Hæstiréttur íslands

Mál nr. 676/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skilorð


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. október 2009. 

Nr. 676/2008.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Guðmundi Magnússyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skilorð.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í bifreið sinni, sleikt kynfæri stúlkunnar A, sem þá var 14 ára, haft við hana samræði og látið hana hafa við sig munnmök. Þá var X jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. sömu laga með því að hafa að minnsta kosti tvisvar sýnt stúlkunni lim sinn og fróað sér í gegnum vefmyndavél í samskiptum þeirra á veraldarvefnum. Var refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en þar sem ákærði hafði játað brot sín hreinskilningslega, gert sátt við A og greitt henni miskabætur, svo og leitað sér aðstoðar til að vinna bug á þeirri fíkn sinni er leiddi til brotsins, þótti rétt að fresta fullnustu 12 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í þrjú ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 2008 og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði að öllu leyti skilorðsbundin en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2008.

                Málið er höfðað með ákæru  útgefinni 16. september 2008 á hendur:

                ,,Guðmundi Magnússyni, kennitala 090475-5259,

                Bugðulæk 11, Reykjavík,

fyrir eftirgreind kynferðisbrot gegn stúlkunni A, fæddri 1993, framin í Reykjavík á árinu 2007:

Með því að hafa, í að minnsta kosti tvö skipti á tímabilinu apríl til ágúst, sýnt stúlkunni lim sinn og fróað sér í gegnum vefmyndavél í samskiptum þeirra á veraldarvefnum og þannig sært blygðunarsemi hennar með lostugu athæfi.

Með því að hafa í ágúst, í bifreiðinni KY-860 sem lagt var í bifreiðastæði við tjaldsvæðið í Heiðmörk, sleikt kynfæri stúlkunnar, sem þá var 14 ára, haft við hana samræði og látið hana hafa við sig munnmök.  

Telst brot ákærða samkvæmt 1. ákærulið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og 82/1998. Telst brot ákærða samkvæmt 2. ákærulið varða við 1. mgr. 202. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 40/ 1992, lög nr. 40/ 2003 og lög nr. 61/ 2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

                Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar og að refsing verði skilorðsbundin. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Hinn 18. september 2007 lagði B fram kæru vegna háttseminnar sem í ákæru greinir. Í kæruskýrslunni er því lýst að A, dóttir hennar, hefði sagt móður sinni frá samskiptunum við 29 ára gamlan karlmann sem hún hefði verið í sambandi við á netinu. Hinn 26. september 2007 var tekin skýrsla af A fyrir dómi. Þar lýsti hún netsamskiptum sínum við mann, sem undir rannsókn málsins kom í ljós að er ákærði. Hún kvaðst hafa talið ákærða 19 ára þar sem hann hefði greint svo frá en síðan kom hið rétta í ljós. Hún lýsti kynferðislegu spjalli þeirra á netinu. Þá lýsti hún því að ákærði hefði viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákærunni. Hann hefði fróað sér eins og lýst er í 1. tl. ákærunnar. Þau hefðu ákveðið að hittast og lýsti hún því er ákærði sótti hana að kvöldlagi og ók sem leið lá upp í Heiðmörk. Þar hefði hann viðhaft þá háttsemi sem í 2. tl. ákæru greinir. Eins og mál þetta er í pottinn búið þykir ekki ástæða til að rekja vitnisburð A frekar.

Ákærði var handtekinn 12. október 2007. Hann játaði þá strax samskiptin við A sem lýst er í ákærunni.

Fyrir dómi játar ákærði sök. Hann kvað samband þeirra A hafa hafist á netinu. Hann hefði vitað aldur A strax eftir fyrstu samskipti þeirra á netinu og lýsti hann samskiptunum við hana. Þá kvaðst hann hafa gert sér grein fyrri hinu sama og þroska hennar er hann hafði samfarir við hana eins og lýst er í ákærulið 2. Kvaðst ákærði ekki reyna að draga úr ábyrgð sinni að þessu leyti. Hann kvaðst sama dag og hann gaf skýrslu um málið hjá lögreglu hafa leitað sér aðstoðar hjá bráðadeild geðdeildar Landspítala vegna kynlífsfíknar og netfíknar sem hann lýsti. Hann lýsti því hvernig geðlæknismeðferð sem hann sætir enn og önnur meðferð ætluð einstaklingum höldnum sömu fíkn og ákærði hefði breytt hugsun sinni og afstöðu til þeirrar háttsemi sem í ákæru greinir. Hann kvað augu sín hafa opnast fyrir því hversu röng háttsemi hans hefði verið og hluti meðferðarinnar fælist í því að ákærði aðstoði einstaklinga í sömu sporum og hann sjálfur.

B, móðir A, lýsti því er A sagði henni frá atburðunum sem í ákæru greinir. Hún lýsti áhrifum þessa atburðar á A og viðbrögðum hennar vegna þessa, en hún hefði merkt breytingar í fari hennar. Hún lýsti þeim eiginleikum í fari A að hún neitaði fólki aldrei um bón sem borin væri upp við hana. Þá lýsti hún fleiri eiginleikum í fari A sem ekki þykir ástæða til að rekja.

Vitnið Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur hjá Barnahúsi kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti vottorð dagsett 30. september 2008, um A sem sótt hefði tíu viðtöl hjá henni. Þóra lýsti ýmsum eiginleikum í fari A, t.d að hún væri auðtrúa og hlustaði ekki á sína innri rödd og hefði mjög mikla þörf fyrir viðurkenningu. Hún lýsti gangi viðtalanna og einkennum í fari A sem væru dæmigerð einkenni barna sem orðið hefðu fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Meðal gagna málsins eru fjölmörg vottorð og skýrslur um A þar kemur fram að hún eigi við hegðunarörðuleika að stríða og hefur verið greind með ,,ofvirkniröskun“ og fleira. Þá kemur fram í skýrslutöku af A fyrir dómi að hún hefði verið í kynferðislegu sambandi við fleiri menn en ákærða.

Vitnið Þóra Sigríður Einarsdóttir kvaðst í vottorði sínu hafa reynt að taka út þau áhrif sem hún taldi að rekja mætti til háttsemi ákærða og greina þannig frá áhrifum sem aðrir atburðir kynnu að hafa haft á A.

Óttar Sveinsson geðlæknir kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti tvö læknisvottorð, dagsett 14. maí 2008 og 9. október 2008, sem rituð voru vegna samskipta við ákærða. Í fyrra vottorðinu segir m.a: ,,Í samtölum við Guðmund komst ég að raun um að hann væri haldinn alvarlegri kynlífs- og spennufíkn sem einkenndist einkum af óhóflegum og oft klámfengnum tölvusamskiptum á alls konar samskiptarásum. Hann var auk þess mjög fíkinn í tölvuklám sem er að finna á löglegum tölvurásum.“ Síðar í sama vottorði segir: ,,Að mínu mati hefur Guðmundur tekið mjög vel á sínum málum og viðurkennt vanda sinn og reynt að koma á hann böndum samkvæmt þeim aðferðum sem best eru til þess fallnar. Hann hefur gert miklar og róttækar breytingar á sínu lífi og m.a. hafið nám í tölvuskóla og skipt um vinnu. Honum hefur gengið mjög vel á nýjum vinnustað og aflað sér mikils trausts sinna yfirmanna.“

Í síðara læknisvottorðinu segir m.a: ,,Ég hef fylgst með Guðmundi reglulega frá því í október 2007. Í fyrra vottorði mínu kemur fram aðdragandi þeirrar komu sem var ósæmilegt athæfi á netinu og ólöglegt samneyti við unga stúlku.

Guðmundur hefur lagt mikið á sig allar götur síðan til að bæta fyrri brot sín og koma í veg fyrri að þetta gæti endurtekið sig. Hann hefur stundað viðtöl hjá mér reglulega; hann hefur farið reglulega á fundi hjá SLAA (sex and love addiction anonymous) og unnið samkvæmt ráðleggingum samtakana; þ.e. fengið sér trúnaðarmann og farið í gegnum sporin. Hann hefur auk þess aðstoðað aðra sem standa í sömu sporum og hann gerði þessa örlagaríku októberdaga í fyrra.

Hann hefur algjörlega haldið sig frá samskipta- og klámrásum netsins frá því þetta gerðist að því er ég best veit. Guðmundur hefur verið sérlega samvinnuþýður og ráðþeginn í þessu máli.

Í mínum huga er það ljóst að Guðmundur hefur tekið á vandamálum sínum af mikilli festu og einbeitni. Í viðtölum við mig hefur hann látið í ljósi mikla iðran og lýsti sig þegar í stað tilbúinn að greiða umræddri stúlku skaðabætur vegna mögulegs miska. Það hefur hann þegar gert.“

Óttar skýrði fyrir dóminum að ákærði hefði unnið vel í sínum málum. Óttar kvað ákærða hafa sýnt mikla iðrun og hann gerði sér grein fyrir því sem hann hefði gert. Óttar skýrði það mat sitt að óskilorðsbundin refsivist hefði mjög slæm áhrif á ákærða með tilliti til vinnu hans við að vinna bug á þeirri fíkn sem hann sé haldinn.

Meðal gagna málsins er vottorð Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings, dagsett 1. nóvember 2007. Í vottorðinu er greint frá því að ákærði sótti þrjú viðtöl hjá Kolbrúnu á árinu 2006, og tvö viðtöl á árinu 2007. Ástæða komu ákærða var netfíkn. Í niðurlagi vottorðsins segir: ,,Það er mat undirritaðrar að atferli þetta eins og Guðmundur lýsti í viðtölunum var komið úr böndunum og farið að hafa neikvæð áhrif á hann, sjálfsmynd hans og fjölskyldulíf og var unnið með málið samkvæmt því.“ Kolbrún kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði vottorðið sem að ofan greinir. Hún skýrði að vandamál eins og það sem ákærði ætti við að glíma væru mjög erfið viðureignar og til að gera það þyrfti mjög sterkan vilja sem hún kvað ákærða hafa sýnt. Hún kvað meðferð ákærða ekki hafa verið lokið er hann hætti komum til hennar.

Niðurstaða

                Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi framið háttsemi þá sem í ákæru greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða. Brot ákærða í 2. tl. ákæru er alvarlegt og beindist að mikilvægum hagsmunum, en samþykki A til samræðisins er marklaust og hefur ekki þýðingu sökum aldurs hennar. Ákærði hefur játað brot sín hreinskilnislega og hann hefur greitt A bætur. Er þetta virt ákærða til refsilækkunar, sbr. 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði. Eins og rakið var hefur ákærði gert það sem í hans valdi stendur til að bæta fyrir brot sín. Hann hefur gert sátt við A og greitt henni bætur. Þá hefur hann leitað sér aðstoðar til að vinna bug á þeirri fíkn sinni sem telja verður að hafi leitt til þeirrar háttsemi sem hann er sakfelldur fyrir. Þrátt fyrir það sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins að ekki sé fært að skilorðsbinda refsivist ákærða nema að hluta. Helgast það einkum af saknæmi brotsins í 2. tl. ákærunnar. Er samkvæmt þessu rétt að fresta fullnustu 12 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.

                Ákærði greiði 15.000 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

                Ákærði greiði Daða Ólasyni héraðsdómslögmanni 124.500 krónur í réttargæsluþóknun, en hann var skipaður réttargæslumaður A á rannsóknarstigi málsins.

                Ákærði greiði Oddgeiri Einarssyni héraðsdómslögmanni 622.500 krónur í málsvarnarlaun vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og undir dómsmeðferð. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Kolbrún Benediktsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Guðmundur Magnússon, sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsivistarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 15.000 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði Daða Ólasyni héraðsdómslögmanni 124.500 krónur í réttargæslu­þóknun.

Ákærði greiði Oddgeiri Einarssyni héraðsdómslögmanni 622.500 krónur í málsvarnarlaun.