Hæstiréttur íslands
Mál nr. 708/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
|
|
Þriðjudaginn 11. nóvember 2014. |
|
Nr. 708/2014.
|
Einar Björn Einarsson og Reynivellir ehf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Ice Lagoon ehf. (Garðar Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Lögbann.
Á grundvelli leigusamnings I ehf. og SF árið 2012 var I ehf. heimilað að hafa aðstöðu í landi jarðarinnar F til siglinga með ferðamenn á Jökulárlóni. E, sem hafði rekið sambærilega þjónustu á sömu jörð frá árinu 2000, krafðist þess með beiðni til sýslumanns að lögbann yrði lagt við starfsemi I ehf. þar sem hún væri í andstöðu við vilja og hagsmuni hans. Meðal annars taldi E að samningur I ehf. við SF væri ólögmætur sökum þess að hann hefði ekki verið samþykktur af öllum eigendum jarðarinnar, en fyrir lá að E og R ehf., sem var í eigu E, ættu tæplega 24% eignarhlut í jörðinni F. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var staðfest ákvörðun sýslumanns um að synja lögbannskröfunni þar sem ekki væru uppfyllt öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að E og R ehf. hefðu þegar árið 2012 mótmælt samningi I ehf. og SF en þrátt fyrir það tilefni ekki gert nokkurn reka að því að fá þessum samningi hnekkt. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 22. október 2014 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Höfn 20. júní 2014 um að synja kröfu sóknaraðila um lögbann. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind ákvörðun sýslumannsins á Höfn verði felld úr gildi og lagt verði fyrir hann að leggja lögbann við starfsemi varnaraðila við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, austan við lónið, á jörðinni Felli, sem felist í útgerð báta frá landi jarðarinnar á Jökulsárlón vegna siglinga með ferðamenn um lónið. Þeir krefjast þess jafnframt að varnaraðila verði gert að fjarlægja öll farartæki sem tilheyra starfsemi hans og eru á jörðinni Felli. Loks krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Eftir að málið var tekið til úrskurðar í héraði 5. september 2014 heldur varnaraðili því fram að hann hafi 13. sama mánaðar hætt starfsemi á jörðinni Felli og fjarlægt þaðan alla lausafjármuni. Tekur varnaraðili fram að þótt hann hafi hætt starfseminni fyrr en hann hefði kosið sé staðreyndin sú að hann hefði í mesta lagi siglt með farþega á Jökulsárlóni út október það ár þar sem ekki sé hægt að sigla á lóninu um hávetur vegna kulda og íss á því. Af þeim sökum telur varnaraðili að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir Hæstarétti og því beri að vísa málinu frá réttinum. Til stuðnings þessu bendir varnaraðili á að lögbann verði lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Þar sem sú athöfn sem lögbannskrafan lýtur að sé um garð gengin sé grundvöllur hennar brostinn. Jafnframt tekur varnaraðili fram að sóknaraðilinn Einar hafi krafist slita á sameign um jörðina Fell og því sé alls óvíst um skiptingu og eignarhald hennar.
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði gerði varnaraðili og Sameigendafélag Fells með sér samning 20. apríl 2012 þar sem varnaraðila var heimilað gegn árlegri leigu að hafa aðstöðu í landi jarðarinnar til siglinga með ferðamenn á Jökulsárlóni. Var tekið fram í samningnum að varnaraðila væri heimilt að vera með færanlegt hýsi við lónið, er nýttist sem aðstaða fyrir starfsfólk og ferðamenn, auk yfirbyggðrar kerru fyrir flotgalla og annan búnað. Þá sagði að varnaraðila væri heimilt að útbúa flotbryggju við lónið þar sem aðstaða yrði fyrir báta. Samningurinn öðlaðist gildi 1. maí 2012 og er uppsegjanlegur í október ár hvert og tekur þá uppsögn gildi 1. janúar næsta ár. Þótt varnaraðili hafi árstíðabundið hætt starfsemi við lónið í september 2014 er ekkert sem kemur í veg fyrir að hann hefji aftur starfsemi á næsta ári á grundvelli samningsins frá 20. apríl 2012, enda mun þeim samningi ekki hafa verið sagt upp. Að þessu gættu hafa sóknaraðilar lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir Hæstarétti og verður kröfu um frávísun þess frá réttinum hrundið.
Með bréfi Sameigendafélags Fells 9. maí 2012 til sóknaraðilans Einars var honum tilkynnt um að gerður hefði verið fyrrgreindur leigusamningur við varnaraðila sem þá hét Must Visit Iceland ehf. Því erindi svaraði lögmaður sóknaraðilans með bréfi 18. sama mánaðar þar sem því var haldið fram að samningurinn væri ólögmætur sökum þess að hann hefði ekki verið samþykktur af öllum eigendum jarðarinnar. Þrátt fyrir þetta tilefni verður ekki séð að sóknaraðilinn Einar eða sóknaraðilinn Reynivellir ehf., sem mun vera í hans eigu, hafi gert nokkurn reka að því að fá þessum samningi hnekkt. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Einar Björn Einarsson og Reynivellir ehf., greiði óskipt varnaraðila Ice Lagoon ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 22. október 2014.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. september 2014, barst héraðsdómi 26. júní s.á. með kröfu sóknaraðila um úrlausn ágreinings, dags. 24. s.m.
Sóknaraðilar eru Einar Björn Einarsson, Austurbraut 13, Höfn í Hornafirði, og Reynivellir ehf., til heimilis á sama stað.
Varnaraðili er Ice Lagoon ehf., Uppsölum 1, Sveitarfélaginu Hornafirði.
Sóknaraðilar krefjast þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins á Höfn, dags. 20. júní 2014, að synja kröfu sóknaraðila um að lögbann verði lagt við þeirri starfsemi varnaraðila að gera út báta fyrir ferðamenn frá landi jarðarinnar Fells, á Jökulsárlóni, og að öll farartæki sem tilheyri starfseminni, sem eru á jörðinni Felli, verði fjarlægð.
Þá er þess krafist að héraðsdómari leggi fyrir sýslumanninn á Höfn að leggja lögbann við starfsemi varnaraðila við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, austan við lónið, á jörðinni Felli, sem felst í útgerð báta frá landi jarðarinnar á Jökulsárlón vegna siglinga með ferðamenn um lónið. Jafnframt að lagt verði fyrir sýslumann að leggja fyrir varnaraðila í tengslum við lögbannsgerðina að fjarlægja öll farartæki sem tilheyra starfsemi varnaraðila og sem eru á jörðinni Felli.
Enn fremur krefjast sóknaraðilar málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 20. júní 2014 um að synja kröfu sóknaraðila um lögbann. Þá er krafist málskostnaðar „vegna reksturs málsins fyrir sýslumanni og héraðsdómi“.
Málið var þingfest 3. júlí sl. og frestað til 17. s.m., en þá var greinargerð varnaraðila lögð fram og málinu frestað til munnlegs málflutnings 5. september s.á. Ekki reyndist unnt að koma málflutningi við fyrr vegna sumarleyfa.
I
Málsatvik
Helstu málsatvik verða hér rakin samkvæmt því sem leitt verður af gögnum málsins, þ. á m. lögbannsbeiðni sóknaraðila og greinargerð varnaraðila í lögbannsmáli sýslumannsins á Höfn.
Sóknaraðilinn Einar Björn Einarsson hefur frá árinu 2000 rekið í gegnum einkahlutafélag sitt, Jökulsárlón ferðaþjónustu ehf., starfsemi sem felst í því að boðið er upp á siglingar á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi, einkum á svokölluðum hjólabátum, auk þess sem þar er rekinn söluskáli. Fer reksturinn fram í landi jarðarinnar Fells, sem sóknaraðilar eiga samkvæmt þinglýsingarvottorði samtals 23,6605% eignarhlut í (Einar Björn 11,3396% og Reynivellir ehf. 13,3209%), á móti nokkrum fjölda annarra í óskiptri sameign. Hefur hluti landeigenda stofnað með sér félag um eignarhluti sína, Sameigendafélag Fells, en sóknaraðilar eru ekki meðal þeirra. Félagið Reynivellir ehf. er, samkvæmt því sem greinir í lögbannsbeiðni, í eigu sóknaraðilans Einars Björns.
Sóknaraðilinn Einar Björn hefur, samkvæmt samningi við Sameigendafélag Fells, sem gerður var 23. október 2000 og gildir til loka ársins 2024, „afnot [...] af hluta svæðisins á og við Jökulsárlón“ í landi jarðarinnar, gegn árlegri leigugreiðslu. Er í samningnum vísað til þess að leigutaki, sem sé meðal eigenda jarðarinnar, reki þjónustu fyrir ferðamenn með siglingum um lónið og rekstri söluskála við það. Er í samningnum tilgreint að til staðar séu við gerð samningsins 146 fermetra söluskáli, 20 fermetra sumarhús, vörugeymsla/gámur og bryggja/landgangur.
Varnaraðili er einkahlutafélag sem bar áður heitið Must Visit Iceland ehf. og mun hafa verið stofnað formlega á árinu 2011. Kveðst varnaraðili þó allt frá árinu 2010 hafa átt í samskiptum við Sameigendafélag Fells með það fyrir augum að hefja siglingar á Jökulsárlóni í samkeppni við sams konar starfsemi sem þar sé fyrir rekin. Gerðu varnaraðili og sameigendafélagið með sér samning 20. apríl 2012 þar sem varnaraðila er, gegn árlegri leigugreiðslu, heimilað að hafa aðstöðu í landi jarðarinnar til siglinga með ferðamenn á Jökulsárlóni „á tveimur sérútbúnum slöngubátum auk sérstaks öryggisbáts“. Er þar kveðið á um að leigutaka sé heimilt að vera með færanlegt hýsi, t.d. hjólhýsi, við lónið, sem nýtist sem aðstaða fyrir starfsfólk og móttaka fyrir ferðamenn, auk yfirbyggðrar kerru fyrir flotgalla og annan búnað. Þá sé leigutaka heimilt að útbúa flotbryggju við lónið. Gildir samningur þessi frá 1. maí 2012 og framlengist hann sjálfkrafa um ár í senn, sé honum ekki sagt upp í samræmi við ákvæði samningsins.
Ekki er þörf vegna þess ágreinings sem hér er til umfjöllunar að rekja nánar efni samninga þessara, en samningur sóknaraðilans Einars Björns frá árinu 2000 er rakinn í heild í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. júní 2014 í máli nr. E-4092/2013, sem vikið verður að síðar.
Vegna andstöðu sóknaraðilans Einars Björns kveðst varnaraðili framan af, eða allt frá árinu 2011, hafa gert rekstur sinn út frá þjóðlendu á vesturbakka lónsins, uns Sveitarfélagið Hornafjörður meinaði honum þá starfsemi, fyrst vorið 2013 og aftur vorið 2014.
Hinn 11. júní 2014 kveðast sóknaraðilar hafa orðið þess varir að varnaraðili hefði komið upp starfsemi við lónið, á jörðinni Felli, og hafið siglingar um lónið með ferðamenn á tveimur gúmmíbátum, en auk bátanna fylgdu starfseminni öryggisbátur, hjólhýsi, eftirvagn og rúta.
Með beiðni, dags. 13. júní 2014, kröfðust sóknaraðilar þess að sýslumaðurinn á Höfn legði lögbann við starfsemi varnaraðila við Jökulsárlón, á jörðinni Felli og legði jafnframt fyrir vararaðila að fjarlægja öll farartæki sem tilheyrðu starfseminni af jörðinni Felli. Mótmælti varnaraðili kröfum sóknaraðila.
Sýslumaður hafnaði kröfu sóknaraðila 20. júní sl. Í endurriti úr fógetabók embættis sýslumanns kemur fram að fallist sé á það með sóknaraðilum að varnaraðili „þurfi almennt að hafa samþykki allra sameigenda jarðarinnar Fells, til að geta stundað atvinnustarfsemi á jörðinni og að starfsemi hans þar sé í andstöðu við vilja og hagsmuni [sóknaraðila]“. Engu að síður taldi sýslumaður lagaskilyrðum ekki fullnægt til að lögbann næði fram að ganga. Er í rökstuðningi sýslumanns sérstaklega á því byggt að 1. og 2. tl. [3.] mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. ættu við, þ.e. að réttarreglur um skaðabætur tryggðu hagsmuni sóknaraðila og að stórfelldur munur væri á hagsmunum aðila, sóknaraðilum í hag.
Fyrr þann sama dag, 20. júní 2014, var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli nr. E-4092/2013 þar sem fjallað var um kröfur Sameigendafélags Fells um að staðfest yrði riftun leigusamnings þess við sóknaraðilann Einar Björn frá árinu 2000 og um skaðabætur úr hendi hans, en til vara að samningurinn yrði ógiltur eða ákvæði hans um leigufjárhæð yrði vikið til hliðar. Með dóminum var öllum kröfum sameigendafélagsins hafnað. Dóminum hefur verið áfrýjað.
Með bréfi, dags. 23. júní 2014, tilkynntu sóknaraðilar sýslumanninum á Höfn að ákvörðun hans yrði borin undir héraðsdóm og barst beiðni sóknaraðila um úrlausn ágreinings héraðsdómi 26. s.m., eins og fyrr sagði.
Meðal gagna málsins er bréf Samkeppniseftirlitsins, dags. 11. júlí 2014, þar sem tilkynnt er um lok athugunar þess á máli vegna kvörtunar varnaraðila frá 14. nóvember 2012 yfir ætluðum samkeppnislagabrotum einkahlutafélags sóknaraðilans Einars Björns, Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Kemur fram í bréfinu að ákvörðun um að hætta rannsókn málsins hafi byggst á sjónarmiðum um forgangsröðun mála hjá stofnuninni og að í niðurstöðunni felist ekki afstaða til stöðu eða háttsemi Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. á hugsanlegum samkeppnismarkaði þess máls eða eigenda þess landrýmis þar sem starfsemi þess fer fram.
Þá eru meðal málsgagna tvær kærur varnaraðila til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. og 27. ágúst 2014, þar sem kærðar eru ákvarðanir Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 15. og 26 s.m. Liggja þær ákvarðanir ekki fyrir í málinu, en af kærunum verður ráðið að þær, eða a.m.k. síðari ákvörðunin, lúti að því að varnaraðila beri að fjarlægja hjólhýsi og „húskerru“ af austurbakka Jökulsárlóns, að viðlögðum dagsektum, þar sem stöðuleyfi liggi ekki fyrir.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Í beiðni sóknaraðila til héraðsdóms um úrlausn ágreinings, sem hér eftir verður vísað til sem greinargerð sóknaraðila, er um málsástæður og lagarök vísað til lögbannsbeiðni sóknaraðila, auk þeirra málsástæðna sem í greinargerðinni eru taldar og hér verða fyrst raktar.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili telji þá lagalegu ályktun sýslumanns, að réttarreglur um skaðabætur tryggi hagsmuni sóknaraðila nægjanlega, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., ekki standast. Ljóst sé að hin ólögmæta athöfn varnaraðila að viðhafa starfsemi við Jökulsárlón sé viðvarandi og brjóti gróflega gegn rétti sóknaraðila. Með starfsemi sinni hafi varnaraðili viðskipti af sóknaraðila Einari Birni, sem sé með lögmæta starfsemi í formi einkahlutafélags við Jökulsárlón reista á fullgildum samningi við Sameigendafélag Fells frá árinu 2000, samningi sem héraðsdómur hafi hafnað hinn 20. júní 2014 að staðfesta riftun á. Nær ómögulegt sé að átta sig á umfangi tjóns sóknaraðila Einars Björns og einkahlutafélags hans vegna starfsemi varnaraðila, eða umbreyta því í tölulegar fjárhæðir, auk þess sem hluti tjónsins felist í skaða á viðskiptavild, sem aldrei sé hægt að breyta í tölur. Starfsemi varnaraðila villi augljóslega um fyrir ferðamönnum og viðskiptavinum en sóknaraðilinn Einar Björn hafi markaðssett starfsemi sína erlendis undir nafninu Ice Lagoon og sé eigandi að léninu icelagoon.is. Þá sé enn fremur ýmiss konar annað tjón af nábýlinu við varnaraðila, meðal annars vegna skorts á salernisaðstöðu hjá varnaraðila, sem valdi því að viðskiptavinir varnaraðila leiti til sóknaraðila varðandi þau mál.
Þá fari starfsemi varnaraðila enn fremur gegn hagsmunum sóknaraðilans Reynivalla ehf. sem ekkert endurgjald fái fyrir starfsemina, enda hafi varnaraðili ekkert greitt til Reynivalla ehf. fyrir afnotin heldur aðeins til Sameigendafélagsins Fells, sem fari í mesta lagi með um 76% eignarhluta í Felli.
Enn fremur sé tjón beggja sóknaraðila, sem jarðeigenda, óafturkræft vegna þess utanvegaaksturs sem varnaraðili viðhafi til að aka ferðamönnum að flotbryggju norðan við starfsemi sóknaraðilans Einars Björns. Sé utanvegaaksturinn staðfestur með ljósmyndum sem fylgi málskoti þessu en með honum sé m.a. ekið yfir kríuvarp. Ein þessara ljósmynda hafi verið lögð fram við fyrirtekt málsins hjá sýslumanni.
Loks sé alfarið óvíst hver geta og vilji varnaraðila sé til að greiða háar skaðabætur til sóknaraðila verði yfir höfuð talið að hægt sé að ákvarða þær. Þannig sé varnaraðili einkahlutafélag með takmarkaðri ábyrgð, 500.000 króna hlutafé og fjárhagsstaða varnaraðila ekki slík að séð verði að hann gæti greitt slíkar bætur. Allar líkur séu á að yrði hann dæmdur bótaskyldur færi félagið í þrot.
Í fræðum og framkvæmd hafi verið lagt til grundvallar að aðeins komi til álita að synja um lögbann þegar skaðabætur geti komið þar í stað ef þær bætur bæti tjón tjónþola að fullu. Við blasi af framangreindu að tjón sóknaraðila af hinni ólögmætu starfsemi varnaraðila verði aldrei bætt að fullu. Verði því að hnekkja niðurstöðu sýslumanns hvað þetta varði.
Sýslumaður byggi niðurstöðu sína um að synja lögbanni enn fremur á því að stórfelldur munur sé á hagsmunum varnaraðila af því að starfsemi hans á Jökulsárlóni fari fram og hagsmunum sóknaraðila af að fyrirbyggja hana, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Nálgun sýslumanns hvað þetta varði standist engan veginn af tveimur ástæðum.
Í fyrsta lagi sé ljóst að ákvæði þetta geti aðeins átt við í mjög þröngum undantekningartilvikum þegar hagsmunir gerðarbeiðanda eru mjög smávægilegir andspænis hagsmunum gerðarþola. Hér eigi það ekki við. Hagsmunir sóknaraðila í þessu máli af því að starfsemi varnaraðila verði stöðvuð séu miklir, enda valdi varnaraðili sóknaraðila óbætanlegu tjóni með hinni ólögmætu starfsemi sinni. Hagsmunir varnaraðila séu eflaust töluverðir einnig en aldrei meiri en hagsmunir sóknaraðila, hvað þá að á þeim hagsmunum sé stórfelldur munur varnaraðila í hag, eins og sýslumaður leggi til grundvallar.
Auk þess geti sýslumaður vart farið leið þessa ákvæðis nema að gerðarþolinn, þ.e. varnaraðili, verði látinn setja einhvers konar tryggingu fyrir því tjóni sem hin ólögmæta starfsemi valdi gerðarbeiðanda, þ.e. sóknaraðilum. Segi um þetta í 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 in fine að ef til álita kemur að synja lögbanni af þessum ástæðum verði gerðarþoli að setja eftir atvikum „tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.“ Að þessu hafi sýslumaður í engu gætt, þvert á lagaákvæðið.
Með vísan til framanritaðs beri að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns frá 20. júní 2014 og mæla fyrir um að hann skuli leggja hið umkrafða lögbann á. Þá beri að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðilum málskostnað að skaðlausu.
Eins og fyrr sagði er í greinargerð sóknaraðila jafnframt vísað til lögbannsbeiðni þeirra um málsástæður. Er þar lýst málsástæðum sem lúta að því að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991 til að leggja á lögbann sé fullnægt. Var þessum málsástæðum jafnframt haldið fram við munnlegan flutning málsins og eru þær helstu eftirfarandi:
Sóknaraðilar byggja á því að samningur varnaraðila við Sameigendafélag Fells frá árinu 2012 gangi í berhögg við vilja sóknaraðila og samningsbundin réttindi sóknaraðilans Einars Björns samkvæmt leigusamningi hans við sameigendafélagið, sem geri ekki ráð fyrir samkeppnisrekstri á hinu leigða svæði eða annars staðar á jörðinni Felli. Þá sé starfsemi varnaraðila í algerri andstöðu við nýsamþykkt deiliskipulag fyrir svæðið, sem meðal annars geri ráð fyrir takmarkaðri umferð bíla, báta og annarra tækja vegna rekstrar bátasiglinga á Jökulsárlóni. Enn fremur sé samningur varnaraðila við Sameigendafélag Fells frá árinu 2012 ólögmætur, þegar af þeirri ástæðu að hvers kyns ráðstöfun og útleiga á hluta jarðarinnar Fells feli í sér ráðstöfun sem krefjist samþykkis allra sameigenda að jörðinni. Vísa sóknaraðilar þar um til meginreglna eignaréttar um sérstaka sameign, en ráðstöfun með nefndum samningi sé fráleitt bagalaus fyrir sóknaraðilann Einar Björn, sem hafi lífsviðurværi sitt af siglingum með ferðamenn um lónið og höggvi starfsemi varnaraðila stórt skarð í starfsemi hans. Réttindi Einars Björns muni tvímælalaust fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til þess að bíða dóms um réttindi sín.
Með bókun, sem lögð var fram við upphaf þinghalds þann 5. september sl., tefldi sóknaraðili fram nýrri málsástæðu, sem hann kvað ekki hafa verið tilefni til að byggja á fyrr, til viðbótar þeim málsástæðum sem byggt hafi verið á í málskoti til héraðsdóms og í lögbannsbeiðni. Byggir sóknaraðili á því að starfsemi varnaraðila sé ólögmæt þar sem hann hafi ekki fengið útgefið stöðuleyfi fyrir lausafjármunum þeim sem hann sé með á jörðinni Felli og tilheyri starfsemi hans, sbr. ákvæði kafla 2.6 byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sem sett sé með stoð í 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Um sé að ræða tvo gúmmíbáta, öryggisbát og hjólhýsi. Samkvæmt gr. 2.6.1 í byggingarreglugerðinni þurfi stöðuleyfi til að láta lausafjármuni sem þessa standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra muna. Hinn 11. ágúst 2014 hafi þessir tveir mánuðir verið liðnir hvað varnaraðila varði, en óumdeilt sé að hann hafi hafið starfsemi sína [í landi jarðarinnar Fells] 11. júní 2014. Starfsemi varnaraðila á svæðinu sé því ólögmæt sem leiði þegar til þeirrar niðurstöðu að verða skuli við kröfum sóknaraðila í málinu.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hafnar því að lagaskilyrði séu til að verða við lögbannsbeiðni sóknaraðila og byggir í fyrsta lagi á því að aðildarskortur til sóknar eigi að leiða til þess að orðið verði við dómkröfu hans um staðfestingu ákvörðunar sýslumanns um synjun lögbanns. Bendir varnaraðili á að í lögbannsbeiðni séu þeir hagsmunir sem sóknaraðilar haldi fram að athöfn varnaraðila raski rökstuddir með vísan til reksturs sóknaraðilans Einars Björns. Ljóst sé að Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. stundi þann rekstur sem fjallað sé um í lögbannsbeiðni sóknaraðila. Vísar varnaraðili þar um til framlagðra ársreikninga þess félags, sem og til greinargerðar sóknaraðila. Það hljóti því að vera sá aðili sem fari með þá hagsmuni sem sóknaraðilar segi að varnaraðili sé að brjóta gegn í lögbannsbeiðninni. Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. sé ekki aðili að lögbannsbeiðninni og geti skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því ekki talist uppfyllt.
Í öllu falli hljóti lögbannsbeiðni sóknaraðila að vera svo vanreifuð hvað þetta atriði varði, þ.e. ekki sé reynt að gera grein fyrir því gegn hvaða hagsmunum sóknaraðila varnaraðili eigi að vera að brjóta, að ekki verði hjá því komist að staðfesta niðurstöðu sýslumanns, enda uppfylli beiðnin ekki af þessum sökum skilyrði 1. mgr. 24. gr., sbr. 3. tölul. 1. mgr. 26. gr., laga nr. 31/1990.
Í þessu sambandi vilji varnaraðili vekja athygli á umfjöllun neðst á bls. 2 í greinargerð sóknaraðila. Þar sé því haldið fram að tjón sóknaraðila sem jarðeigenda sé óafturkræft vegna utanvegaaksturs varnaraðila. Varnaraðili hafni því alfarið að hann stundi nokkurn akstur utan vega. Á þeim ljósmyndum, sem sóknaraðilar vísi til í greinargerð sinni, sjáist greinilega vegslóði sem varnaraðili hafi fengið leyfi frá meirihluta Sameigendafélags Fells til að keyra. Raunar hafi það komið fram í máli fulltrúa sýslumanns við fyrirtöku málsins að hann teldi um augljósan vegslóða að ræða. Burtséð frá þessu sé ljóst að í lögbannsbeiðni sóknaraðila sé ekki byggt á því að varnaraðili sé með þessu að brjóta gegn hagsmunum sóknaraðila og komi sá rökstuðningur því ekki til álita, enda þurfi að greina þegar í lögbannsbeiðni þá hagsmuni sem gerðarbeiðandi telji þá athöfn, sem krafist sé lögbanns á, brjóta gegn, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Í öðru lagi kveðst varnaraðili, verði talið að sóknaraðilar séu þrátt fyrir framangreint réttir aðilar að hinni umdeildu lögbannsbeiðni, byggja á því að hann brjóti ekki gegn lögvörðum rétti sóknaraðila í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Varnaraðili sé með gildan leigusamning við Sameigendafélag Fells, þ.e.a.s. meira en 2/3 hluta eigenda að jörðinni Felli, til að stunda þá athöfn sem krafist sé lögbanns á. Í samræmi við meginreglur eignaréttar um sérstaka sameign, sbr. til hliðsjónar 1. tölul. b-liðar 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, nægi sá eignarhluti til þeirrar ráðstöfunar að leigja varnaraðila lítinn hluta úr landinu við bakka Jökulsárlóns, í stuttan tíma í senn, til að stunda þar atvinnurekstur, sem varnaraðili hafi öll tilskilin leyfi til að stunda. Geti þessi ákvörðun Sameigendafélags Fells hvorki talist óvenjuleg né meiri háttar í skilningi eignaréttar. Þess utan hafi sóknaraðilinn Einar Björn lýst því yfir að Sameigendafélagið Fell hefði allan annan rétt til tekjuöflunar og landnýtingar á jörðinni utan þeirrar lóðar sem honum yrði leigð, sbr. bréf hans til allra eigenda jarðarinnar Fells frá 3. maí 2000. Hafi loforð þetta verið skilyrði þess að gerður yrði við hann leigusamningur um þá starfsemi sem Jökulsárlón ferðaþjónusta [ehf]. stundi nú. Það sé enda óviðunandi aðstaða að einn landeigenda gangi til samninga við meirihluta eigenda um landnýtingu en ætli síðan sjálfur að banna alla þá landnýtingu sem honum þóknist ekki. Sóknaraðili Einar Björn hafi þannig eftirlátið öðrum landeigendum að taka ákvarðanir um frekari landnýtingu og verði hann að beygja sig undir vilja meirihluta landeigenda í þeim efnum.
Jafnvel þótt talið yrði að meginreglur eignaréttar um sérstaka sameign myndu almennt leiða til þess að samþykki allra eigenda þyrfti til að samþykkja athöfn varnaraðila, þá kveðst varnaraðili byggja á því að reglur samkeppnisréttar leiði til þess að sóknaraðilar geti ekki beitt eignarhlut sínum með þessum hætti. Vísar varnaraðili nánar um þetta til greinargerðar sinnar í lögbannsmálinu þar sem færð eru fyrir því rök að félag í eigu sóknaraðilans Einars Björns, Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., misnoti markaðsráðandi stöðu sína í andstöðu við samkeppnislög og að sóknaraðilar geti ekki átt lögvarinn rétt til þess að nota eignarhlut sinn til að koma í veg fyrir samkeppni við félag í sinni eigu.
Þá kveðst varnaraðili hafna því alfarið að leigusamningur hans brjóti með einhverjum hætti gegn leigusamningi sóknaraðila Einars við Sameigendafélag Fells eða að starfsemi hans sé í andstöðu við nýsamþykkt deiliskipulag. Vísar varnaraðili þar um til greinargerðar sinnar í lögbannsmálinu, þar sem m.a. er vikið að því að hvergi komi fram að umræddur samningur sé einkaleyfissamningur til handa sóknaraðilanum um siglingar á lóninu og bent á að varnaraðili sé ekki að nýta sömu lóð og sóknaraðilinn. Hvað deiliskipulagið varðar er þar bent á að varnaraðili sé einungis með færanlega lausafjármuni á jörðinni sem ekki þurfi byggingarleyfi fyrir og geti framkvæmdir hans því ekki stangast á við deiliskipulag.
Enn fremur hafi ekki verið sýnt fram á að Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna samkeppnisreksturs varnaraðila, en þess beri að gæta að tekjur þess einkahlutafélags vegna skemmtiferðabáta hafi aukist úr 188.935.367 krónum árið 2011 í 249.558.962 krónur árið 2012 samkvæmt ársreikningum. Á þessum tíma hafi varnaraðili stundað sama atvinnurekstur og krafist sé lögbanns fyrir í þjóðlendu á vesturbakka lónsins. Sóknaraðilar hafi í engu reynt að útskýra hvernig samkeppni varnaraðila muni valda spjöllum á réttindum þeirra eða Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Hljóti að hafa verið ríkt tilefni til að styðja framangreint nánari rökum og sönnunargögnum í ljósi þess hve mikil aukning hafi orðið á tekjum Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Þannig sé alls ekki útilokað að sú háttsemi Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. að hefja sömu starfsemi og varnaraðili 2011, þ.e. ferðir með slöngubátum, kunni að hafa skilað sér í auknum tekjum einkahlutafélagsins, en varnaraðili telji ljóst að félagið hefði ekki ráðist í þá starfsemi nema til að svara samkeppni varnaraðila.
Að lokum minni varnaraðili á að sóknaraðilum hafi verið kunnugt um samning varnaraðila frá því að hann var gerður í apríl árið 2012. Hafi sóknaraðilar talið hann ólögmætan hefði þeim verið í lófa lagið að bera gildi hans þá þegar undir dómstóla. Það hafi sóknaraðilar ekki gert og geti ekki nú, rúmlega tveimur árum seinna, krafist lögbanns við starfseminni sem leigusamningurinn geri ráð fyrir. Engir aðkallandi hagsmunir séu því fyrir hendi sem réttlætt geti lögbann.
Í þriðja lagi kveðst varnaraðili byggja á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði lögbanns skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að réttindi gerðarbeiðanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Vísar varnaraðili þar um til röksemda á bls. 4-5 í greinargerð hans hjá sýslumanni, en þær röksemdir hafa ýmist þegar verið raktar hér að framan eða verða hér raktar í framhaldinu. Lúta þessar röksemdir að því að hagsmunir í málinu tilheyri ekki sóknaraðilum heldur Jökulsárlóni ferðaþjónustu ehf., að ekki sé sýnt fram á að það fyrirtæki hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna samkeppnisrekstursins, að engir aðkallandi hagsmunir réttlæti lögbann tveimur árum eftir gerð samnings varnaraðila við Sameigendafélag Fells og loks að rangt og ósannað sé að starfsemi varnaraðila skaði einhverja viðskiptavild sóknaraðila eða Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf.
Í fjórða lagi kveðst varnaraðili sammála því mati sýslumanns að réttarreglur um skaðabætur tryggi nægilega hagsmuni sóknaraðila, ef þeir yrðu á annað borð taldir fyrir hendi. Þar af leiðandi standi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að skilyrði séu til að leggja á lögbann.
Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að með starfsemi sinni hafi varnaraðili viðskipti af sóknaraðila Einari sem sé með lögmæta starfsemi í formi einkahlutafélags við Jökulsárlón, reista á samningi við Sameigendafélag Fells. Hvað þetta varði bendi varnaraðili í fyrsta lagi á það sem fyrr var rakið um aðildarskort að lögbannsbeiðninni. Þeir hagsmunir sem lýst sé með þessum hætti séu hagsmunir Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. en ekki sóknaraðila Einars. Hlutafélög séu sjálfstæðir aðilar að lögum og verði skilin milli félaganna og eigenda þeirra ekki afmáð með þessum hætti.
Í annan stað sé það varnaraðili sem fyrst hafi fengið starfsleyfi frá Siglingastofnun til að sigla með ferðamenn á svokölluðum Zodiac-bátum og hafið að markaðssetja þá þjónustu. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að varnaraðili hóf að bjóða upp á þessa þjónustu sem Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. hafi farið að bjóða upp á sömu þjónustu, væntanlega til að svara, og jafnvel eyða, hugsanlegri samkeppni frá varnaraðila. Þannig sé ekki með nokkrum hætti hægt að tala um að Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., hvað þá sóknaraðilar, séu að verða fyrir einhverju tjóni vegna starfsemi varnaraðila. Þvert á móti kunni svar Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. við samkeppni varnaraðila að hafa skilað sér í auknum tekjum félagsins, en tekjur þess hafa aukist ár frá ári eftir að varnaraðili hóf áðurnefnda starfsemi.
Í þriðja og síðasta lagi sé ljóst að þeir hagsmunir, sem sóknaraðilar telji sig hlunnfarna um, felist í tjóni vegna missis hagnaðar. Það séu augljóslega fjárhagslegir hagsmunir sem skaðabótum sé ætlað að tryggja. Þótt erfitt geti verið að ákvarða nákvæmlega umfang tjóns vegna missis hagnaðar þá sé til yfirgripsmikil réttarframkvæmd um það hvernig dæma eigi bætur fyrir slíkt tjón.
Þá sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að starfsemi varnaraðila sé að skaða viðskiptavild sóknaraðila. Í þessu sambandi sé þess fyrst að gæta að Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. sé ekki aðili að lögbannsbeiðninni, en vandséð sé að sóknaraðilar geti persónulega haft einhverja viðskiptavild. Að öðru leyti sé ekki reynt að rökstyðja eða sanna hvernig háttsemi varnaraðila sé að skaða viðskiptavild sóknaraðila eða Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Notkun varnaraðila á heitinu Ice Lagoon, sem sé ekkert annað en enskt heiti yfir Jökulsárlón, hafi þegar verið deiluefni milli varnaraðila og Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Skemmst sé frá því að segja að í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 2/2013 að varnaraðili væri hvorki að notfæra sér viðskiptavild Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. né auðkenni þess með ólögmætum hætti. Þessum úrskurði hafi ekki verið skotið til dóms innan tilsettra tímamarka, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 57/2005.
Þá sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að skortur sé á salernisaðstöðu hjá varnaraðila og að hann valdi því að viðskiptavinir varnaraðila leiti til sóknaraðila varðandi þau mál. Varnaraðili sé með hjólhýsi sem í sé salerni sem viðskiptavinir hans noti og hafi þessi aðstaða ekki fengið athugasemdir frá hlutaðeigandi yfirvöldum. Þess utan fái varnaraðili ekki séð að sóknaraðilar gætu orðið fyrir tjóni vegna þessa.
Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að starfsemi varnaraðila fari gegn hagsmunum sóknaraðila Reynivalla hf. sem ekkert endurgjald fái fyrir starfsemina. Varðandi þetta atriði bendi varnaraðili í fyrsta lagi á að hann hafi staðið við allar leigugreiðslur sínar til Sameigendafélags Fells. Hafi sóknaraðilar af einhverjum ástæðum ekki fengið sína hlutdeild í greiðslunum til sameigendafélagsins verði þeir að eiga það við félagið. Í annan stað sé ljóst að umræddir hagsmunir séu augljóslega fjárhagslegir og hæglega hægt að bæta með skaðabótum.
Varðandi ætlað óafturkræft tjón sóknaraðila sem landeigenda vegna utanvegaaksturs ítrekar varnaraðili fyrri umfjöllun um að augljóst sé að varnaraðili stundi ekki akstur utan vega, auk þess sem þessi rökstuðningur komi ekki fram í lögbannsbeiðni og komi því ekki til álita.
Að lokum haldi sóknaraðilar því fram að fjárhagsstaða varnaraðila sé slík að ekki fáist séð að hann gæti greitt skaðabætur vegna meints tjóns sóknaraðila. Varnaraðili kveðst mótmæla þessu. Rekstur varnaraðila sé í góðu horfi eins og tilvitnaðir ársreikningar segi til um. Raunar væri rekstur varnaraðila í ennþá betra horfi ef Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. stundaði eðlilega samkeppni á markaðnum. Þá verði að teljast ótækt að styðjast við einhverjar dylgjur sóknaraðila hvað þetta atriði varði. Sóknaraðilar segi sjálfir að „ómögulegt [sé] að átta sig á umfangi tjóns sóknaraðila“ en telji sig þó geta fullyrt að varnaraðili geti ekki greitt þetta tjón. Í raun sé ekki um neitt annað að ræða en getgátur sóknaraðila sem eigi sér ekki stoð í neinum gögnum.
Í fimmta lagi kveðst varnaraðili sammála því mati sýslumanns að stórfelldur munur sé á hagsmunum hans, sem felist í því að fá að stunda atvinnurekstur yfir höfuð, og hagsmunum sóknaraðila, sem felist væntanlega í því að geta stundað einokunarstarfsemi miðað við málatilbúnað sóknaraðila. Því standi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að skilyrði séu til að leggja á lögbann. Vísar varnaraðili hvað þetta varðar til umfjöllunar á bls. 5-6 í greinargerð sinni í lögbannsmálinu, en þar bendir varnaraðili á að tekjur Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. hafi aukist ár frá ári og hreinn hagnaður félagsins sé hár. Enn fremur er þar bent á að hagsmunir varnaraðila haldist í hendur við almannahagsmuni vegna samkeppnissjónarmiða.
Í greinargerð varnaraðila, kafla um málsástæður og lagarök, kemur fram að verði af einhverjum ástæðum fallist á lögbannsbeiðni sóknaraðila geri varnaraðili þá kröfu að sýslumanni verði einungis gert að leggja á lögbann að viðlagðri umtalsverðri tryggingu samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 31/1990. Er ekki að sjá að þessari kröfu, þótt hún komi fram á greindum stað, sé haldið uppi sem dómkröfu í máli þessu og verður ekki frekar um hana fjallað.
Til stuðnings kröfu um málskostnað kveðst varnaraðili vísa til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Fer varnaraðili sérstaklega fram á það að tekið verði tillit til ferðakostnaðar umboðsmanns hans, sbr. d-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
Við munnlegan flutning málsins mótmælti varnaraðili þeirri málsástæðu, sem borin var fram í því þinghaldi og lýtur að stöðuleyfisskyldu lausafjármuna, sem of seint fram kominni, auk þess sem henni var andmælt efnislega.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu, sem réttilega er borið undir dóminn á grundvelli V. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., innan þess frests og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 33. gr. laganna, er deilt um þá ákvörðun sýslumannsins á Höfn að synja kröfu sóknaraðila um að lagt verði lögbann við þeirri starfsemi varnaraðila að gera út báta fyrir ferðamenn á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi, frá landi jarðarinnar Fells. Taldi sýslumaður skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. fyrir lögbanni ekki uppfyllt og verður af bókun í gerðabók sýslumanns ráðið að sú ákvörðun hafi einkum byggst á ákvæðum 1. og 2. tl. 3. mgr. þeirrar lagagreinar.
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar „ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau“. Samkvæmt framangreindu hvílir það á gerðarbeiðanda, hér sóknaraðilum, að sanna eða gera a.m.k. sennilegt að öll framangreind skilyrði til lögbanns séu uppfyllt. Koma ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar ekki til skoðunar nema svo verði talið.
Ekki er um það deilt að sú athöfn sem sóknaraðilar krefjast lögbanns við sé hafin, en varnaraðili hóf að reka starfsemi sína frá landi jarðarinnar Fells þann 11. júní 2014, tveimur dögum áður en sóknaraðilar kröfðust lögbanns. Deilt er hins vegar um það hvort öðrum skilyrðum 1. mgr. 24. gr. fyrir lögbanni sé fullnægt, þ.e. hvort sóknaraðilar hafi sýnt fram á eða gert a.m.k. sennilegt að uppfyllt sé það meginskilyrði lögbanns að brotið sé gegn lögvörðum rétti þeirra og jafnfram að réttindi þeirra muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til að bíða dóms um þau.
Í þessu sambandi byggir varnaraðili sérstaklega á málsástæðu um „aðildarskort til sóknar“, þ.e. því að sóknaraðilar eigi ekki þá hagsmuni sem lögbannsbeiðni sé einkum reist á, heldur Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., sem reki starfsemi við lónið. Séu hagsmunir sóknaraðila sjálfra hins vegar vanreifaðir í lögbannsbeiðni.
Fyrir liggur að sóknaraðilar eru eigendur að samtals ríflega 23% eignarhlut í jörðinni Felli, sem er í óskiptri sameign þeirra og fleiri sameigenda, og eru kröfur þeirra í máli þessu meðal annars reistar á hagsmunum þeirra sem landeigendur. Þá byggir sóknaraðilinn Einar Björn á því að rekstur varnaraðila brjóti í bága við samningsbundin réttindi hans, þ.e. réttindi samkvæmt samningi hans við Sameigendafélag Fells frá árinu 2000, sem hann kveður „ekki [gera] ráð fyrir samkeppnisrekstri á hinu leigða svæði eða annars staðar á jörðinni Felli“. Stendur sá samningur enn óhaggaður samkvæmt áður nefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. júní sl., en dómnum hefur verið áfrýjað. Þá er ómótmælt staðhæfingum sóknaraðila um að hlutafé í Jökulsárlóni ferðaþjónustu ehf. sé að öllu leyti í eigu sóknaraðilans Einars Björns, eins og framlagðir ársreikningar þess félags vegna áranna 2011 og 2012 bera með sér. Eins og málið liggur fyrir verður að telja sóknaraðila hafa gert nægjanlega grein fyrir því, bæði við rekstur lögbannsmálsins og hér fyrir dómi, hver sá réttur þeirra sé sem þeir telja brotið gegn með starfsemi varnaraðila. Verður framangreindum málsástæðum varnaraðila sem lúta að aðildarskorti og vanreifun í lögbannsbeiðni því hafnað.
Lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun sem ekki á að beita í tilvikum þar sem almenn úrræði geta komið að haldi. Er það því eitt af skilyrðum þess að fallist verði á kröfu um lögbann að gerðarbeiðandi sýni fram á eða geri sennilegt að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Þrátt fyrir að báðir sóknaraðilar styðji kröfur sínar við að brotið hafi verið gegn lögvörðum rétti þeirra þegar við gerð samnings milli varnaraðila og Sameigendafélags Fells, dags. 20. apríl 2012, verður ekki annað séð en að hvorugur þeirra hafi aðhafst til þess að fá þeim samningi hnekkt. Verður ekki hjá því litið við mat um það hvort skilyrði til lögbanns, einkum samkvæmt niðurlagsákvæði nefndrar lagagreinar, séu uppfyllt.
Réttindi þau sem varnaraðila eru veitt til að hafa aðstöðu við Jökulsárlón í landi jarðarinnar Fells, samkvæmt samningi hans við Sameigendafélag Fells frá árinu 2012, eru takmörkuð við að hafa þar lausafé, svo sem báta, hjólhýsi og flotbryggju, sem ætla má að auðvelt sé að fjarlægja af landinu með skömmum fyrirvara, án teljandi röskunar. Er aðstaðan að því leyti áþekk þeirri sem uppi var í því máli sem var til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar frá 12. mars 2001 í máli nr. 84/2001, þar sem hafnað var kröfu um að lagt yrði lögbann við yfirvofandi framkvæmdum við gerð göngustígs, með þeim rökum að sóknaraðilar hefðu ekki gert sennilegt að réttindi þeirra færu forgörðum eða yrðu fyrir teljandi spjöllum þótt beðið yrði dóms um ágreininginn. Án þess að hér sé tekin nokkur afstaða til þess hvort sóknaraðilar hafi sýnt fram á eða gert sennilegt að brotið hafi verið gegn lögvörðum rétti þeirra sem landeigenda er Sameigendafélag Fells gekk til samnings við varnaraðila á árinu 2012, verður ekki séð að réttindi sóknaraðila þessu tengd muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til að bíða dóms um þau. Réttur til hlutdeildar í umsömdu endurgjaldi fyrir afnot varnaraðila af landi Fells varðar innbyrðis lögskipti sameigenda jarðarinnar og geta vanhöld þar á ekki falið í sér brot varnaraðila gegn réttindum sóknaraðila.
Framlagðir ársreikningar Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf., einkahlutafélags sóknaraðilans Einars Björns, sem sýna vaxandi tekjur félagsins milli áranna 2010, 2011 og 2012, styðja ekki fullyrðingar þess efnis að fyrirtækið hafi orðið fyrir eða muni verða fyrir teljandi fjárhagslegum spjöllum vegna starfsemi varnaraðila, sem rekin hefur verið í samkeppni við sóknaraðila frá árinu 2011. Önnur gögn því til stuðnings hafa sóknaraðilar ekki lagt fram. Stoðar það ekki sóknaraðila að láta nægja að vísa til þess að samkeppnisrekstur varnaraðila skerði augljóslega hlutdeild fyrirtækis Einars Björns í tekjum af ferðamönnum sem heimsækja Jökulsárlón, enda telst það almennt ekki lögvarinn réttur að vera laus við samkeppni í viðskiptum. Hefur sóknaraðilinn Einar Björn, gegn andmælum varnaraðila, ekki gert viðhlítandi grein fyrir því í máli þessu á hvern hátt hann telji starfsemi varnaraðila í landi Fells, sem fram fer á grundvelli samnings varnaraðila við Sameigendafélag Fells frá árinu 2012, brjóta gegn þeim réttindum til aðstöðu við Jökulsárlón í landi jarðarinnar sem honum eru, gegn leigugjaldi, tryggð í samningi hans við sama félag frá árinu 2000. Hefur sóknaraðilum heldur ekki tekist að gera sennilegt að réttindi sóknaraðilans Einars Björns þessu tengd muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.
Staðhæfingar sóknaraðila um að starfsemi varnaraðila brjóti gegn öðrum þeim réttindum eða hagsmunum sem þeir tefla fram, svo sem að hún valdi mögulega skaða á viðskiptavild og hættu á ruglingi vegna léna, eiga sér hvorki næga stoð í gögnum málsins né hafa sóknaraðilar gert sennilegt að réttindi þessu tengd muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði sóknaraðilinn Einar Björn knúinn til að bíða dóms um þau. Hið sama er að segja um málsástæður sem lúta að ætlaðri notkun viðskiptavina varnaraðila á salernisaðstöðu hjá ferðaþjónustufyrirtæki sóknaraðilans Einars Björns, sem og ætluðum utanvegaakstri varnaraðila í landi jarðarinnar Fells, en síðastnefnd málsástæða telst ekki of seint fram komin. Þá hefur málsástæða sóknaraðila sem lýtur að því að starfsemi varnaraðila brjóti í bága við deiliskipulag lítt sem ekkert verið studd rökum eða gögnum. Verður þessum málsástæðum öllum hafnað.
Loks tefla sóknaraðilar fram þeirri málsástæðu að starfsemi varnaraðila sé ólögmæt þar sem Sveitarfélagið Hornafjörður hafi synjað beiðni varnaraðila um stöðuleyfi til að láta tiltekna lausafjármuni standa við Jökulsárlón, skv. kafla 2.6 byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvörðun Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að gera varnaraðila að fjarlægja stöðuleyfisskylt lausafé virðist ekki hafa verið tekin fyrr en í ágústmánuði 2014. Verður því ekki á það fallist með varnaraðila að málsástæða þessi sé of seint fram komin. Á hinn bóginn verður ekki á það fallist með sóknaraðilum að starfsemi varnaraðila sé í heild „ólögmæt“ af þeim sökum einum að stjórnvald hafi synjað beiðni varnaraðila um stöðuleyfi fyrir einstaka lausafjármuni. Hafa sóknaraðilar ekki gert viðhlítandi grein fyrir því hvernig skortur á stöðuleyfi sveitarfélagsins feli í sér brot varnaraðila gegn lögvörðum rétti þeirra, umfram það sem leiðir af öðrum málsástæðum þeirra í málinu. Þá hafa sóknaraðilar ekki gert sennilegt að réttindi þeirra fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum af þessum sökum, verði þeir knúnir til að bíða dóms um þau.
Samkvæmt framanrituðu og þegar af þeirri ástæðu að sóknaraðilar hafa hvorki sannað né gert sennilegt að uppfyllt séu öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til þess að leggja á lögbann í samræmi við kröfur þeirra, ber að hafna öllum kröfum þeirra í máli þessu og staðfesta ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 20. júní 2014 um að synja kröfu sóknaraðila um lögbann, eins og varnaraðili krefst.
Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila sameiginlega málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn að fjárhæð 450.000 krónur, að virtu umfangi málsins fyrir dómi og ferðakostnaði lögmanns varnaraðila, en engin efni eru til að taka mið af rekstri lögbannsmálsins hjá sýslumanni við ákvörðun málskostnaðar.
Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en uppkvaðning úrskurðarins dróst vegna embættisanna dómarans.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 20. júní 2014 um að synja kröfu sóknaraðila, Einars Björns Einarssonar og Reynivalla ehf., um lögbann.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila, Ice Lagoon ehf., in solidum 450.000 krónur í málskostnað.