Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2011
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Hlutabréf
- Umboð
- Ógilding samnings
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2012. |
|
Nr. 252/2011.
|
ALMC hf. (Jón Sigurðsson hrl.) gegn Fiskverkun I.G. ehf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kaupsamningur. Hlutabréf. Umboð. Ógilding samnings. Málsástæður.
A hf. keypti hlutabréf fyrir F ehf., í umboði þess, með tilboðum er samþykkt voru af seljendum 5. mars 2009. Naut F ehf. greiðslufrests til 10. mars 2009. A hf. greiddi kaupverð hlutabréfanna til seljenda þeirra þann dag en F ehf. stóð á hinn bóginn ekki skil á kaupverðinu til A hf. Í Hæstarétti var talið að komist hefði á bindandi samningar um kaup milli F ehf. og seljenda bréfanna fyrir milligöngu A hf. og stoðaði því ekki fyrir félagið að bera fyrir sig gagnvart A hf. að áhætta í kaupunum hafi hvílt á seljendum fram að afhendingu bréfanna eða að samningar um kaupin væru ógildanlegir. Var krafa A hf. um greiðslu úr hendi F ehf. tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.973.877 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins átti fyrirsvarsmaður stefnda símtal 5. mars 2009 við starfsmann áfrýjanda, sem þá bar heitið Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. Símtal þetta var hljóðritað, en samkvæmt framlögðu endurriti af því óskaði stefndi þar eftir að kaupa hlutabréf í áfrýjanda að markaðsvirði um 5.000.000 krónur. Starfsmaður áfrýjanda kvaðst geta fengið hlutabréf „á þinginu“ á genginu 1,74 eða 1,75 og samþykkti stefndi það. Í framhaldi af þessu lét áfrýjandi verða af viðskiptunum með því að kaupa bréf að nafnverði 1.000.000 krónur af Saga Capital Fjárfestingabanka hf., jafn mörg bréf af Nýja Kaupþingi banka hf. og bréf að nafnverði 850.000 krónur af NBI hf., en í öllum tilvikum voru kaupin gerð á genginu 1,74. Áfrýjandi sendi síðan stefnda í tölvupósti svonefnda bráðabirgðakvittun, þar sem fram kom að stefndi hafi keypt hlutabréf í áfrýjanda að nafnverði 2.850.000 krónur fyrir 4.959.000 krónur, en við þá fjárhæð bættust 14.877 krónur í þóknun. Samkvæmt kvittuninni átti uppgjörsdagur að vera 10. mars 2009 og komu þar fram upplýsingar um bankareikning, sem leggja ætti kaupverðið inn á. Starfsmaður áfrýjanda átti aftur símtal 6. sama mánaðar við fyrirsvarsmann stefnda, sem kvaðst hafa fengið kvittunina.
Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, fór uppgjör í viðskiptum sem þessum fram á þann hátt að kaupandi hlutabréfa fékk frest til að greiða kaupverð þar til á þriðja bankadegi eftir að kaupin voru gerð. Með því að 5. mars 2009 bar upp á fimmtudag naut stefndi eftir þessari uppgjörsreglu greiðslufrests til þriðjudagsins 10. sama mánaðar. Eftir gögnum málsins voru hlutabréf skráð á nafni seljanda á þessum greiðslufresti hjá Verðbréfaskráningu Íslands, en við uppgjör voru þau færð á nafn kaupanda.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 9. mars 2009 yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í lok næsta dags voru hlutabréf í áfrýjanda tekin úr viðskiptum í kauphöll. Fyrir liggur að áfrýjandi greiddi kaupverð hlutabréfanna, sem um ræðir í málinu, til seljenda þeirra 10. mars 2009 með millifærslu fyrir atbeina Seðlabanka Íslands. Á hinn bóginn stóð stefndi ekki skil á kaupverðinu til áfrýjanda á umsömdum uppgjörsdegi og ber hann því meðal annars við í málinu að hann hafi skömmu síðar fengið upplýsingar frá starfsmanni áfrýjanda um að ekki yrði gengið eftir greiðslu. Með bréfi 23. apríl 2010 krafði áfrýjandi stefnda um greiðslu kaupverðsins ásamt dráttarvöxtum, en stefndi mótmælti þeirri kröfu 6. maí sama ár. Krafa áfrýjanda var ítrekuð í bréfi til stefnda 3. júní 2010 og mál þetta síðan höfðað 31. ágúst sama ár.
II
Sem fyrr greinir leitaði stefndi til áfrýjanda, sem hafði meðal annars á hendi miðlun verðbréfa, með ósk um kaup á hlutabréfunum, sem um ræðir í málinu. Samkvæmt áðursögðu lá frá öndverðu fyrir að áfrýjandi myndi útvega hlutabréfin með viðskiptum í kauphöll. Áfrýjandi var ekki seljandi hlutabréfanna, heldur keypti hann þau fyrir stefnda sem umboðsmaður hans með tilboðum, sem samþykkt voru af seljendum 5. mars 2009. Stefndi hefur ekki vefengt að áfrýjandi hafi haft umboð til þessara ráðstafana. Með þessu komust á bindandi samningar milli stefnda og seljendanna um þau kaup. Af þessu leiðir að stefnda stoðar ekki að bera fyrir sig gagnvart áfrýjanda málsástæður sem lúta að því að áhætta í kaupunum hafi hvílt á seljendum fram að afhendingu hlutabréfanna eða að samningar um kaupin við seljendurna séu ógildanlegir, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 21. júní 2011 í máli nr. 546/2010. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi reist aðalkröfu sína um sýknu meðal annars á því að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar við áfrýjanda um skaðabætur sökum þess að starfsmaður hans hafi bakað stefnda tjón með því að hafa ekki ráðið honum frá kaupum á hlutabréfunum. Þessari málsástæðu var ekki haldið fram í héraði og kemst hún ekki að hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum.
Samkvæmt framangreindu og með því að stefndi hefur ekki að öðru leyti fært fram haldbær rök fyrir kröfum sínum eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu áfrýjanda á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Fiskverkun I.G. ehf., greiði áfrýjanda, ALMC hf., 4.973.877 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. mars 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2011.
Mál þetta höfðaði ALMC hf. (áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf.), kt. 701086-1399, Borgartúni 25, Reykjavík, með stefnu birtri 31. ágúst 2010, á hendur Fiskverkun I.G. ehf., kt. 630998-2479, Grandagarði 51, Reykjavík. Málið var dómtekið 13. janúar sl.
Stefnandi krefst greiðslu á 4.973.877 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, til vara að kröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar.
Aðilar sömdu 5. mars 2009 um kaup stefnda á hlutabréfum í stefnanda að nafnverði 2.850.000 krónur, á genginu 1,74. Kaupin voru ákveðin í símtali milli forsvarsmanns stefnda og starfsmanns stefnanda. Sama dag gaf stefnandi út kvittun eða yfirlitsblað um viðskiptin. Þar segir að viðskiptin eigi sér stað 5. mars, en 10. mars 2009 er sagður vera dagsetning uppgjörs. Kaupverðið er 4.959.000 krónur og þóknun er kaupanda er ætlað að greiða 14.877 krónur.
Stefnandi kveðst ekki hafa átt hlutabréf þessi, heldur keypt þau þennan dag í þrennum viðskiptum. Hefur hann lagt fram kvittanir fyrir kaupum þessum.
Stefnandi kveðst hafa merkt hlutabréfin stefnda í viðskiptakerfi og vörslusafni sínu. Hins vegar hafi ekki verið unnt að afhenda bréfin á VS-reikning stefnda hjá Verðbréfaskráningu Íslands fyrr en greiðsla hefði borist.
Stefnandi kveðst hafa krafið stefnda um greiðslu síðar í sama mánuði og aftur með bréfi lögmanns 23. apríl 2010. Afrit af fyrra kröfubréfinu hefur ekki verið lagt fram, en hið síðara liggur frammi. Þar er skorað á stefnda að greiða kaupverð bréfanna auk dráttarvaxta og ótilgreinds kostnaðar. Bréfi þessu var svarað með bréfi lögmanns stefnda dags. 6. maí 2010. Lögmaður stefnanda ítrekaði síðan kröfuna með bréfi dags. 3. júní 2010.
Þann 9. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun, samkvæmt 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, um að taka yfir vald hluthafafundar Straums-Burðaráss fjárfestingabanka og víkja félagsstjórn frá störfum. Var skipuð skilanefnd til að fara með öll málefni félagsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að aðilar hafi gert með sér samning um kaup stefnda á hlutabréfum af stefnanda. Hann eigi því samningsbundna fjárkröfu á hendur stefnda. Efna beri samning aðila.
Stefnandi segir að stefndi hafi sannanlega verið krafinn um greiðslu kaupverðs sama dag og viðskiptin fóru fram. Honum hafi verið send kvittun fyrir viðskiptunum sama dag. Á kvittun þessari hafi greiðsluupplýsingar komið fram, þ.e. kennitala og reikningsnúmer stefnanda. Uppgjörsdagur hafi verið ráðgerður 10. mars 2009, þremur virkum dögum eftir að viðskiptin voru gerð. Fyrst þá hefði verið unnt að skrá hlutabréfin á nafn stefnda hjá Verðbréfaskráningu Íslands, enda hefði kaupverð verið greitt. Bréfin hafi verið eyrnamerkt stefnda í viðskiptakerfi stefnanda og skráð á nafn stefnda í vörslusafni Straums. Stefnandi fullyrðir að stefndi hafi fengið framangreinda kvittun í hendur daginn eftir, þann 6. mars 2009.
Stefnandi bendir á að engin skilyrði eða fyrirvarar hafi verið gerð við kaupin. Stefndi hafi ekki gert athugasemd við kvittunina er hann fékk hana í hendur.
Stefnandi kveðst hafa uppfyllt allar skyldur sínar sem fjármálafyrirtæki í viðskiptunum við stefnda. Engu skipti í þessu sambandi þótt um hafi verið að ræða hlutabréf í stefnanda sjálfum. Stefnandi kveðst hafa keypt bréfin á markaði til að geta efnt skyldur sínar við stefnda.
Stefnandi heldur því fram að sú staðreynd að Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar stefnanda og skipað honum skilanefnd, hafi engin áhrif á gildi kaupsamnings aðila. Stefnandi hafi áfram rekið starfsemi á grundvelli starfsleyfis síns sem viðskiptabanki og hlutabréf í bankanum hafi getað skipt um hendur hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Efndir samnings hafi því ætíð verið mögulegar.
Stefnandi kveðst krefjast greiðslu á samningsfjárhæðinni og dráttarvaxta frá uppgjörsdegi viðskiptanna, 10. mars 2009.
Stefnandi vísar til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á reglum laga nr. 50/2000 um skiptingu áhættunnar af söluhlut, sbr. 1. mgr. 13. gr., sbr. 12. gr. Áhættan flytjist yfir til kaupanda þegar hluturinn hafi verið afhentur í samræmi við ákvæði samnings. Uppgjör kaupanna hafi átt að fara fram 10. mars 2009. Þá hafi átt að afhenda bréfin gegn greiðslu. Þegar afhendingardagur rann upp hafi Fjármálaeftirlitið hins vegar verið búið að taka yfir vald hluthafafundar stefnanda, víkja stjórn frá og skipa bankanum skilanefnd vegna ógjaldfærni hans. Að morgni afhendingardags hafi Kauphöllin tilkynnt að hlutabréf stefnanda yrðu tekin úr viðskiptum. Bréfin hafi því verið búin að missa þá eiginleika sem stefndi hafi mátt ætla að þau hefðu, þ.e. að vera hæf til viðskipta í Kauphöll og bera með sér réttindi eins og t.d. atkvæðisrétt. Hlutabréfin hafi í raun verið ónýt og sé það verulegur ágalli, sem hafi verið kominn fram áður en áhættan fluttist yfir til stefnda.
Í öðru lagi vísar stefndi til þess að við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins hafi forsendur fyrir kaupunum brostið. Stefnandi hafi mátt vita að það hafi verið ákvörðunarástæða stefnda fyrir kaupunum að bréfin hefðu venjulega eiginleika hlutabréfa sem skráð eru á markaði. Þegar kom fram á uppgjörsdag hafi bréfin verið verðlaus og þeim ekki fylgt nein réttindi.
Í þriðja lagi telur stefndi að stefnandi geti ekki borið samning aðila fyrir sig samkvæmt 33. gr. samningalaga nr. 7/1936, en það verði að telja óheiðarlegt af honum að bera samninginn fyrir sig vegna atvika sem fyrir hendi voru er samningur var gerður. Þremur dögum eftir samningsgerðina hafi stefnandi sent bréf til Fjármálaeftirlitsins þar sem sagði að bankinn yrði ógjaldfær daginn eftir, að 17,7 milljónir evra vantaði upp á til að unnt væri að standa full skil á skuldbindingum. Stefnanda hafi ekki getað dulist á samningsdegi hvert stefndi í rekstri félagsins og að hlutbréf í félaginu yrðu nær örugglega verðlaus á uppgjörsdegi.
Í fjórða lagi byggir stefndi á því að víkja beri samningi aðila til hliðar samkvæmt 36. gr. samningalaga. Augljóst sé að hann hafi umtalsvert lakari stöðu við samningsgerðina en stefnandi. Þá hafi hann takmarkaða reynslu af hlutabréfaviðskiptum, en stefnandi sé sérfræðingur. Þá hafi verið samið um hlutabréf í stefnanda sjálfum. Það sé andstætt góðri viðskiptavenju og ósanngjarnt af stefnanda að krefjast nú uppgjörs á pöntun stefnda frá 5. mars 2009, þegar það sem pantað var sé ónýtt.
Loks vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki uppfyllt lögbundnar skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Vísar hann til þess að ekki verði séð af gögnum málsins að stefnandi hafi gætt ákvæða 9. gr. laganna um gerð skriflegs samnings, 14. gr. um upplýsingagjöf eða 16. gr. um öflun upplýsinga vegna annarra verðbréfaviðskipta eða hvort stefndi hafi verið flokkaður sem viðskiptavinur, sbr. 21. gr. Sérstaklega telur stefndi að stefnandi hafi ekki gætt skyldna sinna samkvæmt 14. gr. til að veita upplýsingar um áhættu af hlutabréfum í stefnanda. Honum hafi ekki getað dulist hvert stefndi í rekstrinum og því borið að upplýsa stefnda um fjárhagsstöðu sína. Hafi stefnandi ekki gætt að ófrávíkjanlegum skyldum sínum samkvæmt lögunum sé samningur aðila ólögmætur og óskuldbindandi fyrir stefnda.
Verði ekki fallist á sýknukröfu mótmælir stefndi sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Hann hafi fengið það staðfest hjá starfsmönnum stefnanda að greiðsluskylda sín væri fallin niður. Síðan hafi ekki verið gerð nein krafa vegna viðskiptanna í rúmlega eitt ár. Þetta tómlæti stefnanda leiði til þess að dráttarvexti beri að miða við 24. maí 2010, 30 dögum eftir að bréf lögmann stefnanda var sent.
Stefndi vísar til laga nr. 7/1936 og ólögfestra meginreglna samninga- og kauparéttar. Þá vísar hann til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ásamt þeim tilskipunum sem innleiddar voru með lögunum, einkum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/39/EB (MiFID tilskipunarinnar) og þeirra reglugerða sem byggi á lögum um verðbréfaviðskipti.
Niðurstaða
Viðskipti þau sem aðilar sömdu um símleiðis þann 5. mars 2009 verður að telja reiðukaup í skilningi 6. gr. laga nr. 50/2000. Í því felst að réttindi sem stefnandi átti að láta af hendi til stefnda áttu ekki að flytjast til hans fyrr en við greiðslu kaupverðs. Kaupverð átti að greiða 10. mars 2009 og samtímis átti eignarréttur að bréfunum að flytjast til stefnda. Engu skiptir um þetta atriði þó að stefndi hefði getað ráðstafað bréfunum frá því að samningur aðila var gerður í skjóli þeirra skilyrtu réttinda er hann hafði öðlast yfir þeim.
Þegar efndatími var kominn hafði stjórn stefnanda verið leyst frá störfum og Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar. Hlutabréf í félaginu fólu þá ekki lengur í sér eignar- og yfirráð yfir félaginu. Bréf þau sem stefnandi hugðist þá afhenda stefnda höfðu því ekki þá eiginleika sem gert var ráð fyrir í samningi. Afhending þeirra gat ekki falið í sér réttar efndir samningsins af hálfu stefnanda. Efndir voru honum ómögulegar. Þar sem samningur aðila var gagnkvæmur gat hann af þessari ástæðu ekki krafið stefnda um greiðslu kaupverðs. Efndir samningsins eru stefnanda enn ómögulegar og hefur því skylda stefnda samkvæmt kaupsamningnum fallið niður. Verður hann sýknaður af kröfum stefnanda, án þess að fjalla þurfi um aðrar málsástæður sem hann hefur uppi.
Stefnanda verður gert að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Fiskverkun I.G. ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, ALMC hf.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.