Hæstiréttur íslands
Mál nr. 208/2012
Lykilorð
- Riftun
- Gjöf
- Endurgreiðslukrafa
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2012. |
|
Nr. 208/2012.
|
Þrotabú Samson eignarhaldsfélags ehf. (Helgi Birgisson hrl.) gegn Straumi Equities ehf. (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Riftun. Gjöf. Endurgreiðslukrafa.
Í málinu krafðist þrotabú S ehf. riftunar á samningi S ehf. og SE ehf. um kaup fyrrnefnda félagsins á hlutafé í M ehf. Byggði þrotabúið á því að samningurinn hafi verið örlætisgerningur og falið í sér gjöf til SE ehf. í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafðist þrotabúið þess jafnframt að SE ehf. endurgreiddi sér mismuninn á raunverulegu verðmæti hins selda hlutafjár og kaupverðinu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í Hæstarétti var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að samningurinn hafi rýrt eignir S ehf. og þar með þrotabúsins og leitt að sama skapi til eignaaukningar hjá SE ehf. Að teknu tilliti til þess að náin eigna- og stjórnunartengsl voru milli S ehf. og SE ehf. og mikill munur var á greiðslu S ehf. fyrir hlutaféð og verðmæti hlutafjárins á þeim tíma þegar það var keypti, taldi Hæstiréttur SE ehf. bera sönnunarbyrði fyrir því að umræddur samningur hafi ekki verið örlætisgerningur heldur hafi markmiðið með honum verið annað en að valda rýrnun á eignum S ehf. Taldi Hæstiréttur að SE ehf. hafi ekki tekist sú sönnun. Var því fallist á kröfu þrotabúsins um riftun samningsins og var SE ehf. gert að endurgreiða mismuninn á því sem greitt var fyrir hlutaféð og verðmæti þess á þeim tíma þar sem sú fjárhæð hafi sannanlega komið félaginu að notum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2012. Hann krefst þess að rift verði samningi Samson eignarhaldsfélags ehf. og stefnda 25. júní 2008 um kaup á MGM eignarhaldsfélagi ehf. og að stefnda verði gert að greiða sér 518.134.431 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2008 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Helstu málsatvik eru að á fundi í stjórn Samson eignarhaldsfélags ehf. 12. júní 2008 var ákveðið að taka lán hjá Straumi Burðarási fjárfestingabanka hf. að fjárhæð 4.743.753.734 krónur sem skyldi vera tvíþætt. Í fundargerð frá stjórnarfundinum segir: „Ætlunin er að nota lánsfé samkvæmt samningnum til að kaupa MGM eignarhaldsfélag ehf. ... af Straumi Burðarás fjárfestingabanka hf. Stendur svo til að selja MGM eignarhaldsfélag ehf. til Forsíðu ehf. ... sem verður aftur veitt lán til að fjármagna kaupin. Mun félagið fara fram á að Forsíða ehf. setji því að veði hlutina í MGM eignarhaldsfélagi ehf.”
Hinn 13. júní 2008 var gerður lánssamningur milli Samson eignarhaldsfélags ehf. sem lántaka og Straums Burðaráss fjárfestingabanka hf. sem lánveitanda. Var samningurinn undirritaður af Óttari Pálssyni, fyrir hönd lánveitanda, og Ágúst H. Leóssyni, fyrir hönd lántaka. Lánið nam alls 4.743.753.734 krónum og skiptist í tvo hluta, lánsheimild A að fjárhæð 3.921.325.000 krónur og lánsheimild B 822.428.734 krónur. Samkvæmt 2.3 grein samningsins var það meðal skilyrða fyrir lánveitingunni „að lántaki hafi innan 30 daga frá ádráttardegi, undirritað samning um kaup á hlutabréfum við lánveitanda varðandi kaup lántaka og sölu lánveitanda á öllum útistandandi hlutabréfum í MGM eignarhaldsfélagi ehf.” Í 1.5 grein samningsins var kveðið á um að lánið yrði greitt út í samræmi við fyrirmæli í ádráttartilkynningu. Gefnar voru út tvær ádráttartilkynningar af Samson eignarhaldsfélagi ehf. 13. og 18. júní 2008, undirritaðar af Ágústi H. Leóssyni, þar sem fram kom að öll lánsfjárhæðin skyldi greidd inn á reikning án þess að hann væri greindur nánar.
Hinn 25. júní 2008 var gerður samningur milli stefnda, sem þá nefndist Eignarhaldsfélagið Urriði ehf., sem seljanda, og Samson eignarhaldsfélags ehf., sem kaupanda, um kaup þess síðarnefnda á hlutafé í eigu hins fyrrnefnda. Var samningurinn undirritaður af Óttari Pálssyni, fyrir hönd seljanda, og Ágúst H. Leóssyni, fyrir hönd kaupanda. Samkvæmt 1.1. grein samningsins lofaði seljandi að selja og kaupandi að kaupa allt hlutafé seljanda í MGM eignarhaldsfélagi ehf. að nafnvirði 388.500.000 krónur. Væri hið selda „100% af heildarhlutafé félagsins.” Í 2.1. grein samningsins var tekið fram að kaupverðið skyldi vera 822.428.734 krónur og greiðast að fullu við undirskrift hans.
Samdægurs voru gerðir tveir samningar milli Samson eignarhaldsfélags ehf. og Forsíðu ehf., annars vegar kaupsamningur og hins vegar lánssamningur. Voru samningarnir undirritaðir af einum manni, Ágúst H. Leóssyni, fyrir hönd beggja félaganna. Samkvæmt kaupsamningnum seldi fyrrgreinda félagið því síðarnefnda allt hlutafé sitt í MGM eignarhaldsfélagi ehf., að nafnvirði 388.500.000 krónur. Skyldi kaupverð hlutafjárins vera 822.428.734 krónur og greiðast í reiðufé við undirritun samningsins. Tekið var fram að hið selda skyldi afhent við móttöku kaupverðs og að seljandi myndi lána kaupanda það í samræmi við ákvæði lánssamnings sem gerður yrði samhliða kaupsamningnum. Samkvæmt lánssamningnum veitti Samson eignarhaldsfélag ehf. lán, að fjárhæð 822.428.734 krónur, til Forsíðu ehf. Skyldi lánið greitt í einu lagi til lántaka við undirritun samningsins og renna óskipt til hans.
Áður en framangreind kaup voru gerð átti MGM eignarhaldsfélag ehf. samkvæmt gögnum málsins 16,7% í Árvakri hf. og var það eina eign félagsins. Forsíða ehf. átti fyrir 16,7% hlutafjár í Árvakri hf., þannig að eftir kaupin hafði fyrrgreinda félagið eignast 33,4% í því síðarnefnda. Forsíða ehf. var í eigu Björgólfs Guðmundssonar og sama átti við um enn annað félag sem átti 16,8% í Árvakri hf. Með kaupunum hafði Björgólfur því óbeint tryggt sér eignarráð yfir meirihluta hlutafjár í síðastgreinda félaginu sem gaf meðal annars út Morgunblaðið.
Samson eignarhaldsfélagi ehf. var veitt heimild til greiðslustöðvunar 7. október 2008 og var bú félagsins síðan tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember sama ár. Lýsti Straumur Burðarás fjárfestingabanki hf. kröfu á hendur áfrýjanda vegna lánssamningsins, sem gerður var 13. júní 2008, og nam krafan 2.199.636.009 krónum, að teknu tilliti til afborgana sem greiddar höfðu verið af láninu. Fram kom í kröfulýsingu stefnda að sá hluti lánsins, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. notaði til kaupa á hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf., væri þegar að fullu greiddur. Forsíða ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. janúar 2009 og lýsti áfrýjandi kröfu í þrotabú félagsins samkvæmt lánssamningnum, sem gerður var 25. júní 2008, að fjárhæð 936.878.402 krónur. Engar eignir reyndust vera í búinu til greiðslu á almennum kröfum, þar á meðal kröfu áfrýjanda, og var skiptum þar af leiðandi lokið á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
II
Áfrýjandi telur að við úrlausn málsins verði að líta til þess að samningur sá, sem hann krefst riftunar á, hafi verið gerður milli tengdra aðila, eins og komist var að orði í héraðsstefnu. Þar var vísað til þess að þáverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums Burðaráss fjárfestingabanka hf., Óttar Pálsson, hafi átt sæti í stjórn stefnda. Einnig hafi Ágúst H. Leósson komið fram fyrir hönd Samson eignarhaldsfélags ehf. og Forsíðu ehf. við gerð samninga milli félaganna tveggja 25. júní 2008, en hann hafi verið eini stjórnarmaður síðarnefnda félagsins.
Fyrir liggur að margvísleg önnur tengsl voru milli þeirra félaga er komu að viðskiptunum sem gerð er grein fyrir í kafla I. Samson eignarhaldsfélag ehf. var í eigu tveggja erlendra félaga og var eigandi annars þeirra Björgólfur Guðmundsson, en hins sonur hans, Björgólfur Thor Björgólfsson. Þeir feðgar voru því óbeint eigendur áðurnefnds eignarhaldsfélags og sátu báðir í þriggja manna stjórn þess. Eins og áður er fram komið var Björgólfur Guðmundsson eini hluthafi Forsíðu ehf. sem átti eftir kaup þess félags á hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf. 33,4% hlutafjár í Árvakri hf. Þá átti annað félag í eigu Björgólfs 16,8% í síðastnefnda félaginu. Félagið Samson Global Holdings, sem mun hafa verið skráð í Lúxemborg og var óbeint í eigu þeirra feðga, átti stóran hlut í Straumi Burðarási fjárfestingabanka hf. Í skýrslu, sem Óttar Pálsson gaf fyrir héraðsdómi, kom fram að Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi verið „í eigu Björgólfsfeðga sem áttu jafnframt mjög stóran eignarhlut í Straumi gegnum annað félag í sinni eigu.” Stefndi, áður Eignarhaldsfélagið Urriði ehf., var dótturfélag Straums Burðaráss fjárfestingabanka hf., sem var eini hluthafinn í félaginu, og MGM eignarhaldsfélag ehf. var á sama hátt dótturfélag stefnda í eigu hans eins. Þá áttu sömu menn sæti í stjórnum margra þeirra félaga sem hér um ræðir. Þannig var Skúli Valberg Ólafsson stjórnarformaður stefnda og átti að auki sæti í fimm manna stjórn Árvakurs hf.
Stefndi hefur andmælt að byggt verði á því í málinu af hálfu áfrýjanda að eignatengsl hafi verið milli Straums Burðaráss fjárfestingabanka hf. og þáverandi eigenda Samson eignarhaldsfélags ehf. Í sóknargögnum í héraði hafi hvorki verið gerð grein fyrir slíkum tengslum né stjórnunarlegum tengslum og sé þessari „viðbótarmálsástæðu” áfrýjanda mótmælt sem of seint fram kominni. Með vísan til þess að í héraðsstefnu hélt áfrýjandi því fram að samningur sá, sem hann krefst riftunar á, hafi verið gerður milli tengdra aðila og líta yrði til þess atriðis við úrlausn málsins verður talið að sú málsástæða hans, sem að þessu lýtur, hafi verið nægilega skýr í málatilbúnaði hans frá upphafi og sé því ekki of seint fram komin. Samkvæmt því verður horft til þess, þegar leyst verður úr málinu, að náin eigna- og stjórnunartengsl voru milli stefnda og Samson eignarhaldsfélags ehf. er þessi tvö félög gerðu með sér samninginn 25. júní 2008 um kaup þess síðarnefnda á hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf. Ekki ræður úrslitum í því sambandi hvort félögin tvö voru nákomin hvort öðru í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 þótt það, sem rakið er hér að framan, bendi til að svo hafi verið, sbr. einkum 5. og 6. töluliði hennar.
III
Undir rekstri málsins í héraði fór áfrýjandi fram á að dómkvaddur yrði sérfróður maður til þess að meta virði alls hlutafjár í MGM eignarhaldsfélagi ehf. 25. júní 2008 þegar stefndi og Samson eignarhaldsfélag ehf. gerðu með sér áðurnefndan samning. Í matsgerð var því lýst að þar sem eina eign MGM eignarhaldsfélags ehf. hafi verið 16,7% í Árvakri hf. hafi verðmæti síðastnefnda félagsins verið metið í heild með nánar tilgreindri aðferð. Þannig komst hinn sérfróði maður, sem er löggiltur endurskoðandi, að þeirri niðurstöðu að virði alls hlutafjár í MGM eignarhaldsfélagi ehf. á umræddum degi hafi verið 304.294.303 krónur. Er endurgreiðslukrafa áfrýjanda á hendur stefnda miðuð við að verðmæti hins selda hlutafjár hafi í raun svarað til þeirrar fjárhæðar.
Stefndi heldur því fram að mat hins dómkvadda manns styðjist ekki við viðhlítandi rök, þar á meðal hafi hann ekki tekið tillit til þess að fjölmiðlar hafi sérstöðu sem líta verði til þegar lagt sé mat á verðmæti félaga er þá gefa út. Þrátt fyrir það hefur stefndi ekki leitað eftir yfirmati samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að fá fyrirliggjandi mati hnekkt. Að því gættu er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að leggja beri til grundvallar að verðmæti hlutafjár MGM eignarhaldsfélags ehf. hafi í raun verið 304.294.303 krónur þegar það var keypt af Samson eignarhaldsfélagi ehf. 25. júní 2008.
IV
Áfrýjandi reisir riftunarkröfu sína á því að margnefndur samningur milli stefnda og Samson eignarhaldsfélags ehf. um kaup á öllu hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf. hafi verið örlætisgerningur og því falið í sér gjöf til handa stefnda í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sem svari til mismunar á raunverulegu verðmæti hins selda hlutafjár, 304.294.303 krónum, og kaupverðinu, 822.428.734 krónum. Krefst áfrýjandi þess á grundvelli 1. mgr. 142. gr. sömu laga að stefndi endurgreiði sér mismuninn, 518.134.431 krónu.
Ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur verið skýrt svo að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim er nýtur góðs af henni, nema hún falli undir 3. mgr. sömu lagagreinar, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni. Gagnkvæmir samningar geta talist örlætisgerningar í skilningi 1. mgr. 131. gr. ef umtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann hefur fengið í staðinn.
Fyrir liggur í málinu að Straumur Burðarás fjárfestingabanki hf., móðurfélag stefnda, öðlaðist gilda kröfu á hendur Samson eignarhaldsfélagi ehf. og síðar áfrýjanda samkvæmt lánssamningnum, sem gerður var 13. júní 2008 milli bankans og eignarhaldsfélagsins, en lánið var að hluta notað til greiðslu á kaupverði hlutafjárins í MGM eignarhaldsfélagi ehf. Eins og áður greinir lýsti bankinn kröfu á hendur áfrýjanda vegna lánssamningsins og kom þar fram að sá hluti lánsins væri þegar að fullu greiddur. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu hans að samningurinn um kaup á öllu hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf. hafi rýrt eignir Samson eignarhaldsfélags ehf. og þar með áfrýjanda og leitt að sama skapi til eignaaukningar hjá stefnda.
Að þeirri niðurstöðu fenginni kemur til skoðunar hvort gjafatilgangur hafi búið að baki umræddum samningi eða hvort hann hafi verið gerður í öðrum tilgangi, eins og stefndi heldur fram. Því til stuðnings hefur hann meðal annars fært fram þau rök að hefði ætlun Samson eignarhaldsfélags ehf. verið sú að hygla Straumi Burðaráss fjárfestingabanka hf. eða dótturfélagi bankans, stefnda, hefðu fjármunirnir komið annars staðar frá en samstæðunni sjálfri. Nærtækara hefði verið að eignarhaldsfélagið, sem varð gjaldþrota nokkru síðar, greiddi skuldir sínar við bankann. Einnig hefur stefndi bent á að eignarhaldsfélagið hafi verið álitið sterkt félag þegar það keypti hlutafé MGM eignarhaldsfélags ehf. og hafi þeir, sem að félaginu stóðu, verið meðal valdamestu manna í íslensku viðskiptalífi. Með kaupum á hlutafénu hafi félög, tengd Samson eignarhaldsfélagi ehf., tryggt sér meirihlutavald í Árvakri hf. Bankinn hafi því verið í aðstöðu til að setja upp verð, sem eignarhaldsfélagið samþykkti, þar sem lánveiting bankans fyrir kaupverðinu hafi verið lykilatriði.
Eins og rakið hefur verið hér að framan voru náin eigna- og stjórnunartengsl milli Samson eignarhaldsfélags ehf. og stefnda. Einnig var mikill munur á greiðslu eignarhaldsfélagsins fyrir hlutaféð í MGM eignarhaldsfélagi ehf. og verðmæti hlutafjárins á þeim tíma þegar það var keypt. Að teknu tilliti til þessa tvenns ber stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að samningur sá, sem áfrýjandi hefur krafist riftunar á, hafi ekki verið örlætisgerningur í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, heldur hafi markmiðið með honum verið annað en að valda rýrnun á eignum Samson eignarhaldsfélags ehf. sem leitt gæti til þess við gjaldþrot félagsins að kröfuhafar í þrotabúið fengju minna í sinn hlut en þeir hefðu ella fengið. Þegar málsatvik eru virt í heild, þar á meðal horft til atvika sem gerðust í kjölfar þess að samningurinn var gerður, verður ekki talið að stefnda hafi tekist sú sönnun, enda þurfa aðrar hvatir, sem leitt hafa til þess að samningur sé gerður, ekki að útiloka að gjafatilgangur hafi búið að baki honum í þeirri merkingu sem hér um ræðir.
Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa áfrýjanda um riftun samningsins sem gerður var milli stefnda og Samson eignarhaldsfélags ehf. 25. júní 2008 um kaup á öllu hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf. Með skírskotun til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður stefnda jafnframt gert að endurgreiða áfrýjanda mismuninn á því, sem greitt var fyrir hlutaféð, og verðmæti þess á þeim tíma þar sem sú fjárhæð hefur sannanlega komið honum að notum.
Áfrýjandi gerir kröfu um dráttarvexti frá 25. júní 2008 til greiðsludags. Eins og atvikum er háttað verður upphafstími dráttarvaxta miðaður við 15. júlí 2009 þegar mál þetta var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, enda er hér um endurgreiðslukröfu að ræða.
Samkvæmt þessum málsúrslitum ber stefnda að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Rift er samningi milli Samson eignarhaldsfélags ehf. og stefnda, Straums Equities ehf., sem gerður var 25. júní 2008 um kaup á öllu hlutafé í MGM eignarhaldsfélagi ehf. Stefndi greiði áfrýjanda, þrotabúi Samson eignarhaldsfélags ehf., 518.134.431 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júlí 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 5.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., var höfðað 15. júlí 2009.
Stefnandi er þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags ehf., Aðalstræti 6, Reykjavík
Stefndi er Straumur Equities ehf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að samningi stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Urriða ehf. (nú stefnda) frá 25. júní 2008, um kaup á MGM eignarhaldsfélagi ehf., verði rift og stefnda verði gert að greiða stefnanda 518.134.431 krónu, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. júní 2008 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu í samræmi við gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf.
Til vara er krafist verulegrar lækkunar á fjárkröfu stefnanda í málinu og að málskostnaður í því tilviki verði felldur niður.
Málavextir
Samson eignarhaldsfélag ehf. er íslenskt félag og eru samþykktir þess upphaflega dags. 8. mars 2007 en núverandi samþykktir eru frá 28. apríl 2008. Hlutafé félagsins nam 950.000.000 króna. Hinn 7. október 2008 veitti Héraðsdómur Reykjavíkur félaginu heimild til greiðslustöðvunar allt til 28. október s.á. Félagið óskaði eftir framlengingu á þeirri greiðslustöðvun en var synjað um hana með úrskurði sama dómstóls, sem kveðinn var upp hinn 4. nóvember 2008. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum hinn 12. nóvember 2008. Stjórn félagsins var skipuð Björgólfi Thor Björgólfssyni, Björgólfi Guðmundssyni og Sigþóri Sigmarssyni.
Stefndi er einkahlutafélag og er með skráð lögheimili að Borgartúni 25 í Reykjavík. Hlutafé félagsins nam 1.000.500.000 krónum. Stjórn félagsins skipa Skúli Valberg Ólafsson, Jakob Már Ásmundsson og Óttar Pálsson. Stefndi er dótturfélag Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. (eftirleiðis nefnt Straumur-Burðarás).
Með kaupsamningi, dags. 25. júní 2008, keypti Samson eignarhaldsfélag ehf. (eftirleiðis nefnt Samson) allt hlutafé Urriða ehf. (eftirleiðis nefnt Urriði) í MGM eignarhaldsfélagi ehf. (eftirleiðis nefnt MGM), en eina eign þess félags var 16,7% hlutur í Árvakri hf.
Urriði var dótturfélag Straums Burðaráss fjárfestingabanka hf., þar til Urriði rann saman við stefnda. Hvorki stefndi né Urriði, í hans tíð, höfðu starfsmenn. Félögin voru rekin af starfsmönnum Straums. Kveður stefndi ferli við töku viðskiptaákvarðana hafa verið hið sama og hjá bankanum sjálfum. Ákvarðanir um fjárfestingar og/eða eignasölur hafi farið fyrir lána- og fjárfestinganefnd Straums hvort sem þær vörðuðu móðurfélagið eða dótturfélög. Stjórnarmennirnir þrír, þeir Óttar Pálsson, Jakob Ásmundsson og Skúli Valberg Ólafsson hafi verið starfsmenn Straums Burðaráss. Ákvarðanir um viðskipti dótturfélaganna hafi verið teknar af starfsmönnum Straums Burðaráss, eins og um viðskipti bankans sjálfs væri að ræða.
Umsamið kaupverð á MGM var 822.428.734 krónur og var það greitt að fullu við undirskrift samningsins. Undir kaupsamninginn ritaði Ágúst H. Leósson, f.h. Samsonar, og Óttar Pálsson, f.h. Urriða. Var kaupverðið fjármagnað með láni frá Straumi-Burðarási, sbr. lánasamning aðila 13. júní 2008. Óttar Pálsson undirritar lánasamninginn f.h. Straums.
Síðar sama dag, þ.e. þann 25. júní 2008, seldi stefnandi svo Forsíðu ehf. allt hlutafé í MGM fyrir sömu fjárhæð, þ.e. 822.428.734 krónur. Samson veitti Forsíðu ehf. lán til kaupanna. Undir kaupsamninginn ritaði Ágúst H. Leósson, bæði f.h. stefnanda og Forsíðu ehf.
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að hið selda, þ.e. MGM, hafi verið verðlaust á þeim tíma er gengið var frá kaupunum þar sem fjárhagsleg staða Árvakurs hf. hafi verið verulega slæm á þeim tíma er kaup áttu sér stað. Því sé um að ræða riftanlegan gjafagerning í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Í því sambandi vísar stefnandi til skýrslu stjórnar Árvakurs hf. um starfsemina 2008, sem lögð var fram á hluthafafundi þann 27. mars 2009. Hann vísar til þriggja atriða sem reifuð eru í skýrslunni sem reynst hafi félaginu fjárhagslega erfið og hafi markað þáttaskil í rekstri þess. Um það segi í skýrslunni orðrétt:
1. Skuldir félagsins, sem voru að verulegu leiti tengdar gengi erlendra gjaldmiðla hækkuðu ört um 2,1 milljarð króna á árinu í heild.
2. Hráefnisverð hækkaði í samræmi við gengisfall gagnvart dollar, sem kemur fram í um 40% hækkun einingarverðs pappírs frá og með öðrum ársfjórðungi. Á móti kemur minni pappírsnotkun vegna auglýsingarsamdráttar og vegna þess að hætt var útgáfu 24 stunda í október.
3. Auglýsingamarkaður, sem gefur að jafnaði um 60% af heildartekjum, byrjaði að gefa sig og frá janúar til október voru sölutölur Morgunblaðsins og mbl. um 424 mkr. lægri en í upphaflegri áætlun og sölutölur 24 stunda um 310 mkr. lægri en í áætlun. Auglýsingarsala í tvo fyrrnefndu miðlana hafði þá minnkað um 499 mkr. milli ára en í 24 stundir hafði salan aukist um 27 mkr. Á árinu voru auglýsingartekjur hérumbl. (sic) 1.000 mkr. minni en ráð var gert fyrir í upphaflegum áætlum.
Stefnandi bendir á að í skýrslunni segi jafnframt að í apríl og maí 2008 hafi stjórn og stjórnendur félagsins ákveðið að freista þess að treysta reksturinn með því að lækka kostnað og auka hlutafé. Ekki hafi hins vegar tekist að sækja nýtt hlutafé með aðkomu nýrra hluthafa.
Að mati stefnanda sýni þetta vel hversu illa félagið var statt þegar stefnandi keypti MGM af Urriða. Sé kaupverðið á þessum tíma því óskiljanlegt og telur stefnandi það yfir allan vafa hafið að um gjafagerning hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o fl. (eftirleiðis gþl.)
Stefndi bendir á að eina eign MGM hafi verið 16,7% hlutur í Árvakri hf. Árvakur hf. hafi gefið út dagblöðin Morgunblaðið og 24 Stundir og vefmiðilinn mbl.is. Þessir miðlar hafi verið leiðandi í fréttamennsku og þjóðmálaumræðu hér á landi og með langa hefð.
Markmið Straums Burðaráss með kaupunum hafi verið að taka þátt í umbreytingarverkefnum tengdum starfsemi Árvakurs hf. og selja hluthöfum síðar. Eftir kaupin hafi Skúli Valberg Ólafsson tekið sæti í stjórn Árvakurs hf. Milli hluthafa Árvakurs hf. hafi verið í gildi hluthafasamkomulag um gagnkvæman forkaupsrétt, sem gilti fram í nóvember 2006. Í lok september 2006 hafi hluthafafundur í Árvakri hf. ákveðið hlutafjárhækkun að nafnverði 34.482.759 krónur og hafi aukningarhlutirnir verið boðnir hluthöfum á genginu 14,5. Allir hluthafar hafi tekið þátt í aukningunni með því að skrá sig fyrir aukningarhlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína.
Í maí 2008 hafi forstjóri Árvakurs kynnt áætlanir félagsins. Meðal þess sem fram kom var spá um 50 milljóna króna EBIDTA (hagnað fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta) á árinu 2008 og 500 milljóna króna á árinu 2009. Í kynningunni sé ekki að sjá að fyrirtækið hafi verið metið verðlaust. Þvert á móti sé áhersla lögð á sterkar rætur, hefð og sókn til lengri tíma. Áhersla sé lögð á að stjórn hafi verið endurnýjuð með sókn í huga, en Þór Sigfússon og Ásdís Halla Bragadóttir höfðu tekið þar sæti, Þór sem stjórnarformaður. Bæði hafi þau verið þekkt í viðskiptalífinu, Þór m.a. sem formaður Samtaka atvinnulífsins og Ásdís Halla Bragadóttir sem fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ og forstjóri Byko hf. Í kynningunni séu þrjú félög sem tengdust Björgólfi Guðmundssyni kynnt sem meirihlutaeigandi Árvakurs hf., nánar tiltekið Ólafsfell ehf. (16,8%), Forsíða ehf. (16,7%) og MGM (16,7%). Ekki hafi farið á milli mála að Björgólfur Guðmundsson hafi ætlað sér stóra hluti með félagið.
Kaupverð í viðskiptum Samsonar og stefnda hafi miðast við gengi í áðurnefndri hlutafjárhækkun (14,5) að viðbættum fjármagnskostnaði og tilfallandi kostnaði af eignarhaldi Straums Burðaráss þar til kaupin voru frágengin. Með kaupunum hafi meirihlutavald áðurnefndra félaga, sem tengdust Björgólfi Guðmundssyni, verið tryggt. Hlutafjáreign þeirra hafi einnig dugað til að viðhalda ráðandi hlut (meira en 33,3%) eftir samruna við Fréttablaðið, sem stefnt hafi verið að. Ekki hafi komið til álita að selja MGM fyrir lægra verð og það hafi heldur ekki þekkst í öðrum viðskiptum með hlutabréf í Árvakri hf., að því er stefndi telur.
Ekki hafi farið á milli mála að Björgólfur Guðmundsson hafi ætlað sér stóra hluti með Árvakur hf. og að standa þétt að baki frekari uppbyggingu. Árvakur hf. og 365 prentmiðlar ehf. skrifuðu síðar undir samning um samruna, nánar tiltekið kaup Árvakurs á Fréttablaðinu með yfirtöku skulda og útgáfu nýs hlutafjár. Hafi svo farið að Samkeppniseftirlitið samþykkti ekki samrunann og hafi því ekki orðið af honum.
Alvarleg staða Árvakurs hf. hafi ekki orðið ljós fyrr en eftir að ljóst varð að áætlun um samruna við Fréttablaðið myndi ekki ganga eftir og eftir að kerfishrun varð hér á landi í októberbyrjun 2008. Ekki hafi orðið ljóst fyrr en í október 2008 að umræddir meirihlutaeigendur gætu trauðla stutt félagið áfram.
Stefndi telur rétt að fram komi að Samson hafi verið gríðarlega sterkt félag fjárhagslega, allt fram á síðasta ársfjórðung ársins 2008. Samkvæmt samandregnum árshlutareikningi félagsins, 30. júní 2008, sem hafi verið áritaður 27. ágúst 2008 hafi bókfært eigið fé félagsins í lok júní numið 54.174 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en miðað við markaðsverð eignarhluta í Landsbanka Íslands hf. í lok júní hafi eigið fé félagsins numið 71.098 milljónum króna.
Samkvæmt lánssamningi Samsonar og bankans, dags. 13. júní 2008, hafi stefndi lánað Samson 4.743.753.734 krónur. Lánið hafi verið í tveimur hlutum, þ.e. A hluta 3.932.325.000 krónur og B hluta 822.428.734 krónur. A hlutinn hafi verið endurfjármögnun á eldri lánum en B hluti hafi verið nýtt lán, veitt til kaupa Samsonar á MGM sem mál þetta sé sprottið af. Engar tryggingar hafi verið settar til greiðslu B hluta lánsins sérstaklega.
Í októberbyrjun 2008 hafi orðið kerfishrun hér á landi. Stærsta eign Samsonar, yfir 40% eignarhlutur í Landsbanka Íslands hf., hafi orðið verðlaus þegar Fjármálaeftirlitið ákvað, 7. október, að taka yfir stjórn bankans og skipa honum skilanefnd, á grundvelli svonefndra neyðarlaga, nr. 125/2008. Svipaða sögu sé að segja um hina viðskiptabankana hér á landi, Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf. Greiðsluþrot Samsonar sé að rekja til þessara atburða.
Skuld Samsonar við Straum Burðarás sé ógreidd að öðru leyti en því að gengið hafi verið að tryggingum, sem Straumur Burðarás hafi haft.
Undir meðferð málsins lagði stefnandi fram matsbeiðni þar sem óskað var eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að meta virði alls hlutafjár í MGM hinn 25. júní 2008. Jóhann Unnsteinsson, löggiltur endurskoðandi, var dómkvaddur til þess að meta hið umbeðna. Matsgerð hans er dags. 16. júní 2011 og liggur hún frammi í málinu.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir á því að í samningarétti hafi almennt verið lögð áhersla á að einungis sé um gjafaloforð að ræða ef það er gefið án skyldu, þ.e. án lagaskyldu og án þess að loforðsgjafanum sé það skylt samkvæmt samningi. Á hinn bóginn hafi verið talið að þessi sjónarmið eigi ekki við þegar fjallað sé um gjafahugtakið í 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Ástæðan sé einkum sú að það gjafahugtak taki líka til örlætisgerninga, þ.e. gagnkvæmra samninga þar sem verulegur munur sé á endurgjaldi því, sem skuldarinn fái í hendur.
Gengið hafi verið út frá því að gjafahugtak 131. gr. gþl. hafi að geyma þrjú meginatriði, þ.e. að gjöfin rýri eignir skuldarans, að gjöfin leiði til eignaraukningar hjá móttakanda hennar og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Verði nú nánar vikið að hverju þessara atriða fyrir sig.
Mat á því, hvort gjöf hefur falið í sér skerðingu á eignum skuldara, fari fram á hlutlægum grundvelli. Í þessu skilyrði felist, að því er gjafagerning varðar, að gjöfin hafi rýrt þær eignir skuldarans, sem til skipta hefðu komið milli kröfuhafa í þrotabúinu.
Stefnandi telur engan vafa leika á að þetta skilyrði sé uppfyllt. Breyti í því samhengi engu þótt riftunarandlagið hafi verið endurselt Forsíðu ehf., enda hafi stefnandi ekki fengið lánið endurgreitt og muni ekki fá það endurgreitt þar sem bú lántaka, þ.e. Forsíðu ehf., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Tjón stefnanda vegna kaupanna á MGM af Urriða sé því gríðarlegt.
Einnig hafi verið gengið út frá því að byggja verði á hlutlægu mati, hvort því skilyrði, að ráðstöfun hafi leitt til auðgunar eða eignaraukningar móttakanda gjafar, sé fullnægt eða ekki.
Stefnandi telur MGM hafa verið verðlaust á þeim tíma er kaupsamningur var gerður við Urriða og því hafi eignin með engu móti samsvarað þeim verðmætum sem komu til greiðslu hennar.
Með hliðsjón af þessu telur stefnandi það einsýnt að skilyrðið sé uppfyllt, þar sem ekki verði annað séð en að tilgangur viðskiptanna hafi verið einhliða og þau einungis verið til þess fallin að skapa verðmæti í Urriða.
Þriðja og síðasta skilyrði þess að hægt sé að rifta á grundvelli 131. gr. gþl. sé að þrotamaður hafi viðhaft hina riftanlegu ráðstöfun í því skyni að gefa. Í þessu felist að þrotamaður, stefnandi, hafi vitað eða ætlað sér að umbuna (auðga) stefnda með því að skerða eignir sínar.
Beri þá að líta sérstaklega til þess að almennt hafi verið talið að meiri líkur séu á því að um gjafagerning sé að ræða í þeim tilvikum þegar um sé að ræða ráðstafanir milli tengdra aðila. Stefnandi telji að augljóst sé að kaup og sala á MGM hafi verið milli tengdra aðila. Vísi hann í því samhengi til þess að þáverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums, Óttar Pálsson hrl., hafi verið stjórnarmaður Urriða (og nú stefnda), en Straumur Burðarás hafi veitt Samson lán fyrir kaupum á MGM af Urriða. Einnig beri að geta þess að þegar MGM var selt Forsíðu ehf. hafi Ágúst H. Leósson ritað undir kaupsamninginn, hvort tveggja fyrir hönd stefnanda og Forsíðu, enda eini stjórnarmaðurinn. Með hliðsjón af þessu telur stefnandi að þriðja skilyrðið sé jafnframt uppfyllt.
Með hliðsjón af öllu framangreindu sé krafist riftunar á viðskiptum stefnanda við stefnda, vegna Eignarhaldsfélagsins Urriða, á grundvelli 131. gr. gþl. og þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða 518.134.431 krónu. Fjárkrafa stefnanda byggist á 142. gr. gþl., en samkvæmt greininni skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Tjón þrotabúsins svari til þeirrar fjárhæðar sem það greiddi fyrir hinn verðlausa hlut í Urriða.
Gerð sé krafa um dráttarvexti frá þeim degi er hin umdeildu viðskipti áttu sér stað.
Stefnandi vísar til riftunarreglna XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, einkum 131. og 142. gr. laganna. Krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til riftunar á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi byggir á eftirfarandi málsástæðum því til stuðnings:
Málatilbúnaður stefnanda sé byggður á því að eignarhluturinn í MGM hafi verið verðlaus á þeim tíma sem gengið var frá kaupunum. Á það sé með engu móti unnt að fallast. Auk þess sé byggt á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum og að framlögð gögn dugi ekki til að hnekkja sönnunarbyrðinni.
Kaupin hafi verið ákveðin á viðskiptalegum forsendum og einfaldlega fráleitt að snemmsumars 2008 hafi mat aðila verið að Árvakur hf., sem MGM átti hlut í, væri verðlaust félag. Í stefnu sé til stuðnings riftunarkröfu vísað til skýrslu, sem lögð var fram á hluthafafundi í Árvakri hf. 27. mars 2009, eða löngu eftir að viðskiptin voru ákveðin. Í millitíðinni hafði átt sér stað efnahagshrun á Íslandi með tilheyrandi áhrifum á fjárhagsstöðu Árvakurs og framtíðarvæntingar. Skýrslan sé því ekki sönnun um að viðskiptin hafi á sínum tíma byggst á öðru en viðskiptalegum forsendum kaupandans. Í skýrslunni séu ummæli, sjá einkum bls. 2, sem staðfesti að stjórnendur félagsins höfðu trú á félaginu. Atburðir, sem komu til á seinni hluta árs 2008, hafi orðið félaginu að falli. Um þetta vísist einnig til skýrslu Ágústs H. Leóssonar.
Stefndi telur að það eigi við um umrædd kaup, eins og svo mörg önnur viðskipti með fyrirtæki og eignarhluti í félögum á árunum 2007 og framan af ári 2008, að væntingar kaupenda brugðust og fjárfestingarnar reyndust dýrkeyptar. Hlutabréfaviðskiptum verði ekki jafnað til gjafagerninga. Hvað varðar Árvakur hf. beri einnig að líta til þess að um var að ræða gríðarlega sterkan fjölmiðil með mikla hefð. Félagið hafi verið eftirsóknarvert fyrir fjárhagslega sterka aðila eins og Samson. Þá hafi viðskiptin leitt til þess að félög tengd Björgólfi Guðmundssyni fengu meirihlutavald í Árvakri hf. Ekkert bendi til að viðskiptin hafi byggst á þeirri forsendu að stefnda hafi verið færð gjöf.
Eitt af skilyrðum gjafahugtaks 131. gr. gþl. sé að sýnt sé fram á að þrotamaður hafi viðhaft ráðstöfun, sem krafist er riftunar á, í því skyni að gefa og að gagnaðila hafi mátt vera það ljóst. Stefnandi beri sönnunarbyrðina hvað þessi atriði varðar.
Í stefnu sé staðhæft, til stuðnings því að þetta skilyrði 131. gr. sé uppfyllt, að umrædd ráðstöfun hafi verið milli tengdra aðila. Sé vísað til þáttar Óttars Pálssonar og Ágústs H. Leóssonar. Stefndi telur að þessar staðhæfingar styðji ekki málatilbúnað stefnanda. Óttar hafi verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums Burðaráss. Sem starfsmaður bankans hafi hann tekið að sér stjórnarsetu í dótturfélaginu Urriða. Það hafi því verið í alla staði eðlilegt að hann ritaði undir kaupsamninginn fyrir hönd Urriða sem seljanda og lánssamning Straums Burðaráss og Samsonar fyrir hönd bankans sem lánveitanda. Viðsemjandinn hafi hins vegar verið Samson og Óttar hafi ekki tengst því félagi. Síðari viðskipti Samsonar og Forsíðu ehf., og möguleg innbyrðis tengsl þar á milli, breyti engu um forsendur viðskiptanna sem mál þetta sé risið af.
Stefndi leggi áherslu á að hlutverk riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaganna sé að koma í veg fyrir undanskot. Í tilvikinu sem mál þetta snúist um hafi hvorki Samson, né stjórnendur þess eða hluthafar, haft nokkra sýnilega hagsmuni af því að gefa almenningshlutafélaginu Straumi Burðarás eignir. Hagsmunir þessara aðila hafi verið gagnstæðir. Það eigi því ekki við rök að styðjast að þessir aðilar hafi átt viðskiptin með gjafatilgang að leiðarljósi.
Í framhaldi af kaupunum hafi Samson selt Forsíðu ehf. allt hlutafé í MGM á óbreyttu verði. Viðskiptin við stefnda hafi því hvorki leitt til hagnaðar eða taps fyrir Samson. Í gögnum málsins komi fram að Samson lánaði kaupandanum fyrir kaupverðinu með sérstökum lánssamningi. Stefndi telur að einnig af þessari ástæðu geti ekki komið til riftunar á kaupsamningi málsaðila. Með málssókninni freisti stefnandi þess að fá bætt tap sem hann varð fyrir af gjaldþroti annars viðsemjanda síns. Með viðskiptum Samsonar og Forsíðu ehf. sé enn fremur sýnt fram á að kaupverð hafi ekki verið óeðlilegt í viðskiptum málsaðila.
Kaupverðið hafi verið greitt af Straumi Burðarási, sem lán til Samsonar. Samson skuldi Straumi Burðarási ennþá miklu hærri fjárhæð en nam kaupverðinu, sbr. kröfulýsingu Straums Burðaráss í þrotabú Samsonar, dags. 8. janúar 2009. Jafnvel þótt fallist yrði á með stefnanda að um hreina gjöf hefði verið að ræða, þá sé ekki uppfyllt skilyrði um að gerningurinn hafi verið kröfuhöfum Samsonar til tjóns þar sem engin tilfærsla á eignum frá Samson hafi átt sér stað. Skilyrði 142. gr. gþl. fyrir endurgreiðslu kaupverðs séu því ekki uppfyllt. Yrði fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda væru kröfuhafar þrotabúsins betur settir sem nemur endurgreiðslufjárhæðinni heldur en ef viðskiptin hefðu aldrei átt sér stað. Með öðrum orðum myndu aðrir kröfuhafar auðgast á viðskiptunum.
Loks veki stefndi athygli á að 131. gr. gþl. sé riftunarregla, sem taki til gjafagerninga en ekki annars konar viðskipta. Mál þetta snúist um annars konar viðskipti en gjafagerning. Í 141. gr. gþl. sé önnur riftunarregla með víðtækara gildissvið. Hún taki til hvers kyns ráðstafana, sem á ótilhlýðilegan hátt leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu kröfuhöfum til tjóns, að uppfylltum viðbótarskilyrðum. Viðskipti málsaðila hafi falið í sér ráðstöfun, sem 141. gr. taki til, en til þess að riftun kæmi til álita þyrftu öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Stefnandi byggi hins vegar ekki á þessu ákvæði og því reyni ekki á riftun á grundvelli þess.
Varakrafa um verulega lækkun fjárkröfu sé gerð í því tilviki að komist verði, gegn væntingum stefnda, að niðurstöðu um að ráðstöfunin umdeilda hafi verið riftanleg. Stefndi telur að í því tilviki bæri að lækka fjárkröfuna verulega. Stefnanda beri að sanna tjón sitt og það hafi hann ekki gert.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Engin heimild sé til að miða upphafstíma dráttarvaxta við viðskiptadag, eins og stefnandi krefjist. Verði stefndi dæmdur greiðsluskyldur sé þess krafist að upphafstími dráttarvaxta miðist við dómsuppkvaðningardag, með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga. Til vara sé þess krafist að upphafstími miðist við 15. ágúst 2009, þ.e. mánuði eftir að stefna var birt í málinu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaðarkrafa stefnda sé gerð með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála. Þess sé krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns, þar sem stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins.
Niðurstaða
Stefnandi krefst þess að rift verði samningi stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Urriða ehf. frá 25. júní 2008 um kaup á MGM eignarhaldsfélagi ehf. Stefnandi er þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. en tilgreindur samningur var gerður milli Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og Eignarhaldsfélagsins Urriða ehf. 25. júní 2008, eða áður en bú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Þrátt fyrir orðalag í kröfugerð verður að telja að ekki fari milli mála að kröfugerð stefnanda lýtur að því að rift verði tilgreindum samningi milli Samsonar eignarhaldsfélags ehf., en ekki þrotabúsins, og Eignarhaldsfélagsins Urriða ehf., enda hefur enginn ágreiningur risið út af því í málinu.
Stefnandi byggir riftunarkröfuna á 131. gr. laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 1. mgr. greinarinnar segir að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Óumdeilt er að umræddur kaupsamningur var gerður innan sex mánaða fyrir frestdag.
Stefnandi byggir á því að samningur sá sem Samson og Urriði gerðu hinn 25. júní 2008 um kaup Samsonar á öllu hlutafé Urriða í MGM hafi verið örlætisgerningur og hafi falið í sér gjöf af hálfu Samsonar í þágu stefnda, og sé hann því riftanlegur á grundvelli 131. gr. framangreindra laga, þar sem verðmæti hins selda hafi verið mun minna en nam kaupverðinu.
Stefndi mótmælir þessari fullyrðingu stefnanda og byggir á því að kaupin hafi verið ákveðin á viðskiptalegum forsendum og fráleitt sé að halda því fram að snemmsumars 2008 hafi mat aðila verið að Árvakur hf., sem MGM átti hlut í, væri verðlaust félag.
Eins og fram kemur í stefnu er talið er að þrjú meginatriði þurfi að vera uppfyllt til að riftun geti átt sér stað á grundvelli 131. laga nr. 21/1991. Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaraukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa.
Eins og áður er rakið var stefndi dótturfélag Straums-Burðaráss , að öllu leyti í eigu Straums-Burðaráss, en Urriði var dótturfélag Straums-Burðaráss þar til það rann saman við stefnda.
Að beiðni stefnanda var Jóhann Unnsteinsson, löggiltur endurskoðandi, dómkvaddur til þess að meta virði alls hlutafjár í MGM hinn 25. júní 2008 er Samson gerði samning við Urriða um kaup á MGM. Á þeim tíma var eina eign félagsins 16,7% hlutur í Árvakri hf.
Eins og áður segir nam kaupvirði MGM 822.428.734 krónum. Niðurstaða matsmanns í matsgerð hans, sem er dags. 16. júní 2011, og hefur ekki verið hnekkt, er hins vegar sú að virði alls hlutafjár í MGM, hinn 25. júní 2008, hafi verið 304.294.303 krónur. Sé litið til þess verður að líta svo á að gerningurinn hafi leitt til eignarýrnunar hjá stefnanda og eignaaukningar hjá stefnda og séu því fyrri tvö skilyrði þess að riftun geti átt sér stað uppfyllt, sbr. það sem áður segir.
Í ljósi þessa kemur þá til skoðunar hvort kaupsamningur aðila hafi verið gjafagerningur og tilgangur Samsonar með gerð kaupsamningsins hafi verið að gefa, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt matsgerð nam verðmæti hlutabréfa í MGM 518.134.431krónu lægri fjárhæð en nam kaupverði hlutanna. Það eitt og sér nægir þó ekki til þess að ráðstöfuninni verði rift sem örlætisgerningi á grundvelli 131. gr. gjaldþrotalaga. Líta verður jafnframt til þess hvort ráðstöfunin hafi falið í sér gjafatilgang.
Óttar Pálsson, var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums Burðaráss og sat, sem starfsmaður þess félags, í stjórn Urriða ehf. Spurður um hvernig ákvarðanir voru teknar um sölu eigna úr dótturfélögum Straums Burðaráss, eins og t.d. Urriða, bar hann að mál hefðu farið í gegnum ákveðið ferli, eða nefnd, þar sem ákvörðun var tekin. Gerði hann ráð fyrir að sama hafi átt við um söluna á MGM. Bar Óttar að hann hefði verið starfsmaður Straums Burðaráss og hafi ekki tengst umræddum félögum með öðrum hætti. Bar Óttar að MGM hefði verið selt á því verði sem það var bókfært hjá Straumi Burðarási. Kvað hann Samson hafa verið í eigu Björgólfsfeðga sem einnig hafi átt stóran hlut í Straumi Burðarási í gegnum annað félag í sinni eigu og hafi Samson verið í töluverðum viðskiptum við Straum Burðarás og hafi talist til viðskiptamanna þess félags. Samson hafi fengið lán hjá Straumi Burðarási vegna kaupa sinna á MGM og hafi lánveitingin tengst kaupunum. Bar Óttar að hann teldi að aðilar hafi komið að umræddum gerningum á viðskiptalegum forsendum.
Ágúst H. Leósson undirritaði kaupsamning milli Samsonar og Forsíðu ehf. fyrir hönd beggja samningsaðila. Hann bar fyrir dómi að við kaupin hafi menn fyrst og fremst verið að horfa til þess hvað framundan væri hjá Árvakri hf. og til áætlana stjórnenda félagsins sem þeir hafi haft aðgang að. Gert hafi verið ráð fyrir miklum viðsnúningi í rekstri Árvakurs hf. Hafi stærsti pósturinn úr þessum áætlunum falist í lækkun kostnaðar við prentun og dreifingu. Þá hafi menn verið að stefna að því að ná yfir 50% hlut í Árvakri hf. Bar hann að kaupin og lánveitingin hefðu haldist í hendur þannig að ef kaupin hefðu ekki átt sér stað hefði lánið ekki verið veitt. Spurður um hvort umræddur kaupsamningur hafi falið í sér gjöf til stefnda kvað hann Samson ekki haft neina ástæðu til þess að gefa stefnda eitthvað. Umræddur hlutur hafi bara verið til sölu á þessum tíma.
Sigþór Sigmarsson var stjórnarmaður í Samson. Bar hann fyrir dómi að viðskiptalegar ástæður félagsins fyrir kaupum á MGM hafi verið þær að Samson hefði, í gegnum tengd félög, þegar átti nokkurn hlut í Árvakri hf. og hafi haft áhuga á að stækka þann hlut og þessi hlutur Straums hafi verið til sölu. Árvakur hf. hafi gengið í gegnum rekstarerfiðleika á þessum tíma en uppi hafi verið áætlanir um að safna frekara hlutafé og til staðar hafi verið bjartsýnar rekstraráætlanir á þessum tíma. Hafi það verið mat manna að það væri gerlegt verkefni að laga þennan rekstur. Ætlunin hafi ekki verið að gera stefnda greiða eða gefa honum gjafir. Greitt hafi verið það verð sem stefndi setti upp. Hafi stefndi ekki boðið upp á miklar samningaviðræður um kaupverðið.
Í málinu hefur verið lagt fram kynningarrit Árvakurs hf., sem mun hafa verið kynnt í maí 2008. Ber það með sér að í undirbúningi voru ýmsar aðgerðir til þess að bæta reksturinn. Stjórn félagsins var endurnýjuð með sókn í huga. Stefnt var að hlutafjáraukningu, auknum rekstrarhagnaði og jafnframt var að því stefnt að tryggja stöðu félagsins á markaði. Kemur þar fram að stefnt var að 50 milljóna rekstrarhagnaði á árinu 2008 og 500 milljóna rekstarhagnaði á árinu 2009 vegna breyttra og batnandi markaðsforsendna og hagræðingar í rekstri. Ber ritið með sér að þrátt fyrir erfiðleika sem höfðu verið í rekstri félagsins sáu menn fyrir sér ný tækifæri til þess að bæta reksturinn.
Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að MGM hafi verið verðlaust eða verðlítið á þeim tíma er kaupin fóru fram vísar stefnandi til skýrslu stjórnar Árvakurs hf. um starfsemina á árinu 2008 og fyrstu þrjá mánuði ársins 2009. Skýrslan ber með sér að erfiðleikar voru í rekstri Árvakurs á fyrstu mánuðum ársins 2008. Skýrslan ber einnig með sér að í apríl/maí 2008 var hafist handa um að treysta reksturinn með því að lækka kostnað og auka hlutafé. Þá var reynt að koma á samningum um samnýtingu prentsmiðju og dreifikerfis með 365 sem gaf út Fréttablaðið. Á haustmánuðum 2008 tókust samningar um að Árvakur hf. keypti Fréttablaðið. Var sá samningur gerður með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda, sem síðar kom í ljós að var ekki veitt.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að með aukningu hlutafjárins, með samningum sem áttu að tryggja kostnaðarhagræðingu (miðað við sameiginlega prentun og dreifingu en útgáfu í tveimur félögum) og loks áframhaldandi kostnaðarhagræðingu töldu stjórn og stjórnendur að félagið væri komið fyrir vind með starfsemina, eins og segir í skýrslunni.
Þessi skýrsla stjórnar Árvakurs hf. lá hins vegar ekki fyrir fyrr en á vordögum 2009, eða tæpu ári eftir að umdeildur kaupsamningur Samsonar og Urriða um kaup á MGM ehf. var gerður.
Til stuðnings þeirri málsástæðu sinni að umdeildum kaupsamningi verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991hefur stefnandi vísað til þess að kaupin hafi átt sér stað milli tengdra aðila og því séu meiri líkur á því að um gjafagerning hafi verið að ræða. Rökstyður stefnandi meint tengsl með því að Óttar Pálsson hafi verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums Burðaráss sem veitti Samson lán til kaupanna og jafnframt verið stjórnarmaður í Urriða og að Ágúst H. Leósson ritaði undir kaupsamning Samsonar og Forsíðu ehf. fyrir hönd beggja aðila.
Í 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991er hugtakið „nákomnir“ í
skilningi laganna skilgreint. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á nein tengsl hinna tilgreindu manna við þau félög sem aðilar voru að umdeildum kaupsamningi þannig að málsaðilar teljist nákomnir í skilningi gjaldþrotaskiptalaga.
Í málflutningi stefnanda kom fram að eignatengsl voru milli Straums Burðaráss og þáverandi eigenda Samsonar. Í sóknargögnum er engin grein gerð fyrir slíkum tengslum, eða stjórnunarlegum tengslum, og verður ekki séð að á þeim sé byggt í málinu.
Þegar framanritað er virt, litið er til gagna málsins og jafnframt litið til þeirra framburða sem áður eru raktir þykir ekkert það fram komið er rennir stoðum undir þá fullyrðingu stefnanda að um gjafagerning hafi verið að ræða. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að tilgangur Samsonar með umræddum kaupum hafi verið að gefa eða hygla stefnda umfram aðra kröfuhafa þannig að líta megi svo á að um gjafagerning hafi verið að ræða. Er því ekki fallist á að kaupsamningi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og Eignarhaldsfélagsins Urriða ehf. um kaup á MGM eignarhaldsfélagi ehf. verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 800.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Birni Jóhannessyni hagfræðingi og Knúti Þórhallssyni endurskoðanda.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Straumur Equities ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.