Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn


Miðvikudaginn 14

 

Miðvikudaginn 14. mars 2007.

Nr. 117/2007.

Gildi-lífeyrissjóður                              

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

gegn

Jóni Gunnari Þorkelssyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Kærumál. EFTA-dómstóllinn.

Fallist var á kröfu J um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á því hvort hinir íslensku lífeyrissjóðir falli undir almannatryggingar eins og hugtakið kemur fyrir í 28. og 29. gr. meginmáls EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að það geti skipt máli fyrir úrlausn málsins að fá skýringu EFTA-dómstólsins á hugtakinu almannatryggingar eða hvort reglur lífeyrissjóðsins G verði skoðaðar á grundvelli 28. gr. meginmáls EES samningsins. Var talið að ákvæði EES samningsins og reglugerðar ráðsins nr. 1408/71 frá 14. júní 1971, kynni að hafa áhrif á niðurstöðu málsins með beinum eða óbeinum hætti. Væri því nægt tilefni til þess að afla ráðgefandi álits EFTA dómstólsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007, þar sem ákveðið var að leita álits EFTA-dómstólsins um þrjú nánar tilgreind atriði varðandi mál varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007.

I.

Mál þetta var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Stefáni Geir Þórissyni hrl. fyrir hönd Jóns Gunnars Þorkelssonar, kt. 120455-5249, Østergade 27, 1. t.h. 8450 Hammel, Danmörku gegn Gildi lífeyrissjóði, kt. 561195-2779, Sætúni 1, Reykjavík, með stefnu sem birt var 23. febrúar 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 6.762.882 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 652 krónum frá 1. febrúar 1997 til 1. mars 1997, en af 1.306 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 1.961 krónu frá þeim degi til 1. maí 1997, en af 2.615 krónum frá þeim degi til 1. júní 1997, en af 3.274 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1997, en af 3.932 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1997, en af 394.857 krónum frá þeim degi til 1. september 1997, en af 452.658 krónum frá þeim degi til 1. október 1997, en af 508.617 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1997, en af 565.795 krónum frá þeim degi til 1 desember 1997, en af 623.164 krónum  frá þeim degi til 1. janúar 1998, en af 680.468 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1998, en af 737.679 krónum frá þeim degi til 1. mars 1998, en af 795.202 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en af 852.601 krónu frá þeim degi til 1. maí 1998, en af 910.220 krónum frá þeim degi til 1. júní 1998, en af 967.968 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1998, en af 1.005.863 krónum frá þeim degi til 1 ágúst 1998, en af 1.083.934 krónum frá þeim degi til 1 september 1998, en af 1.141.839 krónum frá þeim degi til 1. október 1998, en af 1.199.429 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1998, en af 1.257.082 krónum frá þeim degi til 1. desember 1998, en af 1.314.987 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1999, en af 1.373.050 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1999, en af 1.430.985 krónum frá þeim degi til 1. mars 1999, en af 1.489.269 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1999, en af 1.547.458 krónum frá þeim degi til 1. maí 1999, en af 1.605.929 krónum frá þeim degi til 1. júní 1999, en af 1.664.716 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1999, en af 1.723.786 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1999, en af 1.1.783.290 krónum frá þeim degi til 1. september 1999, en af 1.843.014 krónum frá þeim degi til 1. október 1999, en frá 1.902.957 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1999, en af 1.942.248 krónum frá þeim degi til 1. desember 1999, en af 1.981.850 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2000, en af 2.021.452 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2000, en af  2.061.170 krónum frá þeim degi til 1. mars 2000, en af 2.101.195 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2000, en af 2.141.095 krónum frá þeim degi til 1. maí 2000, en af 2.181.303 krónum frá þeim degi til 1. júní 2000, en af 2.221.755 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2000, en af 2.262.373 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2000, en af 2.303.136 krónum frá þeim degi til 1. september 2000, en af 2.344.103 krónum frá þeim degi til 1. október 2000, en af 2.384.866 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, en af 2.425.708 krónum frá þeim degi til 1. desember 2000, en af 2.466.961 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2001, en af 2.508.335 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2001, en af 2.549.709 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001, en af 2.702.220 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2001, en af 2.766.093 krónum frá þeim degi til 1. maí 2001, en af 2.830.344 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en þá með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 2.895.383 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en af  2.961.335 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2001, en af 3.028.292 krónum frá þeim degi til 1. september 2001, en af 3.095.971 krónum frá þeim degi til 1. október 2001, en af 3.164.094 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2001, en af 3.232.657 krónum frá þeim degi til 1. desember 2001, en af 3.301.469 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, en af 3.370.597 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2002, en af 3.440.356 krónum frá þeim degi til 1. mars 2002, en af 3.509.928 krónum frá þeim degi til 1 apríl 2002, en af 3.579.782 krónum frá þeim degi til 1. maí 2002, en af 3.649.665 krónum frá þeim degi til 1. júní 2002, en af 3.719.519 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2002, en af 3.789.688 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2002, en af 3.859.920 krónum frá þeim degi til 1. september 2002, en af 3.929.774 krónum frá þeim degi til 1. október 2002, en af  3.999.973 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2002, en af 4.070.549 krónum frá þeim degi til 1. desember 2002, en af 4.140.999 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, en af 4.211.513 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2003, en af 4.282.276 krónum frá þeim degi til 1. mars 2003, en af 4.352.911 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2003, en af 4.424.296 krónum frá þeim degi til 1. maí 2003, en af 4.495.767 krónum frá þeim degi til 1. júní 2003, en af 4.567.112 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2003, en af 4.638.521 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, en af 4.709.836 krónum frá þeim degi til 1. september 2003, en af 4.781.106 krónum frá þeim degi til 1. október 2003, en af  4.852.882 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2003, en af 4.925.002 krónum frá þeim degi til 1. desember 2003, en af 4.993.352 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004, en af 5.061.913 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2004, en af 5.130.474 krónum frá þeim degi til 1. mars 2004, en af 5.199.065 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2004, en af 5.267.445 krónum frá þeim degi til 1. maí 2004, en af 5.336.338 krónum frá þeim degi til 1. júní 2004, en af 5.405.493 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2004, en af 5.475.231 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2004, en af 5.542.534 krónum frá þeim degi til 1. september 2004, en af 5.612.466 krónum frá þeim degi til 1. október 2004, en af 5.682.398 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2005, en af 5.752.626 krónum frá þeim degi til 1. desember 2004, en af 5.823.393 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2005, en af 5.894.310 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2005, en af 5.965.552 krónum frá þeim degi til 1. mars 2005, en af 6.036.853 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2005, en af 6.108.306 krónum frá þeim degi til 1. maí 2005, en af 6.180.293 krónum frá þeim degi til 1. júní 2005, en af 6.252.431 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2005, en af 6.324.179 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2005, en af 6.396.434 krónum frá þeim degi til 1. september 2005, en af 6.468.778 krónum frá þeim degi til 1. október 2005, en af 6.541.271 krónu frá þeim degi til 1. nóvember 2005, en af 6.614.867 krónum frá þeim degi til 1. desember 2005, en af 6.690.026 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2006, en af 6.762.882 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Við fyrirtöku málsins í þinghaldi þann 11. september 2006 lagði lögmaður stefnanda fram kröfu um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins með heimild í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Aðilum var gefinn kostur á að færa fram munnlegar athugasemdir sínar í þinghaldi 17. október sl., en að því loknu var krafa stefnanda tekin til úrskurðar.  Málið var síðan endurupptekið, þar sem dómari skoraði á lögmann stefnanda að leggja fram upplýsingum um útreikning og greiðslu bóta til handa stefnanda í Danmörku og hvort þar hefði verið tekið tillit til iðgjaldagreiðslu stefnanda í íslenska lífeyrissjóði.  Málinu var síðan frestað að ósk lögmanns stefnanda og með samþykki lögmanns stefnda til að afla þessara gagna til 12. janúar sl., er málið var flutt að nýju um fram komna kröfu stefnanda og tekið til úrskurðar þann dag. 

II

Helstu málavextir eru þeir að stefnandi máls þessa fluttist í september 1995 til Danmerkur eftir að hafa starfað við sjómennsku hér á landi um árabil.  Hélt stefnandi sjómennskunni þar áfram og greiddi í danska lífeyrissjóðinn HTS Pension.  Hinn 16. september 1996 slasaðist stefnandi við vinnu um borð í dönsku fiskiskipi.

Stefnandi hafði áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna úr nokkrum íslenskum lífeyrissjóðum er hann varð fyrir slysinu.  Greidd höfðu verið iðgjöld af launum stefnanda til Lífeyrissjóðs Vestfirðinga á árabilinu 1975 til 1987, Lífeyrissjóðs Austurlands árin 1991 til 1995, síðast fyrir ágúst 1995 og til stefnda í málinu, Lífeyrissjóðs sjómanna, nú Gildi lífeyrissjóðs, á árabilinu 1969 til 1995, síðast fyrir september 1995.

Hinn 15. ágúst 1997 var örorka stefnanda endurmetin 100 % til sjómannsstarfa og erfiðra starfa en 65 % til almennra starfa tímabilið frá 1. september 1997 til 30. september 1999.  Hefur stefnandi nú verið metinn 75% öryrki.  Kveðst stefnandi hafa áunnið sér nánast engin réttindi fyrir slysið í hinum danska lífeyrissjóði og fengið greiddar 99.635,12 danskar krónur í eingreiðslu vegna slyssins þann 17. október 2001.

Stefnandi hefur notið örorkulífeyris hjá áðurgreindum lífeyrissjóðum í samræmi við stigaeign sína og mat á orkutapi allt frá 1. október 1996.  Stefndi telur hins vegar að stefnandi eigi ekki rétt á, að örorkulífeyrir hans sé jafnframt ákvarðaður út frá framreiknuðum stigafjölda, það er stigafjöldi sem hann hefði getað áunnið sér frá slysdegi til 67 ára aldurs, þar sem hann hafi ekki uppfyllt það skilyrði í samþykktum stefnda að hafa greitt iðgjöld til hans í a.m.k. 6 mánuði undanfarandi 12 mánuði fyrir slysdag.

Snýst ágreiningur aðila eingöngu um rétt til framreiknings.

Stefnandi hafði áður höfðað mál á hendur stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands og Lífeyrissjóði Vestfjarða og gert þær dómkröfur að viðurkennt yrði með dómi að við útreikning örorkubóta, sem hann átti rétt á frá stefndu, skyldi hann njóta framreiknings áunninna stiga skv. 75. gr. sbr. 79. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs Austurlands, 11. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs sjómanna og grein 12.3. a, b, 12.4.1. og 12.4.2. samþykkta Lífeyrissjóðs Vestfjarða og að bótaréttur hans í viðkomandi sjóðum skyldi ekki skerðast vegna flutnings til Danmerkur 1995.  Jafnframt krafðist hann þess að viðurkennt yrði að stefndu hefðu vanefnt skyldu sína gagnvart stefnanda til greiðslu á örorkubótum frá 29. september 1996.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 30. apríl 2002 voru allir stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.  Stefnandi áfrýjaði dóminum að því er varðaði Lífeyrissjóð sjómanna.  Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. febrúar 2003 var málinu vísað frá héraði á grundvelli þess að stefna málsins var ekki talin fullnægja e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi höfðaði á ný mál á hendur Lífeyrissjóðs Austurlands með stefnu birtri 25. ágúst 2004 og krafðist greiðslu úr hendi stefnda.  Var því máli vísað frá héraðsdómi ex officio með úrskurði hinn 27. október 2005 að loknum munnlegum málflutningi um frávísun málsins.  Áður en til uppkvaðningar frávísunarúrskurðarins kom hafði málið verið tekið til úrskurðar um kröfu stefnanda þess efnis, að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með heimild í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

III

Stefnandi vísar til þess í stefnu að Jón Erlingur Þorláksson tryggingastærðfræðingur hafi verið fenginn til að framreikna rétt stefnanda til örorkulífeyris úr lífeyrissjóðunum miðað við að réttindi til framreiknings hefðu ekki rýrnað vegna flutnings hans til Danmerkur heldur staðið óbreytt þangað til hann varð fyrir slysinu 16. september 1996.  Byggist framreikningurinn á samþykktum sjóðanna og samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða.  Niðurstaðan úr þessum útreikningum sé sú að lífeyrir stefnanda tímabilið janúar 1997 til janúar 2006 hækki um 74.094 krónur hjá fyrrum Lífeyrissjóði sjómanna og um 6.688.788 krónur hjá Lífeyrissjóði Austurlands við framreikning.  Um nánari sundurliðun þeirra fjárhæða vísist til útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings.

Samkvæmt grein 4.5 í samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða frá 14. desember 1983 skal, ef um sjálfstæðan framreikningsrétt er að ræða, einungis sá sjóður framreikna réttindi.  Samkvæmt grein 4.3. í samkomulaginu nefnist það sjálfstæður framreikningsréttur hjá ákveðnum sjóði ef iðgjöld til hans veita rétt til framreiknings hjá honum.  Sú regla gildi í samskiptum lífeyrissjóða hér á landi að hafi launþegi greitt iðgjöld til fleiri en eins sjóðs, eigi sá sjóður sem hann greiddi síðast til að sjá um framreikninginn og greiðslu samkvæmt honum, en Lífeyrissjóður sjómanna var sá sjóður sem stefnandi greiddi síðast iðgjöld til áður en hann flutti til Danmerkur.  Byggi reglan m.a. á grein 4.2. í fyrrgreindu samkomulagi.  Þar sem Lífeyrissjóður sjómanna hafi sameinast öðrum lífeyrissjóðum frá og með 1. júní 2005 undir heitinu Gildi lífeyrissjóður, sé þeim sjóði stefnt, en stefndi hafi tekið við öllum réttindum og skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna frá og með þeim degi.

Meginmál samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafi haft lagagildi hér á landi frá 1. janúar 1994, sbr. lög nr. 2/1993.  Er stefnandi slasaðist höfðu því ákvæði III. kafla samningsins lagagildi, en sá hluti samningsins fjalli m.a. um frjálsa fólksflutninga innan efnahagssvæðisins, en Danmörk, sem var búsetuland stefnanda á slysdeginum, sé sem kunnugt er hluti af efnahagssvæðinu.  Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að hann eigi rétt til örorkulífeyris út á framreiknuð stig hjá stefnda á þeim grundvelli að reglur sjóðsins um framreikninginn sem og ákvæði samkomulagsins um samskipti lífeyrissjóðanna hafi farið á svig við EES reglur, einkum 28. sbr. 29. gr. EES samningsins og gerðir sem vísað sé til í VI. viðauka við EES samninginn, einkum þá sem vísað sé til í 1. tl. viðaukans, þ.e. reglugerðar ráðsins nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra, sem flytjast á milli aðildarríkja.  Hafi gerðin verið aðlöguð íslenskum rétti með reglugerð nr. 587/2000, og birt var í Stjórnartíðindum 18. ágúst 2000. Byggir stefnandi á því að íslenska lífeyrissjóðakerfið falli undir hugtakið almannatryggingar eins og það hugtak beri að skilja samkvæmt meginmáli EES samningsins, einkum 29. gr. og þeim afleiddu reglum sem reistar séu á meginmáli samningsins.  Örorkubætur þær sem stefnandi eigi rétt til hjá stefnda séu almannatryggingabætur í skilningi 29. gr. EES samningsins og við ákvörðun á bótunum beri því að virða reglur EES samningsins í hvívetna.  Í 29. gr. samningsins segi að „(t)il að veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga skulu samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim sem þeir framfæra að: a) lögð verði saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta; b) bætur séu greiddar fólki sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila.”.  

Stefndi hafi borið fyrir sig ákvæði samþykkta sinna til synjunar framreiknings örorkulífeyris til stefnanda.  Nánar tiltekið hafi stefndi haldið því fram að stefnandi eigi ekki rétt til framreikningsins vegna þess að stefnandi hafi ekki greitt iðgjöld til stefnda í að minnsta kosti 6 af síðustu 12 mánuðum fyrir slysdag.  Ástæða þess að stefnandi greiddi ekki iðgjöld til stefnda sé að sjálfsögðu sú að á síðustu 12 mánuði fyrir slysdag starfaði stefnandi í Danmörku og greiddi iðgjald til lífeyrissjóðs þar.  Þetta skilyrði stefnda fari í bága við EES samninginn og þær reglur sem á honum séu reistar, þannig að það beri að virða að vettugi, sbr. m.a. 3. gr. laga nr. 2/1993, sem segi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggja.  Að þeirri forsendu gefinni að greiðslur stefnda á örorkulífeyri til stefnanda falli undir almannatryggingahugtak EES samningsins, sé ótvírætt að  Reglugerð ráðsins nr. 1408/71 kveði skýrt og greinilega á um það í 10. gr. að  (h)afi réttur til peningagreiðslna vegna örorku-, elli- eða eftirlifendabóta eða til lífeyris vegna vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma og styrkja vegna andláts verið áunnin samkvæmt löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja, skulu þessar greiðslur ekki lækka, breytast, stöðvast tímabundið, falla niður eða vera gerðar upptækar af þeirri ástæðu að viðtakandi hafi búsetu í öðru aðildarríki en því þar sem stofnun sú sem ber ábyrgð á greiðslum er staðsett, nema kveðið sé á um annað í þessari reglugerð“.  1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar sé þannig reist á því sjónarmiði að tryggja eigi að aðili sem unnið hafi réttindi sem kveðið sé á um í ákvæðinu, njóti þeirra jafnvel þó hann hafi flutt búsetu til annars aðildarríkis.  Um sé að ræða grundvallaratriði í reglugerðinni um svokallaðan útflutning réttinda, sem feli það í sér að réttindi sem hafi verið aflað við flutning til annars aðildarríkis, haldi sér.  Í slíkum tilvikum verði að greiða bætur samkvæmt lífeyrisrétti sem aflað hafi verið á löngum tíma frá upprunaaðildarríkinu, þ.e. ríkinu þar sem réttindanna var aflað, óháð því hvar á efnahagssvæðinu einstaklingurinn sem um ræði búi. Megi um þau sjónarmið sem að þessu lúti m.a. vísa til dóma Evrópudómstólsins í máli nr. 51/73 Sociale Verzekeringsbank gegn Smieja (1973) ECR 1213, máli nr. 92/81 Carraciolo (1982) ECR 2213 og máli nr. 139/82 Piscitello (1983) ECR 1427. Skilyrði fyrir því að njóta réttar til framreiknings lífeyrisréttinda af því tagi sem stefnandi haldi fram að hann eigi, sem kveði á um greiðslu iðgjalda í 6 af síðustu 12 mánuðum fyrir slys, séu þess eðlis að þau séu hindrun á frjálsri för launþega til annarra aðildarríkja EES og brjóti því í bága við ofangreindar reglur.  Slík skilyrði, hvort heldur þau sé að finna í lögum, stjórnsýslufyrirmælum eða reglum og samþykktum sem lífeyrissjóðir setji sér sjálfir, geti því ekki talist gild þegar reikna eigi út lífeyrisréttindi stefnanda hjá stefnda; þau beri að virða að vettugi þannig að taka beri dómkröfur stefnanda til greina.  Samkvæmt 16. gr. laga nr. 46/1993 um heimild til þess að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar skuli, við ákvörðun bótaréttar vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og við útreikning þessara bóta, beita ákvæðum reglugerðar nr. 1408/71.

Öllu framangreindu til stuðnings sé kveðið á um eftirfarandi í O lið VI. viðauka við EES samninginn: „Hafi launaðri vinnu eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi verið lokið á Íslandi, og tilvikið verður þegar launuð vinna eða sjálfstæð atvinnustarfsemi er stunduð í öðru ríki sem reglugerðin tekur til og þar með sem örorkulífeyrir, bæði samkvæmt almannatryggingakerfinu og viðbótarlífeyriskerfinu (lífeyrissjóðir), á Íslandi felur ekki lengur í sér tímabilið frá því að tilvik kemur fram og fram að því að lífeyrisaldri er náð (tímabil sem ekki er liðið), skal tekið tillit til tryggingatímabila sem falla undir löggjöf annars ríkis sem reglugerðin tekur til að því er varðar kröfuna um tímabil sem ekki er liðið eins og um væri að ræða tryggingatímabil á Íslandi“.  Taki þessi texti af öll tvímæli um rétt stefnanda gagnvart stefnda.

Stefnandi haldi því aðallega fram að ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 1408/71 um útflytjanleika eigi við í hans tilviki.  Til vara haldi stefnandi því hins vegar fram að ákvæði 38. gr. reglugerðar nr. 1408/71 eigi við um réttarstöðuna, en þar sé fjallað um grundvallaratriðið um samsöfnun (aggregation), sem tryggi það, að aðildarríki taki með í reikninginn tryggingatímabil sem fullnægt sé í öðrum aðildarríkjum, þegar það sé skilyrði fyrir bótum að fullnægt sé ákveðnu tímabili í vinnu, búsetu um ákveðinn tíma eða tímabili greiðslu iðgjalda.  Stefnandi haldi því þannig fram til vara að taka verði dómkröfur hans til greina á grundvelli 38. gr. reglugerðar nr. 1408/71, þar sem hann hafi greitt í danskan lífeyrissjóð í a.m.k. 6 af síðustu 12 mánuðum fyrir slysið. 

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða skuli örorkulífeyrir framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar sé kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili, og ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.  Lögin hafi tekið gildi 1. júlí 1998 og þeim verði ekki beitt afturvirkt um framreikningsrétt stefnanda, sem stofnaðist fyrir gildistöku laganna.  Lögin hafi því enga þýðingu varðandi það álitaefni sem til úrlausnar sé í máli þessu, en samþykktir lífeyrissjóðs stefnda hafi hins vegar haft að geyma samhljóða ákvæði um skilyrði til framreiknings.

1. mgr. 4. gr. reglugerðar 1408/71 hafi að geyma upptalingu á þeim tryggingaflokkum almannatrygginga sem falli undir reglugerðina.  Segi þar m.a. að reglugerðin nái til löggjafar um nokkra flokka almannatryggingabóta; b) örorkubóta að meðtöldum bótum sem ætlaðar séu til að viðhalda eða auka tekjumöguleika og e) bóta vegna vinnuslysa.  Reglugerðin eigi við hvort heldur réttindin leiði af almennum eða sérstökum bótakerfum og hvort heldur bótaþeginn inni af hendi iðgjald eða ekki til að afla réttindanna.  Evrópudómstóllinn hafi túlkað þá tryggingaflokka almannatrygginga sem falli undir gildissvið reglugerðarinnar rúmt.  Í þeim efnum skipti ekki máli hvort bótakerfi séu skilgreind sem almannatryggingar samkvæmt innanlandslöggjöf hvers aðildarríkis eða ekki.  Það sem talið hafi verið ráða úrslitum við mat á því hvort um sé að ræða almannatryggingar í skilningi reglugerðar 1408/71, sé hvort reglurnar hafi að geyma ákvæði sem færi bótaþegunum tiltekna lagalega skilgreinda stöðu sem feli ekki í sér neinskonar einstaklingsbundið eða valkvætt mat á þörfum eða persónulegum kringumstæðum bótaþegans, sbr. t.d. dóm dómstólsins í máli nr. 79/76 Fossi gegn Bundesknappschaft (1977) ECR 667 mgr. 6.  Félagsleg aðstoð í aðildarríkjunum falli á hinn bóginn yfirleitt ekki undir almannatryggingahugtakið, enda feli löggjöf á því sviði að jafnaði í sér einstaklingsbundin matskennd skilyrði fyrir bótarétti. Ótvírætt sé, að íslenska lífeyrissjóðakerfið falli undir almannatryggingahugtak EES samningsins, þ.á m. reglugerð 1408/71, enda sé í lögum hér á landi kveðið á um skyldu alls vinnandi fólks, hvort heldur sé launþega eða sjálfstætt starfandi, til að inna af hendi iðgjöld til einhvers lífeyrissjóðs.

Stefnanda hafi undir engum kringumstæðum verið kleift að halda áfram greiðslum til íslenskra lífeyrissjóða, þar sem sú regla gildi að starfsmenn verði að starfa hér á landi og vera félagsmenn í íslenskum verkalýðsfélögum til að geta greitt til íslenskra lífeyrissjóða.

Kröfugerð stefnanda sé reist á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings, dags. 24. mars 2004, 22. júlí 2004 og 25. janúar 2006.  Byggist útreikningarnir á áunnum stigum í öllum lífeyrissjóðum sem stefnandi hafi greitt iðgjöld til í gegnum tíðina.  Hafði hann fyrir búferlaflutninginn til Danmerkur greitt til 6 lífeyrissjóða, en síðast til Lífeyrissjóðs sjómanna er hann starfaði hér á landi, þ.e. til ágúst 1995.  Í útreikningi Jóns Erlings komi fram að hann hafi fengið greiddan örorkulífeyri frá hinum þremur lífeyrissjóðum út á áunnin stig og sé greiddur lífeyrir tilgreindur í útreikningunum frá mánuði til mánaðar.  Út frá þeim reglum sem giltu um framreikning tveggja sjóða, þ.e. Lífeyrissjóðs sjómanna (nú stefnda) og Lífeyrissjóðs Austurlands, reikni Jón síðan út þær fjárhæðir sem stefnandi hefði átt rétt á hjá þessum tveimur sjóðum samkvæmt öllum öðrum gildandi reglum en skilyrðinu um greiðslu iðgjalda til sjóðanna síðustu 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum fyrir slys.  Á þeim grundvelli sé niðurstaða hans sú að lífeyrir stefnanda fyrir tímabilið janúar 1997 til janúar 2006 hækki samtals um 6.762.882 krónur við framreikning, en það sé einmitt stefnufjárhæð málsins.

Stefnandi geri kröfu um greiðslu dráttarvaxta af stefnufjárhæð samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem og EES samningsins, einkum 28. og 29. gr., þ.á m. gerðar þeirrar sem sé að finna í 1. tl. VI. viðauka við EES samninginn, þ.e reglugerðar nr. 1408/71.  Þá vísar stefnandi til Norðurlandasamnings um almanntryggingar og laga nr. 46/1993 um heimild til þess að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

IV

Stefndi bendir á að þegar stefnandi slasaðist hafi verið í gildi lög nr. 94/1994 um lífeyrissjóð sjómanna. Með stoð í lögunum hafi verið sett reglugerð sem staðfest hafi verið af fjármálaráðherra og gilti frá 1. september 1994.  Þegar lesin séu saman ákvæði 11.1 og 11.5 í reglugerðinni megi sjá að til að eiga rétt til framreiknings þurfi sjóðfélagi í fyrsta lagi að hafa greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 1 stig hvert þessara ára.  Annað skilyrðið var að greidd hefðu verið iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 6 mánuði og að lágmarki 100 daga á undanfarandi 12 mánuðum.  Loks hafi verið áskilið að sjóðfélagi hefði orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins og skyldi samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir aldrei verða hærri en sem næmi þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hafði sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar.

Þetta séu þær reglur sem í gildi hafi verið á þeim tíma þegar stefnandi slasaðist og stefndi starfaði eftir.  Með lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem tóku gildi 1. júlí 1998, hafi síðan verið bundnar í lög almennar reglur um lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum.  Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þeirra laga skuli örorkulífeyrir framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar sé kveðið á um í samþykktum lífeyrissjóða, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. í sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili.  Þarna hafi því verið lögfest sömu skilyrðin og hafði fram til þess tíma eingöngu verið að finna í reglugerð stefnda, og reyndar reglugerðum og samþykktum fjölmargra annarra lífeyrissjóða.  Skilyrðin hafi síðan einnig verið tekin inn í lög um stefnda nr. 45/1999 og voru nánast samhljóða reglugerðinni frá 1994.  Sambærileg skilyrði sé að finna í núgildandi samþykktum stefnda frá 1. júní 2005, sbr. 12. gr. samþykktanna. 

Óumdeilt sé að stefnandi uppfylli ekki skilyrði til framreiknings samkvæmt framansögðu.  Fyrir liggi að stefnandi hafði hvorki greitt iðgjöld til stefnda í 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum né í 3 ár af síðustu 4 árum þegar hann varð fyrir slysinu í september 1996.  Þá telji stefndi einnig óljóst hvort skilyrði um tekjuskerðingu hafi verið uppfyllt.  Kröfur stefnanda séu hins vegar á því reistar að líta beri til annarra heimilda sem rétt sé að huga nánar að.

Stefnandi hafi máli sínu til stuðnings vísað til reglna í 29. gr. EES-samningsins og VI. viðauka við EES-samninginn.  Nánar tiltekið sé einkum um að ræða ákvæði reglugerðar nr. 1408 frá árinu 1971.  Ákvæði reglugerðar nr. 1408 hafi verið aðlöguð með þeim hætti sem nánar greini í VI. viðauka við EES-samninginn.  Í þeirri aðlögun hafi verið sett inn ákvæði fyrir Ísland sem stefnandi vísi til sem O-liðar og sé viðbót við VI. viðauka reglugerðarinnar frá 1971.

EES-samningurinn sé þjóðréttarsamningur sem feli ekki í sér framsal á lagasetningarvaldi til stofnana EES.  Meginefni samningsins hafi verið lögfest með lögum nr. 2/1993 og það sama gildi um bókun I um altæka aðlögun og nánar tiltekin ákvæði í 8. og 12. viðauka samningsins.  Aðrar bókanir og viðaukar og gerðir sem þar sé vísað til hafi ekki lagagildi hér á landi nema efnisreglur þeirra hafi verið lögfestar sérstaklega.  Samkvæmt 7. gr. samningsins þurfi að taka gerðir þær sem vísað sé til í viðaukum við EES-samninginn sérstaklega upp í landsrétt með þeim hætti sem þar sé tilgreindur.  Af þessu leiði að reglugerðin frá 1971 hafi ekki orðið hluti landsréttar við setningu laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. 

Með auglýsingu nr. 550 frá árinu 1993 hafi verið tiltekið að reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 skyldi gilda á Íslandi með þeirri aðlögun sem fram kom í viðauka VI við EES-samninginn og bókun I við samninginn.  Breytingar á reglugerðinni hafi síðan verið auglýstar á árunum 1994 og 1997.  Þessar auglýsingar hafi allar verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda án þess að efni reglugerðanna sjálfra væri birt þar.  Það hafi fyrst verið með reglugerð nr. 587/2000 sem reglugerðin, ásamt síðari breytingum, virðist hafa verið birt í heild sinni.  Það liggi með öðrum orðum fyrir að gildistaka umræddrar reglugerðar hafði á þeim tíma sem hér skiptir máli eingöngu verið tilkynnt með auglýsingu í B-deild og það án þess að texti reglugerðarinnar sjálfrar væri birtur þar.

Stefndi telur reglugerð (EBE) 1408/71 ekki hafa verið birta með fullnægjandi hætti þegar atvik þessa máls áttu sér stað.  Af því leiði að á henni verði ekki byggt af hálfu stefnanda gagnvart stefnda. Það sama gildi um tilvitnaðar aðlaganir á reglugerðinni í VI. viðauka EES-samningsins.  Í samræmi við meginreglu 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og ákvæði þágildandi laga nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserindi hafi borið að birta samfelldan texta reglugerðarinnar í A eða B-deild Stjórnartíðinda.  Þar sem slík birting hefði ekki farið fram á þeim tíma sem hér skipti máli, þ.e. fram að því slysi sem stefnandi varð fyrir, verði ákvæðum reglugerðarinnar ekki beitt gagnvart stefnda.  Fyrir liggi að ákvæðum laga nr. 64/1943 hafi verið breytt með lögum nr. 63/2001 og lögfest að birting EES-gerða í EES-viðbæti við EB stjórnartíðindi teldist fullgild birting.  Sú breyting sé frekari staðfesting á því að fyrri framkvæmd hafi verið með öllu ófullnægjandi og ljóst að sá annmarki verði ekki með þessu leiðréttur afturvirkt.

Stefndi telur ljóst að kröfur stefnanda verði ekki reistar á ákvæði 29. gr. einni og sér eða öðrum ákvæðum í meginmáli EES-samningsins enda hafi stefnandi í málatilbúnaði sínum fyrst og fremst byggt á ákvæðum umræddrar reglugerðar (EBE) 1408/71.  Af því sem að framan sé rakið um birtingu þeirrar reglugerðar telur stefndi að þegar af þessari ástæðu beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.

Yrði talið, gegn væntingum stefnda, að margnefndri reglugerð ráðsins yrði beitt í málinu, eða ákvæði EES-samningsins komi að öðru leyti til skoðunar, er á því byggt af hálfu stefnda að hvorki tilvitnuðum ákvæðum EES-samningsins né reglugerðinni sé ætlað að taka til starfsemi almennra lífeyrissjóða í aðildarlöndunum með þeim hætti sem stefnandi krefjist.  Þá sé ástæða til að taka fram að ákvæðum 29. gr. EES-samningsins og þeirra gerða sem sé að finna í VI. viðauka og byggt sé á í þessu máli sé ekki ætlað að samræma þær reglur sem gildi um réttindi í lífeyrissjóðum aðildarríkjanna.  Það sé reyndar beinlínis tekið fram í inngangsorðum reglugerðar (EBE) 1408/71 að nauðsynlegt sé að virða séreinkenni almannatryggingalöggjafar einstakra aðildarríkja.  Aðildarríkjunum sé frjálst að setja reglur af því tagi sem nú sé að finna í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og í eldri lögum um stefnda. 

Almennir íslenskir lífeyrissjóðir séu stofnaðir á grundvelli frjálsra samninga samtaka launafólks og atvinnurekenda.  Að mati stefnda taki reglur um evrópska efnahagssvæðið til opinberra reglna en ekki frjálsra samninga samtaka vinnumarkaðarins.  Ákvæði 28. - 30. gr. EES-samningsins lúti að frelsi launafólks til flutninga innan svæðisins og réttindum umræddra einstaklinga á sviði almannatrygginga.  Lífeyrissjóðir og lífeyrisgreiðslur falli utan gildissviðs þessara reglna.

Jafnvel þótt litið yrði svo á að íslensku lífeyrissjóðirnir féllu undir hugtakið almannatryggingar, en því sé alfarið mótmælt af stefnda, þá sé því mótmælt að kröfur stefnda eigi nokkra stoð í 10. eða 38. gr. reglugerðar (EBE) 1408/71.  Af ákvæðum umræddrar 10. gr. leiði ekki annað en að áunnin réttindi skuli ekki falla niður, breytast eða vera gerð upptæk við flutning milli aðildarlanda.  Fyrir liggi að stefnandi hafi notið örorkubótagreiðslna frá stefnda og fleiri íslenskum lífeyrissjóðum frá upphafi árs 1997.  Þau réttindi hafi í engu skerst vegna búsetu hans í Danmörku.  Af ákvæðum 10. gr. reglugerðarinnar verði ekki ráðið að greiðslur í danskan lífeyrissjóð eigi að tryggja stefnanda hin auknu og sérstöku réttindi sem fólgin séu í framreikningsreglum íslenskra lífeyrissjóða.  Stefndi fái að sama skapi ekki séð að 38.gr. reglugerðarinnar eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu.

Í þessu sambandi sé enn fremur afar mikilvægt að hafa í huga að krafa stefnanda sé reist á samkomulagi sem flestir hérlendir lífeyrissjóðir hafi gert sín á milli.  Með samkomulaginu sé félögum í þeim lífeyrissjóðum sem aðilar séu að samkomulaginu veitt aukin réttindi sem einkum séu fólgin í því að litið sé til iðgjaldagreiðslna í alla aðildarsjóðina við mat á réttindum sem háð séu tilteknum réttindatíma eða áunnum stigafjölda.  Ef litið sé til ákvæða samkomulagsins um framreikning þá megi t.d. sjá af ákvæði 4.2. að ef iðgjöld hafa verið greidd til fleiri en eins sjóðs sem framreikni réttindi að tilteknum skilyrðum uppfylltum beri að líta á greiðslurnar eins og þær hefðu allar verið inntar af hendi til eins sjóðs.  Af þessu ákvæði leiði að einstaklingar sem kunni að vera í þeirri stöðu að geta ekki sótt sjálfstæðan framreikningsrétt í einn tiltekinn sjóð geti eftir atvikum eftir sem áður átt slíkan rétt á grundvelli þessa samkomulags. 

Engin lagaleg skylda hvíli á lífeyrissjóðum til þess að hafa í gildi slíkt samkomulag.  Samkomulag af þessu tagi falli að mati stefnda ekki undir skilgreiningu í j-lið 1. gr. reglugerðar (EBE) 1408/71 á hugtakinu löggjöf.  Þetta sé frjáls samningur sem umræddir lífeyrissjóðir hafi kosið að gera sín á milli og skipti þeir með sér þeirri auknu áhættu og byrði sem af samkomulaginu hlýst.  Það fái, að mati stefnda, ekki á nokkurn hátt staðist að ákvæði EES-samningsins geti haft áhrif til útvíkkunar gildissviðs þessa samkomulags með þeim hætti sem stefnandi hafi krafist.  Engir erlendir lífeyrissjóðir séu aðilar þessa samkomulags.  Stefndi eða aðrir aðildarsjóðir eigi enga kröfu til þess að erlendir sjóðir taki á sig skuldbindingar á grundvelli þessa samkomulags.  Með sama hætti geti iðgjaldagreiðslur til erlendra sjóða ekki leitt til aukinnar greiðslubyrði íslensku lífeyrissjóðanna á grundvelli þessa samkomulags.

Í stefnu sé að finna tilvísanir til nokkurra dóma Evrópudómstólsins sem stefnandi telji styðja túlkun hans á tilvitnuðum ákvæðum EES-samningsins og reglugerð 1408/71.  Stefndi telur umrædda dóma í engu styrkja málstað stefnanda.

Ef til álita kæmi á annað borð að beita ákvæðum reglugerðar (EBE) 1408/71 telur stefndi að stefnandi ætti að leita réttar síns í Danmörku þar sem hann hafi verið búsettur og notið réttinda bæði í almannatryggingakerfi og lífeyrissjóði þegar hann slasaðist.  Af ákvæðum reglugerðarinnar verði ráðið að sú meginregla gildi að einstaklingar skuli einungis falla undir almannatryggingakerfi í einu ríki og þá því ríki þar sem viðkomandi sé launþegi eða starfi, sbr. m.a. inngangsorð og ákvæði II. bálks reglugerðarinnar.             

Í þessu sambandi þurfi enn fremur að líta til reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 sem kveði á um framkvæmd reglugerðar 1408/71.  Í þessari svokallaðri framkvæmda-reglugerð sé kveðið nánar á um lögum hvaða lands beri að beita, hvaða stofnanir sjái um framkvæmdina og hvernig innbyrðis uppgjöri sé háttað milli aðildarlanda.  Stefndi telur ákvæði reglugerðarinnar staðfesta enn frekar þá framkvæmd að bætur skuli sóttar í búsetulandi sem geti eftir atvikum átt endurkröfu vegna réttinda sem áunnin hafi verið í öðru landi.  Öll framsetning í umræddum reglugerðum virðist vera sú að ganga verði út frá því sem meginreglu að rétti samkvæmt reglugerðinni frá 1971 verði beitt gagnvart því ríki sem viðkomandi sé búsettur í.

 Fyrir liggi að stefnandi greiddi ekkert til stefnda á árunum 1984-1990.  Á árinu 1991 hafi borist greiðsla í desembermánuði og í janúar, október og nóvember 1992.  Engar greiðslur hafi borist árin 1993 og 1994.  Á árinu 1995 hafi stefnandi greitt í sjóðinn í júlí, ágúst og september.  Af þessu sé ljóst að langur vegur sé frá því að skilyrði um greiðslur til sjóðsins í 3 ár af síðustu 4 árum sé uppfyllt og ekkert þessara ára hafi ávinnsla stefnanda náð einu stigi. 

Stefnandi reisi kröfur sínar á hendur stefnda á því að áðurnefnt skilyrði hafi verið uppfyllt á grundvelli samkomulags um samskipti lífeyrissjóða.  Þá telji stefnandi enn fremur að af samkomulaginu leiði að beina beri kröfum um framreikning gegn stefnda eingöngu.  Stefndi telur þessa túlkun stefnanda á samkomulaginu vera ranga.  Í ákvæði 4.3. sé hugtakið sjálfstæður framreikningsréttur skilgreint.  Með því sé átt við tilvik þar sem réttur til framreiknings sé fyrir hendi gagnvart tilteknum sjóði á grundvelli iðgjaldagreiðslna til þess sjóðs eingöngu.  Ef um slíkan sjálfstæðan rétt sé að ræða og svokölluð 6 mánaða regla sé uppfyllt, sbr. ákvæði 4.4., leiði af ákvæði 4.5. að einungis sá sjóður eigi að framreikna réttindi.  Af því sem að framan sé rakið, um tilhögun greiðslna stefnanda til stefnda, leiði að sjálfstæður framreikningsréttur hafi ekki verið fyrir hendi gagnvart stefnda.  Krafa stefnanda gagnvart stefnda verði því ekki reist á ákvæði 4.5.

Stefnandi hafi enn fremur vísað til ákvæðis 4.2. í samkomulaginu.  Samkvæmt því ákvæði beri að líta til greiðslna til allra þeirra lífeyrissjóða sem aðilar séu að samkomulaginu þegar metið sé hvort réttur til framreiknings sé fyrir hendi.  Þessari reglu verði hins vegar einungis beitt þegar ekki sé fyrir hendi sjálfstæður framreikningsréttur á hendur neinum þeirra lífeyrissjóða sem um ræðir.  Þegar litið sé til yfirlitsins í gögnum málsins megi sjá að stefnandi hafi greitt samfellt til Lífeyrissjóðs Austurlands frá maí 1991 til ágústmánaðar 1995.  Þegar stefnandi flutti til Danmerkur í september 1995 hafi hann því uppfyllt skilyrði til sjálfstæðs framreiknings gagnvart Lífeyrissjóði Austurlands.  Ef á annað borð yrði fallist á kröfur stefnanda um að líta beri á greiðslur til danska lífeyrissjóðsins við mat á framreikningsréttindum í íslenska lífeyrissjóði þá gæti krafa stefnanda einungis beinst að Lífeyrissjóði Austurlands.

Stefndi telur fullyrðingu stefnanda, um að sú regla gildi í samskiptum lífeyrissjóða hér á landi að í tilvikum þar sem launþegi hafi greitt iðgjöld til fleiri en eins sjóðs eigi sá sjóður sem síðast hafi verið greitt til að sjá um framreikninginn, beinlínis ranga.  Þessi fullyrðing eigi enga stoð í áðurnefndu samkomulagi.  Stefnandi virðist leiða þessa reglu af ákvæði 4.2. í samkomulaginu.  Þeim skilningi sé alfarið mótmælt auk þess sem ekki komi til beitingar þess ákvæðis af þeim ástæðum sem þegar hafa verið raktar.

Á það sé bent af hálfu stefnda, til frekari áréttingar framangreinds, að hefði stefnandi orðið fyrir slysi í september 1995 sé ljóst að hann hefði aldrei átt kröfu til framreiknings hjá stefnda.  Slíkur réttur hefði hins vegar verið fyrir hendi hjá Lífeyrissjóði Austurlands.  Það fái, að mati stefnda, ekki staðist að búferlaflutningar stefnanda til Danmerkur geti leitt til þess að réttindi hans gagnvart stefnda aukist frá því sem verið hefði ef hann hefði verið búsettur áfram á Íslandi.

Í stefnu sé vísað til laga nr. 46/1993 um heimild til að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar.  Af framsetningu stefnanda verði ekki ráðið að byggt sé sjálfstætt á ákvæðum þeirra laga heldur vísað til þeirra til frekari áréttingar á því að beita beri ákvæði reglugerðar (EBE) 1408/71 í málinu.  Umrædd lagaákvæði veiti stefnanda ekki neinn sjálfstæðan rétt til framreiknings hjá stefnda.  Af ákvæðum laganna, sbr. t.d. 3. gr. þeirra og athugasemdir með lagafrumvarpinu, sé ljóst að þeim sé einungis ætlað að taka til þeirra sem ekki falli undir reglugerð 1408/71, þ.e. t.d. þeirra norrænu ríkisborgara sem séu ekki í starfi og þeirra sem starfi á Norðurlöndunum en séu ríkisborgarar í landi utan EES-svæðisins.  Þá eigi framangreindar málsástæður stefnda um ákvæði EES-samningsins og reglugerðar 1408/71, einkum um inntak hugtaksins almannatryggingar, fullum fetum við um ákvæði laga nr. 46/1993.

Stefnandi hafi lagt fram útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingastærðfræðings, á því hverjar greiðslur til stefnanda hefðu átt að vera á tímabilinu janúar 1997 til janúar 2006 ef viðurkenndur yrði réttur hans til framreiknings réttinda hjá Lífeyrissjóði Austurlands og stefnda.  Stefndi mótmælir umræddum útreikningum, að svo stöddu, sem röngum.  Stefndi telur ljóst að þær greiðslur sem gjaldféllu samkvæmt málatilbúnaði stefnanda meira en fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu séu fyrndar, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Ef fallist yrði á greiðsluskyldu stefnda sé ljóst að fjárkrafa stefnanda nái ekki fram að ganga nema að hluta.  Rétt sé að taka fram að fyrri málsókn stefnanda hafi ekki rofið fyrningu, sbr. 11. gr. sömu laga.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti enda hafi stefnandi fram til þessa ekki sannað eða gert líklegt að hann eigi rétt til framreiknings hjá stefnda.  Í öllu falli sé ljóst að dráttarvaxta verði ekki krafist frá fyrra tímamarki en 4 árum fyrir birtingu stefnu í málinu.  Eldri dráttarvextir séu fyrndir, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Varðandi kröfu sína um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins bendir stefnandi á að í 1. gr. laga nr. 21/1994 sé kveðið á um að ef mál sé rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum sé getið, geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA ríkjanna um stofnun dómstóls kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins um skýringu á því atriði málsins, áður en málinu sé ráðið til lykta.

Afstaðan í málinu sé sú, að taka þurfi afstöðu til skýringar nokkurra ákvæða meginmáls EES samningsins.  Meðal annars snúist málið um þá grundvallarspurningu hvort íslenska lífeyrissjóðakerfið falli undir hugtakið almannatryggingar eins og það hugtak beri að skilja samkvæmt meginmáli EES samningsins.  Verði komist að þeirri niðurstöðu, vakni sú grundvallarspurning hvort íslenskur lífeyrissjóður geti gert kröfu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðsins í að minnsta kosti 6 af síðustu 12 mánuðum fyrir slys sem skilyrði fyrir tilteknum bótarétti einstaklings ef sá einstaklingur flytur til annars ríkis innan efnahagssvæðisins til að stunda sambærileg störf og áður og hefur af þeirri ástæðu ekki getað uppfyllt fyrrgreint skilyrði um greiðslu iðgjalda til sjóðsins í 6 af síðustu 12 mánuðum.

Um þessi álitaefni hafi Hæstiréttur Íslands haft eftirfarandi orð í frávísunardóminum frá 20. febrúar 2003: „Mál þetta varðar mikilvæga hagsmuni áfrýjanda og ber í sér álitaefni um lífeyrisréttindi og réttarstöðu manna á Evrópska efnahagssvæðinu, sem hafa ekki áður komið til kasta dómstóla.”

Það sé skoðun stefnanda að álitaefni þau sem uppi séu í málinu séu þess eðlis að rétt sé og eðlilegt að afla álits EFTA dómstólsins á þessum EES réttar álitaefnum.

Stefnandi leggi til að þær spurningar sem lagðar verði fyrir EFTA dómstólinn séu svohljóðandi:

1.     Fellur íslenska lífeyrissjóðakerfið undir hugtakið almannatryggingar eins og það hugtak ber að skilja skv. meginmáli EES samningsins, einkum 28. og 29. gr.

2.     Ef svarið við spurningu nr. 1 er játandi, þá er spurt hvort regla í samþykktum íslensks lífeyrissjóðs, sem gerir það að skilyrði fyrir tilteknum bótarétti, að einstaklingur greiði iðgjöld til lífeyrissjóðsins í að minnsta kosti 6 af 12 mánuðum fyrir slys fái staðist ákvæði EES samningsins, þegar ástæða þess að einstaklingurinn getur ekki uppfyllt skilyrðið er sú að hann hafði flust til annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins til að stunda sambærileg störf og áður.

 

Stefndi telur með öllu óþarft að afla ráðgefandi álits frá EFTA dómstólnum enda hafi ákvæði EES samningsins eða þeirra gerða sem til sé vísað í stefnu ekki þýðingu fyrir úrslit málsins.  Stefndi hafi í greinargerð vakið athygli á því að þær EES gerðir sem stefnandi byggi kröfu sína á hafi ekki verið birtar með réttum hætti þegar atvik þessa máls áttu sér stað.  Stefndi telur því ljóst að ekki verði byggt á umræddum gerðum við úrlausn málsins.

Þá byggir stefndi á því að gerðir þær sem stefnandi byggi kröfur sínar á hafi ekki verið birtar með réttum hætti þegar atvik málsins áttu sér stað og því geti stefnandi ekki byggt kröfur sínar á hendur stefnda á umræddri reglugerð.  Einnig heldur stefndi því fram að reglugerðinni nr. 1408/71 verði aðeins beitt gagnvart því ríki þar sem viðkomandi er búsettur.

Í málinu sé óumdeilt að stefnandi eigi ekki rétt til framreiknings á grundvelli samþykkta stefnda.  Langur vegur sé frá því að skilyrði um greiðslur til sjóðsins í 3 ár af síðustu 4 hafi verið uppfyllt.  Jafnvel þótt þau svör fengjust frá EFTA dómstólnum að líta bæri til greiðslna stefnanda í danskan lífeyrissjóð við mat á því hvort skilyrði til framreiknings væru uppfyllt þá sé ljóst að slíkur réttur stofnaðist aldrei gagnvart stefnda.  Í slíku tilviki virðist hins vegar ljóst að til sjálfstæðs framreikningsréttar hafi stofnast gagnvart Lífeyrissjóði Austurlands.  Samkvæmt skýrum ákvæðum samkomulags um samskipti lífeyrissjóða beri í slíku tilviki að beina kröfum að þeim sjóði en ekki þeim sjóði sem síðast var greitt í.

Af framangreindu telur stefndi ljóst að þau álitaefni sem stefnandi vilji bera undir EFTA dómstólinn geti ekki haft þýðingu fyrir úrslit málsins.

VI

Stefnandi kveðst vilja fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á því hvort hinir íslensku lífeyrissjóðir falli undir almannatryggingar eins og hugtakið kemur fyrir í 28. og 29. gr. meginmáls EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.  Þá telur stefnandi að kæmist EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að hið íslenska lífeyrissjóðskerfi félli undir almannatryggingar myndi það leiða til þess að dómara bæri að styðjast við fyrrgreind ákvæði EES samningsins, reglugerð ráðsins nr. 1408/71, auk O liðar VI. viðauka við EES samninginn, við úrlausn málsins.  Telur stefnandi að rétt sé og eðlilegt að afla álits EFTA-dómstólsins á EES-réttar álitaefnum.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru stofnaðir á grundvelli frjálsra samninga samtaka launamanna og atvinnurekenda, en launþegar eru skyldaðir með lögum að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps og greiða iðgjöld til einhvers lífeyrissjóðs.  Við orkutap eiga sjóðfélagar rétt á örorkubótum á grundvelli þeirra réttinda sem þeir hafa áunnið sér með greiðslu iðgjalda í sjóðina, og sumir sjóðirnir framreikna auk þess réttindin við útreikning lífeyris, þ.e.a.s. réttindi eins og sjóðfélagi hefði greitt iðgjald af launum fram að ellilífeyrisaldri.  Samkvæmt reglum Lífeyrissjóðs sjómanna, nú stefnda í málinu, sem í gildi voru er stefnandi varð fyrir umræddu slysi, á sjóðfélagi, sem verður fyrir 40% orkutapi eða meira, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann a) greitt til sjóðsins að minnsta kosti þrjú af undanförnum fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 1 stig hvert þessara þriggja ára, b) greitt iðgjöld til sjóðsins að minnsta kosti 6 mánuði og að lágmarki 100 daga á undanfarandi 12 mánuðum og c) orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.  Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem gildi tóku 1. júlí 1998, eru ákvæði í samræmi við fyrrgreindra reglugerð, en þar segir í 1. mgr. 15. gr., að sjóðfélagi eigi rétt á örorkulífeyri, ef hann verður fyrir orkutapi, sem metið er 50% eða meira, hafi hann greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.  Í 2. mgr. segir, að örorkulífeyrir skuli framreiknaður samkvæmt reglum, sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í að minnsta kosti þrjú ár á undanförnum fjórum árum, þar af í að minnsta kosti sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili.

Þegar leyst er úr því álitaefni hvort réttindi til örorkubóta úr lífeyrissjóð falli undir hugtakið almannatryggingar, eins og það birtist í meginmáli EES samningsins og lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, verður ekki stuðst við fordæmi enda um álitaefni að ræða sem ekki verður séð að hafi áður komið til kasta dómstólanna.  Verður að telja það hafa þýðingu að fá úr því skorið hvernig hugtakið skuli skýrt.  Getur og jafnframt skipt máli fyrir úrlausn máls þessa að fá skýringu EFTA-dómstólsins á hugtakinu almannatryggingar eða hvort reglur lífeyrissjóðsins verði skoðaðar á grundvelli 28. gr. meginmáls EES samningsins, sbr. frávísunardóm Hæstaréttar Íslands frá 20. febrúar 2003, í máli milli sömu aðila um sömu kröfu.  Dómari telur að ákvæði EES-samningsins og framangreindrar reglugerðar ráðsins kunni að hafa áhrif á niðurstöðu málsins með beinum eða óbeinum hætti.  Hvað sem líður lögfestingu fyrrgreindrar reglugerðar verður einnig litið til þess að ákvæði þeirrar reglugerðar gæti haft áhrif á túlkun íslenskrar laga með tilliti til EES- samningsins.  Samkvæmt framansögðu metur dómari það því svo að nægilegt tilefni sé til þess að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi spurningum sem settar eru fram í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

          Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi:

1)         Nær hugtakið almannatryggingar, eins og það ber að skilja samkvæmt EES samningnum, einkum 29. gr. meginmáls samningsins og reglugerðar nr. 1408/71 frá 14. júní 1971, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, til réttinda til örorkubóta, sem myndast í lífeyrissjóðskerfi eins og því íslenska. 

2)         Hvort heldur svarið við spurningu nr. 1 er játandi eða ekki, þá er spurt hvort ákvæði EES-samningsins um frjálsa för launþega, einkum 28. og 29. gr., verði skýrð svo, að regla í samþykktum íslenskra lífeyrissjóða, sem gerir það að skilyrði fyrir tilteknum bótarétti (svokölluðum framreikningsrétti), að launþegi greiði iðgjöld til íslensks lífeyrissjóðs, sem er aðili að samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða, í að minnsta kosti 6 af síðustu 12 mánuðum fyrir slys, fái staðist ákvæði EES samningsins, þegar ástæða þess að einstaklingurinn uppfyllir ekki skilyrði er sú, að hann hafði flust til annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins til að stunda þar sambærileg störf og áður og greitt í þarlendan lífeyrissjóð.

3)       Ber að túlka reglugerð nr. 1408/71 frá 14. júní 1971, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, svo að launþegar beri að bera fram kröfur sínar um bætur fram í því landi þar sem þeir voru búsettir og nutu almannatryggingaréttinda þegar þeir slasast.