Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. nóvember 2004.

Nr. 243/2004.

Steinunn E. Þorsteinsdóttir og

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Hallfríði Valdimarsdóttur

(Karl Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Bifreiðir. Ölvunarakstur. Skaðabætur. Sakarskipting. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.

H krafðist bóta vegna slyss sem hún varð fyrir er hún var farþegi í bifreið með ölvuðum ökumanni, en hann andaðist í slysinu. Alkóhólmagn í blóðsýni, sem tekið hafði verið úr líki hans, reyndist vera 2,15‰. Þótt fallast yrði á með héraðsdómi, að slys H yrði rakið til ölvunar ökumannsins og hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að taka sér far með honum vitandi um ölvun hans og þrátt fyrir aðvaranir viðstaddra, þóttu ekki næg efni til að verða við kröfu S og V um sýknu. Litið var til þess að H hafði setið í bíl með ökumanninum, sem var unnusti hennar, umrædda nótt um fjallveg frá Reykhólum til Hólmavíkur án þess að nokkuð hafi farið úrskeiðis í akstrinum. Þá hafi H nýlega verið orðin 18 ára þegar atvik málsins gerðust. Voru bætur til H lækkaðar vegna eigin sakar á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og var H látin bera sjálf ¾ hluta tjóns síns.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 11. júní 2004. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að þær verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður .

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 24. ágúst 2004. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmdir in solidum til að greiða sér 9.260.007 krónur, til vara 7.595.730 krónur, en að því frágengnu 4.747.024 krónur. Til ítrustu vara krefst hún þess að fá greiddar 4.168.857 krónur. Í öllum tilvikum er krafist 2% ársvaxta frá 4. október 1998 til 2. september 2001 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

 

 

I.

Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi bóta vegna slyss, sem hún varð fyrir aðfaranótt 4. október 1998, er hún var farþegi í bifreið með ölvuðum ökumanni, en hann andaðist í slysinu.

Eins og fram kemur í héraðsdómi höfðu gagnáfrýjandi og ökumaður bifreiðarinnar, sem var unnusti hennar, verið saman um nóttina og hafði hann ekið bifreiðinni, sem hún hafði umráð yfir, frá Reykhólum að Hólmavík þar sem þau fóru stutta stund inn á skemmtistaðinn Café Riis og síðan í samkvæmi í heimahúsi þar rétt hjá. Gagnáfrýjandi ber að hún hafi viljað að þau færu heim að sofa, en göngufæri var að húsinu, þar sem þau ætluðu að gista. Ökumaðurinn hafi hins vegar viljað fara í einn bíltúr í viðbót. Hún hafi reynt að fá hann ofan af því en ekki tekist það. Þau fóru síðan í ökuferð um bæinn, sem endaði með fyrrgreindum afleiðingum. Gestir í samkvæminu reyndu að fá ökumanninn ofan af því að aka bílnum og báru fyrir dómi, að hann hefði verið áberandi ölvaður. Reyndu þeir að tefja um fyrir honum meðan hringt var á lögreglu. Gagnáfrýjandi minnist þess ekki, að gestirnir hafi lagt hart að þeim að fara ekki á bílnum.

Gagnáfrýjandi viðurkennir, að hún hafi gert sér grein fyrir því, að ökumaðurinn var ölvaður, en hún hafi ekki veitt því sérstaka athygli hve mikið hann drakk. Hún hafi séð hann drekka oft úr gosflösku í bílnum en ekki vitað að áfengi var í flöskunni. Í lögregluskýrslu kemur fram, að við skoðun á bifreiðinni eftir slysið hafi fundist tvær tveggja lítra gosflöskur á gólfinu og verið megn áfengislykt af vökva þeim, sem í þeim var.

Alkóhólmagn í blóðsýni, sem tekið var úr líki ökumannsins reyndist vera 2,15‰. Alkóhólmagn í blóðsýni, sem tekið var úr gagnáfrýjanda 5 klukkustundum eftir slysið mældist 0,26‰.

Aðaláfrýjendur hafa ekki andmælt því, sem gagnáfrýjandi hefur borið um að unnusti hennar hafi ekið bifreiðinni fyrr um nóttina um fjallveg frá Reykhólum til Hólmavíkur án þess að nokkuð hafi farið úrskeiðis í akstrinum. Til þess verður einnig að líta að gagnáfrýjanda var nýlega orðin 18 ára þegar atvik þessi gerðust. Þótt fallast verði á með héraðsdómi, að slys gagnáfrýjanda verði rakið til ölvunar ökumannsins og hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að taka sér far með honum vitandi um ölvun hans og þrátt fyrir aðvaranir viðstaddra, eru ekki næg efni til að verða við kröfu aðaláfrýjenda um sýknu. Verða bætur til gagnáfrýjanda lækkaðar vegna eigin sakar á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að virtu öllu framangreindu er rétt að hún beri sjálf ¾ hluta tjóns síns.

II.

Í máli þessu liggja fyrir þrjár álitsgerðir um líkamstjón gagnáfrýjanda. Í örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis 2. ágúst 2001 er varanleg örorka gagnáfrýjanda vegna slyssins talin vera 25% og varanlegur miski 25%. Í álitsgerð örorkunefndar 10. desember 2002 er varanleg örorka metin 10% og varanlegur miski 15%. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna 8. september 2003 er varanleg örorka talin vera 20% og varanlegur miski 20%.

Tekið er undir með héraðsdómi að niðurstöður Jónasar Hallgrímssonar um varanlega örorku og miskastig verði ekki lagðar til grundvallar útreikningi bóta.

Örorkunefnd telur, að ekki sé unnt með vissu að fullyrða, að mjóbakseinkenni gagnáfrýjanda séu vegna beinna afleiðinga slyssins og telur að þyngdaraukning hennar eftir slysið eigi þátt í þeim. Dómkvaddir matsmenn telja aftur á móti eðlilegast að meta þessi einkenni til afleiðinga slyssins. Slík skýring sé sennilegust og raunar dæmigerð fyrir slys sem þetta.

Fram er komið, að fyrst fór að bera á mjóbakseinkennum hjá gagnáfrýjanda um áramótin 1998-1999, en hún hafði ekki fundið fyrir þeim áður. Var þá svo stutt liðið frá slysinu, að líkur eru fyrir því, að þessi einkenni séu afleiðing þess. Niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna hefur ekki verið hnekkt og verður mat þeirra um 20% varanlega örorku og 20% varanlegan miska lagt til grundvallar uppgjöri bóta.

III.

Gagnáfrýjandi krefst bóta fyrir varanlega örorku, sbr. 2. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Byggir hún á ákvæðum 5. – 7. gr. skaðabótalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 42/1996, og telur að miða beri við meðaltekjur iðnaðarmanna  Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að miða beri við meðaltekjur ófaglærðs verkafólks við uppgjör bóta til handa gagnáfrýjanda og er það í samræmi við þrautavarakröfu hennar.

Samkvæmt niðurstöðu könnunar á launum á 4. ársfjórðungi 1998 voru föst mánaðarlaun almenns verkafólks í dagvinnu að meðaltali 101.908 krónur eða 1.296.270 krónur á ári að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Tjón gagnáfrýjanda vegna varanlegrar örorku, uppfært frá vísitölu á slysdegi til vísitölu í september 2001, verður því 3.047.976 krónur.

Gagnáfrýjandi krefst bóta fyrir 20% varanlegan miska, sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 1.034.200 krónur. Er fallist á að miski hennar nemi þeirri fjárhæð.

Gagnáfrýjandi krefst bóta fyrir tímabundið atvinnutjón í þrjá mánuði eftir slysið, sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga og 3. mgr. 1. gr. sömu laga. Vísar hún til örorkumats Jónasar Hallgrímssonar þar sem segir, að hún hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa þann tíma. Eins og fram kemur í héraðsdómi var gagnáfrýjandi atvinnulaus á slysdegi. Hún var 18 ára gömul og bjó á heimili foreldra sinna. Ekkert liggur fyrir um það, að hún hafi tekið að sér heimilisstörfin og er ósannað, að hún hafi innt þau af hendi. Samkvæmt því verður ekki fallist á, að hún eigi rétt til bóta vegna tímabundinnar óvinnufærni til heimilisstarfa.

Gagnáfrýjandi krefst þjáningarbóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Reisir hún þá kröfu á mati Jónasar Hallgrímssonar, þar sem því er slegið föstu, að hún hafi verið rúmliggjandi á sjúkrahúsi í einn dag og veik í skilningi skaðabótalaga í 99 daga. Krefst hún 90.780 króna í bætur vegna þessa. Þessu mati hefur ekki verið hnekkt, og verður krafan tekin til greina.

Þá krefst gagnáfrýjandi að sér verði dæmdar 250.000 krónur í bætur vegna annars fjártjóns, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Engin gögn hafa verið lögð fram til styrktar kröfunni. Þegar af þeirri ástæðu verður þessum kröfulið hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður tjón gagnáfrýjanda af völdum slyssins talið nema 4.172.956 krónum. Verða aðaláfrýjendur dæmdir til að greiða henni óskipt ¼ hluta tjónsins, eða 1.043.239 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en dráttarvextir verða dæmdir frá málshöfðunardegi 21. janúar 2002.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Steinunn E. Þorsteinsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði gagnáfrýjanda, Hallfríði Valdimarsdóttur, óskipt 1.043.239 krónur með 2% ársvöxtum frá 4. október 1998 til 21. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 10. maí 2004.

Mál þetta, sem var dómtekið 3. maí sl., höfðaði Hallfríður Valdimarsdóttir, Reykjabraut 7, Reykhólahreppi, 21. janúar 2002 gegn Steinunni E. Þorsteinsdóttur, sama stað og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða sér 9.260.007 krónur, auk 2% ársvaxta af þeirri fjárhæð frá 4. október 1998 til 2. september 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er krafist að stefndu verði dæmd til að greiða óskipt 7.595.730 krónur, til þrautavara 4.747.024 krónur og til þrautaþrautavara 4.168.857 krónur, allt með samsvarandi vöxtum.  Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að kröfur hennar verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

I.

Stefnandi slasaðist aðfaranótt sunnudagsins 4. október 1998.  Atvik voru þau að hún var þá farþegi í bifreiðinni JT-800, sem var í eigu stefndu Steinunnar, móður stefnanda og ábyrgðartryggð hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.  Ökumaður var Stefán heitinn Lúðvíksson, unnusti stefnanda.  Ökuferðinni lauk með því að hann ók á vegg vigtarhúss við Hafnarbraut á Hólmavík. Lést hann samstundis, en stefnandi slasaðist.

Stefnandi og Stefán höfðu bæði verið að skemmta sér um nóttina og neytt áfengis. Stefnandi hafði farið til Hólmavíkur frá Reykhólum fyrr um nóttina og heim aftur.  Ók þá annar maður ofangreindri bifreið móður stefnanda, sem stefnandi hafði til umráða.  Stefán heitinn varð þeim samferða frá Hólmavík til Reykhóla, en vildi komast aftur til Hólmavíkur og gista þar.  Varð úr að þau stefnandi fóru til Hólmavíkur og ók þá Stefán heitinn.  Þau fóru síðan á veitingahús og þaðan í samkvæmi.   Stefnandi segir að er þau fóru úr samkvæminu hafi Stefán heitinn viljað fara í ökuferð.  Hún hafi reynt að fá hann ofan af því, en ekki tekist.  Hafi þá orðið úr að hún fór með honum.  Gestir í samkvæminu, Gauti Már Þórðarson og Guðrún Sveinbjörnsdóttir, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, segja að reynt hafi verið að fá Stefán heitinn ofan af því að aka, enda hafi hann augljóslega verið ölvaður.  Gauti Már hringdi til lögreglu.  Lögreglumaður á bakvakt, Höskuldur Birkir Erlingsson, mætti Stefáni og Hallfríði á Hafnarbraut við svonefnt Klif.  Höskuldur sneri við og kveikti á bláum aðvörunarljósum.  Hann kveðst eftir það hafa séð bifreiðina við enda Borgabrautar, en síðan ekki fyrr en hann kom á vettvang slyssins.  Stefnandi skýrir svo frá að er þau mættu lögreglubifreiðinni hafi Stefán heitinn aukið hraðann og sagt að hann vildi ekki missa ökuréttindi sín.   Hún hafi beðið hann að stöðva, en hann ekki orðið við því.

Stefnandi segir að sér hafi verið ljóst að Stefán heitinn hafði neytt einhvers áfengis, en ekki tekið sérstaklega eftir ölvunareinkennum á honum og ekki hafa gert sér grein fyrir í hvaða mæli hann hefði neytt áfengis.  Hann hafi ekið gætilega til Hólmavíkur frá Reykhólum og einnig uns þau mættu lögreglu.

Alkóhólmagn í blóðsýni, sem tekið var úr líki Stefáns heitins eftir slysið reyndist innihalda 2,15 ‰.

II.

Jónas Hallgrímsson læknir lagði mat á afleiðingar slyssins á stefnanda. Í niðurstöðukafla matsgerðar hans, sem er dagsett 2. ágúst 2001, segir að stefnandi hafi brotnað um hægra viðbein og vinstra úlnlið, auk tognunar um hægri ökkla. Ennfremur hafi hún væg einkenni um hálstognun og meiri einkenni um mjóbakstognun. Til viðbótar hafi hún orðið fyrir alvarlegu andlegu áfalli með kvíða og auknu þunglyndi en hún hafi þó eitthvað fundið fyrir því fyrir slysið. Talið sé að hún muni framvegis hafa einkenni frá stoðkerfi, hálsi, mjóbaki, hægra viðbeini, hægri ökkla og vinstri úlnlið.  Talsverð óvissa sé um afleiðingar slyssins á andlega heilsu hennar, en þar sem unnusti hennar hafi látist í því þyki ekki líklegt að nokkurn tíma muni gróa um heilt hjá henni varðandi það atriði.   Metur Jónas varanlegan miska stefnanda 25% og varanlega örorku 25%.  Þá segir að stefnandi hafi ekki misst úr vinnu vegna slyssins, þar sem hún hafi verið milli starfa.  Hún hafi verið veik í skilningi skaðabótalaga frá slysdegi til 12. janúar 1999.  Hún hafi verið rúmliggjandi á Hólmavík í einn dag eftir slysið. 

Að beiðni stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. lagði örorkunefnd mat á varanlega örorku og miska stefnanda.  Álitsgerð hennar er dagsett 10. desember 2002.  Segir í niðurstöðum nefndarinnar að fyrir slysið hafi stefnandi verið við góða heilsu.  Hún hafi lent í umferðarslysi árið 1988 og fengið migraine einkenni í kjölfarið og metin til 3% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.  Hún hafi átt við viss vöðvabólguvandamál að stríða í herðum.  Hún hafi sagst hafa átt við geðsveiflur að stríða á unglingsárum en ekki talið að um þunglyndi væri að ræða, heldur hefðu sveiflurnar hvorki verið meiri né minni en algengt væri meðal unglinga.  Hún hafi sagst hafa fengið áfall, kvíða og þunglyndi við slysið og leitað til geðlæknis og tekið þunglyndislyf um tíma.  Einkenni frá vinstri úlnlið, ökkla, mjaðmarsvæði og brjóstholi hefðu lagast í núverandi horf um áramótin 1998-1999.  Upp frá þeim tíma hafi farið að bera á mjóbakseinkennum sem hún hafi ekki þekkt áður.  Bakeinkenni hafi verið óbreytt frá því um mitt sumar 1999.  Hún hafi byrjað að vinna í janúar 1999 og unnið ýmis störf síðan.  Hún lýsi ástandi sínu þannig að hún fái oft og iðulega kvíðaeinkenni og ónot þegar hún hugsi um slysið og afleiðingarnar.  Hún hafi óþægindi í mjóbaki, finnist hægri ökkli vera óstöðugur og þoli illa að ganga á ójöfnu, en segi að vinstri úlnliður og hægra axlarsvæði hafi jafnað sig að miklu leyti.  Vöðvabólgueinkennin séu svipuð og áður, en hún hafi þó einhver einkenni í hnakka, hann sé stríðari og hún fái aðeins oftar höfuðverk  en áður. Aukið álag auki á þessi einkenni. 

Þá kemur fram að við skoðun á stefnanda sé að finna einkenni eins og fram geti komið eftir vöðvabólgu og mjög væga hálstognun.  Það hafi verið að finna misfellu á hægra viðbeini og væg axlarhyrnueinkenni.  Í mjóbaki hafi veið að finna einkenni eins og geti komið fram eftir mjóbakstognun eða mjóbaksheilkenni.  Útsnúningur á vinstri framhandlegg hafi verið skertur og orsakað einkenni og til staðar hafi verið þreifi­eymsli innanvert á hægri ökkla og hreyfing í ökkla hafi verið skert.

Nefndin telur að ekki sé hægt með vissu að fullyrða að mjóbakseinkenni stefnanda séu vegna beinna afleiðinga slyssins.  Það sé hugsanlegt að þegar almenn líkamleg og andleg einkenni hafi minnkað hafi mjóbakseinkennin frekar orðið áberandi.  Jafnframt telji nefndarmenn að þyngdaraukning stefnanda eigi þátt í mjóbakseinkennunum.   Þá telur nenfdin að slysið hafi orsakað hreyfiskerðingu um vinstri framhandlegg/úlnlið og í hægri ökkla ásamt vægt auknum einkennum frá hálsi og hægra axlarsvæði. 

Nefndin telur ekki sýnt að stefnandi hafi átt við óeðlilegan kvíða eða þunglyndi að stríða fyrir slysið, en augljóst að hún hafi orðið fyrir kvíða- og áfallaröskun í kjölfarið, en henni virðist hafa tekist að vinna allvel úr þeirri röskun.

Nefndin telur að eftir 1. október 1999 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem skipti máli af afleiðingum slyssins.  Telur nefndin varanlegan miska hennar hæfilega metinn 15%.  Hún hafi verið komin nýlega út á vinnumarkað þegar slysið varð.  Afleiðingar þess séu þess eðlis að þær dragi nokkuð úr getu hennar til öflunar vinnutekna í framtíðinni vegna minna úthalds til vinnu en hún ella hefði haft, en að hún eigi engu að síður að geta unnið margvíslega vinnu.  Er varanleg örorka hennar metin 10%.

Að kröfu stefnanda voru Stefán Carlsson bæklunarlæknir og Stefán Már Stefánsson, prófessor, dómkvaddir 29. janúar 2003 til að meta varanlega örorku og varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins.  Matsgerð þeirra er dagsett 8. september 2003.  Telja matsmennirnir að helstu varanlegu einkenni stefnanda í kjölfar slyssins séu væg hálstognun, einkenni frá hægra viðbeini, væg mjóbakstognun og væg hreyfiskerðing í vinstra úlnlið og hægra ökkla.  Hafi komið fram vægar hreyfiskerðingar í hálsliðum við ystu hreyfimörk.  Slíkar hreyfiskerðingar séu dæmigerðar fyrir afleiðingar hálstognunar og telja matsmennirnir ekki vafa á að þær megi rekja til afleiðinga slyssins.  Upp úr áramótum 1998-1999 hafi farið að bera á mjóbakseinkennum sem stefnandi reki til slyssins.  Við skoðun hafi greinst eymsli á mótum lendar- og spjaldhryggs beggja megin, auk þess sem vart hafi orðið við vægar hreyfiskerðingar í mjóbaki.  Telja matsmennirnir eðlilegast að meta þessi einkenni til afleiðinga slyssins.  Ástæðan sé fyrst og fremst sú að slík skýring sé eðlilegust og raunar dæmigerð fyrir slys sem þetta.  Hreyfiskerðingar í úlnlið og í ökkla séu afleiðing af broti annars vegar og tognun hins vegar í kjölfar slyssins, sem séu staðfest með læknisfræðilegum gögnum og hafið yfir vafa.  Þá segir að einkenni stefnanda hafi þróast yfir í að valda allnokkrum hliðlægum einkennum sem hafi áhrif á andlega líðan og daglega getu stefnanda.  Þó að hún hafi áður haft nokkra sögu um þunglyndiseinkenni þyki eðlilegt að taka nokkurt tillit til andlegs ástands hennar við ákvörðun á varanlegum miska.  Með hliðsjón af þessu verði varanlegur miski hennar, sem eingöngu verði rakinn til slyssins metinn 20%.

Þá segja matsmenn að samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga beri við mat á varanlegri örorku að miða við hvaða áhrif það líkamstjón sem til skoðunar sé hafi á getu hins slasaða til að afla sér vinnutekna.  Beri í því sambandi að taka tillit til allra þeirra kosta sem viðkomandi hafi til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að viðkomandi stundi.  Matið beri að framkvæma þannig að bornar séu saman tvær ætlaðar atburðarásir, þ.e. annars vegar þá sem ætla megi að hefði orðið ef ekki hefði komið til slyss og hins vegar þá sem orðin sé og ætla megi að verði í framtíðinni  í atvinnuþáttöku tjónþola að teknu tilliti til þeirra staðreyndar að hann hafi orðið fyrir því líkamstjóni sem til skoðunar sé.  Gera verði kröfu um að tjónþoli takmarki tjón sitt með endurhæfingu eins og kostur sé og með því að nýta þá starfsmöguleika sem með sanngirni verði ætlast til.  Stefnandi hafi lokið grunnskólanámi og síðan hafið framhaldsnám sem hún hafi þó gert hlé á eða hætt.  Hún hafi einkum unnið á dvalarheimili aldraðra á Reykhólum og á leikskóla þar.  Við mat á atvinnutjóni hennar kveðast matsmenn leggja til grundvallar að hún muni einnig í framtíðinni vinna við svipuð störf fyrir ófaglærða og hún hafi unnið hingað til.  Þyki ekki fært að miða við að hún ljúki einhverri tiltekinni starfsmenntun eða æðra námi. Tjón hennar felist þá í því að möguleikum hennar á þeim vinnumarkaði sem hún hafi haslað sér völl á hafi fækkað.  Eftir standi vinna fyrir ófaglærða.  Í því efni megi ætla að hún verði að forðast erfiðustu störfin og auki að draga úr álagsbundinni vinnu eða yfirvinnu.  Með hliðsjón af þessum forsendum þyki rétt að meta varanlega örorku hennar jafna varanlegum miska eða 20%.

III.

Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á 1. mgr. 88. gr., sbr. 90. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987, en samkvæmt þeim ákvæðum skal eigandi skráningarskylds vélknúins ökutækis bæta tjón sem hlýst af notkun þess.  Tjón stefnanda, sem rakið verði til slyssins hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar JT-800 og beri eigandinn, stefnda Steinunn, ábyrgð á tjóninu.  Stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. beri ábyrgð sem vátryggjandi bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga.

Stefnandi kveðst viðurkenna að hafa tekið sér far með ökumanni sem hún hafi gert sér grein fyrir að var eitthvað ölvaður, en þó ekki veitt því sérstaka athygli og ekki talið að sérstök hætta myndi stafa af akstrinum. Hafi Stefán heitinn verið búinn að aka umtalsverðar vegalengdir án þess að hætta skapaðist og það hafi ekki verið fyrr en við eftirför lögreglu sem aksturslag hans hafi orðið glannalegt, en á hinn bóginn sé ljóst að viðbrögð hans þá hafi verið óvænt og ófyrirsjáanleg.  Hafi slysið hlotist af þessu aksturslagi.  Verði ekki litið svo á að stefnandi hafi orðið meðvöld að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

IV.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að fella beri niður bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, þar sem hún hafi sjálf orðið meðvöld að slysi sínu með stórkostlegu gáleysi og fyrirgert bótarétti sínum með öllu.  Verði slysið ekki rakið til annars en ölvunaraksturs Stefáns heitins, en viðbrögð hans og háskaakstur eftir að hann mætti lögreglunni séu dæmigerð fyrir viðbrögð ölvaðs ökumanns við slíkar kringumstæður.

Stefnandi hafi verið umráðamaður bifreiðarinnar.  Hún hafi falið manni sem hún hafi vitað að var undir áhrifum áfengis akstur hennar frá Reykhólum til Hólmavíkur.  Er þangað var komið hafi hún farið ásamt honum í samkvæmi í heimahús, þar sem þau hafi áfram haft áfengi um hönd.  Er langt hafi verið liðið á nóttu hafi þau ákveðið að fara í ökuferð um Hólmavík og hafi stefnandi látið Stefán heitinn aka og sest í framsæti við hlið hans, þrátt fyrir að hún hafi vitað að hann var ölvaður og þrátt fyrir að allir viðstaddir hafi lagt að þeim að fara ekki á bifreiðinni sökum ölvunarástands Stefáns og reynt að tefja fyrir þeim meðan hringt var til lögreglu.  Vísa stefndu til lýsinga vitna fyrir lögreglu, sem hafi lýst ástandi Stefáns heitins með nánar greindu orðalagi í þá veru að hann hafi sýnilega verið verulega ölvaður.  Þá vísa þau til niðurstöðu alkóhólrannsóknar á blóðsýni úr líki Stefáns.  Hafi stefnanda ekki getað dulist að hann hafi verið mjög ölvaður og stórhættulegt að hann æki bifreiðinni.  Hafi viðbrögð hans, er þau mættu lögreglubifreiðinni, verið eins og búast megi við af ölvuðum ökumanni, en ekki óvænt og ófyrirsjáanleg eins og haldið sé fram af hálfu stefnanda.  Telja stefndu að með því að fela manni, sem henni hafi ekki átt að geta dulist að var ofurölvi, stjórn bifreiðar og taka sér sjálf far með honum að nauðsynjalausu, þrátt fyrir að viðstaddir hafi lagt að henni og honum að fara ekki á bifreiðinni sökum ölvunar hans, hafi stefnda sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og svo ámælisverða hegðun að hún hafi fyrirgert bótarétti sínum.  Hafi hún enga afsökun fyrir gerðum sínum og réttlæti það ekki hegðun hennar að hún var sjálf undir áfengisáhrifum.

Þá byggja stefndu sýknukröfu sína á því að bótaréttur stefnanda eigi að falla niður vegna áhættutöku, en regla skaðabótaréttar um hana hafi gilt um tilvik þar sem tjónþoli tók sér far með ölvuðum ökumanni samkvæmt bindandi dómvenju, sem var breytt með dómi Hæstaréttar Íslands 25. október 2001.  Sé sú breyting sambærileg því að settum lögum hefði verið breytt og beri því að beita þeirri meginreglu íslensks réttar að lög virki ekki aftur fyrir sig. 

Varakrafa stefndu er byggð á því að lækka eigi bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og aldrei um minna en tvo þriðju.  Þá telja stefndu að miða eigi við álitsgerð örorkunefndar við ákvörðun bóta, en ekki við mat Jónasar Hallgrímssonar læknis eða dómkvaddra matsmanna..

V.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 129/2001, upp kveðnum 25. október 2001, var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru lengur efni til að halda við dómvenju, sem leitt hafði af dómafordæmum undanfarna áratugi um að sá, sem tæki sér far með ölvuðum ökumanni og væri, eða mætti vera það ljóst, fyrirgerði rétti sínum til bóta, lenti hann í slysi.  Var tekið fram í forsendum dómsins að hafa yrði í huga að aðdragandi þess þegar maður sest upp í bifreið með ölvuðum ökumanni geti verið með ýmsum hætti, svo og önnur atvik, þannig að eðlilegt sé að hvert tilvik sé metið fyrir sig.  Dæma ber um það tilvik sem hér um ræðir í ljósi þessarar niðurstöðu.  Verður ekki fallist á það með stefndu að þrátt fyrir hana eigi að beita dómvenju sem ekki eru lengur efni til að halda við.

Stefnandi kveðst hafa vitað að Stefán heitinn hafði neytt einhvers áfengis um nóttina og ber að hafa reynt af þeim sökum að fá hann ofan af því að fara í ökuferð er þau yfirgáfu samkvæmi sem þau höfðu sótt um nóttina.  Vitni báru hér fyrir dómi að hafa séð ölvunareinkenni á Stefáni heitnum og hringdu í lögreglu í því skyni að för hans yrði stöðvuð.  Viðbrögð hans við því er hann mætti lögreglubifreiðinni og gáleysislegan akstur hans í kjölfarið, er hann reyndi að komast undan lögreglu, sem leiddi til slyssins, verður að rekja til ölvunar hans.

Með því að fela manni stjórn bifreiðar sem hún hafði umráð yfir og taka sér far með honum, þrátt fyrir að hún gerði sér grein fyrir því að hann var undir áfengisáhrifum, sýndi stefnandi af sér stórkostlegt gáleysi.  Verða bætur til hennar lækkaðar á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og þykir rétt að hún beri sjálf 2/3 hluta tjóns síns, þegar atvik eru virt.

VI.

Af hálfu stefndu er því mótmælt að ákvarða beri bætur á grundvelli matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar læknis, með skírskotun til þess að stefndu hafi ekki verið gefinn kostur á að koma þar að sjónarmiðum sínum.  Þá telja stefndu að ekki eigi að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar við ákvörðun bóta, með vísan til þess að örorku- og miskastig stefnanda hafi verið metið af örorkunefnd, sem sé falið það hlutverk að lögum.

Gegn ofangreindum mótmælum stefndu verða niðurstöður Jónasar Hall­gríms­sonar um varanlega örorku og miskastig ekki lagðar til grundvallar.  Stefnandi hefur hins vegar aflað mats dómkvaddra manna til viðbótar álitsgerð örorkunefndar.  Í álitsgerð nefndarinnar segir að ekki sé hægt með vissu að fullyrða að mjóbakseinkenni stefnanda séu vegna beinna afleiðinga slyssins.  Sé hugsanlegt að þegar almenn líkamleg og andleg einkenni hafi minnkað hafi mjóbakseinkennin frekar orðið áberandi.  Jafnframt telji nefndarmenn að þyngdaraukning hennar eftir slysið eigi þátt í mjóbakseinkennunum.  Í niðurstöðu dómkvaddra matsmanna segir hins vegar um þetta að við skoðun hafi greinst eymsli á mótum lendar- og spjaldhryggs beggja megin, auk þess sem vart hafi orðið við vægar hreyfiskerðingar í mjóbaki.  Telja matsmennirnir eðlilegast að meta þessi einkenni til afleiðinga slyssins eins og hér standi á.  Segja þeir ástæðuna fyrst og fremst þá að slík skýring sé sennilegust og raunar dæmigerð fyrir slys sem þetta. 

Samkvæmt þessu er það eindregin niðurstaða dómkvaddra matsmanna, gagnstætt áliti örorkunefndar, að mjóbakseinkennin verði rakin til slyssins.  Stefndu hafa ekki leitast við að hnekkja rökstuddri niðurstöðu þeirra um þetta.  Með tilliti til þessa verður niðurstaða dómkvaddra matsmanna um varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda lögð til grundvallar, 20% í báðum tilvikum.

VII.    

Stefnandi var rúmra 18 ára er slysið varð.  Hún hafði stundað nám ½ önn haustið 1996 í Menntaskólanum á Ísafirði og nám í matartækni við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og síðan Menntaskólann í Kópavogi vor og haustönn 1997.  Þá hóf hún störf á leikskóla á Reykhólum. Hún kveðst hafa verið lausráðin og hafa hætt er sumarleyfi hófst í júní 1998.  Hún kvaðst hafa farið utanlands í ágúst og ekki hafa talið taka því að sækja um nýja vinnu fyrr en að ferðinni lokinni. Hún hafi komið heim um miðjan september og hafa verið að leita nýrrar vinnu er slysið varð.  Hún hóf störf í verslun 12. janúar 1999 í Reykjavík og starfaði þar fram í maí.  Eftir það hefur hún starfað á leikskólum, einkum á Reykhólum og dvalarheimili aldraðra þar og einnig við sundlaugina á Reykhólum sumarið 2002.

Eins og hér háttar til þykir ekki fært að miða við raunverulegar tekjur stefnanda fyrir slysið.  Verður fallist á það með stefnanda að beita beri reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem kveður á um að meta skuli árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi.

Aðalkrafa stefnanda miðast við að leggja beri meðaltekjur iðnaðarmanna til grundvallar uppgjöri bóta.  Er því mótmælt af hálfu stefndu, sem telja að miða eigi við meðaltekjur ófaglærðs verkafólks, ef ekki verði fallist á að miða við raunverulegar tekjur stefnanda næst fyrir slys.  Þegar litið er til þess að stefnandi hafði gert hlé á námi fyrir slysið og er enn ófaglærð, þykir verða að fallast á það með stefndu að miða við meðaltekjur ófaglærðs verkafólks.  Samkvæmt niðurstöðum launakönnunar á launum eftir starfstéttum á 4. ársfjórðungi 1998, sem stefnandi hefur lagt fram voru föst mánaðarlaun almenns verkafólks í dagvinnu að meðaltali 101.908 krónur, eða 1.296.270 krónur á ári að meðtöldu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Verður þessi fjárhæð lögð til grundvallar og dæmt um tjón stefnanda á grundvelli þrautavarakröfu hennar, sem er miðuð við þessi árslaun.

Stefnandi krefst bóta fyrir tímabundið atvinnutjón í þrjá mánuði eftir slysið og vísar til þess að fram kemur í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis að hún hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa í þrjá mánuði eftir slysið.  Er þessu mótmælt af hálfu stefndu með vísan til þess að stefnandi hafi verið atvinnulaus á slysdegi og ekki tapað neinum atvinnutekjum.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal leggja verðmæti vinnu við heimilisstörf að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr.  Stefnandi var orðin 18 ára er slysið varð og því ekki lengur á framfæri foreldra.  Hún var í atvinnuleit, en bjó hjá foreldrum sínum.  Þrátt fyrir það verður litið svo á að henni hafi verið skylt að leggja sitt af mörkum við heimilishald með vinnuframlagi á heimilinu meðan hún stundaði ekki atvinnu.  Því hefur ekki verið hnekkt að hún hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa í þrjá mánuði.  Samkvæmt þessu verður fallist á að stefnda eigi rétt til bóta vegna þeirrar óvinnufærni.  Verður beitt sömu tekjuviðmiðun og að ofan greinir og reiknast tjón stefnanda því 324.068 krónur (1.296.270/12x3).

Í öðru lagi er krafist þjáningabóta, miðað við að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í einn dag, 1.680 krónur og veik án þess að vera rúmföst í 99 daga, 900 krónur á dag, samtals 90.780 krónur.  Er hér byggt á niðurstöðu Jónasar Hallgrímssonar læknis, þar sem talið er að hún hafi verið veik frá slysdegi til þess er hún hóf starf í Reykjavík 12. janúar 1999 og verið rúmliggjandi í einn dag á Hólmavík eftir slysið.  Þessum lið var mótmælt sem ósönnuðum við munnlegan málflutning, en ekki þykir varhugavert að leggja niðurstöðu Jónasar til grundvallar um þetta veikindatímabil.  Verður þessi liður tekinn til greina. 

Krafist er bóta fyrir varanlegan miska, sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, miðað við 20% miskastig og grunnfjárhæðina 4.000.000 króna, sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, sem uppfærð er í kröfugerð stefnanda miðað við vísitölu í september 2001 í 5.171.000 krónur.  Útreikningi í þessum lið er ekki mótmælt ef frá er talið að stefndu telja að miða beri við niðurstöður örorkunefndar, sem áður er fjallað um.  Verður hann tekinn til greina.

Krafist er bóta fyrir varanlega örorku, sem reiknast 2.592.540, (20% x 10 x 1.296.270, sbr. 6. gr. skaðabótalaga, sbr. l. nr. 42/1996.)  Þá er krafist 455.436 króna vegna vísitöluuppfærslu frá vísitölu á slysdegi, 3609 stig, til vísitölu í september 2001, 4243 stig.  Fær það stoð í lokamálslið 15. gr. skaðabótalaga, eins og hún hljóðaði áður henni var breytt með lögum nr. 37/1999.  Verður þessi liður einnig tekinn til greina.

Krafist er 250.000 króna bóta fyrir annað fjártjón, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaða­bóta­laga.  Þessum lið er mótmælt af stefndu sem ósönnuðum.  Á því er byggt af hálfu stefnanda að hér sé um matskennda kröfu að ræða, sem miðist m.a. við þá miklu röskun á stöðu og högum sem hafi hlotist af slysinu og þann mikla kostnað sem hafi þegar leitt af því og megi vænta í framtíðinni.  Tekur stefnandi fram að hún hafi engar greiðslur fengið vegna læknisheimsókna og umönnunar að öðru leyti.

Ljóst er af gögnum máls að stefnandi þurfti að leita sér lækninga, m.a. í Reykjavík, í kjölfar slyssins.  Með tilliti til búsetu hennar verður að telja að líkur standi til þess að hún hafi haft af því kostnað, sem erfitt sé að staðreyna að öllu leyti með gögnum, þannig að rétt sé að dæma henni nokkrar bætur að álitum á grundvelli 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.  Ákveðst tjón hennar í þessum lið þannig 50.000 krónur.

Samkvæmt ofansögðu verður tjón stefnanda af völdum slyssins talið nema 4.547.024 krónum.  Verða stefndu dæmd til að greiða henni óskipt 1/3 þar af, eða 1.515.674 krónur.  Ber fjárhæðin 2% ársvexti frá slysdegi.  Rétt þykir að dæma dráttarvexti í samræmi við meginreglu 9. gr. laga nr. 38/2001.  Verða dráttarvextir því dæmdir frá því er mánuður var liðinn frá því að matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis lá fyrir, eða frá 2. september 2001.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, útlagður kostnaður kr. 458.013 og mál­flutnings­þóknun lögmanns hennar, Eiríks Elíss Þorlákssonar, hdl., sem ákveðst 600.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.  Eftir úrslitum málsins verður stefndu dæmd til að greiða óskipt 1.058.013  krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndu, Steinunn E. Þorsteinsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf. greiði stefnanda, Hallfríði Valdimarsdóttur, óskipt 1.515.674 krónur með 2% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá 4. október 1998 til 2. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.058.013 krónur, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Eiríks Elíss Þorlákssonar hdl., 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Stefndu greiði óskipt 1.058.013 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.