Hæstiréttur íslands
Mál nr. 119/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Aðför
- Endurupptaka
|
|
Föstudaginn 9. mars 2012. |
|
Nr. 119/2012.
|
Gísli Guðmundsson (Eiríkur S. Svavarsson hrl.) gegn Rafsveini ehf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Aðför. Endurupptaka
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns varðandi aðfarargerð R ehf., sem sýslumaður hafði fellt úr gildi með vísan til þess að fjárkrafa félagsins á hendur G væri fyrnd, og lagt fyrir hann að endurupptaka aðfararbeiðnina. Hæstiréttur taldi að G nyti kæruheimildar þar sem líta yrði svo á að í bókun sýslumanns hefði falist synjun á endurupptöku aðfarargerðarinnar og að R ehf. hefði borið þá synjun undir héraðsdóm, sem hefði ógilt ákvörðun sýslumanns. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2012, sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2012, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 27. október 2011, um að fella aðfarargerð nr. 037-2011-02715 niður, og lagt fyrir sýslumann að endurupptaka aðfararbeiðni varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og 4. mgr. 91. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi staðfest. Að því frágengnu krefst hann lækkunar á kröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Helstu málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Hinn 25. október 2001 var hjá sýslumanninum í Kópavogi gerð árangurslaus aðför hjá sóknaraðila fyrir fjárkröfu varnaraðila samkvæmt stefnu sem árituð hafði verið um aðfararhæfi í Héraðsdómi Reykjaness 5. júní 2001. Með bréfi til sýslumannsins í Kópavogi 7. september 2011, sem stimplað er um móttöku 8. sama mánaðar, óskaði varnaraðili eftir endurupptöku aðfarargerðarinnar með vísan til 6. töluliðar 66. gr. laga nr. 90/1989. Var jafnframt óskað eftir því í bréfinu að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila fyrir kröfu varnaraðila. Þegar málið var tekið fyrir hjá sýslumanni 27. október 2011 féllst sýslumaður á sjónarmið sóknaraðila um að krafan væri fyrnd og færði til bókar að hann ákvæði „að fella gerðina niður.“ Varnaraðili bar þessa ákvörðun undir héraðsdóm með bréfi, sem stimplað er um móttöku 10. nóvember 2011. Gerði hann þá kröfu fyrir héraðsdóminum, sem lýst er í hinum kærða úrskurði, að framangreind ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi og „að úrskurðað verði um að gerðinni verði breytt þannig að hún fari fram og að hún verði þá endurupptekin.“ Með hinum kærða úrskurði var orðið við kröfum varnaraðila á þann hátt að ákvörðun sýslumanns um að fella gerðina niður var felld úr gildi og kveðið á um að „aðfararbeiðnin“ skuli endurupptekin.
Líta verður svo á að í bókun sýslumanns 27. október 2011 hafi, þrátt fyrir orðalagið, falist synjun á endurupptöku gerðarinnar 25. október 2001, sem varnaraðili hafði óskað eftir með erindi sínu 8. september 2011. Þá verður jafnframt að telja að varnaraðili hafi borið þessa synjun undir Héraðsdóm Reykjaness með bréfinu 10. nóvember 2011, þrátt fyrir að orðalagið í erindi hans hafi verið með sama hætti og í bókun sýslumanns. Hið sama verður sagt um úrskurðarorð hins kærða úrskurðar. Í þeim felst ógilding á synjun sýslumanns á að endurupptaka aðfarargerðina. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 27. október 2011 bókaði hann „að hann hefði ákveðið að fella gerðina niður. Gerðinni er þannig lokið.“ Með hliðsjón af þessu verður talið að sóknaraðili njóti heimildar til kæru þessarar í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989.
Með hliðsjón af því sem hér var rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Eftir atvikum þykir rétt að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 27. október 2011 um að synja beiðni varnaraðila, Rafsveins ehf., um endurupptöku aðfarargerðar hjá sóknaraðila, Gísla Guðmundssyni, sem fram fór 25. október 2001, er felld úr gildi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2012.
Með beiðni, dagsettri 3. nóvember 2011, sem móttekin var 10. nóvember s.á., krafðist Rafsveinn ehf., kt. 601296-3499, Brúnastöðum 59, Reykjavík, þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi frá 27. október sl., um að fella aðfarargerð niður og að úrskurðað verði um að gerðinni verði breytt þannig að hún fari fram og að hún verði þá endurupptekin. Þá er gerð krafa um málskostnað.
Mál þetta var þingfest 18. nóvember sl. Mætti varnaraðili og var málinu frestað til framlagningar greinargerðar varnaraðila til 30. nóvember sl.
Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru að ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi þess efnis að fella niður aðfarargerð nr. 037-2011-02715 verði staðfest.
Til vara er gerð krafa um að krafa sóknaraðila verði lækkuð verulega.
Þá er krafist málskostnaðar.
Munnlegur málflutningur fór fram um kröfu sóknaraðila þann 24. janúar sl. og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.
Málavextir:
Málavextir eru þeir, samkvæmt gögnum málsins, að stefna var árituð þann 5. júní 2001 í Héraðsdómi Reykjaness. Í stefnu kemur fram að stefnandi, Rafsveinn ehf., krefst þess að stefndi, Gísli Guðmundsson, varnaraðili máls þessa, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 433.984 krónur ásamt bankakostnaði, 6.510 krónur, auk dráttarvaxta af höfuðstól frá 15. janúar 2001 til greiðsludags. Þá var krafist málskostnaðar. Þann 25. október 2001 fór fram fjárnám hjá sýslumanninum í Kópavogi þar sem sóknaraðili krafði varnaraðila um ofangreinda fjárhæð ásamt dráttarvöxtum og áföllnum kostnaði. Var mætt af hálfu varnaraðila og lýsti hann yfir eignaleysi sínu. Var gerðinni lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989. Var gerðarþola leiðbeint um þýðingu fjárnámsins og gerði hann engar athugasemdir við bókun sýslumanns. Þann 7. september 2011 sendi sóknaraðili beiðni um endurupptöku aðfarar til sýslumannsins í Kópavogi og var beiðnin móttekin 8. september sl. Var gerð krafa um að fjárnám yrði gert hjá varnaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 1.624.559 krónur. Voru dráttarvextir tilgreindir í kröfunni til 7. september 2011. Þann 27. október sl. var ofangreind aðfarargerð tekin fyrir hjá sýslumanninum í Kópavogi. Var mætt af hálfu sóknaraðila og varnaraðili mætti sjálfur ásamt lögmanni sínum. Kemur fram í bókun sýslumanns að lögmaður gerðarþola hafi bent á að krafan væri fyrnd. Segir að fjárnámsheimildin byggi á stefnu áritaðri þann 5. júní 2001 og beiðni um endurupptöku aðfarar sé dagsett 7. september 2011 eða eftir að fyrningarfrestur dómkröfunnar var liðinn samkvæmt skýrum ákvæðum fyrningarlaga nr. 14/1905, sem gildi um kröfu þessa. Mótmælti gerðarþoli einnig sundurliðun kostnaðar og sérstaklega vöxtum af kostnaði. Var síðan bókað að sýslumaður hafi fallist á rök gerðarþola um fyrningu og ákveðið að fella gerðina niður.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að krafa sóknaraðila hafi ekki verið fyrnd. Byggir sóknaraðili á því að með aðfarargerð þann 25. október 2001, er gert var árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila, hafi tíu ára fyrningarfrestur kröfunnar verið rofinn og nýr tíu ára fyrningarfrestur byrjað að líða frá og með þeim degi. Með aðfararbeiðni þann 7. september sl., sem móttekin var daginn eftir hjá sýslumanninum í Kópavogi, hafi tíu ára fyrningarfrestur kröfunnar verið rofinn en fyrningarfrestur hafi verið til 25. október 2011. Krafa hans um endurupptöku aðfarargerðar hafi sannanlega borist fyrir þann tíma. Því hafi fyrning kröfunnar verið rofin og sýslumanni borið að taka gerðina fyrir. Það hafi sýslumaður ekki gert.
Sóknaraðili byggir á 52., 65. og 92. gr. aðfararlaga. Kröfuna um málskostnað byggir hann á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili bendir í fyrsta lagi á að dómkrafa sóknaraðila sé ekki í samræmi við áskilnað aðfararlaga nr. 90/1989. Málskot sóknaraðila byggi á ákvæðum 15. kafla aðfararlaga, enda felldi sýslumaður umrædda gerð niður þann 27. október 2011. Í 1. mgr. 95. gr. aðfararlaga segi að dómari skuli í úrskurði sínum kveða á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar. Sé kveðið á um breytingu gerðarinnar skuli tiltekið nákvæmlega í hverju hún felist. Telji varnaraðili að kröfugerð sóknaraðila, sem lúti að því að dómari eigi að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns, og geri jafnframt kröfu um að gerðin skuli fara fram og að hún verði endurupptekin, sé kröfugerð sem sé í engu samræmi við skýran áskilnað 95. gr. aðfararlaga. Því þurfi að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að ótvírætt komi fram í niðurlagi 5. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 að fyrningarfrestur á dómkröfum teljist frá dómsuppsögu án tillits til fjárnámsfrests. Með áritun stefnu sóknaraðila á hendur varnaraðila þann 5. júní 2001 hafi krafa sóknaraðila orðið að dómkröfu og aðfararheimild hennar byggð á því að um dómkröfu væri að ræða. Umrædd dómkrafa hafi fyrnst þann 5. júní 2011. Ákvæði aðfararlaga nr. 90/1989 byggi á grundvallarreglum fyrningarlaga nr. 14/1905. Komi það meðal annars fram í 9. gr. laganna þar sem aðfararlögin tilgreini sérstaklega að undirliggjandi aðfararhæf krafa megi ekki vera fyrnd þegar aðfarar sé krafist. Inntak þessarar lagareglu gildi um allar aðfararheimildir. Sérstök tilvísun laga nr. 14/1905 til þess að fyrningarfresturinn sé óháður fjárnámsfresti feli í sér að upphaf fyrningarfrestsins hljóti að miðast við það tímamark þegar krafan varð dómkrafa.
Þá segir varnaraðili að ákvæði 52. gr. aðfararlaga sé sérregla um slit á fyrningu. Þar sé talað um að fyrningu sé slitið á aðfararhæfri kröfu ef aðfararbeiðni berist sýslumanni fyrir lok fyrningartíma. Í ákvæðinu sé ekkert kveðið á um það að upphafstími fyrningarinnar sé þegar sjálf gerðin fari fram, í þessu tilviki 25. október 2001. Þvert á móti tilgreini ákvæðið „aðfararhæf krafa“. Sannanlega hafi umrædd krafa orðið aðfararhæf þegar stefnan hafi verið árituð þann 5. júní 2001. Þá hafi krafan fallið undir 1. tl. 1. gr. laga nr. 90/1989. Sú túlkun að hægt sé að halda lífi í aðfararhæfri kröfu endalaust með því að leggja ætíð fram endurupptökubeiðni fyrir lok aðfararfrests gangi í bága við meginreglur um lok kröfuréttinda fyrir fyrningu.
Þá telur varnaraðili að staðfesta beri ákvörðun sýslumanns þar sem sóknaraðili hafi á engan hátt hreyft neinum mótmælum við kröfu varnaraðila við gerðina. Þá hafi sóknaraðili ekki mótmælt þeirri afstöðu sýslumanns að fallast á röksemdir varnaraðila, hvað þá að hann hafi mótmælt þeirri ákvörðun sýslumanns að fella gerðina niður. Þrátt fyrir að ákvæði 15. kafla laga nr. 90/1989 byggi á því að báðir málsaðilar geti krafist úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, takmarkist sá réttur af málskotsákvæðum 14. kafla laganna. Málskotsheimildir 14. kafla aðfararlaga séu fyrst og fremst til handa gerðarbeiðanda og miði að því að takmarka rétt gerðarþola til að tefja gerð með málskoti. Aðeins í tveimur tilvikum heimili aðfararlög að gerðarþoli skjóti úrlausn sýslumanns til héraðsdóms við framkvæmd aðfarargerðar. Þessi framsetning aðfararlaga geri þær kröfur til gerðarbeiðanda að hann beiti málskotsheimildum sínum fyrst og fremst samkvæmt 14. kafla. Aðeins í undantekningartilvikum geti hann talist eiga rétt til málskots samkvæmt 15. kafla, sem bæði aðfararlögin og greinargerð þeirra skýri að séu fyrst og fremst málskotsheimildir gerðarþola. Verði að minnsta kosti að túlka heimildina þröngt í garð gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi geti ekki, þegar hann hafi ekki hreyft neinum mótmælum eða gert reka að því að halda fram rétti sínum á meðan á gerðinni stóð hjá sýslumanni, fengið ákvörðun sýslumanns hnekkt fyrir dómi á grundvelli 15. kafla aðfararlaga nema eitthvað alveg sérstakt komi til. Slíku sé ekki fyrir að fara í máli þessu.
Þá segir varnaraðili að fallist dómurinn ekki á kröfur varnaraðila og telji dómurinn það heimilt, þrátt fyrir ummæli greinargerðar með 65. gr. aðfararlaga, að taka til umfjöllunar dómkröfu sóknaraðila um að sýslumanni beri að endurupptaka umrædda gerð, bendi hann á að skilyrði til endurupptöku gerðarinnar skorti. Samkvæmt 6. tl. 66. gr. aðfararlaga sé eitt skilyrði þess að fjárnámsgerð verði endurupptekin það að gerðarbeiðandi geti bent á eignir til fjárnáms í þeim tilvikum sem upphaflega fjárnámið var lokið sem árangurslausu. Sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á að þetta lögbundna skilyrði til endurupptöku sé uppfyllt í máli þessu. Slíkar kröfur verði að gera til sóknaraðila áður en unnt sé að taka kröfur hans til greina. Því beri að staðfesta ákvörðun sýslumanns.
Þá telur varnaraðili að ef dómurinn fallist að einhverju leyti á kröfur sóknaraðila þá byggi hann varakröfu sína á því að það verði að taka afstöðu til einstakra þátta í kröfu sóknaraðila. Við aðfarargerðina þann 27. október sl. hafi varnaraðili mótmælt alfarið þeirri sundurliðun kostnaðar sem fram kom í aðfararbeiðninni. Í beiðninni segi að dráttarvextir til 7. september 2011 nemi 606.170 krónum. Vextir af kröfum fyrnist á fjórum árum. Sóknaraðila sé því einungis heimilt að reikna vexti á kröfuna frá 5. júní 2001 til 5. júní 2005 en ekki til 7. september 2011 eins og hann geri í endurupptökubeiðni sinni til sýslumannsins í Kópavogi. Því beri að lækka kröfu sóknaraðila sem einungis geti átt rétt til vaxta fyrir ofangreint tímabil. Þá telur varnaraðili sundurliðun kostnaðar vanreifaða og óútskýrða. Varnaraðili mótmælir einstökum kostnaðarliðum í aðfararbeiðni sóknaraðila, sérstaklega alveg óútskýrðum lið sem sóknaraðili kalli „vextir af kostnaði“ og nemi 481.271 krónu. Þessari kröfu sóknaraðila beri að hafna og beri því að minnsta kosti að lækka kröfu sóknaraðila sem henni nemi auk lækkunar vaxtakröfu.
Varnaraðili byggir meðal annars á ákvæðum laga nr. 14/1905, aðfararlögum nr. 90/1989 með síðari breytingum, lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um málskostnaðarkröfu sína vísar hann til 130., sbr. 129. gr., laganna.
Forsendur og niðurstaða.
Beiðni sóknaraðila barst dóminum innan tilskilins frests.
Varnaraðili telur að vísa beri máli þessu frá dómi án kröfu þar sem dómkrafa sóknaraðila sé ekki í samræmi við áskilnað aðfararlaga nr. 90/1989. Málskot sóknaraðila byggi á ákvæðum 15. kafla aðfararlaga, enda hafi sýslumaður fellt umrædda gerð niður þann 27. október 2011. Í beiðni sóknaraðila er gerð sú dómkrafa að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns að fella aðfarargerð niður og að gerðinni verði breytt þannig að hún fari fram og að hún verði þá endurupptekin. Telur dómari að með þessari kröfugerð séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 uppfyllt, enda skal í úrskurði dómara kveða á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar samkvæmt því sem við eigi hverju sinni. Í beiðni sóknaraðila felst að verði fallist á kröfu hans verði ákvörðun sýslumanns um að fella beiðnina niður felld úr gildi og beiðni hans endurupptekin. Verður máli þessu því ekki vísað frá dómi á grundvelli þessa.
Ágreiningur aðila snýst fyrst og fremst um fyrningu á kröfu sóknaraðila og hvort fyrning hafi verið rofin með aðfarargerð þann 25. október 2001 og þá hvort nýr tíu ára fyrningartími hafi byrjað að líða þann dag eða ekki. Sóknaraðili lagði sannanlega fram nýja aðfararbeiðni hjá sýslumanninum í Kópavogi þann 8. september 2011 en beiðni hans var móttekin þann dag. Í 52. gr. laga nr. 90/1989 segir að fyrningu aðfararhæfrar kröfu sé slitið ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni sé síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar. Beiðni sóknaraðila var móttekin 8. september 2011 og fór gerðin fram þann 27. október 2011. Verður að líta svo á að gerðin hafi farið fram án ástæðulauss dráttar. Varnaraðili telur að krafa sóknaraðila hafi verið fyrnd er hún bars sýslumanninum í Kópavogi þann 8. september 2011.
Ekki er ágreiningur um það að um kröfu sóknaraðila gildi tíu ára fyrning, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Ágreiningurinn snýr að fyrningarfresti kröfunnar. Í fræðiritum og dómaframkvæmd hefur margsinnis verið staðfest að með tilgreindum aðgerðum kröfuhafa eða skuldara rofni fyrningarfrestur kröfu. Í bókinni Kaflar úr kröfurétti, útgefin 1955, eftir Ólaf Lárusson segir að fyrningarslitin hafi það í för með sér að nýr fyrningarfrestur hefjist og sé hann venjulega jafnlangur hinum fyrri. Hinni fyrri fyrningu megi slíta með sama hætti og þannig koll af kolli. Þá segir í bókinni Aðfarargerðir eftir Markús Sigurbjörnsson, útgefin 1995, að fyrningu kröfuréttinda sé slitið komi beiðni um aðfarargerð fram hjá héraðsdómstóli eða sýslumanni áður en fyrningarfrestur rennur út. Þá kemur fram í ritinu að meginreglan í 9. gr. aðfararlaga sé sú að aðfararhæfi fyrnist samhliða kröfunni sjálfri og sömu atvik leiði til slita á fyrningu aðfararhæfis og leiða til slita á fyrningu kröfunnar sjálfrar. Þá segir jafnframt að í 52. gr. aðfararlaga felist sérstakar reglur um það hvernig sé hægt að slíta fyrningu með aðgerðum í tengslum við aðför. Þar komi nánar tiltekið fram að það valdi slitum á fyrningu aðfararhæfrar kröfu, að aðfararbeiðni berist héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartímans og aðfarargerðinni sé síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar. Þá segir að þessi regla sé ekki bundin við það eitt að aðfararhæfinu sé slitið, heldur felist um leið í reglunni að fyrningu á kröfunni sjálfri verði slitið á þennan hátt.
Fyrningu kröfu sóknaraðila var slitið með aðfarargerð þann 25. október 2001. Við þá aðför var fyrningarfrestur aðfararhæfis og kröfunnar sjálfrar rofinn. Byrjaði þá nýr tíu ára fyrningarfrestur að líða. Ný aðfararbeiðni barst sýslumanni 8. september 2011 eða innan tíu ára frá 25. október 2001. Barst sú krafa innan tilskilins frests og áður en fyrningarfrestur kröfunnar og aðfararhæfis hennar var liðinn. Bar sýslumanni því að taka kröfuna til efnismeðferðar eins og krafa sóknaraðila var fram lögð.
Þá telur varnaraðili að staðfesta beri ákvörðun sýslumanns þar sem sóknaraðili hafi á engan hátt hreyft neinum mótmælum við kröfu varnaraðila um að málið yrði fellt niður.
Í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 segir að málsaðilum, sem hagsmuni hafi af gerðinni, sé heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Beiðni sóknaraðila var tekin fyrir þann 27. október 2011 og móttekin hjá dómstólnum þann 10. nóvember 2011. Barst beiðnin því innan tilskilins frests. Í greinargerð með 1. mgr. 92. gr. segir að í engu skipti hvort málsaðili hafi haft uppi mótmæli eða áskilnað jafnharðan um viðkomandi atriði gerðarinnar eða hvort hann hafi yfirleitt verið staddur við hana. Verður að þessu leyti ekki byggt á málsástæðu varnaraðila varðandi þetta atriði.
Þá kveður varnaraðili skilyrði 6. tl. 66. gr. aðfararlaga ekki uppfyllt þar sem sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann geti bent á eignir til fjárnáms en svo beri að gera hafi fyrra fjárnáminu lokið án árangurs. Í ofangreindu ákvæði eru fyrirmæli um framkvæmd fjárnáms hjá sýslumanni en ekki skilyrði sem þurfi að uppfylla við málsmeðferð fyrir dómi. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Þá mótmælir varnaraðili fjárhæðum og útreikningi fjárnámskröfu sóknaraðila. Fyrir dóminum staðfesti sóknaraðili að krafa hans um dráttarvexti næði einungis fjögur ár aftur í tímann og væri fyrning dráttarvaxta forsenda fyrir þeim útreikningi. Að öðru leyti mótmælti sóknaraðili kröfu varnaraðila að þessu leyti. Sóknaraðili hefur ekki vísað ágreiningi um fjárhæð kröfunnar til efnisúrlausnar til dómsins og verður ekki skorið úr um réttmæti útreiknings sóknaraðila í máli þessu.
Að öllu ofansögðu virtu verður krafa sóknaraðila tekin til greina þannig að ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi þann 27. október 2011, um að fella aðfararbeiðni í málinu 037-2011-02715 niður, er felld úr gildi. Ber sýslumanninum í Kópavogi að endurupptaka ofangreinda aðfararbeiðni sóknaraðila.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r a r o r ð.
Ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi, um að fella aðfarargerð nr. 037-2011-02715 niður, er felld úr gildi. Skal aðfararbeiðnin endurupptekin.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.