Hæstiréttur íslands

Mál nr. 8/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 9

 

Þriðjudaginn 9. janúar 2001.

Nr. 8/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Elín Vigdís Hallvarðsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(enginn)

                                     

Kærumál. Gæsluvarðhald. A og B liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2001.

Árið 2001, laugardaginn 6. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [ . . . ], ríkisborgara í Alsír, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 6. febrúar nk.

[ . . . ]

Kærði er grunaður um tilraun til manndráps með því að hafa ráðist á Y aftan frá og stungið hann með hnífi í háls og á brjóstvegg í gærkvöld við veitinga­staðinn Hróa Hött í Faxafeni í Reykjavík  Samkvæmt læknisvottorði komu í ljós við skoðun tvö djúp stungusár á vinstri líkamshelmingi, annað á hálsi sem er um 15 mm og djúpt og 10 cm rispa á húðinni út frá því sem liggur fram á við og miðlægt.  Hitt sárið er hliðlægt á brjóstvegg, aftan til í beinni línu frá mótum brjóst og lendhryggjar. Tekið er fram að erfitt sé að meta dýpt sáranna svo vel sé en ljóst sé að bæði sárin liggi nærri mikilvægum líffærum (slagæðar, vélinda, barki, lungu, nýru og milta) og af eðli þeirra og staðsetningu megi ætla að litlu hefði mátt muna að áverkinn næði til þeirra.

Ætlað brot kærða getur varðað við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Kærði hefur neitað sakargiftum í málinu, en fyrir liggur viðurkenning hans á því, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, að hafa áður veist að Y. Gögn málsins þykja benda til þess að kærði hafi ráðist á Y í tiltekið sinn og veitt honum framangreinda áverka. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og hætta er á að kærði, sem er erlendur ríkisborgari, geti torveldað rannsókn þess eða reynt að komast úr landi ef hann gengur laus. Með vísan til þess og rannsóknargagna málsins er fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt.  Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldinu sé markaður skemmri tími en krafist er.

Samkvæmt þessu verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ :

Kærði, X, kt. [ . . . ], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. febrúar nk. kl. 16.00.