Hæstiréttur íslands
Mál nr. 328/1999
Lykilorð
- Umboð
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2000. |
|
Nr. 328/1999. |
Guðjón Axelsson Jóhannes Bjarnason Svanborg Óskarsdóttir og Þórir Óskarsson (Magnús Thoroddsen hrl.) gegn Kaupfélagi Árnesinga og (Sigurður Jónsson hrl.) Guðlaugu Kristínu Jónsdóttur (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Umboð.
G tók samtals 1.800.000 krónur út af kjörbókarreikningi L hjá innlánsdeild kaupfélagsins K. Erfingjar L töldu K ekki hafa haft heimild til þess að greiða G féð og kröfðu G og K um bætur af þessum sökum. Af hálfu G og K var því haldið fram að G hefði haft munnlegt umboð til að taka út fjármuni til eigin nota af reikningnum. Með hliðsjón af því, að á reikningi L voru talsverðir fjármunir, sem af gögnum málsins virtust hafa verið þó nokkur hluti eigna hennar, var talið að G hefði verið í lófa lagið, að afla sér nauðsynlegra sannana um heimild sína til að ráðstafa fé af reikningnum. Yrði hún að bera hallann af því að hafa látið það hjá líða, en G var ein til frásagnar um að L hefði viljað að peningar af þessum reikningi færu til hennar. Var fallist á með erfingjum L, að ósannað væri, að G hefði haft heimild til að taka út féð og að K hefði mátt greiða það út, þó þannig að K var ekki talið bera ábyrgð á tiltekinni úttekt G, sem greidd hafði verið með tékka, sem gefinn hafði verið út á nafn L. Voru G og K dæmd til greiðslu fjárins í samræmi við þetta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 1999 og krefjast þess að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða þeim 1.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 200.000 krónum frá 21. nóvember 1994 til 18. október 1995, 450.000 krónum frá þeim degi til 10. nóvember sama árs, 700.000 krónum frá þeim degi til 26. janúar 1996, 900.000 krónum frá þeim degi til 14. mars sama árs, 1.000.000 krónum frá þeim degi til 15. maí sama árs, 1.400.000 frá þeim degi til 23. júlí sama árs, en 1.800.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í héraðsdómi eru áfrýjendur lögerfingjar Lilju Bjarnadóttur, sem lést 13. febrúar 1997. Deila málsaðilar um það, hvort stefnda Guðlaug Kristín Jónsdóttir hafi haft heimild Lilju til þess að taka út samtals 1.800.000 krónur af kjörbókarreikningi þeirrar síðarnefndu hjá innlánsdeild hins stefnda kaupfélags á tímabilinu frá 21. nóvember 1994 til 23. júlí 1996 og hvort kaupfélagið hafi þá haft heimild til að greiða stefndu Guðlaugu út féð af reikningnum.
Á því er byggt af hálfu beggja stefndu, að Lilja hafi veitt stefndu Guðlaugu munnlegt umboð til að taka út fjármuni til eigin nota af reikningnum þegar þær hafi komið saman í skrifstofu kaupfélagsins 15. desember 1993. Þá hafi stefnda Guðlaug kvittað fyrir móttöku á 100.000 krónum af reikningi Lilju og gjaldkeri kaupfélagsins gefið út tékka sömu fjárhæðar á nafn Guðlaugar. Guðlaug hafi framselt tékkann sama dag í Landsbanka Íslands á Selfossi. Á þessu munnlega umboði hafi síðari greiðslur af reikningnum verið reistar.
Skrifstofustjóri kaupfélagsins bar fyrir héraðsdómi að það hafi verið ófrávíkjanleg regla að gengið væri úr skugga um að þeir, sem tækju út fjármuni af innlánsreikningum, hefðu til þess heimild, þar á meðal umboð frá reikningshafa þegar um úttektir þriðja manns væri að ræða. Vegna heilsufars Lilju heitinnar hafi munnlegt umboð hennar til stefndu Guðlaugar, sem gefið hafi verið í skrifstofu kaupfélagsins 15. desember 1993, verið látið nægja. Þegar skrifstofustjórinn var inntur nánar eftir þessu munnlega umboði Lilju gat hann ekki fullyrt að það hefði í raun verið gefið. Var því rétt af héraðsdómara að telja það ósannað.
Í héraðsdómi er niðurstaða hins vegar reist á eftirfarandi samþykki Lilju, sem ekki hafi gert athugasemdir við reikningsyfirlit, sem hið stefnda kaupfélag hafi sent henni. Fram er komið í málinu að Lilja hafi dvalist á Kumbaravogi frá árinu 1991. Á reikningsyfirlitunum segir á hinn bóginn að heimili hennar sé Mundakot á Eyrarbakka. Ekki er í ljós leitt hvort þessi yfirlit hafi borist Lilju eða hún í raun séð þau og getað heilsu sinnar vegna tekið afstöðu til þeirra á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Getur því ekki verið um að ræða eftirfarandi samþykki hennar á gerðum stefndu.
Þótt vitni hafi borið fyrir héraðsdómi um vináttusamband Lilju heitinnar og stefndu Guðlaugar og barna hennar er Guðlaug ein til frásagnar um að Lilja hafi viljað að peningar af þessum reikningi færu í hennar hendur. Fram er komið í málinu að stefnda Guðlaug hafi haft umráð bankareiknings Lilju við útibú Landsbanka Íslands á Eyrarbakka til þess að taka út fyrir nauðsynjum Lilju. Á reikningi Lilju hjá hinu stefnda kaupfélagi voru talsverðir fjármunir, sem af gögnum málsins virðast hafa verið þó nokkur hluti eigna hennar. Stefndu Guðlaugu var í lófa lagið að afla sér nauðsynlegra sannana um heimild sína til að ráðstafa fé af reikningnum. Verður hún að bera hallann af því að hafa látið það hjá líða. Að þessu gættu er fallist á með áfrýjendum að ósannað sé að stefnda Guðlaug hafi haft heimild til að taka út féð og að hið stefnda kaupfélag hafi mátt greiða henni það út.
Stefnda Guðlaug hefur stutt kröfu sína um lækkun á kröfu áfrýjenda þeim rökum, að mikið af þeim fjármunum, sem hún hafi tekið út fyrir Lilju, hafi runnið til hennar, bæði í formi peninga og til greiðslu á ýmsum kostnaði Lilju. Eins og fyrr greinir bar stefnda sjálf að hún hafi haft vörslur bókar vegna bankareiknings Lilju í útibúi Landsbankans á Eyrarbakka, einmitt til þessara þarfa. Hefur hún ekki sýnt fram á að þörf hafi verið að nota reikninginn hjá hinu stefnda kaupfélagi í þessu skyni og verður varakrafa hennar því ekki tekin til greina.
Stefndi Kaupfélag Árnesinga hefur borið fyrir sig að fyrsta úttektin í nóvember 1994 að fjárhæð 200.000 krónur, sem áfrýjendur krefjist greiðslu á, hafi verið greidd út með tékka, sem gefinn var út á nafn Lilju Bjarnadóttur. Geti félagið ekki borið ábyrgð á innlausn tékkans. Á þetta ber að fallast. Verður þessum stefnda því gert að greiða áfrýjendum 1.600.000 krónur óskipt með stefndu Guðlaugu.
Áfrýjendur kröfðu stefndu fyrst um greiðslu með bréfum 19. september 1997. Verður stefndu því gert að greiða dráttarvexti frá því mánuður var liðinn frá þeim degi samkvæmt 3. mgr. 9. gr., sbr. 15. gr. vaxtalaga. Verður þeim og gert að greiða óskipt málskostnað, sem ákveðinn er sameiginlega í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefnda Guðlaug Kristín Jónsdóttir greiði áfrýjendum, Guðjóni Axelssyni, Jóhannesi Bjarnasyni, Svanborgu Óskarsdóttur og Þóri Óskarssyni, 1.800.000 krónur, þar af óskipt með stefnda Kaupfélagi Árnesinga 1.600.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. október 1997 til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt hverjum áfrýjanda fyrir sig samtals 125.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. maí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl sl., er höfðað með stefnu útgefinni 25. október 1998 af Guðjóni Axelssyni, kt. 211035-4319, Ystaseli 35, Reykjavík, Jóhannesi Bjarnasyni, kt. 140920-5419, Hólmgarði 25, Reykjavík, Svanborgu Óskarsdóttur, kt. 140253-7319, Gautlandi 14, Reykjavík og Þóri Óskarssyni, kt. 300457-3639, Narvillistrasse 212, 24109 Kiel, Þýskalandi á hendur Kaupfélagi Árnesinga, kt. 680169-5869, Austurvegi 3-5, Selfossi og Guðlaugu Kristínu Jónsdóttur, kt. 120548-3499, Kirkjuhvoli, Eyrarbakka.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnendum kr. 1.800.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 sem hér segir: af kr. 200.000 frá 21.11.1994 til 18.10.1995, af kr. 450.000 frá 18.10.1995 til 10.11.1995, af kr. 700.000 frá 10.11.1995 til 26.01.1996, af kr. 900.000 frá 26.01.1996 til 14.03.1996, af kr. 1.000.000 frá 14.03.1996 til 15.05.1996, af kr. 1.400.000 frá 15.05.1996 til 23.07.1996 og af kr. 1.800.000 frá 23.07.1996 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda, Kaupfélags Árnesinga, eru að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnenda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefndu, Guðlaugar Kristínar Jónsdóttur, eru aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá er gerð krafa um að stefnendum verði gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
I.
Stefnendur máls þessa er erfingjar Lilju Bjarnadóttur, kt. 210710-7799, Mundakoti, Eyrarbakka, sem lést hinn 13. febrúar 1997, en Lilja hafði verið vistmaður á Kumbaravogi á Stokkseyri frá árinu 1991. Málið er höfðað til endurgreiðslu á kr. 1.800.000, sem við skipti á dánarbúi Lilju kom í ljós að stefnda Guðlaug Kristín hafði fengið greiddar af kjörbókarreikningi Lilju nr. 946136 hjá innlánsdeild Kaupfélags Árnesinga á tímabilinu 21. nóvember 1994 til 23. júlí 1996, þannig: Þann 21.11.1994, kr. 200.000, þann 18.10.1995, kr. 250.000, þann 10.11.1995, kr. 250.000, þann 26.01.1996, kr. 200.000, þann 14.03.1996, kr. 100.000, þann 15.05.1996, kr. 400.000 og þann 23.07.1996, kr. 400.000.
Fyrir liggur að tæpu ári áður en framangreindar úttektir hófust, eða þann 15. desember 1993, fékk stefnda Guðlaug Kristín greiddar kr. 100.000 út af reikningi Lilju hjá innlánsdeild Kaupfélags Árnesinga.
Hinn 21. nóvember 1994, sama dag og fyrsta útborgunin sem stefnt er til endurgreiðslu á fór fram, ritaði skrifstofustjóri Kaupfélags Árnesinga, Gunnar Á. Jónsson, eftirfarandi í dagbók sína: "Guðlaug Kristín Jóns. Kirkjuh. E.B. kom með þau munnlegu skilaboð frá Lilju Bjarnad. E.b. sem nú er á Kumbaravogi að setja innistæður Lilju (bók 946136) yfir á nafn Guðlaugar. Ekkert skriflegt þar sem að Lilja er handlama sbr. læknisvottorð meðf. Bað Guðlaugu að skrifa þetta á blað. Sjá meðf. Ræddi þetta v/G. Jóelsson og hann taldi rétt að ég bæði Guðlaugu að láta Lilju hringja í mig út af þessu."
Í vottorði Magnúsar Sigurðssonar læknis sem dagsett er 18. nóvember 1994, og vísað er til í dagbókarfærslunni, kemur fram að Lilja sé orðin bækluð á höndum og geti því ekki skrifað nafn sitt, en að hún sé áttuð á stað og stund.
Á blaði því sem stefnda Guðlaug Kristín skrifaði, samkvæmt dagbókarfærslunni, að beiðni skrifstofustjórans og dagsett er 21. nóvember 1994, kemur fram að Lilja Bjarnadóttir óski eftir að peningar hennar verði fluttir yfir á nafn Guðlaugar með vitund Jóhannesar bróður hennar.
Ekki kom til þess að reikningur Lilju væri færður yfir á nafn stefndu Guðlaugar Kristínar.
Kjörbók Lilju er ekki meðal gagna málsins og óupplýst er hvar hún er niður komin.
Reglur um innlánsdeild Kaupfélags Árnesinga eru prentaðar á blaðsíður 2 og 3 í viðskiptabókum innlánsdeildarinnar. Samkvæmt 10. gr. reglnanna skal rita það um leið í viðskiptabók í hvert skipti sem fé er lagt inn eða tekið út. Þá er það eigi á ábyrgð félagsins samkvæmt greininni þótt handhafi viðskiptabókar hafi eigi löglega heimild frá réttum aðila til þess að fá útborgað.
Á sex mánaða fresti, 30. júní og 31. desember ár hvert sem um ræðir, sendi innlánsdeild K.Á. reikningsyfirlit til Lilju Bjarnadóttur, Mundakoti, Eyrarbakka.
Stefnda Guðlaug Kristín lýsti fyrir dóminum nánu sambandi sínu og barna sinna við Lilju Bjarnadóttur. Kvað hún Lilju og mann hennar, sem bjuggu í næsta húsi og voru barnlaus, hafa verið börnum hennar sem afi og amma. Þegar Lilja hafi farið á Kumbaravog eftir lát manns síns, hafi hún tekið að sér að annast um mál Lilju. Allar peningaúttektir hennar út af reikningi Lilju hafi verið með vitund og vilja Lilju. Peningunum hafi hún varið til kaupa á nauðsynjum fyrir Lilju og einnig hafi Lilja gefið henni og börnum hennar ómælt. Lilju hafi verið mjög annt um að peningar hennar færu til hennar og barna hennar og hafi hún sífellt verið að biðja hana um að nota þá meðan hennar nyti við.
Í desember 1993 hafi hún farið með Lilju á skrifstofu Kaupfélags Árnesinga og hafi Lilja þá óskað eftir því við skrifstofustjórann að peningainneign sín hjá Kaupfélaginu yrði færð yfir á nafn Guðlaugar. Þegar hún hafi svo komið til að taka út peninga af reikningi Lilju í nóvember 1994 hafi skrifstofustjórinn beðið hana að skrifa niður hvað Lilja vildi, en Lilja hafi verið með krepptar hendur og ekki getað skrifað. Hafi hún þá skrifað að Lilja óskaði eftir að peningar hennar yrðu fluttir yfir á nafn Guðlaugar með vitund Jóhannesar bróður hennar.
Gunnar Á. Jónsson skrifstofustjóri Kaupfélags Árnesinga bar fyrir dóminum að sú regla gildi um úttektir þriðja aðila af reikningum hjá innlánsdeild félagsins að auk viðskiptabókar þurfi að að liggja fyrir skriflegt eða munnlegt umboð eða beiðni. Þegar stefnda Guðlaug Kristín hafi komið til að taka út af reikningi Lilju Bjarnadóttur í nóvember 1994 hafi hann óskað eftir að hún kæmi með skriflega beiðni frá Lilju. Hún hafi þá afhent honum blað undirritað af henni sjálfri þar sem fram hafi komið að Lilja Bjarnadóttir óskaði eftir að peningar hennar yrðu fluttir yfir á nafn Guðlaugar með vitund Jóhannesar bróður hennar. Hins vegar hafi úttektir Guðlaugar Kristínar af reikningi Lilju ekki grundvallast á skjali þessu, heldur á munnlegri beiðni Lilju frá því að hún kom á skrifstofu hans með Guðlaugu Kristínu á árinu 1993. Við nánari umhugsun kvaðst hann þó ekki alveg viss um að Lilja hafi verið með Guðlaugu Kristínu í umrætt sinn.
Gunnar kvað reikningsyfirlit vegna reiknings Lilju hafi verið send að Mundakoti, Eyrarbakka. Hann minni þó að einhvern tíma hafi reikningsyfirlit verið endursent með árituninni er á Kumbaravogi. Eftir það reikni hann með að reikningsyfirlit Lilju hafi verið send þangað. Gunnar kvað sér ekki vera kunnugt um að Lilja hafi gert athugasemdir við reikningsyfirlitin.
Magnús Sigurðsson læknir bar fyrir dóminum að hann hafi skrifað læknisvottorðið 18. nóvember 1994 til að staðfesta að Lilja væri ófær um að skrifa undir umboð til stefndu Guðlaugar Kristínar vegna bæklunar á höndum. Lilja hafi þá verið alveg skýr og hann telji að henni hafi verið fullkomlega ljóst í hvað skyni vottorðið var skrifað.
Ólafur A. Jónsson bróðir stefndu Guðlaugar Kristínar og Sigrún Þórarinsdóttir eiginkona hans báru bæði fyrir dóminum að Lilja hefði ætlað henni allar eigur sínar. Þá kvað Sigrún Lilju hafa verið orðna mjög illa farna undir það síðasta, út úr heiminum en rofað hafi til fyrir henni annað slagið.
Vitnið Sigríður Guðjónsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Kumbaravogi kvað Lilju hafa hrakað mikið líkamlega síðustu tvö árin sem hún lifði og eitthvað andlega. Hún hafi ekki verið vel áttuð á stað og stund undir lokin, en þó hafi hún verið misjöfn.
Mörg vitni báru fyrir dóminum um sérstaklega gott samband á milli stefndu Guðlaugar Kristínar og Lilju heitinnar. Bar þeim saman um að hún hefði heimsótt Lilju eftir að hún vistaðist á Kumbaravogi og annast um hana. Samband þeirra hafi verið eins og á milli móður og dóttur og Lilja eins og amma barna Guðlaugar.
II.
Stefnendur byggja kröfur sínar á því að stefndi Kaupfélag Árnesinga hafi með ólögmætum hætti og í heimildarleysi ráðstafað innistæðu af innlánsreikningi Lilju til stefndu Guðlaugar Kristínar. Samkvæmt meginreglum sem bankaeftirlitið hafi sett innláns- og útlánsstofnunum sé ljóst að enginn hafi heimild til úttektar af reikningum, annar en reikningseigandinn sjálfur eða þeir sem hann hefur gefið heimild til úttektar. Engin heimild hafi legið til grundvallar úttektunum önnur en óútskýranlegt skjal sem stefnda Guðlaug Kristín hafi sjálf útbúið og dagsett er 21. nóvember 1994 og heimilar að peningar Lilju verði fluttir yfir á nafn hennar með vitund Jóhannesar bróður Lilju.
Af hálfu stefnda Kaupfélags Árnesinga er því haldið fram og á því byggt að það sé ófrávíkjanleg regla hjá innlánsdeildinni að gengið sé eftir því að úttektaraðilar hafi heimild til að taka fjármuni út af reikningum og er sýknukrafan byggð á því að stefnda Guðlaug Kristín hafi haft fullt og ótakmarkað umboð Lilju Bjarnadóttur til úttektanna. Grunnurinn að úttektunum hafi verið lagður með munnlegu tilkynningarumboði Lilju til K.Á. þegar Lilja og Guðlaug Kristín hafi komið saman á skrifstofu K.Á. í desember 1993.
Þá er á því byggt að alkunna sé að reikningseigendur heimili úttektir af reikningum sínum, án þess að nokkur skrifleg heimild sé til staðar, enda séu reikningsyfirlit send reglulega til reikningseigenda og þeim þannig gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir hafi borist vegna úttektanna frá Lilju. Þá hafi Lilju borið að telja fram til skatts innistæðu sína hjá K.Á. og því hafi hún varla getað komist hjá því að kynna sér stöðu reikningssins um hver áramót. Vísar stefndi til þeirrar reglu samningaréttarins að umbjóðandi verði skuldbundinn ef hann fellst síðar á gerning umboðsmanns síns.
Þá geri K.Á. þá ófrávíkjanlegu kröfu að framvísað sé viðskiptabók við úttekt af kjörbókarreikningi, en í samræmi við 10. gr. reglna um innlánsdeild K.Á frá 20. maí 1954 skoðist handhöfn viðskiptabókarinnar sönnun fyrir löglegri heimild til úttektar af reikningi. Reglurnar eigi sér nú m.a. stoð í 2. gr. a laga nr. 22/1991 um samvinnufélög.
Ekki liggi fyrir í málinu óyggjandi sannanir fyrir því að stefnda Guðlaug Kristín hafi ráðstafað hinum úteknu fjámunum í eigin þágu. En jafnvel þó að svo hafi verið þá leiði það ekki í ljós að það hafi ekki verið með vilja Lilju. Því til stuðnings er sérstaklega vísað til hins nána sambands sem var á milli Lilju og Guðlaugar Kristínar.
Fullljóst megi vera að úttektirnar hafi ekki verið framkvæmdar í heimildarleysi enda hafi stefnda Guðlaug Kristín aldrei reynt að leyna þeim. Úttektirnar hafi farið fram á grundvelli hins munnlega umboðs sem Lilja sjálf hafði tilkynnt enda hafi hún stutt það alla tíð með vísvitandi aðgerðarleysi sínu.
Stefnda Guðlaug Kristín byggir sýknukröfu sína á því að hún hafi haft fullt og ótakmarkað umboð til þess að taka út þá fjármuni, sem stefnendur krefjast endurgreiðslu á. Lilja hafi haft ótvíræða heimild til að ráðstafa eignum sínum og fjármunum. Ekkert sé fram komið í málinu um að Lilju hafi ekki verið kunnugt um úttektir hennar, enda hafi hún reglulega fengið sendar útskriftir af reikningnum og aldrei gert athugasemdir né haft uppi andmæli við úttektunum.
Stefnda styður sýknukröfu sína að öðru leyti við sömu málsástæður og stefndi, Kaupfélag Árnesinga byggir á.
Varakrafa stefndu er byggð á því að mikið af þeim fjármunum sem hún hafi tekið út hafi runnið til Lilju, bæði í formi peninga og til greiðslu á ýmsum kostnaði. Þar sem engar kvittanir hafi gengið á milli þeirra verði að fara að álitum varðandi hvað teljist eðlilegt í því sambandi.
III.
Í máli þessu er um það deilt hvort stefnda Guðlaug Kristín hafi haft umboð Lilju Bjarnadóttur til að taka fjárhæðir þær sem stefnt er til endurgreiðslu á út af kjörbókarreikningi Lilju nr. 946136 hjá innlánsdeild Kaupfélags Árnesinga og hvort að innlánsdeildinni hafi verið heimilt að greiða stefndu út af reikningnum.
Leggja verður til grundvallar að náið samband hafi verið á milli stefndu, Guðlaugar Kristínar og Lilju, sem var barnlaus, og að stefnda heimsótti Lilju og annaðist útréttingar fyrir hana eftir að hún fluttist á Kumbaravog. Stefnda hefur borið að Lilja hafi gefið henni og börnum hennar ómælt af fé því sem hún tók út af reikningi Lilju. Verður því við það að miða að verulegur hluti fjárins hafi runnið til stefndu sjálfrar og fjölskyldu hennar, en það á sér einnig stoð í málsskjölum. Bróðir stefndu og eiginkona hans báru fyrir dóminum að Lilja hefði ætlað stefndu allar eigur sínar.
Kjörbók Lilju liggur ekki frammi í málinu, en samkvæmt reglum um innlánsdeild Kaupfélags Árnesinga skal rita það um leið í viðskiptabók í hvert skipti sem fé er lagt inn eða tekið út. Verður því við það að miða að stefnda Guðlaug Kristín hafi haft bókina undir höndum og að úttektir hennar hafi í samræmi við reglurnar verið ritaðar í viðskiptabókina.
Samkvæmt reglum innlánsdeildarinnar er það eigi á ábyrgð félagsins þótt handhafi viðskiptabókar hafi ekki löglega heimild frá réttum aðila til þess að fá útborgað. Gunnar Á. Jónsson skrifstofustjóri Kaupfélags Árnesinga upplýsti hins vegar fyrir dóminum að sú regla gilti um úttektir þriðja aðila af reikningum hjá innlánsdeildinni að auk viðskiptabókar þurfi að liggja fyrir skriflegt eða munnlegt umboð eða beiðni. Kvað hann útborganir til stefndu Guðlaugar Kristínar út af reikningi Lilju hafi farið fram á grundvelli munnlegrar beiðni Lilju sem hún hafi sett fram þegar hún kom með stefndu á skrifstofu Kaupfélagsins 15. desember 1993, en fyrir liggur að umræddan dag fékk stefnda Guðlaug greiddar kr. 100.000 út af reikningi Lilju, en ekki er stefnt til endurgreiðslu þess fjár. Við nánari umhugsun treysti hann sér þó ekki alveg til að fullyrða að Lilja hefði komið með stefndu á skrifstofuna. Engum vitnum er til að dreifa og verður því ekki á því byggt að Lilja hafi í umrætt sinn gefið munnlega heimild fyrir því að stefndu yrði framvegis greitt út af reikningi hennar.
Dagbókarfærsla skrifstofustjóra Kaupfélags Árnesinga um komu stefndu Guðlaugar Kristínar á skrifstofu hans 21. nóvember 1994 sama dag og hin fyrsta af hinum umstefndu útborgunum út af reikningi Lilju átti sér stað þykir ekki hafa sjálfstæða þýðingu í málinu, enda ekki á því byggt að útborganir til stefndu hafi farið fram á grundvelli þess sem þá fór fram.
Hins vegar er á það að líta Magnús Sigurðsson læknir, sem ritaði læknisvottorð það sem vísar er til í dagbókarfærslunni og dagsett er 18. nóvember 1994, staðfesti fyrir dóminum að Lilja hafi verið alveg skýr þegar hann ritaði vottorðið og að henni hafi verið ljóst að það væri ritað í því skyni að staðfesta að hún væri ófær um að skrifa undir umboð til Guðlaugar Kristínar vegna bæklunar í höndum. Verður því við það að miða að Lilja hafi verið heil heilsu andlega í nóvember 1994 þegar hin fyrsta af hinum umstefndu úttektum fór fram. Um andlega heilsu Lilju eftir það er ekki við annað að styðast en framburð vitnanna Sigríðar Guðjónsdóttur, hjúkrunarforstjóra á Kumbaravogi, og Sigrúnar Þórarinsdóttur mágkonu stefndu, en þeim bar báðum saman um að undir lokin hafi Lilja ekki verið vel áttuð, en þó hafi hún verið misjöfn. Af framburði þeirra þykir ekki annað verða ráðið en að Lilja hafi haldið andlegri heilsu fram undir það síðasta.
Fyrir liggur að innlánsdeildin sendir viðskiptavinum sínum, 30. júní og 31. desember ár hvert, reikningsyfirlit yfir reikninga sína. Verður því við það að miða að Lilja hafi á úttektartímanum fengið reikningsyfirlit á sex mánaða fresti og þannig átt kost á að fylgjast með stöðu reiknings síns. Þá er á það að líta að Lilju bar að telja innistæðu sína fram til skatts, en skattskýrslur hennar fyrir umrætt tímabil hafa ekki verið lagðar fram í málinu. Ekkert liggur fyrir í málinu um að Lilja hafi gert athugasemdir við reikningsyfirlitin eins og ástæða hefði verið til úttektir hefðu verið gerðar án hennar vitundar og vilja. Þegar til þess er litið og að ekkert liggur fyrir um að andlegt ástand Lilju fram undir það síðasta, hafi verið þannig að hún hafi verið ófær um að ráða fé sínu, þykir verða að líta svo á að úttektir stefnu hafi farið fram með vitund hennar og að hún hafi verið þeim samþykk. Samkvæmt því verður, þrátt fyrir að ekki liggi fyrir sönnun um að Lilja hafi fyrirfram veitt heimild fyrir úttektum stefndu, ekki hjá því komist að sýkna bæði stefndu af kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir niðurstöðu málsins skulu stefnendur greiða óskipt hvorum stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir, settur héraðsdómari. Dómsuppkvaðning hefur dregist, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning málsins óþarfan.
Dómsorð:
Stefndu, Kaupfélag Árnesinga og Guðlaug Kristín Jónsdóttir eru sýkn af kröfum stefnenda, Guðjóns Axelssonar, Jóhannesar Bjarnasonar, Svanborgar Óskarsdóttur og Þóris Óskarssonar í máli þessu.
Stefnendur greiði óskipt hvoru stefndu, 150.000 krónur í málskostnað.