Hæstiréttur íslands
Mál nr. 309/2001
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Ítrekun
- Neyðarréttur
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2001. |
|
Nr. 309/2001. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Steingrími Njálssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ítrekun. Neyðarréttur.
S var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda. Ekki var fallist á að honum hefði verið nauðugur kostur að aka bifreiðinni til að forða lífi sínu, limum og eignum vegna ógnunar „eiturlyfjagengis“ um að hann yrði beittur ofbeldi ef hann hefði sig ekki á brott innan klukkustundar. Var niðurstaða héraðsdóms um ævilanga ökuréttarsviptingu og fangelsisvist staðfest en S átti að baki langan sakarferil og hafði margoft hlotið refsingu fyrir ölvun við akstur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði dæmd skilorðsbundin. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að ákærði byggir sýknukröfu sína einvörðungu á neyðarréttarsjónarmiðum.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni K 3425, að morgni þriðjudagsins 31. október 2000, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti um Miklubraut og Vesturlandsveg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Korpúlfsstaði.
Á það verður ekki fallist með ákærða að háttsemi hans hafi verið honum refsilaus samkvæmt neyðarréttarákvæði 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem honum hafi verið nauðugur sá kostur að aka bifreiðinni til að forða lífi sínu, limum og eignum vegna ógnunar „eiturlyfjagengis“ um að hann yrði beittur ofbeldi ef hann hefði sig ekki á brott innan klukkustundar. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Steingrímur Njálsson, greiði allan áfrýjunarkostnað af málinu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 23. maí sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 28. nóvember 2000 á hendur ákærða Steingrími Njálssyni, kt. 210442-3679, óstaðsettum í hús í Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni K-3425, að morgni þriðjudagsins 31. október 2000, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti um Miklubraut og Vesturlandsveg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Korpúlfsstaði.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.
Málsatvik og málsástæður.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá 31. október 2000 var lögreglan í almennu umferðareftirliti á Vesturlandsvegi kl. 07.45 og ók í norður fram hjá gatnamótum Víkurvegar/Vesturlandsvegar þegar hún veiti athygli hvítri sendibifreið sem við nánari athugun reyndist vera án skráningarmerkja að aftan, og að auki hékk kaðall neðan úr bifreiðinni. Þessari hvítu sendibifreið var ekið á undan lögreglubifreiðinni, og ók lögreglan því fram fyrir sendibifreiðina til að kanna hvort skráningarmerki vantaði að framan og reyndist svo vera. Forgangsljós voru sett á og sinnti ökumaður ekki stöðvunarmerkjum fyrr en á Vesturlandsvegi gegnt Korpúlfsstöðum. Haft var tal af ökumanni og þekkti lögreglumaður nr. 8401 þegar í stað ökumann sem reyndist vera ákærði og lagði megna áfengislykt frá vitum hans. Í skýrslunni segir að hann hafi verið tregur til að koma yfir í lögreglubifreiðina og verið mjög ósamvinnuþýður og kjaftfor. Öndunarsýni sýndi 3-4 stig. Var hann þá handtekinn og færður á lögreglustöð og þar yfirheyrður að viðstöddum verjanda. Játaði hann að hafa verið að drekka og að hafa ekið frá Reykjavík um Miklubraut og Vesturlandsveg og hafa ætlað vestur á Snæfellsnes. Annað kom ekki fram. Ákærði var síðan færður til blóðsýnatöku. Niðurstaða rannsóknar á blóðsýni að teknu tilliti til vikmarka var 2.06.
Ákærði ber fyrir sig neyðarvörn. Skýrði hann svo frá fyrir dóminum að hann hefði verið húsnæðislaus á þessum tíma og hefði því sofið í bifreið sinni, sem ekki væri á skrá. Hann kvaðst hafa verið staðsettur á bifreiðastæði við Stýrimannaskólann í Reykjavík, þegar eitulyfjagengi með hringa í nefi og í leðurjökkum, eingöngu karlmenn, hefði komið þar og hefði einn verið með ísexi og lamið henni í bílrúðuna, sem hefði verið sprungin fyrir. Þeir hefðu hótað honum og skipað honum að hafa sig á brott innan klukkustundar. Hann kvaðst bæði hafa óttast að bíll sinn yrði lagður í rúst og að gengið yrði í skrokk á honum, jafnvel óttast um líf sitt. Þar sem hann hafi ekki átt peninga til að kaupa greiðabíl hefði eina úrræðið verið að aka brott. Hefði hann verið að forða sér eitthvað burt þegar hann var stöðvaður. Hann kvaðst oft hafa lent í því að undanförnu að menn ofsæktu hann eða hefðu í hótunum við hann eða um að skemma eigur hans, síðast 12. mars sl. hefði rakettu verið skotið að honum, einnig nefndi hann atvik sem átti sér stað á Hvolsvelli haustið 1998. Spurður hver vegna hann hefði ekki leitað til lögreglu kvaðst hann einnig vera lagður í einelti af lögreglu og ekki hafa talið sig eiga þar í öruggt hús að venda.
Vitnið Þorgeir Albert Elísson lögreglumaður kvaðst hafa verið á leið á vakt í Mosfellsbæ við annan mann er þeir hefðu veitt bifreið ákærða athygli vegna ástands hennar, en þeir hefðu ekki vitað hver þar var á ferð fyrr en tókst að fá ökumann til að stöðva. Hann kvað það ekki hafa komið fram hjá ákærða á vettvangi hvernig ferðum hans væri háttað, hann hefði verið ósamvinnuþýður.
Vitnið Hjörleifur Magnús Jónsson lögreglumaður kvað þá hafa veitt bifreið ákærða athygli vegna þess að hún var númerslaus og spotti hékk aftur úr henni. Bifreiðin hefði ekki verið stöðvuð strax og þurft hefði að taka ákærða út, hann hefði verið mjög æstur og þurft hefði að handjárna hann, hann hefði engar skýringar gefið á ferðum sínum og hefðu samskiptin gengið út á óánægju hans yfir að vera handjárnaður. Taldi vitnið sig myndu muna það ef ákærði hefði talað um að hann væri að flýja einhverja. Kvað vitnið útlit bifreiðarinnar hafa verið dapurt og taldi að að framrúða hægra megin hefði verið brotin.
Niðurstaða.
Ákærði hefur játað að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis svo sem í ákæru greinir og vefengir ekki niðurstöðu alkóhólrannsóknar. Hann ber hins vegar fyrir sig, með vísan til 13. gr. almennra hegningarlaga, að honum hafi verið nauðugur einn kostur að aka þrátt fyrir ölvunarástand, vegna þess að lífi hans, limum og eignum hafi verið ógnað af hópi manna, sem hann lýsti sem eiturlyfjagengi sem hefði látið ófriðlega, beitt exi og skipað honum að vera á brott af bifreiðastæði við Stýrimannaskólann í Reykjavík innan klukkustundar. Klukkan var 07.45 á þriðjudagsmorgni þegar ákærði var stöðvaður á Vesturlandsvegi á móts við Korpúlfsstaði og kvaðst hann þá vera á leið á Snæfellsnes, en nefndi ekki að honum hefði verið ógnað.
Þó að ekki sé dregið í efa að oft sé veist að ákærða þá þykir þessi saga hans ekki mjög trúverðug, einkum þegar litið er til tímasetningar atburðarins og viðbragða hans við handtöku. En jafnvel þótt hún sé lögð til grundvallar, hefur ákærði miðað við aðstæður farið með akstri sínum langt út fyrir þau mörk sem marka eðlileg viðbrögð samkvæmt neyðarvörn. Að eigin sögn hafði hann klukkustundarfrest til ráða fram úr vandræðum sínum, hann var mikið drukkinn samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar og hann hafði ekið, miðað við lýsingu hans á ökuleið, a.m.k. tíu kílómetra þegar hann var stöðvaður og hugðist, samkvæmt framburði vitna og við skýrslutöku að viðstöddum verjanda, aka áfram á Snæfellsnes. Er ekki fallist á að sú háttsemi sem hann er ákærður fyrir hafi á grundvelli neyðarréttar verið honum refsilaus samkvæmt 12. eða 13. gr. almennra hegningarlaga, er hann því fundinn sekur og er fallist á heimfærslu brotsins í ákæru.
Ákærði hefur langan og alvarlegan sakarferil að baki sem nær aftur til ársins 1959. Frá árinu 1963 hefur ákærði hlotið 31 refsidóm fyrir margvísleg brot og nokkrum sinnum gengist undir sáttir, aðallega vegna brota á áfengislögum. Nemur dæmd óskilorðsbundin refsivist ákærða frá upphafi rúmum fimmtán árum, en auk refsivistar var ákærði í eitt sinn dæmdur auk refsingar í fimmtán mánaða hælisvist. Ákærði hefur meðal annars hlotið marga dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum, þó nokkra dóma fyrir auðgunarbrot, og hann hefur margoft verið dæmdur fyrir ölvunarakstur og oft fyrir akstur sviptur ökurétti. Síðast hlaut hann dóm 25. febrúar 2000 og var þá dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. Brot það sem hann er nú dæmdur fyrir var framið 31. október 2000. Eldri refsiákvarðanir sem einkum skipta máli við ákvörðun refsingar nú eru sátt frá 30. október 1991, þar sem honum var gert að greiða sekt vegna ölvunaraksturs og sæta sviptingu ökuréttar í 12 mánuði (síðasti dómur sem hann hlaut þar á undan vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti var kveðinn upp í héraði 21. desember 1984, því máli var áfrýjað til Hæstaréttar og refsingin, átta mánaða fangelsi, staðfest þar 6. febrúar 1986); dómur í héraði 23. mars 1994 sem áfrýjað var til Hæstaréttar, þar var ákærði dæmdur 8. desember sama ár fyrir ölvunarakstur og þjófnað í sex mánaða fangelsi og sviptur ökurétti í fjögur ár og sex mánuði frá 23. mars 1994; loks dómur héraðsdóm 15. mars 1999, sem áfrýjað var til Hæstaréttar og dæmdur þar 21. október sama ár, hlaut ákærði þar sex mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur í þrjú skipti og var sviptur ökurétti ævilangt frá 19. desember 1998. Síðast hlaut ákærði dóm vegna aksturs án ökuréttinda með dómi Hæstaréttar 6. febrúar 1986 um dóm héraðsdóms frá 21. desember 1984.
Ákærði er nú dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti og þriðju ítrekun ölvunaraksturs með vísan til sjónarmiða 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, þó þykir einnig verða að hafa sakarferil í heild í huga. Refsing er ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Ævilöng ökuréttarsvipting ákærða er ítrekuð frá og með birtingu dómsins.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sturlu Þórðarsyni fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Steingrímur Njálsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.