Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Sekt
- Ölvunarakstur
- Svipting ökuréttar
- Blóðsýni
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2014. |
|
|
Nr. 442/2014. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Sekt. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Blóðsýni.
X var sakfelldur fyrir líkamsárás gegn A með því að hafa ráðist að A og slegið hana, tekið höndum um háls hennar og sest klofvega ofan á brjóstkassa hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli, marbletti, bólgur og sár víðsvegar um líkamann. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X fundinn sekur um að hafa ekið bifreið ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ávana- og fíkniefna og brot gegn áfengislögum með því að hafa haft í vörslum sínum heimabrugg. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að árásin var tilefnislaus og hrottafengin og að A var sambýliskona X, en árásin hafði verið gerð við heimili þeirra og A ítrekað reynt að komast undan. Þá voru brot X tekin upp sem hegningarauki við sektargerð sem hann hafði hlotið vegna fyrri brots gegn áfengislögum. Vegna dráttar á meðferð málsins var refsing X á hinn bóginn ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 3 mánuði. Þá var hann sviptur ökurétti í 18 mánuði og gert að greiða 160.000 króna sekt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og svipting ökuréttar staðfest.
Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.
I
Mál þetta var höfðað með tveimur ákærum, útgefnum 2. september 2013 og 24. sama mánaðar.
Ákæra 2. september 2013 var gefin út af lögreglustjóranum í Borgarnesi, en háttsemi ákærða er þar heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu ákærða var krafist frávísunar málsins á þeim grunni að ríkissaksóknara hefði borið að fara með mál þetta. Samkvæmt d. lið 3. mgr. og 5. mgr. VII. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með síðari breytingum er lögreglustjóri bær að lögum til að höfða sakamál sem meðal annars varðar brot gegn 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þegar af þeirri ástæðu verður frávísunarkröfu ákærða hafnað.
II
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Borgarnesi barst henni 6. september 2011 beiðni B um aðstoð vegna ætlaðrar líkamsárásar á brotaþola, A, sambúðarkonu ákærða, en hún er systir B. Er lögregla kom á vettvang hittist brotaþoli þar fyrir ásamt bræðrum sínum, B og C. Höfðu þau komið sér fyrir í bifreið C, en ákærði var inni í íbúðarhúsi. Samkvæmt skýrslu lögreglu var rætt stuttlega við brotaþola á vettvangi og tjáði hún lögreglu að ákærði og hún hefðu slegist. Hann hafi meðal annars sest klofvega ofan á sig, þar sem hún lá í jörðinni og tekið hana kverkataki. Kvað hún að sér hafi fundist sem hún væri að kafna, en hún hafi náð að taka grjóthnullung og slá ákærða í höfuðið. Við það hafi hún losnað úr greipum hans. Kvaðst brotaþoli ætla að leggja fram kæru á hendur ákærða. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi verið mjög ölvaður, en hann hafi sagt brotaþola hafa lamið sig og neitað að hafa lagt hendur á hana. Á enni hans voru áverkar sem blæddi úr. Bræður brotaþola óku henni á heilsugæslustöð til aðhlynningar, þar sem teknar voru myndir af áverkum hennar. Á brotaþola voru margvíslegir áverkar víðs vegar um líkamann sem lýst er í áverkavottorði D læknis. Þar segir að brotaþoli hafi verið skoðuð ,,eftir að sambýlismaður hennar réðist á hana.“ Um áverka segir að þeir séu kúla á hnakka og fleiður, tvær stórar kúlur á enni, mikil bólga á vinstra augnloki og vinstri kinn, þreifieymsli á neðri brún ,,orbita“ vinstra megin og yfir kjálkaliðum beggja vegna. Marblettir eftir fingur séu á hálsi, þrír hægra megin og tveir minni vinstra megin og mikil eymsli séu við þreifingu yfir barka. Mar sé hægra megin á bringu neðan við mitt viðbein. Mar og fleiður sé á báðum herðablöðum og mar eftir fingur á báðum upphandleggjum. Sár og fleiður séu á hægri olnboga, fleiður á höndum og blæðing í vöðva í hægri hnésbót.
Brotaþoli kom á lögreglustöðina á Akranesi degi síðar, þar sem hún kærði ákærða fyrir árásina og krafðist þess að honum yrði refsað. Henni var ekki bent á að hún gæti skorast undan því að gefa skýrslu um atvik vegna tengsla við ákærða samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 117. gr. sömu laga. Lýsti hún atvikum þar í samræmi við frumskýrslu lögreglu. Hún kom á lögreglustöð tveimur dögum síðar og dró kæru sína á hendur ákærða til baka, án skýringa. Fyrir dómi kannaðist hún við að hafa farið til lögreglu og gefið skýrslu um atvik þau sem ákæra á rót að rekja til. Hún kvaðst hins vegar ekki muna ,,almennilega“ eftir atburðum og hafi ítrekað reynt að draga kæru á hendur ákærða til baka.
C skýrði svo frá hjá lögreglu að brotaþoli hafi beðið sig um aðstoð umræddan dag og hafi hann ekið að heimili hennar að [...] í [...] ásamt bróður sínum B. Nálægt næsta bæ við [...] hafi hann séð brotaþola á gangi. Hún hafi tjáð sér að ákærði hefði dregið hana út úr bifreið, skellt henni í jörðina og tekið hana kverkataki.
Fyrir dómi kvað vitnið að þeir bræður hafi farið að sækja brotaþola á heimili hennar eftir að hún hafi beðið þá um hjálp. Þeir hafi tekið hana upp í bifreið og hún verið öll lemstruð og ,,sjúskuð.“ Hún hafi tjáð þeim að ákærði hefði lamið sig og reynt að kyrkja sig, en hún náð að slá hann með steini og þá losnað úr greipum hans.
B kvaðst í skýrslu sinni hjá lögreglu hafa farið með C, bróður sínum, að ná í systur sína umræddan dag. Hann kvað brotaþola hafa skolfið eins og hríslu, hún hafi verið berfætt og bersýnilega flúið að heiman í miklum flýti. Hún hafi tjáð sér að ákærði hafi lamið hana ítrekað og tekið um háls henni og reynt að kyrkja hana. Hafi brotaþoli sagt að sér hafi fundist sem hún væri að kafna. Fyrir dómi bar vitnið að brotaþoli hafi tjáð sér að hún hafi þurft að slá til ákærða til að losa um tök hans. Brotaþoli hafi tjáð sér að ákærði hefði reynt að kyrkja hana og það hefðu verið ummerki um það á hálsi hennar.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 20. ágúst 2012. Hann kvaðst ekki vilja tjá sig um málið og neitaði að svara spurningum. Fyrir dómi kvað ákærði að hann og brotaþoli hafi slegist umræddan dag og bæði fengið áverka í þeim slagsmálum. Hann sagðist ekki rengja áverka þá sem lýst er í ákæru og að brotaþoli hafi fengið þá af hans völdum. Kvaðst hann ,,iðrast allavega mjög mikið ... ég er búinn að biðja hana endalaust fyrirgefningar.“
Þórður Sigurðsson lögreglumaður kvaðst hafa fengið beiðni um lögregluaðstoð frá B, bróður brotaþola. Er lögregla kom á vettvang hafi brotaþoli verið komin inn í bifreið til bræðra sinna, en hún hafi verið „auðsjáanlega mjög lemstruð ... og aum.“
Sigurkarl Gústafsson lögreglumaður kvaðst hafa farið á vettvang. Þegar þangað var komið hafi brotaþoli verið komin upp í bifreið til bræðra sinna og hafi verið á henni ,,smá áverkar“. Bræður hennar hafi ekið henni á slysadeild. Hafi hann rætt við hana þar og hún tjáð sér að hún og ákærði hefðu verið að slást og ákærði meðal annars skellt henni niður í jörðina og setið ofan á henni og ,,verið að kyrkja hana“, en hún hafi náð að slá hann með grjóti.
III
Brotaþoli kom sjálfviljug á lögreglustöð daginn eftir að ætluð líkamsárás átti sér stað og kærði ákærða fyrir líkamsárás. Við skýrslutöku af henni sama dag var þess ekki gætt að benda henni á að hún gæti skorast undan því að tjá sig um atriði sem gætu falið í sér refsiverða háttsemi ákærða.
Eins og rakið hefur verið báru bræður brotaþola fyrir lögreglu og dómi að á vettvangi hefði hún lýst því fyrir þeim að ákærði hafi slegið sig ítrekað og tekið hálstaki svo henni lá við köfnun. Á sama veg bar annar þeirra lögreglumanna sem komu á vettvang og ræddi við brotaþola. Áverkar á brotaþola sem lýst er í vottorði læknis samrýmast frásögn framangreindra vitna, en einnig framburði ákærða fyrir dómi sem kvaðst ekki rengja þá áverka sem á henni voru og í ákæru greinir. Brotaþoli tjáði sig ekki um háttsemi ákærða fyrir dómi og kvaðst ítrekað hafa óskað eftir því að draga kæru sína til baka.
Jafnvel þótt skýrslugjöf brotaþola hjá lögreglu hafi, eins og fyrr er rakið, verið í andstöðu við 2. mgr. 65. gr., sbr. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 og sé því ófullnægjandi sönnun um sekt ákærða, fær frásögn hennar stoð í framburði ákærða fyrir dómi, skýrslugjöf bræðra brotaþola fyrir lögreglu og fyrir dómi, framburði annars þeirra lögreglumanna sem á vettvang komu og vottorði læknis um áverka brotaþola. Að öllu þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Í ákæru er afleiðingum árásar ákærða lýst sem kúlum á líkama brotaþola, fleiðri, bólgu, eymslum, sári, marblettum, þar á meðal marblettum eftir fingur beggja megin á hálsi, og blæðingu í vöðva í hægri hnésbót. Því er ekki lýst að brotaþola hafi legið við köfnun er ákærði tók höndum um háls hennar. Þegar litið er til þeirra afleiðinga árásar ákærða, sem lýst er í ákæru, verður háttsemi hans heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt 2. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga skal mál ekki höfðað út af broti samkvæmt 1. mgr. greinarinnar nema almenningshagsmunir krefjist þess. Brot ákærða var í ákæru heimfært undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og fólst í því mati að brotið væri þess eðlis að uppfyllt væru skilyrði þess ákvæðis til útgáfu ákæru. Ekki eru efni til að hrófla við mati á því að tilefni væri til ákæru þótt brotið hafi verið heimfært undir 217. gr. laganna.
Fyrningarfrestur var rofinn með yfirheyrslu ákærða hjá lögreglu 20. ágúst 2012, en brotið var sem fyrr segir framið 6. september 2011. Var sök hans því ekki fyrnd 2. september 2013 þegar málið var höfðað, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og 1. og 4. mgr. 82. gr. sömu laga.
IV
Með ákæru 24. september 2013 var ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið 29. júní sama ár undir áhrifum áfengis og ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ávana- og fíkniefna. Þá var hann einnig ákærður fyrir brot gegn áfengislögum. Ákærði játaði þá háttsemi sem greinir í ákæru við þingfestingu málsins, en dró játninguna til baka við aðalmeðferð málsins. Afturhvarf hans frá játningu byggðist á því að hann drægi í efa niðurstöðu rannsóknar á magni áfengis og fíkniefna í blóði, þar sem læknanemi hafi dregið úr honum blóð, en ekki læknir. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 annast læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur töku blóðsýnis þegar grunur leikur á að ökumaður hafi ekið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Af gögnum málsins verður ráðið að læknaneminn sem tók blóðsýni úr ákærða var til þess bær þar sem hann var með tímabundið lækningaleyfi á þeim tíma er blóðsýnið var tekið. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða samkvæmt ákærunni svo og heimfærsla brotsins til refsiákvæða. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um brot ákærða gegn áfengislögum nr. 75/1998 og heimfærsla þess brots til refsiákvæða.
V
Samkvæmt sakavottorði ákærða var honum gerð 50.000 króna sekt vegna brota gegn áfengislögum með dómi 24. október 2011. Er brot ákærða samkvæmt ákæru 2. september 2013 því hegningarauki við þá sektargerð, en sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Verður refsing ákærða ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun hennar verður horft til þess að fyrrgreind líkamsárás var algjörlega tilefnislaus og hrottafengin og hlaut brotaþoli áverka víðs vegar um líkamann af völdum hennar. Er háttsemin sérstaklega vítaverð þegar litið er til þess að brotaþoli er sambúðarkona ákærða og árásin var gerð á og við heimili þeirra, þar sem ákærði veittist ítrekað að henni, þrátt fyrir tilraunir hennar til að komast undan honum. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af 1., 2. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 3. mgr. sömu greinar, verður ákvörðun hins áfrýjaða dóms um fangelsisrefsingu ákærða staðfest. Þá verður ákvæði dómsins um sektarrefsingu ákærða staðfest.
Eins og að framan er rakið kom lögregla á vettvang 6. september 2011 er óskað var eftir aðstoð vegna árásar ákærða á sambúðarkonu sína. Hún lagði fram kæru á hendur honum næsta dag og var skipaður réttargæslumaður 31. október 2011. Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu tæpu ári síðar, 20. ágúst 2012, og ákæra á hendur honum gefin út 2. september 2013. Voru þá liðin um tvö ár frá því að atvik áttu sér stað. Málið var þingfest 17. október 2013, en frestað ótiltekið og aðalmeðferð háð í því sjö mánuðum síðar. Hefur engin haldbær skýring verið gefin á þessum drætti á meðferð málsins og brýtur hún í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár. Vegna þessa dráttar á málsmeðferðinni verður refsing ákærða skilorðsbundin eins og kveðið er á um í héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins 27. maí 2014 og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 401.933 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 20. maí 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl. er höfðað af lögreglustjóranum í Borgarnesi á hendur X kt. [ ],[ ],[ ].
I
Með ákæru útgefinni 2. september 2013
„fyrir líkamsmeiðingar, með því að hafa þriðjudaginn 6. september 2011, staddur á heimili sínu að [ ],[ ], ráðist á A kt. [ ], eftir deilur þeirra á milli, fyrst, er hún sat bílstjóramegin inni í bíl og ætlaði að aka á brott, tekið um háls hennar og ýtt höfði hennar niður yfir í farþegasæti bifreiðarinnar, síðan, inni í húsinu, ráðist hana, skellt henni í gólfið og velt sófaborði á hans, og slegið hana, og síðan, er hún hafði flúið út úr húsinu, elt hana, skellt henni í jörðina og sest klofvega ofan á brjóskassa hennar og tekið höndum um háls hennar, með þeim afleiðingum að A fékk kúlu á hnakka og fleiður, tvær stórar kúlur á enni, bólgu við vinstra augnlok og vinstri kinn, þreifieymsli á neðri brún „orbita" [augntóftarsvæði] vinstra megin og yfir kjálkaliðum beggja vegna, marbletti eftir fingur á hálsi (þrjá hægra megin og tvo vinstra megin), mar hægra megin á bringu neðan við mitt viðbein, mar og fleiður á báðum herðablöðum, mar eftir fingur á upphandlegg (einn á hægri upphandlegg og tvo á vinstri upphandlegg), sér á hægri olnboga og fleiður, fleiður höndum, og blæðingu í vöðva í hægri hnésbót.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Tildrög máls þessa eru þau að þriðjudaginn 6. september 2013 tilkynnti B lögreglunni í Borgarnesi að hann ásamt bróður sínum væri á leið að [ ] í [ ]og kvað ákærða hafa lamið systur þeirra, brotaþola í máli þessu. Er lögreglumenn komu á vettvang var brotaþoli, sem sat inni í bíl bróður síns C, sjáanlega lemstruð og ötuð blóði. Hafi hún sagt að blóðið væri ekki úr sér. Ákærði hafði lokað sig inni í íbúðarhúsinu að [ ] og vildi engum hleypa inn og var æstur og ölvaður. Bræður brotaþola fluttu hana á heilsugæsluna í Borgarnesi en eftir það kom ákærði út og vildi tala við lögreglumennina og bauð þeim inn. Hann hafi ekki verið viss um hvað hefði gerst. Hafi hann verið óstöðugur og þvoglumæltur og neitaði því að hafa lagt hendur á brotaþola. Hún hefði verið að lemja hann og benti á sár á enni sér sem blæddi úr. Hafi brotaþoli slegið höfði hans í glerborð inni í stofunni og hafi það brotnað við það. Hann teldi enga áverka vera á brotaþola en hann hefði ekki gert henni neitt. Tekin var mynd af sárum ákærða og stofunni. Lögreglumennirnir fóru síðan á heilsugæsluna í Borgarnesi og ræddi þar við brotaþola sem sagði þau ákærða hafa slegist og meðal annars hefði ákærði setið klofvega á henni og haldið um kverkar henni en hún náð að berja hann með grjóti í höfðið og hafi hún losnað við það. Hún hafi reynt að komast að næsta bæ en ákærði elt hana uns bræður hennar hafi komið henni til hjálpar. Hún hafi verið með sjáanleg för á hálsi og mjög bólgin í andliti og að sögn læknis hefði líklega blætt inn á lið við hnésbót. Kvaðst hún kæra þetta.
Í skýrslu hjá lögreglu 7. september 2011 sagði brotaþoli að hún hefði sótt bróður sinn á Keflavíkurflugvöll. Á leiðinni til baka hefði ákærði hringt í hana og haf hann verið drukkinn og frekar dónalegur við hana í símann. B hefði heyrt samtal þeirra og sagt að ákærði bæri enga virðingu fyrir henni. Hún hafi ekið B heim til C bróður þeirra og síðan heim til sín að [ ]. Ákærði hafi verið mikið drukkinn og mjög æstur og haft við orð að hún væri ekki eins og hún ætti að sér að vera og spurt hvort hún vildi segja eitthvað við hann. Hún hefði sagt að henni fyndist hann ekki bera virðingu fyrir sér. Ákærði hefði þá orðið mjög reiður og brotið glerplötu í sófaborði í stofunni. Hún hafi forðað sér út með hundana, sett þá inni í bílinn og ætlað að aka á brott. Ákærði hefði elt hana út og skipað henni að opna hurðina á bílnum en hún ekki þorað því fyrr en hann hafi gert sig líklegan til að brjóta bílrúðuna. Ákærði hafi þá gripið um háls hennar og ýtt henni niður í farþegasætið yfir miðjustokkinn í bílnum, tekið bíllyklana og farið inn í húsið. Hafi hann verið mjög æstur og öskrað á hana hvað eftir annað að koma sér inn með hundana. Hún hafi gert það að lokum. Þegar inn var komið hafi ákærði ráðist á hana og hvolft sófaborðinu yfir hana og lagst ofan á borðið og hana og kýlt hana nokkrum sinnum í gegnum grind sem hefði haldið borðplötunni. Hann hafi síðan sleppt henni og hún hlaupið út, berfætt. Ákærði hafi elt hana og skellt niður í jörðina og sest klofvega ofan á hana með hnén á handleggjum hennar. Hann hafi tekið um kverkar henni og hert að þannig að henni lá við köfnun en henni hafi tekist að losa annan handlegg sinn og ná taki á steini sem hún hafi slegið hann með í höfuð eða andlit. Honum hefði strax farið að blæða og hún grátbeðið hann um að sleppa sér sem hann hafi að lokum gert. Hún hafi hlaupið af stað að næsta bæ en ákærði hafi elt hana á mótorhjóli. Bróðir hennar C hafi komið akandi og hafi hún farið inn í bíl hans og þau farið að [ ] og hún sótt dót sem hún hafi átt, símann sinn og fleira. B hafi sótt dót sem hún hafi átt í bíl ákærða. Ákærði hefði er hann kom að farið að æsa sig við B yfir þessu en B snúið hann niður og haldið honum en ákærði verið mjög æstur og hrækt á B. Þegar þarna var komið hefði lögreglan rennt að bænum og þau þá skömmu síðar farið í burtu og hún farið til skoðunar á heilsugæsluna í Borgarnesi. Hún hefði farið suður til Reykjavíkur í röntgenmyndatöku því læknirinn hafi óttast að hún hefði kinnbeinsbrotnað við árásina, eða flísast úr beini undir öðru auga hennar. Sagði A að teknar hefðu verið myndir af áverkum hennar á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi en hún væri með áverka á andliti, hálsi, handleggjum baki og fótlegum eftir árásir ákærða. Óskaði A eftir því að henni yrði tilnefndur réttargæslumaður sem myndi gæta hagsmuna hennar í Kvaðst hún einnig kæra X fyrir árásina og krefjast þess að honum yrði refsað fyrir verknaðinn.
Hinn 9. september 2011 kom brotaþoli á lögreglustöðina í Borgarnesi og kvaðst vera mætt til þess að draga kæru sína á hendur ákærða fyrir líkamsárás til baka. Hún greindi engar ástæður fyrir þessari ákvörðun sinni.
Með bréfi dagsettu 7. október óskaði lögreglustjórinn í Borgarnesi að embætti ríkissaksóknara legði mat á það hvort ákvæði 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kæmi til álíta hvað varðaði þær aðferðir sem ákærði hafi beitt. Þá var óskað eftir áliti/fyrirmælum embættisins hvernig túlka skyldi 2. mgr. 217. gr. teldist tilvikið heyra undir 217. gr. og hvaða þýðingu lokamálsliður 2. mgr. 218. gr. b hefði í málum sem þessum. Í svari ríkissaksóknaraembættisins dagsettu 26. október 2011 kemur fram að lagt sé til grundvallar að sakarefni málsins geti varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 , sbr. síðari breytingar vegna hættulegrar verknaðaraðferðar. Þá var á það bent að sá galli væri á skýrslutökum af bræðrum brotaþola og henni sjálfri að ekki hefði verið gætt ákvæða 2. mgr. 117. gr. laga um meðferð sakamála við skýrslutökurnar og skyldi úr því bætt.
Að svo búnu voru skýrsla tekin að nýju af C 7. nóvember 2011 sem vísaði til fyrri skýrslu sinnar hjá lögreglu frá 28. september 2011 þar sem fram kom að Hann hefði ekið að [ ] í bifreið sinni ásamt bróður sínum, B. Á leiðinni hafi þeir séð ákærða á mótorhjóli og brotaþola á gangi á undan ákærða. Hún hafi verið blóðug en sagt vitninu að blóðið væri frá ákærða en hún hefði slegið hann með steini í höfuðið en ákærði hefði skellt henni í jörðina og tekið hana kverkataki. Í síðari skýrslu sinni kvaðst vitnið hafa miklar áhyggjur af systur sinni í sambúð hennar og sambandi við ákærða. Hún sé mjög hrædd við hann og til dæmis hafi hún flúið af heimili sínu í [ ] í tvígang heim til C en í þessum tilfellum hafi ákærði verið búinn að drekka of mikið og A orðið hrædd við hann og flúið heimilið.
Í síðari skýrslu sinni hjá lögreglu frá 7. nóvember 2011 sagði B brotaþoli hafi sótt hann á Keflavíkurflugvöll fyrr um daginn. Hún hafi talað við ákærða á leiðinni í Borgarnes. Ákærði hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis og verið með eitthvað „dónatal“. Vitnið kvaðst hafa sagt við brotaþola að sér fyndist sem ákærði kæmi illa fram við hana. Brotaþoli hafi svo farið heim til sín að [ ]. Stuttu síðar hafi ákærði hringt í vitnið B og taldi vitnið að brotaþoli hefði verið að ræða við ákærða um hvernig ákærði kæmi fram við hana. Hafi ákærði ekki verið sáttur við afskipti vitnisins. Ákærði hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis. Stuttu síðar hafi brotaþoli hringt, og spurt hvort þeir bræður geti ekki komið og sótt sig. Hún hafi þá verið úti í bíl og ákærði búinn að taka kveikjuláslykilinn af henni. Vitnið sagði að brotaþoli hafi enn hringt og nú í C og öskrað í símann og sagt að ákærði væri að draga sig út úr bílnum og svo hafi sambandið slitnað. Hafi hann þá hringt eftir aðstoð lögreglu og þeir bræður einnig hraðað sér á vettvang. Þeir hafi séð brotaþola á næsta bæ við [ ] og tekið hana þar upp í bifreiðina. Á leiðinni til læknis hafi brotaþoli lýst því hvernig ákærði hefði dregið hana út úr bifreiðinni og lamið hana ítrekað og svo tekið um háls hennar og reynt að kyrkja hana. Hafi hún sagst hafa upplifað þetta sem sitt síðasta og að henni hafi fundist eins og að hún væri að kafna, verið að missa meðvitund. Hún hafi sagst hafa náð í stein og lamið ákærða með honum til að losna og hafi það dugað til að ákærði hafi sleppt takinu af hálsi brotaþola. Hún hafi sagst hafa hlaupið í átt að næsta bæ og þeir bræður hitt hana þar fyrir. Er þeir hafi komið að brotaþola fyrst hafi hún verið í mjög miklu sjokki, hafi skolfið eins og hrísla og verið mjög hrædd. Hún hafi verið berfætt og alblóðug og greinilegt að hún hefði flúið af heimili sínu í miklum flýti. Hún hafi svo róast tiltölulega fljótt eftir að þeir bræður hafi komið henni til hjálpar.
Hinn 20. ágúst 2012 mætti ákærði á lögreglustöðina í Borgarnesi og kvaðst hann ekki vilja tjá sig um málið og neitaði að svara spurningum um það hjá lögreglu.
Fyrir liggur áverkavottorð d læknis þar sem segir að læknirinn hafi skoðað brotaþola 6. september 2011. Hafi brotaþoli lýst atvikum þannig að ákærði hafi tekið hana hálstaki hafi henni fundist á tímabili sem hún væri að missa meðvitund, og hafi hann endurtekið kýlt hana í andlit og höfuð. Hann hafi klemmt hægri ganglim hennar milli borðs og veggjar. Átökin hafi hafa átt sér stað bæði inni og utan dyra en hann hafi elt hana út. Brotaþola hafi verið mjög brugðið, og hafi liðið illa. Hún hafi verið alblóðug á andliti og bringu en sagt blóð vera úr sambýlismanni
Áverkar hafi verið eftirtaldir:
Kúla á hnakka og fleiður, 2 stórar kúlur á enni, Mikil bólga á vi augnloki og vi kinn, þreifieymsli á neðri brún orbita vi megin og yfir kjálkaliðum beggja vegna. Marblettir eftir fingur á hálsi 3 hægra megin og 2 minni vi megin, mikil eymsli við þreifingu yfir barka. Eðlileg öndun, kynging og tal. Mar hægra megin á bringu neðan við mitt viðbein. Mar og fleiður á báðum herðablóðum, mar eftir fingur 1 á hægri upphandlegg, 2 á vinstri. Sár á hægri olnboga og fleiður. Fleiður á höndum. Blæðing í vöðva í hægri hnésbót.
Tölvusneiðmynd af andlitsbeinum og hálsi/barka hafi ekki sýnt beinbrot.
Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði sagði að hann hafi verið fullur og leiðinlegur heima er brotaþoli kom. Hafi þau farið að rífast og það endað með áflogum. Hann sagðist muna illa eftir atvikum enda hafi hann verið illa haldinn af drykkju. Spurður um áverka á honum sjálfum kvaðst hann ekki muna hvað hefði gerst. Hann kvað þau brotaþola vera í sambúð enn í dag en þau hafi sæst. Hann kvaðst ekki rengja atvikalýsingu í ákæru. Hann kvaðst hafa son sinn hjá sér og vera edrú og hafa verið það frá því í júnílok á síðasta ári.
Brotaþoli sagði að hún myndi ekki lýsingu frá því að hún gaf skýrslu sína hjá lögreglu en rengdi hana ekki. Ákærði hafi verið drukkinn og leiðinlegur og þau hafi rifist og lent í áflogum.Blætt hafi úr sári á honum eftir högg með steini. Hún hafi ekki viljað fylgja þessu máli eftir en sambúð þeirra ákærða sé nú góð.
Vitnið B bróðir brotaþola sagði að hún hefði sótt hann á Keflavíkurflugvöll og þau farið til C. Hún hafi síðan ekið heim að [ ] en hringt síðar og sagt að ákærði væri fullur og hvort þeir geti sótt hana. Þeir bræður hafi komið að henni og hún hafi verið í bíl C og þau ekið að [ ] þar sem hún hafi tekið föt og fleira úr húsinu en vitnið farið í bíl ákærða og tekið dót sem brotaþoli hafi átt þar. Ákærði hafi brugðist illa við þessu en vitnið tekið hann og keyrt niður í jörðina. Skömmu seinna hafi lögregla komið á vettvang en þeir ekið með brotaþola á heilsugæsluna. Brotaþoli hafi sagt þeim að þau hefðu verið að rífast, hann hefði brotið borð og haldið henni undir því. Síðan hafi hann reynt að kyrkja hana og hún þurft að slá hann með steini en vitnið kvaðst hafa séð far eftir hendur á hálsi brotaþola. Vitnið kvað samskipti við brotaþola eftir þetta vera lítil en góð og í lagi við ákærða.
Vitnið C sagði brotaþola hafa hringt hrædd og kjökrandi og beðið um hjálp. Þeir hafi hringt í lögreglu á leiðinni að [ ] til öryggis. Hún hafi verið a gangi og þeir tekið hana upp í en hún hafi verið lemstruð og sjúskuð. Þau hafi farið að [ ] til að ná í síma hennar og fleira. B og ákærði hafi átt í einhverju rifrildi yfir öllu þessu. Síðan hafi þau farið á heilsugæsluna þar sem brotaþoli var skoðuð og síðna á lögreglustöðina Brotaþoli hafi sagt að ákærði hefði verið fúll yfir því að hún hefði sótt B og að hann hefði verið að reyna að kyrkja hana þar sem hún hafi legið undir honum en hún náð í stein, slegið hann og sloppið frá honum.
Vitnið Sigurkarl Gústavsson lögreglumaður sagði að er þeir Þórir Sigurðsson lögreglumaður komu á vettvang hafi brotaþoli verið í bíl C en ákærði innan dyra að [ ]. Smááverkar hafi verið á brotaþola og blóð sem hún hafi sagt að væri ekki frá henni sjálfri. Bræður hennar hafi flutt hana á heilsugæslustöðina. Ákærði hafi komið út og viljað ræða við þá og boðið þeim inn. Hann hafi ekki verið viss um hvað hefði gengið á. Hann hafi verið með sár á höfði og sagði brotaþola hafa skellt honum á glerborð í stofunni. Lögreglumennirnir hafi síðan farið á heilsugæslustöðina þar sem brotaþoli hafi sagt frá því að ákærði hafi setið ofan á henni og reynt að kyrkja hana.
Vitnið Þórður Sigurðsson lögreglumaður Kvað B hafa tilkynnt um erjur í [ ] og beðið lögreglu um að koma. Ákærði hafi verið inni í húsinu en brotaþoli verið fyrir utan. Hún hafi verið blóðug en sagt að blóðið væri ekki úr henni. Bræður hennar hafi farið með hana á heilsugæsluna. Ákærði hafi verið mjög ölvaður og þvoglumæltur. Hann hafi ekki kannast við að hafa ráðist á hana en hún hafi ráðist á hann. Vitnið kvað blóðugan stein hafa verið úti og sagði að ákærði hefði verið með skurð á höfði en hafi ekki viljað fara til læknis.
Vitnið D yfirlæknir staðfesti áverkavottorð sitt frá 13. september 2011 og kvað brotaþola ekki hafa verið beinbrotna og að áverkar ekki lífshættulegir.
Ákærði sem kvaðst hafa verið drukkinn og mundi atvik illa sagðist þó ekki rengja atvikalýsingu í ákæru. Brotaþoli hefur verið stöðug í frásögn sinni um atvik allt frá því að hún skýrði bræðrum sínum, lögreglu, lækni og dóminum frá þeim. Þá hafa vitnin C, B og lögreglumennirnir Þórir og Sigurkarl lýst aðstæðum á vettvangi og aðkomu þannig að ljóst er að átök urðu með ákærða og brotaþola og af vottorði læknis þar sem áverkum brotaþola er lýst og ljósmyndum sem teknar voru af brotaþola má glögglega ráða að atvikalýsing í ákæru verður ekki rengd með skynsamlegum hætti.
Þykir fram komin sönnun um að ákærði haf gerst sekur um brot það sem honum eru gefin í sök í ákæru og með vísan til þess að sannað þykir að ákærði hafi tekið hana kverkataki og að hún bar þess merki á hálsi svo og til áverka hennar að öðru leyti þykir brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Með ákæru dagsettri 24. september 2013
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfararnótt laugardagsins 29. júní 2013, ekið bifreiðinni YD-897, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði var 1,87 prómill), og ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru skv. lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum skv. þeim (magn tetrahýdrókannabínól í blóði var 2,9 ng/m1), eftir Hvalfjarðarvegi þar til á móts við
þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn, og fyrir brot gegn áfengislögum með því að hafa aðfaramótt laugardagsins 29. júní 2013, haft í vörslum sínum ca. 1 líter af heimabruggi (s.k. landa), í eins líters flösku sem falin var bifreiðinni að YD-897, en lögreglan fann áfengið í bifreiðinni eftir að ákærði hafði vísað á það.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45_ gr., og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, og 5. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr., sbr. 2. mgr., 27. gr., afengislaga nr. 75/1988 með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá er þess krafist að gerð verði upptæk með dómi ca. 1 líter af heimabruggi (s.k. landa), í eins líters flösku, sem lögreglan lagði hald á þann 29. júní 2013. Upptökukrafan styðst við 2. mgr. 28. gr. áfengislaga nr. 75/1988 með síðari breytingum.“
Við þingfestingu máls þessa játaði ákærði sök og heimilaði upptöku samkvæmt kröfu í ákæru.
Við aðalmeðferð máls þessa dró ákærði játningu sína til baka. Hann kvaðst þó hafa verið búinn að drekka og viðurkenndi neyslu. Hann gaf þá skýringu að hann dragi í efa niðurstöðu rannsóknar á áfengismagni og fíkniefnum í blóði þar sem læknir hafi ekki tekið frá honum blóð, heldur læknanemi. Hins vegar gerði hann ekki athugasemdir við upptökukröfu í ákæru og féllst á hana. Þá komu engar athugasemdir fram við framkvæmd mælinga áfengismagns eða fíkniefna í blóði.
Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn segir að Landlæknir megi, ef nauðsyn krefur, veita þeim sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis tímabundið starfsleyfi til að sinna tilgreindum læknisstörfum. Í slíkum tilvikum skuli læknanemi starfa með lækni með ótakmarkað lækningaleyfi.
Í 4. gr. læknalaga, nr. 53/1988 sem í gildi voru er atvik máls þess urðu sagði að ef nauðsyn krefði mætti landlæknir fela læknakandídötum eða læknanemum, sem lokið hafa 4. árs námi, að gegna tilgreindum læknisstörfum um stundarsakir og hafi viðkomandi þá lækningaleyfi á meðan hann gegni þeim störfum. Í slíkum tilvikum skyldi læknanemi starfa með lækni.
Fram kom í skýrslu vitnisins D yfirlæknis heilsugæslustöðvar að læknaneminn E sem tók blóðsýni frá ákærða umrætt sinn hafi starfað samkvæmt tímabundnu lækningaleyfi á því tímabili sem hér er fjallað um. Er á því að byggja að taka blóðsýnis frá ákærða hafi farið fram í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 301/2008 um töku sýna og rannsókn vegna aksturs undir áhrifum vímuefna. Eru mótbárur hans við sýnatökunni því haldlausar og ákærði verður sakfelldur fyrir brot þau sem honum eru gefin í sök í ákærðu sem þar eru réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki sakarferil sem skiptir máli hér og þykir refsing hans, sem ákveðst skv. 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði og 160.000 krónur í sekt í ríkissjóð. Rétt þykir að skilorðsbinda fangelsisrefsingu ákærða og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá skal ákærði sviptur ökurétti í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja. Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Ákærði X sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 12 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.
Ákærði er sviptur ökuréttindum í 18 mánuði frá birtingu dóms þessa.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar, hdl. 288.650 krónur auk ferðakostnaðar verjandans 37.872 krónur. Loks greiði ákærði sakarkostnað samkvæmt yfirliti og vegna áverkavottorðs, samtals að fjárhæð 108.473 krónur.