Hæstiréttur íslands
Mál nr. 854/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 16. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, frá 16. desember 2016 um að lagt verði bann við því að varnaraðili, X, veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti í tvo mánuði frá 16. desember 2016 að telja.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Sigurðar Freys Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2016.
Með kröfu sóknaraðila, dagsettri 19. desember 2016, sem barst dóminum sama dag, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness, staðfesti ákvörðun sóknaraðila frá 16. september 2016, um að X, kt. [...],[...],[...] skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], þar sem hann er nú vistaður, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti [...] eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.
Sigurður Freyr Sigurðsson hdl. var skipaður verjandi varnaraðila og Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl. var skipaður réttargæslumaður brotaþola.
Verjandi varnaraðila mótmælti kröfu sóknaraðila við fyrirtöku málsins í dag og krafðist þess að henni yrði hafnað, en til var að henni verði markaður skemmri tíma. Þá kröfðust verjandi og réttargæslumaður þóknunar úr ríkissjóði sér til handa.
I
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að lögreglu hafi verið tilkynnt um að drengur að nafni A, kt. [...], hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu varnaraðila. Ábending hefði borist til barnaverndarnefndar um ætlað ofbeldi. Þegar brotaþoli hafi mætt á lögreglustöð á föstudaginn sl., ásamt stjúpmóður sinni hafi mátt sjá sýnilega áverka á drengnum í andlitinu, glóðarauga og mar, og marbletti á handlegg. Hafi áverkarnir verið myndaðir og brotaþoli verið sendur á barnaspítala til frekari skoðunar. Í viðtali við lögreglu hafi drengurinn skýrt frá ætluðu ofbeldi varnaraðila og fram komið að hann hefði áður orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu. Þá kom fram að varnaraðili haldi heimili með brotaþola og eigi drengurinn þar fast heimili.
Að beiðni barnaverndar [...] hafi lögregla farið að heimili varnaraðila þar sem brotaþoli hafi verið staddur ásamt stjúpmóður sinni og hafi verið ákveðið að vista drenginn til bráðabirgða. Í kjölfarið hafi varnaraðili verið kallaður til skýrslutöku. Varnaraðili hafi við þá skýrslutöku játað að hafa slegið brotaþola með flötum lófa miðvikudaginn 14. desember sl. Vitni hafi einnig staðfest þetta ofbeldi jafnframt því að varnaraðili hafi tekið harkalega í handlegg brotaþola.
Varnaraðili er grunaður um að hafa beitt son sinn ofbeldi sem geti varðað við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og/eða eftir atvikum við 98. og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt upplýsingum sem lögreglan hafi frá barnavernd [...], þá verði brotaþoli vistaður í 2 mánuði til bráðabirgða á fósturheimili, m.a. vegna þessa ofbeldis. Brotaþoli hafi lýst því fyrir barnaverndaryfirvöldum að hann vilji ekki fara aftur til föður síns.
Sóknaraðili telji skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili vera uppfyllt þannig að veruleg hætta sé á að varnaraðili muni halda áfram háttseminni og raska friði og velferð brotaþola, eins og sakir standi.
Með ákvörðun sóknaraðila dagsettri 16. desember sl., hafi varnaraðili verið gert að sæta nálgunarbanni, en lögregla hafi áður gert barnaverndaryfirvöldum viðvart um ákvörðun sína. Ákvörðun sóknaraðila um nálgunarbann hafi verið birt fyrir varnaraðila þann 16. desember sl. um kl. 19.30 sbr. gögn málsins. Varnaraðili hafi mótmælt ákvörðun sóknaraðila og sé mjög ósáttur við ákvörðun yfirvalda og lögreglu.
Af öllu framangreindu telji sóknaraðili ljóst að brotaþola stafi ógn af föður sínum, og ljóst sé að hann hafi undanfarið orðið að þola ofbeldi af hans hálfu og ógnandi hegðan. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn syni sínum og að hætta sé á því að hann haldi áfram með ofbeldi, með því að ganga í skrokk á honum og að raska friði drengsins í skilningi 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hans verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat sóknaraðila að skilyrði 4. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram og að staðfest verði ákvörðun sóknaraðila frá 16. desember sl.
II
Við munnlegan flutning málsins kom fram hjá sóknaraðila að brotaþoli sé nú í vistun á vegum barnaverndar [...] og ekki verði gefið upp hvar sú vistun fari fram.
Af hálfu varnaraðila er einkum vísað til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili til að taka kröfuna til greina.
Þá hafi varnaraðili gert samning við barnaverndaryfirvöld þar sem hann hafi samþykkt vistun brotaþola í tvo mánuði og verið að láta reyna á hvort það samkomulag verði ekki virt af hans hálfu. Hafi því vægari úrræði ekki verið fullreynd og því þurfi ekki að koma til nálgunarbanns. Einnig liggi ekki annað fyrir en að um eitt atvik hafi verið að ræða.
III
Krafa sóknaraðila um nálgunarbann byggir á a. og b. liðum 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í ákvæðunum eru sett þau skilyrði að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola og að hætta sé á varnaraðili brjóti gegn brotaþola.
Í gögnum málsins liggur fyrir að varnaraðili hafi viðurkennt að hafa slegið brotaþola „flötum lófa“. Þá liggur fyrir áverkavottorð um áverka á andliti og upphandlegg brotaþola. Liggur því fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið refsivert brot sem varðað geti við ákvæði 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og/eða eftir atvikum við 98. og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eru ákvæði a. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 því uppfyllt.
Fyrir liggur að brotaþoli er á ellefta ári og hafi hann skýrt frá ítrekuðu ætluðu ofbeldi af hálfu föður síns. Barnaverndaryfirvöld í [...] hafa metið aðstæður svo að drengnum sé ekki óhætt að búa næstu mánuði heima hjá varnaraðila og hefur varnaraðili samþykkt vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði. Í greinargerð með 4. gr. laga nr. 85/2011 segir: „Við mat á því hvort hætta verði talin á því að maður muni fremja refsivert brot eða á annan hátt raska friði brotaþola verður líkt og áður að líta til fyrri háttsemi þess manns sem krafan beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Hér koma þannig áfram til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur samskipti sem veitt geta rökstudda vísbendingu um það sem kann að vera í vændum“. Þykir með vísan til framangreinds hafa verið sýnt fram á að hætta sé á því að varnaraðili brjóti gegn brotaþola skv. a. lið 4. gr., og eru ákvæði b. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 því einnig uppfyllt.
Í kröfu sóknaraðila er þess meðal annars krafist að staðfest verði ákvörðun um að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við dvalarstað brotaþola þar sem hann er nú vistaður, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Upplýst er að barnaverndaryfirvöld munu ekki gefa upp hvar brotaþoli er vistaður. Í 6. gr. laga nr. 85/2011 kemur fram að nálgunarbanni verði aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Að mati dómsins verður ekki séð að nauðsyn krefji að úrskurður um nálgunarbann nái til dvalarstaðar brotaþola sem ekki er tilgreindur og kærði viti ekki hvar er. Sé friðhelgi brotaþola nægilega tryggð á meðan ekki er upplýst nánar um þann dvalarstað. Ákvörðun sem tekur til ótilgreinds dvalarstaðar er marklaus þar sem varnaraðila er ekki ljós sú takmörkun sem því fylgir og skerðir rétt hans óhæfilega.
Þá verður einnig til þess að líta að málið varðar faðir og ungan son hans. Ekki liggur annað fyrir á þessari stundu en að vistun brotaþola á vegum barnaverndar [...] vari næstu tvo mánuði. Með hliðsjón af því verður nálgunarbann ekki staðfest um lengri tími en þurfa þykir miðað við aðstæður allar.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, er kröfu sóknaraðila um staðfestingu nálgunarbanns gegn varnaraðila staðfest að hluta til eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
IV
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Freys Sigurðssonar hdl. greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun verjanda er ákveðin með virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, og er einnig ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, frá 16. desember sl. þannig að varnaraðili, X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni samkvæmt a. og b. liðum 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í tvo mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Freys Sigurðssonar hdl., 163.680 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 163.680 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.