Hæstiréttur íslands
Mál nr. 168/1999
Lykilorð
- Ábyrgð
- Sveitarstjórn
|
|
Fimmtudaginn 14. október 1999. |
|
Nr. 168/1999. |
Íslenska ríkið (Skúli Bjarnason hrl.) gegn Sveitarfélaginu Árborg (Othar Örn Petersen hrl.) og gagnsök |
Ábyrgð. Sveitarstjórn.
Árið 1983 samþykkti hreppsnefnd sveitarfélagsins E, að takast á hendur sjálfsskuldarábyrgð á láni hlutafélagsins H hjá ríkissjóði, en þá voru í gildi sveitarstjórnarlög nr. 58/1961. Í byrjun árs 1987, eftir að sveitarstjórnarlög nr. 8/1986 höfðu tekið gildi, samþykkti hreppsnefndin fyrir sitt leyti skilmálabreytingu lánsins. Talið var, að sjálfskuldarábyrgð E hefði ekki öðlast gildi, þar sem ákvörðun hreppsnefndarinnar 1983 hefði ekki verið lögð fyrir sýslunefnd til samþykkis samkvæmt 3. tölulið f. liðar 11. gr. laga nr. 58/1961. Ábyrgðaryfirlýsing E við skilmálabreytinguna 1987 hefði orðið að fullnægja ákvæðum 89. gr. laga nr. 8/1986. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar væri sjálfskuldarábyrgð sveitarfélags við þessar aðstæður ekki heimil. Þá fullnægði yfirlýsingin ekki heldur skilyrðum 5. mgr. 89. gr. laganna um veitingu einfaldrar ábyrgðar, en engar líkur voru að því leiddar að ábyrgð E hefði verið veitt gegn tryggingu sem metin var gild. Var því hafnað kröfu ríkisins um staðfestingu sjálfskuldarábyrgðar sveitarfélagsins Á, sem tekið hafði við réttindum og skyldum E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Aðalfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 1999. Hann krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið, að staðfest verði sjálfskuldarábyrgð gagnáfrýjanda á verðtryggðu láni Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. gagnvart ríkissjóði Íslands samkvæmt skuldabréfi dagsettu 14. júní 1983, upphaflega að fjárhæð 2.920.141 króna, og breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins dagsettri 19. janúar 1987. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 18. maí 1999. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sjálfskuldarábyrgð gagnáfrýjanda á skuldabréfi Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. 14. júní 1983 var ekki lögð fyrir sýslunefnd Árnessýslu til samþykkis og öðlaðist því ekki gildi samkvæmt 3. tl. f. liðar 11. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 58/1961. Ábyrgðaryfirlýsing gagnáfrýjanda við skilmálabreytingu skuldabréfsins 19. janúar 1987 varð að fullnægja ákvæðum 89. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Samkvæmt 4. mgr. hennar var sjálfskuldarábyrgð sveitarfélags við þessar aðstæður ekki heimil. Í málinu hafa ekki verið leiddar líkur að því að ábyrgð gagnáfrýjanda vegna breytingarinnar á skilmálum skuldabréfsins hafi verið veitt gegn tryggingu, sem metin var gild. Fullnægði yfirlýsingin því heldur ekki skilyrðum 5. mgr. 89. gr. um veitingu einfaldrar ábyrgðar og getur hún ekki bundið gagnáfrýjanda. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Sveitarfélaginu Árborg, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. þessa mánaðar að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 30. júní 1998, af bæjarstjórn sameiginlegs sveitarfélags Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps, kt. 650598-2029, Austurvegi 2, Selfossi.
Stefndi er íslenska ríkið.
Við aðalmeðferð málsins var upplýst að stefnandi hefði fengið nafnið Árborg og var heiti málsins breytt til samræmis við það.
Stefnandi gerir svofelldar dómkröfur:
a) Að viðurkennt verði með dómi að sjálfskuldarábyrgð Eyrarbakkahrepps á veðtryggðu láni Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. gagnvart ríkissjóði Íslands samkvæmt skuldabréfi, dagsettu 14. júní 1983, og breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins, dagsettum 19. janúar 1987, sé ógild.
b) Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi og við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að staðfest verði með dómi sjálfskuldarábyrgð Eyrarbakkahrepps, nú sameinaðs sveitarfélags stefnanda, á verðtryggðu láni Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. gagnvart ríkissjóði samkvæmt skuldabréfi, útgefnu 14. júní 1983, upphaflega að fjárhæð 2.920.141 króna, og eftirfarandi breytingu á greiðsluskilmálum, dagsettum 19. janúar 1987. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
I.
Málsatvik.
Málavextir eru þeir að þann 9. júlí 1983 samþykkti hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á veðtryggðu láni Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. hjá ríkissjóði Íslands að fjárhæð 2.920.141 króna. Félagið lofaði að endurgreiða lánið með fimm jöfnum árlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. júlí 1984. Skyldi skuldin öll í gjalddaga fallin ef ekki yrði staðið í skilum með greiðslu afborgana, vaxta eða verðbóta á réttum gjalddögum. Til tryggingar greiðslu lánsins veðsetti félagið fasteign sína að Eyrargötu 53A, Eyrarbakka, með 33. veðrétti á eftir skuldum að fjárhæð samtals 19.035.208,54 krónur. Ekki var greitt á gjalddögum lánsins 1. júlí 1984 og 1. júlí 1985. Þann 19. janúar 1987 féllst ríkissjóður Íslands á beiðni skilanefndar Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. um breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Nam nýr höfuðstóll skuldarinnar gjaldföllnum afborgunum og eftirstöðvum, að fjárhæð 7.187.610 krónur, og skyldi greiðast með 8 afborgunum á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 1. júní 1988. Staðfesti hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps beiðni félagsins um breytingar á skilmálum skuldabréfsins með áritun á bréfið og var skilmálabreytingin samþykkt á fundi hreppsnefndar 30. janúar 1987. Frá 1. júlí til 16. september árið 1991 greiddi aðalskuldari samtals 1.000.000 króna inn á skuldina. Ekki var um frekari innborganir að ræða af hans hálfu og var Eyrarbakkahreppur krafinn um greiðslu með áskorunarstefnu, dagsettri 11. febrúar 1992. Í framhaldi af því undirritaði oddviti réttarsátt 25. næsta mánaðar um greiðslu hreppsins á ábyrgðinni. Ekki lagði oddviti þá afgreiðslu fyrir hreppsnefnd. Hann ritaði síðan bréf til forsætisráðherra og fór fram á niðurfellingu kröfunnar, en engin viðbrögð urðu af hálfu ráðherra. Í september 1992 greiddi aðalskuldari, sem þá hafði fengið heitið Bakkafiskur hf., 6.438.733 krónur inn á skuld sína, en ekki var um frekari greiðslur að ræða. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 24. apríl 1993 og er skiptum ekki lokið. Lýstar kröfur í þrotabúið eru 156.324.940 krónur. Samkvæmt bréfi skiptastjóra mun engin greiðsla koma upp í almennar kröfur. Þann 2. maí 1994 barst Eyrarbakkahreppi innheimtubréf þar sem veittur var lokafrestur til 10. maí sama ár til að greiða skuldina eða semja um greiðslu. Oddviti hreppsins og annar hreppsnefndarmaður fóru þá á fund fjármálaráðherra til þess að ræða málið. Taldi ráðherra sig ekki geta fellt kröfuna niður nema samþykki Alþingis kæmi til. Var starfsmanni ráðuneytisins falið að skoða málið, einkum til þess að beita sér fyrir því að samningsvextir yrðu reiknaðir af skuldinni í stað dráttarvaxta. Ekkert gerðist í stöðunni fyrr en hreppurinn fékk bréf 15. maí 1995 þar sem óskað var eftir því að gengið yrði strax til samninga um lok málsins. Hinn 25. október 1996 barst bréf frá innheimtulögmanni ríkissjóðs þar sem kynnt var samþykki fjármálaráðuneytisins um skuldbreytingu og að miðað yrði við samningsvexti í stað dráttarvaxta. Nam skuldin þá 38.808.542 krónum með dráttarvöxtum en með einföldum samningsvöxtum 25.161.948 krónum. Hreppsnefnd ritaði fjármálaráðuneytinu bréf og bauðst til að greiða höfuðstól skuldarinnar, 7.186.610 krónur. Því hafnaði ráðuneytið með bréfi 8. janúar 1997, en bauð upp á viðræður um greiðslukjör ábyrgðarinnar. Lögmaður hreppsins ritaði fjármálaráðuneytinu bréf 15. desember 1997 þar sem því var lýst að hreppsnefndin teldi að lög stæðu ekki til þess að hreppnum bæri að greiða umrædda skuldbindingu eða að minnsta kosti að réttmætur vafi væri uppi um greiðsluskyldu hreppsins að nauðsynlegt væri að fá úr þessum vafa skorið fyrir dómi. Með bréfi ráðuneytisins 21. febrúar 1998 var því lýst yfir að ábyrgð hreppsins væri í fullu gildi og að um hana skyldi fara eftir þeim reglum sem giltu þegar til hennar var stofnað.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að á þeim tíma, er hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps gekkst undir skuldbindingu sína 9. júlí 1983, hafi verið í gildi sveitarstjórnarlög nr. 58/1961. Í f-lið 3. tl. 11. gr. þeirra laga hafi verið að finna ákvæði um ábyrgðarskuldbindingar sveitarfélaga. Þar _ XE „f-lið 3. tl. 11. gr.” _hafi sagt að samþykki sýslunefndar þyrfti til þess að ályktun hreppsnefndar væri gild þegar um væri að ræða ólögbundnar skuldbindingar sem gilda ættu í langan tíma. Ekki muni hafa verið aflað samþykktar sýslunefndar Árnessýslu í þessu tilviki þrátt fyrir skilyrði ákvæðisins. Af framlögðum fundargerðum sýslunefndar sé ljóst að sveitarfélög í Árnessýslu hafi lagt fyrir sýslunefnd og óskað eftir samþykki nefndarinnar fyrir slíkum skuldbindingum í samræmi við skilyrði sveitarstjórnarlaga um gildi þeirra. Þar sem það hafi ekki verið gert í þessu tilviki geti skuldbinding Eyrarbakkahrepps samkvæmt samþykkt á fundi 9. júlí 1983 ekki talist gild og sama gildi að því marki sem síðari ákvarðanir yrðu taldar endurnýjun á fyrri ábyrgð.
Verði ekki fallist á að skuldbinding hreppsins sé andstæð þágildandi sveitarstjórnarlögum og þar með óskuldbindandi fyrir Eyrarbakkahrepp er á því byggt að endurnýjun skuldbindingarinnar 30. janúar 1987 hafi verið andstæð sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Með þeim lögum_ XE „sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986” _ hafi verið settar nýjar og gleggri reglur um fjármál sveitarfélaga sem tóku gildi 1. janúar 1987, sbr. 1. mgr. 121. gr. laganna. Í 4. og 5. mgr._ XE „4. og 5. mgr.” _ 89. gr. sé vikið að heimild sveitarstjórna til veitingar kröfuábyrgðar. Þar segi annars vegar að ekki megi binda sveitarsjóð við sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins og hins vegar að sveitarstjórn geti veitt einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún meti gildar.
Ákvæði 4. mgr. 89. gr. laga nr. 8/1986 hafi verið fortakslaust og ófrávíkjanlegt. Ákvörðun sveitarstjórnar um að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð, þrátt fyrir bann laganna, sé ógild og hafi dómstólar hér á landi staðfest að kröfuhafi geti ekki öðlast rétt á hendur sveitarfélagi á grundvelli slíkrar ábyrgðarskuldbindingar.
Í því tilviki, sem hér er fjallað um, reyni á það álitaefni hvort hreppsnefndinni hafi verið heimilt eftir gildistöku laga nr. 8/1986 að endurnýja/stofna til nýrra sjálfskuldarábyrgðar vegna skuldbindinga, sem stofnað hafði verið til í gildistíð eldri sveitarstjórnarlaga, án þess að gæta sérstaklega þeirra skilyrða sem nýju lögin setji.
Ábyrgð á greiðslu skuldbindingar sé veitt til greiðslu á tiltekinni skuld og þá miðað við umsamda greiðsluskilmála skuldarinnar, nema tekið sé fram að ábyrgðin standi þrátt fyrir að skuldari og kröfuhafi semji um breytingar á greiðsluskilmálum. Ábyrgðarmaðurinn eigi ekki að þurfa að sæta því, nema samþykki hans komi til, að ábyrgðin verði meiri heldur en leiðir af upphaflegu greiðsluskilmálunum eða hún vari lengur heldur en upphaflegum lánstíma nemi, að viðbættum hæfilegum tíma kröfuhafa til að tilkynna um greiðslufall og innheimta ábyrgðina.
Vegna ábyrgðarstofnunar af hálfu sveitarstjórnar verði sérstaklega að líta til þess að sveitarstjórnarmenn fari þar með opinbert vald og um starfsheimildir sveitarstjórnar gildi sú meginregla að ákvarðanir sveitarstjórnar verði að vera í samræmi við lög og að þær skuli að hafa heimild í lögum.
Ákvæði sveitarstjórnarlaga um stofnun ábyrgða af hálfu sveitarfélags séu ófrávíkjanleg og heimili hvorki sveitarstjórnum né ráðuneyti að víkja frá fyrirmælum þeirra þó það kunni að vera talið henta í einstökum tilvikum. Orðalag 4. mgr. 89. gr._ XE „4. mgr. 89. gr.” _ sé fortakslaust, enda sé því ætlað að tryggja félagslega hagsmuni sveitarfélagsins og hafi ákvæðið verið túlkað með þeim hætti af dómstólum.
Þegar hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps samþykkti á fundi sínum 30. janúar 1987 að veita áfram sjálfskuldarábyrgð á hinu skuldbreytta láni hafi fyrra lánið verið allt í gjalddaga fallið samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins þar sem ekki hafði verið staðið skil á greiðslum. Kröfuhafi bréfsins hafi því átt kost á að innheimta skuldina og láta þá reyna á ábyrgð Eyrarbakkahrepps samkvæmt ábyrgðarloforðinu frá 9. júlí 1983. Það hafi hann ekki gert. Hins vegar hafi hann samþykkt beiðni aðalskuldara um breytingar á skilmálum lánsins. Höfuðstóll skuldarinnar hafi verið hækkaður um rúmar fjórar milljónir og lánstíminn lengdur í 8 ár. Ný lánskjör hafi því verið boðin fram sem aðalskuldari og ábyrgðarmaður hafi þurft að taka afstöðu til. Hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps hafi staðfest beiðni skuldara um ofangreindar breytingar með áritun á skuldabréfið sjálft. Á fundi hreppsnefndar 30. janúar 1987 hafi málið síðan verið tekið fyrir og ákvörðun tekin. Endurnýjun sjálfskuldarábyrgðar hreppsins á láninu hafi verið samþykkt og þær breytingar sem gerðar voru. Hér hafi verið um nýja ákvörðun að ræða sem snerti fjárhagsleg málefni sveitarfélagsins og því lotið þeim ramma sem gildandi sveitarstjórnarlög hafi sett sveitarstjórnum í þeim efnum.
En jafnvel þó að skilmálabreyting á skuldinni yrði ekki metin sem ný lánveiting í skiptum aðalskuldara og kröfuhafa er á því byggt að hreppsnefndin hefði engu að síður þurft að gæta ákvæða 4. mgr. 89. gr. laga nr. 8/1986 þegar hún endurnýjaði ábyrgð sína. Heimildin til að veita sjálfskuldarábyrgð hafi verið fallin úr lögum og á þessum tíma hafi lög ekki staðið til annars en að sveitarfélagið veitti einfalda ábyrgð og gegn töku trygginga. Einnig sé rétt að hafa hér í huga að kröfuhafinn, þ.e. sá aðili sem tók við ábyrgðinni, hafi verið íslenska ríkið og handhöfum þess því fyllilega átt að vera ljóst að búið var að breyta reglum um stofnun ábyrgða af hálfu sveitarfélaga.
Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum og atvikum í máli þessu telji núverandi sveitarstjórn ljóst að lög standi ekki til þess að hreppnum beri að greiða umrædda skuldbindingu. Ákvörðun um að samþykkja ábyrgðina 30. janúar 1987 hafi ekki verið í samræmi við skýrt orðalag 4. mgr. 89. gr. laga nr. 8/1986, tilgang laganna, almennar reglur um valdheimildir sveitarstjórna og skuldbindingar ábyrgðarmanns. Ákvörðunin sé þar af leiðandi ógild og hreppnum óheimilt að innleysa ábyrgðina ef á reyndi. Undirritun oddvita á réttarsátt um greiðslu skuldarinnar þann 25. mars 1992 breyti því engu um gildi ákvörðunarinnar sem slíkrar. Jafnframt hafi oddviti ekki haft stöðuumboð til að skuldbinda Eyrarbakkahrepp með slíkum hætti og skuli áréttað að afgreiðsla hans hafi aldrei verið lögð fyrir hreppsnefnd með formlegum og réttum hætti, sbr. 51. gr. laga nr. 8/1986. Hér sé auk þess um að ræða fjárhæð sem hafi afgerandi áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, en útsvarstekjur þess á árinu 1996, að undanskildum þeim hluta sem færður hafi verið yfir til sveitarfélagsins vegna yfirtöku grunnskólans, nemi. 47.558.756 krónum.
III.
Málsástæður og lagaök stefnda.
Stefndi byggir á því að við útgáfu hins upphaflega og eina skuldabréfs í málinu hafi verið í gildi sveitarstjórnarlög nr.58/1961. Í B. lið 10. gr. laganna, in fine, hafi sagt að það sé ennfremur hlutverk sveitarfélaga „... að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi eða bjargarskort, eftir því sem fært er á hverjum tíma.” Í 1. mgr. 11. gr. sömu laga sé hins vegar gert ráð fyrir að sveitarfélög leiti samþykkis sýslunefndar til þess að takast á hendur ólögboðnar skuldbindingar sem gilda eigi til lengri tíma. Í 2. mgr. 3. tl. f. liðar tilvitnaðrar 11. gr. laganna sé kveðið á um það hverju það varði ef synjað er samþykkis. Þar segi svo: „Nú synjar sýslunefnd um samþykki til ráðstöfunar , sem um ræðir í staflið þessum, og er þá hreppsnefnd rétt að bera málið á sveitarfundi, sbr. 31. gr., undir atkvæði. Hljóti ályktun hreppsnefndar 3/4 hluta atkvæða, skal hún vera gild án samþykkis sýslunefndar.”
Stefndi byggi þannig á því að enginn munur eigi að vera á því hvort sýslunefnd synjar um samþykki eða hvort þeirra formreglna er ekki gætt að bera mál undir sýslunefnd. Höfuðatriðið sé að sýslunefnd hafi ekki úrslitavöld andspænis auknum meirihluta sveitarfundar. Í máli þessu liggi ekki einungis fyrir aukinn meirihluti heldur alger samstaða allra hreppsnefndarmanna um ráðstöfunina.
Þá byggir stefndi ennfremur á því að ekki hefði þurft að bera málið undir sýslunefnd vegna fyrrgreindra eignatengsla sveitarfélagsins og fyrirtækisins. Því hafi ekki verið um það að ræða að leita ábyrgðar fyrir 3ja aðila, sbr. og það sem áður segi um skyldu sveitarfélagsins til þess að sporna gegn atvinnuleysi.
Stefndi telur jafnframt að nýrri sveitarstjórnarlög, nr. 8 frá 1986, veiti einnig svigrúm til ábyrgðargjafar eins og hér háttar til og jafnvel þótt litið yrði svo á að um nýja ábyrgð væri að ræða. Helgist það af mati stefnda annars vegar af því að almennt hvíli sú skylda á sveitarfélögum að atvinnuástand sé með sæmilegum skikk, sbr. t.d. 13. tl. 6. mgr. 6. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. og fyrrgreind eignatengsl, sem séu með þeim hætti, að fráleitt sé að halda því fram að um ábyrgð fyrir utanaðkomandi aðila hafi verið að ræða. Þá sé og til þess að líta að í raun sé í framkvæmd um einfalda ábyrgð að ræða, eins og stefnandi og stefndi hafi hagað lögskiptum sínum, þ.e. það sé fyrst eftir að upphaflegur skuldari hafi lagt upp laupana að fari að reyna fyrir alvöru á ábyrgð sveitarsjóðs. Þannig sé sveitarfélaginu ekki stefnt til ábyrgðar fyrr en í febrúar 1992. Þá ítreki stefndi að við gildistöku hinna nýrri sveitarstjórnarlaga frá 1986, sem í gildi hafi verið gengin þegar gengið var frá breytingunni á greiðsluskilmálunum, hafi að sjálfsögðu verið um að ræða greiðsluskyldu sem þegar hvíldi á sveitarfélaginu eftir eldri lögum og ábyrgð og því borið að meðhöndla sem slíka, en ekki sem nýja skuldbindingu. Því sjónarmiði hafi hreppsnefndin að sjálfsögðu verið sammála á sínum tíma, eins og fundargerð hennar frá 30. janúar 1987 beri með sér þegar breytingin á greiðsluskilmálunum var borin undir hana.
Stefndi telji það langsótta túlkun og andstæða tilgangi laganna og hagsmunum skuldara almennt ef kröfuhafi ætti að tapa rétti með því að koma til móts við óskir skuldara um rýmkun á greiðslufresti fjárskuldbindinga með vitund, vilja og samþykki ábyrgðarmanns. Ábyrgðarmaður eigi þess jafnan kost að grípa inn í og greiða ef hann svo kýs og firra sig þá frekari uppsöfnun kostnaðar og vaxta. Jafnframt bendi stefndi á að allur vafi um gildi ábyrgðarinnar hljóti að vera túlkaður honum í hag, það sé eðlilegra að áhættan liggi fremur hjá þeim sem veitir ábyrgðina en þeim sem veitir henni viðtöku.
Verði talið að lagaskilyrði hafi brostið til margumræddrar ábyrgðargjafar eða framlengingar hennar er því haldið fram sveitarfélagið hljóti að vera í ábyrgð vegna dómsáttarinnar, en við fyrirtöku þess máls hafi hreppurinn látið hjá líða að hafa uppi mótmæli gegn gildi ábyrgðarinnar. Það sé fyrst nú sem höfð séu uppi mótmæli við gildi ábyrgðarinnar, en slíkt tómlæti af hálfu stefnanda hljóti að hafa verið til þess fallið að baka stefnda tjón.
IV.
Niðurstaða.
Af kröfugerð aðila leiðir að í máli þessu reynir ekki á hvort dómsátt sú, er þeir gerðu með sér 25. mars 1992 um kröfu stefnda á hendur Eyrarbakkahreppi samkvæmt skuldabréfi, útgefnu af Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf. 14. júní 1983 og breytingu á greiðsluskilmálum þess 19. janúar 1987, sé skuldbindandi fyrir stefnanda.
Samkvæmt 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 58/1961, sem í gildi voru er Eyrarbakkahreppur undirgekkst sjálfskuldarábyrgð þá, er um ræðir í máli þessu, voru ráðstafanir sveitarfélags háðar tilteknum takmörkunum, sem tilgreindar voru í a- til g- lið greinarinnar. Í f-lið var að finna ákvæði um ábyrgðarskuldbindingar sveitarfélaga. Sagði þar í 3. tl. _ XE „f-lið 3. tl. 11. gr.” _að samþykki sýslunefndar þyrfti til þess að ályktun hreppsnefndar væri gild þegar um væri að ræða ólögbundnar skuldbindingar sem gilda ættu í langan tíma. Telja verður að ábyrgðarskuldbinding sú, er mál þetta tekur til, hafi fallið þar undir. Skipta áðurnefnd eignatengsl sveitarfélagsins og aðalskuldara ekki máli í því sambandi eða ákvæði 10. gr. B, b-liðar þágildandi sveitarstjórnarlaga um skyldu sveitarfélaga til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi eða bjargarskort. Upplýst er í máli þessu og óumdeilt að ekki var aflað samþykkis sýslunefndar Árnessýslu fyrir ábyrgðarskuldbindingunni svo sem skylt var samkvæmt fortakslausu ákvæði nefndrar lagagreinar. Reyndi því aldrei á umrædda beiðni Hraðfrystihúss Eyrarbakka hf. fyrir því stjórnvaldi.
Þar sem ekki var staðið með formlega réttum hætti að afgreiðslu málsins af hálfu Eyrarbakkahrepps er það álit dómsins að umþrætt skuldbinding sveitarfélagsins samkvæmt samþykkt á fundi 9. júlí 1983 geti þegar af þeirri ástæðu ekki talist gild gagnvart stefnda.
Samkvæmt ofangreindri breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins voru gjaldfallnar afborganir þess 1. júlí 1984 og 1. júlí 1985, auk vaxta, samtals 3.349.910 krónur. Eftirstöðvar lánsins, ásamt samningsvöxtum og verðbótum til 1. júní 1986 voru 3.837.700 krónur. Gjaldfallnar afborganir og eftirstöðvar voru því samtals 7.187.610 krónur. Var sú fjárhæð höfuðstóll skuldarinnar samkvæmt skilmálabreytingunni og hækkaði hann því um fjórar milljónir króna frá því sem áður var. Þá var nýr lánstími ákveðinn átta ár með fyrsta gjalddaga 1. júní 1988. Verður að telja að um svo verulega breytingu hafi verið að ræða frá eldri skuldbindingu að meta verði sem svo að ný lánskjör hafi í raun verið boðin fram. Bar hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps að afgreiða umsókn aðalskuldara um ábyrgðarskuldbindinguna til samræmis við það.
Er gengið var frá umræddri breytingu af hálfu hreppsnefndar fundi 30. janúar 1987 höfðu sveitartsjórnarlög nr. 8/1986 leyst eldri lög um sama efni af hólmi. Var þar að finna skýrari reglur um fjármál sveitarfélaga og þá voru heimildir þeirra til ábyrgðarskuldbindingar þrengdar, sbr. 4. og 5. mgr. 89. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. þeirrar lagagreinar má eigi binda sveitarsjóð við sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Enda þótt Eyrarbakkahreppur hafi átt umtalsverðan hlut í Hraðfrystihúsi Eyrarbakka hf. á þeim tíma, sem ábyrgðarskuldbindingin var samþykkt, verður félagið engan veginn talið til stofnana sveitarfélagsins í skilningi sveitarsjórnarlaga. Í 5. mgr. er síðan að finna heimild fyrir sveitarstjórn til að veita einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún metur gildar. Í upphaflegu skuldabréfi var Eyrarbakkahreppur ótvírætt tilgreindur sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Verður ekki séð af gögnum málsins að breyting hafi orðið þar á með hinum nýju greiðsluskilmálum. Þá var heldur ekki fullnægt með formlegum hætti áskilnaði umræddrar lagareinar um gildar tryggingar fyrir slíkri ábyrgðarskuldbindingu.
Ákvæði 4. og 5. mgr. 89. gr. sveitarstjórnarlaga eru fortakslaus og ófrávíkjanleg. Verður því að telja að með því að skilyrði til ábyrgðarskuldbindingar Eyrarbakkahrepps, sem samþykkt var á fundi hreppsnefndar 30. janúar 1987, voru ekki uppfyllt samkvæmt þeim ákvæðum leiði það til ógildingar hennar. Verður ekki fallist á það með stefnda að ákvæði 13. tl. 6. mgr. 6. gr. laganna veiti sveitarfélaginu heimild til slíkrar gerðar, enda færi það gegn ofangreindu sérákvæði sömu laga um ábyrgðarskuldbindingar sveitarfélaga.
Þar sem um ólögmæta skuldbindingu var að ræða af hálfu Eyrarbakkahrepps frá upphafi verður ekki talið að réttur stefnanda til að krefjast ógildingar hennar sé niður fallin fyrir tómlætis sakir.
Samkvæmt framansögðu er fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Sjálfskuldarábyrgð Eyrarbakkahrepps á veðtryggðu láni Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka hf. gagnvart ríkissjóði Íslands samkvæmt skuldabréfi, dagsettu 14. júní 1983, og breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins, dagsettri 19. janúar 1987, er ógild.
Málskostnaður fellur niður.