Hæstiréttur íslands

Mál nr. 522/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 12

 

Miðvikudaginn 12. janúar 2005.

Nr. 522/2004.

Glerborg ehf.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Byko hf.

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

G höfðaði mál gegn B meðal annars til greiðslu ógreiddra reikninga. Fallist var á með B að það væri verulegum vandkvæðum bundið fyrir hann að taka til varna vegna ýmissa vankanta á málatilbúnaði G varðandi umræddan kröfulið. Var honum því vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2004, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2004, þar sem lið I í dómkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka þennan kröfulið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Glerborg ehf., greiði varnaraðila, Byko hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2004.

 

             Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 16. mars 2004 af Glerborg ehf., kt. 580772-0139, Dalshrauni 5, Hafnarfirði gegn BYKO hf., kt. 460169-3219, Skemmuvegi 2a, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda hlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 8.052.730,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 106.459,00 frá 24.05.2001 til 22.09.2001, af kr. 271.921,00 frá 22.09.2001 til 11.01.2002, af kr. 777.391,00 frá 11.01.2002 til 19.05.2002, af kr. 838.543,00 frá 19.05.2002 til 30.08.2002, af kr. 2.673.885,00 frá 30.08.2002 til 30.09.2002, af kr. 3.683.354,00 frá 30.09.2002 til 17.10.2002, af kr. 4.120.543,00 frá 17.10.2002 til 14.12.2002, af kr. 4.938.250,00 frá 14.12.2002 til 27.12.2002, af kr. 5.013.676,00 frá 27.12.2002 til 26.04.2003, af kr. 6.130.940,00 frá 26.04.2003 til 30.07.2003, af kr. 7.049.678,00 frá 30.07.2003 til 08.11.2003, af kr. 7.053.567,00 frá 08.11.2003 til 14.11.2003, af kr. 7.305.749,00 frá 14.11.2003 til 05.12.2003, af kr. 7.367.263,00 frá 05.12.2003 til 12.12.2003, af kr. 7.450.037,00 frá 12.12.2003 til 23.01.2004, af kr. 7.914.396,00 frá 23.01.2004 til 05.03.2004, af kr. 8.052.730,00 frá 05.03.2004 til greiðsludags. Allt að frádregnum innborgunum:þann 22.12.2002 kr. 15.083,00 þann 22.12.2002 kr. 779.720,00 eða alls að upphæð kr. 794.803,00 sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi .Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 24.05.2002 en síðan árlega þann dag.  Þá er krafist málskostnaðar.

 

Stefndi gerir í málinu eftirfarandi dómkröfur:

  1. Aðallega:
    1. Að kröfulið I samkvæmt stefnu verði vísað frá dómi.
    2. Að stefndi verði sýknaður af öllum öðrum kröfum stefnanda.
  2. Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
  3. Til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
  4. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

Munnlegur málflutningur um kröfu stefnda um að kröfulið I verði vísað frá dómi fór fram 11. nóvember s.l. og var málið þá tekið til úrskurðar.

         Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu verði hafnað og varnaraðila gert að greiða honum málskostnað.

 

Málsástæður og önnur atvik:

Í málinu deila aðilar un reikningsuppgjör vegna viðskipta sem að meginhluta til má rekja til þess að varnaraðili óskaði eftir tilboði frá sóknaraðila í gler í byggingu Barnaspítala Hringsins.

Um kröfulið I.

A. Almennt.

Hinn 3. mars 2000 gerði sóknaraðili varnaraðila tilboð í glerið. Tók varnaraðili tilboði sóknaraðila sem framleiddi og afhenti glerið á grundvelli tilboðsins á tímabilinu mars 2001 til nóvember 2002. Við tilboðsgerð sína notaðist sóknaraðili við uppsetningu tilboðsskrár fyrir barnaspítalann. Var tilboð sóknaraðila að fjárhæð kr. 10.924.505 að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. dskj. 4, 5 og 46. Miðaðist tilboðið við afhendingu glersins frá verksmiðju sóknaraðila í Hafnarfirði og að verðið sé með virðisaukaskatti. Þá kom fram í tilboði sóknaraðila að í einhverju tilvikum kynni að vera erfitt að uppfylla kröfur útboðsins og var m.a. vísað til liða GV10B og GV11B í þeim efnum. Aðra fyrirvara gerði stefnandi ekki. Ssóknaraðili gerði ekki tilboð í listskreytingu með sandblæstri.

Varnaraðili tók tilboði stefnanda um kaup á umræddu gleri á því verði sem boðið var en ekki var gerður skriflegur kaupsamningur milli aðila. Sóknaraðili sendi stefnda síðan reikninga án nokkurrar sundurliðunar eða fylgiskjala vegna seldra glerja í barnaspítalann. Varnaraðili kveðst hafa greitt reikninga frá stefnda eftir því sem þeir bárust enda um hluta af stærri innkaupum að ræða sem gera skyldi upp í heild sinni. Kvaðst varnaraðili hafa þó nokkrum sinnum gert athugasemdir við að reikningarnir væru ekki í samræmi við fjölda afhentra glerja. Þegar varnaraðia fannst fjárhæð reikninganna farin að nálgast ískyggilega tilboðsverð sóknaraðila óskaði hann eftir frekari skýringum í ljósi áðurgreinds tilboðsverðs. Hefur sóknaraðili borið því við að verðbætur og aksturskostnaður væri innifalinn í hverri reikningsfjárhæð án þess þó að reikningarnir bæru þess nokkur merki. Varnaraðili kveðst hafa mótmælt þessu.

Hefur sóknaraðili sundurliðað og skýrt kröfulið I sem krafist er frávísunar á með því að á dskj. nr. 9-25 sé að finna eftirgreinda ógreidda reikninga vegna Barnaspítala:

 

nr. reikn.:         dags.:                           fjárhæð:

dskj. nr. 9        224204 19.04.2002                      61.152,-         

dskj. nr. 10      226631 30.08.2002                      14.518,-         

dskj. nr. 11      226632 30.08.2002                      30.693,-         

dskj. nr. 12      226633 30.08.2002                      45.174,-         

dskj. nr. 13      226634 30.08.2002                        3.740,-         

dskj. nr. 14      226635 30.08.2002                      39.139,-         

dskj. nr. 15      226636 30.08.2002                        7.207,-         

dskj. nr. 16      226637 30.08.2002                      17.815,-         

dskj. nr. 17      226638 30.08.2002                      17.887,-         

dskj. nr. 18      226639 30.08.2002                      38.493,-         

dskj. nr. 19      226640 30.08.2002                      15.083,-         

dskj. nr. 20      226693 30.08.2002                1.835.342,-          

dskj. nr. 21      226694 30.08.2002                    779.720,-         

dskj. nr. 22      228136 14.11.2002                    699.749,-         

dskj. nr. 23      228137 14.11.2002                    117.958,-         

dskj. nr. 24      228331 27.11.2002                      75.426,-         

dskj. nr. 25      lokareikningur 30.06.2003     

                         v/Barnaspítala                                                  918.738,-          4.717.834,-

 

Gerir sóknaarðili við þetta þá athugasemd að reikningar báðir dags. 29. ágúst 2002 nr. 226640 að fjárhæð kr. 15.083,- og nr. 226694 að fjárhæð kr. 779.720,- hafi verið  greiddir hinn 22.12.2002 og sé  tekið tillit til þess við útreikning kröfunnar.

Segir sóknaraðili að allir reikningar frá honum v/Barnaspítala Hringsins séu með verðbótum, skv. útboðslýsingu nr. 12380, sem tilboð stefnanda grundvallast á. Í því sambandi vísast til dskj. nr. 44. Í  ákv. 0.5.6. sem kveður m.a. á um verðlagsgrundvöll segir m.a.:

 “Tilboð skal miðað við vísitölu byggingarkostnaðar sem tekur gildi 1. mars 2000.  Samningsbundnar greiðslur hækka eða lækka hlutfallslega með hækkun byggingarvísitölu Hagstofu Íslands, samtalstölu allra áfanga, liðir 1-10”.

Sóknaraðili hafi margítrekað það við stefnda að tilboðið væri miðað við vísitölu pr. 1. mars 2000 skv. framansögðu.

Á hinn bóginn hefur varnaraðilii alfarið hafnað kröfu sóknaraðila um verðbætur m.a. í bréfi til hans dags. 23. júní 2003, sbr. dskj. nr. 7,  með svofelldum rökum:

 “Engin ákvæði eru um verðtryggingu í tilboði Glerborgar dags. 3. mars 2000.  Kröfunni er alfarið hafnað”.

Sóknaraðili getur þess í þessu sambandi að stefndi hafi greitt hluta af útgefnum reikningum v/Barnaspítala, án athugasemda og án fyrirvara, hvað þetta varðar.

Í máli varnaraðila kemur fram að ekki verði ráðið af gögnum málsins hver heildarkrafa sóknaraðila vegna ofangreindra viðskipta sé eða hvernig innborgunum varnaraðila hafi verið háttað. Þá verður heldur ekki ráðið hvernig hækkun frá umsömdu kaupverði glersins er sundurliðuð, þ.e. í verðbætur sem sóknaraðili telur sig nú eiga rétt á, akstur, aukagler vegna endurframleiðslu, gler sem tilboð sóknaraðila tók ekki til, hækkanir vegna meintra breytinga á gleri því sem tilboð sóknaraðila tók til og eftir atvikum aðra liði. Valdi þetta að mati varnaraðila slíkum annmörkum við vörn málsins að ekki verður bætt úr. Sónaraðili virðist haga málatilbúnaði sínum öðrum þræði með þeim hætti að engin fyrri viðskipti hafi átt sér stað milli aðila vegna Barnaspítala Hringsins heldur sé um einföld reikningsviðskipti að ræða. Jafnframt virðist þó vera gerð krafa um meinta skuld varnaraðila samkvæmt viðskiptayfirliti. Þá megi ráða af málatilbúnaðinum að sóknaraðili líti að einhverju leyti svo á að um verksamning aðila hafi verið að ræða en ekki samning um lausafjárkaup.

 

Segir varnaraðili að af yfirliti á dskj. 8 megi ráða að viðskipti aðila að þessu leyti hafi staðið yfir frá því í mars 2001. Fyrrgreint yfirlit skýri þó engan veginn umrædd viðskipti. Engar skýringar séu á því hvernig svokölluð grunnupphæð er fundin út, þ.á m. hvort hún sé í einhverjum tengslum við sölutilboð sóknaraðila og af hverju hún sé þá önnur en í því tilboði. Þá liggur ekki fyrir af hverju svonefnd uppfærð upphæð er hærri en sem nemur andvirði reikninga eða hvers vegna sú fjárhæð er í fæstum tilvikum í samræmi við samanlagðar fjárhæðir í öðrum dálkum yfirlitsins. Ennfremur sé óútskýrt af hverju t.d. reikningsupphæð á dskj. 9 er færð án virðisaukaskatts meðan aðrir tilgreindir reikningar þar á eftir eru með virðisaukaskatti. Þá séu fjölmargir reikningar ranglega dagsettir í yfirlitinu. Varnaraðili bendir á að á yfirlitinu á dómskjali nr. 8 séu tilgreindar kr. 1.417.142 en ekki verði séð að gerður hafi verið reikningur fyrir þeirri fjárhæð. Loks sé ekki getið um reikning á dskj. 24 og heldur ekki um svokallaðan lokareikning sem stefnandi kveður vera á dskj. 25. Þar sé þó ekki um útgefinn reikning að ræða heldur útprentun úr viðskiptayfirliti stefnda en sóknaraðili hafi engin rök fært fyrir því hvernig sú útprentun hafi getað breyst í fullgildan reikning eða á annan hátt orðið grundvöllur að reikningskröfu á hendur varnaraðila. Lokareikningur sem tilgreindur sé á viðskiptayfirlitinu hafi því aldrei verið gefinn út. Auk þess sem fyrr greinir sé hvergi gerð grein fyrir tengslum milli krafna samkvæmt öðrum köflum stefnunnar sem varða byggingu Barnaspítala Hringsins við viðskipti aðila samkvæmt þessum kafla. Vísast þar einkum til VI. kafla, sérstaklega A-liðar sem beinlínis snýr að uppgjöri máls þessa. Telur varnaraðili að málið sé hvað þennan kafla stefnu varðar svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að ekki verði úr bætt við frekari meðferð þess fyrir dómi. Sé grundvöllur kröfugerðar sóknaraðila óljós og málatilbúnaður hans að þessu og öðru leyti, í augljósri andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað og ljósa og skýra kröfugerð, sbr. og einkum d-, e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991. Verði því ekki hjá því komist að vísa þessum kröfulið í stefnu frá dómi.

II.

             Samkvæmt framansögðu er ljóst að eftir orðalagi stefnu þá reisir sóknaraðili þennan hluta kröfu sinnar á ógreiddum reikningum. Kemur fram í stefnu að allir reikningarnir séu með verðbótum og að í þeim sé innifalinn kostnaður við akstur sem verðbætur eru reiknaðar á samkvæmt dómskjali nr. 8. Hefur sóknaraðili lagt fram dómskjal nr. 8 þar sem m.a er tíunduð svokölluð reikningsupphæð sem hann segir stemma við reikningsfjárhæð á dómskjölum 9 til 24 en grunnverð sem greint er á reikningunum er ekki sambærilegt við það sem fram kemur á dómskjali nr. 8 svo séð verði. Að mati dómara hefur þetta í för með sér að ekki verði greinilega séð tölulega í hverju dómkröfur sem á þessu byggja eru fólgnar. Því er ranglega haldið fram í greinargerð varnaraðila að reikningsfjárhæð á dómskjali nr. 9 sé færð án virðisaukaskatts. Sóknaraðili hefur sagt í stefnu að inni í reikningsfjárhæð séu liðir sem hann gerir ekki með sundurliðun nægilega vel grein fyrir. Sóknaraðili kallar dómskjal nr. 25 lokareikning útgefinn 30.06 2003 að fjárhæð 918.738 krónur, en eins og það skjal er fram lagt í dóminum er um að ræða útprentun úr viðskiptamannabókhaldi sóknaraðila. Á þessu yfirliti er nefndur lokareikningur vegna barnaspítala að fjárhæð  916.738 krónur frá 30.06 2003. Ekki er þessi reikningur nefndur í yfirliti á dómskjali nr. 8 en stefnandi hefur haldið því fram í málflutningi sýnum að á dómskjali nr. 8 sé nákvæm sundurliðun og gerð grein fyrir öllum reikningum sem byggja á tilboðinu á dómskjali nr. 4 sem ásamt dómskjali nr. 5 móta grundvöll málsins. Þá er þess að gæta að liðurinn aksturskostnaður sem er samkvæmt dómskjali nr. 8  528.000 krónur er ekki rökstuddur með öðru en því að varnaraðili hafi ekki hreyft athugasemdum við honum og beðið um aksturinn. Þá er einnig haft í huga að sóknaraðili, sem er efnissali en ekki verktaki, hefur sjálfur upplýst að hann hafi lokið afhendingu á umsömdu gleri í nóvember 2002 og því brýnt að gera grein fyrir því hvers vegna ekki er lagður fram greinargóður og sundurliðaður reikningur vegna lokauppgjörs en ekki byggt á hreyfingalista úr viðskiptamannabókhaldi frá því 7 til 8 mánuðum eftir að þeim viðskiptum lauk sem deilum valda Verður ekki séð annað en að sóknaraðila sé og hafi verið í lófa lagið haga málatilbúnaði sínum af æskilegri nákvæmni. Verður að fallast á það með varnaraðila að verulegum vandkvæðum sé bundið fyrir hann að taka til varna vegna þeirra vankanta sem lýst hefur verið. Verður ekki séð að úr þessum vanköntum verði bætt undir rekstri málsins. Því er það mat dómsins að málatilbúnaður sóknaraðila standi ekki undir því að fullnægja meginreglum einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið og e. liðar 80. gr. um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður fallist á kröfu varnaraðila um að vísa kröfulið I. í stefnu frá dómi.

Málskostnaður er ekki dæmdur að svo stöddu.

Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist nokkuð vegna mikilla anna dómarans.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

         Kröfulið I. samkvæmt stefnu er vísað frá dómi.

         Málskostnaður er ekki dæmdur að svo stöddu.