Hæstiréttur íslands
Mál nr. 692/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðslustöðvun
|
|
Miðvikudaginn 21. janúar 2009. |
|
Nr. 692/2008. |
MP Banki hf. (Daníel Isebarn Ágústsson hdl.) gegn Hansa ehf. (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Greiðslustöðvun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem H ehf. var veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2008, þar sem varnaraðila var veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar allt til föstudagsins 6. mars 2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að beiðni varnaraðila um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar verði hafnað. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu heimvísað til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili hefur ekki fært rök fyrir kröfu sinni um að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, sbr. c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Ekki er ástæða til að gefa sóknaraðila kost á að bæta úr þessu. Kemur þessi krafa því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um áframhaldandi greiðslustöðvun verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, MP Banki hf., greiði varnaraðila, Hansa ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2008.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 17. nóvember 2008, var Hansa ehf. veitt heimild til greiðslustöðvunar allt til mánudagsins 8. desember 2008 kl. 15:30. Málefnið var tekið fyrir á ný á dómþingi þann dag. Mætti þá Helgi Jóhannesson hrl., aðstoðarmaður skuldarans við greiðslustöðvun, og lagði fram beiðni um framlengingu greiðslustöðvunar ásamt gögnum í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1991.
Þá var mætt af hálfu MP Banka ehf., sem er einn af lánardrottnum sóknaraðila, og mótmæli höfð uppi við kröfu um framlengingu greiðslustöðvunar. Af því tilefni var ágreiningsmál þetta þingfest. Málið var flutt 10. desember sl. og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili, Hansa ehf., gerir þær dómkröfur að greiðslustöðvun félagsins verði framlengd.
Varnaraðili, MP Banki ehf., krefst þess að beiðninni verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Í greinargerð aðstoðarmanns skuldarans kemur fram að tvær grundvallarforsendur séu fyrir því að Hansa ehf. takist að koma skikki á fjármál sín. Önnur sé að félaginu takist að selja langstærstu og verðmætustu eign félagsins, WH Holding Ltd. Hin að skuldum félagsins, sem eru með breytirétti, verði breytt í hlutafé.
Ljóst sé að framlenging greiðslustöðvunartíma Hansa ehf. sé forsenda þess að þetta tvennt nái fram að ganga og skili árangri.
a) Salan á WH Holding Ltd.
Söluferli á verðmætustu eign Hansa ehf., WH Holding Ltd., sem eigi knattspyrnufélagið West Ham United, sé nú þegar hafið. Gagnaöflun og gerð kynningarefnis sé að mestu lokið og u.þ.b. 4 vikur séu síðan byrjað var að hafa samband við mögulega kaupendur. Stór alþjóðlegur banki, Standard bank Plc., annist söluna ásamt Novator Partners LLP. Félagið telji að framlenging á greiðslustöðvun félagsins geri það að verkum að sala á félaginu takist.
Verðmæti fótboltafélags sé vissulega erfitt að meta. Miðað við veltutölur félagsins og reynslu manna á þessu sviði gæti verðmætið numið 200-240 millj. punda. Nýleg sala á Mancehster City gefi væntingar um hærra verð en það félag hafi selst á 230 millj. punda. West Ham sé talið verðmætara félag t.d. vegna staðsetningar í London, tryggra áhangenda, meiri möguleika á tengdum fasteignaverkefnum, nálægð við ólympíuþorp og þeirrar staðreyndar að West Ham er eigandi að eigin velli sem Man. City sé ekki. Salan á Man. City gefi því væntingar um verðmæti á West Ham umfram 250. millj. punda.
Sé miðað við gengi 200 á pundinu myndi sala upp á 250. millj. punda skila 50. milljörðum kr. WH Holding Ltd. sjálft skuldi um 50 millj. punda og myndi því sala upp á 250 millj. punda skila móðurfélaginu, Hansa ehf., 40 milljörðum kr., sem myndu nægja til að greiða áhvílandi veðskuldir á hlutafénu í WH Holding Ltd. sem nemi um 13,9 milljörðum.
Í uppgjörsgögnum Hansa ehf. séu eignir félagsins metnar á bókfærðu verði um 16 milljarðar. Þetta verð sé nú komið upp í 22,5 milljarða kr. í uppgjöri miðað við 17. nóvember 2008 einkum vegna hækkunar á bresku pundi sem orðið hafi frá uppgjörinu. Markaðsvirðið gæti hins vegar hæglega numið 30 til 40 milljörðum kr., eins og að framan sé rakið.
Ljóst sé að lykilatriðið í því að endurskipuleggja fjármál Hansa ehf. sé að selja WH Holding Ltd. Með því að veita félaginu frið til að ná fram sölu á þessari gríðarlega verðmætu eign geti skapast möguleikar á því að ná inn þeim verðmætum sem þurfi til að hægt sé, með endurskipulagningu fjármála félagsins, viðbótarhlutafé og samningum við kröfuhafa, að kom félaginu fyrir vind. Verði Hansa ehf. á hinn bóginn gjaldþrota nú megi ljóst vera að söluverðmæti WH Holding Ltd. minnki verulega og verulegar líkur séu á því að söluandvirðið myndi ekki einu sinni nægja til að greiða upp áhvílandi veðskuldir á því félagi.
b) Breyting á skuldum í hlutafé:
Verulegur hluti skulda Hansa ehf., eða um 16,9 milljarðar kr., sé með breytirétti og hafi þeim skuldum þegar verið breytt í hlutafé. Með því séu skuldir félagsins komnar niður í u.þ.b. 19,5 milljarða kr., sem þýði að skuldir séu orðnar lægri heldur en bókfært verð eigna. Vert sé að taka fram að þeir kröfuhafar sem eigi skuldabréf með breytirétti, nánar tiltekið Bell Global Sarl, Björgólfur Guðmundsson og Monte Cristo Ltd., hafi þegar samþykkt að breyta skuldum í hlutafé í félaginu. Þetta muni gera það að verkum að eigið fé félagsins verði jákvætt um 5,3 milljarða kr. Á framlögðum efnahagsreikningum, annars vegar efnahagsreikningi pr. 17.11.2008 og hins vegar efnahagsreikningi, sem sýni stöðuna miðað við að búið sé að breyta framangreindum skuldum í hlutafé, komi fram að eigið fé félagsins hækki úr því að vera neikvætt um rúmlega 13,3 milljarða upp í það að vera jákvætt um rúma 5,2 milljarða.
Fundur hafi verið haldinn með öllum þekktum lánardrottnum Hansa ehf. fimmtudaginn 4. desember sl., sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 21/1991. Á fundinum hafi m.a. verið farið yfir eignir og skuldir félagsins og kynntar þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á greiðslustöðvunartímanum. Á fundinum hafi aðstoðarmaður jafnframt óskað eftir afstöðu kröfuhafa til ásetnings Hansa ehf. til að leita eftir framlengingu á heimild til greiðslustöðvunar. BYR og Landsbankinn hf. hafi lýst sig ekki mótfallna framlengingu en áskilið sér rétt til að breyta afstöðu sinni. Í dag hafi borist tölvupóstur frá lögmanni BYRS sem staðfesti að BYR muni styðja framlengingu greiðslustöðvunar gegn því að gerð verði réttarsátt í máli sem bankinn hefur höfðað á hendur félaginu. Gert sé ráð fyrir að gengið verði frá slíkri sátt ef framlenging fáist. Straumur fjárfestingarbanki hf., Bell Global Sarl, Björgólfur Guðmundsson og Fjárfestingarfélagið Grettir ehf., hafi samþykkt fyrir sitt leyti framlengingu greiðslustöðvunar. Eini kröfuhafinn sem hafi lýst sig mótfallinn framlengingu greiðslustöðvunar hafi verið MP banki hf., en þess beri að geta að krafa bankans nemi einungis um 2,8% af heildarskuldum félagsins sé miðað við allar skuldir, en 5,4% sé miðað við þær skuldir sem eftir standi þegar hluta þeirra hefur verið breytt í hlutafé. Af framangreindu sé því ljóst að verulegur meirihluti kröfuhafa sé samþykkur áframhaldandi greiðslustöðvun til þess að reyna hámarka verðmæti WH Holding Ltd. til hagsbóta fyrir félagið og kröfuhafa þess.
Að lokum sé vert að árétta að niðurfelling greiðslustöðvunar núna sé til þess fallinn að eyðileggja sölumöguleika á aðaleign Hansa ehf., WH Holding Ltd., öllum kröfuhöfum til tjóns. Gefist félaginu á hinn bóginn ráðrúm og friður til að klára það verk sem byrjað sé á með sölu WH Holding Ltd. séu verulegar líkur á því að hægt verði að standa skil á öllum kröfum.
II
Varnaraðili byggir á að ljóst sé að skilyrði a.m.k. 1. og 5. tölul. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um Hansa ehf.
Í 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991 sé vísað til skilyrða í 4.-8. tölul. 2. mgr. 12. gr. laganna.
Varnaraðili telji að ákvæði 4. og 6. tölul. eigi a.m.k. við og jafnvel 7. tölul.Hansa ehf. sé sýnilega þegar orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu. Hansa ehf. eigi ekki aðeins í verulegum fjárhagsörðugleikum heldur algerlega óviðráðanlegum og fullvíst sé að greiðsluerfiðleikarnir séu ekki tímabundnir heldur varanlegir.
Í ársreikningi Hansa ehf. fyrir árið 2007 komi fram að eigið fé sé neikvætt um 6.249 milljónir og að tap af rekstri félagsins hafi verið 5.434 milljónir. Varla hafi staða félagsins batnað síðan ársreikningurinn var gerður, en starfsemi Hansa ehf. sé aðallega fjárfestingar og meðal helstu eigna árið 2007 hafi verið hlutir í félögum sem hafi fallið gífurlega í verði og séu nú verðlitlir eða jafnvel alveg verðlausir. Þá komi fram í yfirliti Hansa ehf. að eignir félagsins séu metnar á 16.698 milljónir en helstu skuldir séu 33.159 milljónir. Helstu skuldir séu þannig tvöfalt hærri en eignir félagsins.
Ljóst sé að Hansa ehf. geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar Hansa ehf. muni líða hjá innan skamms tíma. Skilyrði 2. mgr. 64. gr. laganna séu því fyrir hendi og félaginu þegar orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu enda félagið bókhaldsskylt skv. 1. tölul. 1. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.
Þrátt fyrir vanrækslu á að uppfylla skyldu sína um frumkvæði að gjaldþrotaskiptum hafi Hansa ehf. engu að síður verið á leið í gjaldþrot þegar félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar. Hansa ehf. sé þegar komið í vanskil, a.m.k. við varnaraðila þar sem Hansa ehf. hefur ekki greitt lán, skv. samningi dags. 28. desember 2006. Hlutir í Landsbanka íslands hf. hafi verið tryggingar fyrir láninu en þeir séu nú verðlausir í kjölfar yfirtöku skilanefndar Fjármálaeftirlitsins á stjórn Landsbanka Íslands hf. Hansa ehf. hafi hvorki greitt lánið né sett nýjar tryggingar. Með heimild í lánssamningnum hafi lánið því verið gjaldfellt 7. október 2008. Varnaraðili hafi í kjölfarið krafist kyrrsetningar fyrir kröfu að upphæð samtals kr. 1.038.825.415.
Ástæða kyrrsetningarbeiðninnar hafi verið grunur um að Hansa ehf. hygðist selja langflestar ef ekki allar eignir sínar. Í ljós sé nú komið að þær grunsemdir hafi reynst á rökum reistar enda sé sala helstu eigna sérstaklega tiltekin sem rökstuðningur fyrir heimild til greiðslustöðvunar.
Varnaraðili telji fullvíst að eina raunverulega ástæða þess að Hansa ehf. hafi óskað eftir heimild til greiðslustöðvunar hafi verið að koma í veg fyrir fullnustuaðgerðir kröfuhafa sem hefðu á mjög skömmum tíma leitt til gjaldþrots félagsins. Innan fárra daga hefði komið fram beiðni um gjaldþrotaskipti sem hefði þá komið í veg fyrir heimild til greiðslustöðvunar, skv. 1. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1991.
Ráðagerð Hansa ehf. sé óraunhæf, ólíkleg og samrýmist ekki tilgangi greiðslustöðvunar.
Ráðagerð Hansa ehf. um ráðstafanir meðan á greiðslustöðvun stendur sé verulega óljós og allt of almenn en það litla sem lesið verði út úr henni samrýmist ekki tilgangi greiðslustöðvunar. Tilgangur Hansa ehf. sé í raun ekki að koma nýrri skipan á fjármál sín heldur eingöngu að selja helstu eign félagsins.
Sala á helstu eignum leggi ekki grundvöll að rekstri stórskuldugs félags til framtíðar. Félagið muni eftir slíka ráðstöfun verða nánast eða alveg eignalaust en skulda marga milljarða króna. Slíkt félag sé augljóslega ekki líklegt til að halda áfram rekstri.
Hansa ehf. hafi ekki útskýrt með raunhæfum eða sannfærandi hætti þær óljósu og óraunhæfu hugmyndir um það hvernig sala helstu eigna muni gera félaginu kleift að halda áfram í rekstri þegar skuldir séu tvöfalt meiri en eignir og eina starfsemi félagsins er einmitt eignarhald og fjárfestingastarfsemi.
Þá verði að teljast verulega óraunhæft að Hansa ehf. fái frekara fjármagn inn í félagið eins og Hansa ehf. ætli að kanna möguleika á. Skuldir félagsins umfram eignir séu að nálgast 20 milljarða króna og yfirlýstur tilgangur sé að selja helstu eignir og skilja þannig eingöngu skuldir eftir í félaginu.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991 skuli í beiðni um heimild til greiðslustöðvunar koma fram ítarleg greinargerð um það hvernig skuldari hyggist leysa úr fjárhagsvanda sínum.
Beiðni Hansa ehf. um heimild til greiðslustöðvunar hafi ekki verið í samræmi við áskilnað 2. mgr. 10. gr. heldur hafi greinargerðin verið verulega stutt og óljós. Ráðagerðir Hansa ehf. hafi verið tilteknar með almennum hætti og ómögulegt hafi verið að sjá einhverja framtíðarmöguleika félagsins út frá upptalningu á eignum og skuldum.
Ekki hafi fengist betri mynd af ráðagerðum Hansa ehf. á fundi aðstoðarmanns félagsins með lánadrottnum hinn 4. desember 2008. Á fundinum hafi aðstoðarmaðurinn farið yfir stöðu félagsins en þar hafi ekkert nýtt komið fram og enn sé ekkert sem styðji fullyrðingar um eignastöðu félagsins og ráðagerðir.
Því hafi verið haldið fram á fundinum að verðmæti helstu eignar væri um og yfir 200 milljón pund án þess að sýnt væri fram á það með neinum hætti. Þvert á móti bendi fréttir til þess að félagið geri sér vonir um að selja eignina fyrir helmingi lægri fjárhæð. Þá hafi komið fram að einhverjir lánadrottnar hefðu samþykkt að breyta lánum í hluti en ekki hafi verið sagt nánar hvaða lánadrottnar þetta séu eða lagðar fram staðfestingar þeirra. Ekkert hafi komið frekar fram um samkomulag við aðra lánadrottna.
Tilgangur greiðslustöðvunar eigi að vera að koma nýrri skipan á fjármál skuldara og ráða með því bót á greiðsluerfiðleikum hans og leggja grunn að áframhaldandi starfsemi til framtíðar.
Hansa ehf. segist ætla að selja helstu eign félagsins, sem og aðrar ef þurfa þyki, en það muni leiða til þess að félagið hafi engan tilgang lengur enda enginn rekstur í því fyrir utan eignaumsýslu. Raunverulegur tilgangur greiðslustöðvunarheimildar sé þannig ekki að ráða bót á tímabundnum greiðsluerfiðleikum heldur að koma eignum félagsins í verð. Greiðslustöðvun sé ekki ætluð til slíkra ráðstafana heldur gjaldþrotaskipti.
Þá segist Hansa ehf. ætla að kanna möguleika á því að fá frekara fjármagn inn í félagið en það verði að teljast verulega ólíklegt enda muni félagið eftir sölu helstu eignar í raun hafa hætt starfsemi og auk þess skulda marga milljarða króna. Þannig sé enginn grundvöllur fyrir samningum Hansa ehf. við lánadrottna, sérstaklega samhliða sölu helstu eigna, o.þ.m. sé félaginu ómögulegt að ráða bót á greiðsluerfiðleikum þannig að starfsemi félagsins haldist til framtíðar.
Þar sem upplýsingar um eignir félagsins sé óljósar geti varnaraðili, og aðrir lánadrottnar, ekki verið viss um að greiðslustöðvun muni hafa sambærileg áhrif erlendis og hér á landi. Þannig sé óljóst hvort erlendir kröfuhafar geti, þrátt fyrir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, gengið að eignum félagsins erlendis til fullnustu krafna sinna. Slíkt raski augljóslega jafnræði kröfuhafa.
Krafa varnaraðila um greiðslu málskostnaðar eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Dráttur á að taka Hansa ehf. til gjaldþrotaskipta auki aðeins hættuna á að kröfuhöfum verði mismunað. Gjaldþrot félagsins sé óumflýjanlegt og engin raunhæf ráðagerð hafi komið fram um hvernig megi koma á nýrri skipan félagsins. Því sé rétt að synja Hansa ehf. um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar.
III
Það er lögbundinn tilgangur greiðslustöðvunar að skuldari, sem á í verulegum fjárhagserfiðleikum, ætli að koma nýrri skipan á fjármál sín og þannig ráða bót á greiðsluerfiðleikunum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Aðstoðarmaður sóknaraðila lýsir í greinargerð sinni áætlunum um aðgerðir á greiðslustöðvunartímanum til að koma nýrri skipan á fjármál sóknaraðila. Lúta þær að því að sóknaraðila takist að selja langstærstu og verðmætustu eign félagsins, WH Holding Ltd. og að skuldum félagsins, sem eru með breytirétti, verði breytt í hlutafé. Með sölu eignarinnar kveður aðstoðarmaðurinn unnt að ná inn þeim verðmætum sem þurfi til að hægt sé, með endurskipulagningu fjármála félagsins, viðbótarhlutafé og samningum við kröfuhafa, að kom félaginu fyrir vind.
Í greinargerðinni kemur fram að söluferli á WH Holding Ltd., sem eigi knattspyrnufélagið West Ham United, sé nú þegar hafið og er það staðfest af þeim aðilum sem tekið hafa að sér að annast söluna.
Í uppgjörsgögnum sóknaraðila eru eignir metnar á bókfærðu verði um 16 milljarðar. Í efnahagsreikningi 17. nóvember sl. er verð eigna sóknaraðila metið á 22,5 milljarða kr. og er hækkunin sögð vera einkum vegna hækkunar á bresku pundi. Sóknaraðili kveður hins vegar markaðsvirði West Ham United hæglega geta numið 30 til 40 milljörðum króna og færir fyrir því rök.
Í greinargerð aðstoðarmanns kemur fram að kröfuhafar sem eiga skuldabréf með breytirétti hafi nú þegar samþykkt að breyta skuldum, um 16,9 milljörðum kr., í hlutafé í félaginu. Miðað við það eru skuldir u.þ.b. 19,5 milljarða kr. Eigið fé sóknaraðila hækkar samkvæmt því úr því að vera neikvætt um rúmlega 13,3 milljarða upp í það að vera jákvætt um rúma 5,2 milljarða.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um fjárhag sóknaraðila þykir ekki unnt að fallast á að ljóst sé að svo sé ástatt að honum sé sýnilega þegar orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu vegna ákvæða 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991.
Þá þykir verða að telja ráðagerðir sóknaraðila um ráðstafanir á greiðslustöðvunartíma samrýmanlegar tilgangi hennar og líklegar til að koma nýrri skipan á fjármál hans. En á það er að líta að kröfuhafar sem fara með verulegan hluta krafna á hendur sóknaraðila hafa lýst sig samþykka áframhaldandi greiðslustöðvun hans.
Samkvæmt því, og þar sem önnur þau atriði sem upp eru talin í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991 og valda því að synja ber um áframhaldandi greiðslustöðvun þykja ekki vera fyrir hendi, verður krafa sóknaraðila um áframhaldandi greiðslustöðvun tekin til greina. Verður greiðslustöðvun sóknaraðila framlengd til föstudagsins 6. mars 2009 og verður málið tekið fyrir þann dag kl. 13:15 í dómsal 102.
Eftir niðurstöðu málsins verður varnaraðili sjálfur að bera málskostnað sinn.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hansa ehf., kt. 560793-2009, er veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar allt til föstudagsins 6. mars 2009 er þing verður haldið til að taka málið fyrir á ný kl. 13:15 í dómsal 102.