Hæstiréttur íslands

Mál nr. 286/2015

A, B, C og D (Sigmundur Hannesson hrl.)
gegn
E (Magnús Guðlaugsson hrl.)

Lykilorð

  • Aðild
  • Samlagsaðild
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

F o.fl. kröfðu Ö, föður þeirra, óskipt um greiðslu fjárhæðar sem svaraði til helmings kaupverðs í fasteign. Hafði helmingshlutur í fasteigninni komið til skipta milli F o.fl. að jöfnu við einkaskipti á dánarbúi móður þeirra en eignin var að öðru leyti í eigu Ö. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt væri að nýta sér heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til aðildarsamlags væri að hver kröfuhafi gerði sjálfstæða aðgreinda kröfu um hagsmuni sína. Hefðu F o.fl. ekki gætt þessa skilyrðis í málatilbúnaði sínum. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2015. Þeir krefjast þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. september 2001 til 17. febrúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Hæstiréttur hefur tekið málið til dóms án undangengins málflutnings, sbr. 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gekk stefndi, faðir áfrýjenda, í hjónaband með móður þeirra, F, 30. desember 1966. Hjónunum var veittur lögskilnaður 9. mars 1983, en þau voru skráð í óvígðri sambúð þegar konan lést 31. desember 1997. Áfrýjendum var veitt leyfi til einkaskipta á búi móður sinnar 16. desember 1998 og lauk skiptunum 18. sama mánaðar. Samkvæmt erfðafjárskýrslu og skiptayfirlýsingu kom helmingshlutur hinnar látnu í fasteigninni að [...] í [...] til skipta að jöfnu milli áfrýjenda, en eignin var að öðru leyti í eigu stefnda. Fasteignin var seld með kaupsamningi 16. maí 2001 og var kaupverðið 14.000.000 krónur. Áfrýjendur vefengja söluumboð 5. apríl 2001 til stefnda og halda því fram að hann hafi ekki staðið þeim skil á söluandvirðinu.

Áfrýjendur gera í málinu óskipta fjárkröfu á hendur stefnda sem svarar til helmings fyrrgreinds kaupverðs íbúðarinnar. Í stefnu er sameiginleg aðild þeirra að fjárkröfunni ekki rökstudd. Verður því að leggja til grundvallar að þeir hafi með málshöfðuninni nýtt sér heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 til aðilasamlags. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið talið að ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt sé að nýta sér það réttarfarshagræði sé að hver kröfuhafi geri sjálfstæða aðgreinda kröfu um sína hagsmuni. Gættu áfrýjendur ekki þessa skilyrðis í málatilbúnaði sínum. Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjendum gert að greiða stefnda málskostnað á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjendur, A, B, C og D, greiði stefnda, E, óskipt samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. janúar sl., er höfðað 27. maí sl. af A, [...], [...], B, [...], C, [...], [...] og D, [...], [...] gegn E, [...], [...].

Stefnendur gera þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum 7.000.000 króna, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 20. september 2001 en dráttarvöxtum skv. III. kafla laga 38/2001, frá 17. febrúar 2011 til greiðsludags. Er kafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laganna er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 20. september 2002 en síðan árlega eftir þann dag. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að kröfum um vexti og dráttaravexti verði vísað frá dómi. Loks krefst stefndi greiðslu málskostnaðar.

  1.  

    Málsatvik eru þau helst að stefndi og móðir stefnenda, F, gengu í hjónaband 30. desember 1966. Var þeim veittur lögskilnaður 9. mars 1983. F andaðist 31. desember 1997 og var hún þá skráð í óvígrði sambúð með stefnda. Sýslumaðurinn í Reykjavík veitti stefnda leyfi til setu í óskiptu búi, eftir F, þann 10. febrúar 1998. Með bréfi 25. febrúar 1998 var stefnda tilkynnt að búsetuleyfi honum til handa hefði verið gefið út á röngum forsendum og honum veittur frestur til að skila búsetuleyfinu. Með beiðni 8. september 1998 óskuðu stefnendur eftir leyfi til einkaskipta á búi móður sinnar. Samkvæmt einkaskiptabeiðni þeirra var eign búsins helmingur fjögurra herbergja íbúðar að [...] í [...]. Var leyfi til einkaskipta gefið út af sýslumanni 16. desember 1998. Erfðafjárskýrsla var staðfest af sýslumanni 18. desember 1998. Fasteignin að [...] var seld með kaupsamningi 16. maí 2001. Lögmaður stefnenda ritaði stefnda bréf 17. febrúar 2011 og fór þess á leit að stefndi léti stefnendum í té móðurarf sinn. Í máli þessu krefja stefnendur stefnda um nefndan móðurarf.      

    Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu fyrir dóminum stefnendurnir A og D.

  2.  

    Stefnendur byggja á því að með beiðni 8. september 1998 hafi stefnendur óskað eftir leyfi til einkaskipta á búi móður sinnar. Samkvæmt beiðninni hafi helmingur fjögurra herbergja íbúðar nr. [...], að [...] í [...], verið eign búsins. Erfingjar samkvæmt erfðafjárskýrslu séu fjögur börn hinnar látnu, þ.e. stefnendur, og erfi þau eignir búsins að jöfnu. Lögmaður stefnenda hafi 17. febrúar 2011 ritað bréf til stefnda. Í niðurlagi bréfsins segi: „Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og þeirri staðreynd að börn þín hafa ekki fengið móður arf sinn greiddan er þeim eindregnu tilmælum beint til þín að hafa samband við undirritaðan m.a. með það fyrir augum að ganga til samninga og uppgjörs á móður arfi barnanna“. Þar sem ekki hafi borist viðbrögð við bréfinu hafi lögmaðurinn sent stefnda ítrekunarbréf, 29. mars 2011. Hafi faðir stefnenda, stefndi, ekki gengið frá greiðslu móðurarfs þeirra. Stefnandinn, A, hafi viðurkennt að hafa, samkvæmt beiðni stefnda, ritað nöfn systkina sinna á söluumboðið og skiptayfirlýsinguna, án vitundar þeirra og samþykkis. Stefnendur haldi því fram að umboð sem þau hafi gefið vegna sölu eignarinnar hafi verið falsað og að þeir hafi ekki fengið afhent andvirði þeirra hluta í íbúðinni.  Íbúðin hafi veriðseld með kaupsamningi 16. maí 2001 fyrir 14.000.000 króna, en stefnendur átt helmings hlut í íbúðinni, sem séu stefnukröfur máls þessa. Um það megi m.a. vísa til skiptayfirlýsingar, sem undirrituð sé af stefnda og innfærð í þinglýsingarbækur 9. maí 2001. Stefndi hafi ekki staðið stefnendum skil á söluandvirði þeirra hlut í íbúðinni samkvæmt framansögðu. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál þetta til (endur)greiðslu hennar.

    Stefnendur vísa til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfur um vexti og dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnendur m.a. við 1. mgr. 6., 8. og 12. gr. sbr. III og IV. kafla laga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991.

  3.  

                    Stefndi lýsir því yfir að hann mótmæli harðlega þeim fullyrðingum, sem fram komi í stefnu, að hann hafi beðið stefnandann, A, um að falsa nöfn systkina sinna á söluumboð og skiptayfirlýsingu vegna sölu á fasteigninni að [...] í [...]. Þessar fullyrðingar í stefnu séu fráleitar.  Hafi stefnandinn, A, falsað einhver nöfn, sem stefnda sé algerlega ókunnugt um, hafi hún gert það af eigin hvötum og á eigin ábyrgð og án vitneskju stefnda þar um. Telji aðrir stefnenda að þeir eigi einhverjar kröfur vegna falsana á nöfnum þeirra, verði þeir að beina þeim að þeim er falsaði, en ekki stefnda.

    Aðalkrafa stefnda um sýknu sé byggð á því að krafa stefnenda sé fyrnd.  Stefnendur hafi sjálfir í málatilbúnaði sínum í stefnu lýst því yfir að þau telji sig eiga almenna fjárkröfu á föður sinn, sem fallið hafi í gjalddaga 20. september 2001 eða tæpum þrettán árum áður en mál þetta hafi verið höfðað. Þessi málatilbúnaður af þeirra hálfu sé bindandi málflutningsyfirlýsing um eðli og gjalddaga kröfu þeirra. Á árinu 2001 hafi verið í gildi lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Hvort heldur þessi almenna fjárkrafa stefnenda hafi fyrnst á fjórum árum samkvæmt 3. gr. þeirra laga, eða á tíu árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga, sé ljóst að með málatilbúnaði sínum hafi þau lýst því yfir að krafa þeirra hafi orðið gjaldkræf 20. september 2001. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 14/1905 byrji fyrningarfrestur að líða frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Krafa stefnenda hafi því verið fyrnd 20. september 2005 eða í síðasta lagi 20. september 2011 sem sé löngu áður en stefna í máli þessu hafi verið birt. Ljóst sé að 7. gr. laga nr. 14/1905 eigi ekki við í málinu enda öllum stefnendum fullljóst þegar á árinu 2001 að stefndi, faðir þeirra, hefði selt íbúðina að [...], [...] og verið fluttur í [...] í [...], sbr. einnig grunnreglur þinglýsingalaga nr. 39/1978. 

    Varakröfu sína um lækkun byggi stefndi á því, fari svo ólíklega að ekki verði fallist á aðalkröfu hans, að miða verði við raunverulegan eignarhlut í [...], [...], en ekki bara söluverðið. Söluverð [...], [...], hafi verið 14.000.000 króna og að frádregnum áhvílandi skuldum að fjárhæð 7.600.000 króna hafi aðeins verið 6.400.000 króna hrein eign í íbúðinni. Af þeirri fjárhæð hafi stefndi átt sjálfur 3.200.000 krónur og því geti krafa stefnenda aldrei numið hærri fjárhæð en 3.200.000 krónum. Þá séu allir vextir fyrir lengra tímbil en fjögur ár fyrndir sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 og 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007.

    Stefndi byggi frávísunarkröfu á vaxtakröfu stefnenda á því að aðeins sé vísað í dómkröfum í stefnu til 8. gr. IV. kafla laga nr. 38/2001 og um dráttarvaxtakröfuna til III. kafla laganna. Hæstiréttur hafi vísað vaxtakröfum þar sem aðeins sé vísað í III. kafla. laga nr. 38/2001 frá dómi og sagt að krefjast verði dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Af sömu ástæðu beri að vísa frá dómi kröfu um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, þar sem tilvísunina til 1. mgr. vanti.

    Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um að tekið verði tillit til 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar byggist á lögum nr. 50/1988.

                                                                           IV.

    Við andlát móður stefnenda, F, sem lést 31. desember 1997, áttu stefndi og móðir stefnenda, til helminga, fasteignina að [...] í [...]. Einkaskiptum á búi F lauk 18. desember 1998, er sýslumaðurinn í [...] staðfesti erfðafjárskýrslu vegna skiptanna. Eftir skiptin ákváðu stefnendur að láta arfshluta sinn vera áfram í umráðum stefnda, en með því eignuðust stefnendur almenna fjárkröfu á hendur stefnda. Verður að líta svo á að þetta hafi verið í samræmi við erfðaskrá á milli stefnda og F frá því í febrúar 2005. Erfðaskráin er á meðal framlagðra gagna í málinu, en samkvæmt 2. gr. hennar lýstu aðilar yfir að félli F frá á undan stefnda, yrði heimili hans ekki raskað og að hann myndi meðal annars halda umráðum fasteignar. Á árinu 2001 var fasteignin að [...] í [...] seld. Í máli þessu krefja stefnendur stefnda um arfshluta sinn eftir móður sína.

    Stefndi reisir varnir sínar á fyrningu. Byggir hann á því að stefnendur hafi lýst yfir að krafa þeirra sé almenn fjárkrafa, sem fallið hafi í gjalddaga 20. september 2001. Krafan hafi verið fyrnd er stefnendur hafi höfðað mál þetta. 

    Í stefnu krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim skuld að tilgreindri fjárhæð, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., IV. kafla, laga nr. 38/2001, frá 20. september 2001. Samkvæmt téðri 8. gr. skulu skaðabætur bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Samkvæmt þessu líta stefnendur svo á að krafa stefnenda á hendur stefnda sé skaðabótakrafa, með gjalddaga 20. september 2001. Ekki er unnt að líta fram hjá því að með kröfugerðinni ráðstafa stefnendur sakarefni málsins.

    Um fyrningu kröfuréttinda gilda lög nr. 150/2007. Öðluðust lögin gildi 1. janúar 2008 og leystu af hólmi lög nr. 14/1905 um sama efni. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 gilda þau einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna. Stefnendur miða við að krafa þeirra hafi stofnast á árinu 2001. Fer því um fyrningu kröfunnar eftir lögum nr. 14/1905. Samkvæmt 5. gr. laganna telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Samkvæmt áðursögðu varð krafan gjaldkræf 20. september 2001. Um kröfu þá sem hér er deilt fer eftir 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 og fyrnist hún samkvæmt því á 10 árum. Í máli þessu var fyrningu gagnvart stefnda fyrst slitið með birtingu stefnu í málinu, en stefnan var birt fyrir stefnda sjálfum 27. maí 2014. Var málið þá fyrnt gagnvart stefnda. Stefnendur hafa ekki leitt í ljós að atvik séu með þeim hætti að ákvæði 7. gr. laga nr. 14/1905 eigi við í málinu. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnenda í málinu.

    Í ljósi atvika málsins þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

    Mál þetta flutti af hálfu stefnenda Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Sunna Magnúsdóttir héraðsdómslögmaður.

    Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

    Dómsorð:

    Stefndi, E, er sýkn af kröfum stefnenda, A, B, C og D.

    Málskostnaður fellur niður.