Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/2010
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Varanleg örorka
- Þjáningarbætur
- Almannatryggingar
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 19. apríl 2011. |
|
Nr. 508/2010. |
Jóna Magnúsdóttir og Vörður tryggingar hf. (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Jóni Óskari Júlíussyni (Ólafur Örn Svansson hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka. Þjáningabætur. Almannatryggingar. Gjafsókn.
JÓ var farþegi í bifreið sem lenti í árekstri 16. janúar 2004 og hlaut líkamstjón af. Í málinu krafðist hann skaðabóta úr hendi JM, skráðs eiganda bifreiðar sem olli árekstrinum, og V hf., ábyrgðartryggjanda bifreiðarinnar. Deila aðila laut að bótum til handa JÓ fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningarbætur, bætur fyrir varanlega örorku og um frádrátt frá bótafjárhæðum vegna réttar JÓ til örorkubóta almannatrygginga og lífeyris frá lífeyrissjóðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Héraðsdómur vísaði til þess að JÓ hefði þegar verið 100% óvinnufær er slysið varð og að hann hefði ekki sýnt fram á tekjutap vegna slyssins. Var kröfu hans um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón því hafnað og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms. JÓ hafði orðið fyrir öðru slysi skömmu áður en umrætt slys varð og höfðu yfirmatsmenn talið að lokadagur þjáningartímabils samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðbótalaga hefði verið sá hinn sami vegna beggja slysanna. Hæstiréttur taldi að slasaður maður gæti á sama tímabili ekki talist líða tvöfaldar þjáningar, þó hann hefði orðið fyrir tveimur slysum, og hafnaði því að JÓ ætti rétt umkrafinna þjáningabóta. Hann ætti þó rétt til slíkra bóta þann tíma sem hann var rúmliggjandi og þá að frádregnum þeim bótum fyrir þá draga sem hann ætti rétt til eftir fyrra slysið. Fallist var á kröfu JÓ um bætur vegna varanlegan örorku, sem tók mið af tekjum hans þrjú síðustu árin fyrir slys sem hann varð fyrir í maí 2003, ásamt 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Þá segir meðal annars í dómi Hæstaréttar um frádrátt frá bótafjárhæðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, að óhjákvæmilegt væri að skýra lagaákvæðið þannig að draga beri frá tjónsfjárhæð þann hluta bóta frá þeim aðilum, sem lagaákvæðið greinir, sem talin væru eiga rót að rekja til þess slyss sem bóta væri krafist fyrir, þó að svo stæði á að slysið myndi ekki eitt og sér hafa leitt af sér bótarétt á hendur þeim. Samkvæmt matsgerð dómkvadds manns, sem lögð var fram í héraði áður en málið dómtekið, leiddi þetta til þess að JM og V hf. hefði með óumdeildum greiðslum V hf. til handa JÓ lokið að fullu greiðslu á kröfu hans. Voru JM og V hf. því sýknuð af kröfu JÓ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2010. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara lækkunar á henni. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 3. nóvember 2010. Hann krefst þess að aðallega að aðaláfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 17.562.528 krónur með 4,5% ársvöxtum, af 4.376.546 krónum frá 16. janúar 2004 til 1. október sama ár, en af 17.562.528 krónum frá þeim degi til 28. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum nánar tilgreindum innborgunum aðaláfrýjandans Varðar trygginga hf. samtals að fjárhæð 9.400.000 krónur. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi aðaláfrýjenda, án tillits til gjafsóknar sem gagnáfrýjanda hefur verið veitt.
Við uppkvaðningu héraðsdóms var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
I
Í málinu deila aðilar um bætur gagnáfrýjanda til handa vegna umferðarslyss 16. janúar 2004, þar sem hann var farþegi í bifreið sem lenti í árekstri á Kringlumýrarbraut í Reykjavík. Aðaláfrýjandinn Jóna var skráður eigandi bifreiðarinnar sem talin var hafa valdið árekstrinum og aðaláfrýjandinn Vörður tryggingar hf. ábyrgðartryggjandi hennar. Gagnáfrýjandi slasaðist við áreksturinn og er ekki deilt um óskerta bótaskyldu aðaláfrýjenda gagnvart honum. Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um bætur til handa gagnáfrýjanda fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur, bætur fyrir varanlega örorku og um frádrátt frá bótafjárhæðum vegna réttar gagnáfrýjanda til örorkubóta almannatrygginga og lífeyris frá lífeyrissjóðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eru sjónarmið aðila um þessi atriði rakin í hinum áfrýjaða dómi.
II
Við aðalflutning málsins í héraði 18. maí 2010 lögðu aðaláfrýjendur fram matsgerð sem þeir höfðu aflað við rekstur þess. Var þar óskað mats á því í fyrsta lagi hvort afleiðingar umferðarslyssins 16. janúar 2004, sem fjallað er um í þessu máli, hafi haft áhrif á að hann hafi verið metinn til örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins og hjá Lífeyrissjóði sjómanna, Lífeyrissjóði verslunarmanna og Lífeyrissjóði Norðurlands. Ef svarið við þessari spurningu yrði játandi var í öðru lagi óskað eftir að matsmaður mæti „hversu mikið (hlutfallslega) afleiðingar þessa slyss vegi í örorku sem ákvörðuð hefur verið af hálfu ofangreindra aðila ...“ Til þessa mats hafði verið kvaddur Halldór Baldursson læknir. Í matsgerð 4. nóvember 2009 svaraði hann fyrri spurningunni játandi og taldi „að afleiðingar umferðarslyss 16.01.2004 vegi að hálfu (jafnt) á móti afleiðingum meints sjóvinnuslyss 18.05.2003 í örorku sem ákvörðuð hefur verið af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins, Lífeyrissjóðs sjómanna, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Lífeyrissjóðs Norðurlands, en önnur slys, sjúkdómar og fötlun eigi þar engan hlut í.“ Við fyrirtöku málsins 16. desember 2009 hafði verið fært til bókar að lögmaður gagnáfrýjanda áskildi „sér rétt til að hafa uppi athugasemdir við matsgerð Halldórs Baldurssonar.“ Síðan var bókað að lögmenn lýstu skjallegri gagnaöflun lokið, þó að matsgerðin, sem sýnilega lá fyrir og til stóð að leggja fram, hefði ekki verið lögð fram með formlegum hætti á dómþinginu. Við aðalflutninginn 18. maí 2010 lagði gagnáfrýjandi fram ýmis gögn. Meðal þeirra voru gögn með upplýsingum frá fyrrgreindum lífeyrissjóðum um að lífeyrisgreiðslur þeirra hefðu lækkað vegna tjóns sem þeir hefðu orðið fyrir við efnahagsleg áföll á Íslandi í október 2008. Þá lagði gagnáfrýjandi einnig fram bréf Sjúkratrygginga Íslands 15. janúar 2010, þar sem honum var tilkynnt að ekki yrðu að svo stöddu greiddar frekari bætur úr slysatryggingu almannatrygginga vegna vinnuslyss gagnáfrýjanda 18. maí 2003. Var í bréfinu vísað til þess að í héraðsdómi 14. desember 2009, þar sem deilt var um bætur til gagnáfrýjanda vegna þess slyss, hefði niðurstaðan orðið sú að ekki hefði verið sýnt fram á að gagnáfrýjandi hefði orðið fyrir slysi umrætt sinn.
Af framansögðu verður ráðið að málsaðilar hafi samþykkt framlagningu umræddra skjala við aðalflutninginn, þrátt fyrir yfirlýsinguna 16. desember 2009 og dómari samþykkt hana. Verður talið að þetta hafi verið heimilt, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um að sýkna aðaláfrýjendur af kröfu gagnáfrýjanda vegna tímabundins atvinnutjóns staðfest.
Samkvæmt matsgerð yfirmatsmanna, sem grein er gerð fyrir í héraðsdómi, töldu þeir þjáningatímabil samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga vegna vinnuslyssins 18. maí 2003 hafa staðið frá slysdegi til 1. október 2004. Vegna slyssins 16. janúar 2004, sem hér er til umfjöllunar, töldu þeir þjáningatímabil hafa staðið frá slysdegi til 1. október 2004 eða sama lokadags og vegna fyrra slyssins. Töldu þeir gagnáfrýjanda hafa verið rúmliggjandi í 17 daga eftir síðara slysið. Ekki verður talið að slasaður maður geti á sama tímabili talist líða tvöfaldar þjáningar í skilningi 3. gr. skaðabótalaga, þó að hann hafi orðið fyrir tveimur slysum. Verður, eins og hér stendur á, miðað við að þjáningatímabil vegna fyrra slyssins hafi staðið yfir þegar gagnáfrýjandi varð fyrir slysinu 16. janúar 2004 og staðið allt til 1. október sama ár. Af þessu leiðir að gagnáfrýjandi getur ekki krafist þjáningabóta fyrir þetta tímabil í þessu máli. Hann á þó rétt til slíkra bóta þann tíma sem hann var rúmliggjandi og þá að frádregnum þeim bótum fyrir þá daga sem hann á rétt til eftir fyrra slysið. Voru það samkvæmt yfirmatinu 17 dagar. Mismunur hvern dag nemur 950 krónum og verður því fallist á kröfu þessa með 16.150 krónum.
Vegna slyssins 16. janúar 2004 nam varanleg starfsorkuskerðing gagnáfrýjanda samkvæmt yfirmatsgerð 25 hundraðshlutum starfsorku hans, sbr. 3. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Af matsgerðinni er ljóst að þessi hundraðshluti er miðaður við starfsorku gagnáfrýjanda eins og hún var áður en hann varð fyrir slysinu 18. maí 2003. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um tjón gagnáfrýjanda vegna varanlegrar örorku. Á þó eftir að athuga hvort hann verði að sæta lækkun bóta vegna réttar til örorkubóta almannatrygginga og úr lífeyrissjóðum vegna ákvæða í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
IV
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir í málinu útreikningur Talnakönnunar hf. 20. október 2006 á eingreiðsluverðmæti þeirra bóta sem gagnáfrýjandi hefur öðlast rétt til frá almannatryggingum og þremur lífeyrissjóðum. Er eingreiðsluverðmætið miðað við 1. október 2004 eða þann dag sem yfirmatsmenn töldu heilsufar gagnáfrýjanda eftir slysin tvö orðið stöðugt. Þar er eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris almannatrygginga talið nema 8.103.000 krónum en eingreiðsluverðmæti bóta frá þeim þremur lífeyrissjóðum, þar sem gagnáfrýjandi nýtur réttar, 39.086.000 krónum. Eftir að þessar fjárhæðir hafa sætt lækkun samkvæmt reglum í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga ætti að draga frá skaðabótakröfu gagnáfrýjanda 21.063.410 krónur ef allt væri talið. Aðaláfrýjendur hafa byggt á því að fyrir liggi matsgerð dómkvadds manns um að helming þeirrar örorku gagnáfrýjanda, sem þessi bótaréttur byggist á, megi rekja til slyssins 16. janúar 2004. Byggja þeir á því fyrir Hæstarétti að draga beri helming nefndrar fjárhæðar frá skaðabótakröfu hans eða 10.531.705 krónur. Verði á þetta fallist sé ljóst að greiðslur aðaláfrýjandans Varðar trygginga hf., samtals 9.400.000 krónur, sem tíundaðar séu í dómkröfu gagnáfrýjanda, hafi gert meira en að greiða óbætt tjón gagnáfrýjanda.
Í hinum áfrýjaða dómi var því hafnað að „allur réttur [gagnáfrýjanda] til bóta hjá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum komi til frádráttar bótum vegna slyssins 16. janúar 2004.“ Þá var sagt að ekkert lægi fyrir um það hvaða rétt gagnáfrýjandi kynni að hafa öðlast vegna þess slyss eða hvort hann hefði notið greiðslna frá þessum aðilum í tengslum við umrætt slys. Var því af þessum ástæðum hafnað að krafa gagnáfrýjanda sætti lækkun af þessum sökum.
Samkvæmt matsgerð Halldórs Baldurssonar læknis 4. nóvember 2009, sem grein var gerð fyrir í II kafla að framan, og lögð var fram í héraði áður en málið var þar tekið til dóms, átti örorkan sem leiddi til bótaréttar gagnáfrýjanda hjá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðunum þremur, að helmingi rót sína að rekja til umferðarslyssins 16. janúar 2004. Þessari matsgerð hefur ekki verið hnekkt og verður hún lögð til grundvallar við mat á þessu. Eingreiðsluverðmæti bóta frá þessum aðilum samkvæmt útreikningi Talnakönnunar hf., sem fyrr var getið, miðaðist við þær forsendur um bótarétt og bótafjárhæðir frá þessum aðilum sem giltu 1. október 2004, en þann dag var heilsufar gagnáfrýjanda samkvæmt yfirmatsgerð talið vera orðið stöðugt, þannig að upphaf varanlegrar örorku hans miðast við þennan dag samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Verður talið að tilfallandi breytingar eftir það til hækkunar eða lækkunar á nefndum bótarétti skipti ekki máli við beitingu á frádráttarreglu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Óhjákvæmilegt er að skýra síðast nefnt lagaákvæði þannig að draga beri frá tjónsfjárhæð þann hluta bóta frá þeim aðilum, sem lagaákvæðið greinir, sem talinn er eiga rót að rekja til þess slyss sem bóta er krafist fyrir, þó að svo standi á að slysið myndi ekki eitt og sér hafa leitt til bótaréttar á hendur þeim. Ekki verður séð að sú afstaða Sjúkratrygginga Íslands 15. janúar 2010 að greiða gagnáfrýjanda ekki að svo stöddu frekari bætur úr slysatryggingu almannatrygginga vegna vinnuslyss hans 18. maí 2003 skipti hér máli enda kom réttur hans til þeirra bóta ekki við sögu í útreikningi Talnakönnunar hf. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður fallist á með aðaláfrýjendum að draga beri frá kröfu gagnáfrýjanda 10.531.705 krónur miðað við 1. október 2004. Þetta leiðir til þess að aðaláfrýjendur hafa með þeim óumdeildu greiðslum aðaláfrýjandans Varðar trygginga hf. að fjárhæð 9.400.000 krónur, sem greinir í dómkröfu gagnáfrýjanda, lokið að fullu greiðslu á kröfu hans. Verða þeir því sýknaðir af henni.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn falla niður.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, Jóna Magnúsdóttir og Vörður tryggingar hf., eru sýknir af kröfu gagnáfrýjanda, Jóns Óskars Júlíussonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí sl., er höfðað 4. desember 2008.
Stefnandi er Jón Óskar Júlíusson, Sléttuvegi 7, 107 Reykjavík.
Stefndu eru Jóna Magnúsdóttir, Hegranesi 5, Garðabæ og Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að greiða honum óskipt 17.562.528 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 4.376.546 krónum frá 16. janúar 2004 til 1. október 2004, en af 17.562.528 krónum frá þeim degi til 28. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda, Varðar trygginga hf., til stefnanda, að fjárhæð 2.500.000 krónur hinn 1. nóvember 2005, 2.000.000 króna hinn 14. september 2006, 3.000.000 króna hinn 28. september 2006, 500.000 krónur hinn 4. október 2006, 250.000 krónur hinn 11. desember 2006, 1.000.000 króna hinn 9. febrúar 2007 og 150.000 krónur hinn 26. júlí 2007.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þau verði sýknuð í máli þessu og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, dráttarvextir einungis dæmdir frá þingfestingardegi og málskostnaður látinn niður falla.
Málavextir
Helstu málsatvik eru þau að stefnandi var, hinn 16. janúar 2004, farþegi í bifreiðinni Porsche Cayenne, fastnúmer YH-670, sem ekið var á innstu akrein til suðurs Kringlumýrarbraut í Reykjavík, en Kringlumýrarbraut er á umræddum kafla þriggja akreina. Skyndilega var Chrysler-bifreið í eigu stefndu, Jónu Magnúsdóttur á leið í sömu akstursstefnu og Porsche-bifreiðin, en á akreininni til hliðar, ekið í veg fyrir Porsche-bifreiðina. Ökumaður Porsche-bifreiðarinnar brást þannig við að hemla ökutæki sínu og reyna að stýra því til vinstri til að komast upp á eyju sem skildi akstursáttir að, en þar sem yfirborð vegarkaflans var ísi lagt náði hann ekki að afstýra árekstri og skall ökutækið aftan á ökutæki stefndu, Jónu. Verulegt eignatjón varð af völdum þessa áreksturs en einnig líkamstjón, þ.á m. slasaðist stefnandi í árekstrinum.
Ábyrgðartryggjandi ökutækis stefndu Jónu er stefndi, Vörður tryggingar hf. Óumdeilt er að stefndu beri fébótaábyrgð á tjóni stefnanda. Stefndi, Vörður tryggingar hf., hefur þegar greitt stefnanda 9.400.000 krónur vegna tjóns er hann varð fyrir í árekstrinum. Byggja stefndu á því í málinu að stefnandi hafi með þeirri greiðslu fengið tjón sitt bætt að fullu.
Með matsbeiðni, sem tekin var fyrir á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2005, óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu tveggja matsmanna til þess að meta líkamstjón sitt. Segir í matsgerðinni að í matsbeiðni, dags. 6. apríl 2005, komi fram að stefnandi hafi lent í þremur slysum á tímabilinu 18. maí 2003 til 3. febrúar 2004. Þann 18. maí 2003 hafi matsbeiðandi orðið fyrir vinnuslysi um borð í Klakki SH-510 sem var við veiðar með flotvörpu. Hafi belgurinn slegist í stefnanda með þeim afleiðingum að hann féll á þilfarið og hlaut við það áverka á baki. Hafi stefnandi verið til meðferðar hjá fjölda lækna í kjölfar slyssins. Matsþolar vegna slyssins 18. maí 2003 séu FISK Seafood hf. og Vátryggingafélag Íslands. Þá er fjallað um ofangreint bílslys sem varð 16. janúar 2004. Þriðja slysið varð 3. febrúar 2004 en þá mun stefnandi hafa lent í árekstri við Höfðabakka í Reykjavík. Matsþoli vegna þess slyss sé Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
Til þess að meta afleiðingar þessara slysa voru dómkvaddir þeir Guðjón Baldursson læknir á Slysa- og bráðadeild LSH í Fossvogi og Guðmundur Sigurðsson lögfræðingur og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Matsmenn telja að frá og með 23. júní 2004 hafi heilsufar stefnanda verið orðið stöðugt með tilliti til þessara þriggja slysa.
Um slysið 16. janúar 2004 segir að tímabil tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga teljist frá slysdegi til 23. júní 2004. Matsmenn telja hins vegar að matsbeiðandi hafi ekki orðið fyrir launatapi vegna slyssins. Matsmenn telja að stefnandi eigi rétt á þjáningabótum frá slysdegi til 23. apríl 2004. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga er metinn 7% en varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga er metin 10%.
Stefnandi undi ekki þessu mati og að hans beiðni voru dómkvaddir þrír yfirmatsmenn til þess að meta líkamstjón hans, þeir Atli Ólason bæklunarskurðlæknir, Kristinn Tómasson, geð- og embættislæknir, og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Yfirmatsmenn telja afleiðingar slyssins 3. febrúar 2004 hafa valdið lítilli viðbót einkenna og telja það ekki hafa þýðingu í þessu sambandi.
Í niðurstöðum yfirmatsmanna segir síðan:
„Varanlegur miski Jóns Óskars sem rakinn verður til vinnuslyssins 18. maí 2003 telst hæfilega metinn 25 stig. Varanlegur miski hans sem rakinn verður til slyssins 16. janúar 2004 er hæfilega metinn 15 stig, þ.e. samtals 40 stig.
Varanleg örorka sem rakin verður til slyssins 18. maí 2003 telst 40 stig og 25 stig vegna slyssins 16. janúar, þ.e. samtals 65 stig.
Batahvörf (stöðugleikapunktur) vegna slysanna 18. maí og 16. janúar eru 1. október 2004.
Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 18. maí 2003 er ákveðið 100% frá slysdegi til 1. október 2004. Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 16. janúar 2004 telst 100% frá slysdegi til 1. október 2004.
Þjáningabætur vegna slyssins 18. maí ákveðast frá slysdegi 1. október 2004 þar af rúmliggjandi í 19 daga. Þjáningabætur vegna slyssins 16. janúar ákveðast frá slysdegi til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 17 daga.“
Að framkominni matsgerð yfirmatsmanna freistuðu málsaðilar að ná samkomulagi um uppgjör en það náðist ekki. Gerð var grein fyrir sjónarmiðum stefnanda með bréfi dagsettu 13. september 2007 en við því var efnislega brugðist af hálfu stefndu þann 29. febrúar 2008 þar sem frekari bótakröfum var hafnað. Óumdeilt er að stefndi, Vörður tryggingar hf., hefur greitt stefnanda vegna beggja stefndu 9.400.000 krónur. Byggja stefndu á því að þar með sé tjón stefnanda fullbætt.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveður bóta- og greiðsluskyldu stefndu gagnvart stefnanda reista á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Bótaskyldu stefndu megi rekja til umferðarslyssins 16. janúar 2004 og sé bótaskylda óumdeild. Hins vegar sé deilt um fjárhæðir fébótakröfu stefnanda.
Skaðabótakrafa stefnanda sé reiknuð út á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi krefjist skaðabóta vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningarbóta, skaðabóta vegna varanlegs miska og vegna varanlegrar örorku. Umfang tjónsins sé reist á matsgerð yfirmatsmanna frá 10. ágúst 2006.
Tekið skuli fram að sjónarmiðum stefnda, Varðar trygginga hf., um skaðabótakröfu stefnanda, sem fram komi í bréfi félagsins, dags. 29. febrúar 2008, sé alfarið hafnað, enda fari þau í bága við fyrirliggjandi yfirmatsgerð, sem ekki hafi verið hnekkt, og réttarreglur skaðabótaréttarins, sbr. m.a. skýr ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 um fjárhæðir skaðabóta.
Skaðabótakrafa stefnanda sundurliðast svo:
Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga
Samkvæmt fyrirliggjandi yfirmatsgerð hafi tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins 16. janúar 2004 verið 100% frá slysdegi til stöðugleikapunkts, 1. október 2004. Í samræmi við það geri stefnandi kröfu til skaðabóta vegna tímabundins atvinnutjóns sem miðist við staðgengilslaun frá slysdegi til 1. október 2004.
Samkvæmt gögnum frá vinnuveitanda stefnanda, FISK Seafood hf., dags. 5. og 10. nóvember 2004, hafi staðgengilslaun bátsmanns á framangreindu tímabili verið 3.789.878 krónur án orlofs. Að viðbættu 10,17% orlofi, 385.421 krónu, hefðu tekjur hans alls numið á þessu tímabili 4.175.299 krónum.
Frá þessari fjárhæð dragist, sbr. 2. mgr. 2. gr. 60% greiðslna frá lífeyrissjóðum á þessu tímabili með svofelldum hætti:
|
Lífeyrissjóður sjómanna (1.430.073 x 0,6) : |
- 858.044 kr. |
|
Lífeyrissjóður Norðurlands (242.573 x 0,6) : |
- 145.544 kr. |
|
Lífeyrissjóður verslunarmanna (101.183 x 0,6): |
- 60.710 kr. |
Krafa stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns nemi því 3.111.001 krónu.
Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga
Samkvæmt yfirmatsgerð ákvarðist þjáningabætur frá slysdegi 16. janúar 2004 til stöðugleikapunkts, 1. október 2004 eða alls í 267 daga. Litið sé svo á að þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 17 daga.
Tjónið reiknist á verðlagi í september 2006, þegar bótakrafa stefnanda var sett fram, miðað við lánskjaravísitölu þess mánaðar 5213 stig, þ.e. 700 krónur x 5213/3282 = 1.112 krónur. Lækki hún svo í 1.110 krónur fyrir hvern dag samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi í 250 daga þannig að krafa hans samkvæmt þessum lið sé 1.110 x 250 = 277.500 krónur.
Samkvæmt yfirmatsgerðinni hafi stefnandi, eins og áður segi, verið rúmliggjandi í 17 daga. Þjáningabætur fyrir hvern dag reiknist miðað við sömu breytingar á lánskjaravísitölu 1.300 krónur x 5213/3282 = 2.064,87 krónur sem lækki samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga í 2.060 krónur. Krafa hans samkvæmt þessum lið sé því 2.060,- x 17 = 35.020 krónur.
Krafa stefnanda um þjáningarbætur nemi þá alls 277.500 + 35.020 krónum = 312.520 krónur.
Bætur vegna varanlegs miska
Samkvæmt yfirmatsgerð hafi varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 16. janúar 2004 verið metinn 15 stig. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 reiknist skaðabætur til hans svo: 4.000.000 kr. x 5213/3282 = 6.353.443, og hækki í 6.353.500 samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga. Krafa stefnanda vegna varanlegs miska sé því 6.353.500 x 0,15 = 953.025 krónur.
Bætur vegna varanlegrar örorku
Samkvæmt fyrirliggjandi yfirmatsgerð, dags. 10. ágúst 2006, sé varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins 16. janúar 2004 25 stig.
Bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku reiknist út á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga, og fari um árslaunaviðmið eftir meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna, þ.e. lagðar séu til grundvallar meðalatvinnutekjur stefnanda að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaksár fyrir þann dag er tjón varð leiðrétt samkvæmt launavísitölu til stöðugleikpunkts. Nánar tiltekið reiknist árslaunaviðmiðið út með svofelldum hætti:
|
Ár 2001: 2.318.671 x 1,07 x 253,2/211,3 |
= 2.972.946 |
|
Ár 2002: 4.423.773 x 1,07 x 253,2/226,4 |
= 5.293.756 |
|
Ár 2003: 3.707.431 x 1,07 x 253,2/239,1 |
= 4.200.887 |
|
|
|
|
Meðaltal 2001-2003 |
= 4.155.863 kr. |
Í framangreindum útreikningum hafi meðallaunavísitala hvers árs (2001-2003) verið lögð til grundvallar og fjárhæðir hækkaðar miðað við launavísitölu á stöðugleikapunkti, þ.e. 1. október 2004. Þá sé jafnframt gert ráð fyrir hækkun um 7% vegna mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
Stefnandi hafi verið 30 ára og 200 daga við upphaf varanlegrar örorku. Margfeldisstuðull 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé því 12,692. Krafa stefnanda reiknast þá þannig:
4.155.683 x 12,692 x 0,25 = 13.185.982 krónur.
Stefnandi hafi ekki hlotið neinar greiðslur frá almannatryggingum sem rekja megi til þessa slyss eins, þ.e. sem varð 16. janúar 2004, enda veiti lægri örorka en 50% ekki rétt til örorkulífeyris eða örorkustyrks samkvæmt almannatryggingalögum. Þá eigi stefnandi af sömu ástæðum ekki rétt til greiðslna úr lífeyrissjóðum til framtíðar vegna þessa slyss eins. Komi slíkar greiðslur, frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum, sem stefnandi hljóti nú vegna samanlagðra afleiðinga slysanna 16. janúar 2004, vinnuslyssins 18. maí 2003, og annarra slysa/atvika þ.á m. umferðarslyss 25. október 1993, því ekki til frádráttar í þessu máli, sbr. dóm Hæstaréttar frá 6. apríl 2006 í máli nr. 471/2005, enda verði, samkvæmt þeim dómi, að skoða sjálfstætt hvert slys og réttaráhrif þess að því er greiðslur varðar.
Samantekt kröfuliða stefnanda
|
Tímabundið atvinnutjón |
3.111.001 kr. |
|
Þjáningarbætur |
312.520 kr. |
|
Varanlegur miski |
953.025 kr. |
|
Varanleg örorka |
13.185.982 kr. |
|
Höfuðstóll alls |
17.562.528 kr. |
Vaxtakrafa stefnanda styðjist við 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga en samkvæmt því ákvæði skuli bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og tímabundið atvinnutjón bera 4,5% vexti frá því að slys varð, þ.e. 16. janúar 2004. Bætur fyrir varanlega örorku skuli bera 4,5% vexti frá stöðugleikapunkti, sem hafi verið 1. október 2004.
Þess sé krafist að öll kröfufjárhæðin beri dráttarvexti frá 28. október 2006 en á þeim degi hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi lagði sannanlega fram allar þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Hafi það verið gert með kröfubréfi, dags. 28. september 2006.
Greiðslur frá stefnda, Verði tryggingum hf., til stefnanda komi til frádráttar dómkröfu stefnanda miðað við þann dag sem þær voru inntar af hendi. Umræddar fjárhæðir séu:
|
1.11.2005 |
2.500.000 kr. |
|
14.9.2006 |
2.000.000 kr. |
|
28.9.2006 |
3.000.000 kr. |
|
4.10.2006 |
500.000 kr. |
|
11.12.2006 |
250.000 kr. |
|
9.2.2007 |
1.000.000 kr. |
|
26.7.2007 |
150.000 kr. |
Loks krefjist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi hafi fengið útgefið gjafsóknarleyfi vegna málareksturs þessa hinn 17. apríl 2008.
Um lagagrundvöll fébótakröfu stefnanda á hendur stefndu vísist til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Um fjárhæðir skaðabóta sé vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, og um vexti til þeirra laga og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefndu og lagarök
Sýknukrafa stefndu byggist á því að sá hluti bótakröfu stefnanda sem lúti að tímabundnu tjóni sé ósannaður og vanreifaður. Krafan sé of há eigi hún rétt á sér. Krafa um þjáningarbætur sé vanreifuð og án lagastoðar. Krafa um varanlega örorku sé of hátt reiknuð og í ósamræmi við málavöxtu. Þá sé ekki tekið tillit til lögákveðins frádráttar greiðslna frá lífeyrissjóði og úr almannatryggingum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Þess skuli getið að lagt sé til grundvallar að við það skuli miðað að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt 1. október 2004.
Skuli nú nánar vikið að málsástæðum stefndu er lúti að hverjum kröfulið fyrir sig.
Aðildarskortur að kröfu um tímabundið tjón, tjónið ósannað og of hátt reiknað, vantar frádrátt
Af hálfu stefndu sé á því byggt að krafa stefnanda um tímabundið tjón úr hendi stefndu tímabilið 16. janúar 2004 til 1. október 2004 sé ósönnuð og eigi ekki við rök að styðjast. Af hálfu stefndu sé á því byggt að óumdeilt sé og upplýst að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna áverka sem hann varð fyrir í vinnu þegar hann lenti í slysi 16. janúar 2004. Fyrirliggjandi örorkumöt beri glöggt vitni þessarar staðreyndar og því eigi krafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið tjón vegna umferðarslyssins 16. janúar 2004 ekki rétt á sér.
Jafnframt liggi fyrir að stefnandi hafi beint fjárkröfu að Vátryggingafélagi Íslands hf. og fleirum vegna þessa sama tímabils metinnar óvinnufærni frá 16. janúar 2004 til 1. október 2004. Slík krafa sé meðal dómkrafna í máli nr. 2038/2008. Á því sé byggt af hálfu stefndu að stefnandi geti ekki átt lögvarinn rétt til þess að fá tvo aðfararhæfa dóma á hendur tveimur óskyldum aðilum reistum á tveimur ólíkum kröfuréttarsamböndum vegna sama tjónstímabilsins. Ef kröfur stefnanda í þessum efnum næðu fram að ganga í báðum málunum væri honum ekkert til fyrirstöðu að krefjast efnda á sitt hvorri dómskyldunni hjá sitt hvorum aðilanum og fá þannig í reynd tjón sitt tvíbætt. Áhorfsmál sé því hvort vísa beri kröfu þessari frá dómi eða sýkna stefndu að svo stöddu af henni.
Við þessar aðstæður hefði stefnanda verið rétt að beina fjárkröfu sinni vegna tímabundins tjóns að Vátryggingafélagi Íslands hf. ef um bótaskyldu þess félags á afleiðingum atviksins 18. maí 2004 væri að ræða. Verði niðurstaða dómstóla sú að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur því tryggingafélagi leysi það allt að einu ekki bótarétt úr hendi stefndu úr læðingi enda óvinnufærni stefnanda óumdeild fyrir slysið 16. janúar 2004 þó deilt kunni að vera um bótarétt vegna atviksins 18. maí 2003. Það væri hins vegar í fyrsta lagi þá sem stefnandi gæti beint slíkri kröfu að stefndu.
Stefndu eigi, með vísan til ofanritaðs, undir engum kringumstæðum aðild að þessum þætti málsins við svo búið og beri því að sýkna þau þegar af þeirri ástæðu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Réttmæti kröfu stefnanda til bóta fyrir tímabundið tjón stefnanda sé einnig ósannað enda algerlega ósannað að stefnandi hefði unnið sér inn atvinnutekjur 16. janúar 2004 og á mánuðunum þar á eftir og hann óvinnufær vegna atvikins 18. maí 2003. Hann eigi af þeim sökum ekki lögvarða kröfu til bóta fyrir atvinnutjón á þessu tímabili úr hendi stefndu enda hafi hann ekki orðið fyrir slíku tjóni vegna umferðarslyssins og skorti þannig á hugtaksskilyrði 2. gr. laga nr. 50/1993. Það sé stefnandi sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hefði orðið vinnufær á tímabilinu frá 16. janúar 2004 til 1. október ef umferðarslysið hefði ekki komið til en á því sé byggt af hálfu stefndu að engin rök séu til þess og flest læknisfræðileg gögn bendi til hins öndverða.
Jafnvel þó fallist væri á réttmæti þess að stefnandi beindi kröfu um tímabundið atvinnutjón að stefndu og líka fallist á að hann hefði sannað tjón þá sé á því byggt að það sé að fullu bætt með þeirri fjárhæð sem greidd hafi verið af hálfu stefndu. Að auki sé krafa stefnanda alltof há eins og grein sé gerð fyrir hér síðar í umfjöllun um varakröfu. Sú framsetning, hvað varðar fjárhæð dómkröfu stefnanda sem þar sé rakin, eigi fullt eins við til grundvallar því að tjón stefnanda sé fullbætt og því beri að sýkna stefndu. Dómkrafa stefnanda vegna tímabundins tjóns geti að mati stefndu í mesta lagi numið 934.296 krónum. Vísist til umfjöllunar um varakröfu fjárhæð þessari til rökstuðnings en þær málsástæður sem þar sé gerð grein fyrir eigi við sýknukröfu einnig.
Þjáningarbótakrafa án lagastoðar eða bætur þegar greiddar
Á því sé byggt af hálfu stefndu að það eigi ekki við lög að styðjast að greiða beri þjáningarbætur vegna tveggja slysa á sama tímabilinu, ef um slíkt sé að ræða. Niðurstaða yfirmatsmanna styðjist að þessu leyti ekki við lög og því geti stefnandi ekki átt réttmæta kröfu á hendur stefndu ef hann fái slíkar bætur dæmdar úr hendi Vátryggingafélags Íslands hf. vegna þess að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi 18. maí 2003. Sama tímabilið verði ekki tvíbætt með þjáningarbótum.
Kröfugerð um varanlega örorku stenst ekki
Stefnandi byggi kröfu sína um bætur fyrir óumdeilda 25% varanlega örorku á útreikningi sem taki mið af meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Sú forsenda standist ekki að mati stefndu, enda andstæð málavöxtum. Beri því að beita 2. mgr. 7. gr. laga nr. 5/1993.
Að mati stefndu standi tvennt í vegi kröfugerðar stefnanda. Það sé að mati stefndu óbrúklegt að miða við síðustu þrjú ár fyrir umferðarslysið, 2001, 2002 og 2003. Tekjur stefnanda árið 2003 séu ekki marktækar þar sem ekki sé nema að hluta til um atvinnutekjur að ræða en að öðru leyti til bótagreiðslur, sbr. framlagt skattframtal stefnanda fyrir árið 2004, enda hafi stefnandi forfallast frá vinnu 18. maí 2003. Sé því viðmiði þar með mótmælt sem röngu. Þá sé að mati stefndu rangt að miða við 7% vegna glataðra lífeyrisréttinda þar sem mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð hafi ekki hækkað í 7% fyrr en 1. janúar 2005, þremur mánuðum eftir metinn stöðugleikapunkt þann 1. október 2004. Miða beri því við þágildandi mótframlag 6%. Loks sé til þess að líta að tekjuöflunarhæfi stefnanda hafi skerst varanlega um 40% í maí 2003, en að mati stefndu sé einsýnt að taka verði tillit til þess þegar viðmiðunartekjur til uppgjörs umferðarslyssins séu afmarkaðar.
Sé nánar vikið að árslaunaviðmiði sé á því byggt af hálfu stefndu að nærtækara hefði verið að líta til tekna þrjú síðustu árin fyrir slysið 18. maí 2003, þ.e. tekjuárin 2000, 2001 og 2002. Samkvæmt framsetningu í undirmatsgerð hafi þær tekjur verið eftirfarandi ásamt framreikningi með hliðsjón af launavísitölu, sbr. 15. gr. laga nr. 50/1993.
2000 4.007.482 kr. framreiknað 253,2/194,15.227.689 kr.
20012.318.671 kr. framreiknað 253,2/211,32.778.454 kr.
20024.423.773 kr. framreiknað 253,2/226,44.947.435 kr.
Meðaltal þannig 12.953.578/3 = 4.317.859 kr.
Við bætist 6% lífeyrissjóðsframlag og því ættu viðmiðunarlaun að vera 4.576.930 krónur.
Á það beri hins vegar að líta að stefnandi miði í kröfugerð sinni við viðmiðunartekjur að fjárhæð 4.155.863 krónur. Þessi framsetningarmáti, að miða við of lágar viðmiðunartekjur, sé stefnanda að sjálfsögðu heimill, enda hafi stefnandi ráðstöfun þessa sakarefnis, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991. Verði þessi fjárhæð sem stefnandi byggi á því lögð til grundvallar.
Að nefndum launum afmörkuðum beri svo, að mati stefndu, að taka tillit til fyrirliggjandi skerðingar á aflahæfi stefnanda vegna eldra atviks sem skert hafi vinnugetu hans. Sé þar til 40% varanlegrar örorku vegna atburðarins 18. maí 2003 að líta. Svo séð verði hafi 7% varanleg örorka vegna umferðarslyss 1993, samkvæmt matsgerð, dags. 3. maí 2002, sem sagt sé frá í matsgerð yfirmatsmanna, ekki haft áhrif á tekjuöflunarhæfi stefnanda. Því sé af hálfu stefndu ekki gert ráð fyrir lækkun viðmiðunarlauna til framtíðar litið af þeim sökum. Vegna skerðingar á aflahæfi stefnanda sem hafi orðið 18. maí 2003 hafi hann hins vegar einungis getað vænst þess að afla sem nam 60% af þeim tekjum sem hann hefði að öðrum kosti getað unnið sér inn á starfsævi sinni. Á því sé byggt af hálfu stefndu að rétt tekjuviðmið í tilfelli stefnanda sé þannig 60% af 4.155.863 krónum eða 2.493.518 krónur.
Að mati stefndu beri því að reikna varanlega örorku stefnanda á eftirfarandi máta:
2.493.518 kr. x 12,692x0,25= 7.911.932.
Heildarkrafa greidd, frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.
Af hálfu stefndu sé byggt á því að stefnandi hafi átt lögvarinn rétt til bóta fyrir 15 stiga varanlegan miska að fjárhæð 953.025 krónur, reiknað á verðlagi september 2006, eins og stefnandi geri, bóta fyrir 25% varanlega örorku 7.911.932 krónur auk 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 og þóknunar fyrir störf lögmanns síns. Af hálfu stefndu hafi þegar verið greiddar 9.400.000 krónur og sé á því byggt að sú greiðsla feli í sér fullar bætur til stefnanda fyrir tjón hans. Stafi það af því að enn beri að líta til þess að stefnandi njóti greiðslna vegna örorku sinnar frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Afdráttarlaust sé að slíkar greiðslur beri að reikna til eingreiðsluverðmætis og draga frá að tveimur þriðju hlutum vegna bóta almannatrygginga og 40% vegna bóta frá lífeyrissjóði, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.
Fyrir liggi að stefnanda var metinn 15 stiga miski vegna umferðarslyssins og 25 stiga miski vegna afleiðinga atviksins sem varð 18. maí 2003. Tekið hafi verið fram í matsgerð undirmatsmanna að fyrir slysin hafi stefnandi almennt verið líkamlega og andlega hraustur. Yfirmatsmenn reki þau óhöpp og slys sem stefnandi hafi orðið fyrir og jafnað sig á, auk þess sem þeir nefni umferðarslys sem stefnandi varð fyrir 1993, en vegna þess hafi hann verið metinn til 7% miska árið 2002 og 7% varanlegrar örorku. Fyrir liggi þannig að þau tvö slys, og þá einkum atvikið 18. maí 2003, hafi leikið stefnanda það grátt að hann búi við svo bágt heilsufar sem raun beri vitni. Varanlegur miski vegna umferðarslyssins frá 1993 sé 7 stig, vinnuslyssins 25 stig og vegna umferðarslyssins 15 stig, samtals 47 stig. Óljóst sé hvaða áhrif umferðarslysið frá 1993 hafi á rétt stefnanda til bóta úr almannatryggingum og lífeyrissjóði en ef mark sé tekið á umfjöllun undirmatsmanna sýnist hlutur þess slyss vera hverfandi í þessum afleiðingum. Vátryggingafélag Íslands hf. hafi aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns á því hver hlutur heilsubrestsins 18. maí 2003 hafi verið. Sá matsmaður hafi komst að því að sá þáttur sé 50%. Að mati stefndu orki vart tvímælis að meirihluti þeirrar helmingshlutdeildar sem eftir standi stafi af afleiðingum umferðarslyssins 2004 miðað við umfjöllun matsmanna. Jafnvel þótt lagt væri til grundvallar að umferðarslysin tvö hefðu sömu þýðingu og miskastig segi til um, hvað varðar rétt til bóta úr almannatryggingum og lífeyrissjóði, myndi það þýða að 68% af þeim helmingsbótum sem eftir standi, að teknu tilliti til fyrirliggjandi mats, teldust afleiðingar umferðarslyssins 2004, eða sem nemi 34% af því hundraði og þá 32% af helmingnum vegna eldra umferðarslyssins, eða sem nemi 16% af því hundraði af heildarbótunum úr almannatryggingum og lífeyrissjóðum.
Ótvírætt sé samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 að draga beri frá greiðslur sem stefnandi fái eða kunni að fá frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum. Fjárhæð þessara greiðslna hafi verið reiknuð út af hálfu stefnanda, sbr. útreikning Talnakönnunar hf. í bréfi, dags. 20. október 2006. Greiðslur almannatrygginga nemi í heild 8.103.000 krónum að eingreiðsluverðmæti en beri að lækka vegna skattfrelsis í 5.402.270 krónur (67%) og úr lífeyrissjóðum geti stefnanda hlotnast 39.086.000 krónur en 40% af þeirri fjárhæð eigi að koma til frádráttar 15.634.400. Samtals nemi þessar fjárhæðir 21.036.670 krónum.
Ef unnt er að leggja áðurgreint hlutfall um skiptingu milli slysa til grundvallar sýnist einboðið að lækka beri bótakröfu stefnanda um 34% af 21.036.670 krónum eða um 7.152.468 krónur. Ótvírætt sé, að teknu tilliti til þess frádráttar, að ekkert standi eftir ógreitt. Greiðsla vegna stefndu að fjárhæð 9.400.000 krónur og frádráttur að fjárhæð 7.152.468 krónur, samtals 16.552.468 krónur, sé hærri en nemi lögvarinni heildarkröfu stefnanda.
Málsástæður stefndu fyrir varakröfu um lækkun byggi um flest á sömu forsendum og aðalkrafa. Ekki séu forsendur til bótagreiðslna til stefnanda umfram það sem þegar hafi verið greitt af stefndu. Í það minnsta ekki í þeim mæli sem krafist sé af hálfu stefnanda. Um einstaka liði kröfugerðarinnar vísist til þess sem þegar hafi verið sagt en byggt sé á sömu málsástæðum að breyttu breytanda að neðangreindu þó að auki.
Krafa um tímabundið tjón
Krafa stefnanda vegna tímabundins tjóns sé of hátt reiknuð.
Í fyrsta lagi liggi fyrir lögfull sönnun þess að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni sem stefndu beri ábyrgð á. Sérstaklega sé því mótmælt að stefndu beri ábyrgð á tímabundnu tekjutjóni vikuna 21. febrúar 2004 til 27. febrúar 2004. Þá viku hafi stefnandi setið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um refsiverða háttsemi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 310/2006. Stefnanda hafi verið ómögulegt að sinna vinnu þá viku þegar af þeirri ástæðu og hefði ekki átt lögvarinn rétt til launa úr hendi atvinnurekanda þá viku jafnvel þó hann hefði verið vinnufær. Bresti þannig grundvallarskilyrði fyrir fjárkröfu þá viku þegar af þeirri ástæðu.
Því sé jafnframt mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hefði sótt sjóinn svo stíft að ekki hefði nein veiðiferð fallið úr. Slík sjósókn sé nánast óþekkt auk þess sem slík framsetning sé í ósamræmi við fyrirliggjandi upplýsingar um sjósókn stefnanda sjálfs. Gerð sé grein fyrir þeirri sjósókn í samantekt undirmatsmanna í matsgerð. Ef unnt er að leggja þessa samantekt til grundvallar þá séu lögskráningardagar stefnanda á ári í öllum tilvikum færri heldur en heildar árlegir lögskráningardagar á viðkomandi skipum. Úr því hafi verið leyst af dómstólum að leggja beri raunverulega sjósókn til grundvallar í tilvikum sem þessum en ekki þann aflahlut sem starfinu fylgdi. Matsmennirnir geri ekki grein fyrir heildarfjölda lögskráningardaga árin 2003 og 2002 en á árinu 2001 hafi stefnandi róið 119 daga af 191 eða 63%. Á árinu 2000 hafi hann sótt sjóinn í 251 dag af 260 eða 97% en á árinu 1999 hafi lögskráningardagar hans verið 247 af 285 eða sem nam 87%. Meðaltal þessara þriggja ára nemi þannig 617/736 eða 84%. Á því sé byggt að jafnvel þó framsett fjárhæð stefnanda stæðist sem slík þá beri að lækka hana af þessari ástæðu og það styðjist við málefnaleg rök að miða við að meðaltals sjósókn stefnanda nemi nefndu hlutfalli, 84%. Heildarfjárkrafa stefnanda vegna tímabundinnar örorku sé reiknuð af stefnanda sem 4.175.299 krónur en ætti að vera 3.507.251 króna.
Frá þeirri fjárhæð, 3.507.251 krónu, beri að draga greiðslur frá lífeyrissjóðum eins og gerð sé grein fyrir í stefnu, samtals 1.064.298 krónur. Þá liggi fyrir upplýsingar í matsgerð undirmatsmanna að stefnandi hafi fengið greiddar 483.553 krónur úr almannatryggingum og 357.750 krónur frá stéttarfélaginu Öldunni. Þessar fjárhæðir beri einnig að draga frá að fullu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Þannig beri að lækka heildarfjárkröfuna vegna þessa: 3.507.251-1.064.298-357.750-483.553=1.601.650 krónur.
Þá sé loks til þess að líta að áður en stefnandi varð fyrir umferðarslysinu 16. janúar 2004 hafi hann í tvígang orðið fyrir slysum sem leitt hafi til varanlegrar örorku. Samtals sé sú örorka metin 47%. Dómstólar hafa fyrr leyst úr því að lækka beri bætur vegna tímabundinnar örorku um metna varanlega örorku enda órökrétt að ætla stefndu að bæta tjón sem eigi sér ekki forsendu í raunveruleikanum. Fyrrgreinda tilvikið, slysið 1993, virðist ekki hafa haft áhrif á vinnugetu stefnanda síðustu árin fyrir tilvikið, sem varð 18. maí 2003, og því séu ekki forsendur til lækkunar af þeirri ástæðu, en augljóst sé að atvikið 18. maí 2003 hafi haft miklar afleiðingar fyrir vinnugetu stefnanda og því full rök til að taka tillit til þess og lækka kröfu hans sem því nemi. Lögvarin krafa stefnanda vegna þessa liðar sé þannig í hæsta lagi 1.601.650x0,60=960-990 krónur. Þá sé enn eftir að draga frá gæsluvarðhaldsvikuna. Vikufjöldi frá 16. janúar til 1. október 2004 sé 36. Því beri að lækka kröfu vegna tímabundins tjóns um 1/36 eða í 934.296 krónur.
Krafa um varanlega örorku
Að mati stefndu sé ljóst, með vísan til málsástæðna og framsetningar í aðalkröfu hvað varanlega örorku snertir, að jafnvel þó talið yrði að lækkun dómkröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku nægði ekki til sýknu liggi fyrir, ómótmælanlegt af hálfu stefnanda, að krafa hans sé of hátt reiknuð. Hana beri að lækka með vísan til áður tilgreindra raka.
Dráttarvaxtakröfu mótmælt
Því sé mótmælt að stefnanda sé unnt að krefja um dráttarvexti frá fyrri tímapunkti en þingfestingardegi í það fyrsta. Með vísan til málatilbúnaðar stefndu, sem þegar hafi verið rakinn, sé einboðið að margvísleg gögn skorti svo unnt sé að taka afstöðu til réttmætis kröfugerðar stefnanda. Um það beri neðangreindar áskoranir um gagnaframlagningu glöggt vitni. Stefndu verði að sjálfsögðu ekki krafin um dráttarvexti á sama tíma og gögn skorti til að taka afstöðu til kröfugerðarinnar. Þá sé og til þess að líta að stefnandi hafi ekkert hafst að frá því að stefndu settu fram bótatillögu sína 21. febrúar 2007 fyrr en 24. september 2007, en því bréfi hafi ekki fylgt nein gögn, einungis reifuð sjónarmið stefnanda og fjárkrafa hans sett fram að hluta.
Niðurstaða
Ekki er ágreiningur með aðilum um ábyrgð á umferðarslysi því sem stefnandi varð fyrir þann 16. janúar 2004 og greiðsluskyldu vegna þessa. Á því er á hinn bóginn byggt af hálfu stefndu að stefnanda hafi þegar verið greiddar hærri bætur en nemur lögvarinni kröfu hans samkvæmt lögum nr. 50/1993.
Stefnandi reisir kröfur sínar á framlagðri yfirmatsgerð. Krefst hann bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabóta, bóta vegna varanlegs miska og bóta vegna varanlegrar örorku.
Samkvæmt yfirmatsgerð var tímabundið atvinnutjón stefnanda ákveðið 100% frá slysdegi til 1. október 2004. Byggt er á gögnum frá vinnuveitanda stefnanda um staðgengilslaun bátsmanns á þessu tímabili. Nemur krafa hans vegna þessa 3.111.001 krónu.
Samkvæmt yfirmatsgerð var stefnandi 100% óvinnufær vegna slyssins 18. maí 2003 til 1. október 2004. Stefnandi var óvinnufær og því ekki í vinnu þegar slysið 16. janúar 2004 átti sér stað. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tekjutapi vegna slyssins 16. janúar 2004 og ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda.
Krafa um þjáningabætur nemur 312.520 krónum. Líkt og með tímabil atvinnutjóns þá meta yfirmatsmenn tímabil þjáningabóta vegna bílslyssins 16. janúar 2004 sameiginlega með vinnuslysinu 18. maí 2003. Eru þjáningabætur vegna slyssins 18. maí 2003 ákveðnar frá slysdegi til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 19 daga, og vegna slyssins 16. janúar 2004 frá slysdegi til sama tíma eða til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 17 daga. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi fengið greiddar þjáningabætur vegna slyssins 18. maí 2003. Hinn 16. janúar 2004 hófst nýtt þjáningatímabil og eftir atvikum þykir því rétt að taka þessa kröfu stefnanda. Ekki er ágreiningur um fjárhæð hennar.
Samkvæmt yfirmatsgerð var varanlegur miski stefnanda metinn 15%. Ekki er ágreiningur með aðilum um kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska 953.025 krónur.
Samkvæmt yfirmatsgerð hlaut stefnandi 25% varanlega örorku í umræddu bílslysi. Til grundvallar kröfu sinni um bætur vegna varanlegrar örorku kveðst stefnandi leggja tekjur sínar þrjú síðustu almanaksár fyrir þann dag er tjón varð, að meðtöldu 7% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú almanaksár fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til stöðugleikapunkts. Nemur sú krafa hans 13.185.982 krónum.
Af hálfu stefndu er á því byggt að vegna þeirrar 40% skerðingar á aflahæfi sem stefnandi hlaut í slysinu 18. maí 2003 eigi tekjuviðmið við ákvörðun bóta í þessu máli að lækka sem nemur þeirri skerðingu. Í máli þessu er einungis fjallað um þá skerðingu á aflahæfi til framtíðar sem stefnandi hlaut við slysið 16. janúar 2004. Þykja stefndu ekki hafa fært fram rök fyrir þessari fullyrðingu sinni og er ekki á hana fallist.
Stefndu halda því fram að ekki sé marktækt að miða við laun stefnanda þrjú síðustu árin fyrir slys þar sem að hluta til sé um launagreiðslur að ræða en að öðru leyti bótagreiðslur. Líta verður á launagreiðslur sem stefnandi fékk í veikindaleyfi sínu vegna slyssins 18. maí 2003 sem launagreiðslur en ekki bætur. Samkvæmt þeim gögnum sem stefnandi byggir á er einungis um launagreiðslur að ræða. Er það í samræmi við 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga að við ákvörðun bóta sé miðað við þessar tekjur stefnanda þrjú síðustu árin fyrir slys.
Stefndi byggir á því að ranglega sé miðað við 7% vegna glataðra lífeyrisréttinda þar sem mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð hafi ekki hækkað úr 6% í 7% fyrr en 1. janúar 2005 eða þremur mánuðum eftir metinn stöðuleikapunkt 1. október 2004.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku einnig telja til tekna framlag vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Samkvæmt fréttatilkynningu Landssamtaka lífeyrissjóða var framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði hækkað úr 6% í 7% hinn 1. janúar 2005 eins og stefndi heldur fram. Stefnandi hefur ekki rökstutt hvers vegna beri að miða við 7% framlag og ber því með vísan til framanritaðs að miða við að framlag atvinnurekanda hafi á þessum þremur árum fyrir slysið verið 6%.
Að öðru leyti er af hálfu stefndu ekki gerðar tölulegar athugasemdir við útreikning stefnanda á meðallaunum þrjú síðustu ár fyrir slys, en sé miðað við 6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð reiknast árslaun árið 2001 2.945.162 krónur, árið 2002 5.244.281 króna og árið 2003 4.161.626 krónur. Meðaltal launa þessi þrjú ár nemur því 4.117.023 krónum. Í samræmi við útreikning stefnanda nemur tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku því 13.063.314 krónum.
Stefndi byggir á því að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 beri að draga frá greiðslur sem stefnandi fær eða kann að fá frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum.Skýra verður 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga á þann hátt að frá skaðabótum skuli draga þær bætur úr almannatryggingum sem stafa beinlínis af sama slysi og skaðabæturnar eru greiddar fyrir. Í ljósi þess að stefnandi hefur lent í fleiri slysum en því sem hér um ræðir er hafnað þeirri málsástæðu stefnda að allur réttur stefnanda til bóta hjá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum komi til frádráttar bótum vegna slyssins 16. janúar 2004. Liggur ekkert fyrir um það hvaða rétt stefnandi kann að hafa öðlast vegna slyssins 16. janúar 2004 eða hvort hann hafi notið greiðslna frá þessum aðilum í tengslum við umrætt slys. Ber því að hafna því að krafa stefnanda sæti lækkun af þessum sökum.
Með bréfi, dags. 28. september 2006, til stefnda, Varðar Íslandstrygginga hf., var sett fram bótakrafa af hálfu stefnanda. Lá þá fyrir matsgerð hinna dómkvöddu yfirmatsmanna. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda um dráttarvexti frá 28. október 2006.
Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 14.328.859 krónur, að frádregnum þeim innborgunum sem greinir í dómsorði.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 800.000 krónur og greiðist hann í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e málflutningsþóknun Arnars Þórs Stefánssonar hdl., 400.000 krónur, og málflutningsþóknun Guðbjargar Benjamínsdóttur hdl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Jóna Magnúsdóttir og Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, Jóni Óskari Júlíussyni, óskipt 14.328.859 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 1.265.545 krónum frá 16. janúar 2004 til 1. október 2004, en af 14.328.859 krónum frá þeim degi til 28. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda, Varðar trygginga hf., til stefnanda, að fjárhæð 2.500.000 krónur hinn 1. nóvember 2005, 2.000.000 króna hinn 14. september 2006, 3.000.000 króna hinn 28. september 2006, 500.000 krónur hinn 4. október 2006, 250.000 krónur hinn 11. desember 2006, 1.000.000 króna hinn 9. febrúar 2007 og 150.000 krónur hinn 26. júlí 2007.
Stefndu greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e málflutningsþóknun Arnars Þórs Stefánssonar hdl., 400.000 krónur, og málflutningsþóknun Guðbjargar Benjamínsdóttur hdl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.