Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 31. janúar 2003. |
|
Nr. 43/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Örn Clausen hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili þýskur ríkisborgari og hefur verið búsettur í Þýskalandi. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur meðal annars fram að rannsókn hafi áður beinst að varnaraðila vegna fíkniefnabrota, en hann hafi farið af landi brott áður en tókst að birta honum ákærur í þeim málum. Ekki hafi verið unnt að fá hann framseldan hingað, því þýsk lög banni framsal þarlendra ríkisborgara. Hann hafi síðan verið handtekinn í Hollandi á síðasta ári og framseldur til Íslands 3. janúar sl. Með vísan til þessa má ætla að varnaraðili muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér á annan hátt undan málsókn eða fullnustu refsingar. Er því fullnægt skilyrðum til að beita gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en ekki verður fallist á að farbann geti hér komið í stað gæsluvarðhalds. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að [X], kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. mars 2003 klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík sé nú að ljúka rannsókn máls sem varði innflutning á miklu magni fíkniefna sem lögregla hafi lagt hald á í janúar á síðasta ári, en um sé að ræða mörg kíló af amfetamíni, auk fleiri fíkniefna.
Nokkur hluti rannsóknarinnar hafi farið fram á síðasta ári, en á þeim tíma hafi kærði búið í Þýskalandi og hafi ekki verið unnt að fá hann framseldan þar sem þýsk lög banni framsal þýskra ríkisborgara, en kærði muni hafa þýskt ríkisfang.
Kærði hafi svo verið handtekinn í Hollandi í fyrra og verið framseldur til Íslands aðfaranótt 3. janúar sl., en hann hafi sætt gæsluvarðhaldi síðan.
[...]
Kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi sbr. 173.gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé brot kærða mjög alvarlegt en það lúti að innflutningi og dreifingu á miklu magni fíkniefna í ágóða- og atvinnuskyni.
Um sé að ræða nærri 6 kg af amfetamíni, en styrkleiki þess sé slíkur að þess þekkist ekki dæmi, eða milli 97 og 99 % hreint efni, sem fyrir sölu verði margfaldað með þynningu, þannig að í smásölu hefði magn amfetamínsins vart verið undir 15-20 kílóum. Þá sé einnig um að tefla mikið magn ætlaðra MDMA-taflna auk kókaíns.
Um sé hér að ræða skipulagða brotastarfsemi sem hafi staðið um all nokkurn tíma. Sé málið sérstakt að því leyti að efnin séu óvenjulega hrein og nánast örugglega beint frá verksmiðju, eða eins og kærði segi sjálfur “þetta kemur beint af kúnni”. Þáttur kærða í brotastarfseminni sé mikill, en hann sé frumkvöðull og skipuleggjandi brotastarfseminnar, hann hafi útvegað efnin ytra, séð um að senda þau hingað, gefið fyrirmæli til annarra í málinu um vörslur, sölu og annað, og jafnframt tekið við andvirði efnanna ytra.
Verði að telja og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus strax að rannsókn lokinni þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Þetta eigi enn frekar við um kærða þar sem hann eigi ólokið öðrum málum þar sem hann hafi verið ákærður fyrir stórfelldan innflutning fíkniefna, en kærði hafi farið af landi brott áður en tekist hafi að birta honum ákærur vegna þeirra brota.
Fyrir liggi að kærði hafi af því atvinnu og framfærslu að flytja inn og selja fíkniefni. Sé um að ræða mann sem vinni skipulega að því að vinna samfélagi sínu mein með háttsemi sinni, en fíkniefnaneysla sé helsti vágestur Vesturlanda.
Þá verði að telja hættu á því að ef kærði verði látinn laus að rannsókn lokinni kunni það að leiða til þess að réttarvitund almennings brenglist.
Umrædd krafa um gæsluvarðhald sé gerð með hliðsjón af dómaframkvæmd síðustu ára, þar sem sakborningum hafi margsinnis verið gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur sé uppkveðinn þegar legið hafi fyrir sterkur rökstuddur grunur um innflutning á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Megi um þetta nefna í dæmaskyni dóma Hæstaréttar í málum nr. 452/1999, 417/2000, 471/1999, 352/1997, 158/2001, 294/1997, 283/1997 og 284/1997. Sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst svo mjög frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir að skilyrðum 2.mgr. 103.gr. laga nr. 19,1991 sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræði.
Þá sé rétt að nefna að kærði hefur verið búsettur ytra og megi gera ráð fyrir að hann reyni að komast úr landi til að flýja ákæru og refsidóm, en í þessu sambandi megi sérstaklega nefna að kærði sé þýskur ríkisborgari og komist hann til Þýskalands þá verði hann ekki framseldur þaðan vegna þess að þýsk lög banni framsal á þýskum ríkisborgurum. Kærði hafi mótmælt framsali hingað til lands og verði þannig ekki séð annað en að hann vilji helst komast hjá því að svara til saka. Rökstudd ástæða sé til að ætla að kærði muni yfirgefa landið og sé farbann ekki nægileg trygging í því efni.
Sé því nauðsynlegt að halda kærða í gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans.
Lögreglan kveður að verið sé að ljúka rannsókn á ætluðum brotum kærða gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sem geti varðað hann þungri fangelsisrefsingu ef sannist, en sterkur rökstuddur grunur sé um að hann hafi gerst sekur um slík brot. Verði að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Þá sé kærði erlendur ríkisborgari og megi gera ráð fyrir að hann muni reyna að komast undan frekari meðferð mála sinna.
Heimild til gæsluvarðhalds sé í b lið 1.mgr. og 2.mgr. 103.gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Með vísan til framlagðra gagna er kærði undir sterkum grun um þátttöku í stórfelldu broti sem varðað getur hann allt að 12 ára fangelsi skv. 173.gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 . Auk þess liggur fyrir að kærði hefur áður reynt að komast undan réttvísinni en hann fór úr landi eftir að ákærur vegna fíkniefnabrota höfðu verið gefnar út á hendur honum á árinu 2000.
Að mati dómsins eru brot kærða þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því uppfyllt skilyrði b liðar 1.mgr. og 2.mgr. 103. gr. nr.19/1991 um gæsluvarðhald. Verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 7. mars 2003 klukkan 16:00.