Hæstiréttur íslands
Mál nr. 495/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Verjandi
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 21. september 2009. |
|
nr. 495/2009: |
Ákæruvaldið(Ólafur Þór Hauksson saksóknari) gegn X (Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjöl. Verjandi. Sératkvæði.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að fá afhent endurrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af öðrum sakborningum og vitnum í máli gegn honum sem var til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Talið var að skylda til afhendingar afrita skjala máls, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, næði einungis til afrita af skjölum í pappírsformi en ekki til eftirgerðar af öðrum gögnum hvort heldur eru hljóð- eða mynddiskar. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2009, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila þess efnis að sóknaraðili verði skyldaður til að afhenda verjanda hans afrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af vitnum og öðrum sakborningum í máli nr. 090-2009-00012, sem sóknaraðili hefur haft í vörslum sínum í meira en þrjár vikur. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði með dómi gert skylt að afhenda verjanda hans afrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af vitnum og sakborningum í framangreindu máli sem nú er til rannsóknar hjá sóknaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili rannsakar nú kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. á árinu 2008 og hefur varnaraðili réttarstöðu sakbornings við þá rannsókn. Skýrslur af sakborningum og vitnum í málinu hafa verið teknar upp í hljóði og mynd. Sóknaraðili tók þá ákvörðun að yfirheyrslurnar yrðu endurritaðar orðrétt og er það í samræmi við b. lið 12. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl., en endurritun hefur dregist. Verjandi varnaraðila óskaði eftir því 10. ágúst 2009 að fá afhent afrit af öllum rannsóknargögnum málsins sem höfðu bæst við eftir afhendingu rannsóknargagna 2. júlí sama ár. Þann 13. ágúst voru gögnin afhent að undanskildum afritum af skýrslum á hljóð- og mynddiskum af sakborningum og vitnum. Skýrsla af varnaraðila sjálfum var þó afhent á mynddiski. Verjanda var boðin aðstaða til að kynna sér upptökur af öðrum yfirheyrslum. Taldi sóknaraðili að með þessu hefði hann uppfyllt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Þá var verjandanum tilkynnt að sóknaraðili hefði í hyggju að afhenda skýrslur af sakborningum og vitnum í endurriti eftir því sem þau yrðu til. Með bréfi 17. ágúst krafðist verjandinn þess því að héraðsdómur úrskurðaði um skyldu sóknaraðila til að afhenda sér afrit af skýrslum á hljóð- og mynddiski af öðrum sakborningum og vitnum í málinu sem verið hefðu í vörslum sóknaraðila í meira en þrjár vikur. Til stuðnings kröfunni vísaði hann til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari því að sóknaraðila væri skylt að afhenda verjanda varnaraðila umrædd gögn þar sem ekki væri um skjöl að ræða í merkingu ákvæðisins.
II
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 segir að verjandi skuli jafnskjótt og unnt sé fá afrit af öllum skjölum máls sem varði skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu, og eigi síðar en þegar þrjár vikur eru liðnar frá því að þau hafi orðið til eða komist í vörslur lögreglu. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að lögregla geti synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls standi ef öryggi ríkisins eða almennings er í húfi ellegar brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans eða samskipti við yfirvöld í öðrum ríkjum standa því í vegi. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 88/2008 er sérstaklega fjallað um hagsmuni þriðja manns og til þess vísað að litið hafi verið til slíkra atriða í dómaframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 432/1999 sem var kveðinn upp 29. október 1999 og birtur í dómasafni réttarins það ár á bls. 3944. Segir í athugasemdunum að rétt þyki að lögfesta vernd einkahagsmuna annarra en skjólstæðings verjanda.
Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008 skal það sem fram kemur við skýrslutöku hljóðritað, tekið upp á myndband eða mynddisk eða ritað af þeim sem skýrslu tekur. Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 651/2009, sbr. 67. gr. laganna, skal fyrirkomulag við skráningu framburðar sem tekinn er upp vera með einhverjum þeim hætti sem hér er talinn: „a. Samantekt, sem byggð er á upptökunni, er rituð eftir á sem skýrsla; b. Orðrétt endurrit upptöku skráð eftir á; c. Skýrsla er skráð, því sem næst orðrétt, samhliða upptöku.“ Til þess að vanda sem best rannsókn málsins kveðst sóknaraðili hafa ákveðið að skýrslutökur í því skuli endurritaðar í samræmi við b. lið 12. gr. reglugerðarinnar og að endurritin verði afhent verjanda varnaraðila. Þá er í 18. gr. mælt fyrir um að verjandi, sakborningur og réttargæslumaður eigi rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu.
III
Við úrlausn málsins verður leitað orðskýringar á hugtakinu skjal í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Orðið kemur víða fyrir í lögum, en ljóst er að það er ekki ætíð notað í nákvæmlega sömu merkingu. Í sumum tilvikum verður það skýrt eftir almennum málskilningi og á þá ekki við um gögn í öðru formi en pappír með áletruðum texta, myndum eða öðru efni. Í öðrum tilvikum verður það skýrt rýmra þannig að það geti einnig tekið til gagna, sem birtast í öðru formi en á pappír.
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 er í senn fjallað annars vegar um skjöl og hins vegar önnur gögn, þar sem sitt hvor reglan gildir um meðferð þeirra án þess að frekari skýring sé gefin á því hvað felist í hvoru um sig. Lög á sviði réttarfars hafa að geyma fjölmörg ákvæði, þar sem með ýmsu móti er kveðið á um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn og meðferð þeirra. Hefðbundin skýring á þessu sviði réttarins er sú að með skjölum er átt við gögn í pappírsformi, en annað falli undir það að vera önnur sýnileg sönnunargögn. Ekki eru efni til að telja annað eiga við um ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 að þessu leyti og breytir engu þótt þar sé rætt um önnur gögn, en ekki önnur sýnileg sönnunargögn. Almenn málnotkun á orðinu skjal styður þessa skýringu. Afhendingarskylda samkvæmt lagagreininni tekur samkvæmt því til afrita af skjölum sem eru í pappírsformi, en ekki til eftirgerðar af öðrum gögnum hvort heldur eru hljóð- eða mynddiskar. Skiptir ekki máli við skýringu ákvæðisins þótt tækniframfarir geri út af fyrir sig kleift að fjölfalda gögn, sem koma fyrir í öðru formi, sem áður var ekki unnt eða erfitt að gera. Samkvæmt framanröktu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er kveðið svo á að verjandi skuli jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Lögregla geti þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins.
Sóknaraðili afhenti verjanda varnaraðila gögn 13. ágúst 2009 en tók meðal annars fram í bréfi til verjandans þann dag að undan væru skilin afrit af „skýrslum á hljóð- og mynddisk af vitnum og öðrum er hafa hlotið réttarstöðu sakbornings en skjólstæðingi yðar. Af því tilefni skal tekið fram að sérstakur saksóknari hefur afráðið að svo stöddu að afhenda þau gögn í endurriti eftir því sem þau verða til.“ Í greinargerð til héraðsdóms 24. ágúst 2009 byggði sóknaraðili synjun sína meðal annars á 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Kom fram í bréfinu að á hljóð- og mynddiskum sem vörðuðu yfirheyrslur yfir öðrum en varnaraðila væri að mati sóknaraðila efni sem varðaði persónuleg málefni þeirra sem í hlut ættu. Væri slíkt efni lagt í hendur verjanda „opnist möguleiki á að efnið fari víðar, t.a.m. gerir 4. mgr. 37. gr. sömu laga ráð fyrir að umbjóðandi hans fái aðgang að gögnum og ekki er unnt að hafa áhrif á í hvaða hendur þau rata eftir það. Fordæmi eru fyrir því að gögn úr sakamálum séu birt opinberlega eftir að þau hafa verið afhent verjendum og er skemmst að minnast þess að öll gögn Baugsmálsins eru fyrirliggjandi á vefnum ...“. Í greinargerð til Hæstaréttar færir sóknaraðili fram frekari röksemdir fyrir því að undantekningarregla 3. mgr. 37. gr. eigi við í málinu, þó að ekki sé sérstaklega gerð grein fyrir hvaða persónuupplýsingar um aðra en varnaraðila komi fram á hljóð- og mynddiskunum sem réttlæti synjun á afhendingu á afriti þeirra.
Niðurstaða hins kærða úrskurðar er byggð á skýringu á orðinu skjal í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Er þar talið að orðið merki pappír með áletruðum texta, myndum, teikningum eða öðru svipuðu. Ekki þurfi að afrita og afhenda verjendum önnur gögn sakamáls en þau sem séu á skjölum jafnvel þó að hægt sé að afrita þau eins og þau gögn sem varnaraðili krefjist að verði afhent verjanda sínum. Var kröfum varnaraðila því hafnað.
Í 66. gr. laga nr. 88/2008 er gert ráð fyrir að framburðarskýrslur við rannsókn sakamála séu hljóðritaðar eða teknar upp á myndband eða mynddisk. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna um afhendingu rannsóknargagna til verjanda eiga að tryggja réttaröryggi hans og möguleika til málsvarnar. Öll sömu sjónarmið sem að þessu lúta eiga við, þó að rannsakandi hafi í samræmi við 1. mgr. 66. gr. laganna hljóðritað skýrslur eða tekið þær upp á mynddisk í stað þess að skrá þær á pappír. Þá má nefna að í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, þar sem fjallað er um heimild til að kæra úrskurði héraðsdómara til Hæstaréttar, er notað orðalagið „afrit af gögnum“, og er ljóst að þar er átt við gögn sem unnt er að afrita án tillits til gerðar þeirra. Með vísan til alls þessa tel ég að túlka beri ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 þannig að því verði beitt um afrit hljóðrita og mynddiska. Samkvæmt þessu ber verjanda réttur til að fá slík gögn afhent nema þau séu sérstaklega undanþegin með öðrum ákvæðum laganna.
Krafa varnaraðila lýtur að afhendingu gagna sem orðið hafa til í rannsókninni á hendur honum. Sóknaraðili vísar, svo sem fyrr sagði, til þess að á þeim sé að finna persónuupplýsingar um aðra en varnaraðila. Byggir hann á 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 þar sem meðal annars er kveðið svo á að brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings verjanda standi í vegi fyrir afhendingu. Í ákvæðinu er kveðið á um að bera megi slíka synjun undir dómara, svo sem raunin hefur orðið í þessu máli. Sóknaraðili hefur ekki gert grein fyrir því við rekstur málsins hvaða brýnir einkahagsmunir annarra en varnaraðila standi því í vegi að verjandi hans fái í hendur þau afrit sem um er deilt. Ekkert hald er í rétti til að bera synjun rannsakanda undir dóm ef þar dugir til staðfestingar á synjun að rannsakandi skýri aðeins frá afstöðu sinni til umræddra hagsmuna án þess að gera efnislega grein fyrir þeim þannig að dómari geti lagt sjálfstætt mat á réttmæti synjunar. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi og fallast á kröfu varnaraðila.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2009.
I
Málið barst dóminum 17. ágúst sl. og var þingfest 20. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 25. ágúst sl.
Sóknaraðili er X, til heimilis [...].
Varnaraðili er sérstakur saksóknari samkvæmt lögum nr. 135/2008.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði skyldaður til að afhenda verjanda sínum afrit (endurrit) af skýrslum á hljóð- og mynddiski af vitnum og öðrum sakborningum í máli nr. 090-2009-00012, en í málinu sætir sóknaraðili rannsókn sem sakborningur. Krafan nær til hljóð- og mynddiska sem hafa verið í vörslum varnaraðila í meira en 3 vikur. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
II
Sóknaraðili sætir nú rannsókn varnaraðila sem sakborningur í ofangreindu máli. Verjandi hans krafðist þess að fá afhent afrit af öllum rannsóknargögnum er bæst höfðu við rannsókn málsins eftir að honum voru afhent gögn 2. júlí sl. Verjandinn kveðst hafa fengið afhent umbeðin gögn að undanskildum afritum af skýrslum á hljóð- og mynddiski af vitnum og öðrum er hafa réttarstöðu sakbornings nema sóknaraðila sjálfum. Hins vegar hafi varnaraðili boðið verjandanum aðstöðu til að kynna sér gögnin.
Varnaraðili kveðst hafa afhent verjandanum afrit af öllum skjölum málsins og hafa til reiðu aðstöðu fyrir verjandann til að kynna sér önnur gögn. Þá séu þau endurrituð á pappír og afhent jafnóðum sem endurritun lýkur. Önnur gögn en afrit af skjölum eigi hins vegar ekki að afhenda.
III
Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 eigi verjandi rétt á að fá endurrit af öllum skjölum er mál varða og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn. Lögreglan geti aðeins takmarkað afhendingu gagnanna í tiltekinn tíma eftir að þau urðu til, telji hún rannsókn málsins geta skaðast við afhendingu þeirra. Eftir þann tíma sé það meginreglan að gögnin beri að afhenda. Samkvæmt lagaákvæðinu eigi að útvega verjanda aðstöðu til að hann geti kynnt sér önnur gögn, en með því sé átt við gögn sem ekki er unnt að afrita eins og vopn, fíkniefni og þess háttar. Gögn þau sem hér um ræðir sé hins vegar hægt að afrita og beri því, samkvæmt greindu lagaákvæði, að afhenda þau í endurriti á hljóð- og mynddiski.
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt nefndri lagagrein sé sér aðeins skylt að afhenda verjanda sóknaraðila afrit af skjölum og það hafi verið gert. Þá hafi verið útbúin aðstaða til að verjendur geti kynnt sér önnur gögn, þar á meðal þau gögn sem krafist er afrita af í málinu. Samkvæmt lagagreininni sé ekki skylt að afhenda afrit á hljóð- og mynddiskum, en hins vegar sé efni þeirra endurritað eftir því sem mannafli leyfir og endurritin afhent verjandanum.
IV
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að verjandi skuli, jafnskjótt og unnt er, fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Fyrirvarar á afhendingu gagna sem greinir í ákvæðinu koma ekki til skoðunar við úrlausn málsins. Orðið skjöl í ákvæðinu verður að skilja samkvæmt almennri merkingu orðsins, það er pappír með áletruðum texta, myndum, teikningum eða öðru svipuðu. Ekkert í lagaákvæðinu sjálfu, greinargerðinni eða öðrum gögnum bendir til þess að skilja eigi orðið skjöl með öðrum hætti. Þau gögn sakamáls sem eru á skjölum á að afrita og afhenda verjendum, en önnur gögn þarf ekki að afrita og afhenda verjendum jafnvel þótt hægt væri að afrita þau eins og þau gögn sem sóknaraðili krefst að afhent verði verjanda hans.
Samkvæmt þessu er kröfum sóknaraðila hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kröfum sóknaraðila er hafnað.