Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 6. febrúar 2007. |
|
Nr. 66/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. febrúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að að X, [kt. og heimilisfang] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. febrúar nk. kl. 16:00.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði synjað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð rannsóknara er því lýst að kvöldi 29. janúar sl. hafi nafngreindur maður tilkynnt lögreglu um að fjórir menn hafi komið á heimili hans, ráðist þar á hann og stolið munum í hans eigu, þ.á.m. bifreið. Hafi kærandi þekkt tvo aðilanna og sé annar þeirra kærði. Í greinargerðinni er lýst nánar aðförum mannanna, m.a. því að þeir hafi lamið kæranda með járnkylfu í höfuðið, hellt yfir hann kveikjarabensíni og hótað honum. Hafi kærandi greint svo frá að allir aðilarnir fjórir hafi haft sig í frammi við líkamsmeiðingarnar. Í greinargerð rannsóknara er lýst aðstæðum í íbúð kæranda. Þá er sagt frá því að atvikið muni hafa átt sér stað um kl. 22 og staðið í um eina klst., en kl. 22:13 hafi verið tilkynnt um árekstur, þar sem bifreiðinni kæranda hafði verið ekið á aðra bifreið en ökumaður stungið af. Þá segir að kærði hafi viðurkennt að hafa verið á vettvangi í umrætt sinn og lýst atburðarrásinni að hluta í samræmi við framburð kæranda, en kannist sjálfur ekki við að hafa beitt kæranda einhverju ofbeldi. Hafi hann bent á annan mann sem aðalmann í ofbeldisbrotinu. Kærði kannist ekki við að hafa verið ökumaður umræddrar bifreiðar og hafi bent á annan kærða í því sambandi.
Rannsóknari vísar til þess að framburðir þeirra manna sem hafi verið yfirheyrðir sem grunaðir vegna málsins séu ekki samhljóða og enn hafi ekki náðst til tveggja aðila sem taldir séu eiga þátt í brotinu. Þá liggi ekki fyrir hvar hluti af þeim munum sem kærandi hafi greint frá að teknir hafi verið séu niður komnir. Sé hætta því á, ef kærði gangi laus, að hann torveldi rannsókn málsins með því að skjóta undan munum og/eða hafa áhrif á vitni eða samseka. Hin ætluðu brot eru talin varða við 2. mgr. 218. gr., 252. gr., 226. gr., 245. gr. hegningarlaga, sbr. lög nr. 20/1981, en brotin varði skv. lögum fangelsi allt að 16 árum. Rannsóknari vísar til framangreinds, hjálagðra gagna og rannsóknarhagsmuna, sbr. a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu kærða er vísað til þess að kærði hafi viðurkennt sinn þátt málsins að fullu og greint frá öllu sem hann viti um málið. Hann hafi lýst þætti annarra í málinu og bent á þá bifreið sem var tekin. Samkvæmt þessu séu engir rannsóknarhagsmunir fyrir hendi. Sérstaklega er bent á að óútskýrt sé hvernig kærði getið torveldað frekari rannsókn málsins.
Með vísan til fyrirliggjandi rannsóknargagna telur dómari að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Í málinu liggur fyrir að enn hafa tveir menn, sem talið er að hafi tekið þátt í framangreindum verknaði, ekki fundist. Þá liggur fyrir að þeir munir, sem talið er að hafi verið teknir, hafa ekki fundist. Verður á það fallist með rannsóknara að ætla megi að gangi kærði laus muni hann torvelda rannsókns málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka. Er því fullnægt skilyrði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðahaldi er markaður hæfilegur tími í kröfu rannsóknara. Verður krafa rannsóknara því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. febrúar nk. kl. 16:00.