Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Samkeppni
- Húsleit
- Hald
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 4. júní 2009. |
|
Nr. 268/2009. |
Samkeppniseftirlitið(Brynjar Níelsson hrl.) gegn Flugleiðahótelum ehf. Hótel Lofleiðum og Icelandair Group hf. (Gunnar Sturluson hrl.) |
Kærumál. Samkeppni. Húsleit. Hald. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Aðfinnslur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem S var heimiluð húsleit og haldlagning og afritun gagna hjá F, H og I. Þar sem húsleitin hafði þegar farið fram þegar F, H og I kærðu úrskurðinn brast heimild til kærunnar og var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2009, þar sem sóknaraðila var heimiluð húsleit og haldlagning á munum og göngum í húsnæði og læstum hirslum varnaraðila og til að taka afrit gagna sem geymd væru á tölvutæku formi. Kæruheimild er í g. og h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Að því frágengnu krefjast þeir þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um húsleit og haldlagningu. Í öllum tilvikum krefjast þeir að sóknaraðila verði gert að skila þeim gögnum sem haldlögð voru og afritum sem kunnu að hafa verði tekin af gögnum. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði sóknaraðili 19. maí 2009 heimildar Héraðsdóms Reykjavíkur til húsleitar og haldlagningar á munum og gögnum hjá varnaraðilum vegna gruns um þeir hefðu ásamt öðrum á hótelmarkaði á Íslandi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Heimildar þessarar var leitað á grundvelli 20. gr. sömu laga. Með úrskurði dómsins sama dag var fallist á beiðnina og tekið fram að heimild hans næði til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæði og læstum hirslum og til að taka afrit gagna sem geymd væru á tölvutæku formi.
Húsleit samkvæmt framangreindri heimild fór fram á starfstöð varnaraðilans, Flugleiðahótela ehf., 20. maí 2009. Aðgerðum sóknaraðila lauk með því að hald var lagt á gögn ásamt því að tölvugögn voru afrituð.
Sóknaraðili hefur lýst því yfir í greinargerð til Hæstaréttar að leit á grundvelli hins kærða úrskurðar sé lokið og að gögnum, sem hald var lagt á, hafi verið skilað 26. maí 2009.
Samkvæmt 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Samkvæmt framansögðu er leit sóknaraðila lokið og haldlögðum gögnum hefur verið skilað. Brestur þannig heimild til að kæra úrskurðinn og verður því málinu vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Það athugast að í kröfu sóknaraðila um húsleit var þess ekki getið, þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008, hvort þess væri krafist að hún sætti meðferð fyrir dómi án þess að varnaraðilar yrðu kvaddir á dómþing. Héraðsdómari tók kröfuna til meðferðar allt að einu á dómþingi og féllst á hana með hinum kærða úrskurði, svo sem að framan greinir. Var sú meðferð hans á kröfunni andstæð 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Ber að átelja þetta.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2009.
Samkeppniseftirlitið hefur lagt fram kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Samkeppniseftirlitinu verði heimiluð húsleit hjá Icelandair Group hf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, kt. 631205-1780, Flugleiðahótelum ehf., Reykjarvíkurflugvelli (við Hlíðarfót), Reykjavík, kt. 621297-6949 og Hótel Loftleiðum, Reykjavíkurflugvelli (við Hlíðarfót), Reykjavík, kt. 630169-6909
Er þess krafist að heimildin nái til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæði og læstum hirslum og til að taka afrit gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.
Í greinargerð Samkeppniseftirlitsins kemur fram að samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 eru allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað, bannaðar. Bann þetta tekur m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti, skiptingar á mörkuðum, samvinnu við gerð tilboða o.fl. Brot gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga varðar stjórnvaldssektum á fyrirtæki, sbr. a. lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga, sem og getur varðað einstaklinga fésektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. ákvæði 41. gr. a. sömu laga.
Aðilar sem húsleitarbeiðnin beinist gegn
Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo Ísland var Flugleiðahótel ehf. stofnað þann 22. desember 1997. Fyrirtækið rekur tvær hótelkeðjur, annars vegar Icelandair hótelin og hins vegar Hótel Eddu (Edduhótel). Icelandair hótelin er keðja sjö hótela; Hótel Loftleiðir (sem er skráð sem einstaklingsfyrirtæki með sjálfstæða kennitölu), Hilton Reykjavík Nordica Hótel, Flughótel (Keflavík), Hótel Hérað, Hótel Kirkjubæjarklaustur, Hótel Flúðir, Hótel Rangá og Hótel Hamar (Borgarnes). Í Hótel Eddu keðjunni eru alls 13 sumarhótel staðsett hringinn í kringum landið (fylgiskjal nr. 1). Flugleiðahótel er dótturfélag Icelandair Group hf. og er með starfsstöð á sama stað. Á heimasíðu Flugleiðahótela segir að “[ö]ll hótelin [séu] í eigu og rekstri hjá Flugleiðahótelum ehf. nema 6 hótel á landsbyggðinni sem eru franchise agreement sem leyfir þeim að nota Icelandair-hótelin sem söluaðila.”. Samkvæmt upplýsingum frá Flugleiðahótelum er um að ræða hótelin Hótel Hamar, Flughótel, Hótel Flúðir og Hótel Klaustur.
Í húsleitarbeiðni þessari verður Flugleiðahótel notað yfir öll framangreind hótel sem eru í eigu samstæðunnar, nánar tiltekið Icelandair hótelin Hótel Loftleiðir og Hilton Reykjavík Nordica Hótel og Hótel Eddu (Edduhótelin).
Ætluð brot á samkeppnislögum
Þann 2. mars 2007 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF). Laut rannsókn málsins að meintum brotum SAF á 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 á ýmsum undirmörkuðum ferðaþjónustunnar.
SAF eru hagsmunasamtök allra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu. Meginhlutverk samtakanna er samkvæmt lögum félagsins að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna, vinna að því að fyrirtækin búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði o.fl. Í dag er fjöldi fyrirtækja í SAF, þar á meðal hótel. Stefna SAF í hinum ýmsum málum er unnin á vegum stjórnar og nefnda, en innan samtakanna starfa sjö fagnefndir, þ. á m. gististaðanefnd. Í gististaðanefnd eiga að jafnaði sæti fimm fulltrúar sem kosnir eru ár hvert. Fulltrúarnir koma frá einstökum hótelum (keppinautum).
Að mati Samkeppniseftirlitsins gáfu ýmis gögn sem aflað var hjá SAF til kynna að hótel hafi jafnt innan sem utan SAF haft með sér samfellt ólögmætt samráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga. Í framhaldinu hafi Samkeppniseftirlitið því sent tilteknum hótelum, þar á meðal Flugleiðahótelum, bréf þar sem óskað var eftir ítarlegum gögnum og upplýsingum (fylgiskjal nr. 2). Að mati Samkeppniseftirlitsins er ýmislegt í þeim gögnum sem aflað var hjá SAF sem gefa til kynna að Flugleiðahótel hafi verið þátttakandi í þeim brotum.
Að mati Samkeppniseftirlitsins er óumflýjanlegt að rannsaka ítarlega hvort upplýsingar þær og gögn sem til er vísað eigi við rök að styðjast. Rannsóknarhagsmunir krefjast þess að farið verði á skrifstofur Flugleiðahótela og Icelandair Group og þar leitað að sönnunargögnum vegna meintra brota á 10. gr. samkeppnislaga.
Skal þessu nú lýst nánar.
Meint ólögmætt samráð hótela
Að mati Samkeppniseftirlitsins báru þau gögn sem aflað var hjá SAF með sér að verðsamráð hafi átt sér stað á hótelamarkaði allt frá gildistöku samkeppnislaga eða frá árinu 1993 og til dagsins í dag. Af gögnum málsins má ráða að upphaf verðsamráðsins megi rekja til þess er Samband veitinga- og gistihúsa (SVG, en SAF tók við starfsemi þess við stofnun þess síðarnefnda þann 11. nóvember 1998) og síðar SAF hófu að safna reglulega saman upplýsingum um herbergjanýtingu, meðalverð og meðaltekjur hótela víðsvegar um landið og miðla þeim áfram til hótelanna. Samhliða þessari upplýsingaöflun og miðlun bera gögn málsins með sér að fulltrúar hótela hafi ítrekað um langt árabil hist reglulega og rætt um verðlagsmálefni. Þannig hafi fulltrúar hótelanna hist á vettvangi funda gististaðanefnda SAF, á fræðslufundum á vegum samtakanna, á aðalfundum SAF, í sérstökum vinnuhópum og öðrum hótelstjórafundum. Þá sýna gögn málsins fram á að fulltrúar hótelanna ræði reglulega sín á milli með tölvupóstsamskiptum og eins á sérstökum lokuðum spjallvef í gegnum heimasíðu SAF um ýmis hagsmunamál sín. Gögn málsins gefa til kynna að samskipti hótelanna eigi sér stað jafnt innan sem utan vettvangs SAF.
Verður nú hið meinta samráð rakið með tilvísanir í þau gögn málsins sem Samkeppniseftirlitið hefur undir höndum.
Þann 22. og 23. mars 1993 var haldinn fræðslufundur SVG þar sem á þriðja tug fulltrúa hótela mættu, þ. á m. fulltrúar Flughótels, Hótels Eddu og Hótels Loftleiða. Af gögnum málsins má sjá að fulltrúar hótela fjölluðu á fundinum með ítarlegum hætti um gistiverð og verðlagningu á hótelmarkaði, þar sem m.a. rætt var um „sílækkandi gistiverð“ og lágmarksverð. (fylgiskjal nr. 3). Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta gagn til kynna að hótel hafi gerst brotleg við 10. gr. samkeppnislaga.
Þann 18. ágúst 1993 var haldinn sérstakur „hótelstjórafundur“ á Hótel Loftleiðum þar sem m.a. var rætt var um „verðlagningu gistingar fyrir næsta ár“ eða fyrir árið 1994 með tilliti til skattalagabreytinga sem tóku gildi þann 1. janúar 1994 þar sem 14% virðisaukaskattur var m.a. lagður á útleigu hótel- og gistiherbergja. (fylgiskjal nr. 4). Samkeppniseftirlitið telur þetta gagn fela í sér sterkar vísbendingar um að hótel hafi átt með sér verðsamráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga.
Þann 15. og 16. mars 1994 var haldinn félags- og fræðslufundur SVG á Hótel Loftleiðum. Í dreifibréfi samtakanna nr. 5 frá 7. apríl 1994 var fjallað um framangreindan fund undir fyrirsögninni „Gistiverðið“. Tekið er fram í dreifibréfinu að nokkrar umræður hafi orðið um gistiverðið og að vandamálið í greininni væri „alltof lágt gistiverð með stöðugum undirboðum.“. Þá var tekið fram að umræðum um málið yrði haldið áfram. (fylgiskjal nr. 5). Af gögnum málsins má ráða að í framhaldinu hafi verið stofnaður sérstakur „vinnuhópur SVG um hótelverð“. Í vinnuhópnum átti m.a. sæti fulltrúi Flugleiðahótela. Helstu niðurstöður vinnuhópsins voru þær að hótelin gætu „selt á hærri verðum án þess að missa viðskiptavini“, að hótelin gæfu hvort öðru meðalverð sín og eins var rætt um tiltekin lágmarksverð. (fylgiskjal nr. 6). Aukinheldur var ákveðið í framhaldinu að halda sérstakt „námskeið fyrir hótelfólk um verð o.fl.“. (fylgiskjal nr. 7). Að mati Samkeppniseftirlitsins felur framangreint í sér veigamiklar vísbendingar um brot á samkeppnislögum.
Í dreifibréfi SVG nr. 11 frá 26. júní 1995 var fjallað um tekjukönnun samtakanna. Í fylgibréfi með dreifbréfinu var úrdráttur úr könnun á vegum SVG þar sem sagði m.a. að ánægjulegt væri að sjá að meðalverð hótelanna hafi hækkað um 500 krónur milli ára á fyrsta ársþriðjungi og að það hafi verið „sú hækkun sem stjórnendur hótela voru almennt sammála um að þyrfti að eiga sér stað þá þegar“. (fylgiskjal nr. 8). Framangreint styður það mat Samkeppniseftirlitsins að verulegar líkur séu á því að ólögmætt samráð eigi sér stað milli hótela. Eins og fram hefur komið benda gögn málsins til þess að Flugleiðahótel séu þátttakandi í umræddu samráði.
Í dreifibréfi SVG nr. 8 frá 11. júlí 1996 var fjallað um „Íslendingaverð á hótelum“, sem virðist gefa til kynna að íslensk hótel haldi sérstakar verðskrár fyrir Íslendinga en aðra fyrir erlenda ferðamenn. (fylgiskjal nr. 9). Að mati Samkeppniseftirlitsins bendir þetta gagn til brots á samkeppnislögum.
Af gögnum málsins má sjá að hótelstjórar fjölluðu um verðlagningarmál á aðalfundi SVG sem haldinn var í Vestamannaeyjum þann 22. og 23. október 1997. Þar ræddi hótelstjóri Flugleiðahótela m.a. um hótelverð og sagði að „náðst hafa markmið um hærra meðalverð“. (fylgiskjal nr. 10). Er framangreint gagn til frekari stuðnings um ólögmætt samráð.
Ýmis önnur gögn sem Samkeppniseftirlitið hefur undir höndum gefa til kynna hversu náin samvinna virðist vera á milli hótela. Þannig gefa gögn málsins til kynna að fulltrúar Flugleiðahótela, Radisson SAS Hótel Sögu, Grand Hótel Reykjavíkur, Fosshótel, Hótel Borg og Hótel Óðinsvé hafi hist í maímánuði 2000 til að ræða saman um bréf sem Ferðaskrifstofa Ísland sendi hótelum þar sem ferðaskrifstofan fór fram á 5% lækkun á verðskrá hótela vegna óhagstæðrar gengisþróunar. Gögn málsins gefa til kynna að hótelin hafi ákveðið í sameiningu að verða ekki við kröfu um verðlækkun (fylgiskjal nr. 11). Samkeppniseftirlitið telur að þetta gagn feli í sér veigamiklar vísbendingar um það nána samstarf sem virðist ríkja á meðal hótela í andstöðu við bannreglur samkeppnislaga.
Í aprílmánuði árið 2001 var haldinn aðalfundur SAF. Af fundargerðinni má ráða að miklar umræður urðu um arðsemi og verðlagningu í greininni og svo virðist sem samstaða hafi náðst a.m.k. á meðal tiltekinna hótela að hækka öll verð. Var í því sambandi m.a. rætt um að stefna ekki að því að fá sem flesta ferðamenn til landsins heldur að fá hærri verð fyrir hvern ferðamann (fylgiskjal nr. 12). Eins og sjá má á tekjukönnunum SAF fyrir aprílmánuð og maímánuð þá hækkuðu meðalverð hótelherbergja umtalsvert í kjölfarið (fylgiskjöl nr. 13 og 14). Samkeppniseftirlitið telur að þessi gögn feli í sér veigamiklar vísbendingar um alvarlegt samráð um verðhækkanir hótela í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga.
Samkvæmt gögnum sem Samkeppniseftirlitið hefur undir höndum var haldinn sérstakur hótelstjórafundur á Kringlukránni þann 13. desember 2001. Í fundagerð er tekið fram að hótelstjórar hafi verið áhyggjufullir yfir offramboði á markaðnum ef af öllum hótelbyggingum yrði sem rætt hafði verið um. Þá hafi einhverjir hótelstjórar bent á „að meðalverðin yrði að hækka til þess að mæta miklum kostnaðarhækkunum“. (fylgiskjal nr. 15). Á sama fundi var jafnframt rædd hugmynd um að koma á fót sérstökum upplýsingagrunni fyrir hótelrekendur. Af gögnum málsins má ráða að fulltrúar Flugeiðahótela séu með í framangreindri samvinnu. Um markmið og tilgang umrædds upplýsingagrunns má ennfremur finna vísbendingu í tölvupósti frá fulltrúa Hótels Ísafjarðar, dags. 18. desember 2001, en þar segir orðrétt:
„Sæl verið þið öll saman,
mér líst ágætlega á svona samráðsvettvang. Ég held hótelstjórarnir í Reykjavík hittist öðru hverju og ræði ýmis sameiginleg mál(eða var það ekki ?). Það er hægt að gera þetta svona eins og Páll lýsir þessu eða þá með einhvers konar spjallrás eða "lokuðu svæði" innan SAF síðunnar ekki satt? Það eru fullt af málum sem hótelstjórar vilja og þurfa að ræða sín á milli og til þess er SAF til að skapa umræðu og betri tengsl á milli félaganna.“ (fylgiskjal nr. 16)
Að mati Samkeppniseftirlitsins benda framangreind gögn til þess að alvarlegt samráð á grundvelli 10. gr. samkeppnislaga eigi sér stað á milli hótela.
Af þeim gögnum sem Samkeppniseftirlitið hefur undir höndum má ráða að á fundi gististaðanefndar SAF sem haldinn var á aðalfundi samtakanna í maímánuði 2002 urðu ítarlegar umræður fulltrúa hótela um framboð og verðlagningu í greininni. Þannig segir orðrétt í erindi þáverandi formanns gististaðanefndar:
„Afkoma gistihúsa á Íslandi er algjörlega óviðunandi. Nýting húsnæðisins er reyndar viðunandi í Reykjavík og næsta nágrenni, en verðin eru of lág og fátt virðist benda til að þau fari hækkandi. Nýting út á landi er svo léleg að verið er að tala um eins stafs tölur stóra hluta úr árinu, þrátt fyrir allt tal um aukna eftirspurn utan háannatímans bólar lítið á því út á landi og ætla má að verðin sem fást á þeim tíma þokist helst til hægt uppá við. Þannig að þegar við tölum um nýtingu fjárfestinga koma út tölur sem fáir vilja hafa mörg orð um. Í greininni eru stórkostlegar offjárfestingar og munum við í framtíðinni þurfa að slíta við þetta vandamál. Mikilvægt er að við áttum okkur á umfangi þessa hið fyrsta og reynum að vinna skynsamlega úr stöðunni. [...]“ (fylgiskjal nr. 17)
Framangreint gagn er að mati Samkeppniseftirlitins til frekari stuðnings þess samráðs sem virðist eiga sér stað á hótelmarkaði í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga.
Í fundargerð stjórnar SAF frá 26. ágúst 2003 (fylgiskjal nr. 18) kemur fram að rætt hafi verið um „hótelverðin á vefnum og meinta hræðslu hótelanna við ferðaskrifstofur vegna hugsanlegra tilboða þar.“. Í fundargerðinni segir jafnframt að mjög hagstæð tilboð væru á hótelverðum víða um heim og að íslensk hótel virtust „ekki nota slíka tekjustýringu.“. Voru nefndarmenn sammála um að viðkomandi fagnefndir þyrftu að ræða þessi mál betur. Á sama fundi var ennfremur rætt um að ferðamenn væru farnir að skilja minna eftir sig. Voru nefndarmenn „sammála um að aðalbreytingin væri sú að ferðamenn væru einstaklingar á skemmtiferð sem versluðu gjarnan á netinu og væru mjög meðvitaðir um verð.“. Á fundi gististaðanefndar SAF sem haldinn var þann 4. september s.á. héldu umræður áfram um hótelverð á netinu. Segir í fundargerð (fylgiskjal nr. 19) að nefndarmenn hafi m.a. rætt um verðin á netinu og tekjustýringu og að málið yrði kannað frekar og „rætt áfram“. Framangreind gögn styðja það mat Samkeppniseftirlitsins að verulegar líkur séu á því að ólömgætt samráð eigi sér stað á milli hótela.
Af gögnum málsins má ráða að fulltrúar tiltekinna hótela, þ.á m. fulltrúar Flugleiðahótela, fóru saman á tekjustýringarnámskeið þann 30. maí 2005 á Park Inn Hótel Ísland. Á námskeiðinu var m.a. fjallað um verðlagningu. (fylgiskjal nr. 20). Framangreint gagn styður ennfrekar það mat Samkeppniseftirlitsins um ólögmætt samráð hótela.
Samkvæmt fundargerð gististaðanefndar SAF frá 29. september 2005 ræddu fundarmenn um verðlagningu fyrir árið 2006. Þannig segir orðrétt í fundargerð:
„Rætt var um stöðuna eftir sumarið sem var víða þokkalegt en sums staðar virðist seinni hluti sumars hafa verið lélegur. Rætt var um verðlagninguna fyrir næsta ár og menn svartsýnir vegna gengisins.“ (fylgiskjal nr. 21)
Samkeppniseftirlitið álítur þetta gagn fela í sér veigamiklar vísbendingar um verðsamráð á milli hótela sem brýtur í bága við 10. gr. samkeppnislaga.
Af gögnum málsins má sjá að í júní 2006 virðist sem vinna hafi farið af stað innan gististaðanefndar SAF um að auka ennfrekar samvinnu og upplýsingamiðlun hótela. Þannig sendi þáverandi formaður gististaðanefndar og fulltrúi eins hótelsins tölvupóst til annarra nefndarmanna nefndarinnar þann 21. júní 2006 ásamt viðhengi með bæklingi enska fyrirtækisins The Bench (www.thebench.com). Nánar tiltekið var um að ræða hugmynd um að hótelin gæfu upplýsingar um dagleg meðalverð og nýtingu þannig að hótelin geti séð hverju sinni hvar þau standa miðað við önnur hótel. (fylgiskjal nr. 22)
Samkvæmt gögnum málsins hélt gististaðanefnd SAF fund þann 1. september 2006 þar sem framangreind hugmynd um miðlun daglegra meðalverða og nýtingar rædd og ákveðið að málið yrði skoðað frekar. Samhliða þessari umræðu ræddu nefndarmenn um stöðuna á hótel- og gististaðamarkaði. Í því sambandi var m.a. talað um að gengi gististaða úti á landi hafi verið undir væntingum en staðan í Reykjavík væri hins vegar betri. Þá var rætt um horfur í greininni og höfðu „menn áhyggjur af miklum kostnaðaraukningum, verðbólgu og stórhækkun launa...“. (fylgiskjal nr. 23)
Um tilgang upplýsingamiðlunar daglegra meðalverða var fjallað um í tölvupósti þáverandi hagfræðings SAF, dags. 16. október 2006. Orðrétt segir:
„Sælir
Tilgangurinn er að veita hótelunum sem besta mynd af stöðu þeirra á hverjum tímapunkti. Geta séð hvernig nýtingin er í bænum og hvaða verð eru í gangi. Skapar möguleika á að hækka verð ef menn sjá að þeir eru lágir eða setja inn einhver tilboð ef þeir sjá að þeir eru með léttbókað miðað við það sem gengur og gerist. [...].“ (fylgiskjal nr. 24)
Að mati Samkeppniseftirlitsins benda framangreind gögn til þess að alvarlegt samráð á grundvelli 10. gr. samkeppnislaga eigi sér stað á milli hótela.
Samkeppniseftirlitið vill í þessu sambandi aukinheldur vísa til svarbréfs Flugleiðahótels (fylgiskjal nr. 25) við upplýsingabeiðni Samkeppniseftirlitisins frá 11. apríl 2008 viðvíkjandi meint verðsamráð á hótelmarkaði, en þar segir orðrétt:
„Umbjóðandi okkar [Flugleiðahótel] telur þó nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram að hann hefur ekki tekið þátt í verðsamráði með öðrum hótelum og honum er ókunnugt um slíkt samráð. Allar verðákvarðanir hafa verið tekna [sic] á rekstrarlegum forsendum eigin starfsemi og af fyrirtækinu með sjálfstæðum hætti.“
Að mati Samkeppniseftirlitsins virðist framangreint svar Flugleiðahótela stangast á í verulegum atriðum við þau gögn sem Samkeppniseftirlitið hefur undir höndum og reifuð voru hér að framan. Í þessu ljósi telur Samkeppniseftirlitið afar brýnt að leita að sönnunargögnum á skrifstofum Flugleiðahótela.
Eins og ofangreindar upplýsingar bera með sér bendir allt til að um mjög umfangsmikið og alvarlegt samráð hafi verið um að ræða sem staðið hafi allt frá gildistíma samkeppnislaga árið 1993 og að samráðið sé viðvarandi. Það lúti m.a. að samvinnu um að hækka meðalverð hótelherbergja, samráð um lágmarksverð hótelherbergja, miðlun viðkvæmra viðskiptaupplýsinga milli keppinauta, samráð hótela sem stuðla átti að því að draga úr verðtilboðum o.fl. Vísbendingar eru um að Flugleiðahótel séu þátttakendur í hinu meinta samráði. Að mati Samkeppniseftirlitsins er óumflýjanlegt að rannsaka ítarlega hversu víðtækt umrætt meint samráð er. Rannsóknarhagsmunir krefjast þess að farið verði á skrifstofur Flugleiðahótela og Icelandair Group og þar leitað að sönnunargögnum vegna meintra brota á 10. gr. samkeppnislaga.
III.
Lagarök
Í 1. mgr. 20. gr. samkeppnislaga segir að Samkeppniseftirlitið geti við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður séu til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Í 2. mgr. 20. gr. sömu laga segir að við framkvæmd aðgerða skv. 1. mgr. skuli fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
Í athugasemdum við 43. gr. í frumvarpi til samkeppnislaga nr. 8/1993, sem síðar varð 40. gr. laganna, sbr. núgildandi 20. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, segir að þegar ríkar ástæður séu til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum sé nauðsynlegt að Samkeppnisstofnun (nú Samkeppniseftirlitið) geti komið óvænt á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn. Gögn sem sýni samráð, samvinnu og athafnir sem séu brot á bannákvæðum samkeppnislaga geti verið í formi bréfaskrifta, minnispunkta eða með öðrum óformlegum hætti. Þá segir að til að koma í veg fyrir að slíkum gögnum sé skotið undan eða þau eyðilögð sé nauðsynlegt að geta komið í skyndiheimsókn á starfsstað fyrirtækis til að leggja hald á gögnin til rannsóknar.
Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins verður að telja að skilyrði 1. mgr. 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 20. gr. samkeppnislaga séu uppfyllt til að umbeðin húsleit megi fara fram. Verður krafa samkeppniseftirlitsins því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Samkeppniseftirlitinu er heimil húsleit hjá Icelandair Group hf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, Flugleiðahótelum ehf., Reykjarvíkurflugvelli (við Hlíðarfót), Reykjavík, og Hótel Loftleiðum, Reykjavíkurflugvelli (við Hlíðarfót), Reykjavík. Heimildin nær til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæði og læstum hirslum og til að taka afrit gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.