Hæstiréttur íslands
Mál nr. 690/2009
Lykilorð
- Skip
- Skipstjóri
- Áfengislagabrot
- Siglingalög
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2010. |
|
Nr. 690/2009. |
Ákæruvaldið (Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari) gegn X (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) |
Skip. Skipstjóri. Áfengislagabrot. Siglingalög.
Skipstjórinn X var ákærður fyrir brot gegn áfengislögum nr. 75/1998, siglingalögum nr. 34/1985 og lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með því að hafa verið undir áhrifum áfengis við stjórn skips er því var siglt til hafnar. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, segir meðal annars að ákærða og vitnum bæri saman um að ákærði hefði vikið af vakt klukkan hálf eitt eftir miðnætti umrætt sinn og 1. stýrimaður tekið við stjórn skipsins. Upplýst væri að ákærði hefði komið upp í brú skömmu áður en skipið kom til hafnar. Þá bar 1. stýrimaður að ákærði hefði sagt sér hvenær skipið kom að bryggjunni. Héraðsdómur taldi sannað að 1. stýrimaður hefði verið við stjórn skipsins þegar því var siglt til hafnar og að bryggju umrætt sinn. Vera ákærða í brúnni ein og sér ylli því ekki að hann tæki við stjórn skipsins, þrátt fyrir stöðu hans sem skipstjóra, og þyrfti því ekki að skera úr um það hvort hann hefði verið undir áhrifum áfengis eða ekki. Var ákærði sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2009 og gerir kröfu um að ákærði verði sakfelldur og dæmdur til refsingar samkvæmt ákæru.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða fyrir Hæstarétti, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 62.750 krónur og Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 20. október 2009.
I
Málið, sem dómtekið var 9. október síðastliðinn, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 28. apríl 2009 á hendur „X, kt. [...], [...], Álftanesi, fyrir brot á áfengislögum og siglingalögum með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 10. janúar 2009, sem skipstjóri á A, skipaskrárnúmer [...], 442,43 brúttórúmlesta skuttogara, er skipinu var siglt til hafnar og að bryggju í Reykjavík, verið undir áhrifum áfengis við stjórn skipsins ... og því ekki hæfur til skipstjórnar svo að skipið var óhaffært vegna ölvunar ákærða en lögreglan kom að ákærða í skipinu þegar því hafði verið lagt við Norðurgarð.
Telst þetta varða við 1. mgr. 22. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr., sbr. 3. mgr., 238. gr., sbr. 239. gr., siglingalaga nr. 34/1985, sbr. 1. gr. laga nr. 101/2006 og 3. tl. 17. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar réttar til skipstjórnar samkvæmt 1. mgr. 22. gr. áfengislaga og 238. gr. a siglingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 101/2006, og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Málavextir eru þeir að skömmu eftir miðnætti laugardaginn 10. janúar 2009 barst lögreglunni tilkynning frá Landhelgisgæslunni um að ákærði væri hugsanlega ölvaður við stjórn framangreinds skips sem þá var á leið frá Bremerhaven. Upphaflega var þyrla send til móts við skipið með lögreglumenn en hún þurfti tvisvar að hverfa frá því vegna veðurs. Þegar skipið lagðist að bryggju fóru lögreglumenn um borð og höfðu tal af ákærða. Hann kvaðst hafa verið á vakt frá klukkan 20.30 kvöldið áður og til klukkan 00.30 um nóttina, en þá hefði 1. stýrimaður tekið við og stýrt til hafnar. Að mati lögreglumanna bar ákærði merki ölvunar og var honum því tekið blóðsýni. Einnig gaf ákærði þvagsýni. Hann skýrði frá því að hann hefði drukkið eitt rauðvínsglas eftir að vakt hans lauk, en síðan drukkið meira eftir að skipið hafði lagst við bryggju. Þegar ákærða hafði verið tekið blóð til rannsóknar lauk afskiptum lögreglu af honum og við tók tollleit, en ekki er þörf á að gera grein fyrir afskiptum tollvarða af ákærða, enda varða þau ekki ákæruefnið.
Við lögreglurannsókn málsins voru teknar skýrslur af ákærða og nokkrum skipverjum. Ákærði neitaði að hafa verið undir áhrifum áfengis á umræddri siglingu. Hann kvaðst hafa staðið vakt til klukkan 00.30 um nóttina ásamt 2. stýrimanni. Þá hefði 1. stýrimaður tekið við ásamt háseta. Eftir að vaktinni lauk kvaðst ákærði hafi farið í káetu sína og drukkið þar 3 til 4 bjóra, en síðan lagst til svefns og sofið þar til 1. stýrimaður vakti hann þegar þeir voru komnir undir Engey. Hann kvaðst hafa farið upp í brú og verið þar þar til skipið hafði lagst við bryggju og búið var að binda það. Ákærði kvað 1. stýrimann hafa siglt skipinu inn í höfnina og upp að bryggju. Eftir að búið var að binda skipið kvaðst ákærði hafa drukkið meiri bjór svo og líkjör.
B, 2. stýrimaður, bar að hafa verið á vakt með ákærða á siglingunni heim. Þeir hafi verið á vakt frá klukkan 20.30 kvöldið áður og til klukkan 00.30 um nóttina þegar 1. stýrimaður og háseti hefðu tekið við. B kvað ákærða hafa siglt skipinu inn á höfnina. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða drekka áfengi, hvorki meðan á vakt þeirra stóð, né eftir hana. Þá kvaðst hann heldur ekki hafa séð að ákærði væri ölvaður.
C, 1. stýrimaður og bróðir ákærða, bar að hafa tekið við vaktinni af þeim ákærða og B klukkan 00.30 um nóttina. Með honum á vakt hefði verið D háseti. Ákærði hefði farið úr brúnni þegar vakt hans lauk og ekki komið þangað fyrr en skipið var komið að Engey, en þá kvaðst C hafa vakið hann. C kvaðst sjálfur hafa lagt skipinu að bryggju, en undir leiðsögn ákærða sem hefði fylgst með að allt færi rétt fram. C kvaðst ekki hafa merkt að ákærði væri undir áhrifum áfengis, en hann hefði byrjað að neyta áfengis um hálftíma eftir að skipið lagðist að bryggju.
D háseti bar að hafa staðið vakt með C eins og rakið var. Hann kvaðst hafa farið úr brúnni rétt áður en skipið lagði að og hefði þá ákærði verið búinn að taka við stjórninni og hefði hann lagt skipinu að bryggju. D kvaðst ekki hafa séð að ákærði væri undir áhrifum áfengis.
Blóðsýnið, sem tekið var úr ákærða, var rannsakað og reyndist vera í því 2,15 alkóhól. Í þvaginu var 2,70 alkóhóls.
Leitað var álits rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði á því hvort upplýsingar ákærða um áfengisneyslu sína stæðust miðað við það sem greindist í blóði hans og þvagi. Í niðurstöðum rannsóknastofunnar kemur fram að ákærði hlyti að hafa drukkið mun meira áfengi fyrr um nóttin heldur en hann bar um við lögregluyfirheyrslu.
III
Við aðalmeðferð neitaði ákærði að hafa verið undir áhrifum áfengis við stjórn skipsins. Hann hefði verið skipstjóri á skipinu alla siglinguna og við stjórn skipsins til klukkan 00.30 um nóttina, en þá hefði 1. stýrimaður tekið við og stýrt því að bryggju. Hann kvaðst hafa verið ræstur skömmu áður en skipið lagðist að og hafa komið upp í brú þegar það var í innsiglingunni. Þegar búið var að binda skipið kvaðst hann hafa farið í káetu sína. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi eftir að vakt hans lauk en ekki kvaðst hann muna hversu mikið það var. Hann kvaðst hafa fundið til áhrifa þess og ekki rengja niðurstöðu alkóhólrannsóknar.
B, 2. stýrimaður, bar að hafa verið á vakt með ákærða til klukkan 00.30 um nóttina. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis þegar skipinu var siglt til hafnar og lagt við bryggju. B kvaðst telja að C hefði siglt skipinu til hafnar en bæði hann og ákærði hefðu verið í brúnni, sjálfur kvaðst hann hafa verið úti á dekki. Hann tók þó fram að hann hefði ekki komið upp í brú eftir að vakt hans lauk. Borið var undir B það sem hann hafði borið hjá lögreglu, um að ákærði hefði siglt skipinu og kvaðst hann hafa haldið það, en ekki vitað það þar eð hann hefði verið úti á dekki. B kvaðst ekkert geta borið um áfengisneyslu ákærða á siglingunni heim eða eftir að vakt hans lauk.
C, 1. stýrimaður og bróðir ákærða, bar að hafa tekið við stjórn skipsins af ákærða og 2. stýrimanni klukkan 00.30 um nóttina. Hann kvaðst hafa siglt skipinu til hafnar en ákærði hefði verið með sér í brúnni þegar lagt var að. C kvaðst hafa tekið við vaktinni klukkan 00.30 um nóttina og hefði D háseti verið með sér. Ákærði hefði farið í káetu sína þegar vakt hans lauk og kvaðst C hafa vakið hann er þeir voru við Engey og hann komið upp í brú og verið þar til skipið hefði lagst við bryggju. Nánar spurður um hlutverk ákærða í brúnni sagði C hann hafa sagt sér hvenær hann hefði verið að koma að bryggjunni en sjálfur hefði hann stjórnað skipinu algerlega. C kvaðst ekki hafa getað séð að ákærði væri undir áhrifum áfengis.
D háseti bar að hafa staðið vaktina með C, en ákærði hefði einstaka sinnum komið upp. D kvað C hafa siglt skipinu inn á höfnina og lagt því við bryggju. Hann kvaðst ekki hafa séð áfengisáhrif á ákærða. Borið var undir D það sem hann hafði sagt hjá lögreglu, um að ákærði hefði siglt skipinu að bryggju, og kvað hann sig hafa minnt það, en hann hefði verið frammi í stefni og haldið að ákærði hefði siglt skipinu og það hefði hann sagt lögreglunni.
Halldór Benóný Nellet, framkvæmdastjóri hjá Landhelgisgæslunni, bar að hringt hefði verið í sig og sér tjáð að skipstjórinn á A væri drukkinn að sigla skipinu. Í framhaldinu hefði verið ákveðið að þyrla, sem var á leið í æfingaflug, færi með menn sem yrðu látnir síga niður í skipið. Það tókst hins vegar ekki vegna veðurs og þess vegna var lögreglunni tilkynnt um málið til að hún gæti tekið á móti skipinu er það kæmi til hafnar.
Lögreglumennirnir sem fóru um borð í skipið og höfðu tal af ákærða komu fyrir dóm og staðfestu frumskýrslu málsins. Þeir báru báðir að ákærði hefði borið þess merki að hann var ölvaður. Hann hefði ekki neytt áfengis eftir að lögreglumennirnir komu.
Þá komu fyrir dóm tveir tollverðir sem höfðu afskipti af ákærða og báru báðir að hann hefði verið ölvaður. Ekki er ástæða til að rekja framburð þeirra að öðru leyti. Einnig kom fyrir dóm Kristín Magnúsdóttir sem vann álit rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Hún staðfesti álitsgerðina og svaraði spurningum um þau álitaefni sem þar er fjallað um.
IV
Ákærða er gefið að sök að hafa, sem skipstjóri, verið undir áhrifum áfengis við stjórn A þegar skipinu var siglt til hafnar og að bryggju í Reykjavík 10. janúar 2009. Því er haldið fram í ákærunni að ákærði hafi ekki verið hæfur til skipstjórnar og skipið verið óhaffært sökum ölvunar hans. Ætlað brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 22. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 2. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Í fyrri greininni segir að séu skipstjórar undir áhrifum áfengis við stjórn skips varði það missi réttar til að stjórna skipi um stundarsakir eða fyrir fullt og allt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað. Í síðari greininni er lögð refsing við því að stjórna eða reyna að stjórna skipi, ef skipstjóri vegna neyslu áfengis er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Ákærða og vitnum ber saman um að ákærði hafi vikið af vakt klukkan 00.30 aðfaranótt 10. janúar og 1. stýrimaður tekið við stjórn skipsins. Þá er upplýst, eins og rakið var, að ákærði kom upp í brú skömmu áður en skipið kom til hafnar og bar 1. stýrimaður að ákærði hefði sagt sér hvenær skipið hefði verið að koma að bryggjunni. 2. stýrimaður og háseti höfðu borið hjá lögreglu að ákærði hefði siglt skipinu inn á höfnina. Fyrir dómi báru þeir að þeir hefðu haldið þetta þar eð þeir höfðu vitað af ákærða í brúnni, sjálfir hefðu þeir verið úti, annar á dekki en hinn í stefni. Samkvæmt þessu er sannað að 1. stýrimaður var við stjórn skipsins þegar því var siglt inn til hafnar og að bryggju 10. janúar síðastliðinn. Vera ákærða í brúnni ein og sér veldur því ekki að hann taki við stjórn skipsins, þrátt fyrir stöðu hans sem skipstjóra og þarf því ekki að skera úr um það hér hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða ekki. Ákærði verður því sýknaður af því að hafa brotið gegn framangreindum lagagreinum.
Brot ákærða er einnig talið varða við 2. mgr. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 3. tl. 17. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003. Í fyrri greininni er um það fjallað að skipstjóra sé skylt að gera allt það er hann megi til að halda skipi haffæru á ferð og síðan hvernig hann skuli bregðast við ef ætla megi að skip hafi laskast. Í síðari greininni segir að skip teljist óhaffært ef bol þess, búnaði, þar á meðal mengunarvarnarbúnaði, vélum, tækjum eða skipshöfn, sé svo áfátt, eða skipið af öðrum ástæðum svo á sig komið með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja, að telja verði vegna sjóferðar þeirrar er skipið skal fara að hættulegra sé að vera í förum með það en venjulegt er. Ljóst má vera af því sem rakið hefur verið af málavöxtum að skipið hafði ekki laskast og á því fyrri greinin ekki við. Hér að framan var þess getið að verulegt áfengismagn mældist í blóði og þvagi ákærða. Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði komst að þeirri niðurstöðu að ákærði hefði drukkið mun meira en hann upplýsti hjá lögreglu og fyrir dómi. Hér fyrr var komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hefði ekki verið við stjórn skipsins eins og hann er ákærður fyrir og ekkert í lögum bannar skipstjóra að neyta áfengis og vera undir áhrifum þess svo lengi sem hann stjórnar ekki skipinu meðan áhrifin vara. Það hafði því engin áhrif á haffærni skipsins þótt ákærði væri undir áhrifum áfengis, enda stýrði 1. stýrimaður því.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, skal greiddur úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Þyrí Steingrímsdóttur hdl., 242.775 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.