Hæstiréttur íslands
Mál nr. 491/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
|
|
Mánudaginn 17. ágúst 2015. |
|
Nr. 491/2015.
|
M (Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl.) gegn K (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli M og K vegna hjónaskilnaðar þeirra. Annars vegar var hafnað kröfu M um að lán K við Lánasjóð íslenskra námsmanna kæmi ekki til frádráttar hjúskapareignum hennar og hins vegar kröfu K um að skuld M vegna bílasamnings kæmi ekki til frádráttar hjúskapareignum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2015, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við fjárslitin verði lán varnaraðila hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna ekki látið koma til frádráttar hjúskapareignum hennar ,,nema að því leyti sem skuldin verði að hámarki greidd eða 4.258.750 kr.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. júní síðastliðinn, barst dóminum með bréfi skiptastjóra, Hjördísar E. Harðardóttur hrl., 17. mars 2015. Styðst málskotið við 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Sóknaraðili er K, [...], [...].
Varnaraðili er M, [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að frumvarp skiptastjóra verði samþykkt eins og það var lagt fram á skiptafundi 11. mars 2015 að öðru leyti en því að gerð er krafa um að hafnað verði að skuld sem sögð er vegna bílasamnings við Lýsingu að fjárhæð 2.307.932 krónur verði færð sem skuld mannsins. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að 2.307.932 krónur verði samþykktar sem hjúskaparskuld varnaraðila. Þá er gerð krafa um að lán sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna komi ekki til frádráttar hjúskaparskuldum hennar nema að því leyti sem skuldin verði að hámarki greidd eða 4.258.750 krónur. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Aðilar málsins gengu í hjúskap [...] júlí 2008. Skilnaðarmál þeirra var fyrst tekið fyrir hjá sýslumanninum í [...] [...] febrúar 2014. Þann dag óskuðu aðilar eftir skilnaði að borði og sæng. Aðilar reyndu að ná sáttum um fjárskiptin og liggja fyrir drög að slíkum samningi frá mars eða apríl 2014, svo og athugasemdir beggja aðila við drögin. Samkomulag náðist ekki og var óskað eftir opinberum skiptum til fjárslitanna með bréfi sóknaraðila 23. maí 2014. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2014 var bú aðila tekið til opinberra skipta og fyrrnefndur skiptastjóri skipaður í búinu. Fyrsti skiptafundur var haldinn 10. júlí 2014.
Deilt er um það í máli þessu hvort skuld varnaraðila samkvæmt bílasamningi hans og Lýsingar hf. eigi að koma til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld varnaraðila og einnig hvort námslán sóknaraðila hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi að koma til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld sóknaraðila, að fullu eða að hluta.
Samkvæmt skattframtali 2014 eru eftirstöðvar skuldar vegna bílasamnings tilgreindar 1.326.061 króna og LÍN skuldabréf númer S-[...] 9.751.335 krónur. Sömu fjárhæðir eru tilgreindar í fyrrnefndum drögum að samkomulagi aðila frá mars eða apríl 2014. Samkvæmt innheimtubréfi 26. október 2012 er skuld varnaraðila við Lýsingu hf. sögð vera 3.608.370 krónur að höfuðstól.
Þann 6. október 2014 sendi skiptastjóri talsmanni sóknaraðila og lögmanni varnaraðila öll gögn um kröfu Lýsingar hf., það er samning númer [...] [...] um einkaleigu bifreiðarinnar [...], dagsettan 4. júlí 2008, greiðsluáætlun sem varnaraðili undirritaði 8. júlí sama ár og greiðsluyfirlit fyrir tímabilið 1. júní 2008 til 31. júlí 2011. Varnaraðili mun hafa hætt að borga af samningnum frá og með gjalddaganum 5. september 2010.
Í tölvubréfi skiptastjóra til talsmanns sóknaraðila og lögmanns varnaraðila 16. október 2014 segir að Lýsing hf. hafi nú tilkynnt að ekki verði samið um skuldina og að lögmanni verði falið að stefna til greiðslu kröfunnar. Því sé ekki annað fært en að hafa lánið inni í drögum að frumvarpi til úthlutunar. Nemur fjárhæð skuldarinnar samkvæmt frumvarpinu 4.286.522 krónum.
Á skiptafundi 30. október 2014 var bókað að talsmaður sóknaraðila hefði ekki frekari athugasemdir við frumvarp skiptastjóra, en þó væri gerður fyrirvari um að ef lækkun bílaláns varnaraðila næðist fram þá áskildi sóknaraðili sér rétt til helmings þeirrar lækkunar. Þá segir orðrétt: „Talsmaður konunnar óskar eftir því að skiptastjóri tilkynni Lýsingu um þennan fyrirvara konunnar.“ Á skiptafundi 17. desember 2014 upplýsti lögmaður varnaraðila að Lýsing hf. hefði stefnt varnaraðila til greiðslu á vanskilum samkvæmt samningnum.
Dómsmál Lýsingar hf. á hendur varnaraðila vegna einkaleigusamnings um bifreiðina [...] var þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur 2. desember 2014. Stefnufjárhæðin nemur 2.207.932 krónum. Þá var krafist dráttarvaxta frá 5. ágúst 2011 til greiðsludags og málskostnaðar. Þann 11. febrúar 2015 gerðu Lýsing hf. og varnaraðili réttarsátt um greiðslu höfuðstóls skuldarinnar og 100.000 krónur í málskostnað, eða samtals 2.307.932 krónur. Fjárhæðina skyldi greiða með einni greiðslu í síðasta lagi 12. mars 2015.
Á skiptafundi 11. mars 2015 lagði skiptastjóri fram leiðrétt frumvarp til úthlutunar í fjárskiptum aðila. Í fundargerð frá fundinum voru bókuð andmæli beggja aðila gegn frumvarpi skiptastjóra. Mótmælti lögmaður sóknaraðila frumvarpinu og krafðist þess að skuld mannsins vegna bílasamnings komi ekki til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld varnaraðila. Lögmaður varnaraðila mótmælti frumvarpinu og krafðist þess að námslán sóknaraðila komi ekki til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld sóknaraðila, að fullu eða að hluta.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins, dagsettu 11. mars 2015, segir að ágreiningur aðila lúti að því hvort tilteknar skuldir skuli teknar til greina við skiptin. Telji varnaraðili að námslán sóknaraðila eigi ekki að koma til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld konunnar, hvorki að fullu né að hluta til. Þá telji sóknaraðili að skuld varnaraðila vegna bílasamnings komi ekki til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld hans, enda hafi sú krafa komið fram eftir viðmiðunardag skipta. Haldnir hafi verið sex skiptafundir og hafi skiptastjóri reynt að jafna ágreining aðila en án árangurs.
Mál þetta var þingfest 25. mars 2015 og tekið til úrskurðar 9. júní síðastliðinn.
II
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á því að skuld varnaraðila vegna bílasamnings við Lýsingu hf. hafi orðið til eftir viðmiðunardag skipta. Mál á hendur varnaraðila hafi verið þingfest 2. desember 2014, eða eftir viðmiðunardag skipta. Að mati sóknaraðila sé vanreifað í stefnu málsins hver skuld varnaraðila sé. Hvergi sé rökstutt hvernig stefnufjárhæðin sé tilkomin. Sóknaraðili hafi ekki haft nein tök á að hafa áhrif á þá ákvörðun mannsins að gera dómsátt vegna stefnunnar. Að mati sóknaraðila hafi sú ákvörðun verið röng, enda telji sóknaraðili að hefði málið gengið til dóms hefðu sterk rök verið fyrir því að varnaraðili hefði verið sýknaður af kröfu Lýsingar.
Sóknaraðili kveðst telja að einungis þær skuldir sem til staðar hafi verið á viðmiðunardegi skipta geti talist með þegar reiknað sé út hvernig fjárskiptum skuli ljúka.
Áður en óskað hafi verið eftir opinberum skiptum vegna fjárskipta aðila hafi sættir um fjárskipti ítrekað verið reyndar. Í þeim tilgangi hafi meðal annars verið unnið skjal sem liggi fyrir í gögnum málsins. Þar hafi verið gert ráð fyrir að eftirstöðvar skuldar varnaraðila vegna bílasamningsins væru 1.326.061 króna. Þar sem krafan hafi ekki legið fyrir fyrr en eftir viðmiðunardag skipta komi hún ekki til álita við fjárskiptin.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins sé því lýst að krafa varnaraðila sé sú að ekki verði tekið tillit til láns sóknaraðila hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eins og gert hafi verið í frumvarpi skiptastjóra. Þetta sé krafa varnaraðila þrátt fyrir skýr ákvæði laga. Í hjúskaparlögum og skiptalögum sé það skilgreint að við uppgjör fjárskipta á milli hjóna við skilnað skuli tiltaka eignir og skuldir aðila sem séu til staðar á viðmiðunardegi skipta. Varnaraðili fari fram á að allt aðrar reglur skuli gilda hér af því að honum finnst skuld sóknaraðila við Lánasjóðinn svo há að ekki sé líklegt að hún geti nokkurn tímann greitt skuldina. Það séu engin rök. Skýrt sé að lögum að tiltaka eigi skuldir og eignir á ákveðnu tímamarki. Það sé hvergi að finna neina reglu sem bendi til þess að ekki eigi að miða við eftirstöðvar skuldar aðila á þessu tiltekna tímamarki.
Í 99. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 komi fram að fjárskipti á milli hjóna við skilnað nái til heildareigna hjóna nema samningar séu um séreignir eða að eignir séu sérstaklega undanskildar skiptum. Frá eignum maka skuli svo draga skuldir sem á honum hvíla miðað við það tímamark þegar skilnaðarmál var fyrst tekið fyrir hjá embætti sýslumanns, nema samið sé um annað tímamark.
Í 104. 109. gr. skiptalaga nr. 20/1991 sé nánar fjallað um fjárskipti á milli hjóna. Þar komi fram að taka skuli tillit til skulda hjóna sem höfðu stofnast en voru ekki greiddar á því tímamarki þegar viðmiðunardagur skipta var. Hvergi sé gert ráð fyrir því að skuldir séu ekki færðar til bókar miðað við stöðu skuldar. Ekkert bendi til þess í framangreindum lögum að mögulegt sé að meta eigi skuld á lægra verði en eftirstöðvar hennar eru vegna þess að ólíklegt sé að skuldari geti greitt skuldina. Það séu ekki rök sem eigi neina stoð í framangreindum lögum.
Vegna kröfu um greiðslu málskostnaðar vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
III
Varnaraðili kveður skuld hans vegna bílasamnings við Lýsingu hf. vera hjúskaparskuld varnaraðila sem sé ekki tilkomin eftir viðmiðunardag skipta, sbr. frumvarp skiptastjóra og gögn málsins. Sóknaraðili haldi því fram að erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar um skuldina. Því sé mótmælt. Í athugasemdum varnaraðila við drög sóknaraðila að samkomulagi um skilnað og skilnaðarkjör sé getið um skuldina og einnig í athugasemdum sóknaraðila í tilefni af athugasemdum varnaraðila. Fleiri skjöl í málsgögnum tengist kröfu Lýsingar hf. Í tölvupósti skiptastjóra 6. október 2014 sé því lýst yfir að málinu verði stefnt og því verði lánið að fullu tekið inn í frumvarpið. Þá megi sjá lánið tilgreint sem hjúskaparskuld varnaraðila í frumvarpi skiptastjóra 16. október 2014. Ekki sé því með neinum rökum unnt að halda því fram að skuldin sé tilkomin eftir viðmiðunardag skipta.
Þá sé því mótmælt að skuldin sé vanreifuð í stefnu. Hér sé um einfalt skuldamál að ræða. Hafi varnaraðili leitað álits lögmanns til að meta lögmæti samningsins og hafi niðurstaðan verið sú að um lögmætan lánasamning væri að ræða. Nokkrir dómar Hæstaréttar í sambærilegum málum staðfesti þá niðurstöðu. Því hafi verið gerð sátt um skuldina, en telja verði að sú sátt hafi verið afar hagstæð þar sem höfuðstóll skuldarinnar, eftir að búið var að draga fyrndar kröfur frá, hafi verið greiddur án dráttarvaxta og 100.000 krónur í málskostnað.
Þá sé rétt að upplýsa að tilgreind fjárhæð skuldarinnar, 1.326.061 króna, sé komin frá sóknaraðila en ekki varnaraðila, en fjárhæðin hafi verið leiðrétt af varnaraðila. Þá hafi átt eftir að reikna dráttarvexti á skuldina. Að mati varnaraðila séu engin áhöld um það að skuldin sé tilkomin fyrir viðmiðunardag og sé hjúskaparskuld hans. Þá megi benda á að skuldin sé mun lægri nú vegna sáttarinnar sem varnaraðili gerði til hagsbóta fyrir báða aðila. Sóknaraðili telji þá ákvörðun ranga að hafa gert réttarsátt í málinu. Bent sé á að sóknaraðili sé ekki löglærð og að hún hafi ekki verið tilbúin til að taka þátt í málskostnaði hefði málið tapast fyrir dómstólum.
Varnaraðili krefjist þess að námslán sóknaraðila komi ekki til frádráttar í heild sinni. Samkvæmt framlögðum núvirðisreikningi komi fram að sóknaraðili muni ekki hafa forsendur til að greiða lánið upp, það er 9.751.335 krónur. Samkvæmt skattframtali 2014 hafi sóknaraðili haft innan við 500.000 krónur í tekjur á mánuði. Sé miðað við þá fjárhæð og þekktar lífslíkur kvenna á Íslandi þá muni sóknaraðili ekki greiða meira en 4.258.750 krónur. Sé því ekki rétt að taka mið af heildarskuldinni þar sem hún muni ekki verða greidd.
Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 109. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., skal úthluta hvoru hjóna um sig svo miklu af hjúskapareign að það nægi til greiðslu skuldar. Í 100. gr. hjúskaparlaga komi fram að frá eignum maka skuli draga skuldir sem hvíli á honum eða hann eigi að svara til. Þegar liggi fyrir að skuld verði ekki að fullu greidd „hvíli skuldin ekki á viðkomandi aðila eða hann mun ekki lengur svara til hennar“, það er að segja hann muni ekki greiða hana, þá sé hvorki eðlilegt né sanngjarnt að taka tillit til hennar í uppgjöri til skipta. Í dómi Hæstaréttar 1996, bls. 949 hafi reynt á hvort taka ætti skuld til greina á nafnvirði eða „núvirða“ hana. Niðurstaðan í því máli hafi verið sú að ekki skyldi taka skuldina til greina á nafnverði. Talið hafi verið rétt að beita núvirðisreikningi. Benda megi á að varnaraðili hafi lýst því yfir að hann væri tilbúinn að samþykkja að námslán sóknaraðila komi til frádráttar eignum með því skilyrði að það væri greitt upp við skiptin en sóknaraðili hafi hafnað því. Sé sú afstaða skiljanleg í ljósi þess að fyrir liggi að lánið verði aldrei greitt að fullu.
Almennt hljóti að vera rétt að endurmeta skuld í uppgjöri til fjárslita milli hjóna miðað við raunverulega skuld. Að minnsta kosti hljóti að bera að skilja ákvæði 100. gr. hjúskaparlaga á þann veg að það séu raunverulegar skuldir sem aðili eigi að „svar til“ sem komi inn í uppgjörið. Við fjárskipti reyni á að meta raunvirði eigna og sé mikið lagt í þann þátt. Það eigi auðvitað ekki síður við um skuldirnar, það eigi líka að meta raunverulegt „verðmæti“ þeirra.
Hvað lagarök varðar er vísað til hjúskaparlaga, einkum 99. 101. gr., og laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 104. 109. gr. Málskostnaðarkrafan er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.
IV
Málskot þetta byggist á 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í 112. gr. laganna segir að rísi ágreiningur milli aðila við opinber skipti samkvæmt XIV. kafla um atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104.-111. gr. taki til skuli skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins 11. mars 2015 koma fram þau ágreiningsefni sem lögð hafa verið fyrir dóminn. Í bréfinu segir að ágreiningur aðila snúist um það hvort tilteknar skuldir aðila skuli teknar til greina við skiptin. Krefst varnaraðili þess að námslán sóknaraðila komi ekki til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld sóknaraðila. Sóknaraðili krefst þess á hinn bóginn að skuld varnaraðila vegna bílasamnings komi ekki til frádráttar eignum sem hjúskaparskuld varnaraðila, enda hafi sú krafa komið fram eftir viðmiðunardag skipta.
Ágreiningslaust er með aðilum að viðmiðunardagur til skipta til fjárslita sé 18. febrúar 2014, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Sóknaraðili krefst þess að frumvarp skiptastjóra verði samþykkt eins og það var lagt fram á skiptafundi 11. mars 2015 að öðru leyti en því að skuld varnaraðila vegna bílasamnings við Lýsingu hf., að fjárhæð 2.307.932 krónur, nú samkvæmt réttarsátt 11. febrúar 2015, verði færð sem skuld mannsins. Svo sem rakið er í kafla I að framan undirritaði varnaraðili einkaleigusamning við Lýsingu hf. 4. júlí 2008 vegna bifreiðarinnar [...]. Samkvæmt innheimtubréfi til varnaraðila 26. október 2012 nam krafa Lýsingar hf. á hendur varnaraðila samkvæmt samningnum 3.947.207 krónum. Sú fjárhæð er tilgreind í fundargerð skiptafundar 10. júlí 2014. Þá liggur fyrir að skiptastjóri sendi aðilum öll skjöl vegna samningsins 6. október 2014. Samkvæmt drögum að frumvarpi til úthlutunar 30. október 2014 nam krafa Lýsingar hf. 4.286.522 krónum. Á skiptafundi sama dag var bókuð sú afstaða sóknaraðila og fyrirvari að hún áskildi sér rétt til helmings þeirrar lækkunar sem næðist á kröfu Lýsingar á hendur varnaraðila. Lýsing hf. stefndi varnaraðila til greiðslu vanskila á greiðslum samkvæmt fyrrnefndum samningi, þá fyrir 2.207.932 krónum, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Svo fór að sátt náðist um fjárhæð kröfunnar. Ekki er upplýst í málinu um ástæðu fyrir lækkun á höfuðstól kröfunnar samkvæmt því sem tilgreint er í stefnu Lýsingar hf., en fyrir liggur að höfuðstóll kröfunnar samkvæmt innheimtubréfi 26. október 2012 var eins og fram er komið 3.608.370 krónur. Á skiptafundi 12. ágúst 2014 var lagt fram yfirlit yfir stöðu skuldar samkvæmt bílasamningnum miðað við 18. febrúar 2014. Nemur fjárhæð kröfunnar þann dag 4.286.522 krónum. Er miðað við þá fjárhæð í frumvörpum skiptastjóra allt þar til krafan var leiðrétt og lækkuð í samræmi við þá réttarsátt sem varnaraðili gerði við Lýsingu hf.
Af því sem nú er rakið þykir ljóst vera að tilvist kröfunnar var báðum aðilum jafnljós og að sóknaraðili gerði fyrst athugasemd vegna kröfunnar á skiptafundi 11. mars 2015, þrátt fyrir að skuld mannsins við Lýsingu hf. hefði ekki aðeins verið tilgreind í upphaflegum samningsdrögum aðila sjálfra heldur einnig á öllum yfirlitum skiptastjóra yfir eignir og skuldir aðila og þá sem skuld varnaraðila sem kæmi til frádráttar eignum við fjárskiptin. Krafan, sem á rætur að rekja til einkaleigusamnings frá 4. júlí 2008, er tilkomin vegna vanskila frá 5. september 2010. Krafan, þótt hærri væri, var því til á viðmiðunardegi fjárskiptanna. Að mati dómsins breytir engu í þessu sambandi þótt varnaraðili hafi gengist undir réttarsátt eftir það tímamark, enda njóta báðir aðilar hagsbóta af sáttinni. Verður ekki með nokkru móti fallist á það með sóknaraðila að varnaraðili hafi bakað sér skuld þessa eftir viðmiðunardag fjárskiptanna. Samkvæmt þessu er hafnað kröfu sóknaraðila um að krafa sem varnaraðili samdi um við Lýsingu hf. með réttarsátt 11. febrúar 2015, að fjárhæð 2.307.932 krónur, verði ekki felld undir skiptin. Er viðurkennt að krafan falli undir skiptin sem skuld varnaraðila og komi til frádráttar eignum hans við skiptin, sbr. 100. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Ágreiningur málsaðila tekur ennfremur til þess hvernig fara skuli með skuld sóknaraðila vegna námsláns. Gerir varnaraðili þá kröfu að skuld sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna komi ekki til frádráttar hjúskaparskuldum varnaraðila nema að því leyti sem skuldin verði að hámarki greidd eða 4.258.750 krónur. Bendir varnaraðili á það að samkvæmt núvirðisreikningi muni sóknaraðili ekki hafa forsendur til að greiða námslánið upp en eftirstöðvar þess séu 9.751.335 krónur. Sé miðað við tekjur sóknaraðila samkvæmt skattframtali 2014 og þekktar lífslíkur kvenna á Íslandi þá muni sóknaraðili ekki greiða meira en 4.258.750 krónur. Því sé ekki rétt að taka mið af heildarskuldinni þar sem hún muni ekki verða greidd að fullu. Sóknaraðili hafnar þessum sjónarmiðum og vísar til þess að í hjúskaparlögum og skiptalögum komi fram að við uppgjör við fjárskipti á milli hjóna við skilnað skuli tiltaka eignir og skuldir aðila sem séu til staðar á viðmiðunardegi fjárslita en varnaraðili fari fram á að aðrar reglur gildi þar sem honum finnist skuldin há og ekki líklegt að sóknaraðili geti greitt skuldina.
Samkvæmt 99. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 taka fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita til heildareigna hvors hjóna nema um sé að ræða samninga um séreignir eða eignir sérstaklega undanþegnar skiptum. Skuldir sem hvíla á maka eða hann á að svara fyrir skulu dregnar frá eignum hans, sbr. 100. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. skal við fjárskiptin greina á milli eigna sem tilheyra hvoru hjóna fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Farið skal með skuldir hvors um sig á sama veg og þær skuldir sem beinast að báðum í senn. Í 67. gr. hjúskaparlaga segir að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla hvort sem þær hafa stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar. Samkvæmt 3. og 4. mgr. 109. gr. laganna fara fjárskipti hjóna þannig fram að hvort hjóna um sig á aðeins rétt á að fá eignir í sinn hlut á móti skuldum sínum að því marki sem eignir þess sjálfs hrökkva fyrir skuldunum. Eigi annað hjóna eignir umfram skuldir, skal hrein eign þess koma til skipta milli hjóna. Gildir þá meginreglan um helmingaskipti milli hjóna, sbr. 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Sú skuldbinding sem aðilar deila um er námslán sem sóknaraðili tók hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Lýtur krafa varnaraðila að því að skuld sóknaraðila við Lánasjóðinn, 9.751.335 krónur, komi ekki að fullu og öllu til frádráttar, enda muni sóknaraðili ekki greiða alla skuldina, reiknað út frá tekjum og lífslíkum sóknaraðila. Því sé „ekki rétt“ að taka mið af heildarskuldinni. Varnaraðili hefur ekki rökstutt kröfu sína með öðrum hætti og byggir á því að mánaðartekjur sóknaraðila samkvæmt skattframtali 2014 séu svo lágar, eða innan við 500.000 krónur, að sóknaraðila muni ekki auðnast að greiða námslánið að fullu og öllu miðað við þekktar lífslíkur kvenna á Íslandi, heldur aðeins 4.258.750 krónur, sem varnaraðili byggir á niðurstöðu tryggingastærðfræðings sem reiknaði út hvert væri núvirði árlegra afborgana miðað við 1. júlí 2015 af láni sem væri með 1% verðtryggða vexti þar sem næsta afborgun, 225.000 krónur, væri 1. júlí 2015, miðað við að afborganir haldist óbreyttar til ársins 2029, en lækkuðu þá í 100.000 krónur. Einnig miðað við að greiðandi lánsins væri fædd 5. júní 1961 og að afborganir falli niður við andlát greiðanda.
Af framanröktum ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993, og laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. verður ekki séð að heimilt sé að endurmeta skuld til lækkunar í uppgjöri til fjárslita og miða við „raunverulega skuld“ eins og varnaraðili miðar kröfugerð sína við. Að mati dómsins skortir lagaheimild til þess að lækka þá skuldbindingu sóknaraðila sem um ræðir og skipti þá ekki máli hvort sanngirnisrök mæla með því eða ekki.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður að hafna þeirri kröfu varnaraðila í málinu að lán sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna komi ekki til frádráttar hjúskaparskuldum hennar óskert og ekki nema að því leyti sem skuldin verði að hámarki 4.258.750 krónur. Verður niðurstaðan því sú að skuld sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna skal felld óbreytt undir skiptin sem skuld sóknaraðila.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Við fjárskipti milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal krafa að fjárhæð 2.307.932 krónur, sbr. réttarsátt 11. febrúar 2015, felld undir skiptin sem skuld varnaraðila.
Skuld sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna, að fjárhæð 9.751.335 krónur, skal felld undir skiptin sem skuld hennar.
Málskostnaður fellur niður.