Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 11. júlí 2014. |
|
Nr. 485/2014. |
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn B (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Lögræði
Staðfestur var úrskurður
héraðsdóms þar sem A var svipt lögræði í fjögur ár.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús
Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar
með kæru 9. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2014, þar sem sóknaraðili
var svipt sjálfræði og fjárræði í fjögur ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga
nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess
aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um að sóknaraðili verði svipt
lögræði, til vara að hafnað verði kröfu hennar um sviptingu fjárræðis, en að
því frágengnu verði lögræðissviptingu markaður skemmri tími. Þá krefst
sóknaraðili þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun verjanda síns verði
staðfest, svo og að þóknun hans vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti verði
greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðili
verði svipt lögræði í fimm ár, en til vara að hinn kærði úrskurður verði
staðfestur. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð
héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur aðalkrafa hennar því ekki til frekari
álita.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar
verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga
greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila
vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að
meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir
Dómsorð:
Hinn
kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun
skipaðs verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, og
skipaðs talsmanns varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns,
125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2014 .
Árið 2014, föstudaginn
27. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við
Lækjartorg af Þórði Clausen Þórðarsyni, héraðsdómara í lögræðismálinu nr.
42/2014: Beiðni B um að A, kt. [...], með lögheimili
að [...], [...], en með dvalarstað á [...], verði svipt lögræði til fimm ára,
kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með kröfu, sem dags er 23. júní 2014 og
þingfest í dag, hefur Stefán Karl Stefánsson hdl., fyrir hönd B, kt. [...], til heimilis að [...], [...], gert kröfu um að A,
kt. [...], með lögheimili að [...], [...], en með
dvalarstað á [...], verði svipt lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði, til fimm
ára, sbr. a- og b-lið 4. gr. og 1.mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Kröfu þessa byggir
sóknaraðili, sem er móðir varnaraðila, á mati Ingólfs Sveins Ingólfssonar,
sérfræðings í geðlækningum á deild 32C á Landspítala háskólasjúkrahúsi, og
fylgir vottorð hans, dags. 18. júní 2014, beiðni.
Aðild sóknaraðila byggir
á a-lið 2. tl. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Í beiðni kemur fram að
varnaraðili hafi síðast verið svipt sjálfræði þann 8. febrúar 2012, sbr. dóm í
máli L-6/2012, en hún hafi öðlast sjálfræði aftur þann 8. febrúar 2014. Í
framhaldi af því hafi varnaraðili haft val um það hvort hún tæki lyf sín í
pilluformi eða með forðasprautum, en hún hafi valið að taka pillur. Ljóst sé af
háttalagi hennar að undanförnu að hún taki ekki lyfin sín og nú sé svo komið að
hún hafi misst tök á fjármálum sínum og stefni hratt í óefni. Þá hafi hún
leitað sér athvarfs í [...] þar sem fyrir sé mikil neysla og ólifnaður.
Varnaraðili sé með alvarlegan
geðsjúkdóm og með miklar ranghugmyndir og hún hafi ítrekað verið vistuð á
geðdeild vegna þeirra veikinda. Læknismeðferðir hafi borið árangur en vangeta
hennar til að halda við lyfjatöku sinni leiði til þess að sjúkdómurinn taki sig
ávallt upp að nýju. Varnaraðili sé algjörlega innsæislaus í sjúkdóm sinn og
ranghugmyndir hennar séu alvarlegar. Sóknaraðili geti ekki borið ábyrgð á henni
og sé með öllu ókleift að gæta hagsmuna varnaraðila nema til komi tímabundin
svipting.
Í læknisvottorði Ingólfs Sveins
Ingólfssonar geðlæknis, kemur fram að varnaraðili sé 31 árs gömul, einhleyp og
barnlaus. Hún hafi fengið greiningu um að hún væri með aðsóknargeðklofa árið
2009 og hafi einnig sögu um blandaða misnotkun fíkniefna um árabil. Varnaraðili
hafi lagst inn á [...] þann 5. júní sl. og þá verið nauðungarvistuð til allt að
48 klst. vegna geðrofsástands og í framhaldi af því verið nauðungarvistuð til
allt að 21 dags frá 6. júní sl. Lyfjameðferð hafi verið hafin frá fyrsta degi
með sama geðrofslyfi og hún hafi notað síðustu misseri, en það sé olanzapine. Þegar vottorðið sé ritað sé varnaraðili
inniliggjandi á móttökudeild [...] og bíði eftir endurhæfingu.
Fyrsta innlögn varnaraðila á geðdeild
hafi verið í [...] árið 2007 og miðað
við greiningu þaðan frá árinu 2008 hafi hún þjáðst af biopolar
sjúkdómi með geðklofaeinkennum. Eftir flutning til Íslands eigi hún margar
innlagnir á geðsviði á tímabilinu 2008 til dagsins í dag.
Í niðurstöðum vottorðsins kemur fram
að varnaraðili sé með sögu um geðrofseinkenni a.m.k. frá árinu 2007, hún hafi
verið greind með geðklofa árið 2009 þar sem hún uppfylli öll
greiningarskilmerki og hafi verið með blandaðan fíknivanda lengur. Af
sjúkraskýrslu varnaraðila megi sjá hvernig sjúkdómur hennar hafi versnað og tök
á lífinu, t.a.m. hafi hæfni til að stunda vinnu farið þverrandi ár frá ári. Á
meðan sjálfræðissvipting varði 2009-2010 og 2012-2014 hafi verið hægt að tryggja
það að forðasprautur með viðeigandi skammti geðrofslyfja væri gefinn. Þá hafi
náðst betri árangur sem fljótt hafi fjarað undan þegar sjálfræðissvipting rann
út. Það sé vel þekkt að í flestum tilfellum þoli geðklofasjúklingar betur
neyslu ef samhliða sé tryggð meðferð með geðrofslyfjum.
Í vottorði er gerð grein fyrir
geðskoðun við mat þann 18. júní sl. Þá hafi varnaraðili verið snyrtilega til
höfð og verið róleg meðan viðtal fór fram. Hún hafi fyrst og fremst gert grein
fyrir því að hún væri ósátt við að taka lyf og hún teldi sig ekki veika. Síðan
hafi aukin hugrenningatengsl farið að gera vart við sig og á skömmum tíma hafi
varnaraðili verið komin úr rökræðum um geðrofslyf og virkni þeirra yfir í
umræðu um eldsneyti. Erfitt hafi verið að fylgja þræði og varnaraðili
greinilega með hugsanatruflanir og geðrofseinkenni. Hún svari spurningum um
ofskynjanir neitandi og innsæi hennar í sjúkdóm sinn og neyslu og ástand
almennt sé skert. Samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá hafi varnaraðili
viðurkennt að hafa gert sjálfsvígstilraun og skaðað sig með því að skera sig
fyrir mörgum árum, þá 15 ára gömul. Hún hafi svarað spurningum um
sjálfsvígshugsanir neitandi í legu og sé ekki metin í bráðri sjálfsvígshættu.
Þó beri að geta þess að tíðni sjálfsvíga hjá sjúklingum með geðklofa sé í
grunninn töluvert aukin miðað við heilbrigða einstaklinga og vímugjafaneysla
auki enn á þá hættu.
Læknirinn kveðst mæla með og styðja að
varnaraðili verði sjálfræðissviptur til fimm ára og staðan endurmetin að þeim
tíma liðnum þar sem það virðist ljóst af þróun veikinda varnaraðila síðastliðna
mánuði að lífi hennar og heilsu sé alvarlega ógnað haldi hún áfram á sömu
braut. Þá sé reynslan úr fyrri innlögnum og núverandi að varnaraðili svari
meðferð með geðrofslyfjum en innsæi hennar í þarfir sínar breytist ekki.
Varnaraðili kom fyrir dóm og gerði
grein fyrir afstöðu sinni til framkominnar kröfu og kvaðst mótmæla henni,
kveðst ekki vera veik og því ekki þurfa á lyfjum að halda og telja þau skaðleg
fyrir sig.
Ingólfur Sveinn Ingólfsson,
sérfræðingur í geðlækningum, gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð
sitt. Ingólfur kvaðst hafa annast varnaraðila í um það bil 20 daga í núverandi
innlögn, hún hafi verið færð á aðra deild og staðið hafi til að hún myndi þá
hefja endurhæfingu en veikindi hennar hafi versnað mjög hratt, hún væri nú í
geðrofsástandi, með miklum ranghugmyndum af svipuð toga og varnaraðili ætti
sögu um og hún hefði ekkert innsæi í veikindi sín og teldi sig ekki veika og
væri andsnúinn lyfjatöku og hún væri engan veginn fær um að ráða högum sínum.
Aðspurður kvaðst hann ekkert geta fullyrt um hæfi varnaraðila til að stjórna
fjármálum sínum en með hliðsjón af ástandi hennar og því að hún hafi haft átt
við viðvarandi fíkniefnavandamál að stríða teldi hann hana ekki færa um það
eins og ástand hennar væri.
Hann haldi með hliðsjón af þeirri
reynslu sem hefði verið af fyrri sjálfræðissviptingu að rétt væri að svipta
varnaraðila lögræði í 5 ár, síðast þegar varnaraðili var sviptur í tvö ár, þá
hafi hún farið í sama farið á mjög skömmum tíma og framundan væri að hún væri í
áframhaldandi meðferð með forðasprautum í innlögn og hún færi síðan í
endurhæfingu sem tæki mánuði en ekki væri hægt að segja til um að hve langan
tíma það tæki, en það væri grundallaratriði að hægt væri að tryggja að hún nyti
viðeigandi lyfjameðferðar. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hve lengi, en
hugsanlega ævilangt þar sem veikindi varnaraðila væru alvarleg og mjög
alvarlegt tilfelli af geðklofa. Viðvarandi fíkniefnavandi gerði stöðu hennar
einnig verri. Reynslan sýni að svipting sjálfræðis í tvö ár hafi dugað skammt
og því væri ljóst að lengri tími væri
nauðsynlegur.
Talsmaður sóknaraðila reifaði og
ítrekaði kröfur sínar og vísaði til þess að nauðsynlegt væri að varnaraðila
væri skipaður lögráðamaður til að annast hennar mál. Þá gerði hann grein fyrir
því að varnaraðili ætti fé inn á þremur tilgreindum bankareikningum í
Landsbanka og Arionbanka og tryggja yrði að hún gæti
ekki eytt þessu fé þar sem hún gæti ekki stjórnað fjármálum sínum og ekki síst
með hliðsjón af viðvarandi fíkniefnavanda. Verjandi reifaði málið og taldi
eðlilegt ef dómur féllist á framkomna beiðni að lögræðissviptingu yrði markaður skemmri tíma.
Með vísan til vottorðs og vættis
Ingólfs Sveins Ingólfssonar, sérfræðings í geðlækningum, sem sinnt hefur
varnaraðila í innlögn á geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúsi og þekkir
langa sjúkdómssögu hennar er það mat dómara að nægilega sé í ljós leitt að
varnaraðili sé, vegna alvarlegs geðsjúkdóms, ófær um að ráða sjálf persónulegum
högum sínum og fjármunum og brýna
nauðsyn beri til að hún fái áframhaldandi meðferð á geðrofslyfjum og
endurhæfingu. Án þess stefni hún, að mati læknisins, lífi sínu og heilsu í voða
og spilli möguleikum á bata. Varnaraðili hefur lýst sig andsnúna lyfjatöku og
reynslan sýnir að þegar hún hættir að taka þau lyf sem mælt er fyrir um af
læknum að hún taki, hrakar heilsu hennar mjög fljótt. Reynslan hefur sýnt að á
fyrri sjálfræðissviptingartímabilum hefur varnaraðili náð tímabundum bata, en
hann hefur gengið mjög hratt til baka. Dómari telur samt sem áður rétt með
hliðsjón af meðalhófsreglum að marka sviptingu skemmri tíma en krafist er og að
þeim tíma loknum gefist færi á að endurmeta stöðuna með hliðsjón af árangri meðferðar.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber, með vísan til a- og b-liðar 4. gr.,
sbr. og 1.mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að ákveða að svipta varnaraðila
lögfræði tímabundið í fjögur ár frá og með deginum í dag að telja.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga
nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda
þóknun til skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., og
skipaðs talsmanns sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., eins og kveðið
er á um í úrskurðarorði.
Þórður Clausen Þórðarson
héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], með lögheimili að [...], [...], er svipt
lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði, tímabundið til fjögurra ára frá og með
deginum í dag að telja.
Kostnaður af málinu, þar
með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl.,
og skipaðs talsmanns sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 141.850 kr.
til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.