Hæstiréttur íslands

Mál nr. 762/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2014.

Nr. 762/2014.

 

Birgir Pétursson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sjúkratryggingum Íslands og

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

B krafðist skaðabóta, aðallega úr hendi S en til vara Í, vegna líkamstjóns sem hann kvaðst hafa orðið fyrir vegna mistaka í læknismeðferð sem hann sætti í framhaldi af slysi sem hann hefði orðið fyrir. Var málinu vísað frá héraðsdómi sökum vanreifunar, en í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að verulegur misbrestur hefði verið á því af hálfu B að hann tilgreindi til fullnaðar frá dómkröfu sinni í héraðsdómsstefnu, auk þess sem í málsástaæðum hans hefði ekki verið tekin bein afstaða til þess hvort einstakir liðir ættu að koma kröfunni til frádráttar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014, þar sem „kröfum“ sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði leitar sóknaraðili með máli þessu bóta aðallega úr hendi varnaraðilans Sjúkratrygginga Íslands og til vara varnaraðilans íslenska ríkisins vegna líkamstjóns, sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna mistaka í læknismeðferð sem hann sætti í framhaldi af slysi 11. október 2010. Í greinargerð fyrir Hæstarétti hefur varnaraðilinn íslenska ríkið gert þá athugasemd að ranghermt sé í hinum kærða úrskurði að ekki sé deilt í málinu um bótaskyldu og er sú athugasemd í ljósi málatilbúnaðar varnaraðilans fyrir héraðsdómi á rökum reist.

Í héraðsdómsstefnu beinir sóknaraðili kröfum um bætur að varnaraðilum án þess að tilgreina á nokkurn hátt greiðslur, sem hann hafi notið úr hendi þriðja manns vegna fyrrgreinds líkamstjóns og koma ættu til frádráttar fjárhæð krafna hans samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sóknaraðili ber því við að í skattframtölum, sem liggi fyrir í málinu, komi fram upplýsingar um greiðslur til sín úr lífeyrissjóðum, en venja sé fyrir því að vátryggingafélög annist útreikninga á slíkum frádrætti eftir gögnum sem þessum þegar kröfum um skaðabætur vegna líkamstjóns sé beint að þeim. Þessi viðbára getur engu breytt um það að á sóknaraðila sem tjónþola hvílir ekki aðeins skylda til að greina til fullnaðar í héraðsdómsstefnu frá dómkröfu sinni, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, þar á meðal jöfnum höndum þeim atriðum, sem horfa henni til hækkunar og lækkunar, heldur einnig að taka í málsástæðum sínum beina afstöðu til þess hvort einstakir liðir eigi að koma þar til frádráttar. Á þessu er verulegur misbrestur í málatilbúnaði sóknaraðila. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann með þessum athugasemdum staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Sóknaraðili, Birgir Pétursson, greiði varnaraðilum, Sjúkratryggingum Íslands og íslenska ríkinu, hvorum fyrir sig 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur  5. nóvember 2014.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. október sl., er höfðað af Birgi Péturssyni, Austurhópi 23, Grindavík á hendur Sjúkratryggingum Íslands og íslenska ríkinu.

                Dómkröfur stefnanda eru þessar:

                Í aðalaðild gerir stefnandi þá kröfu aðallega, að Sjúkratryggingar Íslands verði dæmdar til að greiða stefnanda 31.048.752 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 5.855.100, frá 1.12.2010 (sjúklingatryggingaratburði) til stöðugleikatímapunkts þess 22.8.2011, en af 31.048.752 krónum frá þeim degi til 27.3.2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 9.547.496 krónum þann 14.5.2013. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að Sjúkratryggingar Íslands verði dæmdar til að greiða stefnanda 15.533.933 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 988.300 krónum, frá 1.12.2010 (sjúklingatryggingaratburði) til stöðugleikatímapunkts þess 22.8.2011, en af 15.533.933 krónum frá þeim degi til 27.3.2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 9.547.496 krónum þann 14.5.2013.

                Verði Sjúkratryggingar Íslands sýknaðar af dómkröfu stefnanda í aðalaðild, gerir stefnandi þá kröfu í varaaðild, að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda 31.048.752 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 5.855.100, frá 1.12.2010 til stöðugleikatímapunkts þess 22.8.2011, en af 31.048.752 krónum frá þeim degi til 27. 3.2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 9.547.496 krónum þann 14.5.2013. Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda 15.533.933 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 988.300 krónum, frá 1.12.2010 til stöðugleikatímapunkts þess 22.8.2011, en af 15.533.933 krónum frá þeim degi til 27. 3. 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 9.547.496 krónum þann 14.5.2013. Í báðum tilvikum gerir stefnandi kröfu um málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, sem lagt verður fram við aðalmeðferð málsins.

                Dómkröfur stefnda, Sjúkratrygginga Íslands, eru þær aðallega að vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins, eru þær aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að fjárkröfur verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Dómkröfur stefnanda um formhlið málsins eru þær að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.

                Þann 22. október sl., fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda, íslenska ríkisins, í samræmi við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Stefnandi máls þessa varð fyrir tjóni þann 11. október 2010, þegar hann féll úr stiga á heimili sínu. Daginn eftir leitaði hann til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) og var þar greindur með tognun í öxl. Þann 1. desember 2010 leitaði stefnandi á ný til HSS og aftur þann 17. sama mánaðar. Við komu á heilsugæsluna þann 5. janúar 2011 var stefnandi enn óvinnufær og byrjaður í sjúkraþjálfun. Í kjölfar segulómskoðunar 12. janúar 2011, var stefnanda vísað til Ágústs Kárasonar bæklunarskurðlæknis sem skoðaði stefnanda þann 21. janúar 2011. Aðgerð var gerð á hægri öxl stefnanda þann 22. febrúar 2011.

                Í vottorði Ágústs Kárasonar, dags. 24. júní 2011, kemur fram að stefnandi hafi rifið sinar í umræddu slysi og að áverkinn hafi ekki verið greindur á slysadeild þegar stefnandi leitaði þangað eftir slysið. Telur læknirinn að meiri líkur en minni séu á því að sú töf sem hafi orðið á réttri greiningu og meðferð eftir slysið hafi getað valdið því að ekki hafi verið hægt að endurtengja sinuskaðann er nú sé viðvarandi hjá stefnanda.

                Samkvæmt matsgerð Björns Daníelssonar lögfræðings og Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis, dags. 17. október 2011, var tímabundin örorka vegna tímabilsins 11. nóvember 2010 til 22. júní 2011 talin 100% miðað við stöðugleikapunkt þann 22. júní 2011. Þá var varanlegur miski/læknisfræðileg örorka metin 15 stig.

                Samkvæmt ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. maí 2013, var talið að stefnandi hefði ekki hlotið bestu hugsanlegu meðferð á HSS þann 1. desember 2010 og að þar með hafi átt sér stað svokallaður sjúklingatryggingaratburður í skilningi laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu þann 1. desember 2010. Var varanlegur miski metinn 10 stig vegna sjúklingatryggingaratburðarins, en talið var að þriðjungur tjónsins væri vegna upphaflegs áverka, en tvo þriðju bæri að rekja til hins eiginlega sjúklingatryggingaratburðar. Þá var stöðugleikapunktur talinn vera þann 22. ágúst 2011. Varanleg örorka vegna sjúklingatryggingaratburðar var metin 20%. Samkvæmt bótauppgjöri Sjúkratrygginga Íslands, voru bætur vegna varanlegs miska ákveðnar 988.300 krónur. Bætur vegna varanlegrar örorku voru taldar nema 14.454.663 krónum, en þar sem tjón hefði náð hámarki kæmu til greiðslu 7.825.267 krónur. Þá voru vextir á greiddar bætur taldar nema 733.267 krónum. Heildarfjárhæð bóta að meðtöldum vöxtum var þannig ákveðin 9.547.496 krónur. Var tekið fram í bótauppgjörinu að um væri að ræða hámarksbætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000.

                Samkvæmt matsgerð, Arnbjörns Arnbjörnssonar, bæklunarskurðlæknis og Hannesar I. Guðmundssonar lögfræðings, dags. 22. febrúar 2014, sem óskað var eftir af hálfu stefnanda, var miski vegna sjúklingatryggingaratburðarins talin 10 stig, en varanleg örorka 35%. Þá var tímabundin örorka samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga talin frá slysadegi til 22. ágúst 2011.

                Í skattframtali stefnanda árið 2012 er gerð grein fyrir greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins, sjúkradagpeningum og skattskyldum greiðslum tryggingarfélaga, samtals að fjárhæð 1.112.430 krónum. Í skattframtali stefnanda árið 2013 er gerð grein fyrir greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 6.316 krónur, greiðslum úr almennum lífeyrissjóðum, samtals að fjárhæð 6.419.914 krónur, auk óskattskyldra greiðslna tryggingafélaga að fjárhæð 74.465 krónur.           

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda varðandi efnishlið málsins.

Stefnandi byggir dómkröfu sínar í aðalaðild á því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. maí 2013, sé efnislega ógildanleg um mat á varanlegri örorku stefnanda vegna sjúklingatryggingaratburðarins, auk þess sem það standist ekki grundvallarlög að bætur til stefnanda séu lækkaðar á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, eins og gert hafi verið með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands. Telur stefnandi slíkt vera brot á eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, en fyrir hendi sé stjórnarskrárverndaður réttur til bóta fyrir skerðingu á aflahæfi og auk þess bann við ákvæðum sem feli í sér óheimila mismunun.

                Stefnandi reiknar bótakröfur sínar í aðalaðild aðallega samkvæmt sérfræðimatsgerðinni, dags. 22. febrúar 2014, samtals að fjárhæð 31.048.752 krónur. Er krafa stefnanda þannig sundurliðuð: Bætur vegna miska 1.000.000 króna, bætur fyrir varanlega örorku 25.193.652 krónur, tímabundin örorka í 8,7 mánuði 4.547.300 krónur og þjáningarbætur 307.000 krónur. Byggir stefnandi á því að mat Sjúkratrygginga á varanlegri örorku stefnanda eða skerðingu á vinnugetu standist ekki, auk þess sem það sé lítið rökstutt. 

                Til vara byggir stefnandi bótakröfu í aðalaðild á mati Sjúkratrygginga Íslands sem fram kom í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. maí 2013, samtals að fjárhæð 15.533.933 krónur. Er krafan þannig sundurliðuð: miskabætur samkvæmt ákvörðun Sjúkratrygginga þann 14. maí 2013, 988.300 krónur og bætur fyrir varanlega örorku 14.545.633 krónur. Byggir stefnandi á því að fjártjón hans geti aldrei verið lægra en metið hafi verið af Sjúkratryggingum Íslands. Enginn frádráttur, t.d. frá lífeyrissjóðum, sé heimill, þar sem um tryggingarbætur sé að ræða, sbr. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Byggir stefnandi varakröfu sína á mati Sjúkratrygginga Íslands á læknisfræðilegri örorku og varanlegri örorku stefnanda.

                Verði Sjúkratryggingar Íslands sýknaðar af dómkröfum stefnanda í aðalaðild, gerir stefandi sömu dómkröfur á hendur íslenska ríkinu og gerðar hafi verið á hendur Sjúkratryggingum Íslands, en byggir kröfur sínar á sakarreglunni, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 111/2000. Byggir stefnandi á því að hefði hann fengið viðunandi læknismeðferð hefði hann náð ákveðnum bata. Það sé auk þess viðurkennt af Sjúkratryggingum Íslands, að stefnandi hafi ekki fengið rétta læknisfræðilega þjónustu í síðasta lagi þann 1. desember 2010. Vísar stefnandi til 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 53/1988 um lækna.

                Þá byggir stefnandi á því að krafa hans á hendur íslenska ríkinu sé sjálfstæð skaðabótakrafa óháð þeirri kröfu, sem stefnandi geri á hendur Sjúkratryggingum Íslands. Dómkrafa í varaaðild sé byggð á grundvallarreglum skaðabótaréttar, þ.e. sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð, en ekki á lögum nr. 111/2000, sbr. 7. gr.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi aflað sér sérfræðimatsgerðar skv. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem ekki hafi verið hnekkt.

                Stefnandi telur þá reglu gilda samkvæmt skaðabótarétti að tjónvaldur eða skaðabótaskyldur aðili beri alla sönnunarbyrði fyrir frádrætti frá bótum. Allar upplýsingar um bætur hans frá lífeyrissjóði liggi fyrir, sbr. ákvörðun um lífeyrisgreiðslur og í skattframtölum varðandi frádrátt skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Venjan sé sú að tryggingafélög láti tryggingarstærðfræðinga sína reikna út slíkan frádrátt, samkvæmt upplýsingum frá tjónþola, bæði fyrir og eftir að mál sé höfðað. Tekur stefnandi fram að hann byggi einnig á þessari málsástæðu varðandi kröfu sína á hendur Sjúkratryggingum Íslands.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Sjúkratrygginga Íslands varðandi efnishlið málsins.

Stefndu hafna því að ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 séu andstæð 72. eða 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá mæli 2. mgr. 5. gr. laganna skýrt fyrir um hámark bóta. Hámarksfjárhæðin sé 8.814.229 krónur uppreiknuð vegna atburða á árinu 2010 og hafi stefndi fengið greiddar bætur í samræmi við það auk vaxta.

                Um varakröfu stefnanda tekur stefndi fram að ákvörðun um bótaskyldu og fjárhæð bóta hafi verið í samræmi við 2. mgr. 15. gr. laga nr. 111/2000. Til grundvallar mati á varanlegri örorku liggi ávallt svonefnt blint mat, þ.e. án þess að tjónþoli sé skoðaður. Þá telur stefndi sönnunargildi matsgerðar, dags. 22. febrúar 2014, takmarkað þar sem matsgerðarinnar hafi verið aflað einhliða af stefnanda og að ekki hafi verið um dómkvadda matsmenn að ræða.

                Stefndi mótmælir því að frádráttur frá lífeyrissjóðum sé óheimill eins og byggt sé á af hálfu stefnanda. Bendir stefndi á að um sjúklingatryggingu gildi sérlög sem hvorki heyri undir vátryggingarétt né almannatryggingakerfið. Sé sérstaklega tekið fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 að um ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir skaðabótalögum og því skuli í aðalatriðum miða við þau lög við útreikning bóta, nema lög nr. 111/2000 mæli fyrir um annað.

                Stefndi bendir á að stefnandi hafi fengið tímabundið örorkumat hjá Greiðslustofu lífeyrissjóða vegna lífeyrissjóðanna Gildis og Festu, bæði til sjómannsstarfa og almennra starfa. Fyrra matið hafi legið fyrir 30. desember 2011 og endurmat þann 16. ágúst 2012, en samkvæmt síðargreinda matinu hafi verið gert ráð fyrir að endurmat færi fram í nóvember 2013. Þar sem engin gögn liggi fyrir í málinu um að örorka stefnanda til almennra starfa hafi verið metin sé litið svo á að stefnandi hafi einungis fengið tímabundið mat. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, fer um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt skaðabótalögum. Telur stefndi ljóst af 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 að frá skaðabótakröfu skuli draga 40% af reiknuðu endurgreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Af gögnum málsins megi ráða að stefnandi hafi fengið 8.538.718 krónur í örorkulífeyri frá lífeyrissjóðnum Gildi og lífeyrissjóðnum Festu í kjölfar sjúklingatryggingaratburðarins. Telur stefndi að krafa stefnanda sé vanreifuð að þessu leyti þar sem um lögbundinn frádrátt vegna lífeyrisgreiðslna sé að ræða og væri því rétt að fjárhæðin yrði dregin frá kröfu stefnanda í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins varðandi efnishlið málsins.

Stefndi telur að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi sé skaðabótaskyldur umfram uppgjör samkvæmt lögum nr. 111/2000. Reglur um orsakatengsl og bótaskilyrði samkvæmt lögum nr. 111/2000, séu víðtækari en samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Geti stefnandi því ekki reist kröfur sínar um bótaskyldu íslenska ríkisins með vísan til rökstuðnings meðstefnda um greiðsluskyldu hans samkvæmt lögum nr. 111/2000. Stefndi sé ekki bundinn við ákvörðun meðstefnda. Þá telur stefndi að ekki verði byggt á vottorði Ágústs Kárasonar bæklunarskurðlæknis, m.a. vegna þess að læknirinn hafi ekki kannað sjúkrasögu stefnanda. Þá sé bótaskylda og fullyrðingar um saknæma háttsemi ósannaðar. Stefndi vísar til álits þriggja aðila sem tekið hafi afstöðu til kröfugerðar stefnanda. Séu umræddir álitsgjafar sammála um að mistök hafi ekki átt sér stað við greiningu og meðferð stefnanda.

                Stefnandi telur enn fremur að taka verði tillit til eigin sakar stefnanda verði fallist á bótakröfur hans. Þá verði að draga frá bótakröfunni þá frádráttarliði sem taldir séu upp í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þ. á m. eingreiðslu örorkulífeyris úr lífeyrissjóði. Einnig verði stefnandi að upplýsa um greiðslur til frádráttar vegna tímabundinnar örorku ef einhverjar hafi verið, en skattframtöl vegna gjaldársins 2011 hafi ekki verið lögð fram. Beri einnig að virða frádrátt samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga, en stefnandi verði að skýra þær greiðslur sem hann hafi fengið. Þessar upplýsingar verði að koma frá stefnanda, en stefndi hafi engar forsendur til að afla þeirra. Beri að draga allar þessar greiðslur frá bótakröfu stefnanda ef bótaskylda kæmi til.

                Stefndi tekur fram að varakrafa stefnanda byggi að hluta til á útreikningi Sjúkratrygginga Íslands, en þó sé ekki í kröfugerð stefnanda tekið tillit til greiðslu sem stefnandi hafi fengið frá Sjúkratryggingum auk annarra lögbundinna frádráttarliða. Þá sé mismunandi reikni- og lagagrunnur lagður til grundvallar aðal- og varakröfum stefnanda sem geti ekki staðist. Þá er mótmælt öllum vaxtakröfum stefnanda.

3. Málsástæður aðila varðandi formhlið málsins

Krafa stefnda íslenska ríkisins um frávísun málsins frá dómi byggist á því að stefnandi verði annað hvort að samþykkja uppgjör á grundvelli laga nr. 111/2000 og krefja ríkið um það sem út af standi eða falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu, a.m.k. að svo stöddu. Meðan uppgjör við sjúklingatryggingar sé óuppgert vegna málaferla verði skaðabótakrafa ekki gerð á hendur stefnda íslenska ríkinu eins og skýrt sé mælt fyrir um í 7. gr. laganna.

                Stefndi telur málið ekki nægjanlega upplýst og því vanreifað. Stefnandi líti t.d. alveg fram hjá áliti landlæknis sem stefnandi hafi þó sjálfur óskað eftir, en álitið sé í grundvallaratriðum andstætt málatilbúnaði stefnanda.

                Þá sé matsgerð frá 22. febrúar 2014 gölluð að því leyti að ekki sé tekin afstaða til þess hvort meintur dráttur á greiningu og meðferð hafi aukið líkur á tjóni stefnanda.

                Þá hafi stefnandi meðvitað ákveðið að upplýsa ekki um lögbundna frádráttarliði, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1993, sem gætu lækkað dómkröfur stefnanda. Stefnandi haldi því fram að stefnda beri að upplýsa um frádráttarliði. Það sé rangt. Stefndi hafi engar forsendur til að reikna út þessa liði. Það verði stefnandi að gera sjálfur og það hafi hann ekki gert. Að þessu leyti sé málið vanreifað og í raun ekki hægt að leggja dóm á það.

                Þá sé í málatilbúnaði stefnanda blandað saman lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 og réttarreglum sem byggja á sakarábyrgð. Það sé alveg skýrt að lög um sjúklingatryggingu byggi ekki á grunnreglum skaðabótaréttar. Þess vegna sé ekki hægt að blanda saman forsendum þessara réttarheimilda. Auk þess noti stefnandi mismunandi reiknigrunn með aðal- og varakröfum sínum, þ.e. reiknigrunn skaðabótaréttar með aðalkröfum og reikning Sjúkratrygginga með varakröfum.

                Að lokum fylgi enginn eðlilegur rökstuðningur varakröfum stefnanda.

                Stefnandi hafnar sjónarmiðum stefnda um frávísun. Tekur stefnandi fram að markmið með varaaðild stefnda íslenska ríkisins sé að krefja íslenska ríkið um það sem upp á vanti og ekki fáist greitt frá stefnda Sjúkratryggingum Íslands. Stefnandi tók fram að hann mótmælti sjónarmiðum um frádrátt frá tryggingarbótum. Upplýsingar um frádráttarliði lægju ekki fyrir, en þær yrðu afhentar á síðari stigum málsins. Áskildi stefnandi sér enn fremur rétt til að leggja fram upplýsingar um útreikninga vegna frádráttarliða á síðari stigum.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu er ekki deilt um bótaskyldu. Hins vegar er deilt um mat á varanlegri örorku stefnanda og bótafjárhæðir. Beinir stefnandi kröfum sínum aðallega að Sjúkratryggingum Íslands, en til vara að íslenska ríkinu. Telur stefnandi að miða beri bótauppgjör við sérfræðimatsgerð, dags. 22. febrúar 2014, en til vara beri að byggja uppgjör bóta á mati Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. maí 2013. Er krafan á hendur aðalstefnda á því byggð að ekki fái staðist að bætur til stefnanda séu lækkaðar á grundvelli 2. mgr. 5. gr. l. nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu eins og gert hafi verið með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands.

                Varastefndi íslenska ríkið byggir kröfu sína um frávísun á 7. gr. laga nr. 111/2000. Telur varastefndi að á meðan uppgjör vegna sjúklingatryggingar sé óuppgert vegna málaferla verði skaðabótakrafa ekki gerð á hendur íslenska ríkinu. Þá telur varastefndi að málið sé ekki nægjanlega upplýst, auk þess sem málatilbúnaður stefnanda sé almennt óljós og óskýr og samhengi málsástæðna óljós og málið því vanreifað. Byggir varastefndi einkum á því að stefnandi hafi ekki upplýst um lögbundna frádráttarliði, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem gætu lækkað dómkröfur stefnanda. Telur varastefndi þannig málatilbúnað stefnanda í andstöðu við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Varðandi frádráttarliði sem varastefndi telur að eigi að taka tillit til telur stefnandi að sönnunarbyrði um þá hvíli á stefnda og varastefnda. Auk þess sem hann mótmælir sjónarmiðum um frádrátt. Við flutning um frávísunarkröfu stefnda ítrekaði stefnandi þessa afstöðu en tók fram að upplýsingar um frádráttarliði lægju ekki fyrir, en þær yrðu afhentar á síðari stigum málsins. Áskildi stefnandi sér rétt til að leggja fram upplýsingar um útreikninga vegna frádráttarliða.

                Samkvæmt 7. gr. laga nr. 111/2000 verður skaðabótakrafa ekki gerð á hendur neinum sem er bótaskyldur samkvæmt reglum skaðabótaréttar nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt samkvæmt 5. gr. sömu laga og þá einungis um það sem á vantar. Í kröfu stefnanda á hendur varastefnda íslenska ríkinu felst að hún komi aðeins til álita verði ekki fallist á að hið meinta tjón stefnanda verði bætt samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Í ljósi þess telur dómurinn málatilbúnað stefnanda að því leyti í samræmi við fyrirmæli 7. gr. laganna. Þá verður ekki fallist á að málið sé vanreifað eða blandað hafi verið saman lögum um sjúklingatryggingu og grunnreglum skaðabótaréttar með þeim hætti að leiði til frávísunar á þessu stigi málsins.

                Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, er mælt fyrir um að um ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir skaðabótalögum. Í 4. mgr. sömu greinar er gert ráð fyrir að til frádráttar bótum komi greiðslur úr almannatryggingum o.fl. Kröfu sínar um bætur byggir stefnandi á lögum nr. 50/1993 og gerir kröfu á hendur stefndu til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Ekki er ágreiningur um það í málinu að frádráttarliðir af þessu tagi geti átt við í málinu en sjónarmiðum um frádrátt er þó mótmælt af hálfu stefnanda.

                Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð í krónum talið. Telur dómurinn, með vísan til þessa og í samræmi við meginregluna um skýran og glöggan málatilbúnað, að stefnanda beri að upplýsa strax og tilefni gefst til um öll þau atriði sem áhrif geta haft á útreikning bótanna og hann getur sannanlega upplýst um, til þess að unnt sé að leggja dóm á hvort honum beri sú fjárhæð sem hann krefur um. Það hefur hann ekki gert heldur telur að stefndu beri að upplýsa um frádráttarliði eða að það megi gera á síðari stigum. Á það verður ekki fallist enda teljast ágallarnir að þessu leyti verulegir. Bar stefnanda því að gera með viðhlítandi hætti grein fyrir þeim frádráttarliðum sem til álita gátu komið og eftir atvikum ástæðum fyrir því að hann teldi þá ekki eiga við í málinu. Samkvæmt því ber með vísan til d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi.

                Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins. Innanríkisráðuneytið veitti stefnanda gjafsóknarleyfi 26. júní sl. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns  hans, 500.000 krónur.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kröfum stefnanda á hendur stefndu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.