Hæstiréttur íslands

Mál nr. 840/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldlagning

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að fella úr gildi ákvörðun L um haldlagningu nánar tilgreindra muna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2016 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að aflétta haldi á nánar tilgreindum munum. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2016.

                Hinn 8. nóvember sl. barst Héraðsdómi Reykjavíkur krafa varnaraðila, X, um að sóknaraðila, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, verði gert að aflétta haldi á munum vegna lögreglumálsins númer 007-2016-53512. Endanleg kröfugerð varnaraðila X, A og B ehf., eru eftirfarandi:

1.       Að sóknaraðila verði gert að aflétta haldi á peningaseðlum að fjárhæð 10.000.000 króna, sem hald var lagt á við handtöku og húsleit hjá varnaraðila, X, þann 4. nóvember 2016, sbr. lið nr. 434383 í munaskrá lögreglu.

2.       Að sóknaraðila verði gert að aflétta haldi á fjármunum sem  lagt var hald á við handtöku varnaraðila, X, þann 9. september 2016, sem hér greinir:

a. Peningaseðlum að fjárhæð 172.000 krónur, sbr. lið nr. 431675 í munaskrá lögreglu.

b. Peningaseðlum að fjárhæð 590 evrur, sbr. lið nr. 431676 í munaskrá lögreglu.

3.       Að sóknaraðila verði gert að aflétta haldi á Stema-kerru, með skráningarnúmerinu [...], sem hald var lagt á hjá varnaraðila, A ehf., kt. [...], þann 9. september 2016, sbr. lið nr. 433653 í munaskrá lögreglu.

4.       Að sóknaraðila verði gert að aflétta haldi á fjármunum sem hald var lagt á á eftirfarandi bankareikningum varnaraðila þann 8. nóvember 2016:

a. Reikningi B., reikningsnúmer [...], samtals 3.614.000 krónur.

b. Reikningi A., reikningsnúmer [...], samtals

    954.000 krónur.

c. Reikningi X, reikningsnúmer [...],

    samtals 510.000 krónur.

Þá er krafist málskostnaðar.

                Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila verði hafnað og jafnframt að hafnað verði málskostnaðarkröfu varnaraðila.

                Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi föstudaginn 9. desember sl.

Málsatvik

                Fram kemur í gögnum málsins að síðastliðið haust hafi lögreglu borist ábending um að framleiðsla fíkniefna ætti sér stað í iðnaðarhúsnæði að [...]. Einkahlutafélagið A er skráður eigandi tveggja iðnaðarbila í húsnæðinu, en varnaraðili, X, og sonur hans, C, eru skráðir eigendur þess félags og skipa þeir jafnframt stjórn þess. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 9. september sl. voru lögreglumenn við eftirlit við húsnæðið þegar varnaraðila, X, bar þar að. Fram kemur að varnaraðili hafi sagst eiga erindi í húsið til að sækja þangað muni í geymslu. Hann hafi virst taugaóstyrkur þegar hann var spurður út í starfsemi sem fram færi í húsnæðinu og sagst ekki hafa vitneskju um það, en það væri í útleigu. Lögreglumenn hafi fylgt á eftir honum inn í húsið, en þar inni hafi þeir komið að læstum dyrum og hafi heyrst niður frá viftum fyrir innan og kannabislykt borist fram. Varnaraðili hafi neitað því að vera með lykla að dyrunum, en þó afhent lykla sem hann hafði meðferðis og hafi einn þeirra gengið að dyrunum. Þegar inn var komið hafi verið gengið inn í nokkur rými, sem hefðu verið sameinuð, og hafi umfangsmikil ræktun kannabisplantna átt sér þar stað. Tveir menn hafi verið þarna staddir að klippa plönturnar, þeir D og E.

Í skýrslu lögreglu er að finna lýsingu á uppsetningu ræktunarbúnaðar og aðstæðum og fylgja jafnframt ljósmyndir, teknar á vettvangi. Lögregla lagði hald á 522 kannabisplöntur og 9.391,30 g af tilbúnu marijúana í húsnæðinu, auk ræktunarbúnaðar. Varnaraðili og synir hans tveir, C og F, auk mannanna tveggja, sem voru á vettvangi, voru handteknir vegna málsins og sættu varnaraðili og synir hans gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar í vikutíma frá 10. september síðastliðnum. Auk þeirra hefur eiginkona varnaraðila verið yfirheyrð vegna gruns um aðild hennar að málinu. Fyrir liggja skýrslur sakborninga og upplýsingar sem fengist hafa við skoðun síma þeirra.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 10. september sl. lýsti E því að hann hefði, í lok desember 2015 eða snemma árs 2016, verið fenginn til þess af varnaraðila X og sonum hans að annast kannabisplönturnar í húsnæðinu að [...]. Hann hefði tekið þetta að sér ásamt D, gegn greiðslu. Við yfirheyrslu sama dag bar D að X stæði fyrir ræktuninni og hefði hann fengið sig til að annast hana gegn greiðslu. Þá ættu synir varnaraðila einnig hlut að máli. Varnaraðili og synir hans hafa hins vegar hafnað því að hafa átt þátt í þeirri starfsemi sem fór fram í húsnæðinu.

Meðal gagna málsins er útprentun á dagatali sem fannst í síma X og F sonar hans, þar sem við tilteknar dagsetningar eru ritaðar athugasemdir eins og „klára að klippa“, „klipping“, „toppa“, „klippa undan“, „stubbar“, „grisja undan“ og „fella“. Þá liggja fyrir SMS-skilaboð úr síma C frá 5. apríl 2016, þar sem viðmælandi er „pabbi“. Í samskiptunum spyr pabbi hvernig gangi og C svarar: „bunir  nema kerran skoðum það í dag  litur vel ut mv astand vonum 11-12.“ Pabbi spyr: „Eru þá afgangar ekki farnir“ og C svarar því neitandi. Pabbi spyr: „Var þetta nothæf“ og C svarar: „jaja innri var þett en smatt  hart  alveg ok  lika stort a milli“ og pabbi svarar: „Gott“.

Við rannsókn málsins hefur lögregla lagt hald á umtalsverða fjármuni, reiðufé og innstæður á bankareikningum varnaraðila X og félaga honum tengdum, þeirra á meðal varnaraðila A ehf. og B ehf., en samkvæmt gögnum málsins eru X og sonur hans F skráðir stjórnarmenn þess félags. Þá liggja fyrir gögn um greiningu lögreglu á fjármálum sakborninga frá 1. desember 2015 til 13. september 2016, en samkvæmt þeim útreikningum var lífeyrir varnaraðila X, sona hans og eiginkonu, neikvæður á því tímabili.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er til þess vísað að við rannsókn málsins hafi verið lagt hald á ýmsan búnað sem notaður hafi verið við framleiðslu ávana- og fíkniefna í húsnæðinu sem um ræðir. Sé fyrirhugað að krefjast upptöku hinna haldlögðu muna fyrir dómi, enda hafi þeir ýmist verið notaðir við framkvæmd brotsins eða kaup þeirra fjármögnuð fyrir ávinning af brotastarfseminni. Lagt hafi verið hald á kerruna sem í dómkröfu varnaraðila greinir þar sem talið sé að hún hafi verið notuð við uppsetningu framleiðslunnar og til að koma mold og öðru frá vettvangi.

Við handtöku hafi varnaraðili, X, verið með reiðufé á sér, sem nam 172.000 krónum og 590 evrum, og hafi verið lagt hald á þá fjármuni. Þá hafi rannsókn lögreglu á bankagögnum sakborninga í málinu leitt í ljós að kaup á fasteignahlutunum tveimur að [...] hafi alfarið verið fjármögnuð með reiðufé, ef frá er talið áhvílandi lán að fjárhæð 25.000.000 króna. Eignarhlutarnir hafi verið keyptir í desember 2014 og nóvember 2015 og hafi kaupverð verið annars vegar 27.000.000 króna, en hins vegar 37.000.000 króna. Fyrirkomulag fjármögnunarinnar verði að teljast sérkennilegt og óvanalegt, en sakborningarnir X, C og F hafi allir sætt gjaldþrotameðferð á síðustu árum. Engar trúverðugar skýringar hafi verið gefnar á tilurð fjármunanna af hálfu sakborninga málsins og séu þær í senn misvísandi og ótrúverðugar, eins og nánar er rakið.

                Rökstuddur grunur sé um að hið mikla magn reiðufjár megi rekja til þess að sakborningar málsins hafi um langt skeið, í félagi og með skipulögðum hætti, staðið að framleiðslu fíkniefna allt frá upphafi þess að húsnæðið að [...] komst í eigu þeirra. Þannig liggi fyrir að einn sakborninga málsins, F, hafi í lok árs 2014, í nafngreindri verslun, sem þekkt sé fyrir að útvega ýmis tæki og tól til ræktunar kannabisefna, keypt átján skerma gróðurhúsalampa fyrir á þriðja hundrað þúsund krónur. Hann hafi ekki getað gefið trúverðugar skýringar á ástæðum þess og megi telja víst að þar hafi verið um að ræða búnað til kannabisframleiðslunnar. Fyrir liggi leigusamningur vegna húsnæðisins að [...] við einn sakborninga, E. Lögregla telji sýnt að um málamyndagerning hafi verið að ræða, m.a. í þeim tilgangi að þvætta ávinning af brotastarfseminni þannig að ávinningur af kannabisræktuninni hafi verið notaður til að fjármagna svokallaðar leigugreiðslur. 

Verulegar reiðufjárinnlagnir komi fram á bankareikningum sakborninga, en rannsókn á lífeyri þeirra sýni í nokkrum tilvikum verulega neikvæða stöðu miðað við skráða innkomu og útgjöld viðkomandi. Í einhverjum tilvikum hafi innkoma viðkomandi sakbornings verið undir framfærsluviðmiðum, sem renni frekari stoðum undir röksemdir lögreglustjóra um að fjármunirnir, sem notaðir voru til kaupa á húsnæðinu, hafi verið afrakstur af hinni ætluðu skipulögðu brotastarfsemi, þ.e. framleiðslu og sölu fíkniefna.

                Við rannsókn málsins hafi lögregla ætlað að krefjast kyrrsetningar á fasteigninni að [...] hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, til tryggingar kröfum að lágmarki allt að 50.000.000 króna, vegna greiðslu sakarkostnaðar, sekta og upptökukrafna ákæruvaldsins, á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga. Þegar til þess kom að gera kröfuna hafi hins vegar komið í ljós að fasteigninni hafi, þann 2. nóvember sl., verið afsalað til félagsins G ehf., en kaupverðið hafi verið að fullu greitt við kaupsamning. Við skoðun bankagagna, að fengnum úrskurði héraðsdóms, hafi komið í ljós að um 50.000.000 króna hefðu verið greiddar til A ehf. frá G ehf. og þar af hefðu um 9.000.000 króna verið millifærðar samstundis á reikning B ehf. Þá kemur fram að X og C muni jafnframt hafa tekið út 20.000.000 króna hvor í reiðufé, rétt fyrir lokun [...] hf. þennan dag. Lögregla hafi lagt hald á innstæðu á bankareikningi B ehf., en á honum hafi verið 3.614.000 krónur. Jafnframt hafi verið lagt hald á innstæðu að fjárhæð 954.000 krónur á reikningi A ehf. og 510.000 króna innstæðu á bankareikningi X nr. [...]. Þeir fjármunir sem haldlagðir hafa verið vegna málsins séu varðveittir á bankareikningi í [...] hf.

                Lögregla hafi, með úrskurði héraðsdóms, fengið heimild til húsleitar á heimili varnaraðila, X, sem og á heimilum annarra sakborninga. Á heimili varnaraðila hafi fundist 10.000.000 króna í tveimur búntum af tíu þúsund króna seðlum. Hafi einnig verið lagt hald á þá fjármuni og þeir lagðir inn á framangreindan bankareikning.

Að mati lögreglu sé sönnunarstaða málsins vegna meintra brota varnaraðila X mjög sterk. Framburður hans hafi verið afar ótrúverður og í andstöðu við fyrirliggjandi gögn og framburð annarra sakborninga. Ljóst þyki að hann hafi ekki eingöngu tekið þátt í framkvæmd brotanna heldur verið einn af forgangsmönnum málsins. Þannig komi til að mynda fram í gögnum málsins að daginn sem hann var handtekinn hafi hann keypt í tveimur mismunandi verslunum búnað, sem þekkt er að notaður er til ræktunar kannabisplantna. Slíkur útbúnaður hafi einmitt fundist á vettvangi.

Því þyki ljóst að þeir fjármunir og lausafjármunir, sem lagt hafi verið hald á við rannsókn málsins, verði gerðir upptækir með dómi, sbr. 69. gr. og 69. gr. a almennra hegningarlaga. Sérstaklega er vísað til lagaheimildar um jafnvirðisupptöku, sem sé víðtæk og taki m.a. til þeirra fjármuna sem sparast hafi hjá hinum brotlegu í kjölfar hins meinta refsiverða athæfis.

Með vísan til alls ofangreinds, kröfu lögreglustjóra og gagna málsins sé því ítrekuð sú krafa að kröfu varnaraðila verði hafnað.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Í greinargerð varnaraðila kemur fram að iðnaðarbilin tvö hafi verið leigð út til tveggja einstaklinga og hafi varnaraðili, X, ekkert skipt sér af leigjendum síðan húsið fór í útleigu. Hann hafi hins vegar í tvö eða þrjú skipti komið við í húsnæðinu til að sækja muni í geymslu, en hann hafi geymt búslóð sína þar. Hann hafi komið í húsnæðið í þeim erindagjörðum 9. september sl., þegar lögregla hafði afskipti af honum. Hann hafi tjáð lögreglumönnum að hann hefði ekki heimild til að opna fyrir þeim rýmin, sem væru í útleigu, en þá hafi hann verið handtekinn og lyklar teknir af honum. Hann hafi verið samvinnufús við lögreglu við rannsókn málsins og veitt allar umbeðnar upplýsingar um sig og fjárhagsmálefni sín. Þá hafi hann ýmist dvalið erlendis eða á sjúkrastofnunum á þeim tíma sem ræktun ávana- og fíkniefna átti sér stað í húsnæðinu. Hann hafi engin samskipti haft við leigutaka í gegnum síma eða fjarskiptatæki og hafi enga tengingu við þá fjárhagslega, aðra en að hafa móttekið leigugreiðslur.

Hann hafi nú selt fasteignina sem um ræðir og ráðstafað söluvermæti hennar til að koma á fót fiskverkun. Hann hafi tekið 10.000.000 króna út af bankareikningi sínum til að greiða fyrir frystibúnað, sem hann hafi pantað, en lögregla hafi lagt hald á þá fjármuni við leit á heimili hans 4. nóvember sl. og sé fyrirtækjarekstur hans í uppnámi af þeim sökum. Ljóst sé að aðgerðir lögreglu muni valda honum verulegu tjóni, en hann hafi stofnað til viðskiptasamninga við félög í Kanada, og sé forsenda þess viðskiptasambands sú að hann geti greitt fyrir frystigámana, sem pantaðir hafi verið. Það tjón sem lögregla hafi valdið honum með aðgerðum sínum hlaupi á tugum milljóna króna. Honum hafi verið frjálst að ráðstafa eignarhluta sínum í fasteigninni að [...] og söluverðmæti hennar, enda hafi eignin ekki verið kyrrsett. Því verði ekki séð hvaða heimild sóknaraðili telji sig hafa til að krefjast upptöku þeirra fjármuna sem lagt var hald á þann 4. nóvember sl. Honum sé nauðugur einn kostur að leita atbeina dómsins til að fá haldinu aflétt í því skyni að forða sér og félagi sínu frá stórfelldu fjárhagstjóni.

                Varnaraðili kveðst byggja kröfu um að haldi verði aflétt á 3. mgr. 69. gr. og 1. og 2. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en að auki, að því er 4. lið dómkröfu hans varðar á XII. kafla sömu laga og ákvæðum laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þá er vísað til 71. og 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, kröfunni til stuðnings. Um kröfu um málskostnað er vísað til 38. gr. og XXXIV. kafla laga nr. 88/2008.

Niðurstaða

                Samkvæmt 68. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður hald lagt á muni m.a. ef talið er að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Í 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að aflétta skuli haldi þegar þess er ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er lokið. Í a-lið sömu málsgreinar kemur fram að þetta eigi ekki við um muni sem hafa verið gerðir upptækir með dómi.

                Rannsókn lögreglu beinist að stórfelldu fíkniefnalagabroti og peningaþvætti í tengslum við það. Svo sem rakið hefur verið hófst rannsóknin í septembermánuði síðastliðnum, en af gögnum málsins verður ráðið að hún hefur verið umfangsmikil. Sex einstaklingar hafa verið yfirheyrðir sem sakborningar, þeirra á meðal varnaraðili X, synir hans tveir og eiginkona. Þá hefur verið ráðist í viðamikla rannsókn á fjármálum sakborninga í málinu og félaga þeim tengdum, þ. á m. félaganna A ehf. og B ehf. Samkvæmt því sem fram hefur komið við rannsóknina, þar með talið það sem fram hefur komið í framburði annarra sakborninga málsins og við skoðun símagagna, sem að framan er rakið, telur lögregla varnaraðila vera undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í því að fremja brotin og ennfremur að hann hafi haft forgöngu þar um.

Við rannsókn málsins hefur lögregla lagt hald á reiðufé sem fundist hefur í fórum sakborninga og innstæður á bankareikningum þeim tengdum. Er þar um að ræða umtalsverða fjármuni, sem talið er að sé að mestu leyti afrakstur brotastarfsemi sem þeir eru grunaðir um. Þá hefur verið lagt hald á kerru, sem grunur er um að hafi verið notuð við framningu meintra brota. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að lagt hafi verið hald á framangreinda muni með það fyrir augum að krefjast upptöku þeirra í refsimáli sem kann að verða höfðað á hendur sakborningum, sbr. 1. mgr. 69. gr., 1. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 149/2009. Við flutning málsins fyrir dómi kom jafnframt fram að rannsókn málsins sé nú langt komin og sé þess ekki langt að bíða að tekin verði ákvörðun um saksókn vegna meintra brota sakborninga og þá um leið, um upptöku þeirra muna er lagt var hald á við rannsókn málsins.

Samkvæmt framangreindu er fullnægt skilyrðum 68. gr. laga nr. 88/2008 til að leggja hald á þá fjármuni og aðra muni sem dómkrafa varnaraðila beinist að, enda kunna þeir að vera gerðir upptækir með dómi. Þá verður ekki séð að tafir hafi orðið á rannsókn málsins og eru því engin efni til að aflétta haldi af þeim sökum. Er því hafnað kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að aflétta haldi á þeim munum sem um ræðir.

Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.             

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, X, A ehf. og B ehf., um að sóknaraðila, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, verði gert að aflétta haldi á:

1.       Peningaseðlum að fjárhæð 10.000.000 króna, sem hald var lagt á við handtöku og húsleit hjá varnaraðila, X, þann 4. nóvember 2016, sbr. lið nr. 434383 í munaskrá lögreglu.

2.       Fjármunum sem  lagt var hald á við handtöku varnaraðila, X, þann 9. september 2016, sem hér greinir:

a. Peningaseðlum að fjárhæð 172.000 krónur, sbr. lið nr. 431675 í munaskrá lögreglu.

b. Peningaseðlum að fjárhæð 590 evrur, sbr. lið nr. 431676 í munaskrá lögreglu.

3.       Stema-kerru, með skráningarnúmerið [...], sem hald var lagt á hjá varnaraðila, A ehf., kt. [...], þann 9. september 2016, sbr. lið nr. 433653 í munaskrá lögreglu.

4.       Fjármunum sem hald var lagt á á eftirfarandi bankareikningum varnaraðila þann 8. nóvember 2016:

a.       Reikningi B ehf., reikningsnúmer [...]

, samtals 3.614.000 krónur.

b. Reikningi A ehf., reikningsnúmer [...], samtals

    954.000 krónur.

c. Reikningi X, reikningsnúmer [...],

    samtals 510.000 krónur.