Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 26

 

Þriðjudaginn 26. október 2004.

Nr. 423/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. desember 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdómara í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fallist er á með héraðsdómara að fyrir hendi sé sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem að lögum geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Brotið er þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2004.

Ár 2004, föstudaginn 22. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 3. desember 2004, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki ætluð brot gegn almennum hegningarlögum er varða stórfelldan innflutning sterkra fíkniefna til landsins. [...]

[...]

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá handtöku. Rannsókn á þætti kærða í málinu sé nú í raun lokið og ekki lengur þörf á að hann sæti gæslu vegna rannsóknarhagsmuna. Að lokinni rannsókn málsins verði rannsóknargögn send ríkissaksóknara til ákærumeðferðar, en ekki sé unnt að fullyrða nákvæmlega hvenær það verði, þó að rannsóknin sé komin vel á síðari hlutann.

Kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Er brot kærða mjög alvarlegt en það lúti að innflutningi á miklu magni af amfetamíni og LSD. Þáttur kærða í brotunum sé mikill, en hann hafi komið beint að framkvæmd þeirra með því að leggja á ráðin um framkvæmd þeirra, afhenda hluta efnanna ytra til flutnings heim og með því að taka að sér það hlutverk að vera viðtakandi LSD efnisins [...]. Tilgangur brotanna hafi verið að koma fíkniefnunum í sölu og dreifingu til ótilgreinds fjölda fólks í ágóðaskyni.

Hagsmunir almennings krefjist þess að maður sem eigi slíkan þátt í jafn stórum og alvarlegum brotum og hér um ræðir, þ.e. beinan þátt í stórfelldum innflutningi fíkniefna, gangi ekki laus meðal almennings strax að rannsókn lokinni, heldur sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málinu. Þetta sé í samræmi við réttarvitund almennings og við um mál kærða þar sem um sé að ræða mjög mikið magn fíkniefna og megi þannig gera ráð fyrir að það myndi vekja athygli og andúð almennings ef hann endurheimti nú frelsi sitt.

Umrædd krafa um gæsluvarðhald sé gerð með hliðsjón af dómaframkvæmd síðustu ára, sbr. dómar Hæstaréttar í málum nr.: 269/2004, 452/1999, 471/1999, 417/2000, 352/1997, 158/2001, 294/1997, 283/1997 og 284/1997, þar sem sakborningum hafi margsinnis verið gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur sé uppkveðinn þegar legið hafi fyrir sterkur rökstuddur grunur um að þeir hafi staðið að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst svo mikið frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir. Verði þannig að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.

Kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem kunni að varða allt að 12 ára fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brotið sé jafnframt þess eðlis að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan máli hans sé ekki lokið, en málið verði sent til ákærumeðferðar að lokinni rannsókn. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

Kærði er grunaður um brot sem kann að varða allt að 12 ára fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a l. nr. 19/1940. Kærði var handtekinn þann 17. september sl. og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Á gæsluvarðhaldstímabilinu hefur hann játað að hafa átt aðild að innflutningi á fíkniefnum eins og rakið er í kröfu um gæsluvarðhald. Telja verður samkvæmt því sem fram hefur komið að rökstuddur grunur sé kominn fram um að kærði hafi framið brot sem varðað getur fangelsi allt að 12 árum. Jafnframt verður að telja aðild hans að málinu slíka að skilyrði séu fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 og sé ekki ástæða til að marka því skemmri tíma en krafist er. Er því fallist á framkomna kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 3. desember 2004, kl. 16:00.