Hæstiréttur íslands
Mál nr. 171/2007
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Yfirmat
- Gáleysi
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2007. |
|
Nr. 171/2007. |
Sigurður Stefánsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. Magnúsi Kristjánssyni og Guðrúnu Arnarsdóttur (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Miskabætur. Yfirmat. Gáleysi.
S slasaðist í umferðarslysi, sem varð með þeim hætti að fólksbifreið var ekið í veg fyrir strætisvagn, sem S ók, á gatnamótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar í Reykjavík. S krafði V hf. svo og ökumann og eiganda fólksbifreiðarinnar um nánar tilgreinda fjárhæð í skaðabætur vegna tjóns sem hann hlaut við slysið. V hf. hafði greitt honum bætur í samræmi við niðurstöðu þriggja yfirmatsmanna, en S reisti kröfu sína um frekari greiðslu skaðabóta á undirmatsgerð. Þá laut ágreiningur aðila að því hvort S ætti rétt á sérstökum miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Talið var að leggja bæri niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar til grundvallar ákvörðun skaðabóta til handa S. Þá var talið að ökumaður fólksbifreiðarinnar hefði í umrætt sinn sýnt af sér gáleysi sem ekki teldist stórfellt í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Bæri S því ekki sérstakar miskabætur á grundvelli ákvæðisins. Þar sem tjón hans var samkvæmt þessu að fullu bætt var kröfu hans um frekari greiðslur hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 25. janúar 2007 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 14. mars sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann málinu öðru sinni 26. mars 2007. Áfrýjandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 24.572.385 krónur með 2% ársvöxtum frá 17. mars 1998 til 23. mars 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.957.178 krónum sem greiddar voru 15. júlí 2003 og 10.232.454 krónum sem greiddar voru 27. janúar 2006. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefst áfrýjandi bóta vegna líkamstjóns er hann hlaut í umferðarslysi 17. mars 1998. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt honum bætur í samræmi við niðurstöðu þriggja yfirmatsmanna, sem skiluðu matsgerð 17. janúar 2006. Áfrýjandi vill ekki una yfirmatinu og byggir kröfu sína á undirmatsgerð 20. febrúar 2005 þar sem afleiðingarnar höfðu verið taldar meiri. Er gerð ítarleg grein fyrir þessum matsgerðum í hinum áfrýjaða dómi. Þá telur áfrýjandi að stefnda Guðrún Arnarsdóttir hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem valdið hafi umferðarslysinu er hún hafi ekið bifreiðinni HT-032 í veg fyrir strætisvagninn sem áfrýjandi ók. Krefst hann á þessum grundvelli sérstakra miskabóta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Dómari metur sönnunargildi matsgerða samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Að öllu jöfnu hlýtur sönnunargildi yfirmatsgerðar þriggja matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með öðrum gögnum, að vega þyngra við mat á sönnun en undirmatsgerð tveggja matsmanna, að því tilskildu að ekki hafi verið sýnt fram á ágalla á yfirmatsgerðinni. Yfirmatsgerð í málinu er ítarleg og vönduð. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að niðurstaða hennar um varanlegan miska hans og örorku hafi verið reist á röngum forsendum. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að leggja yfirmatsgerðina til grundvallar við ákvörðun skaðabóta til handa áfrýjanda.
Atvikum að umferðarslysinu 17. mars 1998 er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ökumaður bifreiðarinnar HT-032, stefnda Guðrún Arnarsdóttir, sýndi af sér gáleysi við aksturinn. Til þess að gáleysi teljist stórfellt þarf það að vera á mjög háu stigi. Umferðaróhöpp verða oftast vegna þess að ökumenn leggja ekki rétt mat á aðstæður. Gögn málsins sýna að mikil hálka hafði myndast á akbrautinni og að meginorsök slyssins verði rakin til hennar. Verður ekki talið að mistök stefndu við aksturinn séu svo óvenjuleg eða sérstök að gáleysi hennar geti talist stórkostlegt í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna stefndu af kröfum áfrýjanda um sérstakar miskabætur á grundvelli nefnds lagaákvæðis.
Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Sigurður Stefánsson, greiði stefndu, Vátryggingafélagi Íslands hf., Magnúsi Kristjánssyni og Guðrúnu Arnarsdóttur, sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2006.
Mál þetta var höfðað 10. mars 2005 og dómtekið 14. þ.m.
Stefnandi er Sigurður Stefánsson, Þverholti 5, Reykjavík
Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, Magnús Kristjánsson, Háleitisbraut 119, Reykjavík og Guðrún Arnarsdóttir, sama stað.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 24.572.385 krónur með 2% ársvöxtum frá 17. mars 1998 til 23. mars 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.957.178 krónum 15. júlí 2003 og 10.232.454 krónum 27. janúar 2006, auk málskostnaðar.
Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi þeirra en til vara að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Hinn 17. mars 1998, kl. um 18, var stefnandi ökumaður strætisvagns, UF-712, og ók vestur Bústaðaveg inn á Háaleitisbraut þegar fólksbifreiðinni HT-032, sem var ekið austur Bústaðaveg, var beygt norður Háleitisbraut og í veg fyrir strætisvagninn. Báðar bifreiðarnar voru á grænu umferðarljósi. Strætisvagninn lenti á hægra afturbretti fólksbifreiðarinnar og snerist hún við höggið. Í lögregluskýrslu um óhappið segir að mikið tjón hafi orðið á fólksbifreiðinni en lítið á strætisvagninum. Hálka hafi verið og snjór og hámarkshraði á veginum 50 km/klst. Við skýrslutöku hjá lögreglu 30. mars 1998 er haft eftir stefnanda: „. . . Ég var á leið vestur Bústaðaveg og var ekki á miklum hraða. . . Ég veitti hinni bifreiðinni athygli en hún var stöðvuð inn á gatnamótunum og var greinilegt að ökumaður hafði ekið austur Bústaðaveg og ætlaði norður Háaleitisbraut. Báðar bifr. voru á grænu ljósi. Rétt sem ég var að koma að bifreiðinni ók ökumaður af stað og þvert í veg fyrir bifreiðina hjá mér. Ég hemlaði og reyndi að beygja undan en tókst ekki að afstýra árekstri. Lenti ég á hægra afturbretti bifreiðarinnar sem snerist við höggið. Ég fór strax að bifreiðinni og var ökumaður með fulla meðvitund en kvartaði undan eymslum. Var því fengin sjúkrabifreið á staðinn sem flutti ökumann á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ég hef kynnt mér vettvangsuppdrátt og er hann réttur eins og ég man hann. Ég vil taka það fram að ég þurfti sjálfur að leita læknis eftir óhappið. Fékk ég eymsli í bak. Ég mun hafa tognað eftir því sem læknir segir. Fór ég í Heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi. Ég hef verið frá vinnu síðan óhappið varð.“
Í stefnu er haft eftir stefnanda (tekið úr matsbeiðni): „. . . að bifreið hafi ekið í veg fyrir hann mjög óvænt þegar bifreiðin sem hann ók hafi verið komin á allnokkra ferð, upp undir 60 km hraða. Við áreksturinn hafi hann kastast fram á stýrið, sem hafi verið lágt stillt, slengst yfir stýrið með efri hluta líkamans, en hann hafi haft belti yfir mjaðmirnar eins og tíðkaðist að strætóbílstjórar höfðu á þessum tíma, þannig að hann hafi ekki lyfst úr sætinu. Kveður matsbeiðandi að er hann slengdist fram á stýrið hafi hann heyrt smella í hryggnum á sér en hann hafi lent á stýrinu líkt og slegið sé með svipu. Hann hafi síðan slengst aftur á bak og þá rekið höfuðið í hnakkpúða sætisins, þar næst hafi hann kastast til hægri hliðar og lent með síðuna eða ofan við mjöðm á hurð sem lokaði bílstjórasætið af gagnvart farþegum. Telur matsbeiðandi að hann hafi dofnað upp við áreksturinn og fundið til en meginverkirnir komið seinna. Hann kveður að hann hafi einnig verið vel á sig kominn fyrir slysið og því ekki talið að hann hafi slasað sig eða fengið slíka áverka eins og síðar hafi komið í ljós.“
Ökumaður bifreiðarinnar HT-032 var stefnda, Guðrún Arnarsdóttir, og eigandi stefndi, Magnús Kristjánsson, og var hún tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Það hefur ekki sætt ágreiningi að ökumaður bifreiðarinnar HT-032 hafi átt alla sök á árekstri bifreiðanna.
II
Hér verður gerð grein fyrir helstu læknisfræðilegum gögnum málsins.
Í áverkavottorði heilsugæslulæknis stefnanda, Sigríðar D. Magnúsdóttur, Heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi, dags. 29. september 1998, segir: „Lenti í árekstri á mótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegar kl. 18.00 þann 17/3 sl. Var ekki í bílbelti kastaðist fram, síðan aftur og til hliðar. Áður hraustur engin lyf. Eftir slysið þrálátir bakverkir og stirðleiki í baki, óvinnufær. Lagaðist af sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og hvíld.“
Í læknisvottorði Garðars Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis, dagsettu 3. janúar 2000, kemur fram að stefnandi hafi fyrst leitað til læknisins 8. ágúst 1999. Þá hafi legið fyrir sneiðmynd af mjóbaki sem lýsi slitbreytingum á þremur neðstu liðbilunum í mjóbakinu og brjósklosi á neðsta liðbilinu. Við komu hafi stefnandi verið óvinnufær í u.þ.b. eina viku. Vandamálið var mjóbaksverkir, mest neðst í mjóbakinu, sem stundum leiddu ofan í fætur. Verkjaleiðnin í fæturna gat komið við skyndilegar hreyfingar, oft í báða fætur samtímis. Kvaðst engin verkjalyf taka, hafði verið í sjúkraþjálfun eftir slysið 1998 en hafði af henni einungis tímabundið gagn. Ljóst var að stefnandi var ekki á batavegi. Í samantekt læknisins segir að líklegt sé að stefnandi, sem fyrir umrætt slys hafi verið heilsuhraustur, þjáist af stöðugum mjóbaksverkjum. Samkvæmt niðurstöðu læknisins bendir frásögn stefnanda, gögn frá heimilislækninum og umræddar myndatökur ásamt skoðunum læknisins sjálfs, eindregið til þess að slitbreytingar í mjóbaki hafi farið að gefa einkenni eftir umrætt vinnuslys/umferðaslys. Afleiðingarnar séu stöðugir mjóbaksverkir.
Einnig liggur frammi læknisvottorð Garðars Guðmundssonar, dagsett 12. apríl 2002. Í samantekt og niðurstöðu segir að stefnandi hafi orðið fyrir tveimur slysum, í mars 1997 og mars 1998. Eftir fyrra slysið hafi hann orðið fyrir áverka, m.a. brjósklos í hálsi milli V. og VI. hálsliða vinstra megin og verið illa haldinn á tímabili en náð sér þó án skurðaðgerðar; hafi nokkra rýrnun í vinstri handlegg eftir þetta. Seinna slysið hafi þó verið ennþá alvarlegra, aukið á hálsáverkann sem hann hafi fengið í fyrra slysinu og skapað honum slík mjóbaksvandamál að hann hafi verið óvinnufær frá haustinu 1999 þrátt fyrir margvíslegar meðferðir og rannsóknir.
Í vottorði sama læknis, dags. 28. desember 2004, segir að stefnandi hafi upplýst í október 2001 á stofu hjá sér að hann hefði gengið með hálskraga eftir slysið í mars 1998 og að hann teldi að þarna væri um beint samhengi að ræða við slæm hálsvandamál sín. Stefnandi hafi alltaf verið trúverðugur og nákvæmur í lýsingum sínum en jafnan „unnið mest með það vandamál“ sem var stærst og látið það skyggja á önnur vandamál sem einnig kröfðust úrlausnar. Samkvæmt gögnum læknisins telji hann víst að hálsvandamál stefnanda hafi hafist með slysinu 17. mars 1998.
Frammi liggur læknisvottorð Bjarna Valtýssonar svæfinga- og gjörgæslulæknis, dagsett 23. nóvember 2002. Þar kemur m.a. fram að stefnanda hafi verið vísað til læknisins af Garðari Guðmundssyni heila- og taugaskurðlækni til skoðunar og mats vegna einkenna sinna. Læknirinn hitti stefnanda fyrst í viðtali og skoðun 19. maí 2000. Aðalkvartanir eru um verki í baki sem leiða niður í rasskinnar beggja vegna. Í vottorði frá heimilislækni komi fram að hann hafi áður átt við bakverki að stríða, leitað til lækna og verið frá vinnu í nokkrar vikur 1992, sem hafi lagast með hefðbundinni meðferð. Samkvæmt vottorðum virðist stefnandi hafa náð sér eftir áverka líkamsárásar sem hann varð fyrir 22. mars 1997. Um miðjan janúar 2001 fékk hann skyndilega verk er hann sneri höfðinu, sem geislaði frá hryggnum niður vinstri hendi. Fannst hann vera kraftminni þeim megin með dofa aðallega niður í litlafingur. Við skoðun virtust kraftar vera jafnir, þó kannski minni vinstra megin. Það var dofi við snertingu yfir svæðum nærðum af sjöundu og áttundu hálstaugarót. Það voru minnkaðar hreyfingar í hálsi og eymsli yfir smáliðum. Segulómun var gerð af hálsi þann 16. október 2001 og sýndi hún slitbreytingar í hálsi, brjósklos milli fimmta og sjötta hálsliða yfir til vinstri og þrengingu á taugaopi milli sjötta og sjöunda hálshryggjarliða. Hinn 28. september 2001 segist hann hafa verið mjög slæmur í bakinu og farið versnandi. Voru verkirnir einnig stöðugir niður í rasskinnar. Þá voru verkir í hálsi og herðum, aðallega vinstra megin, og höfuðverkur.
Í læknisvottorði Marinós P. Hafstein sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, dags. 29. desember 2002, kemur fram að Garðar Guðmundsson heila- og taugaskurðlæknir hafi sent stefnanda til hans og hafi hann skoðað stefnanda 4. nóvember 2002 og framkvæmt síðan vöðvarafrit og taugaleiðningarannsókn. Segir í niðurlagi vottorðsins: “Af mínum stuttu kynnum af Sigurði Stefánssyni er augljóst að hann þjáist af mjög slæmum mjúkpartatognunum í hálsi, herðum, vinstri olnboga og niður eftir baki auk þess að hafa verið með klemmu á VI. hálsrótartaug vinstra megin.“
Einnig liggur frammi vottorð sama læknis, dags. 24. nóvember 2004. Samkvæmt áliti læknisins er stefnandi, eins og læknirinn sér hann 2. nóvember 2004, allur útsettur í sinabólgum og fellur inn í greininguna vefjagigt. Að áliti hans varð stefnandi fyrir meiriháttar hálstognun og mjóbakstognun í slysinu 17. mars 1998. Lýsingin á tilhögun slyssins sé dæmigerð fyrir slæma tognun á hálsi og baki. Auk þess að vera með þessi miklu tognunareinkenni, sem byrjuðu í hálsi og mjóbaki, út um allan líkamann, sé stefnandi orðinn þunglyndur að viti læknisins og mikill kvíði í honum. Hann hafi verið á vegum Kristófers Þorleifssonar geðlæknis frá því í byrjun ársins 2004. Læknirinn álítur að öll einkenni sem stefnandi hafi séu vegna bílslyssins 17. mars 1998 þrátt fyrir að hann hafi áður átt við einhver væg mjóbaksvandamál að stríða.
Þá liggur frammi í málinu greinargerð Kristófers Þorleifssonar geðlæknis, dagsett 26. nóvember 2004. Þar kemur fram að stefnandi hafi komið fyrst til læknisins í skoðun og viðtal þann 11. maí 2004 og síðan í viðtal og skoðun þann 28. maí og 12. nóvember s.á. Greindi hann frá því að hann hefði orðið fyrir tveimur slysum, fyrra slysið líkamsárás 22. mars 1997 og seinna slysið umferðaróhapp/vinnuslys 17. mars 1998. Stefnandi hafi verið algerlega óvinnufær vegna þeirra áverka sem hann hlaut í seinna slysinu, hafi þjáðst af verkjum og átt við sálræna erfiðleika að stríða. Í niðurlagi greinargerðarinnar kveðst læknirinn telja að stefnandi sé haldinn alvarlegu þunglyndi sem svari illa þunglyndislyfjameðferð. Þetta þunglyndi hafi komið í kjölfar slyssins 17. mars 1998. Verkjavandamálið, sem hann stríði við eftir slysið, eigi sennilegast stærstan þátt í þunglyndinu. Jafnframt virðist hann vera með verulega truflun á framheilastarfsemi, hann sé mjög minnislaus og afar hvatvís og hafi laka hvatastjórn, sem hægt sé að rekja beint til slyssins. Einnig telur hann að stöðugleikapunkti hjá stefnanda sé náð hvað varðar andlegt ástand eftir slysið. Þunglyndi hans og framheilaeinkenni telur hann munu vera þess valdandi að hann verði áfram um alla framtíð alls ófær til launaðra starfa.
Í læknabréfi Sigríðar Dóru Magnúsdóttur, dags. 20. desember 2004, er vísað til fyrirspurnar um fyrstu komu stefnanda til læknisins og kvartanir um einkenni frá hálsi. Stefnandi hafi fyrst skráð sig á Heilsugæslustöðina Seltjarnarnesi 11. mars 1998. Þá hafi borist pappírar frá fyrri heimilislækni allt frá árinu 1992. Í þeim pappírum sé aldrei getið um óþægindi frá hálshrygg. Læknirinn hitti stefnanda fyrst 23. mars 1998 þegar hann leitaði til hennar sex dögum eftir árekstursins 17. mars 1998. Í því viðtali var rætt um mjóbaksverki svo og í öðrum viðtölum á árinu 1998, eða 14. apríl, 4. maí og loks 28. september 1998. Í sjúkraskrá stefnanda frá þessum komum og vottorðum sem skrifuð voru á þessum tíma sé aldrei getið um einkenni frá hálshrygg eða kvartanir frá hálsi en rétt sé að benda á að ekki sé heldur tekið fram að hann sé einkennalaus frá hálsi. Útilokað sé að hann hafi fengið hálskraga á heilsugæslustöðinni. Stefnanda var vísað í sjúkraþjálfun vegna verkja í mjóbaki og var í þjálfun hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur til 9. júlí 1998. Stefnandi hafi næst verið í sambandi við lækninn í ágúst 1999 og voru einkenni frá mjóbaki ennþá áberandi sem leiddi til tilvísunar á heila- og taugaskurðlækni. Fór stefnandi fyrst til Garðars Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis 8. september 1999 og var áfram hjá honum. Um það leyti var hann greindur með brjósklos í mjóbaki. Fór síðan í aðgerð á brjósklosi í hálsi og taugalosun í vinstri olnboga hjá Garðari. Hafði stefnandi þá fyrr um sumarið 1999 hitt Gunnar Þór Jónsson bæklunarlækni vegna bakverkja. Samskipti læknisins við stefnanda haustið 1999 snerust um mjóbaksverki og vottorðaskrif vegna fjarvista frá vinnu og breytingu á sumarleyfi vegna verkja. Stefnandi var ekki í sambandi við lækna Heilsugæslunnar aftur fyrr en á árinu 2002 út af öðrum kvillum. Í þeim viðtölum kom fram að hann var í meðferð hjá læknunum Bjarna Valtýssyni i og Garðari Guðmundssyni vegna verkja.
III
Stefnandi og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf. óskuðu eftir því við læknana Atla Þór Ólason og Ragnar Jónsson að þeir mætu afleiðingar tveggja slysa sem stefnandi hefði lent í, þ.e. líkamsárásar 22. mars 1997 og umferðarslyss 17. mars 1998. Metin yrði tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka vegna afleiðinga líkamsárásarinnar og afleiðingar umferðarslyssins yrðu metnar samkvæmt lögum nr. 50/1993.
Í matsgerð, dags. 1. apríl 2003, segir m.a.: „ Í umferðarslysinu 17.03.1998 hefur Sigurður fengið tognun á mjóbak. Talið er að einkenni hans megi rekja til tognunar og einkenna sem hafa vaknað frá slitbreytingum í mjóbaki. Síðar koma fram einkenni frá hálsi eins og rakið er í gögnum hér að framan. Virðist nokkuð ljóst að einkenni frá hálsi hafi komið alllöngu síðar . . . Virðist því ljóst að ekki er hægt að rekja einkenni frá hálsi og síðar greint hálsbrjósklos og einkenni frá vinstri ölnartaug til afleiðinga umferðarslyssins 17.03.1998. . . Þunglyndiseinkenni hafa komið fram eins og algengt er hjá sjúklingum með langvinn verkjavandamál. . . Við mat á miska er miðað við verulegar afleiðingar baktognunar með rótareinkennum niður í vinstri ganglim. . . Við mat á örorku er miðað við að vegna afleiðinga umferðarslyssins 17.03.1998, þ.e. bakeinkenna hafi dregið talsvert úr vinnugetu Sigurðar . . .“
Matsniðurstöður eru þessar:
„Við mat á læknisfræðilegri örorku vegna afleiðinga líkamsárásar 22.03.1997 er:
Tímabundin læknisfræðileg örorka frá 22.03.1997-23.04.1997, 100%.
Varanleg læknisfræðileg örorka 3%.
Mat skv. lögum nr. 50/1993 vegna afleiðinga umferðarslyss 22.03.1997:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. ................................ 17.03.1998-15.09.1998, 100%.
2. Þjáningabætur skv. 3. gr. Sigurður telst hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga frá 17.03.1998-15.09.1998, ekkert rúmliggjandi.
3. Varanlegur miski skv. 4. gr. 15%.
4. Varanleg örorka skv. 5.gr. 25%.“
Stefnandi óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta afleiðingar umferðarslyss sem hann varð fyrir 17. mars 1998 svo og líkamsárásar er hann varð fyrir 22. mars 1997 við vinnu sína. Þau Áslaug Björgvinsdóttir lögfræðingur og Stefán Dalberg bæklunarlæknir voru dómkvödd 14. maí 2004 en þar sem Áslaug óskaði eftir því að verða leyst frá störfum var á dómþingi 7. júlí 2004 Páll Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, dómkvaddur í hennar stað. Matsgerð er dagsett 20. febrúar 2005. ´Niðurstöður bera með sér hverjar spurningar voru lagðar fyrir matsmenn. Í matsgerðinni segir m.a.:
„XII
Afstaða til matsefna
1. Almennt
Um er að ræða 44 ára mann, sem verður fyrir líkamsárás 22.03.1997. Kveðst hann hafa náð sér að fullu, bæði andlega og líkamlega eftir líkamsárásina og ekki hafa kennt sér meins þegar hann lendir í bílslysinu 17.03.1998. Hann var vinnufær að fullu. Verður miðað við þessa niðurstöðu í matsgerð þessari.
Hann lendir síðan í fyrrnefndu bílslysi 17.03.1998. Í slysinu kastast hann fram og til baka og síðan til hægri, þar sem hann rak hægri síðuna í lága hurð. Við þetta fær hann hnykk á hryggsúluna. Kveðst hann hafa fengið smell í bakið og fengið strax mjög slæma bakverki. Kveðst einnig hafa fengið hálsverki. Síðan hefur ástandið farið mikið versnandi með árunum og í dag kveðst hann vera sífellt þjáður af verkjum um allan líkamann, þar sem hann er sérlega slæmur í hálsi og mjóbaki. Er enn með mjög slæman verk niður í vinstri efri útlim og slæman stöðugan höfuðverk. Hefur einnig verki frá mjöðmum. Við göngu eða álag fær hann slæman verk niður í hægri ganglim með dofa þar. Hefur haft skjálfta í vinstri hendi sl. 2-3 ár. Þá hrjáir hann sinnuleysi og almennt þróttleysi. Einnig hefur hrjáð hann mikið þunglyndi og minnisleysi.
Að áliti matsmanna hafa bakmeiðslin klár og ótvíræð tengsl við umrætt umferðarslys.
Hvað hálsmeiðslin varðar, þá virðast þau hafa fallið í skugga bakmeiðslanna, vegna slæmra verkja í baki strax eftir slysið. Það kemur fram í læknisvottorðum Garðars Guðmundssonar heila og taugaskurðlæknis að skv. hans gögnum telur hann víst að hálsvandamál matsbeiðanda hafi hafist í fyrrnefndu bílslysi. Í vottorði Marínós Hafssteins taugalæknis kemur fram, að hann telur að matsbeiðandi hafi orðið fyrir meiriháttar hálstognun og mjóbakstognun í umferðarslysinu. Með vísun til þessa sem og allra aðstæðna við slysið, eftir því sem frekast verður ráðið í þær af málsgögnum, telja matsmenn afar sennilegt að orsakasamband sé á milli slyssins og hálsmeiðslanna.
Matsmenn telja einnig mjög sennilegt að beint orsakasamband sé á milli bílslyssins 17.03.1998 og þess þunglyndis, minnisleysis, þróttleysis, stoðkerfisverkja og höfuðverkja sem hrjáð hafa matsbeiðanda eftir slysið.
Eru eftirfarandi niðurstöður byggðar á því, er hér hefur verið sagt.
2. Svör við einstökum spurningum í matsbeiðni
a. Svar við matsspurningu a.
Matsbeiðandi telst hafa orðið fyrir meiðslum á lendhrygg og hálshrygg. Hann hefur einnig þjáðst af ýmsum verkjum frá stoðkerfi og oft haft höfuðverk. Hann hefur þjáðst af þunglyndi og minnisleysi. Framangreint telst tengjast slysinu 17.03.1998. Erfitt er að segja til um hvaða lyf matsbeiðandi muni eiga eftir að taka í framtíðinni og þær aukaverkanir sem þau lyf hafi, þar sem sífellt koma ný lyf á markaðinn, með mismunandi aukaverkunum.
Afleiðingar líkamsárásarinnar þann 22.03.1997 teljast ekki vera varanlegar.
. . .
XIII
Niðurstöður
1. Um svar við matsspurningu a. Vísast til þess, sem segir í XII-2-a hér að framan.
2. Þjáningatímabil vegna slyssins 17. mars 1998 er frá þeim degi fram til þess að stöðugleikapunkti er náð, 15.09.1998.
Þjáningatímabil vegna slyssins 22. mars 1997 er frá þeim degi fram til þess að stöðugleikapunkti er náð, 23.04.1997.
3. Örorka matsbeiðanda á grundvelli staðals Tryggingastofnunar ríkisins er yfir 75%.
4. Varanlegur miski matsbeiðanda eftir danskri miskatöflu:
Vegna slyssins 17. mars 1998: 39% - þrjátíu og níu stig.
Vegna slyssins 22. mars 1997: Enginn
5. Varanlegur miski matsbeiðanda eftir miskatöflu örorkunefndar:
Vegna slyssins 17. mars 1998: 39% - þrjátíu og níu stig.
Vegna slyssins 22. mars 1997: Enginn.
6. Varanleg örorka matsbeiðanda eftir skaðabótalögum:
Vegna slyssins 17. mars 1998: 75% - sjötíu og fimm stig.
Vegna slyssins 22. mars 1997: Engin.“
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., fór þess á leit að dómkvaddir yrðu þrír sérfróðir og óvilhallir menn, tveir læknar og einn lögfræðingur, til þess að meta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 í yfirmati afleiðingar þess slyss sem stefnandi varð fyrir. Til starfans voru dómkvaddir 26. maí 2005 Björn Daníelsson héraðsdómslögmaður, Ríkharður Sigfússon bæklunarskurðlæknir og Torfi Magnússon heila- og taugasérfræðingur. Óskað var svara um eftirtalin atriði: (1) Hvenær megi vænta þess að stöðugleiki hafi verið kominn á líkamlegt ástand yfirmatsþola vegna umferðarslyssins 17. mars 1998. (2) Hvort varanlegur miski og/eða varanleg örorka yfirmatsþola hafi aukist frá því að læknarnir Ragnar Jónsson og Atli Þór Ólason mátu afleiðingar slyssins í apríl 2003. (3) Hafi varanlegur miski og/eða varanleg örorka aukist, er óskað svara við eftirfarandi: (A) Hvort breytingar á líkamlegu ástandi yfirmatsþola hafi verið ófyrirsjáanlegar er fyrrnefnt mat fór fram. (B) Hvort viðbótar varanlegur miski og/eða varanleg örorka verði rakin til afleiðinga umferðarslyssins 17. mars 1998. (C) Ef svar við b. lið er játandi, hver sé þá viðbótar varanlegur miski og/eða varanleg örorka yfirmatsþola af völdum umferðarslyssins 17. mars 1998.
Yfirmatsgerð er dagsett 17. janúar 2006 (í henni kemur fram að matsmönnum hafi ekki borist gögn málsins fyrr en í lok september 2005). Lokakaflar matsins eru svohljóðandi:
„§ IX SAMANTEKT OG ÁLIT
. . .
§ IX.1. STÖÐUGLEIKATÍMAPUNKTUR
Yfirmatsmenn hafa skoðað ítarlega fyrirliggjandi læknisvottorð í málinu. Í læknabréfi heimilislæknis yfirmatsþola, Sigríðar Dóru Magnúsdóttur, dags. 8. desember 1999, segir að hann hafi verið frá vinnu út af bakverkjum til 15. september 1998. Var á meðan í sjúkraþjálfun, eigin þjálfun og notaði verkjalyf. Við komu á stofu til læknisins 28. september s.á. var rétt staða á hrygg, gat gengið og hreyft sig lipurlega. Áfram þreifieymsli, en minni en áður hæ. megin í mjóbaki. Stirðar hreyfingar í lendhrygg. Næsta koma til læknisins skv. læknabréfinu er skráð í ágúst 1999 (3. ágúst 1999 skv. sjúkraskrá). Í öðrum gögnum kemur fram að yfirmatsþoli hafi verið óvinnufær að hluta allt þar til hann virðist hafa hætt störfum eða frá 7. september 1999 sbr. vottorð Kristjáns Magnússonar, dags. 13. desember 2004. Virðist ekki hafa leitað mikið til lækna frá 28. september 1998 til 3. ágúst 1999.
Yfirmatsmenn geta ekki séð að neinn bati hafi orðið á heilsufari yfirmatsþola vegna afleiðinga umferðarslyssins 17. mars 1998 eftir að óvinnufærnistímabili lauk skv. læknabréfi Sigríðar Dóru Magnúsdóttur, dags. 8. desember 1999, þ.e. 15. september 1998. Voru þá um sex mánuðir liðnir frá tjónsdegi. Er hér horft til fyrirliggjandi gagna málsins og þeirra sjúkdómsgreininga sem lagðar eru til grundvallar, þ.e. fyrst og fremst tognunareinkenna í baki, hjöðnunar á þeim einkennum. Batahvörf vegna afleiðinga umferðarslyssins 17. mars 1998 eru því sett 15. september s.á. Eru yfirmatsmenn því sammála dómkvöddum undirmatsmönnum hvað þetta varðar sem og matsmönnum í grunnmati.
§ IX.2. BREYTINGAR Á HEILSUFARI FRÁ APRÍL 2003
Í yfirmatsbeiðni er spurt um hvort varanlegur miski og/eða varanleg örorka yfirmatsþola hafi aukist frá því að læknarnir Ragnar Jónsson og Atli Þór Ólason mátu afleiðingar umferðar-slyssins [17. mars 1998] í apríl 2003 [matsgerð dags. 1. apríl 2003, matsfundur haldinn 18. mars 2003]. Verður við mat á ofangreindri spurningu að mati yfirmatsmanna fyrir utan fyrirliggjandi skrifleg gögn málsins aðallega að styðjast við læknisskoðun og þáverandi kvartanir yfirmatsþola á yfirmatsfundi dags. 5. desember 2005 til samanburðar við sömu þætti á matsfundi dómkvaddra matsmanna dags. 3. desember 2004 og á matsfundi vegna grunnmatsgerðar dags. 18. mars 2003. Áður en lengra er haldið er rétt að benda á, að spurningin er hvort varanleg örorka og/eða varanlegur miski hafi aukist. Ekki er hægt að leggja samasemmerki milli þessarar spurningar og þeirrar spurningar hvort heilsufar yfirmatsþola hafi versnað frá sama tímapunkti að öllu leyti. Það eitt að fyrrgreindir matsþættir þ.e. varanleg örorka og varanlegur miski hafi ranglega verið metnir í grunnmatinu kemur hér einnig til álita. Nánar til tekið er ekki hægt að útiloka að varanleg örorka og varanlegur miski hafi áður verið vanmetin (eða eftir atvikum ofmetinn). Yfirmatsmenn horfa hér aðeins til þeirrar spurningar sem spurt er um og taka ekki afstöðu til þess beint hvort bótaliðir hafa verið ranglega metnir í grunnmatsgerð.
Yfirmatsþoli lendir í umferðarslysi 17. mars 1998, matsfundur vegna grunnmats var haldinn þann 18. mars 2003, voru þá liðin um 5 ár frá tjónsdegi. Í dag eru liðin nálægt 8 ár frá slysinu. Þegar horft er á skrifleg gögn málsins liggur fyrir að þau lágu mörg hver fyrir þegar matsfundur var haldinn í grunnmati þann 18. mars 2003. Þá verður einnig að líta til þess tíma sem liðinn var frá tjónsatburðinum til þess tíma að sá matsfundur var haldinn (um 5 ár). Þegar horft er til núverandi einkenna yfirmatsþola, starfsgetu hans og óþæginda, læknisskoðunar á yfirmatsfundi þann 5. desember 2005, og gagna málsins, verður að miða við að varanleg örorka og varanlegur miski sé hærri nú samanborið við það sem lagt er til grundvallar í matgerð Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar í grunnmatinu.
Yfirmatsmenn miða við að heilsufar yfirmatsþola hafi versnað að ákveðnu leyti frá því að grunnmatsgerð var skilað 1. apríl 2003 til dagsins í dag þ.e. á þeim um þremur árum sem liðin eru frá matsfundinum 18. mars 2003. Rétt er þó að taka fram að heilsufar yfirmatsþola í dag verður að mati yfirmatsmanna að teljast sambærilegt og það var á matsfundi dómkvaddra undirmatsmanna dags. 3. desember 2004. Voru þá liðnir um 19 mánuðir frá matsfundi í grunnmati. Er þá bæði horft til andlegra (geðrænna) og líkamlegra einkenna. Hvað andlegu einkennin varðar liggur nú fyrir læknisvottorð Kristófers Þorleifsson geðlæknis, dags. 26. nóvember 2004. Fyrsta koma yfirmatsþola til læknisins er skráð 11. maí 2004, einnig er skráð koma 28. maí s.á og 12. nóvember s.á. Í síðastgreindu vottorði er lýst orsakasamhengi við umferðarslysið 17. mars 1998 og geðrænum einkennum sem hafi farið versnandi. Rétt er þó að ítreka að andleg einkenni voru til staðar á matsfundi þann 18. mars 2003, fór yfirmatsþoli m.a. á bráðaþjónustu geðdeildar þann 23. janúar 2002 vegna skaperfiðleika. Hvað líkamlegu einkenni varðar er nú talið að nú sé um að ræða meiri líkamlega færnisskerðingu vegna einkenna frá stoðkerfa en var til staðar á matsfundi hjá Ragnari Jónssyni og Atla Þór Ólasyni dags. 18. mars 2003.
Yfirmatsmenn svara því framangreindri spurningu játandi. Bætt er hér við að í grunnmatsgerð dags. 1. apríl 2003 er hvað 15 stiga miska varðar, að því er virðist, eingöngu miðað við tognun í baki með rótareinkennum niður í vinstri ganglim. Ekki er í þeirri matsgerð talið að einkenni frá hálsi sé hægt að rekja til umferðarslyssins 17. mars 1998 né heldur virðist tekið tillit til andlegra einkenna við miskamat. Þá er í nefndri matsgerð miðað við að afleiðingar líkamsárásar 22. mars 1997 hafi valdið varanlegri læknisfræðilegri örorku, 3 stigum. Ekki er hægt að sjá af nefndri matsgerð hvaða forsendur er miðað við þegar varanleg örorka er metin til hundraðshluta þ.e. fyrir utan nefndar sjúkdómsgreiningar. Látið er nægja að segja að vegna bakeinkenna hafi dregið talsvert úr vinnugetu yfirmatsþola (sjá s. 13).
§ IX.3. UM ÓFYRIRSJÁANLEGAR HEILSUFARSBREYTINGAR
Yfirmatsmenn eru spurðir að því í yfirmatsbeiðni hvort að breytingar á líkamlegu ástandi yfirmatsþola hafi verið ófyrirsjáanlegar er fyrrnefnd mat fór fram [þ.e. frá því að matgerðinni var skilað 1. apríl 2003]. Er miðað við það hér að bæði sé spurt um geðrænar og líkamlegar afleiðingar slyssins þótt aðeins sé spurt um “líkamlegt ástand”. Yfirmatsmenn svara þessari spurningu játandi.
Yfirmatsmenn telja í stuttu máli að ekki hafi mátt sjá fyrir allar þær umkvartanir sem yfirmatsþoli hafði á yfirmatsfundi 5. desember 2005 og hafði á matsfundi dómkvaddra matsmanna þann 3. desember 2004 bæði andlegar og líkamlegar, þegar matsfundur fór fram 18. mars 2003. Er þá bæði horft til geðrænna einkenna yfirmatsþola í dag og færniskerðingar vegna minna úthalds í tengslum við einkenni frá stoðkerfi.
§ IX.4. ORSAKATENGSL VIÐ UMFERÐARSLYSIÐ 17. MARS 2003 (svo)
Yfirmatsþoli hefur áður glímt við stoðkerfiseinkenni skv. fyrirliggjandi gögnum og eigin frásögn. Í sjúkraskrá kemur fram að hann haft átt við bakvandamál að stríða, haft mjó-baksverki á árinu 1992. Hann sjálfur nefnir á yfirmatsfundi að þessi einkenni hafi verið minniháttar, hann hafi jafnað sig vel. Það liggur fyrir að 22. mars 1997 varð hann fyrir líkamsárás og fékk þá áverka á háls, höfuð og hné. Hann var frá vinnu um nokkurra vikna skeið í kjölfar árásarinnar en komst síðan til vinnu á ný, og ekki virðast hafa orðið frekari eftirmál af þessari árás. Hann segist sjálfur hafa náð sér fullkomlega eftir þennan tjónsatburð. Var hann hvorki metinn til varanlegs miska né varanlegrar örorku vegna áverka er hann þá hlaut. Telja yfirmatsmenn að einkenni er hann fékk í kjölfar þessa hafi gengið alveg til baka, og sé ekkert af hans vandkvæðum nú að rekja til þeirra áverka.
Yfirmatsþoli kveður hálsverki hafa byrjað tiltölulega fljótlega eftir bifreiðaslysið á árinu 1998. Samkvæmt upplýsingum í fyrirliggjandi samtímagögnum virðast þessi einkenni hins vegar hafa byrjað skyndilega á árinu 2001, er hann fékk sára verki í háls og verkjageislun út í handlegg. Yfirmatsmenn telja að á þeim tíma hafi hann fengið brjóskloseinkenni. Ekki er hægt að finna í gögnum er byggja á samtímaskráningu, að hálsverkir hafi verið til skoðunar eða rannsóknar fyrr en í byrjun árs 2001. Telja yfirmatsmenn því ekki hægt að leggja hálseinkenni til grundvallar við matið. Á hitt er jafnframt að líta að einkenni í hálsi eru væg í samanburði við einkenni hans í mjóbaki. Miðað er hins vegar við að hann hafi tognað í baki í umferðarslysinu 17. mars 1998 og að núverandi einkenni þaðan með tilheyrandi leiðni-einkennum séu í orsakasamhengi við tjónsatburðinn. Þá verður að miða við að andleg einkenni yfirmatsþola í dag séu í orsakasamhengi við sama slys.
§ IX.5. VARANLEGUR MISKI
Yfirmatsmenn leggja til grundvallar að varanlegur miski yfirmatsþola vegna tognunar-einkenna frá baki með rótareinkennum niður í vinstri ganglim sé rétt metinn sem 15 stig fimmtán af hundraði. Yfirmatsmenn telja jafnframt að afleiðingar mjúkvefjaáverka í mjóbaki yfirmatsbeiðanda hafi verið óvenjuslæmar og einkenni breiðst út fyrir sjálft mjóbakið. Telja þeir varanlegan miska vegna þessa rétt metinn sem 5 stig. Þá er miðað við að miskastig vegna geðrænna einkenna séu rétt metin sem 10 stig.
Samanlögð miskastig yfirmatsþola skv. mati yfirmatmanna vegna afleiðinga umferðarslyssins 17. mars 1998 eru því rétt metin sem 30 stig þrjátíu af hundraði. Yfirmatsmenn hafa við mat á varanlegum miska haft til hliðsjónar danskar og íslenskar töflur um miska. Tekið er mið að þeim erfiðleikum sem líkamstjónið veldur honum í daglegu lífi en það hefur breytt lífi hans töluvert eins og kemur fram í §V hér að framan sem og §VI. Gildir það m.a. um atvinnu- og félagssögu.
§ IX.6. VARANLEG ÖRORKA
Við mat á getu yfirmatsþola til að afla vinnutekna að teknu tilliti til þess líkamstjóns sem hann hefur orðið fyrir þykir rétt að greina annars vegar milli þess hvort viðhlítandi sönnun sé til staðar fyrir fjártjóni vegna minni getu til tekjuöflunar og hins vegar ef það er talið vera fyrir hendi í gefnu tilviki hver hundraðshluti tekjuskerðingarinnar er (%).
SÖNNUN TEKJUSKERÐINGAR
Yfirmatsmenn leggja til grundvallar að yfirmatsþoli geti ekki vegna afleiðinga umferðar-slyssins 17. mars 1998 stundað líkamlega krefjandi störf líkt og hann hefur aðallega starfs-reynslu til. Þá verður að líta svo á að hann geti ekki sinnt akstri strætisvagns líkt og hann hefur gert undanfarin ár fyrir tjónsdag. Framangreint er einkum að rekja til einkenna frá baki auk þess sem andleg einkenni virðast ætla að vera honum hamlandi. Þau störf sem koma einkum til greina í dag fyrir yfirmatsþola að mati yfirmatsmanna eru létt og hreyfanleg störf s.s. einhvers konar gæslu- eða þjónustustörf. Hvað starfshlutfall varðar er talið að hlutastarf í dagvinnustarfi sé honum mögulegt þegar til lengri tíma ræðir. Hér verður þó að horfa til þess að starfsval er nokkuð skert vegna líkamlegra og andlegra einkenna. Með tilliti til aldurs hans og eðlis líkamstjónsins ætti hálfsdagsstarf, í starfi er hentar, að vera honum mögulegt (þegar til lengri tíma er litið) þrátt fyrir afleiðingar tjónsatburðarins.
Við mat á varanlegri örorku hans verður auk framangreinds að því er varðar skert starfsval og lengd vinnutíma, að horfa til þess að mjög líklegt er að starfsævi hans muni skerðast frá því sem áður var áætlað. Yfirmatsþoli er nú 45 ára gamall og telst eiga um 25 ár eftir af hefðbundinni starfsævi án líkamstjóns. Einnig verður að líta til þess að hann hefur þegar orðið fyrir ákveðnu fjártjóni vegna missis á atvinnu frá stöðugleikatímapunkti 15. september 1998 til dagsins í dag. Eins og kemur fram hér að ofan er hann enn ekki farinn að vinna á almennum vinnumarkaði þegar meira en 7 ár eru liðin frá batahvörfum. Loks er ekki hægt að horfa framhjá því að ákveðin störf á heimilinu eru honum erfið og verður, með vísan til tiltölulega ungs aldurs og líkindum á frekara fjölskyldulífi, að meta það til örorka að hann getur ekki lengur sinnt öllum heimilisstörfum með líkamstjóni, gildir það einkum um störf sem teljast vera líkamlega krefjandi. Hafa verður í huga að yfirmatsþoli er mjög lítið menntaður, hefur þó meirapróf.
HUNDRAÐSHLUTI TEKJUSKERÐINGAR
Yfirmatsmenn hafa skoðað fyrirliggjandi skattframtöl yfirmatsþola og aðrar upplýsingar um tekjur hans fyrir og eftir umferðarslysið 17. mars 1998. Á tekjuárinu 1996 og 1997 hafði hann til að mynda á þágildandi verðlagi á milli um 1.750.000 kr. 1.850.000 kr. í árstekjur. Eftir slys hefur hann ekki verið í vinnu svo máli skiptir til samanburðar. Til samanburðar er hér hins vegar nefnt að ýmsar launatölur er að finna í könnun Kjararannsóknarnefndar (4. árs-fjórðungur 2004) s.s. hvað varðar gæslustörf ófaglærða manna.
Með hliðsjón af afmörkun fjártjóns yfirmatsþola sem að framan greinir og fyrirliggjandi launatalna, menntunar, aldurs og búsetu hans sem og eðli líkamstjónsins, telja yfirmatsmenn að varanleg örorka hans í dag sé réttilega metin sem 60% - sextíu af hundraði. Er þá horft til allra þeirra þátt sem takmarka getu hans til tekjuöflunar að mati yfirmatsmanna m.a. getu hans til að stunda heimilisstörf og þess að ákveðið fjártjón liggur fyrir frá stöðugleikatímapunkti til dagsins í dag.
§ X NIÐURSTAÐA
Við umferðarslysið 17. mars 1998 varð yfirmatsþoli skv. mati yfirmatsmanna fyrir eftir-farandi tjóni með hliðsjón af SKL:
i Stöðugleikatímapunktur skv. SKL:
15. september 1998.
ii Breytingar á heilsufari frá apríl 2003:
Sjá §IX.2. hér fyrir ofan.
iii Um ófyrirsjáanlega breytingar á heilsufari:
Sjá §IX.3 hér fyrir ofan.
iv Orsakatengsl við umferðarslysið 17. mars 2003:
Sjá §IX.4. hér fyrir ofan.
v Varanlegur miski skv. 4. gr. SKL:
30 stig - þrjátíu af hundraði.
vi Varanleg örorka skv. 5. gr. SKL:
60% - sextíu af hundraði.“
IV
Við aðalmeðferð málsins staðfestu undirmatsmennirnir Páll Sigurðsson og Stefán Dalberg og yfirmatsmennirnir Björn Daníelsson og Torfi Magnússon matsgerðir sínar og gáfu á þeim nokkrar skýringar. Hinu sama gegnir um vitnið Garðar Guðmundsson að því er tekur til læknisvottorða hans.
Lögmenn aðila lýstu því yfir við munnlegan málflutning að milli aðila væri ekki tölulegur ágreiningur.
Í málinu krefst stefnandi bóta vegna afleiðinga umrædds umferðarslyss sem varð 17. mars 1998. Bótaábyrgð stefndu er viðurkennd. Við munnlegan málflutning var því lýst yfir af lögmönnum aðila að milli þeirra væri ekki tölulegur ágreiningur.
Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
1. Miskabætur: 5.751.500 x 39% kr. 2.243.085
2 Bætur fyrir varanlega örorku: 2.673.000 x 10 x 75% kr. 20.047.500
3. Þjáningabætur: 180 x 1010 kr. 181.800
4. Bætur samkvæmt 26. grein skaðabótalaga kr. 2.000.000
5. Annað fjártjón kr. 100.000
Til frádráttar koma 5.957.178 krónur sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnanda 15. júlí 2003, auk bóta fyrir tímabundið tekjutjón og endurgreiðslu ýmissa kostnaðarliða (heildargreiðsla 7.156.703 krónur) og 10.232.454 sem sami stefndi greiddi stefnanda 27. janúar 2006 auk innheimtuþóknunar lögfræðings að upphæð 684.750 krónur með virðisaukaskatti. Í báðum tilvikum var greiðslum veitt viðtaka með fyrirvara.
Sýknukrafa stefndu er reist á því að tjón stefnanda hafi verið að fullu bætt.
Ekki eru sett fram rök fyrir vaxtakröfu stefnanda. Stefndu mótmæla vaxtakröfu stefnanda. Eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Að því er tekur til þriggja fyrstu kröfuliða stefnanda byggist ágreiningur á því að stefnandi krefst bóta á grundvelli niðurstaðna undirmats en stefndu krefjast sýknu á grundvelli þess að greitt hefur verið samkvæmt niðurstöðum yfirmats.
Með niðurstöðum yfirmats var niðurstöðum undirmats hnekkt. Hæfi og hæfni yfirmatsmanna hefur ekki verið dregið í efa og réttra aðferða var gætt við framkvæmd matsins. Yfirmatsgerðin er ítarleg og verða niðurstöður hennar, sem eru rækilega rökstuddar, lagðar til grundvallar dómi.
Krafa stefnanda um bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga styður stefnandi þeim rökum að ökumaður bifreiðarinnar HT-032, stefnda Guðrún Arnarsdóttir, hafi valdið honum tjóni með stórkostlegu gáleysi með því að haga akstri sínum í umrætt sinn á þann hátt að aka fyrirvaralaust í veg fyrir strætisvagninn sem stefnandi ók. Af hálfu stefndu er kröfunni mótmælt. Á það er bent að samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að skaðabótalögum nr. 50/1993 þurfi gáleysi að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð og sé ekki fallist á það með stefnanda að háttsemi hins stefnda ökumanns bifreiðarinnar HT-032 teljist til stórkostlegs gáleysis. Þá er fjárkröfu samkvæmt þessum lið mótmælt sem allt of hárri og í engum takti við dómaframkvæmd.
Fallist er á framangreind rök stefndu. Akstur stefndu Guðrúnar Arnarsdóttur var vissulega gálaus en það gáleysi verður ekki metið sem stórfellt.
Kröfu um bætur vegna annars fjártjóns byggir stefnandi á þeim kostnaði sem hann hafi orðið fyrir við að leita sér lækninga. Hér sé um að ræða kostnað, sem stefnandi hafi ekki hirt um að halda til haga, m.a. vegna símtala, ferðalaga, lyfja og komugjalda til lækna. Þessari kröfu mótmæla stefndu sem ósannaðri, órökstuddri og allt of hárri.
Framangreind krafa er engum gögnum studd og verður ekki fallist á hana.
Niðurstaða dómsins er samkvæmt þessu sú að tjón stefnanda hafi að fullu verið bætt og því beri að sýkna stefndu af kröfum hans. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð
Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., Magnús Kristjánsson og Guðrún Arnarsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Stefánssonar.
Málskostnaður fellur niður.