Hæstiréttur íslands

Mál nr. 395/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Föstudaginn 8. júní 2012.

Nr. 395/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. júní 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júní 2012.

                Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess að ákærðu, X, kennitala [...], til heimilis að [...] í [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 20. júní 2012, kl. 16:00.

                Í greinargerð ríkissaksóknara segir að með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. febrúar 2012, hafi ríkissaksóknara borist gögn í máli 007-2011-[...]. Með ákæru, dags. 14. mars 2012, hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál á hendur X, kennitala [...], Y, kennitala [...], Z, kt. [...], Þ, kt. [...], Æ, kt. [...] og Ö, kt. [...] sem hér greinir:

I.

Gegn ákærðu X, Y, Z, Æ og Ö fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, rán, nauðgun og þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi, aðfaranótt fimmtudagsins 22. desember 2011. Að undirlagi ákærða Y og ákærðu X, sem lögðu á ráðin og skipulögðu verknaðinn, héldu ákærðu X, Æ, Z og Ö að heimili A, kt. [...], að [...] í [...] þar sem ákærði Ö lauk upp útidyrunum með lykli, skildi dyrnar eftir ólæstar og greiddi þannig fyrir inngöngu meðákærðu X, Z og Æ, sem skömmu síðar ruddust í heimildarleysi inn á heimili A og veittust að B, kennitala [...], sem var staddur í íbúðinni, þvinguðu hann með ofbeldi út úr íbúðinni og læstu útidyrunum. Þá veittust þau með ofbeldi að A, slógu og spörkuðu ítrekað í höfuð hennar og líkama, m.a. með leðurkylfu, skelltu henni í gólfið, drógu hana á hárinu um íbúðina, reyttu og klipptu eða skáru hár hennar og rifu það upp með rótum, skáru eða klipptu í hægri vísifingur hennar, slitu upp nögl á sama fingri, hótuðu því að taka af henni alla fingur ef hún segði til þeirra og neyddu upp í hana fíkniefnum. Þá lagði ákærða X hníf að hálsi A, auk þess sem hún tók um háls A og þrengdi að öndunarvegi hennar. Ákærði Z stakk fingrum upp í endaþarm A og leggöng og klemmdi á milli ennfremur sem hann sagði við hana að hún hefði ekki átt að „fokkast í þessari fjölskyldu“. Ákærðu X, Æ og Z höfðu á brott með sér farsíma þeirra A og B auk lyklakippu A sem hafði m.a. að geyma hús-, bíl- og auðkennislykil. Ákærði Ö skildi A eftir meðvitundarlitla, liggjandi í blóði sínu án bjargar og læsti útidyrahurðinni er hann hafði sig á brott.

Brot ákærðu var liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka en ákærðu öll eru meðlimir í eða hafa tengsl við samtök sem lögregla hér á landi og erlendis hefur skilgreint sem alþjóðleg glæpasamtök, en samtökin eru [...] auk stuðningssamtakanna [...] og [...]. Verknaður ákærðu var annars vegar hefndaraðgerð og hins vegar liður í því að endurheimta bifhjól sem ákærða X taldi vera í sinni eigu en komst í vörslur A skömmu fyrir árásina og til að endurheimta farsíma ákærðu X sem var einnig í vörslum A og hafði að geyma tilteknar myndir af ákærðu X.

Við atlöguna hlaut A heilahristing, mar, skrámur og yfirborðshrufl á andliti, gagnaugum, hægri eyrnasnepli og höfði, glóðarauga og bólgu á vinstra auga, skallabletti í hársverði, mar á hægra kjálkabarði, mar og roðaför hægra megin á hálsi, dreifð eymsli í brjóstkassa og yfirborðsáverka á kvið, yfirborðsáverka á baki, roðabletti og fjölmargar rispur á upphandleggjum, báðum öxlum og ofanverðu baki, mar á vinstri kálfa, mar og eymsli á hægri sköflungi og tognun í lendhrygg, brjósthrygg og hálshrygg, alldjúpan 2 sm skurð á hægri vísifingri og lausa nögl, roða og margar húðrispur innanvert á lærum, bogadregna rispu rétt utan við endaþarmsop vinstra megin, stóran marblett á vinstri rasskinn og annan minni þar fyrir neðan, mikil eymsli í endaþarmi, leggöngum og spönginni þar á milli og áfallastreituröskun.

Brot ákærðu X, Y, Z, Æ og Ö teljast varða við 175. gr. a., 1. mgr. 194. gr., 2. mgr. 218. gr. og 252. gr., , almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem brot ákærða Ö telst einnig varða við 1. mgr. 220. gr. sömu laga.

II.

Gegn ákærða Þ fyrir þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi, sbr. I. ákærulið, með því að hafa, að tilstuðlan ákærða Einars Inga fyrir árásina sem þar er lýst, tekið við poka skömmu eftir árásina sem hafði að geyma fatnað, þ.e. skíðagrímu og jakka, sem ákærði Z klæddist við árásina, auk ofangreindrar leðurkylfu, en ákærðu X, Æ og Z afhentu ákærða Þ pokann á dvalarstað hans að [...],[...]. Ákærði Þ geymdi innihald pokans á heimili sínu þar til lögregla haldlagði munina þann 30. desember 2011.

Telst þetta varða við 175. gr. a. almennra hegningarlaga.

                Málið, sem hafi fengið númerið S-215/2012, hafi verið þingfest 30. mars sl. í Héraðsdómi Reykjaness og ákærða X neitað sök og hafnað framkominni bótakröfu. Aðalmeðferð málsins hafi verið lokið 9. maí sl. og málið þá dómtekið. Dómsformaður hafi gert saksóknara viðvart um að vegna umfangs málsins sé fyrirséð að dómsuppsaga dragist á langinn.

                Að mati ríkissaksóknara liggi ákærða undir sterkum grun um að hafa í félagi við aðra ákærðu framið þau brot sem tilgreind eru í ákæru, þá varði brot gegn 1. mgr. 194. gr., 2. mgr. 218. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 allt að 16 ára fangelsi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á er þess krafist að ákærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hennar er til meðferðar fyrir héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti er vísað til fyrri úrskurða Héraðsdóms Reykjaness um gæsluvarðhald ákærðu, nr. R-439/2011, R-27/2012, R-49/2012, R-89/2012, R-131/2012, R-196/2012 og R-241/2012 og dóma Hæstaréttar nr. 695/2011, 21/2012, 107/2012, 166/2012 og 323/2012.

                Ákærða hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 22. desember sl. Fyrst vegna rannsóknarhagsmuna en svo vegna almannahagsmuna, nú síðast með dómi Hæstaréttar í máli nr. 323/2012. Aðalmeðferð lauk 9. maí sl. og málið var dómtekið en vegna umfangs málsins er fyrirséð að dómsuppsaga dregst. Að þessu virtu og með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu ríkissaksóknara um að ákærða sæti áfram gæsluvarðhaldi, en þó eigi lengur en til 18. júní nk., eins og nánar greinir í úrskurðarorði.           

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Ákærða, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. júní 2012, kl. 16:00.