Hæstiréttur íslands

Mál nr. 677/2015

Bliki ehf. (Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.)

Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging

Reifun

B ehf. höfðaði mál á hendur Í hf. og krafðist viðurkenningar á því að lánssamningur frá árinu 2008 hefði verið um lán í íslenskum krónum bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Talið var að fyrir lægi að lánið hefði verið greitt með millifærslu á erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga B ehf. sem hafði endurgreitt lánið með öðru láni hjá Í hf. í erlendum gjaldmiðlum. Var því litið svo á að báðir aðilar hefðu í meginatriðum efnt skyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hefðu skipt um hendur. Var Í hf. sýknað af kröfu B ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur sem hann gerði við Glitni banka hf. 1. mars 2008 hafi verið í íslenskum krónum og að ákvæði hans um tengingu fjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla ólögmæt og óskuldbindandi fyrir sig. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Bliki hf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 28. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Bliki ehf., Glerárgötu 24, Akureyri, á hendur Íslandsbanka hf., með stefnu áritaðri um birtingu 28. febrúar 2014.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að lánssamningur stefnanda við stefnda, áður Glitni banka hf., kt. [...], forvera stefnda, dagsettur 1. mars 2008, upphaflega til tveggja ára að jafnvirði að fjárhæð allt að 900.000.000 króna, í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum, sé lánssamningur í íslenskum krónum og að ákvæði hans um tengingu fjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla séu ólögmæt og óskuldbindandi fyrir stefnanda.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, ásamt virðisaukaskatti á málskostnað.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Stefnandi er einkahlutafélag og er hlutafé félagsins 8.866.000 krónur.  Tilgangur þess er eignarhald á hlutum í félögum og annar skyldur rekstur, samkvæmt samþykktum félagsins.  Í skýrslu stjórnar í ársreikningi hefur komið fram að félagið sé eignarhaldsfélag sem eigi 10,9% hlut í þar tilgreindu hlutafélagi.

                Málavextir eru þeir, að með lánssamningi, dagsettum 8. febrúar 2005, gerði stefnandi lánssamning við forvera stefnda, Íslandsbanka, að jafnvirði 750.000.000 króna, í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum með þeim skilmálum sem í samningi greinir.  Láninu skyldi ráðstafað til kaupa á hlutabréfum í íslensku hlutafélagi, sem tilgreint er í samningi aðila.  Endurgreiða átti lánið í einni greiðslu hinn 2. mars 2008, en greiða skyldi á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 2. júní 2005. 

                Hinn 1. mars 2008 gerði stefnandi nýjan lánssamning við forvera stefnda, Glitni banka hf., um lán til tveggja ára að jafnvirði allt að 900.000.000 króna í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum með þeim skilmálum sem í samningi greinir.  Láninu skyldi ráðstafað til að greiða upp lánið frá 8. febrúar 2005.  Endurgreiða átti lánið í einni greiðslu hinn 2. mars 2010.  Heildarfjárhæð lánsins varð 875.641.942 krónur.  Andvirði lánsins var ráðstafað inn á skuld vegna fyrri lánssamnings frá 8. febrúar 2005.  Greiddir voru vaxtagjalddagar í samræmi við samningsskilmála. 

                Samkvæmt 1. gr. í lánssamningnum lofaði lántaki að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð.  Lánið skyldi laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 7. mars 2008.  Þá sagði að lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á.  Í greininni var kveðið á um það að í útborgunarbeiðni skyldi lántakandi tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 5% fyrir einstakan gjaldmiðil.  Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig ákvarðaðist þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.  Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum.  Lánið skyldi þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum, samkvæmt heimildum samningsins.  Þá var þar kveðið á um að hefði lántaki ekki sent lánveitanda skriflega beiðni um útborgun fyrir 5. mars 2008 félli lánsloforð lánveitanda niður fyrirvaralaust.

                Samkvæmt 2. gr. í samningnum skyldi lántaki endurgreiða höfuðstól lánsins með einni greiðslu hinn 2. mars 2010 og bar að endurgreiða það í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af.

                Í 3. gr. í samningnum voru ákvæði um vexti, vaxtabreytingar og greiðslu vaxta.  Skyldu lánshlutar í erlendum myntum örðum en evrum bera þriggja mánaða LIBOR-vexti, að viðbættu 2,80% vaxtaálagi.  Lánshluti í evrum skyldi bera þriggja mánaða EURIBOR-vexti, að viðbættu 2,80% vaxtaálagi.  Lánshluti í íslenskum krónum skyldi bera þriggja mánaða REIBOR-vexti, eins og þeir væru skráðir af Seðlabanka Íslands samkvæmt 7. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 177 frá 16. mars 200, um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum, að viðbættu 2,80% vaxtaálagi.

                Um vanefndir lántaka sagði í d-lið 3. gr. í samningnum að ef um þær yrði að ræða bæri lántaka að greiða dráttarvexti sem skyldu vera vaxtagrunnur að viðbættu álagi, eftir því sem við ætti, að viðbættu vanskilaálagi, sem skyldi vera 5,0%.  Væri um að ræða vanefndir á skuld í erlendum myntum var lánveitanda, samkvæmt e-lið 3. gr. í samningnum, þó heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda, á þeim myntum sem lánið samanstæði af.  Bæri lántaka þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga r. 38/2001.

                Í 4. gr. í samningnum var kveðið á um myntbreytingarheimild.  Þar sagði að ef lánið væri í skilum væri lántaka heimilt að óska eftir myntbreytingu lánshluta í erlendum myntum á vaxtagjalddögum, þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri, frá og með upphafi næsta vaxtatímabils.  Í greininni sagði jafnframt að „valréttur lántaka takmarkast hverju sinni við gjaldmiðlana ISK, USD, EUR, GBP, CHF, JPY“, en lánið mætti þó „aldrei vera samsett úr fleiri gjaldmiðlum en 5 í einu og fjárhæð hvers gjaldmiðils má ekki vera lægri en 5% af eftirstöðvum lánsins við breytingu“.  Einnig var lánveitanda heimilt að nota Bandaríkjadali í stað þess gjaldmiðils sem lántaki óskaði gæti lántakandi ekki útvegað hann.  Þá sagði að við „myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt sé að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna.

                Í 5. gr. í samningnum kom fram að lántökuþóknun væri 0,90% af heildarlánsfjárhæðinni og skuldfærðist af reikningi lántakanda hjá lánveitanda.

                Í 6. gr. samningsins um tryggingar var kveðið á um að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á láninu myndi lántaki setja lánveitanda að handveði hlutabréf í Samherja hf., að nafnverði 90.000.000 króna.

                Ekki liggur fyrir undirrituð beiðni um útborgun lánsins, svo sem gert var ráð fyrir samkvæmt 1. gr. í samningnum.

                Í kaupnótu samningsins er heildarfjárhæð tilgreind sem 875.641.942 krónur.  Í skjalinu koma einnig fram fjárhæðir og hlutfallsleg skipting lánshluta í svissneskum frönkum og japönskum jenum, eða „CHF 7.308.685,20 53%“ og „JPY 632.194.577,00 47%“, og jafnvirði þeirra í íslenskum krónum.  Í kaupnótunni kemur jafnframt fram að tilgreindar fjárhæðir hinna erlendu mynta hafi verið greiddar inn á gjaldeyrisreikning lántaka hjá lánveitanda.  Í málinu liggur einnig frammi gjaldeyrispöntun, þar sem heildarfjárhæð lánsins er tilgreind í íslenskum krónum og fjárhæðir og hlutfallsleg skipting þeirra erlendu gjaldmiðla.  Þar kemur einnig fram að til útborgunar væru fyrrgreindar fjárhæðir í hinum erlendu gjaldmiðlum inn á fyrrgreindan gjaldeyrisreikning lántaka.  Fjárhæðin var greidd út 2. mars 2008 og samdægurs var fjármununum, að frádreginni þóknun, ráðstafað til greiðslu lánshluta nr. 305891 og 305892, þ.e. greiðsla á láni samkvæmt fyrrgreindum samningi frá 8. febrúar 2005.

                Stefnandi greiddi vexti af láninu á líftíma þess.  Þá átti sér stað skuldajöfnun sem miðaðist við 22. október 2008, þar sem kröfum stefnanda á hendur forvera stefnda, Glitni banka hf., vegna tiltekinna afleiðusamninga var ráðstafað til greiðslu vaxta og afborgana samkvæmt umræddum samningi, sbr. yfirlýsingu um skuldajöfnun 12. nóvember 2008.

                Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 14. október 2008, samkvæmt heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, yfirtók stefndi allar skuldbindingar forvera síns, Glitnis banka hf.  Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins kemur fram í 13. tölulið að framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni skuli ekki svipta skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann átti gagnvart kröfuhafa.

                Hinn 2. mars 2010 gerðu aðilar með sér lánssamning.  Samningurinn var til þriggja ára og var lánsfjárhæðin tilgreind í erlendri mynt, en í drögum að samningi frá því í janúar 2010 var lánsfjárhæð tilgreind að jafnvirði 1.800.000.000 króna.  Fjárhæð samningsins var 7.230.052,35 svissneskir frankar og 626.279.634,67 japönsk jen.  Láninu skyldi ráðstafað til að greiða upp lánið frá 2. mars 2008 og var það gert.  Andvirði samningsins í íslenskum krónum 1.776.307.552, var greitt stefnanda, sem var því varið til að greiða upp eldri skuld.

                Stefnandi telur að þessi greiðsla hafi verið 1.032.155.631 krónu hærri en stefndi hafi átt tilkall til úr hendi stefnanda, þar sem lánssamningar sem krafa stefnda hafi grundvallast á hafi verið samkvæmt samningum sem allir hafi átt rót í sama löggerningi, lánssamningi frá 2005.  Við samningsgerðina í upphafi árs 2010, sem leitt hafi til þess að samningur, dagsettur 2. mars 2010 var gerður, hafi stefnandi verið í þeirri trú að krafa sem stefndi hafi beint að honum, að fjárhæð nærfellt 1.800.000.000 króna, væri byggð á löglegum og skuldbindandi samningi, þar sem stefnandi hafi ekki haft vitneskju um ólögmæti þess að miða lánsfjárhæðir við gengi erlendra gjaldmiðla.  Engar skýringar í þá veru hafi komið fram frá því upphafleg drög samningsins hafi verið kynnt stefnanda og þar til endanlegur samningur hafi verið gerður hinn 2. mars 2010.  Vegna þess hversu gríðarlegar fjárhæðir hafi verið um að tefla hafi stefnandi ekki getað annað en samþykkt hið nýja lán, þar sem stefnandi hafi ekki haft handbært fé til að greiða upp umkrafða fjárhæð.

                Hinn 30. júlí 2012 var gerð skilmálabreyting á lánssamningi aðila frá 2. mars 2010, þar sem greiðsluskilmálum var breytt.  Stefnandi ritaði undir skilmálabreytinguna með fyrirvara um lögmæti kröfu stefnda vegna gengisviðmiðs.

                Önnur skilmálabreyting var gerð á samningnum, sem stefnandi undirritaði með fyrirvara.  Skilmálum lánsins var breytt þannig að vöxtum sem greiða átti 1. júlí 2013 var bætt við höfuðstól lánsins þann dag.  Áfallnir vextir skyldu greiðast á gjalddaga lánsins 1. október 2013, sama dag og lánið skyldi gert upp.

                Hinn 1. október 2013 gerðu aðilar enn á ný með sér samning til fimm ára að fjárhæð 3.000.000 svissneskra franka, 512.000.000 japanskra jena og 3.350.000 evrur.  Láninu skyldi, samkvæmt 1. gr. samningsins, ráðstafað til að greiða upp skuld forvera lánveitanda, samkvæmt lánssamningi aðila, dagsettum 2. mars 2010, sbr. síðari viðauka, auk skuldar á yfirdráttarreikningi stefnanda nr. 565-26-1602.  Af þeim reikningi voru m.a. greiddar vaxtagreiðslur til stefnda.  Lokagjalddagi samningsins er 1. október 2018.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 20. desember 2013 í máli nr. X-73/2013 var vísað frá kröfu stefnanda á hendur Glitni hf. um að viðurkenndur yrði réttur stefnanda til að skuldajafna kröfu sinni að fjárhæð 117.296.781 króna, við fjárkröfu stefnda, Íslandsbanka hf., á hendur stefnanda, en stefndi átti ekki aðild að því máli.  Í málinu var þess freistað að fá kröfu Blika ehf. vegna ólögmætra gengisviðmiðunarákvæða í lánssamningi frá 2005 viðurkennda og tekna á kröfuskrá Glitnis vegna slitameðferðar, en kröfunni var lýst eftir lok kröfulýsingarfrests.  Stefnandi hélt því fram að vegna ólögmætra og óskuldbindandi ákvæða um gengisviðmið hefði Glitnir hf. fengið í sinn skerf 117.296.781 krónu umfram það sem hann hefði átt réttmæta kröfu til, en greiðsluna hafi hann fengið til sín þegar andvirði lánssamningsins frá 2. mars 2008 var ráðstafað til Glitnis.  Slitastjórn Glitnis hafnaði kröfunni vegna vanlýsingar og þess að hún teldi kröfuna ekki réttmæta.  Með úrskurðinum var viðurkenningarkröfu stefnanda hafnað, en kröfum hans að öðru leyti hafnað.  Þessum úrskurði var ekki áfrýjað. 

                Stefnandi kveðst hafa haldið fram sjónarmiðum sínum gagnvart stefnda um að samningarnir væru gengistryggðir frá því að tilefni hafi verið til og gert um það fyrirvara við skjalagerð allar götur síðan við skilmálabreytingarnar 30. júlí 2012 og 4. júlí 2013 og í lánssamningi 1. október 2013.  Samningar aðila eftir það hafi allir tekið mið af því að ágreiningur væri um lögmæti samninga aðila að því er varði hvort samningarnir væru lánssamningar um skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum myntum og hvort samningar væru háðir ólögmætum og óskuldbindandi ákvæðum um verðviðmiðun við erlenda gjaldmiðla, sem fari gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Núverandi skuldbinding stefnanda við stefnda sé með óslitinni röð lánssamninga, sem hafi verið endurnýjaðir á gjalddögum, rakin til upphaflegs lánssamnings frá því 8. febrúar 2005.  Í samningnum sjálfum hafi ávallt verið vísað til fyrri lánssamninga og þeir þannig tengdir saman.  Ágreiningur máls þessa standi um lögmæti samninga og uppgjör krafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga.

III

                Stefnandi byggir endanlega kröfu sína á því, að hann hafi af því lögvarða hagsmuni að fá viðurkenningardóm um ólögmæti samningsskilmála frá 1. mars 2008, samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Þó svo að ekki verði tekin afstaða til fjárhæðar endurgreiðslukröfu stefnanda standi það ekki í vegi að efnisleg afstaða verði tekin til þess hvort umþrættir lánssamningar séu skuldbindingar í íslenskum krónum, háð ólögmætum og óskuldbindandi ákvæðum um viðmiðun við erlenda gjaldmiðla, en stefnandi telji að svo sé og samningarnir fari gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt orðalagi 13. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins skyldi ákvörðunin ekki svipta skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa, Glitni hf.  Orðalag greinarinnar vísi til þess að skuldajafnaðarréttur stefnanda hafi færst frá því að vera réttur gagnvart Glitni hf. yfir í að vera réttur á hendur stefnda, en orðalagið „átti“ vísi til þátíðar um réttarstöðu sem uppi hafi verið áður en ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið tekin, sem breytt hafi þeirri réttarstöðu.  Að sama skapi liggi fyrir að ekki sé nauðsyn á að Glitnir hf. eigi aðild að máli þessu, þar sem ákvæði 13. töluliðar ákvörðunarinnar vísi til þess að skuldajafnaðarréttur stefnanda hafi færst frá því að beinast að Glitni yfir í það að beinast að stefnda.  Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sé gert ráð fyrir því að stefndi og Glitnir hf. leysi innbyrðis úr uppgjöri sín á milli og verði að ætla að það hafi þegar verið gert vegna þeirra samninga sem hér séu til umfjöllunar, sbr. 13. tölulið ákvörðunarinnar og 11. og 12. tölulið hennar.

                Þá séu fordæmi fyrir þessari framkvæmd í samskiptum stefnanda og stefnda um yfirlýsingu um skuldajöfnuð, dagsettan 12. nóvember 2008, þar sem vísað hafi verið í ofangreindan 13. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.  Stefnandi hafi tekið athugasemdalaust við greiðslum og hafi ráðstafað þeim inn á lánið í samræmi við skilmála þess á næsta vaxtagjalddaga, 1. mars 2009.

                Stefnandi byggir á því að núverandi krafa stefnda á hendur sér, samkvæmt lánssamningi frá 1. október 2013, sé af sömu rót runnin og kröfur stefnda í máli þessu, sem raktar séu til ofgreiðslu á samningum frá 2005 og 2008.  Með því að kröfurnar séu samrættar, séu skilyrði skuldajafnaðar uppfyllt og stefndi verði að þola að kröfum sé beint að honum vegna þessa, sbr. m.a. 27. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda eigi kröfur stefnanda rætur að rekja til samningsins frá 2005, sem sé grundvöllur kröfu stefnda á hendur stefnanda, samkvæmt lánssamningi frá 1. október 2013.  Með því að órofa tengsl séu milli lánssamninga allt frá fyrsta samningi við Glitni árið 2005, hafi lögskiptum í raun aldrei lokið vegna þeirra, heldur hafi aðild að þeim flust yfir til stefnda.  Stefndi geti ekki átt betri rétt á hendur stefnanda en Glitnir banki hafi átt.  Óumdeilt sé að skuld stefnanda við stefnda verði rakin til lögskipta sem upphaflega hafi verið við Glitni hf., en stefndi hafi yfirtekið með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 14. október 2008.  Stefnandi haldi öllum mótbárum sem hann hafi átt gagnvart Glitni hf. á hendur stefnda, þar sem umþrættir gerningar séu lánssamningar en ekki viðskiptabréf og því komi reglur viðskiptabréfaréttarins um mótbárutap skuldara ekki til álita í málinu.  Glitnir hf. eigi ekki aðild að málinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 348/2013 frá 13. nóvember 2013, þar sem atvik hafi verið að nokkru hliðstæð.

                Samningarnir frá árinu 2005 og 2008 séu eins.  Stefnandi hafi viljað taka lán í íslenskum krónum, en hefði að öðrum kosti óskað sérstaklega eftir því að fá greidda erlenda mynt, enda verði að ætla að það hefði verið auðsótt ef samningar aðila hefðu verið um það.  Á þeim tíma sem upphafleg lánveiting hafi farið fram, árið 2005, hafi stefnandi enga gjaldeyrisreikninga átt og því hafi ekki komið til þess að hann óskaði eftir láni í erlendri mynt.  Andvirðinu hafi verið varið til að greiða skuldbindingu á PM-lánalínu, sbr. útborgunarbeiðni lánsins.

                Stefnandi byggir á því að stefndi, og þar áður forveri hans, Glitnir, hafi látið stefnanda undirgangast skuldbindingu um að lánssamningur, skuldbinding í íslenskum krónum, yrði miðuð við gengi erlendra gjaldmiðla.  Stefnandi byggir á því að slík skuldbinding sé ólögmæt og fari gegn ákvæðum 13. g 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og því hafi verið óheimilt og ólöglegt af stefnda og forvera hans að semja við stefnanda um að skuldbinding hans í íslenskum krónum tæki breytingum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.  Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanleg.

                Meðal annars af þeim sökum, og með heimild í ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga, beri að breyta samningi aðila í þá veru að ákvæði um viðmið lánsfjárhæðar, sem hafi verið í íslenskum krónum, við gengi erlendra gjaldmiðla, skuli metið sem óskráð og skuldbinding stefnanda gagnvart stefnda samkvæmt lánssamningum frá 1. mars 2008 af þeim sökum óverðtryggð.  Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 megi breyta samningi eða víkja honum til hliðar, vegna atvika sem legið hafi fyrir við samningsgerð og atvika sem síðar komi til, en ólögmæti lána með erlend gengisviðmið eins og það sem stefnandi hafi undirgengist hafi ekki legið endanlega fyrir fyrr en með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.  Þá hafi verið staðfest að þegar samningur sem gerður hafi verið um erlend gengisviðmið, þ.e. atvik við samningsgerðina, gerðu aðilar með sér samning háðan ólögmætum ákvæðum um gengisviðmið.  Verði stefndi að bíða hallann af því enda mikill aðstöðumunur á aðilum í öllu tilliti, en stefnandi sé einkahlutafélag, sem fyrst og fremst hafi þann tilgang að vera eigandi hlutabréfa og skuldi stefnda verulega fjármuni.  Stefnandi sé þannig háður stefnda, en stefndi sé eitt stærsta fjármálafyrirtæki landsins, banki með öllum þeim starfsheimildum sem því fylgi.  Þannig séu öll efnisatriði 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 uppfyllt til að fallast megi á kröfur stefnanda um breytingu á samningi í krafti 1. mgr. 36. gr. sömu laga.

                Stefnandi byggir á því að lánssamningurinn sé óskýr um hvort skuldbindingin sé í raun í íslenskum krónum eða erlendum myntum og þann óskýrleika verði að skýra stefnda í óhag, sem yfirburðaaðila með sérfræðiþekkingu, sem samið hafi skilmálana.  Fjárhæð skuldbindingarinnar sé síður en svo skýrlega tilgreind í erlendum gjaldmiðlum og raunar alls ekki.  Öll rök standi til þess að lánið sé skuldbinding í íslenskum krónum.  Verði ekki fallist á það sé um það svo verulegur vafi að miða verði við þá niðurstöðu sem sé stefnanda hagfelldari, þ.e. að dæmt skuli að skuldbindingar samningsins séu skuldbinding í íslenskum krónum.  Stefndi verði að bíða hallann af óskýrleika skjala sinna, einkum vegna aðstöðumunar aðila í öllu tilliti.

                Stefndi geti ekki öðlast betri rétt á hendur stefnanda en Glitnir banki hafi átt.  Stefndi hafi fengið í hendur hærri kröfu á hendur stefnanda, úr hendi Glitnis hf., en hann hafi átt réttmætt tilkall til.  Byggir stefnandi í þessu sambandi á almennum reglum um aðilaskipti að kröfuréttindum, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 348/2013.  Það væri ósanngjarnt ef stefndi mætti halda upp á hann fjárkröfu að því marki sem hún hafi orðið of há vegna þess að stefnandi hafi gert upp við forvera stefnda ólögmætan gengistryggðan lánssamning frá 2005, með nýjum, of háum samningi 2. mars 2008, sem stefndi hafi yfirtekið frá forvera sínum.

                Forsíða samningsins frá 2. mars 2008 gefi til kynna að lánið samkvæmt samningnum sé í erlendum gjaldmiðlum og/eða íslenskum krónum.  Inngangskafli samningsins leysi úr þessu með því að lánsfjárhæðin sé tilgreind í krónum, en hvergi séu nefndar erlendar fjárhæðir eða tegund myntar.  Um þetta sé vafi sem beri að skýra stefnda í óhag.

                Ákvæði 1. gr. samningsins tilgreini ekkert um að lánið sé skuldbinding í erlendri mynt, en ákvæðið geri ráð fyrir að skuldbindingin geti hvort heldur sem er verið í erlendri mynt eða íslenskum krónum.  Verði að gera kröfu um að lánssamningurinn sé skýr að þessu leyti, ef lána hafi átt aðra mynt en íslenskar krónur, sem sé lögeyrir á Íslandi.

                Vaxtaákvæði samningsins í 3. gr. veiti enga vísbendingu um eðli skuldbindingarinnar.

                Myntbreytingarheimild sé í 4. gr. samningsins.  Þar sé skýrlega kveðið á um að höfuðstóll skuldarinnar breytist miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.  Orðalagið um að lánið skuli „miðast við aðra erlenda mynt“ gefi skýrlega til kynna að samningurinn sé háður ákvæðum um viðmiðun við erlenda mynt, sem sé óheimilt og fari gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, en þau séu ófrávíkjanleg.  Verði því ekki hjá því komist að líta svo á að samningurinn sé skuldbinding í íslenskum krónum háður ólögmætum verðtryggingarákvæðum.  Þetta sjáist enn betur þegar ítrekað sé í 4. gr. vísað til þess að fjárhæð lánsins skuli miðast við erlendar myntir.  Hefði verið lánuð erlend mynt væru ákvæði 4. gr. samningsins óþörf, sbr. umfjöllun Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.

                Í 5. gr. lánssamningsins sé vikið að því að lántökugjald sem skuli greiða taki mið af heildarlánsfjárhæðinni og skuldfærist af tékkareikningi stefnanda.  Ekkert sé vikið að gengi erlendra gjaldmiðla og því augljóst að lánið sé í íslenskum krónum.

                Tryggingarandlag samningsins séu íslensk hlutabréf og verðmæti þess tilgreint í íslenskum krónum, sem vísi til þess að skuldbindingin sem verið sé að tryggja sé í íslenskum krónum.  Í því sambandi megi vísa til vi-liðar 10. gr. í samningnum um að arði af veðsettu hlutafé skuli ráðstafað til lánveitanda, en arðurinn yrði vitanlega greiddur í íslenskum krónum.  Ekkert sé vísað til erlendra gjaldmiðla eða gengis í þessu sambandi.  Í 6. gr. sé kveðið á um, að verðmæti trygginga taki mið af „uppreiknuðum eftirstöðvum“.  Óljóst sé hvað átt sé við, en ef skuldbindingin væri í erlendri mynt þyrfti ekki að uppreikna hana heldur myndi hún liggja fyrir á hverjum tíma.                              

Í xi-lið 10. gr. samningsins sé tilgreint að ráðstafa skuli andvirði lánsins til uppgreiðslu á samningi frá 2005, sem sé skuldbinding í íslenskum krónum, að áliti stefnanda.

                Útborgunarbeiðni sem hafi verið hluti samningsins tilgreini engar fjárhæðir og enga mynt, hvorki íslenskar krónur né annað, og myntbreytingarheimild í viðauka 2 tilgreini „viðmiðunargengi“, sbr. athugasemdir um myntbreytingarheimild.

                Kaupnóta lánssamningsins tilgreini skýrlega að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum, en hún tilgreini fyrst og síðast fjárhæð lánsins sem skuldbindingar í íslenskum krónum.

Kvittanir sýni að lánið frá 2005 hafi verið í íslenskum krónum og greitt samkvæmt því.  Telur stefnandi það sanna að lánið samkvæmt samningnum frá árinu 2008 hafi verið íslenskt lán háð ólögmætum gengisviðmiðunarákvæðum.

                Þegar samningarnir frá árunum 2005 og 2008 séu bornir saman við samning aðila frá árinu 2010, sé alveg ljóst að fyrrnefndu samningarnir séu skuldbindingar í íslenskum krónum.  Samningurinn sýni hvernig skuldbindingar í erlendum myntum séu í allt öðrum búningi en fyrri samningarnir, sbr. og framlögð drög að lánssamningi.  Þar sé fjárhæð tilgreind í mynt.  Hið einkennilega sé þó að stefnandi hafi ekki tekið við neinni mynt heldur hafi hann tekið við greiðslu að fjárhæð 1.776.307.552 krónur og greitt lántökuþóknun miðað við þá fjárhæð.  Kaupnóta og kvittanir séu eins og þær sem afhentar hafi verið vegna lánanna frá 2005 og 2008 og sýni þessar kvittanir að lánin frá árunum 2005 og 2008 hafi verið íslensk lán.  Til samanburðar séu svo kvittanir vegna vaxtagreiðslna og uppgreiðslu á samningi frá árinu 2010, og enn fremur kaupnótur og kvittanir tengdar núverandi lánssamningi.  Þar séu hvergi tilgreindar íslenskar krónur og um sé að ræða erlent lán.

                Stefnandi telur að virtum atvikum málins í heild að lán samkvæmt lánssamningi frá 2008 sé skuldbinding í íslenskum krónum.  Stefnandi telur að dæma verði að gengistryggingarákvæði lánssamnings aðila sé óskuldbindandi fyrir hann.  Það standi stefnda nær að bíða hallann af hinu ólögmæta ákvæði og skilmálum sem hann hafi boðið viðskiptamönnum sínum upp á, þar með talið stefnanda.  Byggi stefnandi kröfur sínar í málinu m.a. á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, almennum reglum kröfu- og samningaréttar um túlkun löggerninga, sérstaklega um að samningsskilmála skuli túlka þeim í óhag sem þá hafi samið, andskýringarregla, ef þeir eru óljósir, auk dómafordæma Hæstaréttar Íslands.

                Að því er varði skyldu til endurgreiðslu byggir stefnandi á því að í íslenskum rétti gildi meginreglan um að þeir sem fyrir mistök fái greidda peninga sem þeir eigi ekki rétt til, skuli endurgreiða þá, sbr. hæstaréttardóm í máli nr. 32/2007.  Reglan gildi jafnt vegna mistaka sem verði af því að samningsákvæði sem stefndi hafi útbúið reyndust ekki standast lagafyrirmæli um heimild til verðtryggingar samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

                Stefnda beri skylda til að endurgreiða stefnanda það sem hafi verið ofgreitt vegna þess að aðstöðumunur hafi verið með aðilum, þar sem stefnandi sé einkahlutafélag í einfaldri starfsemi, en stefndi, og forveri hans, sé fjármálafyrirtæki sem útbúið hafi skilmála lánssamninga aðilanna.  Það sé afsakanlegur misskilningur og lögvilla af hálfu stefnanda að takast á hendur hærri skuldbindingar en stefndi hafi átt tilkall til, þar sem stefnandi hafi mátt treysta því að þeir skilmálar sem stefndi og forveri hans hafi boðið upp á væru lögmætir.  Svo hafi ekki reynst vera.  Stefnandi hafi greitt bæði vexti og höfuðstól í góðri trú og ekki haft tilefni til að gera fyrirvara við greiðslur sínar.  Stefndi á hinn bóginn, og forveri hans, séu eitt stærsta fjármálafyrirtæki landsins.  Stefndi verði að bera áhættuna af því að samningsskilmálar sem hann láti viðskiptamenn sína undirgangast, standist ekki lög.  Stefndi hafi og fjárhagslega burði til að axla kröfur stefnanda.

                Stefnandi byggir á því að vísbendingar séu um að stefndi hafi verið í vondri trú og nýtt sér aðstöðumun og sérfræðiþekkingu sína á fjármálamarkaði þegar hann hafi afhent stefnanda samninginn, sem undirritaður hafi verið 2. mars 2010.  Bendir stefnandi í því sambandi á efni og tilgreiningu skuldbindinga, fjárhæða í íslenskum krónum á samningum aðila frá 2005 og 2008 og drög að samningi sem stefndi hafi sent stefnanda í upphafi árs 2010.  Stefndi hafi sent stefnanda drög hinn 26. janúar 2010.  Hinn 12. febrúar 2010 hafi fallið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem síðan var áfrýjað og varð hæstaréttarmál nr. 153/2010 dæmt 16. júní 2010.  Í héraðsdómnum, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, hafi því verið slegið föstu að ólögmætt væri að miða skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Endanlegur samningur aðila 2. mars 2010 hafi tekið grundvallarbreytingu í framsetningu og tilgreiningu skuldbindingar.  Bendi það til þess að stefndi, sem fjármálafyrirtæki, hafi, vegna héraðsdómsins frá 12. febrúar 2010, horfið frá drögum sínum að samningi frá janúar 2010 og því ekki verið í góðri trú þegar hann hafi látið stefnanda undirgangast skuldbindingu um að gera upp lánssamning aðila frá 2. mars 2008 með nýjum lánssamningi að andvirði tæpra 1.800.000.000 króna, enda hafi það ekki verið samkvæmt beiðni eða að frumkvæði stefnanda.  Þá sé til þess að líta að munur sé á því hvernig upplýsingar séu tilgreindar á lokagreiðslukvittunum vegna lánsins frá 2008, hinn 3. mars 2010 og svo fyrstu kvittun vegna lánsins frá 2010, hinn 1. júlí 2010, þar sem búið sé að fella út „núgildandi verðtryggingu“ og setja í staðinn „gengi JPY/CHF“, sbr. framlagðar kvittanir.  Aldrei hafi verið minnst á það orði við stefnanda að einhver raunveruleg breyting fælist í nýrri framsetningu samningsins í mars 2010, frá því sem verið hafi árið 2005 og 2008.

                Ekki verði ætlast til þess að stefnandi hefði haft vitneskju um héraðsdóminn í fyrrgreindu máli og síðar dóm Hæstaréttar í því máli, og nærtækast að stefndi sem fjármálafyrirtæki axli áhættuna af ólögmætum lánum í starfsemi sinni fremur en þeir sem eigi viðskipti við þau.

                Stefnanda verði ekki um það kennt að greitt hafi verið umfram skyldu, enda hafi stefnandi ekki haft annan kost en þann, þar sem samningur aðila frá 2008 hafi verið á gjalddaga 2. mars 2010.

                Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins. Stefnandi vísar og til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum., og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé honum nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að umþrættur samningur teljist vera um skuldbindingur í íslenskum krónum.  Báðir samningarnir frá 8. febrúar 2005 og 1. mars 2008 séu um gild lán í erlendum gjaldmiðlum.

                Samkvæmt orðalagi samningsins frá 1. mars 2008, sbr. 1. gr. hans, skyldi það ráðast af eftirfarandi ákvörðun lántaka, þ.e. stefnanda, hvort lánið yrði í erlendum gjaldmiðlum, og þá hvaða, eða í íslenskum krónum.  Tilgreining lánsfjárhæðar í aðfaraorðum samningsins marki þannig hámarksfjárhæð lánsloforðsins í íslenskum krónum, en skuldbindingin sem slík, enda ákveði lántaki að nýta sér lánsloforðið, réðist af eftirfarandi ákvörðun lántaka.  Tilgreining lánsfjárhæðar í inngangsorðum samningsins taki þannig ekki af skarið um það í hvaða gjaldmiðlum lánið skyldi vera.  Þegar gögn málsins og atvik séu síðan virt geti ekki farið á milli mála að stefnandi hafi óskað eftir því að lánið yrði í erlendum myntum og hafi hvor lánshluti fengið sérstakt lánsnúmer, þ.e. 311685 fyrir svissneska franka og 311686 fyrir japönsk jen.  Vísar stefndi til kaupnótu samningsins, sem stíluð sé á lántaka, þar sem heildarlánsfjárhæð sé tilgreind sem 875.641.942 krónur.  Í skjalinu komi einnig fram fjárhæðir og hlutfallsleg skipting hvors lánshluta, þ.e. þeirra erlendu gjaldmiðla sem lántaki hafi óskað eftir að lánið, og um leið skuldbindingin, yrði í, nánar tiltekið „CHF 7.308.685,20 53%“ og „JPY 632.194.577,00 47%“, og jafnvirði þeirra í íslenskum krónum.  Í kaupnótunni komi að lokum fram að „CHF 7.308.685,20“ og „JPY 632.194.577,00“ hafi verið „gr. inná“ erlenda gjaldeyrisreikninga lántaka hjá lánveitanda nr. 565-38-600024 og 565-38-670019, sbr. framlagt reikningsyfirlit.  Þá liggi jafnframt fyrir gjaldeyrispöntun, þar sem heildarfjárhæð lánsins sé tilgreind í íslenskum krónum og fjárhæðir og hlutfallsleg skipting þeirra erlendu gjaldmiðla sem lántaki hafi óskað eftir að lánið, og þá um leið skuldbindingin, yrði í, öllu ofangreindu til samræmis.  Þar komi einnig fram að til útborgunar væru fyrrgreindar fjárhæðir í hinum erlendu gjaldmiðlum inn á fyrrgreinda gjaldeyrisreikninga lántaka.  Þá sé og tekið sérstaklega fram í 1. gr. samningsins að það eigi að ráðstafa láninu til uppgreiðslu hinna eldri lána sem hafi verið, eða a.m.k. hafi verið gengið út frá því, í erlendum gjaldmiðlum.  Verði ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda en að hann kjósi raunar að líta með öllu fram hjá framangreindum atriðum.  Þá sé sérstaklega að því að gæta að samkvæmt inngangsorðum samningsins sé fjárhæðin tilgreind sem jafnvirði allt að tilgreindri fjárhæð í íslenskum krónum, en kveði ekki á um kröfurétt tiltekinnar fjárhæðar, svo sem algengt sé.  Í dómaframkvæmd hafi verið litið svo á að þegar orðalag og eðli samnings sé með þessum hætti skipti ekki sköpum þótt fjárhæðin sé eingöngu tilgreind í íslenskum krónum í aðfaraorðum samnings, þ.e. að mögulegt heildarumfang lögskiptanna sé afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum.

                Til samræmis við framangreint hafi hvor lánshluti, þ.e. „CHF 7.308.685,20“ og „JPY 632.194.577,00“, verið greiddur inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda fyrir svissneska franka og japönsk jen hinn 2. mars 2008.  Samdægurs hafi fjármununum, að frádreginni þóknun, verið ráðstafað til greiðslu lánshluta nr. 305891 og 305892, þ.e. til greiðslu láns samkvæmt fyrrgreindum samningi frá 8. febrúar 2005, sbr. yfirlit fyrrgreindra gjaldeyrisreikninga, sbr. einnig kvittanir.  Erlendir gjaldmiðlar hafi því að sönnu skipt um hendur við efndir lánveitanda á aðalskyldu sinni á sama hátt og um ræði í dómum Hæstaréttar.

                Stefnandi hafi greitt vexti af láninu á líftíma þess, sbr. reikningsyfirlit og kvittanir.  Hinn 2. mars 2010 hafi stefnandi og stefndi gert með sér samning um lán í erlendum gjaldmiðlum til þriggja ára að fjárhæð 7.230.052,35 svissneskir frankar og 626.279.634,67 japönsk jen.  Lánið hafi verið veitt „til endurfjármögnunar á [...] lánum lántaka hjá lánveitanda: nr. 311685 og nr. 311686“, þ.e. til greiðslu lánshluta samkvæmt fyrrgreindum samningi frá 1. mars 2008, og hafi svo farið í raun, sbr. framlagðar kvittanir.  Þar sem samningurinn frá 1. mars 2008 hafi verið gerður upp með nýjum samningi, sem ágreiningslaust sé að sé í erlendum gjaldmiðlum, en höfuðstólsfjárhæðir þess samnings endurspegli að öllu leyti stöðu fjárskuldbindinga stefnanda samkvæmt samningnum frá 2005, sýnist mega leggja atvik að jöfnu við það að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur við efndir lántaka á aðalskyldu sinni samkvæmt samningnum frá 1. mars 2008.  Nánar tiltekið hafi stefnandi gert upp þá skuldbindingu með því að stofna til nýrrar skuldbindingar sömu fjárhæðar og í sömu gjaldmiðlum.  Stefnandi hafi heldur ekki gert neinn fyrirvara um lögmæti hinnar uppgreiddu kröfu, enda þótt á þeim tíma væri því haldið fram, m.a. í almennri umræðu, að lánveitingar fjármálafyrirtækja væru haldnar ólögmætri gengisbindingu, og þegar hefði gengið héraðsdómur þar um.

                Samkvæmt framansögðu sé ótvírætt að framkvæmd lánveitingarinnar, og þá ekki síst efndir á aðalskyldum aðila, beri það ótvírætt með sér að hér hafi verið stofnað til skuldbindingar í erlendum gjaldmiðli, sbr. einnig dóma Hæstaréttar í málum nr. 332/2012, og 750/2013.  Hinna erlendu lánsfjárhæða hafi síðan verið getið í síðari samskiptum aðila og til samræmis við 1. gr. samningsins.  Í dómum Hæstaréttar hafi það ekki leitt til þess að skuldbinding teldist vera í íslenskum krónum að í svokallaðri kaupnótu sé að finna tilvísun til krónufjárhæðar til samræmis við tilgreiningu í inngangsorðum samnings, enda sýni kaupnótan andvirði hinna erlendu gjaldmiðla og hlutföll af fjárhæðinni, eins og hún sé afmörkuð í íslenskum krónum í inngangsorðum samningsins.

                Einu gildi þótt stefnandi hafi ekki að öllu leyti efnt aðalskyldu sína í hinum erlendu gjaldmiðlum sem lánin hafi staðið í, þ.e. þannig að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur við greiðslu vaxta, enda hafi lántaki skuldbundið sig eftir hljóðan samningsins til að endurgreiða lánið „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“, sbr. 2. mgr. 2. gr. samningsins, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012.  Við skýringuna beri og að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Jafnframt byggir stefndi á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, með athafnaleysi sínu samþykkt að líta skuli svo á að téðar skuldbindingar hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, þ. á m. með fyrirvaralausri uppgreiðslu lánsins á sínum tíma.

                Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að hann hafi stofnað til afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu tengdri umræddum samningum.  Styðji það að stofnað hafi verið til skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum.

                Þá bendi ársreikningar stefnanda ótvírætt til þess að hann hafi talið sig stofna til skuldbindinga í erlendum gjaldmiðlum. 

                Stefndi hafnar því að lagaskilyrði séu uppfyllt, eins og atvik og aðstæður málsins séu, til að beita sanngirnisreglu 36. gr. laga nr. 7/1936 og/eða örðum svipuðum lagasjónarmiðum. 

                Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 151/2010, að því marki sem þau geti átt við.  Einnig vísar stefndi til almennra reglna fjármunaréttarins og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Í máli þessu greinir aðila á um hvort framangreindur lánssamningur, dagsettur 1. mars 2008, sem upphaflega var gerður milli Glitnis banka hf. og stefnanda, sé skuld í erlendum myntum eða hvort um sé að ræða skuld í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. 

Endanlegar dómkröfur stefnanda lúta að því að viðurkennt verði að áðurgreindur samningur sé lánssamningur í íslenskum krónum og að ákvæði hans um tengingu fjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla sé ólögmæt og óskuldbindandi fyrir hann.  Óumdeilt er að stefnandi endurgreiddi umþrætt lán með nýju láni hjá stefnda, dagsettu 2. mars 2010.  Byggir stefnandi viðurkenningarkröfu sína á því að hann hafi ofgreitt stefnda og þar með hafi lán það sem hann tók til að greiða upp umþrætt lán, verið hærra sem því nemi.  Verður fallist á það að á þeim grunni geti stefnandi haft lögvarða hagsmuni af því að leyst verði úr ágreiningi aðila um lögmæti samningsins.

                Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni.  Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindinginn er tilgreind í þeim.

                Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og við á um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

                Umdeildum lánssamningi hefur verið lýst hér að framan og eins og þar greinir bar fyrirsögn lánssamningsins, sem mál þetta varðar, með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum.  Í samningnum sjálfum er hann sagður vera að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum, en ekki tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánið eigi að vera en skírskotað til óska lántaka við útborgun lánsins.  Í samningnum er gert ráð fyrir því að stefnandi leggi fram sérstaka útborgunarbeiðni þar sem hann tilgreini þá mynt eða hlutföll myntar sem hann óski eftir að lánið verði greitt út í.  Þó að í málsgögnum sé ekki fyrir að fara sérstakri beiðni stefnanda um útborgun lánsins liggur fyrir og er óumdeilt að lánið var greitt inn á tilgreinda gjaldeyrisreikninga stefnanda.  Samkvæmt framlagðri kaupnótu vegna samningsins kom fram heildarfjárhæð lánsins í íslenskum krónum og skipting þess og fjárhæð í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Enn fremur kom þar fram að þeir gjaldmiðlar hefðu verið lagðir inn á tilgreinda gjaldeyrisreikninga stefnanda.  Einnig liggur fyrir í málinu skjal sem ber yfirskriftina „gjaldeyrispöntun“ með sömu tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar.  Þessi aðferð við útborgun lánsfjárins var í samræmi við ákvæði í samningnum.  Fé í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur þegar Glitnir banki hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum.  Lánið var eftirleiðis tilgreint með fjárhæðum hinna erlendu mynta.  Þá er og óumdeilt í málinu að stefndi greiddi umþrætt lán með öðru láni í erlendum gjaldmiðlum.  Samkvæmt þessu verður að líta svo á að báðir samningsaðilar hafi í meginatriðum efnt skyldur sínar samkvæmt samningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur.

Þá samræmast ákvæði samningsins um vexti sem og heimild lánveitanda til að umreikna lánið í íslenskar krónur við gjaldfellingu þess og reikna á það dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  Í sömu átt hníga ákvæði lánssamningsins um heimild lántaka til myntbreytinga.

Þegar allt framangreint er virt verður að leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnandi til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Blika ehf., í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.