Hæstiréttur íslands

Mál nr. 446/2011


Lykilorð

  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Ákæra
  • Kærumál


 

Mánudaginn 25. júlí 2011.

Nr. 446/2011.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

X

(Grímur Hergeirsson hdl.)

 

Kærumál. Ákæra. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

Úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá héraðsdómi var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Suðurlands 13. júlí 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. júlí 2011, þar sem ákæru í málinu var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 92/1999, sem birtur er í dómasafni árið 1999 á bls. 2474 svo og forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Gríms Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, 186.750 krónur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2011, þriðjudaginn 12. júlí.

Mál þetta, sem þingfest var þann 16. júní 2011 og dómtekið sama dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 24. maí 2011 á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...],

„fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaramótt mánudagsins 24. maí 2010 á skemmtistaðnum [...] á [...], slegið A, kt. [...], einu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 frá 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20 frá 1981.“

Við þingfestingu gaf sækjandi út framhaldsákæru, dagsetta 16. júní 2011, þar sem segir:

„Lögreglustjórinn á Selfossi gerir kunnugt að breyta þurfi ákæru dags. 24.05.2011 á þann hátt að eftir verknaðarlýsingu í ákæru komi:  „Þess er krafist að ákærði sæti refsingu og til greiðslu sakarkostnaðar“ Að öðru leyti gildir áður útgefin ákæra.“

Í 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um það hvað skuli koma fram í ákæru.  Í e lið 1. mgr. nefndrar greinar segir að í ákæru skuli greina kröfur um refsingu og önnur viðurlög, svo sem sviptingu réttinda og upptöku eigna, svo og kröfu um greiðslu sakarkostnaðar.

Í 1. mgr. 153. gr. nefndra laga er kveðið á um það að ákærandi geti breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til.  Framhaldsákæru skuli gefa út svo fljótt sem verða má eftir að þörfin á henni er kunn, en þó í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalmeðferð, nema ákærði samþykki að hún sé gefin út með skemmri fyrirvara.

Það er álit dómsins að það, að láðst hafi að gera í ákæru kröfu um að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, geti ekki talist vera augljós villa í skilningi ofangreinds ákvæðis.  Um er að ræða atriði sem er lögbundið að greina skuli í ákærunni og er óhjákvæmilega einn af burðarásum málatilbúnaðar ákæruvaldsins.  Þá er það jafnframt álit dómsins að ekki eigi það við í máli þessu að upplýsingar sem ekki lágu fyrir við útgáfu ákæru gefi tilefni til útgáfu framhaldsákæru.  Hlýtur það að vísa til efnisatriða máls, en getur ekki átt við um það tilvik að sækjandi uppgötvi það á síðari stigum að láðst hafi að greina frá kröfugerð ákæruvaldsins í ákæruskjalinu.

   Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi.

   Verður allur sakarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem þykja hæfilega ákveðin kr. 60.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gríms Hergeirssonar hdl., kr. 60.000.