Hæstiréttur íslands
Mál nr. 29/2001
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2001. |
|
Nr. 29/2001. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Heimi Jakobi Þorfinnssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Skilorðsrof.
H gekkst við að hafa í tvígang ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. H hafði margsinnis áður verið dæmdur fyrir sams konar brot. Eftir að héraðsdómur gekk var H enn á ný dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti. Með þeim brotum sem H gekkst við rauf hann ennfremur skilorð refsidóms sem hann hafði áður hlotið. Með vísan til þessa og brotaferils H var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing hans samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.
Atvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir hefur ákærði gengist við að hafa ekið bifreiðinni HV-055 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti frá miðborg Reykjavíkur að mótum Sæbrautar og Holtavegar 25. júní 2000 og frá miðborg Reykjavíkur að versluninni Select við Vesturlandsveg 29. júlí 2000. Voru tvö opinber mál höfðuð á hendur ákærða fyrir framangreind brot, fyrst með útgáfu ákæru 18. júlí 2000 vegna fyrra brotsins en með útgáfu ákæru 10. október sama árs vegna síðara brotsins. Voru málin sameinuð í héraði.
Eins og áður segir gekkst ákærði við þeim brotum sem honum voru gefin að sök í framangreindum ákærum og var farið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Ákærði var dæmdur í fangelsi í 6 mánuði 18. mars 1999 fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Var refsingin skilorðsbundin í þrjú ár. Þá var hann dæmdur 11. janúar 2001 fyrir réttindaleysi við akstur 29. nóvember sl., en var ekki gerð sérstök refsing, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þeim brotum, sem ákærði hefur gengist við í máli þessu, rauf hann skilorð dómsins frá 18. mars 1999. Verður því að ákvarða refsingu hans í einu lagi fyrir þau brot sem hann var þá sakfelldur fyrir og þau brot sem hér eru til meðferðar, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Refsingin verður einnig ákveðin með vísan til 77. gr. laganna. Ákærða hefur fimm sinnum áður en atvik þessa máls urðu verið gerð refsing fyrir ölvun við akstur og fjórum sinnum hlotið dóm fyrir akstur sviptur ökurétti. Með vísan til þess sem að framan greinir þykir mega staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um refsingu og sakarkostnað. Áréttað er að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Heimir Jakob Þorfinnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember sl. er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 18. júlí 2000 á hendur ákærða, Heimi Jakob Þorfinnssyni, kt. 070275-5549, Smiðjuvegi 23, Kópavogi, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni HV-055, að morgni sunnudagsins 25. júní 2000, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti frá miðborg Reykjavíkur, að mótum Sæbrautar og Holtavegar þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Hinn 27. október sl. var sakamálið nr. 1988/2000 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 10. október sl., umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni HV-055, aðfaranótt laugardagsins 29. júlí 2000 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti frá miðborg Reykjavíkur að versluninni Select við Vesturlandsveg.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Í báðum ákærum er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.
Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur árið 1975. Sakarferill hans er nokkur og felst að mestu í áfengis- og umferðarlagabrotum. Fyrst gekkst hann undir lögreglustjórasátt átján ára gamall í júlí árið 1993 fyrir ölvunarakstur og var sviptur ökurétti í tólf mánuði. Síðan hefur hann fimm sinnum hlotið dóm. Í október 1993 fyrir ölvunarakstur, sviptingarakstur og önnur umferðalagabrot, var honum gerð sekt og sviptur ökuleyfi í þrjú ár. Í september 1995 var hann dæmdur í 30 daga varðhald fyrir ölvunarakstur og sviptur ökurétti ævilangt. Í mars 1996 var hann dæmdur í 75 daga varðhald fyrir hraðakstur, ölvunarakstur og sviptingarakstur og sviptur ökurétti ævilangt. Í apríl 1997 var hann dæmdur í 45 daga varðhald fyrir skjalafals, skilorðsbundið í tvö ár. Í nóvember 1997 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár, fyrir ölvunarakstur, sviptingarakstur í tvígang og önnur umferðarlagabrot og fyrir að villa á sér heimildir, var skilorðsdómurinn frá því í apríl 1997 tekinn upp og dæmdur með og hann sviptur ökurétti ævilangt. Loks var hann dæmdur 18. mars 1999 í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára og auk þess sett sérstakt skilorð til tveggja ára um að gangast undir áfengis- og geðlæknismeðferð og gert að neyta ekki áfengis á tímabilinu. Með brotum þeim sem hér eru til meðferðar hefur hann rofið bæði hið almenna og sérstaka skilorð.
Ákærði er nú dæmdur í sjötta sinn fyrir ölvunarakstur og er um tvö brot að ræða. Endanleg niðurstaða alkóhólrannsóknar við brot 25. júní sl. var 1,84, en við brot 29. júlí sl. 2,18. Hann er dæmdur í fimmta sinn fyrir akstur sviptur ökuréttindum og er einnig um tvö brot að ræða. Skilorðsdómurinn frá 18. mars 1999 er tekinn upp og verður refsing nú dæmd í einu lagi í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga og samkvæmt reglum 77. gr. sömu laga. Litið er til þess að um endurtekna ítrekun brota af sama tagi er að ræða. Þykir heildarrefsing samkvæmt dómvenju hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði.
Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar frá og með uppkvaðningu dómsins.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað og er þar með talin málsvarnarþóknun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst 35.000 krónur.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Heimir Jakob Þorfinnsson, skal sæta fangelsi í 14 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, er þar með talin málsvarnarþóknun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.