Hæstiréttur íslands

Mál nr. 220/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Gagnaöflun


         

Miðvikudaginn 23. apríl 2008.

Nr. 220/2008.

Sýslumaðurinn í Borgarnesi

(Jón Einarsson, fulltrúi)

gegn

ótilgreindum fjármálafyrirtækjum,

ótilgreindum fjármálastofnunum og

ótilgreindum öðrum stofnunum,

sem hafa í vörslum sínum upplýsingar

um fjárhagsleg málefni einstaklinga

 

Kærumál. Lögreglurannsókn. Gagnaöflun.

S krafðist úrskurðar um aðgang að upplýsingum um fjármál X. Þar sem krafan beindist ekki að tilteknum manni eða lögaðila sem bjó yfir eða kunni að búa yfir þeim upplýsingum sem óskað var aðgangs að var kröfunni hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. apríl 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að „úrskurðað verði að fjármálafyrirtækjum, fjármálastofnunum og öðrum stofnunum sem undir íslensk lög heyra, sem hafa í sínum vörslum upplýsingar um fjárhagsleg málefni einstaklinga, sé skylt að afhenda sýslumanninum í Borgarnesi upplýsingar um fjármál X, [kt.], hverju nafni sem nefnast, þar með talið upplýsingar um eignir og önnur fjárhagsleg réttindi, um skuldir, um bankareikninga, um gjaldeyrisviðskipti, og skattalegar upplýsingar, sem og aðrar upplýsingar um fjárhag hans.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina.

Krafa sóknaraðila beinist ekki að neinum tilteknum manni eða lögaðila, sem býr yfir, eða kann að búa yfir, þeim upplýsingum sem sóknaraðili óskar aðgangs að. Breytir hér engu þótt fyrir liggi hver sá maður er sem þær upplýsingar varða er sóst er eftir. Er krafa sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu ótæk til efnismeðferðar og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort rétt hefði verið að gefa nefndum manni kost á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. apríl 2008.

Með bréfi sem barst dóminum 17. apríl 2008 hefur sýslumaðurinn í Borgarnesi gert svohljóðandi kröfu: Að úrskurðað verði að fjármálafyrirtækjum, fjármálastofnunum og öðrum stofnunum sem undir íslensk lög heyra, sem hafa í sínum vörslum upplýsingar um fjárhagsleg málefni einstaklinga, sé skylt að afhenda sýslumanninum í Borgarnesi upplýsingar um fjármál X, [kt.], hverju nafni sem nefnast, þar með talið upplýsingar um eignir og önnur fjárhagsleg réttindi, um skuldir, um bankareikninga, um gjaldeyrisviðskipti, og skattalegar upplýsingar, sem og aðrar upplýsingar um fjárhag hans.

I.

Með úrskurði dómsins 28. febrúar 2008 var lögreglunni í Borgarnesi heimiluð húsleit hjá X á heimili hans að [...]. Um er að ræða [...] en X var nemandi þar. Sama dag fór leitin fram hjá sakborningi og fundust leifar af ætluðum kannabisefnum. Einnig fundust í íbúðinni tvö box með töflum og var annað þeirra merkt „Natural Sterol Complex“ og hitt „Excedrin“. Umrædd húsleit var liður í umfangsmeiri aðgerðum lögreglu við rannsókn á ætlaðri sölu og dreifingu fíkniefna á [...].

Hinn 4. mars 2008 mætti X á lögreglustöðina í Borgarnesi og kannaðist við að hafa átt 0,3 grömm af kókaíni sem fundust við leit í annarri íbúð í [...].

Með bréfi sýslumannsins í Borgarnesi 25. mars 2008 var þess farið á leit að lögreglu yrði veitt heimild til að afla upplýsinga hjá bönkum, fjármálafyrirtækjum og fjármálastofnunum, og opinberum stofnunum, þ.m.t. skattayfirvöldum, um fjármál X og viðskipti, þar með talið bankareikninga hans og gjaldeyrisviðskipti, að minnsta kosti fyrir tvö síðastliðin ár. Því erindi var svarað með bréfi Heiðrúnar Marteinsdóttur, héraðsdómslögmanns, 3. apríl sama ár, og beiðninni hafnað. Þar er einnig tekið fram að lögregla hafi með aðgerðum sínum leitt í ljós að ekki hafi verið fótur fyrir grunsemdum lögreglu. Þessar aðgerðir hafi hins vegar valdið skjólstæðingnum ómældum skaða, en honum hafi verið vísað úr skóla.

II.

Í beiðni sýslumanns er því haldið fram að frásögn sakbornings sé með vissum ólíkindablæ en lögregla telur að hann sé að taka á sig sök með því að segjast eiga fíkniefni sem fundust í annarri íbúð. Telur lögregla að það sé gert í því skyni að bjarga þeim sem lögregla telur höfuðpaur í dreifingu fíkniefna á [...].

Til stuðnings kröfunni vísar sýslumaður einnig til þess að sakborningi væri í lófa lagið að fallast á beiðni um að veita heimild til gagnaöflunar. Telur sýslumaður að slík gagnaöflun valdi hvorki tjóni né óþægindum ef sá sem athugunin beinist að er á annað borð löghlýðinn borgari.

Um lagarök vísar sýslumaður til 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og b-liðar 1. mgr. 71. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. 

III.

Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að sakborningur eigi þess kost að sækja dómþing í eigin máli eftir að ákæra er gefin út. Í lögunum er hins vegar, að því leyti sem ekki er mælt sérstaklega á annan veg, ekki gert ráð fyrir því almennt að grunuðum manni eða þeim sem á þá hagsmuni sem rannsókn beinist að sé gefinn kostur á að láta mál til sín taka meðan það er til rannsóknar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2006 í máli nr. 59/2006. Í samræmi við þetta hefur X ekki verið gert aðvart um málið til að gæta hagsmuna sinna.

Í 67. gr. laga nr. 19/1991 segir að markmið rannsóknar sakamáls sé að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Samkvæmt 68. gr. laganna skal rannsaka og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem nánar er rakið í því ákvæði.

Friðhelgi einkalífs manna nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við það eru rannsóknarúrræðum lögreglu sem fara inn á svið einkalífs settar þröngar skorður. Við rannsókn sakamála gildir einnig sú ólögfesta meginregla að þeim sem rannsókn beinist að verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur.

Krafa sýslumanns beinist ekki að tilteknum fyrirtækjum eða stofnunum heldur lýtur hún í raun að öllum þeim lögaðilum hér á landi sem hafa í fórum sínum upplýsingar af fjárhagslegum toga um einstaklinga. Þegar litið er til rannsóknarinnar, eins og hún liggur fyrir í gögnum málsins, skortir mjög á að kröfugerðin sé nægjanlega markviss og afmörkuð. Jafnframt gengur umbeðin rannsóknaraðgerð mun lengra en helgast getur af þeim grunsemdum sem beinast gegn sakborningi. Samkvæmt þessu verður ekki talinn fyrir hendi haldbær grundvöllur til að krafan verði tekin til greina og er henni hrundið.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Framangreindri kröfu sýslumannsins í Borgarnesi um gagnaöflun um fjármál X er hafnað.