónalyf með anabólískri verkun, en svo reyndist ekki vera. V var einnig ákærður fyrir að hafa veitt viðtöku 3.591 töflu sem innihéldu karlkynshormónalyf með anabólískri verkun, sem hann vissi eða mátti vita að voru ólöglega innfluttar. Þá var V ákærður fyrir að hafa ekið yfir leyfðum hámarkshraða án ökuréttinda. Sakfelling ákærða fyrir öll atriði ákærunnar var staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms og var V dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar, greiðslu sektar, sviptingar ökuréttar og upptöku lyfja.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. mars 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til frekari sviptingar á ökurétti, en að héraðsdómur verði að öðru leyti staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá er krafist málsvarnarlauna í héraði ef sýknað verður, en fyrir Hæstarétti hver sem úrslit málsins verða.
Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti var meðal annars teflt fram þeirri málsvörn, að ekkert liggi fyrir um að í töflunum, sem greinir í II. kafla ákæru, sé karlkynshormón með svonefndri anabóliskri verkun. Af því tilefni hlutaðist ákæruvaldið til um að töflur, sem nefndur kafli ákæru tekur til, yrðu sérstaklega rannsakaðar hjá lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands. Voru rannsökuð þrjú sýni, þar sem 30 töflur voru í hverju. Í skýrslu stofnunarinnar 21. maí 1999, sem lögð hefur verið fyrir Hæstarétt, kemur fram að í töflunum sé metandróstenólon (methandienone), 5 mg í hverri töflu. Kemur þar jafnframt fram sú skýring, að metandróstenólon sé testósterónlíkt lyf með mikla bolsteraverkun, en hið síðastnefnda sé aðal karlhormónið í líkamanum. Þessi niðurstaða er í samræmi við skýringu ákærða við rannsókn málsins fyrir lögreglu þess efnis að um sé að ræða stera, sem hann kvaðst hafa ætlað til eigin nota.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sakfelling ákærða fyrir öll atriði ákærunnar. Við ákvörðun refsingar vegna brota, sem getið er í III. kafla hennar, verður litið til 5. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í héraðsdómi. Verður jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um eignaupptöku, sviptingu ökuréttar og sakarkostnað. Þá skal ákærði greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Völundur Helgi Þorbjörnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 1999.
Ár 1999, mánudaginn 15. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1152/1998: Ákæruvaldið gegn Völundi Helga Þorbjörnssyni, sem tekið var til dóms 14. janúar sl.
Málið er höfðað gegn ákærða Völundi Helga Þorbjörnssyni, kt. 110572-5739, Engihjalla 17, Kópavogi fyrir eftirtalin brot:
I.
Fyrir tilraun til ólögmæts innflutnings lyfja, með því að hafa við komu til Keflavíkurflugvallar 21. janúar 1997 smyglað hingað til lands frá London um 32.000 töflum (4418,61 g) er hann taldi innihalda karlkynshormónalyf með anabólískri verkun, en svo reyndist ekki vera. Töflurnar keypti ákærði í London og kom fyrir í farangri samferðakonu sinnar, en töflurnar fundust við tollleit í farangri hennar eftir komu þeirra til landsins í greint skipti.
(Mál nr. 04-1997-96)
Telst þetta varða við 1. mgr. 123. gr., sbr. 1. mgr. 124. gr. og 135. gr., tollalaga nr. 55, 1987, sbr. 1. tl. 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. reglugerðar um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, áfengisgjald, tóbaksgjald o.fl. nr. 251, 1992, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 409, 1993 og 1. gr. reglugerðar nr. 476, 1995, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr., 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr., lyfsölulaga nr. 30, 1963 og 1. mgr. 29. gr., sbr. 2. mgr. 43. gr., lyfjalaga nr. 93,1994, sbr. 2. gr. laga nr. 55, 1995, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
II.
1. Fyrir að hafa veitt viðtöku frá ónafngreindum manni 591 töflu er innihéldu karlkynshormónalyf með anabólískri verkun, sem ákærði vissi eða mátti vita að höfðu verið ólöglega innfluttar, en töflur þessar fann lögregla við leit á starfsstöð ákærða að Lágmúla 5, Reykjavík, þann 28. júlí 1997.
(Mál nr. 10-1997-13688)
2. Fyrir að hafa veitt viðtöku frá ónafngreindum manni 3000 töflum er innihéldu karlkynshormónalyf með anabólískri verkun, sem ákærði vissi eða mátti vita að höfðu verið ólöglega innfluttar, en töflur þessar fann lögregla við leit í bifreiðinni MG-138 er hún hafði afskipti af ákærða á móts við Laxalón við Vesturlandsveg í Reykjavík, þann 26. apríl 1998, sbr. ákærulið III.
(Mál nr. 10-1998-10141)
Telst þetta varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr., 124. gr. og 135. gr. tollalaga, sbr. 1. tl. 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. reglugerðar nr. 251, 1992, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 409, 1993 og 1. gr. reglugerðar nr. 476, 1995, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr., lyfsölulaga og 1. mgr. 29. gr., sbr. 2. mgr. 43. gr., lyfjalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 55, 1995.
III.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 26. apríl 1998 sviptur ökurétti til bráðabirgða ekið bifreiðinni MG-138 með allt að 160 km hraða á klst. norður Suðurlandsveg í Reykjavík á vegarkafla í átt að Vesturlandsvegi þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km á klst. og ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglubifreiðar sem á eftir honum ók, allt þar til hann stöðvaði aksturinn á móts við Laxalón við Vesturlandsveg í Reykjavík.
(Mál nr. 10-1998-10141)
Telst þetta varða við 5. gr., 1. mgr. 36. gr., 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57,1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr laga nr. 44, 1993, og að ofangreind karlkynshormónalyf samkvæmt ákærulið II., sem lögregla lagði hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga, sbr. lög nr. 55, 1995, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga og 1. mgr. 136. gr. tollalaga.
Þess er ennfremur krafist að eftirtalin lyf sem fundust við leit lögreglu á starfsstöð ákærða að Lágmúla 5, Reykjavík, þann 28. júlí 1997 og við leit í bifreiðinni MG-138 og á heimili ákærða þann 26. apríl 1998 og voru ólöglega flutt inn til landsins eða ólöglega seld hérlendis verði gerð upptæk samkvæmt 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga, sbr. lög nr. 55, 1995, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga og 1.mgr. 136. gr. tollalaga:
a) Lyf sem fundust á starfsstöð ákærða:
22 stk. Testoviron depot 250 mg ambúlur
96 stk. Primobolan depot 100 mg ambúlur
50 stk. HGG-Lepori 2500 ambúlur
92 stk. Voltaréne rapide 50 mg töflur
20 stk. Parzan töflur
26 stk. Mixtrad 30/70 pennar (Novolet)
836 stk. Ephedrine HCL 30 mg töflur
8 stk. Ganabol 50 glös
100 stk. Mestonranum 25 mg töflur
9 stk. Nolvadex 20 töflur
36 stk. Syntex 50 töflur,
6 stk. Naproxen 500 mg töflur
9 stk. Omnaden 250 ambúlur
2 stk. Disetronic plaststaukar
18 stk. Winstrol Depot 50 mg ambúlur
2 stk. Naprosyn gel í túpu
1 stk. Voltraén Emulgel Geigy í túpu
b) Lyf sem fundust við leit í bifreiðinni MG-138 og á heimili ákærða:
12 stk. Adrenalín 1 mg/ml ambúlur
15 stk. Mixtard 30/70 Pen 100 IE/ml pennar
33 stk. Testoviroon Depot 1 ml ambúlur
82 stk. Anervan tabl.Recip töflur
282 stk. Efedrín bleikar töflur
200 stk. Mestoranum 25 mg töflur
5 stk. Nandrolone Decanoate inj. 2 ml ambúlur
102 stk. Tamoxifen 10 mg töflur
125 stk. Mestoranum 25 mg töflur
688 stk. Efedrín hvítar töflur
9 stk. Extraboline 2 ml glös
I.
Málavextir eru þeir að þriðjudagskvöldið 21. janúar 1997 komu Kristín Linda Húnfjörð Hjartardóttir og ákærði hingað til lands með flugi til Keflavíkur. Við tollleit í farangri Kristínar Lindu fundust töflur þær sem lýst er í þessum kafla ákæru. Reyndust þær við talningu vera 32.011. Voru þær í þremur málmdósum utan af Machintosh sælgæti. Leit fór fram í farangri ákærða og fundust þar nokkur kíló af Machintosh sælgætismolum í umbúðarpoka. Þá fannst notaður kvenundirfatnaður í farangri hans. Þar sem grunur lék á því að ákærði ætti hlut að máli við innflutning taflanna, var hann handtekinn ásamt Krisínu Lindu. Sama kvöld var ákærði yfirheyrður í viðurvist verjanda síns. Skýrði hann svo frá að hann hefði farið til London laugardagsmorguninn 18. sama mánaðar ásamt kunningjakonu sinni, Kristínu Lindu. Tilgangur ferðarinnar hafi verið sá að skoða tæki, sem hann hugðist kaupa í líkamsræktarstöð sína. Hann hafi farið á líkamrsæktarstöðina Olympic Gym næsta mánudag í þessum tilgangi. Þar hafi komið til hans maður, sem hann kunni engin deili á, sem gaf sig á tal við hann. Maðurinn hafi boðið honum til sölu steralyf, sem heita Dianabol og sagði að þau ættu að auka úthald hans. Hann hafi keypt steralyfin á 350 GBP, en magn þeirra kvaðst hann ekki vita, því maðurinn hafi látið hann hafa poka með töflunum. Hann hafi komið töflunum fyrir í farangri Kristínar án hennar vitundar. Hún hafi hvorki vitað um töflurnar né að hann setti þær í sælgætisboxin.
Við meðferð málsins skýrði ákærði hins vegar svo frá að hann hann hafi farið ásamt Kristínu Lindu, ástkonu sinni, til London. Á þessu tíma hafi hann verið kvæntur. Upphaflega hafi hann sagt eiginkonu sinni að hann ætlaði utan til tækjakaupa fyrir líkamsræktarstöðina, en sú ástæða hafi verið yfirskin. Þá hafi eiginkonan viljað fá að fara með honum og því hafi hann bætt því við að hann ætlaði að kaupa hormónalyf í leiðinni og hugsanlega að hafa eitthvað upp úr því. Þetta hafi hann sagt til þess að fæla eiginkonuna frá því að koma með honum, þar sem hann ætlaði með ástkonu sinni í ferðina. Þessar ástæður hafi því báðar verið yfirskin. Kunningi hans hafi svo útvegað honum mjólkursykurtöflur og hann tekið þær með sér heim til að geta sýnt fram á trúverðuga ástæðu fyrir því að hann hafi verið einn að ferðast. Ákærði skýrði frá þætti Kristínar Lindu á sama veg og fyrr, hún hafi ekkert vitað af töflunum. Hann hafi sett töflurnar í sína tösku og síðan víxlað töskunum, þ.e. hún hafi svo borið tösku hans í gegnum tollinn þar sem hann kvaðst vita að fremur yrði leitað á honum en henni. Hann hafi svo ætlað að fleygja töflunum þegar heim kæmi og hann væri búinn að sannfæra konuna um það „að ferðin hefði verið eins og hún átti að vera”. Hann kvaðst ekki hafa viljað skýra lögreglunni frá því að um mjólkursykurtöflur væri að ræða þar sem hann hafi verið hræddur um að það kæmist „beint í blöðin og þá væri mín saga fyrir konuna ónýt”.
Kristín Linda sagði við yfirheyrslu lögreglu að kvöldi 21. janúar 1997 að þau ákærði hafi verið í ástarsambandi, en því hafi verið lokið um tveimur vikum áður en þau fóru utan. Áður en sambandi þeirra lauk hafi ákærði verið búinn að nefna það að bjóða henni með sér til útlanda. Hann hafi svo látið hana hafa peninga fyrir ferðinni sem hún greiddi. Þau hafi farið með sömu vél utan en að ósk ákærða hafi þau ekki fylgst að. Þau hafi gist þrjár nætur í London og henni hafi ekki verið um það kunnugt að hann keypti þar einhverjar töflur. Á heimleiðinni hafi ákærði beðið hana að taka hans tösku í gegnum tollinn og hann hafi tekið hennar tösku og hún hans. Hún hafi ekki spurt hann ástæðu þessa og ekki vitað um innihald tösku hans. Hún hafi fyrst vitað um töflurnar við leitina í tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Við meðferð málsins bar vitnið á sama veg að öðru leyti en því að hún kvaðst sjálf hafa borið töskuna sína í gegnum tollinn og sterarnir hafi fundist í henni. Er henni var kynntur framburður sinn við rannsókn málsins kvaðst hún hafa sagt satt, hún myndi þetta ekki, en kvaðst muna eftir því að hafa pakkað sínu dóti ofan í tvær töskur, ferðatösku og handtösku.
Þann 24. janúar 1997 sendi rannsóknarlögregla sýnishorn taflanna til Rannsóknastofu í lyfjafræði til efnagreiningar. Samkvæmt niðurstöðu þeirrar rannsóknar fundust engin þekkt ávana- eða fíkniefni eða lyf, þar á meðal sterar, í töflunum.
Eins og lýst er að framan hefur ákærði viðurkennt að hann hafi sett umræddar töflur í farangur vinkonu sinnar án hennar vitundar. Er þessi frásögn í samræmi við framburð hennar. Við rannsókn málsins kvaðst hann hafa keypt þessar töflur sem steralyfið Dianabol af ókunnugum manni, en breytti svo þeim framburði fyrir dómi og kvaðst nú hafa vitað frá upphafi að töflurnar, sem hann hafi fengið hjá kunningja sínum, innihéldu mjólkursykur en ekki stera. Sú frásögn ákærða fyrir dómi að hann hafi sett töflurnar í farangur ástkonu sinnar og flutt þær þannig til landsins til þess eins að villa um fyrir eiginkonu sinni þykir bæði fjarstæðukennd og ótrúverðug, enda afar ólíklegt að ákærði hafi tekið þá áhættu að skýra ekki strax við fyrstu yfirheyrslu frá vitneskju sinni um það að töflurnar innihéldu mjólkursykur, ef hann hefur vitað það á þeim tíma. Þykir fyllilega sannað þegar litið er til framburðar ákærða við rannsókn málsins að hann hafi smyglað töflunum til landsins með þeim hætti sem lýst er hér að framan í þeirri trú að um væri að ræða töflur sem innihéldu karlkynshormón með anabóliska verkun. Með þessari háttsemi hefur ákærði gerst sekur um tilraunarverknað (ónothæfa tilraun), sem varðar við 1. mgr. 123. gr., sbr. 1. mgr. 124. gr., sbr. 125. gr., sbr. og 135. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 1. tl. 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. reglugerðar um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, áfengisgjald, tóbaksgjald o.fl. nr. 251/1992, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 409/1993 og 1. gr. reglugerðar nr. 476/1995, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr., lyfsölulaga nr. 30/1963, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tilgreind ákvæði lyfjalaga í ákæru eiga hér hins vegar ekki við.
II.
1. Sumarið 1997 bárust lögreglunni í Reykjavík upplýsingar um það frá ónafngreindum aðilum að ákærði stundaði dreifingu og sölu á sterum. Þann 22. júlí 1997 var gerð húsleit á heimili ákærða að Engihjalla 17, Kópavogi, og í húsakynnum líkamsræktarstöðvarinnar Kraftsports, sem hann þá rak, að Lágmúla 5 hér í borg. Fór leitin fram í kjölfar dómsúrskurðar sama dag. Ýmis lyf fundust við húsleitina í læstum skáp á skrifstofu svo og í læstum skáp við búningsaðstöðu, þar á meðal töflur merktar Anabol tablets, 591 stykki. Var hald lagt á töflurnar og þau lyf sem getið er í a-lið III. kafla ákæru. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 29. sama mánaðar sagði ákærði, eftir að hafa ráðfært sig við verjanda sinn, að hann ætti mestöll lyfin sem fundust við húsleitina. Hann kvaðst aldrei hafa fengið mikið magn af vaxtaaukandi lyfjum hjá sama aðila, en þau hafi hann fengið hjá mörgum aðilum, sem hann vildi ekki nafngreina. Anabol töflurnar væru Thailenskur boli, Dianaboli, sem hefði þá virkni að vera vöðvaaukandi og vöðvastyrkjandi lyf. Hann hafi fengið töflurnar hjá ónafngreindum manni. Ákærði sagði að lyfin hafi safnast til hans á löngum tíma, hann hefði meðal annars fengið þau að gjöf frá vinum og kunningjum.
Í skýrslu 12. mars sl. var ákærði enn yfirheyrður um lyf þau, sem fundust við framangreinda húsleit. Hann kvaðst hafa fengið þau lyf sem væru lyfseðilskyld í apóteki og vísaði í fyrri framburð sinn. Jafnframt kvað hann lyfin öll ætluð til eigin nota. Fyrir dómi sagði ákærði um töflurnar í 1. lið þessa kafla ákæru að þetta hefði líklega verið skilið eftir á starfsstöð hans eða einhver kunningi laumað þessu til sín einhvern tímann. Hann kvaðst ekki hafa vitað að þetta væri ólöglega innflutt, enda væri unnt að koma með þessar töflur í litlu magni löglega til landsins. Aðspurður um það hvort hann hafi vitað af þessum töflum á starfsstöð sinni sagði ákærði ekki „endilega” hafa vitað af þessum töflum, ef menn skildu svona töflur eftir á stöðinni hefðu þær verið teknar til hliðar. Hann sagði að þessar töflur fengjust ekki undir þessu vörumerki hjá lækni hérlendis, en svipaðar töflur hafi verið hægt að fá hérna hjá lækni.
Í bréfi Rannsóknastofu í lyfjafræði 7. október 1997, undirrituðu af Þorkeli Jóhannessyni prófessor, kemur fram að Anabol er ekki skráð til nota hér á landi. Þar kemur einnig fram að venjulegur skammtur af anabóliskum sterum til inntöku sé oft á bilinu 10-50 mg daglega ef þeir eru notaðir til lækninga. Ekki kemur fram í gögnum málsins hve mörg mg eru í hverri töflu.
2. Lögregla fann þær 3.000 töflur sem getið er í 2. lið II. kafla ákæru í hanskahólfi bifreiðarinnar MG-138, í kjölfar þess að lögregla hafði afskipti af ákærða 26. apríl sl., sbr. III. kafla ákæru. Töflurnar voru í þremur hvítum lyfjaboxum merktar Anabol tablets 1000. Í framhaldi þess yfirheyrði lögregla ákærða um töflur þessar. Kvað hann þetta vera steratöflur sem hann ætti sjáflur og væru þær til eigin neyslu. Hann kvaðst hvorki muna hvar hann hefði fengið þær né hvort hann hefði greitt fyrir þær. Við meðferð málsins kvaðst hann ekki muna hvar hann fékk þessar töflur. Skýring ákærða á breyttum framburði kvað hann vera þá að þetta væri sú gerð taflna sem hann hafi notað. Hann kvaðst hvorki hafa flutt töflurnar inn né fengið þær hjá lækni hérlendis.
Fram kemur í bréfi Lyfjaeftirlits ríkisins 18. október sl. að svo virðist sem ekki sé fyrir hendi markaðsleyfi fyrir lyfið hér á landi.
Töflur þær sem hér um ræðir eru ekki á lyfjaskrá hérlendis. Samkvæmt reglugerð nr. 409/1993 um breyting á reglugerð nr. 251/1992, um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, einkasölugjald o.fl., er óheimilt að flytja inn karlkynshormónalyf af flokki anabólískra stera umfram það magn sem farmaður eða ferðamaður þarf að nota til mest 30 daga, enda geta tollverðir krafist þess að viðkomandi færi fullnægjandi sönnur á að honum sé nauðsyn á töku lyfjanna í því magni sem tilgreint er. Í máli þessu liggur ekki fyrir hver eðlileg mánaðarnotkun slíkra hormónalyfja er, en þó má ljóst vera að það magn er langt undir fjölda þeirra taflna sem um getur í II. kafla ákæru. Ákærði hefur haldið því fram að þessar töflur hafi hann fengið til eigin nota hjá ýmsum aðilum, vinum og kunningjum, meðal annars að gjöf. Er ákærða gert að sök að hafa móttekið ofangreindar töflur, sem innihalda karlkynshormónalyf með anabólískri verkun, sem hann vissi eða mátti vita að hefðu verið fluttar inn ólöglega. Framburður ákærða um það hvernig töflurnar komust í vörslur hans hefur verið óstaðfastur og ósamhljóða og skýring hans á breyttum framburði er ekki trúverðug. Hafi ákærði fengið töflurnar í 1.lið að einhverju eða öllu leyti frá aðila eða aðilum, sem fluttu þær hingað til lands, var sá innflutningur ólöglegur þar sem hann er bundinn við neyslu þess einstaklings sem flytur lyfin inn, sbr. ofangreint ákvæði reglugerðar nr. 409/1993. Töflurnar sem lýst er í 2. lið voru hins vegar í þremur 1000 stykkja kössum merktum heiti sterataflanna og verður með hliðsjón af því og fjölda taflanna að telja fráleitt að ákærði hafi fengið þær frá hinum og þessum aðilum, sem flutt hafi töflurnar inn með lögmætum hætti. Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi á þessum tíma neytt stera og þegar litið er til þess og starfsemi hans verður að telja að hann hafi átt að hafa þá þekkingu á steralyfjum að honum hafi átt að vera það ljóst að þessar töflur hafi verið fluttar inn til landsins með ólöglegum hætti. Er því samkvæmt framansögðu talið sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í 1. og 2. lið. Telst sú háttsemi hans varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 124. gr. og 135. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 1. tl. 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. reglugerðar nr. 251/1992, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 409/1993 og 1. gr. reglugerðar nr. 476/1995, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr., lyfsölulaga nr. 30/1963.
III.
Um miðjan dag sunnudaginn 26. apríl sl. veittu lögreglumenn úr Reykjavík athygli bifreiðinni MG-138. Í frumskýrslu Aðalsteins Aðalsteinssonar lögreglumanns, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, segir að bílnum hafi verið ekið austur Breiðholtsbraut við Suðurlandsveg. Þeir, lögreglumennirnir, hafi þekkt bifreiðina og ökumanninn, en hann hafi verið sviptur ökurétti til bráðabirgða 31. mars sl. Ákærði hafi beygt á gatnamótum Breiðholtsbrautar/Suðurlandsvegar til vinstri norður Suðurlandsveg. Þeir hafi strax snúið við og sett á blikkandi blá ljós og hljóðmerki. Ökumaðurinn hafi ekki sinnt stöðvunarmerkjum en aukið hraðann verulega. Var kallað eftir aðstoð annarrar lögreglubifreiðar til að stöðva aksturinn. Í skýrslunni segir að lögreglubílnum hafi verið ekið á eftir bíl ákærða norður Suðurlandsveg og hafi þá mælirinn sýnt 160 km/klst. og þegar hraðast var ekið hafi heldur dregið í sundur milli bílanna. Mikil umferð hafi verið í báðar áttir og mikil hætta skapast fyrir aðra vegfarendur vegna aksturs ákærða. Á gatnamótum Suðurlandsvegar/ Vesturlandsvegar hafi ökumaðurinn beygt til hægri austur Vesturlandsveg. Þar hafi hann lent í mikilli umferð og vegna umferðar á móti hafi hann ekki getað tekið fram úr öðrum bílum. Hann hafi stöðvað aksturinn við Laxalón. Fram kemur í skýrslunni að ákærði hafi sagst hafa ekið á 70-80 km hraða.
Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi ekið bifreiðinni ofangreint sinn þá leið er í ákæru getur sviptur ökurétti til bráðabirgða. Hann hefur hins vegar bæði við rannsókn málsins og meðferð þess neitað því að hafa ekið á svo miklum hraða sem í ákæru greinir og að hafa ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu. Í yfirheyrslu lögreglu að kvöldi sama dags kvaðst hann ekki vita hve hratt hann ók, hann hafi fylgt hraða þeirrar bifreiðar sem ók á undan honum. Fyrir dómi kvaðst hann hafa fylgt umferðarhraða þessa leið, en þarna hafi verið töluvert mikil umferð. Taldi hann „gjörsamlega út í hött” að hann hefði ekið á þeim hraða sem hann er sakaður um. Hann hafi stöðvað bifreið sína um leið og hann varð var við stöðvunarmerki lögreglunannar á Vesturlandsvegi.
Vitnið Aðalsteinn Aðalsteinsson lögreglumaður, kvaðst hafa verið ökumaður lögreglubifreiðarinnar. Þeir hafi verið tveir saman í bílnum. Hann skýrði svo frá að þeir hafi mætt bifreið ákærða, sem hann kvaðst þekkja í sjón, þar sem bílnum var ekið austur Breiðholtsbraut við Suðurlandsveg, síðan hafi honum verið beygt til vinstri, norður Suðurlandsveg. Á þessum gatnamótum hafi þeir borið kennsl á ákærða og bifreiðina þar sem ákærði hefði stuttu áður verið sviptur ökurétti fyrir hraðakstur. Þeir hafi veitt bifreiðinni eftirför á Suðurlandsvegi til norðurs og mælt hraða hans á vegarkafla frá gatnamótum Suðurlandsvegar við Árbæ/Selás að Vesturlandsvegi. Hraði bifreiðar ákærða hafi verið gríðarlegur og dregið í sundur með bifreiðunum, en hann hafi á þessari leið litið á hraðamæli lögreglubílsins og séð að hann fór upp í 160 km hraða. Á þessum tíma hafi verið mikil umferð, bílar komið á móti, en ákærði samt ekið fram úr bílum. Háttsemi hans hafi því skapað mikla hættu fyrir aðra vegfarendur. Þeir hafi veitt bílnum eftirför að Vesturlandsvegi, en þá hafi bílnum verið beygt til hægri. Ákærði hafi þar verið með talsvert forskot á þá vegna hraðaksturs síns og dregið hafi í sundur með bifreiðunum. Þegar að Vesturlandsvegi kom hafi gríðarleg umferð bifreiða verið í báðar áttir og hafi ákærði séð að sér og beygt út af Vesturlandsvegi við Laxalón og stöðvað bílinn. Vitnið sagði að ekki hafi farið milli mála að ákærði hafi gert sér ljóst að lögregla veitti honum eftirför, enda hafi þeir haft uppi hljóð og ljósmerki.
Vitnið sagði að hraði annarra bíla, sem óku í sömu átt og ákærði hafi verið í kringum leyfðan hámarkshraða, en bílar sem óku á móti hafi farið út í kant og hægt verulega á sér.
Vitnið Kristján Örn Kristjánsson lögreglunemi, kvaðst hafa verið farþegi í lögreglubílnum greint sinn. Þeir hafi verið að koma úr eftirlitsferð á Suðurlandsvegi og ekið í norður. Við gatnamót Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar hafi þeir veitt bifreiðinni athygli þar sem henni var ekið austur Breiðholtsbraut að gatnamótum Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar. Þeir hafi þá beygt til vinstri inn á Breiðholtsbrautina og veitt bifreiðinni eftirför, þar sem hann hafi borið kennsl á ökumanninn, en vitnið kvaðst áður hafa haft afskipti af honum vegna hraðaksturs, sem leiddi til þess að hann var sviptur ökuréttindum. Þeir hafi strax sett upp hljóð- og ljósmerki með það fyrir augum að stöðva ökumann bifreiðarinnar. Þeir hafi strax orðið þess varir að ökumaðurinn varð þeirra var því hann hafi fylgst með þeim og aukið hraðann og þeir hafi einnig aukið hraðann, en dregið hafi í sundur með bifreiðunum. Talsverð umferð hafi verið í báðar áttir, bæði ökutækja sem skildi þá að í sömu akstursstefnu og ökutækja sem komu á móti. Við eftirförina hafi þeir tekið fram úr nokkrum bifreiðum, en ákærði hafi smeygt bifreið sinni á milli ökutækja og valdið stórhættu. Vitnið kvaðst hafa fylgst með bifreiðinni á leiðinni og jafnframt óskað eftir aðstoð um fjarskipti lögreglu til að stöðva ökutækið. Þegar þeir voru að nálgast brúna yfir Suðurlandsveg skammt norðan við Rauðavatn hafi Aðalsteinn sagt „djöfulsins ferð er á honum” og þeim verið litið á hraðamælinn, sem þá sýndi 150-160 km hraða. Hann hafi litið snöggt á mælinn og aftur fram til þess að missa ekki sjónar af ökutækinu og því ekki séð hraðann nákvæmlega. Þrátt fyrir mikinn hraða hafi þeir ekki getað fylgt bílnum eftir og ekki séð almennilega til ferða hans fyrr en þeir sáu honum ekið á talsvert mikilli ferð inn á Vesturlandsveg til austurs. Talsverð umferð hafi verið þar í báðar áttir, en þeim til léttis hafi ákærði ekið inn að Laxalóni og stöðvað bifreiðina þar. Þeir hafi síðan stöðvað lögreglubifreiðina fyrir aftan bifreið ákærða og haft af honum tal.
Vitnið sagði að öðrum bifreiðum hafi verið ekið á 70-80 km hraða á Suðurlandsvegi og margir bílar hafi ekið þar í gagnstæða átt og því hafi skapast stórhætta af akstri ákærða, bílar hafi vikið út í kant þegar þeir sáu bíl ákærða koma á móti í framúrakstri þar sem þröngt var um vik.
Í málinu liggur frammi skýrsla Ingibjargar Ásgeirsdóttur lögreglukonu, sem hún hefur staðfest fyri dómi, en að beiðni tæknideildar lögreglu kannaði hún 29. apríl sl. ásamt fleiri lögreglumönnum hvort hraðamælir ofangreindrar lögreglubifreiðar væri réttur. Var það gert með því að bifreiðinni var ekið þrívegis með mismunandi hraða og hann um leið mældur með radarmæli. Tveir lögreglumenn voru í bifreiðinni og horfðu á hraðamælinn. Er bifreiðinni var ekið samkvæmt hraðamæli á 162-163 km hraða sýndi radarmælirinn 152 km hraða og við heldur minni hraða í tvígang var mismunurinn einnig um 10 km á klst.
Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti á hve löngum vegarkafla hraðamælingin fór fram. Allt að einu er ljóst með framburði vitnanna Aðalsteins Aðalsteinssonar og Kristjáns Arnar Kristjánssonar að hraði bifreiðar ákærða var mældur á vegarkafla á Suðurlandsvegi a.m.k. frá gatnamótum þeirrar götu á móts við Árbæjar- og Seláshverfi að gatnamótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Hafa bæði vitnin borið að á þessari leið hafi þeir litið á hraðamæli lögreglubílsins og hann þá sýnt um 150-160 km/klst., ákærði hafi aukið hraðann við eftirförina þrátt fyrir ljós- og hljóðmerki á lögreglubílnum og jafnframt ekið framúr bifreiðum, þrátt fyrir talsverða umferð í báðar áttir akvegarins. Fram er komið við könnun á hraðamæli lögreglubifreiðarinnar að hann sýndi um 10 km yfir réttan hraða samkvæmt mælingu radars og ljóst er að umrædd hraðamæling á Suðurlandsvegi var eðli sínu samkvæmt ónákvæmt. Verður því ekki með vissu slegið föstu að hraði ákærða hafi náð 160 km hraða greinda leið. Hins vegar þykir fyllilega í ljós leitt með vætti framangreindra tveggja vitna að ákærði ók miklu hraðar en hann hefur játað og langt yfir lögleyfðum hraða og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu á þessari leið, en það var fyrst við Laxalón á Vesturlandsvegi sem hann vék af leið og stöðvaði bifreið sína. Var akstur hans stórháskalegur og eru brot hans réttilega heimfærð til lagaákvæða í ákæru.
Viðurlög:
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til magns þeirra lyfja og efna, sem brot hans beindust að, eiginleika þeirra, sbr. t.d. hæstaréttardóm í málinu nr. 372/1995 og málinu nr. 150/1996, svo og þess að heimilt er að flytja inn, þó í mjög takmörkuðum mæli sé, karlkynshormóna með anabólískri verkun, sbr. síðarnefndan hæstaréttardóm.
Þá ber og að líta til þess við ákvörðun refsingar hans, vegna brota þeirra sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í I. og II. kafla ákæru, að ákærði hefur ekki fyrr sætt refsingu sem hér skiptir máli. Einnig verður refsing hans ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og 78. gr. sömu laga að því er varðar umferðarlagabrot hans, en þau eru framin áður en hann gekkst undir sátt 7. maí 1998 vegna hraðaksturs, með greiðslu 32.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í 3 mánuði frá 31. mars 1998. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá er ákærði dæmdur til að greiða 80.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 18 daga. Þar sem framangreindur akstur ákærða var mjög vítaverður verður hann jafnframt sviptur ökurétti samkvæmt lagaákvæðum þeim sem vísað er til í ákæru og þykir hæfilegt að svipta hann ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dómsins.
Kröfur um upptöku:
Með vísan til 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, sbr. lög 55/1995, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 136. gr. tollalaga nr. 55/1987 ber að gera upptækar þær 3.591 töflu, sem lýst er í 1. og 2. lið II. kafla ákæru, enda er ljóst að ekki er fyrir hendi markaðsleyfi fyrir þessi lyf hér á landi, þau eru ekki framleidd hérlendis og sýnt þykir, svo sem að framan greinir, að þau hafa ekki verið flutt inn hingað til lands með löglegum hætti.
Af hálfu ákærða hefur kröfu um upptöku í niðurlagi ákæru, a og b lið, verið mótmælt, en lyf þessi fundust í starfsstöð ákærða, bifreið hans og heimili, svo sem lýst er í þessum liðum ákæru. Svo sem þar kemur fram er því haldið fram af hálfu ákæruvalds að þessi lyf hafi verið flutt ólöglega til landsins eða ólöglega seld hérlendis og er vísað um upptökukröfuna til ákvæða 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga, sbr. lög 55/1995, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga og 1. mgr. 136. gr. tollalaga.
Lyf þau sem talin eru upp í a lið fundust við húsleitina á starfsstöð ákæða 28. júlí 1997. Ákærði sagði við rannsókn málsins að þetta hafi hann átt og ætlað til eigin nota. Hann hefði fengið Testoviran depot ambúlurnar, karlhormónalyf, fyrir löngu, en mundi ekki hvar. Við meðferð málsins sagðist hann hafa fengið lyfið hjá lækni. Primobolan, vefjaaukandi lyf, og HGG-Lepori ambúlurnar, kvenhórmónalyf, hafi hann fengið hjá ónafngreindum aðila, fyrir dómi sagðist hann hafa fengið það fyrrnefnda hjá lækni. Voltaréne rapide, verkja-og gigtarlyf, kvaðst hann hafa fengið hjá lækni vegna verkja og liðagigtar í öxl, það sama sagði hann fyrir dómi. Parzan, verkjalyf, kvaðst hann hafa keypt í apóteki, fyrir dómi kvaðst hann hafa fengið lyfið hjá lækni. Mixtard, insúlín (hormón), sagðist hann hafa geymt fyrir kunningja sinn sem væri sykursjúkur, fyrir dómi sagðist hann sjálfur vera sykursjúkur. Ephedrine HCL töflurnar, örvandi lyf og megrunarlyf, hafi kunningi sinn gefið sér, fyrir dómi kvaðst hann hafa fengið þetta hjá lækni. Ganabol glösin, vöðvabyggjandi lyf, hafi hann fengið hjá ónafngreindum kunningja, fyrir dómi mundi hann ekki eftir þessu lyfi. Mestonranum töflurnar, karlhormónalyf, hafi hann fengið hjá ónafngreindum lækni til sæðisaukningar, fyrir dómi kvað hann föður sinn hafa fengið lyfið, hann geymdi stundum lyf hans. Nolvadex, kvenhormónalyf, hafi hann fengið hjá ónafngreindum aðila, fyrir dómi kvaðst hann hafa fengið töflurnar á Spáni og flutt þær löglega inn, en ekki framvísað þeim. Syntex og Naproxen-töflurnar væru hveititöflur, fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir fyrrgreinda lyfinu, en það síðarnefnda væru verkjastillandi töflur, sem hann hafi fengið hjá lækni. Omnaden ambúlur og Winstrol Depot hafi hann fengið hjá ónafngreindum aðila, fyrir dómi kvaðst hann hafa fengið fyrrgreind lyf hjá lækni en það síðarnefnda á Spáni. Naprosyn gelið og Voltraen Emulgel Geigy hafi hann keypt erlendis í apókeki. Ákærði heldur því fram að Disetronic plaststaukarnir séu nálar.
Fram kemur í framangreindu bréfi Þorkels Jóhannessonar að lyfin Testoviran depot, Primobolan depot, Ganabol, Omnaden og Winstrol depot eru ekki á lyfjaskrá hér á landi. Þá kemur þar fram að fjöldi framangreindra lyfja sé langt um of til þess að verið geti til lækninga, venjulegur skammtur af bolsterum til inntöku til lækninga sé oft á bilinu 10-50 mg daglega. Til innstungu komi til greina að nota slík lyf í olíulausn og séu þau þá gefin í 2-4 vikna fresti.
Í bréfi Lyfjeftirlits ríkisins 19. febrúar 1998 kemur fram að öll efnin sem talin eru upp í a-lið ákæru séu lyf svo og að eftirtalin lyfjanna séu eða hafi verið á lyfjaskrá og haft markaðsleyfi hér á landi: Parzan, sem sé lyfseðilsskylt, Mixtard, sem er lyfseðilsskylt, sé lyf notað við sykursýki, Ephedrine HCL hafi verið notað hérlendis samkvæmt sérstakri undanþágu, Naproxen, sem er lyfseðilskylt, sé gigtarlyf og notað við tíðarverkjum. Einnig kemur fram í bréfinu að HGG-Lepori ambúlurnar séu sterar, en allir sterar eru lyfseðilsskyldir. Af bréfinu má sjá að það lyf og lyfin Primobolan depot, Ganabol, Omnaden og Winstrol depot eru ekki á lyfjaskrá, sbr. og bréf Þorkels Jóhannessonar hér að framan. Þá segir þar að miðað við gögn þau, sem lyfjaeftirlitið hafi skoðað, sé lyfjanna aflað og þau flutt inn með ólögmætum hætti. Ekki kemur fram í bréfinu hvaða gögn hafi verið skoðuð í því efni.
Lyf þau sem talin eru upp í b-lið ákæru fundust við leitina í bifreið ákærða og á heimili hans 26. apríl sl. Ákærði sagði við rannsókn málsins að adrenalínið ætti faðir hans, en kassi með 10 ambúlum er merktur honum með lyfjamiða og á umbúðunum sést að lyfið er gefið út af lækni. Hinn kassinn með 2 ambúlum er með lyfjamiða, sem búið er að afmá nafnið af. Lyfið er gefið út af lækni. Mixtard (insúlín) pennana kvaðst hann hafa fengið hjá lækni til eigin neyslu vegna sykursýki. Lyfið er í þremur ómerktum kössum, en við húsleitina fundust einnig sams konar pennar, gefnir út af lækni á nafn ákærða. Kvaðst ákærði hafa fengið þessa fimm Mixtard penna hjá sama lækni og gaf út merktu pennana. Testoviron depot og Nandrolone ambúlurnar kvað hann hvort tveggja stera til eigin neyslu, en hann kvaðst ekki muna hvar hann fékk þær. Anervan töflurnar væru trúlega eign fyrrum unnustu hans. Mestoranum töflurnar, samtals 425 (sjá hér bæði a og b lið) væru allar til eigin neyslu og fengnar hjá lækni. Tveir 100 stykkja kassar af lyfinu eru gefnir út af lækni og merktir föður ákærða, en hinir eru ómerktir. Ákærði kvað það á misskilningi byggt að læknirinn hafi gefið 200 stk. út á föður sinn, lyfin hafi átt að vera á nafni ákærða. Hann kannaðist ekki við Tamoxifen töflurnar, en rámaði í að hafa keypt þær á Spáni. Ákærði kvað 282 bleikar efedríntöflur vera steralyf, sem hann mundi ekki hvar hann fékk, og 688 hvítar efedríntöflur, allar pakkaðar í litla plastpoka, vera astmalyf, sem hann neytti vegna astma. Hann sagði að Extraboline lyfið væri til eigin neyslu, en mundi ekki hvar hann fékk lyfið.
Fyrir dómi kvaðst hann hafa fengið adrenalín, Testoviron depot og efedrín, bleikar töflur, hjá lækni, Mixtard, insúlínlyfið hafi hann eða faðir hans fengið hjá lækni við sykursýki. Anervan, Nandrolone decanoate, stungulyf, og Extraboline, stungulyf, kannaðist hann ekki við. Mestoranum hafi hann eða faðir hans fengið hjá lækni. Tamoxifen hafi hann keypt á Spáni án lyfseðis og efedrín, hvítar töflur, hafi hann keypt erlendis eða fengið hjá lækni hérlendis.
Fram kemur í bréfi Lyfjaeftirlits ríkisins 18. október 1998 að öll lyfin í b lið hafi markaðsleyfi á Íslandi og þau séu lyfseðilsskyld, nema stungulyfin Nandrolone Decanoate og Extraboline, en þau tvö hafa ekki markaðsleyfi hérlendis og eru ekki á lyfjaskrá.
Varsla ákærða á lyfjum þeim sem krafist er upptöku á er ekki refsiverð samkvæmt tollalögum, lyfsölulögum, lyfjalögum né öðrum lögum, hann er ekki ákærður fyrir slíka vörslu og hann hefur ekki verið ákærður fyrir að hafa móttekið þau með ólögmætum hætti, sbr. 2. mgr. 124. gr. tollalaga.
Í 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga, sbr. lög nr. 55/1995 segir: „Lyf og lyfjaefni, sem eru framleidd, flutt inn eða seld ólöglega hér á landi skulu gerð upptæk ” Um upptöku lyfja er einnig fjallað í 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga: „Lyf og lyfjaefni, sem inn eru flutt ólöglega eða seld eru ólöglega innanlands, má gera upptæk með dómi ” Þá er heimilt samkvæmt 1. mgr. 136. gr. tollalaga að gera upptæka vöru, sem hefur verið flutt eða reynt að flytja ólöglega inn eða á annan hátt farið með andstætt lögunum. Framangreind upptökuákvæði eru meðal annars reist á því, að lyf hafi verið flutt inn eða seld með ólöglegum hætti.
Ákæruvaldið byggir kröfu sína um upptöku lyfjanna á því, að þau hafi verið ólöglega flutt inn eða ólöglega seld hérlendis, eins og getið er hér að framan. Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 409/1993 er farmanni eða ferðamanni heimilt að flytja inn lyf til eigin nota í magni sem miðast við mest 100 daga notkun. Þó er ekki heimilt að flytja inn, eins og að fram hefur verið rakið, karlkynshormónalyf af flokki anabóliskra stera og hliðstæðra efna eða petíð hormón og hliðstæð efni umfram það magn sem farmaður eða ferðamaður þarf mest að nota til 30 daga. Samkvæmt þessu er það skilyrði þessa undanþáguákvæðis að lyfin séu til eigin nota en ekki annarra. Ljóst er að lyf þau sem ekki hafa markaðsleyfi, sem fjallað hefur verið um hér að framan, hafa verið flutt inn í landið, en ekki er fram komið í málinu hver eða hverjir hafa að því staðið og með hverjum hætti sá innflutningur hefur verið. Ákærði hefur neitað því að hann hafi keypt lyfin nema í þeim tilvikum, er hann kveðst hafa fengið þau hjá lækni og ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á að lyf sem ekki bera það með sér að læknir hafi ávísað þeim hafi verið seld hér á landi.
Eins og rakið hefur verið hefur ákærði í meginatriðum verið óstaðfastur í framburði sínum um það með hverjum hætti hann fékk lyfin í a-lið í sínar hendur. Hann hefur sagt fyrir dómi að hann hafi fengið eftirtalin lyf hjá lækni hérlendis: Primobolan depot, Voltaréne rapide, Omnaden, Parzan, Testoviron depot, Mixtard, Ephedrine HCL og Naproxen. Ekkert þessara lyfja, sem öll eru lyfseðilskyld, voru merkt ákærða og þrjú fyrstnefndu lyfin hafa ekki haft markaðsleyfi hér á landi þannig að framburður hans um þessi lyf stenst ekki. Þegar litið er til þessa og hvarflandi framburðar ákærða verður að hafna þeirri fullyrðingu hans að hann hafi fengið þessi lyf hjá lækni eða læknum.
Fram er komið að lyfin Testoviron depot, Parzan og Naproxen hafa eða hafa haft markaðsleyfi hér á landi, en öll eru þau lyfseðilskyld, og lyfið Ephedrine HCL hefur verið notað hér á landi samkvæmt sérstakri undanþágu. Ekkert er fram komið um það að lyf þessi hafi verið seld ólöglega hérlendis og ekki er hægt að útiloka að ákærði hafi fengið lyfin án endurgjalds eftir að þau hafi verið löglega flutt til landsins, þó ekki með margnefndri undanþáguheimild, sem lýtur að lyfjum til eign nota. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til upptöku þessara lyfja og ber því að hafna kröfu um það. Lyfin Primobolan depot, HGG-Lepori, Voltaréne rapide, Ganabol, Omnaden og Winstrol depot eru öll lyfseðilskyld og bera ekki með sér að þau hafi verið gefin út af lækni, enda eru þau ekki á lyfjaskrá og hafa ekki markaðsleyfi hérlendis. Ákærði hefur ekki haldið því fram að hann hafi sjálfur flutt þessi lyf inn með löglegum hætti. Er samkvæmt framansögðu ljóst að lyfin hafa verið flutt ólöglega til landsins. Ber því að gera lyfin upptæk svo sem krafist er í ákæru og samkvæmt þeim upptökuákvæðum sem þar er getið. Fjallað verður um lyfin Mestoranum og Mixtard, sem bæði er að finna í a og b lið undir b lið hér síðar. Ekki verður séð af gögnum málsins hvort lyfin Nolvadex, Syntex, Disetronic, Naprosyn gel og Voltaren Emulgen séu lyfseðilsskyld lyf. Er upptöku þessara lyfja hafnað þegar af þeirri ástæðu.
Ákærði hefur einnig verið hvarflandi í framburði sínum um flest lyfin í b lið. Fram er komið að adrenalínið var að mestum hluta merkt föður hans og gefið út af lækni (10 af 12 ambúlum). Þegar þetta er virt ber að hafna kröfu um upptöku á adrenalíninu. Þá hefur ákærði haldið því fram að Mixtard pennana í a og b lið hafi hann fengið hjá sama lækni og aðra penna sömu gerðar sem fundust við húsleit og merktir voru ákærða. Þótt Mixtardpennar þeir sem upptöku er krafist á hafi verið ómerktir og bera ekki með sér að þeir hafi verið fengnir gegn lyfseðli þykir varhugavert að telja sannað, með hliðsjón af því að ákærði hefur fengið sams konar lyf gegn lyfseðli, að lyf þetta hafi verið flutt ólöglega til landsins. Þar sem einnig er ósannað að lyfið hafi verið ólöglega selt ber að hafna kröfunni um upptöku í a og b lið á því. Einnig er ljóst að kassar með 200 töflum af lyfinu Mestoranum, sem er lyf með insúlíni og notað gegn sykursýki, voru merktir föður ákærða og það gefið út af lækni. Þegar til þessa er horft er ekki loku fyrir það skotið að faðir ákærða hafi einnig átt 125 stk. af ómerktum sams konar töflum. Verður því ekki slegið föstu að lyfið hafi verið flutt inn ólöglega eða selt ólöglega hérlendis. Með hliðsjón af því er kröfu um upptöku samtals 425 taflna af Mestoranum hafnað. Ákærði hefur haldið því staðfastlega fram að hann hafi flutt inn Tamoxifentöflurnar, sem eru lyfseðilsskyldar, frá Spáni. Þegar litið er til þessa framburðar og framangreindrar undanþáguheimildar í reglugerð nr. 409/1993 um innflutning lyfja til eigin nota, fjölda taflanna og milligramma í hverri töflu er ekki útilokað að ákærði hafi flutt töflur þessar hingað til lands með löglegum hætti. Ber því að hafna kröfu um upptöku þeirra.
Ákærði kvaðst ekki muna hvar hann fékk steralyfin Testoviron depot og Nandrolone Decanoate og lyfin Efedrín og Extraboline. Þessi lyf eru öll lyfseðilsskyld, en bera það ekki með sér að vera gefin út af lækni, þau eru ekki merkt ákærða og hann hefur heldur ekki haldið því fram að hann hafi flutt þau með undanþáguheimild til landsins.
Lyfin Nandrolone Decanoate, sem er anabólískur steri, og Extraboline eru ekki á lyfjaskrá hérlendis og hafa því ekki markaðsleyfi hérlendis. Þau hafa samkvæmt þessu verið flutt ólöglega til landsins og verða gerð upptæk eins og krafist er í ákæru með vísan til tilvitnaðra ákvæða þar.
Lyfið Anervan er lyfseðilsskylt mígrenilyf á lyfjaskrá og steralyfið Testoviron depot er einnig á lyfjaskrá. Efedrín töflurnar eru lyfseðilsskyldar, sbr. bréf lyfjaeftirlitsins 18. október sl., en óljóst er af gögnum málsins hvort þær efedríntöflur, hvítar og bleikar, sem hér er fjallað um séu á lyfjaskrá hérlendis. Ekkert er fram komið um það að lyf þessi hafi verið seld ólöglega hérlendis og ekki er hægt að útiloka að ákærði hafi fengið lyfin án endurgjalds eftir að þau hafi verið löglega innflutt. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til upptöku þessara þriggja lyfja og ber því að hafna kröfu um upptöku þeirra.
Ákærði er loks dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 60.000 krónur, en af hálfu verjanda ákærða var ekki krafist málsvarnarlauna ef ákærði yrði sakfelldur.
Dómsorð:
Ákærði, Völundur Helgi Þorbjörnsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði 80.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 18 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.
Eftirtalin lyf, sem hald var lagt á við rannsókn málsins, skal gera upptæk:
3591 töflu, sem innihalda karlkynshormónalyf með anaboliska verkun.
96 stk. Primobolan depot 100 mg ambúlur
50 stk. HGG-Lepori 2500 ambúlur
92 stk. Voltaréne rapide 50 mg töflur
8 stk. Ganabol 50 glös
9 stk. Omnaden 250 ambúlur
18 stk. Winstrol Depot 50 mg ambúlur
5 stk. Nandrolone Decanoate inj. 2 ml ambúlur
9 stk. Extraboline 2 ml glös.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 60.000 krónur.