Hæstiréttur íslands
Mál nr. 701/2011
Lykilorð
- Manndráp
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. apríl 2012. |
|
Nr. 701/2011. |
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Redouane
Naoui (Erlendur Þór Gunnarsson hrl. Þyrí H. Steingrímsdóttir hdl.) |
Manndráp. Skaðabætur.
R var ákærður fyrir
manndráp með því að hafa stungið A með hnífi en afleiðingar árásarinnar urðu
þær að slagæð í hálsi A fór í sundur og hann lést. Brot R þótti sannað og var
hann sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þótti
R hafa sýnt ásetning til verksins en með vísan til þess og 1., 2., 3., 6., og
7. töluliðar 70. gr. almennra hegningarlaga var refsing hans ákveðin fangelsi í
16 ár. Þá var honum gert að greiða dóttur A 3.084.927 krónur ásamt vöxtum í
skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir
Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til
Hæstaréttar 6. desember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af
hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til
vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega að einkaréttarkröfu verði
vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
D hefur ekki látið málið til sín taka
fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist þess að staðfest verði
ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hennar, sbr. 1. mgr. 208 gr. laga
nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Fallist er á niðurstöðu hins áfrýjaða
dóms um að ásetningur ákærða hafi staðið til brots gegn 211. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 og skiptir þá ekki máli hvort ásetningurinn teljist
hafa myndast hjá honum eftir að hann kom inn á veitingastaðinn á ný eða áður en
hann fór þaðan nokkru áður. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan
til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um refsingu ákærða,
frádrátt gæsluvarðhaldsvistar hans frá refsingunni og sakarkostnað. Hinn
áfrýjaði dómur verður með vísan til forsendna einnig staðfestur um
skaðabótakröfu D á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Ákærða verður gert að greiða allan
áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ákæruvalds um sakarkostnað og
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti
svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður um
refsingu ákærða, Reduane Naoui, frádrátt gæsluvarðhaldsvistar hans frá 15. júlí
2011 frá refsingunni og sakarkostnað.
Ákærði greiði D 3.084.927 krónur með
vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af
2.456.874 krónum frá 26. júlí 2011, en 4,5% ársvöxtum af 628.053 krónum frá 1.
ágúst 2011, í báðum tilvikum til 26. september 2011, en með dráttarvöxtum
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og
272.963 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað
málsins, 580.736 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember
2011.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 4. nóvember
2011, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 5. október
2011 á hendur Redouane Naoui, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir manndráp með
því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 14. júlí 2011, á veitingastaðnum Monte
Carlo, Laugavegi 34, Reykjavík, veist að A, kt.[...], með hnífi og stungið hann
í hálsinn vinstra megin með þeim afleiðingum að slagæð fór í sundur og lést A
hinn 26. júlí 2011 af völdum áverkanna.
Telst brot ákærða varða við 211. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er
krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til
greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu B og C,
f.h. D, kt.[...], er þess krafist að ákærði verði
dæmdur til greiðslu bóta samtals að fjárhæð 5.084.927 krónur. Krafist er
miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna og bóta vegna
útfararkostnaðar að fjárhæð 456.874 krónur, eða samtals 4.456.874 krónur, auk
vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr.
laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 26. júlí 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu,
en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga
frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er bóta fyrir missi
framfæranda að fjárhæð 628.053 krónur, auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1.
ágúst 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu
bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um
vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Einnig
er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, eða
samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti
á málflutningsþóknun.
Verjandi
ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af
ákæru, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er krafist frávísunar bótakröfu, en til vara er krafist lækkunar
bótakröfu. Loks krefst verjandi hæfilegra
málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 14. júlí 2011
barst tilkynning klukkan 23:38 um að maður gengi berserksgang á veitingastaðnum
Monte Carlo við Laugaveg í Reykjavík og hefði hann stungið mann í hálsinn. Er
lögreglumenn komu á vettvang lá A slasaður á gólfi, rétt innan við anddyri. Var
lögreglumönnum vísað á ákærða, sem viðstaddir sögðu
hafa ráðist á A. Ákærði sat við spilakassavél innst inni í veitingasalnum, en á
gólfinu skammt þar frá lá búrhnífur með svörtu skafti og löngu blaði. Kemur
fram í skýrslunni að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi og
hafi ekki svarað spurningum lögreglumanna.
Ákærði var
handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann
gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun. Var tekið blóðsýni úr ákærða klukkan
1:58 og þvagsýni strax á eftir. Samkvæmt matsgerð
Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri
25. ágúst 2011, mældust 2,25 alkóhóls í blóði ákærða
og 3,22 í þvagi. Í þvagi fundust amfetamín, kannabínóíðar og
koffein. Tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 2,1
ng/ml, en amfetamín var ekki mælanlegt í blóði. Segir að
niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að ákærði hafi verið undir áhrifum
tetrahýdrókannabínóls þegar blóðsýni var tekið. Hann
hafi einnig neytt amfetamíns, en ekki lengur verið undir áhrifum þess þegar
blóðsýni var tekið. Styrkur alkóhóls í blóði og
þvagi bendi til mikillar ölvunar,
Samkvæmt læknisvottorði E, sérfræðings í almennum skurðlækningum,
dagsettu 15. júlí 2011, var A fluttur með sjúkrabifreið á
bráðamóttöku Landspítala og kom þangað laust eftir klukkan 1:00 um nóttina.
Kemur fram að er sjúkraflutningamenn komu á vettvang hafi A legið í stórum
blóðpolli og hafi hann ekki andað. Gerður hafi verið
barkaskurður á staðnum og A barkaþræddur og
„ventileraður“. Við komu á bráðamóttöku hafi A verið meðvitundarlaus, með mjög
lágan blóðþrýsting og hraðan púls. Bæði sjáöldur hafi
verið útvíkkuð og lítið brugðist við ljósi.
Stunguáverki hafi verið á hálsi, nánar tiltekið þriggja cm langur skurður
vinstra megin á hálsinum, sem hafi fossblætt úr. A
hafi verið gefið neyðarblóð og hafi hann við það
lagast í lífsmörkum. Hann hafi síðan verið fluttur á
skurðstofu til bráðaaðgerðar. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að um
lífshættulegan áverka væri að ræða og ekki hægt að
segja til um hvort A hefði hlotið varanlegan heilaskaða.
Meðal gagna
málsins er útdráttur úr sjúkraskrá A þar sem lýst er
aðgerð sem hann gekkst undir aðfaranótt 15. júlí.
Kemur fram að innri hálsslagæð hafi verið skorin u.þ.b. 2 cm fyrir ofan
greiningu og hafi hún verið skorin í gegn að þremur
fjórðu hlutum. Var slagæðin lagfærð með saumi. Samkvæmt gögnum gjörgæsludeildar frá 19. júlí
leiddi myndataka í ljós umfangsmikið drep á dreifingarsvæði vinstri miðju
slagæðar í heilahimnu, ásamt altækri blóðþurrð í heila. Var A
fluttur á líknardeild í kjölfarið. Eftir skoðun 22.
júlí er skráð að sjúklingur sé nær því í dauðadái.
Hann búi við víðtækar, óafturkræfar heilaskemmdir og
óvirka stöðu. Verði honum eingöngu veitt líknarmeðferð.
Samkvæmt vottorði F, yfirlæknis á líknardeild, lést A hinn
26. júlí.
G meinafræðingur annaðist réttarkrufningu á líki A hinn 27. júlí
og liggur fyrir skýrsla hennar um krufningu. Í kafla undir fyrirsögninni
hauskúpuhol kemur m.a. eftirfarandi fram: „Í vinstra
heilahveli aftan til nálægt sjónberki er svæði um það bil 2 sm þar sem
börkurinn er ekki almennt séð afmarkaður af hvítu efni. Á því svæði er heilinn
mýkri og ákveðin blæðing umhverfis. Hún er um það bil
2 sm að lengd, 1 sm að breidd og 1 sm að hæð. Botnhnoð er reglulega uppbyggt. Á vinstri hlið nálægt
miðjubotnhnoði er annað fleigdrep sem mælist um það bil 3 sm, þar sem heilinn
hefur mýkst og nokkur blæðing er umhverfis.“ Í kafla
um líffæri í hálsi og brjóstholi segir eftirfarandi:
„Innri grein hálsslagæðar sýnir láréttan skurð sem gengur nær því gegnum alla
slagæðina. Honum er lokað með hvítum þræði. Skurðurinn
er um það bil 1 sm fyrir ofan þann stað sem æðin skiptist.“
Þá kemur fram að lungnaberkja innihaldi dauflitt gulhvítt
slím. Niðurstöður krufningar eru skráðar berkjulungnabólga, láréttur
skurður í innri grein vinstri slagæðar eftir handlækningasaum og fleygdrep í vinstra heilahvolfi, einkum í aftari hlutum.
Í niðurlagi skýrslunnar kemur eftirfarandi fram: „Dánarorsökin er
berkjulungnabólga. Ekki verður betur séð en að berkjulungnabólga þessi sé
afleiðing nokkuð langs sjúkrahúsdvalartíma sem nemur
1½ viku. Sjúkrahúsdvölin var nauðsynleg vegna skurðarins í
innri hálsslagæð. Eftir því sem best er vitað
er áverki á slagæðinni afleiðing hnífsstunguárásar. Þar sem tengsl eru á milli
árásarinnar og andlátsins er dánarorsökin ekki af eðlilegum orsökum.“
Meðal gagna málsins eru upptökur úr öryggismyndavél veitingastaðarins
Monte Carlo frá 14. júlí 2011. Á myndskeiði, sem hefst klukkan 23:26, sjást ákærði og A í eldhúsi
veitingastaðarins. A situr við borð, en ákærði sest hjá honum og virðast þeir ræða saman. Fljótlega rís ákærði á fætur og virðist koma til einhverra stympinga á milli þeirra, en
maður sem sést koma inn um dyrnar grípur inn í og snýr ákærða niður. Á
myndskeiði, sem hefst klukkan 23:43, sést ákærði koma
inn á veitingastaðinn og sýnast þeir A eiga orðaskipti. Þá sést hvar
starfsstúlka á veitingastaðnum gengur á milli þeirra og
virðist reyna að bægja ákærða í átt að útidyrum. Sést ákærði síðan stökkva fram
hjá konunni og leggja til A. Lendir lagið vinstra
megin á hálsi A, sem fellur niður í kjölfarið. Á myndskeiði sem
hefst klukkan 23:44:44 sést ákærði ganga inn eftir veitingasalnum að eldhúsi,
þar sem hann snýr sér að tveimur mönnum sem þar eru við spilakassa. Annar
mannanna tekur upp stól og kastar í ákærða. Í
kjölfarið verður atgangur á milli mannanna þriggja og
virðist ákærði liggja á gólfinu þegar yfir lýkur. Rétt er að taka fram að
athugun lögreglu leiddi í ljós að klukka sem tengdist
eftirlitsmyndakerfinu var um 6 mínútum á undan rauntíma.
Vitni sem lögregla ræddi við báru að ákærði hefði yfirgefið
veitingastaðinn í kjölfar atviksins í eldhúsinu. Samkvæmt
útreikningum lögreglu, miðað við framangreindar tímasetningar, liðu um 15
mínútur frá því ákærði yfirgaf veitingastaðinn þangað til hann sneri þangað
aftur. Í skýrslu H rannsóknarlögreglumanns frá 15.
júlí sl. kemur fram að hann hafi rætt við I, kunningja
ákærða, sem hefði skýrt frá því að hann hefði rætt við ákærða í síma um klukkan
23:00 kvöldið áður og hafi ákærði þá sagst vera í vandræðum og yrði líklega
hægt að hitta hann næst á lögreglustöð. Athugun lögreglu leiddi í ljós að
hringt hefði verið tvívegis úr síma, sem talið var að I
hefði fengið að láni, í síma ákærða. Var fyrra símtalið klukkan 23:32 og varði í 62 sekúndur, en hið síðara klukkan 23:34 og varði
í 29 sekúndur. Vitnið I kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð
málsins.
Lögregla lagði
hald á hnífinn sem fannst á vettvangi. Reyndist vera um að ræða búrhníf með bjúgblaði, smátenntan á annarri
hliðinni. Hnífurinn mældist 25,8 cm á lengd, hnífsblaðið 12 cm á lengd og
skeftið 13,8 cm. Hnífsblaðið var breiðast við skeftið, 3 cm. Hnífurinn vó 49,8
g. Blóðkám var frá oddi og 4,5 cm inn á hnífsblaðið. Engin
fingraför fundust á hnífnum.
Sýni, sem tekin voru úr bletti á skyrtu ákærða og af hnífsblaði,
gáfu jákvæða svörun sem blóð og voru send til DNA-samanburðarrannsóknar við
Statens Kriminalteknisk Laboratorium í Svíþjóð. Samkvæmt
greinargerð rannsóknastofunnar, dagsettri 8. september
2011, reyndust tvö sýni sem tekin voru úr skyrtunni hafa sama DNA-snið og var
það snið hið sama og DNA-snið A. Sama niðurstaða var um DNA-snið sýnis sem
tekið var af hnífsblaði.
Í málinu
liggja fyrir ljósmyndir sem lögregla tók að[...], en
ákærði dvaldist um þær mundir í herbergi sem kunningi hans, fyrrnefndur I,
hafði á leigu í húsinu. Í sameiginlegu eldhúsi, sem
íbúar í húsinu höfðu aðgang að, reyndist vera skúffa með þremur hnífum, sömu
gerðar og sá sem lögregla lagði hald á á brotavettvangi. Um var að ræða
hnífasett með fjórum hnífum, sem verslunin IKEA hafði
til sölu, en samkvæmt framansögðu vantaði einn hníf í settið sem fannst á
dvalarstað ákærða.
Ákærði gekkst
undir geðheilbrigðisrannsókn hjá J geðlækni og er
skýrsla vegna rannsóknarinnar dagsett 12. september
2011. Í niðurlagi skýrslunnar er að finna svohljóðandi samantekt geðskoðunar og viðtala við ákærða:
- Engin merki um
alvarlegar geðraskanir komu fram í viðtölum.
- Redouane er eðlilega
leiður og sér eftir því sem hann gerði, en ber
sig samt vel.
- Redouane er eðlilega
gefinn.
- Redouane var undir
miklum áhrifum áfengis og einhverjum eiturlyfjaáhrifum á verknaðardegi.
- Redouane er með
örugga sögu um að missa stjórn á drykkju sinni síðustu ár.
- Redouane hefur sögu
um að missa stjórn á sér og verða reiður ef talað
er niður til hans. Auk þess hefur hann sögu um að á hann hefur verið
ráðist áður og í neyslu er hugsanlegt að slíkt
endurupplifist og geti valdið heiftarlegum viðbrögðum, við neikvætt tal
til hans.
- Redouane er með sögu
um að drekka mikið magn af áfengi á stuttum tíma
og geta farið í óminnisástand.
- Í grunninn og þegar Redouane hefur verið edrú í lengri tíma
virðist hann geðþekkur maður án nokkurra sýnilegra alvarlegra
persónuleikavandamála.
Í
niðurstöðukafla skýrslunnar segir eftirfarandi:
- Það er niðurstaða mín
að Redouane sé örugglega sakhæfur.
- Þegar verknaðurinn
var framinn er hann örugglega mikið ölvaður auk einhverra eiturlyfja
lyfhrifa. Þetta virðist vera stærsti orsakavaldur
atburðarins. Redouane á einnig til að reiðast sé talað niður til hans og þá missa stjórn á skapi sínu.
- Redouane hefur sögu
um áfengissýki og eiturlyfja misnotkun. Hann er
þegar fyrir atburðinn farinn að fá tímabil óminnis undir áhrifum áfengis.
- Grunnpersónuleiki
Redouane er ekki auðmetinn, en ekkert bendir þó til alvarlegra
persónuleika bresta eða siðblindu í upplagi hans. Engin merki eru um
heilaskaða eða greindarskort sem eru af þeirri
gráðu að þau fyrri hann ábyrgð gerða sinna.
- Hugsanlega geta fyrri
áföll hafa haft áhrif á dómgreind Redouane á verknaðarstundu.
- Redouane iðrast
eðlilega gerða sinna og virðist nú vera
staðráðinn í að byggja líf sitt upp að nýju.
- Ljóst er að Redouane
þolir fangelsisvist og ætti að geta nýtt sér
umhverfi þess á réttan hátt til þess að bæta sig.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og
vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði neitar sök. Hann
kvaðst ekki muna hvað átti sér stað á veitingastaðnum í umrætt sinn. Þá
kvaðst hann ekki muna eftir að hafa átt samskipti við A
þetta kvöld. Hann gaf þá skýringu á minnisleysi sínu að hann
hefði verið undir áhrifum áfengis. Hann hefði drukkið mikið áfengi um
kvöldið, m.a. landa. Hann kvaðst
muna eftir því að hafa verið í grillveislu á veitingastaðnum. Næst myndi hann eftir sér á lögreglustöð eftir að hafa verið
handtekinn. Hann kvaðst ekki hafa þekkt A, en þó hafa
séð hann áður. Þá kvaðst hann hvorki minnast þess að hafa neytt fíkniefna
þetta kvöld né að hafa falast eftir fíkniefnum af A.
Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa farið að [...] þetta kvöld. Þá kvaðst hann ekki
minnast þess að hafa verið í símasambandi við I, sem
hafði til umráða herbergi í húsinu sem ákærði fékk að dveljast í. Hann kvaðst
aðeins hafa notað aðstöðu í sameiginlegu eldhúsi í húsinu til að hita sér te á
morgnana. Þá kvaðst hann ekki kannast við hníf sem
haldlagður var á veitingastaðnum og ekki vita til þess að sambærilega hnífa
væri að finna í eldhúsi á dvalarstað hans. Hann hefði aldrei
notað hnífa þar.
Ákærða voru
sýnd myndskeið úr upptökum úr öryggismyndavél á veitingastaðnum og kvaðst hann þekkja sjálfan sig þar. Hann kvaðst hins
vegar ekki muna atvik sem upptökurnar sýndu.
Vitnið K kvaðst hafa verið við vinnu sína á
veitingastaðnum þetta kvöld, þegar slagsmál urðu milli ákærða og A inni í eldhúsi. Þeir hefðu verið skildir að og hefði A sagt henni að erjur þeirra hefðu stafað af því að
ákærði hefði beðið hann um fíkniefni, sem hann hefði annaðhvort ekki átt eða
ekki viljað láta ákærða fá. Ákærði hefði rokið út af
veitingastaðnum eftir þessi átök, en vitnið kvaðst hafa reynt að róa A niður. Hún hefði síðan snúið til baka til vinnu sinnar við barinn. Þá hefði hún séð ákærða koma aftur inn á veitingastaðinn, en A
hefði staðið við borð frammi í veitingasalnum. Hún kvaðst hafa stokkið
fram og öskrað á ákærða að drífa sig út. Einhver
orðaskipti hefðu orðið á milli ákærða og A sem hún
hefði ekki heyrt og hefði A hörfað frá ákærða. Vitnið kvaðst hafa tekið um
axlir ákærða og reynt að róa hann, en hún hefði þá
snúið baki í A. Hún hefði byrjað að ýta ákærða hægt og rólega aftur á bak og
reynt að tala hann til. Þá hefði ákærði sagt: „No. This isn´t over yet“, farið
mjög snögglega fyrir vinstri hlið hennar og veist að A. Hún hefði ekki séð að
ákærði væri með hníf og ekki snúið sér nægjanlega snöggt við til að sjá hann
stinga A. Hún hefði haldið í fyrstu að hann hefði sparkað í A, sem hefði gripið
um hálsinn. Ákærði hefði síðan hlaupið inn ganginn með hægri hönd á lofti í átt
að W og M, sem sátu innst í salnum við spilakassa. N, sem var við vinnu sína við barinn, hefði hrópað
viðvörunarorð um að ákærði væri með hníf og hefðu L og M yfirbugað ákærða. Hún
kvaðst hafa hringt á Neyðarlínuna og hefði hún séð A hníga
niður á meðan á símtalinu stóð.
Vitnið O kvaðst hafa verið ásamt A utan við
veitingastaðinn fyrr um kvöldið þegar ákærða hefði borið að og hefði hann
viljað kaupa „gras“ af A, sem hefði neitað að láta
hann fá fíkniefni nema hann fengi greiðslu fyrir. Ákærði hefði farið að þrasa
um að fá lánað, en A staðið fast á sínu. Þau hefðu síðan farið inn á Langabar og hefði komið til orðaskipta á milli ákærða, A og fleiri
manna í bakherbergi. Um 10 mínútum síðar hefði vitnið verið að spjalla við A við útidyr veitingastaðarins þegar ákærði hefði komið þar
inn. Hann hefði reitt höndina til höggs og hefði hún
talið að hann ætlaði að kýla A og stokkið frá til að verða ekki á milli. Ákærði
hefði verið með krepptan hnefa og hefði hún séð skefti
standa þar uppúr. Hann hefði síðan stungið A í
hálsinn. Vitnið kvaðst hafa farið að hlúa að A, en honum
hefði blætt mikið. Hann hefði misst meðvitund, hætt að anda og blánað. Vitnið svaraði því aðspurð að A
hefði einnig verið með hníf þetta kvöld. Það hefði verið
tenntur hnífur, ekki venjulegur vasahnífur.
Vitnið P kvaðst hafa staðið í dyragætt
veitingastaðarins og verið að reykja þegar ákærði kom
þar inn og fór að rífast við A. Hefði K staðið á milli þeirra og sagt þeim að
hætta að rífast. Þá hefði ákærði stokkið fram fyrir K og
stungið A. Hún tók fram að hún hefði ekki séð að ákærði stakk A, heldur hefði
hún séð handarhreyfingu eins og hann hefði kýlt hann. Hún
hefði staðið beint fyrir framan þá þegar þetta gerðist. Hún hefði ekki
áttað sig strax á því hvað þetta var alvarlegt, en síðan séð að vitnið O var að
reyna að láta A setjast og að það spýttist blóð frá
honum. Þær O hefðu lagt A niður og kvaðst vitnið hafa
haldið um sárið. Hann hefði síðan misst meðvitund og
hætt að anda. Vitnið kvað ákærða hafa gargað á A rétt áður en hann stakk hann:
„I have another plan for him.“ Ákærði hefði horft á A,
miðað hann út og stungið hann svo. Hún
kvaðst hafa séð að ákærði var með hníf þegar hann hljóp inn eftir
veitingastaðnum eftir að hafa stungið A. Hann hefði haldið á hnífnum í hægri
hendi.
Vitnið N var við vinnu á
veitingastaðnum þetta kvöld. Hún kvað slagsmál hafa orðið á milli ákærða og A inni í eldhúsi veitingastaðarins og hefði hún gengið á
milli þeirra. Ákærði hefði þá farið út af staðnum, en
hún farið að afgreiða á barnum. Hún kvaðst síðan hafa séð ákærða koma inn aftur
og hefði hún séð að hann hélt á einhverju í hendinni.
Hún hefði ekki verið viss um hvað það var sem ákærði hélt á, en hann hefði sett
það í hálsinn á A, sem hefði tekið um hálsinn „og spýttist allt út á milli.“ Síðar hefði hún séð að þetta var hnífur sem ákærði hélt á í hendinni. Hann hefði stungið A eins og hann væri að fara að kýla hann. Ákærði hefði síðan
hlaupið inn eftir veitingastaðnum, en hann hefði áður „verið í veseni“ við fleiri gesti á veitingastaðnum. Hún kvaðst hafa hlaupið
á eftir honum, en menn á staðnum hefðu náð að yfirbuga hann og
hefði hann legið í roti á eftir. Vitnið lýsti því að ákærði hefði haft höndina
niðri þegar hann kom inn á veitingastaðinn. Hann hefði verið með krepptan hnefa
og hún hefði séð svart handfang standa upp úr
hnefanum. Hún hefði ekki séð hnífsblaðið. Henni hefði
fundist eins og ákærði væri að fara að kýla A með
hnefanum, handarhreyfingin hefði verið þannig. Þegar hún sá blóðið hefði hún
áttað sig á að það var hnífur sem ákærði hélt á. Hún
hefði síðan séð hnífinn á gólfinu eftir að ákærði hafði verið yfirbugaður.
Vitnið Q kvaðst hafa staðið við barinn þegar
ákærði kom inn og hefðu þeir A rifist frammi í
anddyri. A hefði síðan fært sig nær barnum, en þá
hefði ákærði komið að og kýlt hann í hálsinn vinstra megin. A hefði gripið um
hálsinn og kvaðst vitnið hafa spurt hann hvað væri að,
en þá hefði blóð farið að spýtast út um allt og hefði A fljótlega fallið niður.
Ákærði hefði hins vegar hlaupið inn eftir ganginum. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hníf í hendi ákærða.
Vitnið R lýsti því að einhver „skætingur“ hefði verið á milli ákærða og A fyrr um kvöldið, en ekki
kvaðst hann vita um hvað þeir voru að rífast. Hann hefði snúið baki í ákærða og A þegar ákærði kom aftur inn á veitingastaðinn og ekki
séð atlöguna. Þegar hann sneri sér við hefðu stúlkurnar verið að hlúa að A.
Vitnið tók fram að A hefði sjálfur verið með hníf
þetta kvöld og hefði hann verið að sýna hann á veitingastaðnum. Hann hefði hins
vegar ekki séð að A ógnaði neinum með hnífnum.
Vitnið M kvaðst hafa
verið staddur innst inni í veitingasalnum við spilakassa, sem þar eru, og hefði
L, vinur hans, verið við hlið hans. Hann hefði heyrt læti og einhver hefði
öskrað: „Hann er með hníf.“ Ákærði hefði komið
aðvífandi og veist að L og taldi vitnið að hann hefði
ætlað að stinga L. Þeim hefði hins vegar tekist í sameiningu að stöðva ákærða,
sem hefði rotast í viðureigninni. Vitnið kvaðst hafa heyrt einhver læti í
reykherberginu fyrr um kvöldið og hefði hann séð
ákærða rjúka út með látum. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna þeir A voru að rífast þar inni. Hann kvaðst hafa séð til ákærða og A eftir að ákærði kom inn á veitingastaðinn aftur og
hefðu þeir þá staðið við útidyrnar. Ákærði hefði hreyft höndina eins og hann væri að kýla A. Hann hefði talið að slagsmál væru að
upphefjast, en þá hefði A hnigið niður.
Vitnið S kvaðst hafa setið í skoti innst í
veitingasalnum þegar hann hefði séð „lítinn kall“ koma hlaupandi inn eftir
salnum með hníf í hendinni og hefði einhver öskrað: „Hann stakk hann.“ Honum
hefði fundist eins og þessi maður sem var með hnífinn
í hendinni væri að leita að einhverjum. Hann hefði hlaupið inn í eldhús, en
komið fram aftur og verið sleginn niður.
Vitnið E, sérfræðilæknir á bráðamóttöku
Landspítala, kvað A hafa verið „útblæddan“ við komu á sjúkrahús og hefði hann
„varla haldið uppi blóðþrýstingi“. Sjáöldur hefðu verið útvíkkuð og ekki brugðist við ljósáreiti, sem hafi verið til marks um
að heili hefði orðið fyrir súrefnisskorti. Skurður vinstra megin á hálsi A hafi
verið nægilega djúpur til að skera í sundur hálsslagæðina, sem
benti til þess að stungið hafi verið, en ekki skorið. Vitnið kvað skurð ekki
þurfa að vera meira en tveggja til þriggja cm djúpan
til að skera í sundur hálsslagæð hjá grönnum einstaklingi.
Vitnið T, yfirlæknir á gjörgæsludeild
Landspítala, gerði grein fyrir því að A hefði verið lagður inn á deildina
aðfaranótt hins 15. júlí eftir að hafa gengist undir
skurðaaðgerð þar sem gert var að áverka á hálsi. A hafi verið haldið sofandi og hann hafður í öndunarvél þar sem hann hafi haft mikla
bólgu í hálsi og óvissa verið um ástand hans. Reynt hefði
verið að vekja A þegar liðinn var sólarhringur frá komu hans á deildina, en það
hefði ekki tekist. Í kjölfarið hefði hann gengist undir segulómskoðun og tölvusneiðmyndir verið teknar af heila. Hefði það verið
niðurstaða rannsóknarinnar að A hefði hlotið mjög
miklar heilaskemmdir sökum súrefnisskorts. Hann hefði verið tekinn úr
öndunarvél, en ekki vaknað og ekki komið til
meðvitundar aftur. Vitnið kvað áverka sem A hlaut hafa
verið lífshættulega og hefði hann dáið á vettvangi, ef hann hefði ekki fengið
aðhlynningu sjúkraliðs þar. Hann hefði orðið fyrir
súrefnisskorti áður en hann fékk þá aðhlynningu. Eftir að ljóst var að
hann hefði hlotið svo víðtækan heilaskaða hafi verið ljóst að hann myndi ekki
koma aftur til meðvitundar og honum hafi ekki verið
hugað líf. Þetta hafi legið fyrir tveimur sólarhringum eftir að hann hlaut
áverkann, þegar tölvusneiðmyndir af heila lágu fyrir
og taugasérfræðingur hafði metið ástand hans. Vitnið kvað berkjulungnabólgu vera vel þekkta afleiðingu þess að sjúklingur nái ekki að
anda nægilega vel. A hafi haft minnkaða heilastarfsemi og
aðeins náð grunnöndun, sem dugi ekki til að halda lífi lengi. Það leiði til
þess að slím safnist fyrir í lungum sem ekki næst að
hreinsa burt. Þetta sé vel þekkt hjá sjúklingum sem
hafa orðið fyrir víðtækum heilaskemmdum og endi þeir yfirleitt ævi sín með
lungnabólgu. Útdráttur úr sjúkraskrá brotaþola 22. júlí var borinn undir vitnið, þar sem eftirfarandi var skráð
um ástand sjúklings að aflokinni skoðun: „Víðtækar og óafturkræfar
heilaskemmdir og óvirk staða. Eingöngu líknarmeðferð.“
Vitnið kvað heilastarfsemi að mestu hafa verið horfna þegar þarna var, aðeins
hafi verið einhver grunnstarfsemi að verki, sem hafi
viðhaldið öndun. A hafi verið færður á líknardeild þegar
þetta lá fyrir.
Vitnið G réttarmeinafræðingur
gerði grein fyrir niðurstöðum krufningar. Vitnið kvað berkjulungnabólgu hafa
verið dánarorsök A. Þá hefði verið láréttur skurður í innri hálsslagæð og fleygdrep í vinstra heilahveli. Sýkingu
í lunga mætti rekja til langvarandi sjúkralegu vegna skurðarins í hálsslagæð.
Þannig væru orsakatengsl á milli áverka A og dauða
hans. Vitnið kvað berkjulungnabólgu vera algengan
fylgikvilla þess að öndunarslöngu væri komið fyrir, en sýking í lungum geti
einnig stafað af því að sjúklingur andi ekki nægilega. Fleygdrep í heila
orsakist af súrefnisskorti, en innri hálsslagæðin
flytji blóð og með því súrefni til vinstri hluta heilans. Áverkinn
á heila sé því afleiðing áverkans á hálsslagæðinni. Vitnið
fjallaði almennt um hugsanlegar afleiðingar fleygdreps í heila, en sagði erfitt
að segja til um hvað hefði orðið um sjúklinginn ef hann hefði ekki fengið
lungnabólgu. Hún kvað áverka á heila hafa getað orsakað heiladauða og þróunin gæti hafa verið í þá átt að heilinn gæti ekki
starfað áfram. Hún hefði ekki getað séð það við skoðun heila í smásjá hvort
ástand A hefði verið þannig að hann teldist
heiladauður. Það eina sem hún gæti staðfest væri að
hann hefði verið með fleygdrep í heila. Það væri á færi lækna sem önnuðust klínískar rannsóknir á A á meðan hann var á
lífi að meta ástand hans að öðru leyti.
Vitnið U, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja-
og eiturefnafræði, kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir niðurstöðum rannsóknar
á blóð- og þvagsýnum sem tekin voru frá ákærða. Vitnið kvað styrk alkóhóls í
blóði ákærða á verknaðarstundu hafa verið a.m.k. 2,6.
Hann hefði því verið mjög ölvaður og undir áhrifum
tetrahýdrókannabínóls.
Vitnið J geðlæknir gerði grein
fyrir niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar ákærða. Vitnið kvað ákærða hafa
borið við óminni og væri það alveg hugsanlegt miðað
við það sem lægi fyrir um vímuáhrif hans. Þá sé bæling á minni þekkt hjá
einstaklingum sem lenda í hrikalegum aðstæðum, að þeir
meðvitað eða ómeðvitað vilji ekki muna of mikið vegna þess að það sé svo
erfitt.
Þá kom V rannsóknarlögreglumaður fyrir dóminn og gerði grein fyrir lögreglurannsókn málsins. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnisins.
Niðurstaða
Ákærði neitar
sök og ber við minnisleysi sökum ölvunar. Rakinn hefur
verið framburður vitna sem voru á veitingastaðnum
kvöldið sem um ræðir, auk þess sem fyrir liggja upptökur úr öryggismyndavél
veitingastaðarins. Af þeim sönnunargögnum verður ráðið
að ákærði hafi komið inn á veitingastaðinn, sem hann hafði yfirgefið eftir að
hafa lent í deilum við A fyrr um kvöldið. Á myndbandsupptöku sést ákærði
veitast að A og leggja til hans með hnífi vinstra
megin í háls. Hafa vitni jafnframt borið um atlöguna og
að A hafi þegar blætt mikið. Hann hafi fljótlega misst meðvitund og öndun stöðvast. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum sem liggja fyrir hlaut A stunguáverka á háls og skurð á
innri hálsslagæð, sem leiddi til mikils heilaskaða vegna súrefnisskorts.
Niðurstaða krufningar var sú að banamein A væri
berkjulungnabólga. Kom fram hjá vitninu T yfirlækni að fljótlega hafi verið
ljóst að A myndi ekki komast til meðvitundar og að
honum hafi ekki verið hugað líf. Þá sé berkjulungnabólga algeng afleiðing
skertrar heilastarfsemi, sem hafi áhrif á öndun.
Samkvæmt
niðurstöðu DNA-samanburðarrannsóknar var blóð A á hníf, sem
lögregla lagði hald á á vettvangi, en sams konar hnífar fundust í eldhúsi á
dvalarstað ákærða. Er ótvírætt að ákærði notaði hnífinn til verknaðarins. Þótt
ákærði hafi farið út af veitingastaðnum um tíma, og veist að A eftir að hann
sneri til baka, þykir ekki fullsannað að hann hafi farið að heimili sínu og
sótt hnífinn í þeim tilgangi að vega A. Verður við það miðað að ásetningur til
að stinga A með hnífi hafi myndast hjá ákærða eftir að hann kom inn á
veitingastaðinn á ný og hitti A þar fyrir. Ákærði stakk A
með hnífi í háls. Var atlagan stórhættuleg og hlaut
ákærða að vera ljóst að langlíklegast væri að hún myndi leiða til dauða. Hefur
ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir
og varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er fæddur árið 1972. Sakaferill hans
hefur ekki áhrif á refsingu. Ákærði hafði ákveðinn
ásetning til verksins. Hann veittist hiklaust að A, þrátt fyrir að K
gengi á milli þeirra og reyndi að bægja honum frá. Þykir ákærði ekki eiga sér málsbætur. Samkvæmt framansögðu
og með vísan til 1., 2., 3., 6. og
7. tölul. 1. mgr. 70. gr.
almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár.
Með vísan til 76. gr.
almennra hegningarlaga kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 15. júlí 2011 til frádráttar refsingu.
Af hálfu B og C, fyrir hönd D, er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að
fjárhæð 5.084.927 krónur auk vaxta.
Í fyrsta lagi er krafist miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna. Bótakrefjandi
er dóttir A. Enginn vafi leikur á því að ákærði hefur með broti sínu valdið
stúlkunni gríðarlegum miska. Hún hefur misst föður
sinn með voveiflegum hætti, en fram er komið að móðir hennar er einnig látin.
Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna.
Í öðru lagi er krafist bóta vegna útfararkostnaðar að fjárhæð 456.874
krónur.
Krafan er studd viðhlítandi gögnum og verður hún dæmd
eins og hún er fram sett.
Í þriðja lagi er krafist bóta fyrir missi framfæranda að fjárhæð 628.053
krónur.
Krafan er miðuð við lágmarksmeðlag samkvæmt ákvörðun
Tryggingastofnunar á þeim tíma er bótakrafa var höfð uppi, eða 21.657 krónur á
mánuði, uns bótakrefjandi nær 18 ára aldri. Verður krafan dæmd eins og hún er fram sett.
Samtals er
ákærða gert að greiða bótakrefjanda 3.084.927 krónur, sem
beri vexti sem í dómsorði greinir.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 272.963 krónur í málskostnað, vegna
lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði verður
dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar
héraðsdómslögmanns, 941.250 krónur, og þóknun verjanda
síns á rannsóknarstigi málsins, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 351.400
krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið
tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 1.007.100
krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur
vararíkissaksóknari.
Málið dæmdu
héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem
dómsformaður, Allan V. Magnússon og Arngrímur Ísberg.
D ó m s o r ð :
Ákærði,
Redouane Naoui, sæti fangelsi í 16 ár. Gæsluvarðhald ákærða
frá 15. júlí 2011 kemur til frádráttar
refsingu.
Ákærði greiði D 3.084.927 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8.
gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 2.456.874 krónum frá 26. júlí
2011, en samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 628.053 krónum frá 1. ágúst
2011, í báðum tilvikum til 26. september 2011, en með
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr.,
sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til
greiðsludags, og 272.963 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns,
941.250 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Sigmundar
Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 351.400 krónur. Ákærði
greiði 1.007.100 krónur í annan sakarkostnað.