Hæstiréttur íslands
Mál nr. 625/2016
Lykilorð
- Kyrrsetning
- Veðsetning
- Skilasvik
- Refsiákvörðun
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.
Kostnaðarverð vörulagersins, sem fyrsti liður ákæru tekur til, eins og það er réttilega lagt til grundvallar í héraðsdómi, nam 84.891.550 krónum, en ekkert endurgjald skilaði sér fyrir lagerinn til veðhafans. Þá laut brot ákærða samkvæmt öðrum lið ákærunnar einnig að umtalsverðum verðmætum. Það brot var fullframið þegar ákærði stóð að ráðstöfun vélskipsins AXEL þannig að ekki fékkst samrýmst hagsmunum þrotabús Dregg ehf. Með vísan til þessa verður refsing ákærða ákveðin eins og í dómsorði greinir og er þá tekið tillit til þess tíma sem liðinn er frá því að brot ákærða voru framin. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Ari Axel Jónsson, sæti fangelsi í átján mánuði en fresta skal fullnustu fimmtán mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 902.620 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Einars Huga Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. júlí 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 3. júní 2016, er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt þág. lögum nr. 135/2008, útgefinni 13. apríl 2015, á hendur Ara Axel Jónssyni, kt. [...], Hindarlundi 9, Akureyri, „fyrir eftirtalin skilasvikabrot:
I
Fyrir að hafa 31. mars 2011 sem eini eigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Dregg ehf., kt. 660606-3190, Oddeyrartanga á Akureyri, nú gjaldþrota, ráðstafað öllum vörubirgðum félagsins, lagnaefni og skyldum vörum, til Dregg Lagna ehf., kt. 480908-0900, Oddeyrartanga á Akureyri, í eigu Dregg eignarhaldsfélags ehf., kt. 700496-2369, sem var einnig í eigu ákærða, á þann hátt að ekki samrýmdist veðréttindum Byr hf., lánardrottins Dregg ehf., í vörubirgðunum og fyrir óhæfilega lágt verð þannig að skerti rétt sama lánardrottins til að öðlast fullnægju af eignum félagsins.
Samkvæmt tryggingarbréfi undirrituðu af ákærða fyrir hönd Dregg ehf., dags. 3. desember 2007 og þinglýstu 17. sama mánaðar, voru vörubirgðir Dregg ehf. veðsettar Sparisjóði Norðlendinga til tryggingar öllum þáverandi og síðari skuldum Dregg ehf. við sparisjóðinn, þar með töldum yfirdrætti á tékkareikningi. Samkvæmt tryggingarbréfinu var Dregg ehf. óheimilt að framselja hinar veðsettu vörubirgðir ef slíkt væri ekki í samræmi við eðli rekstrarins og skerti að mun tryggingu sparisjóðsins. Byr sparisjóður og síðar Byr hf. yfirtóku á næstu árum þær fjárkröfur og veðréttindi á hendur Dregg ehf. sem áður tilheyrðu Sparisjóði Norðlendinga.
Ráðstöfun ákærða á vörubirgðunum 31. mars 2011 var gerð án samþykkis veðhafans Byr hf. en þá skuldaði Dregg ehf. Byr hf. 205.831.933 krónur vegna yfirdráttar á bankareikningi Dregg ehf. nr. 1145-26-340. Félagið greiddi aldrei þá skuld að nokkru leyti.
Dregg ehf. gaf út reikning fyrir vörubirgðunum til Dregg Lagna ehf. 31. mars 2011, að fjárhæð 12.834.110 krónur. Engin greiðsla var þó innt af hendi til Dregg ehf. heldur var kaupverðið gert að fullu upp bókhaldslega með skuldajöfnuði við kröfu ákærða á hendur Dregg ehf. að fjárhæð 16.525.108 krónur en ákærði var í bókhaldi Dregg ehf. sagður hafa lánað Dregg Lögnum ehf. þá kröfu. Dregg Lagnir ehf. leystu til sín vörubirgðirnar á móti þessari kröfu og skulduðu eftir það ákærða jafnvirði hins skráða kaupverðs vörubirgðanna, eða 12.834.110 krónur. Ákærði fékk þá kröfu síðar greidda að fullu frá Dregg Lögnum ehf.
Hið skráða söluverð var mun lægra en verðmæti vörubirgðanna við söluna. Samkvæmt lista um verðmæti birgða Dregg ehf. hinn 15. október 2010, staðfestum af ákærða með undirritun þann dag, var kostnaðarverðmæti þeirra þá bókfært 93.176.038 krónur, lagermagn 40.348 stykki en söluverðmæti 138.100.406 krónur. Óverulegur hluti birgðanna var seldur frá þessum tíma og fram til þess þegar ákærði ráðstafaði þeim frá Dregg ehf. til Dregg Lagna ehf. Samkvæmt skráningu á verðmæti birgða í rafrænu bókhaldi Dregg ehf. á söludegi 31. mars 2011 var kostnaðarverðmæti þeirra þá bókfært 57.010.019 krónur, lagermagn 38.927,8 stykki en söluverðmæti 128.833.442 krónur.
Vörubirgðirnar voru fyrst bókfærðar í birgðabókhaldi hjá Dregg Lögnum ehf. 25. maí 2011 en rafrænt bókhald félagsins sýnir að félagið byrjaði að selja af birgðunum frá og með 1. apríl 2011. Samkvæmt rafrænu bókhaldi félagsins voru vörubirgðirnar taldar inn í birgðabókhald félagsins smám saman á næstu mánuðum, samhliða því að selt var af þeim. Kostnaðarverðmæti birgðanna í birgðabókhaldi Dregg Lagna ehf. var skráð 28.207.899 krónur 25. maí 2011 en nam hæst 61.601.564 krónum 31. júlí 2011. Dregg Lagnir ehf. átti engar birgðir af lagnavörum og seldi engar lagnavörur fram að kaupunum á vörubirgðunum frá Dregg ehf. Þá voru önnur vörukaup Dregg Lagna ehf. allt árið 2011 hverfandi. Frá viðtöku vörubirgðanna frá Dregg ehf. og út árið 2011 seldu Dregg Lagnir ehf. vörur af birgðunum fyrir 66.291.213 krónur fyrir utan virðisaukaskatt en þær voru að endingu allar seldar á vegum Dregg Lagna ehf. án þess að neitt endurgjald fyrir þær rynni til Dregg ehf.
Við ráðstöfun ákærða 31. mars 2011 á vörubirgðunum stöðvaði hann rekstur Dregg ehf. og var starfsemi félagsins í reynd engin eftir það. Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði Dregg ehf. gjaldþrota 7. maí 2012 samkvæmt kröfu eins kröfuhafa félagsins sem barst dóminum 30. mars 2012. Réttindi Byr hf. á hendur félaginu höfðu þá verið yfirtekin af Íslandsbanka hf. Eftirstöðvar kröfu Íslandsbanka hf. á hendur þrotabúinu vegna fyrrnefndrar yfirdráttarskuldar að fjárhæð 205.101.279 krónur standa nú óverðtryggðar í þrotabúinu en samþykktar kröfur í búið nema samtals 275.381.779 krónum. Eignir þess nema 66.171.655 krónum við útgáfu ákæru án þess að líkur séu taldar á frekari endurheimtum. Háttsemi ákærða var til þess fallin að valda kröfuhöfum Dregg ehf. verulegri fjártjónshættu og leiddi til fjártjóns þeirra í reynd.
II
Fyrir að hafa í lok júlí og byrjun ágúst 2012, sem fyrrverandi eigandi og stjórnandi Dregg ehf., sem tekið var til skipta sem þrotabú 7. maí 2012, og sem eigandi og stjórnandi færeyska félagsins Sp/f Dregg, með færeysku skrásetningarnúmeri 5323, ráðstafað flutningaskipinu AXEL, með IMO númeri 8800133, þá skráðri eign Sp/f Dregg, með þeim hætti að ekki fékkst samrýmst tryggingarréttindum þb. Dregg ehf. yfir skipinu samkvæmt kyrrsetningargerð og miðaði að því að eignartilkall þb. Dregg ehf. til skipsins eða krafa þb. Dregg ehf. um endurgjald fyrir skipið kæmi lánardrottnum þrotabúsins ekki að gagni.
Þessar ráðstafanir voru nánar tiltekið: Með afsali dagsettu 16. júlí 2012 en mótteknu hjá færeysku skipaskránni 1. ágúst 2012, afsalaði ákærði flutningaskipinu AXEL fyrir hönd færeyska félagsins Sp/f Dregg til færeyska félagsins Sp/f Dregg Shipping, með færeysku skrásetningarnúmeri 5324, einnig í eigu og undir stjórn ákærða. Fáeinum dögum síðar, með afsali dagsettu 7. ágúst 2012, en mótteknu hjá færeysku skipaskránni 8. ágúst 2012, afsalaði ákærði skipinu fyrir hönd Sp/f Dregg Shipping til færeyska félagsins Sp/f Saga Shipping, með færeysku skrásetningarnúmeri 5770, að hluta í eigu ákærða og þá eða síðar undir stjórn hans, og lét jafnframt þá breyta nafni skipsins í SAGA. Hvort tveggja gerði ákærði þrátt fyrir yfirlýsingu skiptastjóra þb. Dregg ehf. sem beint var að Sp/f Dregg og ákærða sem fyrirsvarsmanni þess félags, birtri fyrir ákærða 25. júlí 2012, um riftun á afsali Dregg ehf. á skipinu til Sp/f Dregg í júní 2009 og í andstöðu við kyrrsetningargerð sýslumannsins á Akureyri 25. júlí 2012 í skipinu til tryggingar fullnustu fjárkröfu gerðarbeiðandans þb. Dregg ehf. á hendur gerðarþolanum Sp/f Dregg að upphæð 5.000.000 bandaríkjadalir vegna áðurnefnds afsals skipsins milli félaganna. Sú krafa var krafa þb. Dregg ehf. um endurgjald fyrir skipið, sem þrotabúið kvað aldrei hafa verið greitt í reynd.
Ákærði var fyrrum eigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri hins gjaldþrota einkahlutafélags Dregg ehf. Ákærði var stjórnarmaður í færeysku félögunum Sp/f Dregg og Sp/f Dregg Shipping sem voru í eigu Dregg Eignarhaldsfélags ehf., en það félag var í eigu ákærða. Færeyska félagið Sp/f Dregg Shipping var stofnað 7. ágúst 2012 af færeysku hlutafélagi en fyrirsvarsmaður þess var færeyskur lögmaður, F, sem starfað hafði fyrir ákærða vegna félagarekstrar hans í Færeyjum. Stjórnarmaður í Sp/f Saga Shipping við stofnun var C, kt. [...], sem hafði í umboði ákærða sinnt umsýslu vegna félagarekstrar ákærða í Færeyjum, en félagið var í eigu ákærða, C og D, kt. [...], tengdasonar ákærða. Síðar, eða í febrúar 2013, tók ákærði formlega við stjórnarformennsku í Sp/f Saga Shipping.
Með úrskurðum Nord-Troms tingrett í Tromsö í Noregi 6. og 14. september 2012, en þangað hafði ákærði þá látið sigla skipinu, var fallist á kröfu þb. Dregg ehf. um að skipið yrði tekið úr umráðum Sp/f Dregg Shipping uns leyst hefði verið úr ágreiningi um eignarhald þess.
Með samkomulagi 18. september 2012 milli þb. Dregg ehf. annars vegar og Sp/f Dregg, Sp/f Dregg Shipping og Sp/f Saga Shipping hins vegar var af hálfu Sp/f Saga Shipping fallist á að gefa út veðskuldabréf til þrotabúsins að fjárhæð 250.000.000 krónur sem skyldi þinglýst á fyrsta veðrétt í flutningaskipinu SAGA (áður AXEL). Veðskuldabréfið var gefið út samdægurs og þinglýst á skipið hjá færeysku skipaskránni. Ákærði undirritaði samkomulagið fyrir hönd Sp/f Dregg og Sp/f Dregg Shipping en C fyrir hönd Sp/f Saga Shipping. Á móti féllst þb. Dregg ehf. á að aflétta fyrrnefndum kyrrsetningargerðum í skipinu á Íslandi og í Noregi og einnig að fella niður dómsmál á hendur færeysku félögunum á Íslandi og í Færeyjum vegna ráðstafana ákærða á skipinu, en þrotabúið hafði þá meðal annars höfðað dómsmál á Íslandi til riftunar á fyrrnefndu afsali skipsins frá Dregg ehf. í júní 2009.
Ákærði gaf Sp/f Saga Shipping upp til gjaldþrotaskipta í Færeyjum 8. mars 2013. Flutningaskipið SAGA (áður AXEL) var selt nauðungarsölu við búskiptin 21. ágúst 2013. Söluverð var 5.200.000 danskar krónur en af því runnu að endingu 83.032.255 íslenskar krónur til þrotabúsins með úthlutun á grundvelli fyrrnefndrar veðkröfu þrotabúsins. Fyrrgreindar ráðstafanir ákærða ollu kröfuhöfum þb. Dregg ehf. verulegri fjártjónsáhættu og leiddu til tjóns þeirra í reynd vegna kostnaðar sem féll á þrotabúið út af nauðsynlegum ráðstöfunum þess til að ná fram réttindum sínum yfir skipinu og einnig vegna kostnaðar sem naut lögveðs í skipinu og féll til meðan Sp/f Saga Shipping hafði umráð þess og við gjaldþrotaskipti Sp/f Saga Shipping.
III
Brot ákærða samkvæmt ákærulið I telst varða við 2. og 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot ákærða samkvæm ákærulið II telst varða við 2. og 3. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Hann krefst þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun verjanda. Aðalkröfu ákærða um frávísun málsins var hafnað með úrskurði.
Undir rekstri málsins tók embætti héraðssaksóknara við saksókn málsins.
Málavextir
1.
Hinn 7. maí 2012 var bú Dregg ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra. Jafnframt var Sigmundur Guðmundsson hdl. skipaður skiptastjóri. Með bréfi til ríkislögreglustjóra, dags. 1. ágúst sama ár, fór hann fram á að fram færi tafarlaus opinber rannsókn vegna refsiverðra athafna sem ákærði og annar nafngreindur maður hefðu viðhaft. Skiptastjóri sagði að við rannsókn sína hefði komið í ljós að flestum eignum félagsins hefði verið ráðstafað til félaga í eigu ákærða, bæði rekstrartækjum og vörubirgðum. Vörubirgðum hefði verið ráðstafað til Dregg Lagna ehf., í eigu ákærða, og söluverð að mati skiptastjóra langt frá bókfærðu verði og markaðsverði. Þá hefði söluverðið ekki verið greitt með öðru en skuldajöfnuði á móti kröfu er ákærði hafi átt að eiga á hendur þrotamanni. Helstu eign félagsins, flutningaskipinu Axel, hafi verið afsalað til færeysks félags, Sp/f Dregg, í júní 2009 en færeyska félagið hafi verið í eigu Dreggja Eignarhaldsfélags ehf., sem hafi verið í eigu ákærða. Hafi skipinu verið afsalað án veðbanda og annarra kvaða, langt frá markaðsverði, og söluverð greitt með síðari skuldajöfnuði milli kaupanda og seljanda.
2.
Hinn 3. desember 2007 gaf Dregg ehf. út tryggingarbréf þar sem það veðsetti Sparisjóði Norðlendinga „Alla vörureikninga sem félagið fær í rekstri sínum sbr. 47. gr. laga nr. 75, 1997 auk allra vörubirgða félagsins sbr. 33. gr. laga nr. 75, 1997.“ Skyldi veðið standa til tryggingar allra skulda félagsins við sparisjóðinn, þá sem síðar, hvaða nafni sem nefndust, „að samtaldri fjárhæð allt að kr. 120.000.000“, auk vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Í skilmálum bréfsins segir að með vörubirgðum sé átt við það sem veðsali eigi eða eignist af hráefni, vörum í vinnslu, fullunnum vörum og verslunarvörum, rekstrarvörum og öðrum vörum sem notaðar séu í atvinnurekstrinum. Þá segir að veðsala sé óheimilt að skipta út eða framselja veðsettar vörubirgðir ef slíkt sé ekki í samræmi við eðli rekstrarins og skerði tryggingu veðhafa að mun. Ákærði ritaði undir tryggingarbréfið fyrir hönd Dregg ehf.
Íslandsbanki hf., sem þá hafði tekið við öllum réttindum og skyldum Byrjar hf., lýsti kröfu að fjárhæð 241.146.611 krónur í þrotabú Dregg ehf. hinn 1. júní 2012. Segir kröfunni að henni sé lýst sem veðkröfu á grundvelli tveggja tryggingarbréfa. Sé annað útgefið 3. desember 2007 með veði í öllum vörureikningum sem félagið fái í rekstri sínum og öllum vörubirgðum þess. Skiptastjóri samþykkti kröfuna að fjárhæð 241.138.077 krónur. Samkvæmt bréfi skiptastjóra, sem liggur fyrir í málinu og rakið verður nánar síðar, var eina eign þrotabúsins við upphaf skipta lóðarréttindi samkvæmt lóðarleigusamningi við Akureyrarkaupstað og átti Íslandsbanki hf. veð í. Við skiptin tók bankinn eignina yfir á 36.353.111 krónur og runnu 36.036.798 til lækkunar krafna bankans.
Hinn 5. október 2011 sendi Byr hf. Dregg ehf. greiðsluáskorun þar sem krafist var greiðslu yfirdráttarskuldar, auk vaxta, kostnaðar og fleira, alls að fjárhæð 222.703.629 krónur. Þá stendur í áskoruninni: „Vakin er sérstök athygli á eftirfarandi: Með vísan til 2. tl. tryggingarbréfs (í eigu Byrs) með veði í vörubirgðum og vörureikningum frá 3. desember 2007 er óheimilt að selja af lager eða innheimta kröfur nema með samþykki veðhafa eftir móttöku greiðsluáskorunar þessarar.“ Greiðsluáskorunin var birt með stefnuvotti 8. október 2011.
Samkvæmt samandregnum ársreikningi Dregg ehf. fyrir árið 2009 voru vörubirgðir félagsins að verðmæti 22.678.320 krónur en höfðu ári áður verið að verðmæti 27.909.333 krónur. Fram kemur í ársreikningnum að ákærði eigi allt hlutafé félagsins.
Í samandregnum ársreikningi Dregg ehf. fyrir árið 2010 voru vörubirgðir félagsins sagðar að verðmæti 22.678.320 krónur, svo sem verið hefði ári áður. Fram kemur í ársreikningnum að ákærði eigi allt hlutafé félagsins.
Samkvæmt ársreikningi félags er þá hét AAJ ehf. fyrir árið 2010 voru vörubirgðir félagsins engar. Á árinu voru seld „þjónusta og vörur“ fyrir 1.200.000 krónur. Samkvæmt ársreikningnum var Dregg eignarhaldsfélag ehf. eini hluthafi félagsins. Samkvæmt upplýsingum með ársreikningi Dregg eignarhaldsfélags fyrir árið 2010 var ákærði eini hluthafi félagsins. Með tilkynningu til ríkisskattstjóra, dags. 30. mars 2011 og mótt. 5. apríl 2011, var tilkynnt að nafni AAJ ehf. hefði verið breytt í Dregg Lagnir ehf.
Í málinu liggur skrá um „verðmæti birgða“ Dregg ehf. og er undirrituð og dagsett af ákærða 15. október 2010. Segir þar að lagermagn sé 40.399,96, kostnaðarverðmæti 93.176.038 en söluverðmæti 138.100.406.
Í málinu liggur skjal og mun innanbúðar úr Byr hf. Ber það með sér að vera unnið innan bankans en fram kemur að „markmið/undirbúningur“ snúist um að „Ari fyrir hönd Dregg ehf. óskar eftir áframhaldandi fjármögnun gegn lækkun skulda um 100 mkr. og sömu tryggingar þ.e. birgðir og iðnaðarlóð.“ Í skjalinu er nánari „Lýsing á verkefni“ og segir þar meðal annars: „Lækkun og endurskipulagning skulda. Ari óskar eftir því að greiða niður skuld félagsins niður [svo] um 100 m.kr á árinu, 70 m.kr strax en 30 m.kr á næstu 4-5 mánuðum. Eftirstöðvar skulda væru þá um 126,2 m.kr með veði í Hafnarlóðinni Skipatangi 2-4 (105 m.kr) og lager (137,5 m.kr) auk sjálfskuldarábyrgðar Ara og eiginkonu hans að hluta eða fyrir 40 mkr.“ Þá segir annars staðar í skjalinu, þar sem tryggingar eru taldar upp: „Vörubirgðir í formi röra og fráveitulagna að söluvirði 137,5 mkr. og kostnaðarvirði 85 mkr.“ Einnig segir: „Um er að ræða beiðni um áframhaldandi fjármögnun að upphæð 121 m.kr. á móti sömu tryggingum og við erum með í dag með LTV 50% auk sjálfskuldarábyrgðar Ara og eiginkonu hans. Útibúið metur stöðu félaganna og Ara sjálfs sterka og að hann sé að vinna af heilindum með bankanum í þessu ferli. Jafnframt lítum við á félögin sem framtíðar viðskiptavini og vonumst til að geta jafnvel komið að lánveitingu í framtíðinni með veð í MV/ Axel.“
Þá liggur fyrir í málinu skjal þar sem skráðar eru birgðir og verðmæti þeirra. Efst á skjalið er skráð nafnið Dregg ehf. og dagsetningin 29. mars 2011. Þá er handskrifað á skjalið „Birgðir núna“. Eru því næst taldar upp á hálfri fimmtu blaðsíðu ýmsar einingar þar til talið er upp í lok skráningarinnar að lagermagn sé 40.406,11, kostnaðarverðmæti sé 82.636.919 og söluverðmæti 131.747.947. Þar fyrir neðan eru handritaðar tölur vegna ófærðra innkaupa annars vegar og sölu hins vegar en loks handritað að „Staða 26/4 2011“ sé sú að lagermagn sé 44.404, kostnaðarverðmæti 84.891.550 og söluverðmæti 137.479.003“. Undir þetta er handritað: „Akureyri 26/4 2011 Ari Axel Jónsson“ og stimplað myndmerkið „DREGG“.
Samkvæmt reikningi, dags. 31. mars 2011, seldi Dregg ehf. Dregg Lögnum ehf. „Vörulager án vsk samkv. tilboði“ og var verð hins selda 12.834.110 krónur.
Í málinu liggur útprentun úr birgðabókhaldi Dregg-Lagna ehf. fyrir árið 2011. Fyrsta skráða sala fer fram 1. apríl það ár en hin síðasta 20. desember. Sala án virðisaukaskatts er alls 85.546.218 krónur en með virðisaukaskatti 107.326.424 krónur.
Þá liggur fyrir í málinu Saldólisti skráður fyrir Dregg Lagnir ehf. og segir á honum að hann gildi allt árið 2011. Er þar liðurinn „Vörukaup erlend“ og þar skráð upphæðin 9.933.538.
3.
Með kaupsamningi dags. 25. maí 2007 keypti Dregg ehf. skipið Greenland Saga og var kaupverð skráð 28,5 milljónir danskra króna.
Með kaupsamningi, þar sem skráð er að „Date of Memorandum of Agreement“ sé 9. júní 2009, seldi Dregg ehf. skipið Axel til færeyska félagsins Sp/f Dregg og var kaupverð skráð tvær milljónir Bandaríkjadala. Fyrir hönd seljanda skrifaði ákærði undir samninginn.
Hinn 24. júlí 2012 sendi skiptastjóri þrotabús Dregg ehf. ákærða fyrir hönd Sp/f Dregg tilkynningu um riftun þeirrar ráðstöfunar Dregg ehf. að afsala skipinu Axel til Sp/f Dregg og var jafnframt gerð krafa um að Sp/f Dregg endurgreiddi þrotabúinu fimm milljónir Bandaríkjadala. Tilkynningin var birt fyrir ákærða 25. júlí 2012.
Hinn 25. júlí 2012 tók sýslumaðurinn á Akureyri fyrir kröfu þrotabús Dregg ehf. á hendur Sp/f Dregg þess efnis að kyrrsettar yrðu eignir Sp/f Dregg sem nægja myndu til fullnustu kröfu að fjárhæð fimm milljónir Bandaríkjadala auk kyrrsetningargjalds. Af hálfu Sp/f Dregg mætti ákærði við gerðina. Að ábendingu gerðarbeiðanda en gegn mótmælum gerðarþola kyrrsetti sýslumaður skipið Axel. Í gerðabók er bókað að ákærða hafi verið „leiðbeint um þýðingu gerðarinnar og þar [með] að ekki megi ráðstafa eigninni þannig að í bága fari við rétt gerðarbeiðanda.“ Sýslumaður frestaði til næsta dags ákvörðun um hvort skipið yrði tekið úr vörslu gerðarþola, Sp/f Dregg. Þann dag hafnaði sýslumaður svo kröfu gerðarbeiðanda, Dregg ehf. þb., um vörslutökuna.
Samkvæmt afsali dags. 16. júlí 2012 en mótteknu hjá færeysku skipaskránni 1. ágúst sama ár, seldi Sp/f Dregg skipið Axel til félagsins Sp/f Dregg Shipping og er kaupverð skráð 6.760.000 danskar krónur. Í afsalinu segir að skipið sé „free from encumbrances, debts and maritime liens of any kind whatsoever.“ Undir skjalið ritar ákærði fyrir hönd seljanda en sem vottur ritar á skjalið lögmaðurinn F.
Þá liggur í málinu stofnskjal félagsins Sp/f Saga Shipping, dags. og mótt. til skrásetningar í Færeyjum 7. ágúst 2012. Segir þar að framkvæmdastjóri félagsins sé C. Undir skjalið ritar F.
Samkvæmt kaupsamningi dags. 7. ágúst 2012 en mótteknum hjá færeysku skipaskránni degi síðar seldi Sp/f Dregg Shipping skipið Axel til félagsins Sp/f Saga Shipping. Kaupverð var skráð 6.760.000 danskar krónur. Ákærði ritaði undir skjalið fyrir hönd seljanda en sem vottur ritaði undir það F lögmaður.
Með tilkynningu til skipaskrár í Færeyjum, dags. 7. ágúst og mótt. degi síðar var tilkynnt að nafni skipsins Axels hefði verið breytt og nefndist skipið nú Saga.
Óumdeilt er að skipinu var siglt til Tromsö. Þrotabú Dregg ehf. gerði þar þá kröfu fyrir Nord-Troms tingrett að Sp/f Saga Shipping yrði gert að láta skipið af hendi til þrotabúsins. Hinn 6. september 2012 var í þeim rétti kveðinn upp úrskurður og í íslenskri þýðingu lögg. skjalaþýðanda segir svo í úrskurðarorði: „1. Þar til fyrir liggur endanleg niðurstaða ellegar samkomulag milli þrotabúsins Dreggjar ehf. og Sp F Saga Shipping um eignarréttinn yfir skipinu „Saga“ er skipið tekið úr umsjá Sp F Saga Shipping. Þetta er gert með því að lögtaksmaðurinn í Tromsö tekur hlutinn í sína vörslu og leggur hald á skipspappírana. 2. Þrotabúið Dregg ehf. skal leggja fram tryggingu innan viku fyrir hafnargjöldum sem á falla á meðan á málinu stendur, sbr. § 97 í lögum um sjóferðir. Tryggingin skal á hverjum tíma nægja fyrir hafnargjöldum að minnsta kosti 14 daga fram í tímann. 3. Sp F Saga Shipping greiði NOK 22.150 [...] í málskostnað [...].“ Sp/f Saga Shipping óskaði eftir munnlegum málflutningi um þessa niðurstöðu og í framhaldi af honum var nýr úrskurður kveðinn upp hinn 14. september 2012. Samkvæmt íslenskri þýðingu lögg. skjalaþýðanda var niðurstaða síðari úrskurðarins efnislega sú sama og hins fyrri, en að auki var kveðið á um að þar til fyrir lægi „endanleg niðurstaða ellegar samkomulag milli þrotabúsins Dreggjar ehf. og Sp f Saga Shipping um eignarréttinn yfir skipinu „Saga“ [væri] Sp f Saga Shipping neitað um að ráðstafa skipinu, þar með talið að veðsetja það. Bannið og tímabundið lögbann [skyldi] skráð í skipaskrá á Færeyjum.“ Þá var Sp/f Saga Shipping gert að greiða þrotabúinu 103.900 norskar krónur í málskostnað.
Hinn 18. september 2012 gerðu þrotabú Dregg ehf., Sp/f Saga Shipping, Sp/f Dregg og Sp/f Dregg Shipping með sér samkomulag og komst með því á sátt í máli því sem rekið hafði verið í Noregi. Samkvæmt samkomulaginu skyldi Sp/f Saga Shipping gefa út til þrotabúsins veðskuldabréf að fjárhæð 250 milljónir króna. Bréfið skyldi vera vaxtalaust en falla í gjalddaga sex mánuðum eftir þinglýsingu þess, en því skyldi þinglýst á 1. veðrétt í skipinu. Samhliða þessu skyldi Sp/f Saga Shipping gefa út yfirlýsingu sem þinglýst skyldi á skipið, þess efnis að óheimilt væri að selja skipið nema salan leiddi til fullrar greiðslu veðskuldabréfsins, og þá væri óheimilt að veðsetja skipið eða setja á það aðrar kvaðir eða ráðstafa því á annan hátt sem kynni að fara „í bága við ítrustu hagsmuni þrotabúsins“ nema skuldabréfið hefði áður verið greitt. Samhliða samkomulaginu skyldi Sp/f Saga Shipping undirrita afsal skipsins til þrotabúsins og skyldi afsalið geymt í vörslu skiptastjóra sem héti því að þinglýsa afsalinu ekki nema skilyrði væru til þess samkvæmt samkomulaginu. Skipinu skyldi ekki siglt úr höfn í Tromsö fyrr en þinglýsingar í samræmi við samkomulagið hefðu farið fram. Ákærði skrifaði undir samkomulag þetta fyrir hönd Sp/f Dregg og Sp/f Dregg Shipping, C fyrir hönd Sp/f Saga Shipping en skiptastjóri fyrir hönd þrotabúsins.
Yfirlýsingu Sp/f Saga Shipping, í samræmi við ákvæði samkomulagsins, var þinglýst í Færeyjum 18. september 2012.
Samkvæmt endurriti úr þingbók skiptaréttarins í Færeyjum 8. mars 2013, sem liggur fyrir í þýðingu lögg. skjalaþýðanda, var Sp/f Saga Shipping þá gefin upp til gjaldþrotaskipta. Er bókað að mættir hafi verið fyrir félagið ákærði sem forstjóri og F lögmaður og hafi hinn síðarnefndi lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti. Í þinghaldinu var F settur forstöðumaður félagsins. Hinn 4. apríl var gjaldþrotamálið tekið fyrir að nýju og er bókað að í greinargerð setts forstöðumanns félagsins segi að félagið hafi verið stofnað árið 2012 og hafi eigendur félagsins verið C, Ari Jónsson og D. C hafi verið forstjóri í upphafi og fram til febrúar 2013 þegar Ari Jónsson hafi tekið við starfinu. Félagið hafi keypt skipið Sögu fyrir sjö milljónir færeyskra króna sem lánað hafi verið án tryggingar í skipinu. Þá er bókað að rétturinn hafi talið F ekki uppfylla lagaskilyrði til að vera forstöðumaður félagsins vegna lögmannstengingar sinnar við félagið Sp/f Dregg „ásamt því að það er sami aðilahópur sem hefur haft á hendi stjórnarstörf í öllum félögunum“. Var því annar nafngreindur lögmaður settur forstöðumaður.
Hinn 21. ágúst 2013 var skipið selt nauðungarsölu og var kaupverðið 5,2 milljónir danskra króna. Við úthlutun runnu 1.326.982 danskar krónur til sjóveðréttarhafa en til kröfuhafans Dregg ehf. var úthlutað 3.873.018 dönskum krónum.
Í málinu liggur bréf skiptastjóra Dregg ehf. til saksóknara, dags. 19. febrúar 2015. Þar segist skiptastjóri upplýsa eftirfarandi vegna fyrirspurnar saksóknara: „1. Við upphaf skipta var eina eign þrotabúsins lóðarréttindi samkvæmt lóðarleigusamningi við Akureyrarbæ, vegna lóðar við Skipatanga 2-4 á Akureyri. Þeirri eign afsalaði þrotabúið þann 21. febrúar 2013 til Íslandsbanka, er veð átti í eigninni. Bankinn tók eignina yfir á kr. 36.353.111 og runnu kr. 36.036.798 til lækkunar kröfu hans. Við skiptin samþykkti skiptastjóri kröfu Íslandsbanka, kr. 241.138.077. Eftirstöðvar kröfu hans eru því kr. 205.101.279.
2. Samkvæmt samningi þrotabúsins og færeyskra félaga Ara Axels Jónssonar, Sp/f Dregg, Sp/f Dregg Shipping og Sp/f Saga Shipping, er gert var þann 18. september 2012, var gefið út veðskuldabréf til þrotabúsins að fjárhæð kr. 250 milljónir, með veði í flutningaskipinu Axel. Nauðungaruppboð á skipinu fór fram í Þórshöfn í Færeyjum þann 21. ágúst 2013 og var þrotabúinu í kjölfarið úthlutað upp í kröfu sína kr. 83.032.255. Að greiddum skiptakostnaði og að teknu tilliti til inneignarvaxta, eru í dag á bankareikningi þrotabúsins kr. 66.171.655. Er það eina eign þrotabúsins. Skiptastjóri telur ekki líkur á frekari endurheimtum.
3. Að teknu tilliti til lækkunar kröfu Íslandsbanka (sjá 1) eru samþykktar kröfur í þrotabúið kr. 275.381.554. Komi til þess að krafa Lýsingar hf., að fjárhæð kr. 19.495.225, verði samþykkt, en henni var upphaflega hafnað af skiptastjóra, munu samþykktar kröfur nema kr. 294.876.779. Að þessu virtu má vænta að við úthlutun úr þrotabúinu renni um 69%-74% af andvirði eigna þess til Íslandsbanka, eða um kr. 46-49 milljónir.
4. [...]“
Í málinu liggur bréf skiptastjóra Dregg ehf. til saksóknara, dags. 2. júní 2016. Þar segir: „1. Eignir þrotabúsins eru í dag inneign á fjárvörslureikningi skiptastjóra, kr. 64.741.529. Skiptabeiðandi lýsti við skiptin búskröfu að fjárhæð um 9,6 milljónir króna. Um er að ræða kröfu er ekki hefur verið hafnað formlega, en samningar munu væntanlega nást um greiðslu kr. 3 milljóna vegna þessa. Skiptastjóri telur ekki líkur á að frekari eignir renni til búsins. Með hliðsjón af þessu má vænta að til úthlutunar verði ríflega 60 milljónir kr.
Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 6. apríl s.l., var hafnað kröfu er Sp f Dregg lýsti í búið að fjárhæð USD 2.199.100. Sóknaraðili var úrskurðaður til greiðslu kr. 3 milljóna í málskostnað. Upp í hann greiðast væntanlega kr. 600.000 úr málskostnaðartryggingu er sóknaraðila var gert að setja. Skiptastjóri væntir ekki frekari greiðslna.“
Niðurstaða
Í máli þessu er lítt deilt um atvik. Ágreiningslaust er hvaða gerninga ákærði framkvæmdi þótt deilt sé um hvort með þeim hafi hann gerst brotlegur við lög.
1.
Að því er varðar það er ákæruliður I tekur til, er ljóst að ákærði ákvað einn að Dregg ehf. seldi vörubirgðir félagsins í einu lagi til Dregg lagna ehf., við verði sem ákærði ákvað sjálfur. Á þeim tíma voru vörubirgðirnar allar veðsettar samkvæmt tryggingarbréfi, sem upphaflega hafði verið gefið út til Sparisjóðs Norðlendinga en þegar þarna var komið sögu höfðu réttindi sparisjóðsins og skyldur færst til Byrjar hf. Í skilmálum tryggingarbréfsins er kveðið á um að „veðsala sé óheimilt að skipta út eða framselja veðsettar vörubirgðir ef slíkt sé ekki í samræmi við eðli rekstrarins og skerði tryggingu veðhafa að mun.“ Í greinargerð sinni byggir ákærði á því að salan hafi verið gerð í fullu samráði við veðhafann og með samþykki hans og á því að fyrir lagerinn hafi verið greitt markaðsverð þess tíma. Ekkert hefur komið fram í málinu sem styður að veðhafinn hafi verið hafður með í ráðum, hvað þá að hann hafi samþykkt söluna. Fyrir dómi sagði ákærði að hann hefði ekki látið Byr hf. vita af sölunni fyrir fram. Þá virðist blasa við af áðurröktu innanbúðarskjali úr Byr hf. að þar á bæ hefur verið litið svo á að vörubirgðir að verðmæti 137,5 milljónir króna stæðu til tryggingar skuldum Dregg ehf. við bankann. Ákærði afhenti bankanum birgðalista Dregg ehf., og ritaði þar á dagsetninguna 26. apríl 2011, og var þar greint frá birgðum að „kostnaðarverðmæti 84.891.550 og söluverðmæti 137.479.003“. Af framanrituðu má slá föstu að ákærði hafi ekki upplýst veðhafann um það fyrir fram er hann ráðstafaði öllum vörubirgðum Dregg ehf. til annars félags.
Ljóst er að ákærði var í raun eini eigandi beggja félaga, en Dregg Lagnir ehf. voru í eigu Dregg eignarhaldsfélags ehf. og ákærði var eini hluthafi þess félags.
Ákærði byggir á því að það verð sem hann hafi ákveðið hafi í raun verið markaðsverð en aðstæður á markaði hafi breyst mjög til hins verra eftir bankahrun. Í greinargerð sinni segir ákærði að lagerinn hafi verið seldur „í lok árs 2010“ en það fær ekki stuðning af öðru í málinu og verður að miða við að salan hafi farið fram hinn 31. mars 2011.
Ákærði afhenti viðskiptabanka sínum, sem átti veð í birgðum félagsins, ítrekað birgðalista þess. Voru þar taldar upp birgðir sem voru sagðar að verðmæti langt yfir því sem getið var um í ársreikningi félagsins. Vitnið A, sem var [...] Byrjar hf. á Akureyri, sagði Dregg ehf. hafa oft lagt fram slíka birgðalista. Mun frekar hefði verið horft til slíkra lista en birgðastöðu samkvæmt ársreikningum. Mjög væri „þekkt í viðskiptum sem þessum að aðilar afskrifa birgðir mjög hratt, af skattalegum ástæðum, og það er mjög þekkt að bókfært virði birgða er ekki sambærilegt og raunverulegt markaðsvirði þeirra eða kostnaðarverðmæti [...] þannig að það er yfirleitt ekkert horft neitt mjög mikið á bókfært virði í ársreikningi við aðstæður sem þessar heldur miklu frekar á birgðalista eða talningar eða því um líkt.“ Bankinn hefði alltaf „unnið út frá þeim birgðalistum sem við fengum afhenta frá félaginu.“ Kvaðst vitnið geta fullyrt að þar hefði ekki verið horft á bókfært verð í ársreikningum.
Eins og áður segir liggur fyrir í málinu birgðaskrá Dregg ehf. og er undirrituð og dagsett af ákærða 15. október 2010. Samkvæmt henni er lagermagn 40.399,96, kostnaðarverðmæti 93.176.038 krónur en söluverðmæti 138.100.406 krónur. Samkvæmt þeirri birgðaskrá sem ákærði afhenti viðskiptabanka félagsins í apríl 2011 er lagermagn 44.404, kostnaðarverðmæti 84.891.550 krónur og söluverðmæti 137.479.003 krónur. Samkvæmt samandregnum ársreikningi Dregg ehf. fyrir árið 2009 voru vörubirgðir félagsins að verðmæti 22.678.320 krónur en höfðu ári áður verið að verðmæti 27.909.333 krónur, og samkvæmt samandregnum ársreikningi Dregg ehf. fyrir árið 2010 voru vörubirgðir félagsins enn að verðmæti 22.678.320 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skal meta birgðir á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist. Í 2. mgr. sömu greinar segir að séu birgðir metnar við dagverði og það er verulega lægra en kostnaðarverð skuli gera grein fyrir því í skýringum. Dagverð er almennt skilgreint sem söluverð birgða. Í ársreikningi Dregg ehf. fyrir árið 2010, sem dagsettur er í september 2011, eru vörubirgðir færðar þar á bókfærðu verði 22.678.320 krónur. Er sú fjárhæð verulega lægri en það kostnaðarverðmæti sem félagið kynnti veðhafa sínum í apríl 2011. Í ársreikningi er sagt að birgðir séu metnar á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist, en engar skýringar eru gefnar á því hvers vegna vörubirgðir eru færðar á 22.678.320 krónur þegar kostnaðarverðmæti þeirra er nær fjórföld sú fjárhæð. Slíkur munur á kostnaðarverði og dagverði er sjaldgæfur í ársreikningum félaga.
Fyrir dómi kvaðst vitnið B, sem aðstoðaði við gerð ársreikninga félaganna, ekkert hafa komið að færslu birgðabókhalds heldur eingöngu hafa byggt á upplýsingum ákærða um birgðastöðuna.
Samkvæmt ársreikningum Dregg ehf. fyrir árin 2009 og 2010 var verðmæti birgða hið sama, bæði ár. Þykir það benda sterklega til þess að ekkert sérstakt mat á birgðum hafi farið fram vegna ársreikningsins, en engin skrifleg gögn liggja fyrir um slíkt mat né annað sem bent gæti til þess að það hafi farið fram.
Þegar á allt framanritað er horft þykir mat á verðmæti birgðanna, við ráðstöfun þeirra til Dregg Lagna ehf., ekki verða byggt á ársreikningum félagsins. Það að skattframtal Dregg ehf. 2010 geymi sömu tölu þykir ekki breyta neinu í þessu samhengi. Virðist ljóst að gengið hafi verið út frá því milli félagsins og viðskiptabanka þess að verðmæti vörubirgða félagsins hafi verið verulega hærra en ráða hefði mátt af opinberum gögnum. Ákærði ritar á birgðalista í apríl 2011 að hann greini „birgðir núna“. Er í samskiptum félagsins og bankans miðað við verðmæti sem greint er í birgðalistum en ekki ársreikningum og skattframtölum.
Í saldólista vegna Dregg Lagna ehf., sem ákærði lagði fram í málinu, er greint frá erlendum vörukaupum að fjárhæð 9.933.538 krónur. Um þetta liggur ekki meira fyrir sem hönd á festir, en allt að einu þykir rétt að miða við í sakamáli þessu að Dregg Lagnir ehf. hafi keypt vörur að utan fyrir þessa fjárhæð.
Dregg Lagnir ehf. áttu ekki aðrar vörubirgðir er þær fengu lager Dregg ehf. ráðstafað til sín 31. mars 2011. Hafði félagið ekki verið í rekstri af þessum toga. Árið 2011 seldi félagið vörur fyrir 85.546.218 krónur án virðisaukaskatts. Jafnvel þótt miðað sé við að félagið hafi keypt inn birgðir að verðmæti rúmar 9,9 milljónir króna annars staðar frá, er ljóst að félagið selur vörur fyrir mjög verulega hærri fjárhæð en þær birgðir, er það fékk framseldar frá Dregg ehf., voru metnar á.
Hér voru gerð viðskipti milli félaga sem í raun voru í sömu eigu og eykur það kröfur um rökstuðning ef veðsettar vörur eru seldar við verði sem er verulega lægra en kostnaðarverð og bókfært verð. Jafnvel þótt miða ætti við bókfærða verðið, 22.678.320 krónur, væri það söluverð, sem ákærði ákvað, talsvert undir raunverði birgðanna.
Ákærði byggir á því að verðmæti varanna hafi aukist í meðförum Dregg Lagna ehf. Jafnvel þótt eitthvað kunni að vera til í því breytir það ekki því að vörubirgðum, sem ákærði staðfesti við veðhafa að væru að kostnaðarverðmæti 84.891.550 krónur, ráðstafaði hann til félags í sjálfs sín eigu, fyrir 12.834.110 krónur, og það án þess að við viðskiptin kæmi inn í félagið nokkurt fé sem stæði veðhafanum til boða. Þegar á allt framanritað er horft verður að líta svo á að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi með þessari háttsemi brotið gegn 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Umrædd ráðstöfun hans gat ekki samrýmst veðréttindum Byrjar hf. og hún leiddi til skerðingar á rétti bankans og síðar Íslandsbanka hf. sem tók við réttindum og skyldum Byrjar hf., til að fá fullnægju af þeim upp í fjárkröfur sínar. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að veðhafinn hafi fengið fullnustu krafna sinna með öðru móti, svo sem með öðrum tryggingum. Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 181 og 184/2015 voru ákærði og eiginkona hans dæmd til að greiða Íslandsbanka hf. in solidum alls 225.600.560 krónur ásamt nánar greindum dráttarvöxtum en að frádregnum 36.036.798 krónum, vegna tryggingarvíxla vegna skulda Dregg ehf. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að bankinn hafi í framhaldi þessara dóma fengið kröfur sínar greiddar að fullu. Var háttsemi ákærða höfð í frammi til hagsbóta félagi er var í raun í eigu ákærða.
2.
Sýslumaðurinn á Akureyri lýsti hinn 25. júlí 2012 yfir kyrrsetningu skipsins Axels. Í gerðabók er bókað að ákærða, sem mætti við gerðina, hafi verið leiðbeint um þýðingu gerðarinnar og þar með að ekki mætti ráðstafa eigninni þannig að í bága færi við rétt gerðarbeiðanda, þrotabús Dregg ehf. Samkvæmt 1. mgr 20. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er eiganda kyrrsettrar eignar óheimilt að ráðstafa henni með samningi þannig að í bága fari við rétt gerðarbeiðanda. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er gerðarþola óheimilt að nýta eða fara með kyrrsetta eign, sem hann heldur umráðum yfir, á nokkurn hátt sem farið gæti í bága við rétt gerðarbeiðanda.
Fyrir dómi sagði ákærði að dagsetning afsals skipsins frá Sp/f Dregg til Sp/f Dregg shipping, 16. júlí 2012, væri röng. Rétt væri að miða við 1. ágúst 2012 er tilkynning hefði verið móttekin hjá skipaskrá í Færeyjum. Þykir óhætt að miða við það.
Er ákærði undirritaði skjal um veðbanda- og kvaðalausa sölu skipsins hafði sýslumaður kyrrsett það. Var gerðarþola, Sp/f Dregg, þá óheimilt að ráðstafa skipinu þannig að færi í bága við rétt gerðarbeiðanda. Þinglýsing kyrrsetningar skráningarskylds skips er skilyrði réttarverndar gagnvart grandlausum þriðja manni en gerðarþola ber að virða kyrrsetningu þótt henni hafi ekki verið þinglýst. Er Sp/f Dregg seldi hið kyrrsetta skip til Sp/f Dregg Shipping var ákærði forsvarsmaður beggja félaganna. Sem forsvarsmaður síðarnefnda félagsins seldi hann skipið svo áfram til þriðja félagsins, Sp/f Saga Shipping. Fyrir dómi var ákærði spurður hvort hann hefði átt hlut í því félagi og sagðist hann ekki geta svarað því. Spurður um tengsl sín við félagið sagði hann „ja ég allavega tók, ég stoppaði skipið af, þetta var svo reynt að gera skipið út þarna það fékk vinnu í mars 2012, þá yfirtek ég þetta félag minnir mig og stoppa skipið því að þá er, þá er þetta komið í þvílíka hönk að það muni verða stoppað í næstu höfn og ég vildi þá koma því þá annað hvort til Íslands eða Færeyja.“ Spurður hvers vegna C hefði verið skráður stjórnandi félagsins svaraði ákærði að það hefði verið vegna þess að búið hefði verið að „rústa persónu“ ákærða og þess manns sem verið hefði með honum í skiparekstrinum. Spurður hvort C hefði verið í þessu fyrir hönd ákærða svaraði hann: „Ja, þetta hefur ekki verið rætt enn þann dag í dag, það voru allir sem að voru að hugsa um það hvernig væri hægt að bjarga þeim verðmætum að þetta yrði ekki allt saman eyðilagt, sem að reyndar varð, okkur tókst þetta ekki.“
Samkvæmt endurriti úr þingbók skiptaréttarins í Færeyjum sótti ákærði þing sem forstjóri Sp/f Saga Shipping er félagið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum. Þá segir í greinargerð F til skiptaréttarins að ákærði hafi verið meðal eigenda félagsins. Þykir í ljósi alls framanritaðs óhætt að byggja á að ákærði hafi átt hlut í félaginu og hafi stýrt því um tíma.
Kyrrsetning skipsins Axels var í gildi þegar ákærði hlutaðist til um eigendaskipti þess án þess að réttinda gerðarbeiðandans væri gætt. Með þeim var brotið gegn rétti gerðarbeiðandans, þrotabús Dregg ehf. Var þrotabúinu þannig valdið verulegri fjártjónshættu en telja verður ljóst að þrotabúið hafi orðið fyrir fjártjóni sem nemur þeim lögveðskostnaði sem safnaðist á skipið og var að endingu dreginn frá því sem kom til úthlutunar uppboðsandvirðis þess. Þrotabúinu var úrskurðaður málskostnaður vegna deilna fyrir dómstóli í Tromsö og liggur ekki skýrt fyrir í málinu hvort sá málskostnaður var greiddur þrotabúinu. Verður því ekki slegið föstu að hann sé hluti þess tjóns sem félagið varð sannanlega fyrir vegna þeirra gerninga sem fóru gegn kyrrsetningunni. Með gerningunum var þess freistað að flytja eignarhald skipsins og rekstur þess yfir í félög sem voru ýmist að öllu leyti eða að minnsta kosti hluta í eigu ákærða. Hafði hann því fjárhagslega hagsmuni af þeim.
Með vísan til þessa er sannað að ákærði hafi ráðstafað skipinu Axel, sem þá var skráð eign Sp/f Dregg, þannig að ekki fékkst samrýmst tryggingarréttindum þrotabús Dregg ehf. samkvæmt kyrrsetningargerð miðaði að því að eignartilkall þrotabúsins til skipsins eða krafa þrotabúsins um endurgjald fyrir skipið kæmi lánardrottnum þrotabúsins ekki að notum. Með þessu hefur ákærði brotið gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Háttsemi hans þykir hins vegar ekki verða færð undir 3. tl. sömu greinar.
Ekki var á valdi ákærða að fara gegn kyrrsetningu sýslumanns, jafnvel þótt hann teldi slíkt nauðsynlegt til að afla skipinu verkefna.
Með vísan til alls framanritaðs er ákærði sannur að sök samkvæmt ákæru að öðru leyti en tekur til 3. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Brot hans tekur til umtalsverðra fjárhæða og horfir það til refsiþyngingar. Ákærða, sem er hálfsjötugur, hefur ekki áður verið gerð refsing. Hann reyndi ekki að breiða fjöður yfir gjörðir sínar. Fyrir dómi sagðist sækjandi líta svo á að ákærði hefði skýrt hreinskilnislega frá þætti sínum í málinu. Þegar á allt er litið verður ákærði dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar en fullnustu refsingarinnar frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við munnlegan málflutning andmælti sækjandi sérstaklega málskostnaðarreikningi verjanda ákærða og taldi hann úr hófi. Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar héraðsdómslögmanns, sem með hliðsjón af umfangi málsins verða ákveðin 3.580.500 krónur með virðisaukaskatti, og 248.100 króna útlagðan kostnað hans, en annar sakarkostnaður mun ekki hafa fallið til. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu ákæruvaldsins fór Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari með málið.
Málið dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson og Erlingur Sigtryggsson og Ljósbrá Baldursdóttir lögg. endurskoðandi.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Ari Axel Jónsson, sæti fangelsi í tíu mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar héraðsdómslögmanns, 3.580.500 krónur og 248.100 króna útlagðan kostnað hans.