Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2014
Lykilorð
- Lánssamningur
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Endurgreiðsla
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2014. |
|
Nr. 289/2014.
|
Matarlyst ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Lánssamningur. Fjármálafyrirtæki. Slit. Endurgreiðsla. Aðildarskortur.
M ehf. höfðaði mál á hendur L hf. til endurgreiðslu ætlaðar ofgreiddrar skuldar M ehf. samkvæmt lánssamningi sínum við SK. Skuld samkvæmt lánssamningnum hafði M ehf. gert upp við SK í desember 2009 með yfirdrætti á tékkareikningi sínum en M ehf. gerði við það tilefni fyrirvara við uppgjörið. Talið var að við uppgreiðslu lánsins hefði skuldarsambandi M ehf. og SK á grundvelli lánssamningsins lokið og þá um leið orðið til nýtt skuldarsamband milli þeirra byggt á yfirdráttarskuldinni, en jafnframt að M ehf. og SK væru bundnir af fyrirvaranum sem M ehf. gerði við uppgjörið. Óumdeilt var í málinu að L hf. hefði tekið yfir yfirdráttarskuld SK á hendur M ehf. á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins, en á hinn bóginn var ekki talið að hliðstæð aðilaskipti hefðu orðið að skuldbindingum SK til endurgreiðslu ofgreiddra lána. Að þessu virtu, því hvernig M ehf. hagaði kröfugerð sinni svo og því að félagið var ekki talið hafa leitt að því rök að L hf. hefði á öðrum grundvelli tekið yfir þessar skuldbindingar SK, var L hf. sýknað af kröfum M ehf., sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2014. Hann krefst viðurkenningar á því að lánssamningur 15. júní 2006 milli Sparisjóðsins í Keflavík og áfrýjanda sé um skuldbindingu í íslenskum krónum, sem bundin hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, svo og að eftirstöðvar samningsins hafi 30. desember 2009 verið 15.027.624 krónur. Einnig krefst áfrýjandi viðurkenningar á því að stefnda sé skylt að endurgreiða sér þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af sér haft á grundvelli samkomulags um uppgjör síðastgreindan dag milli Sparisjóðsins í Keflavík og áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi er lýst efni lánssamnings þess er áfrýjandi gerði við Sparisjóðinn í Keflavík 15. júní 2006, uppgreiðslu lánsins af hálfu áfrýjanda 30. desember 2009 með yfirdrætti á tékkareikningi hans samkvæmt sérstöku samkomulagi þann dag og fyrirvara þeim er áfrýjandi gerði við uppgjörið í 3. grein samkomulagsins. Þar sagði að með „uppgjöri þessu afsalar Matarlyst sér ekki hugsanlegum rétti sínum sem félagið kann að eiga á SPKEF á grundvelli dómsmála sem síðar kunna að verða og félagið eigi betri rétt til uppgjörs á lánum þessum.“ Fallist er á með stefnda að við uppgreiðslu lánsins hafi skuldasambandi áfrýjanda og sparisjóðsins á grundvelli lánssamningsins lokið og þá um leið orðið til nýtt skuldasamband þeirra í milli, byggt á yfirdráttarskuld áfrýjanda á tékkareikningi hans. Eins og í héraðsdómi greinir voru báðir aðilar samkomulagsins, áfrýjandi og Sparisjóðurinn í Keflavík, þó bundnir af þeim fyrirvara er áfrýjandi gerði við uppgjörið 30. desember 2009.
Ágreiningslaust er að yfirdráttarskuld áfrýjanda við Sparisjóðinn í Keflavík var meðal þeirra eigna sparisjóðsins sem fluttust til Spkef sparisjóðs með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 og síðar til stefnda, sem þá bar heitið NBI hf., með ákvörðun eftirlitsins 5. mars 2011. Hins vegar verður því ekki fundin stoð í fyrrgreindum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins að skuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík til endurgreiðslu ofgreiddra lána hafi verið meðal þeirra sem samkvæmt þeim ákvörðunum fluttust til Spkef sparisjóðs og síðar stefnda. Samkvæmt þessu, að því gættu hvernig áfrýjandi hagar kröfugerð sinni og með vísan til þess að hann hefur ekki leitt að því rök að stefndi hafi á öðrum grundvelli tekið yfir skuldbindingar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu lánsins frá 15. júní 2006 getur krafa áfrýjanda um endurgreiðslu þess, sem kann að hafa verið ofgreitt af láninu, ekki beinst að stefnda. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af öllum kröfum áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Matarlyst ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 6. desember 2013, að lokinni aðalmeðferð, var endurupptekið og flutt að nýju hinn 12. febrúar sl. Málið var höfðað fyrir dómþinginu af Matarlyst ehf., Iðavöllum 3d, Reykjanesbæ, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 25. mars 2013.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur milli stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík, kt. 610269-3389, frá 15. júní 2006 hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi krefst þess einnig að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar framangreinds lánssamnings hafi, hinn 30. desember 2009, verið:
Aðallega 15.027.624 krónur.
Til vara 21.173.781 króna.
Stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til þess að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af honum á grundvelli samkomulags Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda um uppgjör erlendra lána, frá 30. desember 2009.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi tók lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík með lánssamningi dagsettum 15. júní 2006, sem ber fyrirsögnina „Lánssamningur í erlendri mynt“. Samningurinn er ein blaðsíða og virðist vera á stöðluðu formi frá sparisjóðnum. Efst á blaði eru tilteknir reitir fylltir út. Skuldari er þar tilgreindur sem stefnandi þessa máls. Fram kemur að lánstími sé 25 ár, vextir reiknist frá útborgunardegi, fyrsti gjalddagi vaxta og fyrsti gjalddagi afborgana sé 15. júlí 2006 og fjöldi gjalddaga sé 300 með eins mánaðar millibili. Mynt lánssamningsins er tilgreind „EUR/CHF“ og vextir „Libor+3,00%“. Lánaflokkur er tilgreindur 100. Loks kemur fram að ráðstöfunarreikningur sé tékkareikningur í íslenskum krónum nr. 5332 og skuldfærslureikningur sé tékkareikningur í íslenskum krónum nr. 1332.
Fyrir neðan reitina segir að skuldari viðurkenni að skulda Sparisjóðnum í Keflavík eða þeim sem hann vísi til:
EUR 96.000,00 Nítíuogsexþúsund evrur
CHF 149.000,00 Eitthundraðfjörtíuogníuþúsund svissneskir frankar -
„eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, miðað við sölugengi evra og svissneskra franka í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi, því sem hærra reynist. Fjárhæð þessa, sem er endurlánað erlent lánsfé, skal endurgreiða að fullu á 25 árum, með jöfnum afborgunum á 1 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 15.07.2006.“ Þá er fjallað um vextina og skyldu þeir greiðast á sama tíma og afborganir. Næst er fjallað um heimildir skuldara til þess að greiða lánið upp áður en samningstími rennur út. Um greiðslur á gjalddögum segir að stefnandi heimili skuldareiganda að skuldfæra viðskiptareikning hans við Sparisjóðinn í Keflavík, sem er tékkareikningur í íslenskum krónum nr. 1332, fyrir afborgunum og vöxtum og innheimtukostnaði af láninu. Jafnframt segir: „Dragist greiðslan fram yfir gjalddaga, er skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags.“ Yrðu vandefndir á lánssamningnum skyldi stefnandi greiða dráttarvexti af skuldinni „í samræmi við vaxtalög.“ Þá segir: „Haldist gengistrygging á gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga, skal greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög.“
Samkvæmt kaupnótu frá Sparisjóði Keflavíkur voru 17.998.398 krónur greiddar inn á tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum, nr. 5332. Er það samtala 149.000 svissneskra franka og 96.000 japanskra jena, að frádregnu 1% lántökugjaldi. Svissneskum frönkum er breytt í íslenskar krónur á genginu 61,00 og evrum á genginu 94,70. Í samræmi við lánssamninginn var tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta.
Stefndi kveður lán samkvæmt lánssamningnum hafa fengið tvö lánsnúmer í kerfum Sparisjóðsins í Keflavík, annars vegar fyrir evrurnar og hins vegar fyrir svissnesku frankana.
Stefnandi kveður það hafa verið að frumkvæði Sparisjóðsins í Keflavík sem gert hafi verið samkomulag hinn 30. desember 2009 vegna framangreinds lánssamnings. Samkomulagið ber yfirskriftina „Samkomulag um uppgjör erlendra lána o.fl.“ Fram kemur að miðað sé við að staða skuldarinnar sé þann sama dag 83.384,31 evrur og 129.380,68 svissneskir frankar. Uppgjör skuldar samkvæmt lánssamningnum skyldi fara þannig fram að Sparisjóðurinn í Keflavík skyldi veita stefnanda yfirdráttarheimild á tékkareikningi stefnanda nr. 15332, að fjárhæð 24.320.000 krónur. Sparisjóðurinn skyldi þá þegar draga á þá heimild 24.319.232 krónur og nota til að greiða kröfu sína samkvæmt lánssamningi aðila. Yfirdráttarheimildina skyldi svo lækka um 200.000 krónur á mánuði frá og með 5. janúar 2011. Í samkomulaginu segir að stefnanda sé gefinn afsláttur á skráðu gengi við uppgjörið. Miðað sé við að gengi evru sé 144,53326 og gengi svissnesks franka sé 94,81652. Lokagengi evru 30. desember 2009 sé hins vegar 180,59 og svissnesks franka 121,375. Loks segir í 3. gr. samkomulagsins að með framangreindu uppgjöri afsali stefnandi sér ekki hugsanlegum rétti sem hann kunni að eiga á hendur Sparisjóðinum í Keflavík á grundvelli dómsmála sem síðar kynnu að verða og stefnandi eigi betri rétt til uppgjörs á lánunum.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 var öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík, hverju nafni sem þær nefndust, ráðstafað til SPKEF sparisjóðs. Einu eignir og skuldbindingar sem átti að undanskilja skyldu sérstaklega teknar saman í skýrslu endurskoðunarfyrirtækis. Engu var breytt varðandi samkomuleg stefnanda við Sparisjóðinn í Keflavík frá 30. desember 2009.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011 var SPKEF sparisjóðurinn sameinaður NBI hf. NBI hf. tók þá yfir allar eignir og skuldir SPKEF sparisjóðsins. NBI hf. varð síðan Landsbankinn hf., stefndi þessa máls, og hélt hann áfram að taka við greiðslum frá stefnanda á grundvelli framangreinds samkomulags frá 30. desember 2009.
Stefnandi fór þess á leit við stefnda að hann endurútreiknaði umdeilt lán í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands og lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi hafnaði því og rökstuddi þá ákvörðun með bréfi til stefnanda 31. júlí 2012. Í bréfinu kemur fram að stefndi líti svo á að upphaflegt lán stefnanda hjá Sparisjóðnum í Keflavík tilheyri þeim lánum sem hafi verið gerð upp og að slík lán hafi ekki færst yfir með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 og 5. mars 2011. Jafnframt kemur fram að stefndi telji að réttarsambandi stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík vegna lánssamningsins frá 15. júní 2006 hafi lokið með uppgjöri samningsins í samræmi við samkomulag þeirra frá 30. desember 2009. Enn fremur segir að stefndi líti svo á að sá fyrirvari sem stefnandi hafi gert við Sparisjóðinn í Keflavík með framangreindu samkomulagi, og þær skuldbindingar sem stefnandi telji fyrirvarann fela í sér, hafi ekki færst til SPKEF sparisjóðsins með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur stefnanda hefur stefndi ekki fallist á að endurútreikna eftirstöðvar upprunalegs lánssamnings miðað við stöðu hans 30. desember 2009 og er þetta mál því höfðað.
III
Stefnandi byggir á því, öllum kröfum sínum til stuðnings, að stefndi sé réttur aðili málsins samkvæmt framangreindum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 og 5. mars 2011. Með þeim hafi allar eignir Sparisjóðsins í Keflavík, hverju nafni sem þær hafi nefnst, flust, fyrst til SPKEF sparisjóðsins og síðan til stefnda. Þær eignir sem hafi verið undanþegnar í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hafi verið eignir og skuldbindingar sem hafi átt að greina sérstaklega frá í skýrslu sem vísað sé til í 10. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010. Þessi skýrsla hafi ekki verið gerð opinber en stefndi hafi sjálfur, í tveimur nýlegum málum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, nr. E-2436/2011 og E-2435/2011, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 599/2012, lagt fram yfirlýsingu Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns og skiptastjóra bús Sparisjóðsins í Keflavík. Í þeirri yfirlýsingu komi fram staðfesting skiptastjórans á því að öll útlán Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið færð yfir til SPKEF sparisjóðsins og síðan yfir til stefnda. Málin hafi varðað útlán og kröfuréttindi í eigu Sparisjóðsins í Keflavík og hafi stefndi sótt málin sem eigandi þeirra réttinda. Því sé ljóst að stefndi hafi sjálfur höfðað mál til að sækja fyrrum réttindi og eignir Sparisjóðsins í Keflavík. Enn fremur beri að líta til þess að gögn sem hann hafi sjálfur lagt fyrir dóm hafi staðfest að hann sé réttur eigandi að öllum útlánseignum Sparisjóðsins í Keflavík.
Stefnandi byggir einnig á því að ekki sé hægt að líta á upphaflega lánið milli stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík sem uppgert. Væri lánið uppgert væri stefnandi ekki enn að greiða af því með niðurgreiðslu yfirdráttarheimildarinnar. Í raun hafi samkomulagið frá 30. september 2009 aðeins verið um myntbreytingu lánsins þar sem höfuðstóll þess hafi verið reiknaður yfir í íslenskar krónur miðað við gengi evru og svissnesks franka á uppgjörsdegi. Frá myntbreytingu lánsins hafi yfirdráttarheimildin borið vexti eftir innlendum vaxtaflokki, fyrst Sparisjóðsins í Keflavík og síðar stefnda. Réttarsambandi aðila samkvæmt upphaflegum samningi hafi því ekki lokið með gerð framangreinds samkomulags. Stefnandi telji að réttarsambandi aðila ljúki ekki, samkvæmt meginreglum kröfuréttar, fyrr en yfirdráttarheimildin sé að fullu greidd. Stefndi hafi tekið á móti greiðslum stefnanda, sem byggi á framangreindu samkomulagi, athugasemdalaust. Skyldur Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnanda hafi flust yfir til stefnda, rétt eins og réttindin. Í þeirri „tileinkun verðmæta“ hljóti að felast þegjandi samþykki stefnda og viðurkenning hans á því að hann sé réttur móttakandi greiðslnanna og aðili að framangreindu samkomulagi og því útláni sem myndi höfuðstól þess. Það samræmist ekki meginreglum um aðilaskipti að kröfuréttindum að stefndi geti nýtt sér réttindi sem fylgi kröfu en sé laus undan því að uppfylla skyldur sem henni fylgi. Meginreglan um kröfuhafaskipti sé sú að skyldur skuldara eigi ekki að aukast við þau. Stefnandi telji skyldur sínar aukast verði stefndi ekki talinn skuldbundinn af þeirri skyldu forvera hans, Sparisjóðsins í Keflavík, að endurútreikna eftirstöðvar lánssamningsins frá 15. júní 2006 í samræmi við gildandi réttarástand. Með því yrði stefnandi látinn bera þyngri greiðslubyrði en hefði upphaflegur kröfuhafi, Sparisjóðurinn í Keflavík, átt kröfuna allan tímann. Með vísan til alls framangreinds telji stefnandi ljóst að málið sé réttilega höfðað á hendur stefnda.
Fyrsti kröfuliður
Fyrsta kröfulið í dómkröfum stefnanda byggir hann á því að í lánssamningi hans við Sparisjóðinn í Keflavík, dagsettum 15. júní 2006, hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 551/2011 og 552/2011 komi fram að þegar meta eigi hvort um sé að ræða lán í íslenskum krónum, sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem um ræði. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig lánið sjálft sé tilgreint í gerningi, auk þess hvernig það hafi verið framkvæmt. Stefnandi telji að meta eigi lánið frá 15. júní 2006 út frá þeim sjónarmiðum sem dómstólar hafi mótað í niðurstöðum sínum, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011, 155/2011, 3/2012, 386/2012 og 464/2012. Stefnandi byggir á því að eftirfarandi atriði og þau sjónarmið sem fram komi í dómum Hæstaréttar Íslands leiði til þess að lán hans verði að teljast hafa verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Í fyrsta lagi sé beinlínis tekið fram í 7. málsgrein lánssamningsins að í honum felist gengistrygging á endurgreiðslur í íslenskum krónum, sbr. orðin: „er skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags.“ Það sama sé gert í 8. málsgrein lánssamningsins þar sem segi: „haldist gengistrygging á gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga, skal greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög.“
Í öðru lagi komi fram í 1. málsgrein lánssamningsins að lánaðar séu 96.000 evrur og 149.000 svissneskir frankar eða „jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum“, miðað við sölugengi evru og svissnesks franka í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi, hvort sem hærra reyndist. Þá fylgi láninu nóta með yfirskriftinni „Fjölmyntalán“, sem sýni að lánið hafi verið lagt fram stefnanda til ráðstöfunar í íslenskum krónum.
Í þriðja lagi hafi allar afborganir af láninu verið í íslenskum krónum. Greiðsluseðlar og yfirlit sýni að vextir hafi verið reiknaðir ofan á afborganir í erlendum myntum. Fjárhæð afborgana og vaxta hafi svo verið reiknuð yfir í íslenskar krónur miðað við dagsgengi og samtalan greidd af stefnanda. Þá hafi Sparisjóðurinn í Keflavík, samkvæmt 7. málsgrein samningsins, haft heimild til að skuldfæra afborganir, vexti og innheimtukostnað af reikningi stefnanda hjá sparisjóðnum. Á þeim reikningi hafi aðeins verið íslenskar krónur. Af öllu þessu megi sjá að framkvæmd lánsins hafi verið með þeim hætti að það hafi verið greitt út og endurgreitt í íslenskum krónum. Erlendir gjaldmiðlar hafi ekki skipt um hendur. Aðalskyldur beggja samningsaðila hafi því verið efndar í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum eins og raunin hefði verið hefði lánið verið „erlent lán“.
Í fjórða lagi verði að horfa til þess að starfsemi stefnanda sé alfarið innanlands og að Sparisjóðnum í Keflavík hafi verið ljóst að stefnandi hafi tekið lánið til að fjármagna þá starfsemi. Stefnandi hafi því ekki haft þörf fyrir erlent lánsfé, né hafi hann haft tekjur í erlendri mynt. Því hafi verið ljóst að endurgreiðsla lánsins myndi ávallt vera í íslenskum krónum. Í þessu samhengi telji stefnandi einnig að virða eigi lánssamning aðila frá 15. júní 2006 heildstætt, hvort sem varði form, framkvæmd eða efni.
Með vísan til alls sem að framan greinir telji stefnandi engan vafa leika á því að umdeilt lán hafi verið gengistryggt lán í íslenskum krónum. Slík lán hafi verið og séu enn í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
Annan kröfulið dómkrafna stefnanda byggir hann á því að stefndi sé skuldbundinn af samningi, lögum og réttarframkvæmd til að endurreikna eða þola endurútreikning eftirstöðva lánssamnings stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík frá 15. júní 2006.
Rúmum mánuði áður en myntbreyting lánsins milli Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda hafi verið framkvæmd, eða 13. nóvember 2009, hafi verið dómtekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál SP-Fjármögnunar gegn lántaka gengistryggðs bílaláns. Eins og vel sé þekkt hafi gengistryggða bílalánið verið dæmt ólöglegt og málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Af þeim sökum hafi verið réttaróvissa um stöðu gengistryggðra lána þegar stefnandi hafi gert framangreint samkomulag við Sparisjóðinn í Keflavík um myntbreytingu lánsins, 30. desember 2009. Þar af leiðandi hafi verið settur fyrirvari í 3. gr. samkomulagsins um mögulegan betri rétt stefnanda til uppgjörs lánsins. Í 3. gr. samkomulagsins frá 30. desember 2009 komi fram að með uppgjörinu afsali stefnandi sér ekki betri rétti sem hann kunni að eiga í framtíðinni á grundvelli dómsmála sem síðar kunni að verða. Ákvæðið sé eðlilegt, sérstaklega þegar tekið sé tillit til þeirrar miklu réttaróvissu sem hafi einkennt viðskipti banka og viðskiptamanna þeirra í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Á þessum tíma hafi fyrsta gengismálinu verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og íslensk fjármálafyrirtæki hafi verið í önnum við að endurútreikna þau útlán sín sem þau hafi talið fela í sér ólögmæta gengistryggingu samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms. Ekki hafi því verið vitað hver niðurstaðan yrði þegar upp væri staðið, né hverjar afleiðingarnar yrðu í framtíðinni. Stefnandi bendi á að 3. gr. samkomulagsins beri þess augljós merki og að með myntbreytingu lánsins hafi Sparisjóðurinn í Keflavík verið að breyta ólögmætu ástandi. Af því leiði að forsvarsmenn Sparisjóðsins í Keflavík hafi vitað af mögulegum betri rétti í framtíðinni og hafi aðilar gengið til uppgjörsins á þeim grundvelli. Í því felist jafnframt að forsvarsmenn Sparisjóðsins í Keflavík hafi vitað að ákvæðið með fyrirvaranum hafi verið forsenda fyrir því að stefnandi hafi verið tilbúinn til þess að samþykkja uppgjör samkvæmt samkomulaginu. Sé fjármálafyrirtækjum hlíft við því að þurfa að efna skuldbindingar sínar eins og þá sem felist í fyrirvara 3. gr. samkomulagsins, þá þýði það að þau hafi getað samið sig frá afleiðingum ólögmætrar gengistryggingar á sínum tíma, með loforðum um endurútreikning án þess að hafa ætlað að standa við þau samningsheit sín. Slíkt sé ótækt að mati stefnanda og í ósamræmi við meginreglur samninga- og kröfuréttar. Stefnandi byggir einnig á því að í 3. gr. samkomulagsins hafi beinlínis falist skylda stefnda til að endurreikna eða þola endurútreikning á eftirstöðvum lánssamningsins frá 15. júní 2006 í samræmi við núgildandi réttarframkvæmd, sbr. orðalag fyrirvarans: „á grundvelli dómsmála sem síðar kunna að verða og félagið eigi betri rétt til uppgjörs á lánum þessum.“ Þá bendi stefnandi á að sé lán dæmt í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, leiði það af 18. gr. sömu laga að lánveitandi verði skuldbundinn að lögum til að bæta lántaka þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af lántaka með hinum ólögmæta lánssamningi. Stefnandi telji þetta gilda óháð því við hvaða útreikningsreglur sé stuðst við, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012.
Annar kröfuliður. Aðalkrafa um fjárhæð eftirstöðva lánssamnings.
Þegar stefnandi og Sparisjóðurinn í Keflavík hafi gert samkomulagið, hinn 30. desember 2009, um uppgjör hins umþrætta lánssamnings, hafi stefnandi greitt 3.241.385 krónur í afborganir og 4.283.374 krónur í vexti af höfuðstól, sem hafi í upphafi verið 18.180.200 krónur. Í ljósi þessa telji stefnandi að draga eigi frá þær afborganir sem hann hafi sannarlega greitt af höfuðstólnum en horfa alfarið framhjá vöxtum. Þannig fengin upphæð, 14.938.815 krónur, eigi að mynda eftirstöðvar lánsins 30. desember 2009. Þessi útreikningsaðferð sé í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012.
Stefnandi telji rétt að horft sé fram hjá vöxtunum þar sem þeir hafi byggst á ólögmætum grundvelli sem stefndi hafi haft frumkvæði að. Þá hafi þeir þegar verið greiddir og fyrir þeim hafi verið veittar fyrirvaralausar kvittanir. Stefndi geti því ekki átt kröfu á stefnanda aftur í tímann sem þegar hafi verið greiddir. Stefnandi verði þannig ekki krafinn um greiðslu vaxta umfram þá erlendu og gengisbundnu vaxtaviðmiðun sem hann hafi þegar greitt. Þetta byggi stefnandi á 72. gr. laga nr. 33/1944 um Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og á almennum reglum um fullnaðarkvittanir, sbr. niðurstöður Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og 464/2012.
Öll skilyrði undantekningarreglunnar um fullnaðarkvittanir séu uppfyllt í málinu. Sparisjóðurinn í Keflavík og síðar stefndi hafi á lánstímanum sent stefnanda greiðslutilkynningar þar sem fram hafi komið fjárhæðir afborgana og vaxta. Stefnandi hafi greitt í samræmi við þær tilkynningar og fengið kvittanir fyrir. Bæði Sparisjóðurinn í Keflavík og síðar stefndi hafi tekið við þessum greiðslum á lánstímanum án fyrirvara. Stefnandi hafi því fullnaðarkvittanir fyrir greiðslum sínum. Stefnandi hafi því verið í góðri trú um lögmæti skuldbindingar sinnar og að í greiðslum hans fælust fullar og réttar efndir af hans hálfu. Stefnandi telji að hann eigi ekki að bera hallann af röngum lagaskilningi hvað þetta varði. Mikill aðstöðumunur sé á málsaðilum. Stefndi og forveri hans séu fjármálafyrirtæki með mikla sérfræðiþekkingu á lánssamningum og lánssamningurinn frá 15. júní 2006 hafi verið saminn einhliða af Sparisjóðnum í Keflavík. Stefnandi sé félag sem sérhæfi sig í framleiðslu matvæla og komi ekki reglulega að lánssamningum eða fjármálagerningum í starfsemi sinni. Þá verði að líta til þess að lánið hafi verið til langs tíma, 25 ára, og að stefnandi hafi greitt 41 afborgun af láninu þegar samkomulagið frá 30. desember 2009 hafi verið gert. Endurákvörðun vaxta aftur í tímann yrði því mjög íþyngjandi fyrir stefnanda, sé horft til fjárhagslegs bolmagns hans. Ætti að beita útreikningi samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010, leiddi það til þess að stefnandi hefði átt að greiða 11.484.397 krónur í vexti frá 15. júní 2006 til 30. desember 2009. Þessi fjárhæð sé fundin með því að vaxtareikna höfuðstól lánssamningsins eftir fyrirmælum 5. mgr. 18. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001. Í því felist að höfuðstóllinn sé vaxtareiknaður með lægstu almennu vöxtum á óverðtryggð útlán, sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. laganna. Vextir séu höfuðstóls færðir á tólf mánaða fresti. Útreikningar séu eftirfarandi:
|
Óverðtryggðir vextir á lán lánveitanda |
|
||||
|
|
|||||
|
|
Óverðtryggðir vextir |
||||
|
Tímabil |
Vaxtadagar |
skv. 10. gr. vxtl |
Meðalvextir |
Höfuðstóll |
Vextir í kr. |
|
|
|||||
|
15.6.2006 |
360 |
14,0% |
15,0% |
18.180.200 kr. |
2.727.030 kr. |
|
15.6.2007 |
16,0% |
||||
|
15.6.2007 |
360 |
16,0% |
17,3% |
20.907.230 kr. |
3.606.497 kr. |
|
15.6.2008 |
18,5% |
||||
|
15.6.2008 |
360 |
18,5% |
14,5% |
24.513.727 kr. |
3.554.490 kr. |
|
15.6.2009 |
10,5% |
||||
|
15.6.2009 |
195 |
10,5% |
10,5% |
28.068.217 kr. |
1.596.379 kr. |
|
30.12.2009 |
10,5% |
||||
|
|
|||||
|
|
Uppreiknaður höfuðstóll skv. 5. mgr. 18. gr. sbr. 1. ml. 4. gr. vxtl. |
29.664.597 kr. |
|||
|
|
Samtals óverðtryggðir vextir á höfuðstól |
11.484.397 kr. |
|||
|
|
Greiddir samningsvextir þann 30.12.2009 |
4.283.374 kr. |
|||
|
|
Mismunur greiddra vaxta og vaxta skv. 1. ml. 4. gr. sbr. 1. mgr. 18. gr. vxtl. |
7.201.023 kr. |
|||
|
|
|||||
|
|
Vextir eru höfuðstólsfærðir skv. 12. gr. vxtl. eftir hvert 12 mánaða tímabil |
||||
Framangreind endurákvörðun vaxta á höfuðstólinn myndi valda því að hann ætti enn eftir ógreiddar 7.201.023 krónur í vexti fyrir tímabilið frá 15. júní 2006 til 30. desember 2009. Telja verði þá upphæð umtalsverða í ljósi þess að upphafleg heildarfjárhæð lánsins hafi aðeins verið 18.180.200 krónur. Stefnandi telji því skilyrði um umtalsverða fjárhæð uppfyllt og þar með öll skilyrði undantekningarreglunnar. Henni eigi því að beita í málinu. Á grundvelli hennar verði hann ekki krafinn um frekari vaxtagreiðslur fyrir tímabilið frá 15. júní 2006 til 30. desember 2009.
Að öllu framangreindu virtu telji stefnandi það standa stefnda, sem fjársterku fjármálafyrirtæki, nær að bera þann vaxtamun sem hafi leitt af ólögmætri gengistryggingu láns samkvæmt umþrættum lánssamningi. Í samræmi við framangreinda útreikning krefjist stefnandi aðallega viðurkenningar á því að eftirstöðvar lánssamnings milli hans og forvera stefnda, Sparisjóðsins í Keflavík, hafi, hinn 30. desember 2009 verið 15.027.624 krónur.
Með framlögðu samkomulagi aðila, undirrituðu 24. júní 2013, og bókun stefnanda í þinghaldi 1. október 2013, féll stefnandi frá varakröfu sinni í öðrum lið stefnunnar og varð þrautavarakrafa þá að varakröfu. Upphaflega þrautavarakröfu og endanlega varakröfu sína byggir stefnandi á 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi vaxtareikni þá upphaflegan höfuðstól skuldarinnar, 18.180.200 krónur, samkvæmt 1. mgr. 18. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laganna. Sá útreikningur gefi 29.664.597 krónur. Frá þeirri upphæð séu dregnar afborganir miðað við hvern innborgunardag, 3.241.385 krónur, ásamt greiddum vöxtum, 4.283.374 krónur. Fást þá 22.139.838 krónur. Með breyttri kröfugerð samkvæmt áðurnefndu samkomulagi og bókun stefnanda, krefst stefnandi þess til vara að viðurkennt verði að eftirstöðvar lánssamnings milli hans og forvera stefnda, Sparisjóðsins í Keflavík, hafi, hinn 30. desember 2009, verið 21.173.781 króna.
Þriðji kröfuliður
Þriðja kröfulið í dómkröfum stefnanda byggir hann á því að í öllum tilvikum séu umkrafðar eftirstöðvar lægri en uppgjörsfjárhæð samkvæmt samkomulaginu frá 30. desember 2009, sem var 24.319.232. Röng fjárhæð hafi verið lögð til grundvallar öllum útreikningum og greiðslum skuldarinnar eftir 30. desember 2009. Á grundvelli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri stefnda því að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft, þrátt fyrir að síðari endurgreiðsluskilmálar kunni að vera löglegir og verði látnir gilda. Hvíli sú endurgreiðslukrafa jafnframt á almennum reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Þá bendi stefnandi á að með e. lið 2. gr. laga nr. 151/2010 hafi upphafsdagur fyrningarfrests vegna uppgjörskrafna ólögmætra gengistryggðra lánssamninga verið sérstaklega ákveðinn. Skyldi hann vera 16. júní 2010 þegar dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2010 hafi verið kveðinn upp. Stefnandi telji því endurgreiðslukröfu sína ófyrnda.
Stefnandi byggir mál sitt á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og lögum nr. 151/2010 um breytingu á þeim. Hann byggir jafnframt á reglum um ofgreitt fé og meginreglum samninga- og kröfuréttar. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi vísar jafnframt til laga nr. 33/1944 um Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og til meginreglna eignaréttar.
Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hann eigi ekki aðild að málinu þar sem lánssamningur, dags. 15. júní 2006, milli stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík, hafi verið uppgerður við yfirfærslu eigna og skulda samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 og 5. mars 2011. SPKEF sparisjóður og síðar stefndi hafi því ekki yfirtekið réttindi og skyldur gagnvart stefnanda samkvæmt lánssamningnum. Stefndi hafi tekið við kröfu SPKEF sparisjóðs á hendur stefnanda vegna yfirdráttarlánsins frá 30. desember 2009 en ekki tekið ábyrgð á nokkrum skuldbindingum tengdum fyrrgreindum lánssamningi. Skiptastjóri Sparisjóðsins í Keflavík hafi staðfest að hið umstefnda lán hafi ekki flust til SPKEF sparisjóðs með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010, þar sem lánið hafi verið skráð uppgreitt. Í stefnu beri stefnandi því við að það uppgjör, sem hafi farið fram í samræmi við samkomulag stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík, dags. 30. desember 2009, hafi ekki falið í sér uppgjör lánssamningsins, heldur hafi verið um myntbreytingu að ræða. Stefndi hafnar því og byggir á því að stefnandi hafi með samkomulaginu gert upp skuld sína við Sparisjóðinn í Keflavík samkvæmt lánssamningnum. Greiðslukvittun frá 30. desember 2009 beri það jafnframt með sér að lánið hafi verið gert upp þann dag. Á sama tíma hafi stefnandi stofnað til yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 15332, sem hafi verið notuð til að greiða upp skuld stefnanda samkvæmt lánssamningnum. Með greiðslu skuldarinnar hafi réttarsambandi stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík samkvæmt lánssamningnum lokið.
Í 1. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 komi fram að öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík, hverju nafni sem nefnist, sé ráðstafað til SPKEF sparisjóðs þegar í stað, nema þeim eignum sem sérstaklega séu undanskildar í skýrslu samkvæmt 10. tölul. ákvörðunarinnar. Þá sé í 7.-9. tölul. ákvörðunarinnar fjallað um hvaða skuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík skuli færast til SPKEF sparisjóðs. Stefndi bendi á að skuld stefnanda samkvæmt lánssamningnum hafi verið að fullu uppgerð 22. apríl 2010 sem og við sameiningu SPKEF sparisjóðs og stefnda, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011. Því hafi krafa, samkvæmt lánssamningnum, ekki verið meðal þeirra eigna sem hafi verið ráðstafað til SPKEF sparisjóðs og síðar stefnda. Möguleg krafa stefnanda á hendur Sparisjóðnum í Keflavík teljist ótvírætt til skuldbindinga sparisjóðsins. Í ákvörðununum Fjármálaeftirlitsins sé ekki unnt að finna því stoð að slíkar skuldbindingar hafi átt að flytjast til SPKEF sparisjóðs og síðar til stefnda. Kröfum stefnanda á grundvelli lánssamningsins verði því ekki beint til stefnda.
Réttarsamband stefnanda og stefnda byggi aðeins á yfirdráttarláni stefnanda sem hafi flust frá Sparisjóðnum í Keflavík til SPKEF sparisjóðs og þaðan til stefnda. Stefndi hafni því að móttaka hans á innborgunum stefnanda á yfirdráttarskuld hans hjá stefnda feli á einhvern hátt í sér viðurkenningu þess að hann hafi tekið yfir mögulega endurgreiðslukröfu stefnanda á hendur Sparisjóðnum í Keflavík vegna lánssamningsins.
Þá hafnar stefndi tilvísun stefnanda til dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2435/2011 og E-2436/2011 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 599/2012 til stuðnings þess að meint krafa stefnanda á hendur Sparisjóðnum í Keflavík hafi flust til stefnda. Atvik í þeim málum hafi verið með öðrum hætti en í þessu máli. Málin varði innheimtu stefnda á kröfum sem hafi sannanlega flust til stefnda með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011 og 22. apríl 2010. Þetta mál varði hins vegar meinta kröfu stefnanda á hendur Sparisjóðnum í Keflavík sem ekki hafi flust til stefnda samkvæmt framangreindum ákvörðunum. Ekki geti skipt máli við mat á því, hvort ábyrgð á uppgjöri lánssamningsins hafi færst frá Sparisjóðnum í Keflavík til SPKEF sparisjóðs og þaðan til stefnda, að stefnandi hafi tekið nýtt lán í formi yfirdráttar til að gera upp skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningnum.
Stefndi hafnar því að meginreglur kröfuréttar um aðilaskipti að kröfuréttindum eigi við í þessu máli, hvað lánssamninginn varði, enda hafi hann ekki verið framseldur til stefnda. Stefnanda hafi því borið að beina kröfu sinni um endurútreikning lánsins að Sparisjóðnum í Keflavík. Frekari skuldbindingar en leiði af ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hafi ekki flust frá Sparisjóðnum í Keflavík til SPKEF sparisjóðs og þaðan til stefnda. Hæstiréttur Íslands hafi þegar staðfest þessa niðurstöðu og vísar stefndi um það til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 750/2012. Með dóminum hafi rétturinn staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að yfirfærsla bótaskyldu frá einum lögaðila til annars yrði ekki leidd af almennum reglum skaðabótaréttar, hún ætti sér ekki stoð í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 og ekki í ákvæðum laga.
Að öllu framangreindu virtu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Verði ekki fallist á málsástæður stefnda er lúti að aðildarskorti, byggir stefndi á því að lán stefnanda hjá Sparisjóðnum í Keflavík, samkvæmt lánssamningi þeirra á milli, dagsettum 15. júní 2006, hafi verið lán í erlendum myntum. Stefndi hafni því að lán stefnanda hjá Sparisjóðnum í Keflavík hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi telji að heildstætt mat á lánssamningnum leiði til þeirrar niðurstöðu að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Stefndi bendi á að í yfirskrift lánssamningsins hafi verið tekið fram að hann væri í erlendri mynt. Þá hafi skuldin verið tilgreind í erlendum myntum í lánssamningnum sem kveði á um að skuld stefnanda við Sparisjóðinn í Keflavík sé 96.000,00 evrur og 149.000,00 svissneskir frankar, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, miðað við sölugengi evra og svissneskra franka í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi, því sem hærra reyndist. Skuldin hafi borið LIBOR-vexti auk 3% vaxtaálags. Þá hafi komið fram á kvittun fyrir útborgun lánsins að um fjölmyntalán væri að ræða. Sömuleiðis bendi stefndi á að fjárhæð skuldar stefnanda gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík á grundvelli lánssamningsins hafi eingöngu tilgreind í hinum umsömdu erlendu myntum í samkomulagi aðila um uppgjör erlenda lánsins, dags. 30. desember 2009. Eina tilgreining lánsins sé þannig í erlendum gjaldmiðlum en hvergi í lánssamningnum sé fjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, heldur aðeins viðmiðun við virði þeirra gjaldmiðla sem lánið hafi verið í á gjalddögum lánsins eða, eftir atvikum, á greiðsludögum. Fjárhæð lánsins hafi því í grunninn verið tiltekin í erlendum myntum. Hefði það verið vilji aðila að lánið væri í íslenskum krónum, hafi legið beint við að fjárhæð lánsins yrði tilgreind í krónum. Af þeim gögnum sem stefnandi hafi lagt fram megi ráða að lánið hafi verið afgreitt til stefnanda í þeim gjaldmiðli. Þá telji stefndi jafnframt augljóst að vilji stefnanda og lánveitanda, Sparisjóðsins í Keflavík, hafi í upphafi staðið til þess að haga skuldbindingum þannig að lánið yrði veitt í erlendum gjaldmiðlum, eins og fram komi í lánssamningnum. Stefndi telji það ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins að stefnandi hafi veitt lánveitanda heimild til að bankareikningur hans í íslenskum krónum yrði skuldfærður til greiðslu af láninu og að stefnandi hafi óskað eftir því að lánið yrði afgreitt í krónum inn á sama reikning. Um þetta vísar stefndi til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 50/2012 og 520/2011. Þeir dómar Hæstaréttar Íslands, sem stefnandi vísi til í stefnu, fjalli um samninga sem tilgreint hafi lánsfjárhæðir í íslenskum krónum. Að teknu tilliti til þess sem að framan greini um lánssamning stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík, telji stefndi að eins og skuldbindingunni hafi verið hagað hafi þessir dómar Hæstaréttar Íslands ekki fordæmisgildi fyrir mál þetta. Því beri að fallast á það með stefnda að lán stefnanda samkvæmt lánssamningnum hafi verið í erlendum myntum. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eigi þar af leiðandi ekki við í þessu máli og sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.
Hvað varði kröfu stefnanda um að stefndi endurreikni lán stefnanda hjá Sparisjóðnum í Keflavík byggir stefndi á því að stefnandi geti ekki byggt rétt gagnvart stefnda á grundvelli 3. gr. samkomulagsins frá 30. desember 2009. Þær skuldbindingar sem stefnandi telji að hafi falist í 3. gr. samkomulagsins hafi ekki flust til SPKEF sparisjóðs með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010. Að öðru leyti vísar stefndi til umfjöllunar um aðildarskort hvað þetta varði.
Verði hins vegar fallist á að lán stefnanda samkvæmt lánssamningi hans við Sparisjóðinn í Keflavík hafi verið lán í íslenskum krónum sem hafi verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og að stefndi sé skuldbundinn til að endurreikna lán stefnanda, byggir stefndi á að lán samkvæmt samningnum eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfunnar, í samræmi við fordæmi Hæstaréttar Íslands. t.d. í málum nr. 471/2010, 604/2010 og 600/2011. Stefndi byggir jafnframt á reglum fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur í þessu sambandi. Þá væri ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að leggja upphaflega samningsvexti til grundvallar í kröfuréttarsambandi aðila, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi byggir einnig á meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem hafi fengið minna greitt en hann eigi rétt til í lögskiptum sínum við skuldara, eigi tilkall til greiðslu fyrir því sem upp á vanti. Þá eigi stefndi að eiga val um hvernig innborgunum sé ráðstafað upp í skuld stefnanda. Stefndi byggir enn fremur á því að undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittanir eigi ekki við í þessu máli, einkum í ljósi þess að stefndi hafi ekki uppi kröfur á hendur stefnanda um viðbótagreiðslur fyrir liðna tíð. Jafnframt byggir stefndi á því að skilyrði undantekningarreglunnar séu ekki uppfyllt. Þau skilyrði sem Hæstiréttur Íslands hafi litið til séu í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að hann réttlæti höfnun viðbótarkröfu. Í þriðja lagi hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leitt hafi til vangreiðslu. Hvað síðasta atriðið varði hafi verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök hafi verið gerð og þar til krafa hafi verið höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Ekkert eitt þessara atriða geti ráðið úrslitum um það hvort kröfuhafi eigi rétt til viðbótargreiðslna heldur ráði þar heildarmat á aðstæðum öllum. Því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari séu rökin til að víkja megi frá meginreglunni. Stefndi byggir hér á því að óhagræði stefnanda af viðbótarkröfu sé óverulegt og sú staðreynd eigi að leiða til þess að önnur atriði verði léttvægari og eigi að leiða til þess að beita beri meginreglu kröfuréttar.
Hvað varði annan kröfulið í dómkröfum stefnanda kveður stefndi að með samkomulagi aðila, dagsettu 24. júní 2013, og bókun aðila í þinghaldi 1. október 2013, hafi þeir orðið ásáttir um breytingu á kröfugerð stefnanda og sé þá ekki tölulegur ágreiningur milli aðila þó þá greini enn á um forsendur dómkrafna.
Verði fallist á að lán stefnanda hjá Sparisjóðnum í Keflavík hafi verið lán í íslenskum krónum, sem hafi verið gengistryggt í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, og að stefndi sé skuldbundinn til að endurreikna lán stefnanda, byggir stefndi á því að krafa stefnanda um endurgreiðslu geti aldrei orðið hærri en 3.145.451 kr. Það sé sú fjárhæð sem komi fram í viðauka 1 við undirritað samkomulag aðila um breyttar dómkröfur, dagsett 24. júní 2013. Endurgreiðsla þeirrar fjárhæðar jafngildi viðurkenningu á varakröfu stefnanda í öðrum lið kröfugerðar hans, eins og henni hafi verið breytt með framangreindu samkomulagi, sem miði við að eftirstöðvar lánssamningsins hafi, hinn 30. desember 2009, átt að vera 21.173.781 króna. Stefndi veki athygli á því að niðurstaða útreikninganna feli í sér að ekki sé um neina viðbótarkröfu af hans hálfu að ræða. Stefndi byggi hér á því að ljóst sé að við framkvæmd endurútreikninga beri að líta á endurreikningstímabil sem eina heild til að meta hvort ofgreitt hafi verið, sbr. niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 50/2013. Stefndi mótmæli aðferð stefnanda við útreikning á aðalkröfu hans, enda feli hún í sér að litið sé til þeirra gjalddaga einna þar sem endurútreikningur sé stefnanda í hag. Þeirri aðferð hafi Hæstiréttur Íslands hafnað með framangreindum dómi.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 3. og 4. gr. laganna, og til almennra reglna kröfuréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Eins og fram hefur komið fékk stefnandi lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík samkvæmt lánssamningi þeirra á milli, dagsettum 15. júní 2006. Líta verður svo á að lánið hafi verið gert upp hinn 30. desember 2009 þegar tékkareikningur stefnanda var yfirdreginn um 24.319.232 krónur sem voru notaðar til að greiða kröfu Sparisjóðsins í Keflavík samkvæmt lánssamningnum, sbr. samkomulag stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík frá þeim sama degi. Ekki verður fallist á það með stefnanda að samkomulagið hafi aðeins falið í sér myntbreytingu á láni samkvæmt lánssamningnum frá 15. júní 2006 enda tók stefnandi, samkvæmt samkomulaginu 30. desember 2009, nýtt lán, yfirdráttarlán, sem er annars eðlis en lán samkvæmt upphaflegum lánssamningi og með öðrum skilmálum. Fær dómurinn því ekki séð að samkomulagið frá 30. desember 2009 hafi falið í sér skuldbreytingu á eldra láni, sem leiða eigi til þess að stefndi hafi þá tekið við öllum réttindum og skyldum samkvæmt lánssamningnum með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 og 5. mars 2011. Hins vegar er óumdeilt að krafa Sparisjóðsins í Keflavík á hendur stefnanda vegna yfirdráttarlánsins færðist með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, fyrst til SPKEF sparisjóðs og síðan til stefnda.
Hvað varðar uppgjör lánssamningsins frá 15. júní 2006 þá var gerður fyrrnefndur fyrirvari í 3. gr. samkomulagsins frá 30. desember 2009, um að með uppgjöri lánssamningsins afsalaði stefnandi sér ekki hugsanlegum rétti sínum sem hann kynni að eiga á hendur Sparisjóðnum í Keflavík á grundvelli dómsmála sem síðar kynnu að verða, kæmi í ljós að stefnandi ætti betri rétt til uppgjörs á láninu. Báðir aðilar að samkomulaginu voru áfram bundnir af þessum fyrirvara eftir uppgjör lánsins 30. desember 2009.
Samkvæmt 1. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 var öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík, hverju nafni sem nefnast, svo sem kröfuréttindum, ráðstafað til SPKEF sparisjóðs. Samkvæmt 2. tölulið ákvörðunarinnar tók SPKEF sparisjóður við öllum tryggingarréttindum Sparisjóðsins í Keflavík, þar með töldum öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum sjóðsins. Í 7. og 9. töluliðum ákvörðunarinnar eru síðan tilgreindar þær skuldir Sparisjóðsins í Keflavík sem skyldu yfirteknar af SPKEF sparisjóði og eru þar meðal annars nefndar skuldbindingar vegna innlána og veðskulda sem hvíli á þeim eignum sem flytjist yfir til SPKEF sparisjóðs. Samkvæmt 13. tölulið ákvörðunarinnar skyldi framsal kröfuréttinda samkvæmt þessari ákvörðun ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnunar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans. Í ákvörðun þessari er ekki unnt að finna því stoð að endurkröfur eða mögulegar endurkröfur á hendur Sparisjóðnum í Keflavík, vegna ofgreiðslu lána, skyldu flytjast til SPKEF sparisjóðs. Því verður þar af leiðandi ekki heldur fundin stoð í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011 um yfirtöku NBI hf., nú stefnda, á eignum og skuldbindingum SPKEF sparisjóðs. Þrátt fyrir fyrirvarann í 3. gr. samkomulagsins frá 30. desember 2009 getur endurkrafa vegna mögulegrar ofgreiðslu láns samkvæmt lánssamningnum frá 15. júní 2006 því ekki beinst gegn stefnda enda var hann aldrei kröfuhafi vegna þess láns.
Fyrsti kröfuliður dómkrafna stefnanda felur í sér kröfu um viðurkenningu á því að lánssamningur, sem stefndi var aldrei aðili að, hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, og þar með ólögmætur samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið er þeirri kröfu ekki réttilega beint að stefnda og ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af þeirri kröfu stefnanda, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Annar kröfuliður dómkrafna stefnanda felur í sér kröfu um viðurkenningu á því að eftirstöðvar lánssamnings, sem stefndi var aldrei aðili að, hafi verið nánar tilgreindar fjárhæðir, aðallega og til vara. Með sömu röku og varðandi fyrsta kröfuliðinn er þessari kröfu ekki réttilega beint að stefnda og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af þeirri kröfu stefnanda, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Þriðji kröfuliður dómkrafna stefnanda felur í sér að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem stefndi hafi ranglega haft af honum á grundvelli samkomulags Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda frá 30. desember 2009. Með vísan til þess sem að framan greinir getur endurkrafa vegna mögulegrar ofgreiðslu láns samkvæmt lánssamningnum 15. júní 2006 ekki beinst að stefnda, sem aldrei var kröfuhafi vegna lánsins og gat því ekki ranglega haft neina fjárhæð af stefnanda á grundvelli þess samnings. Fyrirvarinn í 3. gr. samkomulagsins frá 30. desember 2009 breytir þar engu um enda ber hann með sér að stefnanda var þá kunnugt um þau dómsmál sem þá voru til meðferðar hjá íslenskum dómstólum og vörðuðu lögmæti lána í íslenskum krónum, bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla. Var honum því rétt að hafa þá kröfu uppi gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík eða þrotabúi hans síðar meir. Samkvæmt því ber, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af þriðja kröfulið dómkrafna stefnanda. Sú málsástæða stefnanda, sem hann hreyfði fyrst við aðalmeðferð málsins, um að ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig áðurnefnt yfirdráttarlán, kemur ekki til frekari skoðunar við úrlausn málsins, gegn andmælum stefnda, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á kröfu stefnda um að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landsbankinn hf. er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Matarlystar ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.