Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2002


Lykilorð

  • Sameignarfélag
  • Ábyrgð
  • Aðild
  • Málsástæða


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. október 2002.

 

Nr. 236/2002.

Hanna Sigríður Magnúsdóttir

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

H. Drijfhout & Zoon´s

Edelmetaalbedrijven BV

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Sameignarfélög. Ábyrgð. Aðild. Málsástæður.

Höfðað var mál til innheimtu kröfu samkvæmt fjórum reikningum, dagsettum 17.-23. desember 1997, sem gefnir höfðu verið út á hendur sameignarfélaginu G. Fyrirtækið D eignaðist kröfuna fyrir framsal og tók við aðild málsins fyrir Hæstarétti. Deilt var um hvort H væri persónulega ábyrg fyrir greiðslu kröfunnar en hún var tilgreindur eigandi helmingshlutar í umræddu sameignarfélagi. H hélt því fram að reikningarnir sem stefnukrafan var reist á væru frá því áður en hún gekk í sameignarfélagið og því yrði hún ekki krafin um greiðslu þeirra. Við aðalmeðferð málsins í héraði hafði H borið því við að hana bæri að sýkna vegna aðildarskorts með því að beina hefði átt kröfunni með réttu að öðru félagi sem hafi í júní 1997 tekið yfir rekstur sameignarfélagsins. Þeirri málsástæðu var hafnað sem of seint fram kominni. Í samræmi við tilkynningu til firmaskrár var miðað við að H hafi rekið sameignarfélagið ásamt öðrum manni frá 18. desember 1997. Ekki varð litið svo á að H hafi með efni þeirrar tilkynningar vikið frá því, sem leiði af almennum reglum, og gengist þannig undir ábyrgð á þeim skuldbindingum sameignarfélagsins sem stofnað hafi verið til fyrir þann tíma. Var H talin bera ábyrgð gagnvart D á greiðslu skuldar vegna þeirra viðskipta sem skuldbinding hafði komist á um eftir 18. desember 1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2002. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Málið var höfðað í héraði af Engelhard-Clal, Dansk Hollandsk Ædelmetal AS. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms eignaðist stefndi fyrir framsal kröfuna, sem málið varðar. Hann hefur þessu til samræmis tekið við aðild að því fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í héraðsdómi er málið rekið um kröfu samkvæmt fjórum reikningum, sem fyrrnefnt félag, Engelhard-Clal, Dansk Hollandsk Ædelmetal AS, gaf út á hendur vörukaupanda, sem þar var tilgreindur sem „Gudlaugur A. Magnusson“, með heimilisfang að Laugavegi 22a í Reykjavík. Einn reikninganna var dagsettur 17. desember 1997, tveir þeirra 19. sama mánaðar, en sá fjórði 23. sama mánaðar. Á reikningunum kom einnig fram dagsetning vörupöntunar, sem þeir voru gerðir fyrir, og var hún í þremur síðustu tilvikunum sú sama og dagsetning reikninganna, en á þeim elsta sagði að vörurnar hafi verið pantaðar 16. desember 1997 eða degi fyrir útgáfu hans. Til frádráttar frá heildarfjárhæð reikninganna, 181.534,13 dönskum krónum, skyldu koma 21.486,60 danskar krónur samkvæmt reikningi, sem gerður var kaupandanum til tekna 7. janúar 1998. Í héraðsdómsstefnu var fjárhæð allra þessara reikninga færð yfir í íslenskar krónur eftir sölugengi danskra króna á gjalddaga hvers þeirra og sætir sá útreikningur ekki ágreiningi.

II.

Í héraðsdómsstefnu í málinu var staðhæft að skuldin, sem að framan er lýst, væri vegna viðskipta, sem stefnandinn hafi átt við Guðlaug Magnússon sf., en kröfu hans væri beint óskipt að áfrýjanda og Magnúsi H. Guðlaugssyni, sem hafi verið eigendur sameignarfélagsins. Magnús H. Guðlaugsson tók ekki til varna í málinu, en það gerði á hinn bóginn áfrýjandi. Í greinargerð hennar fyrir héraðsdómi var vísað til þess að samkvæmt útskrift úr firmaskrá hafi hún gengið í félagið „Guðlaugur Magnússon, skartgripaverslun sf.“ 26. janúar 1998. Reikningarnir, sem stefnukrafan væri reist á, væru frá fyrri tíma, en með því að hún hafi ekki gengist í ábyrgð á eldri skuldbindingum sameignarfélagsins yrði hún ekki krafin um greiðslu reikninganna. Lauk umfjöllun í greinargerðinni um málsatvik og málsástæður með eftirfarandi orðum: „Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að sýkna stefndu Hönnu Sigríði af kröfum stefnanda. Þá er kröfum málsins ranglega beint að stefndu, sbr. einnig 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var því borið við af áfrýjanda við aðalmeðferð málsins í héraði að hana bæri að sýkna vegna aðildarskorts með því að beina hefði átt kröfu stefnandans með réttu að Magusi ehf., en það félag hafi í júní 1997 tekið yfir reksturinn, sem Guðlaugur Magnússon, skartgripaverslun sf. hafi haft með höndum fram að því. Í þessu sambandi vísaði áfrýjandi meðal annars til þess að í málinu lægi fyrir fyrirspurn frá 8. september 1997, sem beint var til Engelhard-Clal, Dansk Hollandsk Ædelmetal AS og undirrituð af áfrýjanda og Magnúsi H. Guðlaugssyni. Hafi þessi fyrirspurn verið gerð á bréfsefni með yfirskriftinni „Guðlaugur A. Magnússon – Magus ehf.“ og varðað viðskiptin, sem reikningar að baki kröfu stefnda voru síðar gerðir fyrir. Einnig vísaði áfrýjandi til þess að samkvæmt gögnum málsins hafi Íslandsbanki hf. gefið út yfirlýsingu 2. október 1997 um ábyrgð gagnvart erlenda félaginu fyrir Magus ehf., en henni hafi verið markaður gildistími til 10. desember sama árs. Stefnandi málsins fyrir héraðsdómi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni.

Þegar mál þetta var höfðað með stefnu 29. mars 2001 voru liðin meira en þrjú ár frá þeim viðskiptum, sem það varðar. Áfrýjandi hafði þá um árabil verið annar eigenda að Guðlaugi Magnússyni, skartgripaverslun sf. og jafnframt verið framkvæmdastjóri Magusar ehf. frá 28. apríl 1997 ásamt því að eiga sæti í stjórn þess félags. Í héraðsdómsstefnu kom sem áður segir skýrlega fram að stefnandi málsins liti svo á að krafa sín hafi verið á hendur sameignarfélaginu, en varnir áfrýjanda voru reistar á því að hún hafi ekki borið ábyrgð á skuldbindingum þess á þeim tíma, sem viðskiptin að baki kröfu stefnandans voru gerð. Áfrýjanda var í lófa lagið að bera þá um leið fyrir sig að kröfunni hefði með réttu átt að beina að umræddu einkahlutafélagi, ef áfrýjandi taldi það eiga við, en engin efni eru til að fallast á með henni að slík málsástæða hafi komið nægilega fram í þeim ummælum í greinargerð hennar fyrir héraðsdómi, sem áður er vitnað til. Ljóst er að slíkar varnir af hendi áfrýjanda hefðu gefið gagnaðila hennar fyrir héraðsdómi tilefni til sérstakrar gagnaöflunar um aðild að málinu, sem ekki gat orðið af eftir að aðalmeðferð þess var hafin. Að öllu þessu gættu var héraðsdómara rétt með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 að hafna sem of seint fram kominni þeirri málsástæðu áfrýjanda að kröfunni, sem málið varðar, væri ranglega beint að eigendum Guðlaugs Magnússonar, skartgripaverslunar sf.

III.

Í tilkynningu, sem dagsett var 21. janúar 1998 og barst firmaskrá við embætti sýslumannsins í Reykjavík 26. sama mánaðar, greindi Reynir Guðlaugsson frá því að hann hafi gengið úr „sameignarfélaginu Guðlaugur Magnússon s/f“. Sagði enn fremur að honum væri óviðkomandi rekstur félagsins og skuldbindingar frá 18. desember 1997. Með sama skjali tilkynntu áfrýjandi og Magnús H. Guðlaugsson að þau rækju „með ótakmarkaðri ábyrgð framanritað sameignarfélag ... í sameiningu frá 18. desember 1997 að telja.“ Ekki verður litið svo á að áfrýjandi hafi með efni þessarar tilkynningar vikið frá því, sem leiðir af almennum reglum, og gengist þannig undir ábyrgð á þeim skuldbindingum Guðlaugs Magnússonar, skartgripaverslunar sf., sem stofnað hafði verið til fyrir 18. desember 1997.

Þótt fallast megi á með áfrýjanda að áðurgreint bréf frá 8. september 1997 og yfirlýsing um bankaábyrgð 2. október sama árs gefi til kynna að viðskiptin við Engelhard-Clal, Dansk Hollandsk Ædelmetal AS hafi átt sér nokkurn aðdraganda á þeim tíma, sem hún var ekki orðin einn af eigendum Guðlaugs Magnússonar, skartgripaverslunar sf., hefur ekkert komið fram til stuðnings því að síðastnefnda félagið hafi fyrir 18. desember 1997 verið búið að skuldbinda sig í einu lagi til að kaupa allar vörurnar, sem reikningarnir að baki kröfu stefnda varða. Verður því að líta svo á að sameignarfélagið hafi fyrst stofnað til slíkra skuldbindinga á þeim tíma, sem pantanir um vörurnar bárust erlenda félaginu. Í elsta reikningnum, sem um ræðir í málinu og var að fjárhæð 67.947,81 danskar krónur, kom fram að pöntun á þargreindum vörum væri dagsett 16. desember 1997. Með því að önnur gögn málsins gefa ekkert til kynna um þetta atriði verður að leggja til grundvallar að sameignarfélagið hafi samkvæmt þessu skuldbundið sig til kaupanna áður en áfrýjandi gerðist eigandi að því. Í hinum reikningunum þremur, sem hljóðuðu alls á 113.586,32 danskar krónur, kom á hinn bóginn fram að vörupantanir hafi verið dagsettar 19. og 23. desember 1997. Þá var í reikningi, þar sem Guðlaugi A. Magnússyni voru færðar til tekna 21.486,60 danskar krónur, greint frá því að pöntun hafi verið dagsett sama dag og sá reikningur, eða 7. janúar 1998. Verður í samræmi við áðurgreint að miða við að stofnað hafi verið til skuldbindinga vegna allra þessara síðastgreindra viðskipta eftir að áfrýjandi var orðin einn af eigendum sameignarfélagsins. Ber hún því ábyrgð gagnvart stefnda á greiðslu skuldar samkvæmt þessum reikningum, 92.099,72 dönskum krónum, sem svara til 973.236 íslenskra króna samkvæmt þeirri gengisviðmiðun, sem stuðst var við í héraðsdómsstefnu. Verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá 30. janúar 1998, en þann dag voru kröfur samkvæmt umræddum reikningum í gjalddaga samkvæmt hljóðan þeirra.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður látið standa óraskað. Rétt er að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Hanna Sigríður Magnúsdóttir, greiði stefnda, H. Drijfhout & Zoon´s Edelmetaalbedrijven BV, 973.236 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2001.

   Mál þetta, sem dómtekið var 17. okt. sl., var höfðað með stefnu, birtri 2. og 17. apríl sl.

   Stefnandi er Engellhard-Clal C/O Guldsmedebranchens, Ryvang Allé 26, 2100 Kaupmannahöfn, Danmörku.

   Stefndu eru Magnús H. Guðlaugsson, kt. 201243-3789, Skálagerði 13, Reykjavík og Hanna Sigríður Magnúsdóttir, kt. 170763-4599, Klapparstíg 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

   Að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.913.169 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 488.439 kr. frá 16. janúar 1998 til 30. janúar s.á., af 1.687.422 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

   Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefndu Hönnu, Sigríðar Magnúsdóttur:

   Stefnda, Hanna Sigríður, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, þ.m.t. virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.

   Stefndi, Magnús H. Guðlaugsson, hefur hvorki sótt né látið sækja þing, er honum þó löglega stefnt.

Málavextir, málsástæður og rökstuðningur stefnanda

   Stefnandi rekur verslun með gjafavörur og skartgripi í Danmörku. Málið höfðar stefnandi til heimtu skuldar samkvæmt fjórum reikningum, sem allir eru stílaðir á Guðlaug A. Magnússon, Laugavegi 22 A, Reykjavík.  Reikningarnir eru:

Reikningur, útg. 16. des. 1997, með gjalddaga 16. jan. 1998, að fjárhæð DKK 67.947,81, ISK 714.186. Reikningur, útg. 19. des. 1997, með gjalddaga 30. jan. 1998, að fjárhæð DKK 58.039,00, ISK 612.642. Reikningur, útg. 19. des. 1997 með gjalddaga 30. jan. 1998, að fjárhæð DKK 52.769,00, ISK 557.014. Reikningur,  útg. 23. des. 1997 með gjalddaga 30. jan. 1998, að fjárhæð DKK 2.778,31, ISK 29.327.

   Reikningarnir eru í dönskum krónum. Til að finna út stefnufjárhæð málsins segir stefnandi fjárhæð reikninganna hafa verið reiknaða á gengi íslensku krónunnar og miðað við gengi á gjalddaga hvers reiknings fyrir sig. Nánar tiltekið sé tekið mið af viðmiði bankanna, þ.e. sölugengi þeirra. Sölugengi dönsku krónunnar hafi verið þann 16. janúar 1998, 10,5108 og 30. janúar 1998 10,5557.

   Umsaminn gjalddagi í viðskiptum aðila komi fram á reikningum stefnanda en annars vegar sé gjalddaginn umsaminn 30 dögum eftir útgáfu reiknings, sbr. reikning gefinn út 16. des. 1997. Í öðrum tilvikum hafi gjalddaginn miðast við 30 daga frá næstu mánaðamótum eftir útgáfu reiknings. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé til samræmis við umsamda gjalddaga.

   Þann 7. janúar 1998 hafi stefnandi gefið út kreditreikning að fjárhæð DKK 21.486,60 eða miðað við gengi íslensku krónunnar á þeim degi (10,5064) 225.747 kr. Þar sem kreditreikningur þessi sé gefinn út fyrir gjalddaga annarra reikninga komi hann að fullu til frádráttar stefnufjárhæð. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar.

   Viðskiptin séu tilkomin vegna viðskipta sameignarfélagsins Guðlaugs Magnússonar sf. við stefnanda. Sameignarfélag þetta sé hætt rekstri en eigendur þess hafi verið tilgreindir Magnús H. Guðlaugsson og Hanna Sigríður Magnúsdóttir til helminga. Sé þeim því stefnt óskipt til greiðslu skuldarinnar.

   Af hálfu stefnanda er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað er studd með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu, Hönnu Sigríðar

   Af hálfu stefndu, Hönnu Sigríðar, er því haldið fram að hún hafi gengið í félagið, Guðlaugur Magnússon, skartgripaverslun sf., þann 26. janúar 1998, sbr. útprentun úr firmaskrá.

   Reikningar stefnanda séu allir útgefnir fyrir inngöngu stefndu í félagið. Er stefnda gekk í félagið hafi hún ekki orðið sjálfkrafa persónulega ábyrg fyrir greiðslu þeirra skulda sem til hafi verið stofnað fyrir þann tíma. Stefnda hafi ekki gefið út nein loforð eða ábyrgðaryfirlýsingar vegna þeirrar skuldar sem hér er stefnt fyrir.

   Nýr félagsmaður í sameignarfélagi verði ekki persónulega ábyrgur fyrir eldri skuldbindingum félagsins nema hann gangist undir slíkar skuldbindingar með óyggjandi hætti. Stefnandi geti því ekki krafið stefndu, Hönnu, persónulega um greiðslu umræddra reikninga sem gefnir séu út á hendur Guðlaugi Magnússyni sf., þar sem til þeirra skuldbindinga hafi verið stofnað áður en stefnda gekk í félagið og stefnda hafi ekki með öðrum hætti tekið að sér greiðslu þeirra reikninga.

   Því beri að sýkna stefndu Hönnu af kröfum stefnanda. Kröfum stefnanda sé ranglega beint að stefndu, sbr. einnig 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

   Af hálfu stefndu er vísað til almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar. Einnig er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988. Stefndu séu ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að  fá dóm, fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

Niðurstaða

   Stefndi, Magnús Guðlaugsson, hefur  hvorki sótt né látið sækja þing er honum þó löglega stefnt. Verður því samkvæmt 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma málið að því er þennan stefnda varðar eftir framlögðum skjölum og skilríkjum og kröfum og málatilbúnaði stefnanda.

   Aðalmeðferð málsins hefur verið frestað tvívegis að ósk lögmanns stefndu, Hönnu Sigríðar Magnúsdóttur. Þegar aðalmeðferð fór fram 6. desember sl., tilkynnti lögmaðurinn að hann teldi ástæðulaust að leiða hana fyrir dóm til skýrslugjafar.

   Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefndu að rétt hefði verið að beina máli þessu að Magusi ehf. og sýkna beri stefndu sökum aðildarskorts. Magus ehf. hafi yfirtekið starfsemi Guðlaugs A. Magnússonar sf. í júní 1997.

   Af hálfu stefnanda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni.

   Fallast ber á það með stefnanda að þessi málsástæða sé of seint fram komin. Ekkert er á hana minnst í greinargerð. Þar er sýknukrafa stefndu, Hönnu Sigríðar Magnúsdóttur, á því byggð að hún hafi ekki gengið í félagið, Guðlaugur Magnússon skartgripaverslun sf., fyrr en eftir að stofnað var til viðskipta þeirra sem málið er af risið. Í því sambandi var vísað til upplýsinga úr firmaskrá sem liggja fyrir sem dskj. 6. Þar segir að stefnda hafi gengið í félagið 26. janúar 1998. Á dskj. 7 er tilkynning til firmaskrár Reykjavíkur um úrgöngu Reynis Guðlaugssonar úr sameignarfélaginu Guðlaugur Magnússon sf. Jafnframt segir í þeirri tilkynningu að þau stefndu, Magnús H. Guðlaugsson og Hanna Sigríður Magnúsdóttir, reki með ótakmarkaðri ábyrgð sameignarfélagið, Guðlaug Magnússon sf., í sameigningu frá 18. desember 1997.

   Á dskj. 10 eru upplýsingar úr hlutafélagaskrá varðandi Magus ehf., Laugavegi 22a, Reykjavík. Í stjórn félagsins eru stefndi, Magnús H. Guðlaugsson, formaður og meðstjórnendur stefnda, Hanna Sigríður Magnúsdóttir, og María Hrönn Magnúsdótir. Framkvæmdastjóri og prókúruhafi er stefnda, Hanna Sigríður Magnúsdóttir. Á dskj. 17 er ársreikningur Magusar ehf. Þar  segir m.a. að 1. júní 1997 hafi verið yfirtekinn rekstur af Guðlaugi Magnússyni sf. Slík yfirlýsing skiptir ekki máli gagnvart grandlausum viðsemjanda.

   Framlagðir reikningar stefnanda eru stílaðir á Guðlaug A. Magnússon, Laugavegi 22A. Sama er um kreditreikninginn sem stefnandi gaf út 7. janúar 1998. Á dskj. 8 er bréf til stefnanda, dags. 8. sept. 1997. Bréf þetta er með svofelldum bréfhaus: Guðlaugur A. Magnússon - Magus ehf. Með bréfi þessu eru bréfritarar m.a. að spyrjast fyrir um verð á pressuðum silfurskeiðum og fullgerðum silfurskeiðum. Undir bréfið rita stefndu bæði. Ekki kemur fram fyrir hönd hverra þau undirrita og ekki heldur sem hver.

   Reikningar stefnanda eru  fyrir silfurplötur og jólaskeiðar. Framangreint bréf  sýnir að stefndu, Hönnu, var kunnugt um viðskipti stefnanda og Guðlaugs A. Magnússonar sf. áður en hún gekk í sameignarfélagið. Þá er stefnda gekk í sameignarfélagið, Guðlaug A. Magnússon, hinn 18. desember 1997 tók hún að sér að reka það ásamt stefnda, Magnúsi, með ótakmarkaðri ábyrgð samkvæmt því sem segir í tilkynningu til firmaskrár. Til þess að þar félli ekki undir ábyrgð á greiðslu skulda, sem fyrir þann tíma hafði verið stofnað til af sameignarfélaginu og stefndu, Hönnu, var kunnugt um, hefði slíkt þurft að koma skýrt fram í tilkynningunni, þannig að þar léki enginn vafi á gagnvart skuldheimtumönnum félagsins. Svo er ekki. Samkvæmt því verður að telja stefndu, Hönnu, bera ábyrgð á  greiðslu hinnar umkröfðu skuldar með stefnda, Magnúsi. Þegar fjárhæð kreditreikningsins frá 7. janúar 1998, 335.747 kr., hefur verið dregin frá samtölu reikninganna, sem stefnandi krefst greiðslu á er niðurstaðan 1.687.422 kr.

   Ber því að taka kröfur stefnanda til greina þannig að stefndu eru dæmd in solidum til greiðslu á 1.687.422 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 488.439 kr. frá 16. janúar 1998 til 30. janúar 1998 en af 1.687.422 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

   Stefndu greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 350.000 kr.

   Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.

 

D ó m s o r ð:

   Stefndu, Magnús H. Guðlaugsson og Hanna Sigríður Magnúsdóttir, greiði stefnanda, Engellhard-Clal C/O Guldsmedebranchens, in solidum 1.687.422 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 488.439 kr. frá 16. janúar 1998 til 30. janúar 1998 en af 1.687.422 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 350.000 kr. í málskostnað.