Mál nr. 84/2016
- Stjórnsýsla
- Samningur
- Ógilding samnings
H höfðaði mál gegn Í og krafðist efnda á samningi um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands sem gerður var milli H og utanríkisráðuneytisins. Í hélt því fram að samningurinn hefði verið gerður fyrir mistök þar sem eiginmaður H hefði ekki tilheyrt fyrrgreindum hópi starfsmanna. Talið var að í ljósi þess hvernig gengið hefði verið frá ráðningu eiginmanns H hefði hann ekki verið starfsmaður utanríkisþjónustunnar með flutningsskyldu, sbr. 10. gr. laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands, heldur starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins. Hefði H því aldrei getað átt aðild að eftirlaunasjóðnum og gæti hún ekki byggt rétt sinn á samningnum. Breytti engu þar um þótt samningurinn hefði verið undirritaður fyrir mistök af hálfu utanríkisráðuneytisins. Slík undirritun gæfi H ekki rétt til aðgangs að sjóðnum, sem væri grundvallaður á reglum nr. 321/2004 um eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands, þar sem H hefði ekki uppfyllt þau skilyrði sem reglurnar settu fyrir aðild að honum. Var Í því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2016. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.423.384 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi beindi eiginmaður áfrýjanda erindi til utanríkisráðuneytisins með tölvubréfi 30. nóvember 2006, sem laut að því að hún hafi ekki notið greiðslna samkvæmt samningi sínum við ráðuneytið frá 24. maí og 28. október 2004 á grundvelli reglna nr. 321/2004 um eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands. Samkvæmt því, sem viðtakandi þessa tölvubréfs bar í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi, taldi hann sig af þessu tilefni fyrst hafa orðið varan við að fyrrnefndur samningur hafi verið gerður við áfrýjanda, sem hafi gerst fyrir mistök, en yfirmaður bókhaldsdeildar ráðuneytisins hafi þó uppgötvað þessi mistök í nóvember 2004 og áfrýjandi því ekki fengið greiðslur á grundvelli samningsins. Erindi eiginmanns áfrýjanda var síðan svarað með tölvubréfi 4. desember 2006. Þótt sagt sé í hinum áfrýjaða dómi að umrædd mistök hafi uppgötvast síðastgreindan dag getur það ekki fengið því breytt að með þessari athugasemd verður dómurinn staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Herborg Árnadóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2015
Mál þetta, sem var dómtekið 29. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Herborgu Árnadóttur, Gnitakór 2, Kópavogi, á hendur fjármála- og efnahagsráðherra, utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, f.h. íslenska ríkisins, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík, með stefnu birtri 28. október 2014.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda 4.423.384 kr. auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri upphæð frá 1. janúar 2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara er krafist lækkunar. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Mál þetta lýtur að kröfu stefnanda um efndir á samningi um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands sem gerður var 28. október 2004 milli stefnanda og utanríkisráðuneytisins. Stefndi heldur því hins vegar fram að samningur þessi hafi verið gerður fyrir mistök en eiginmaður stefnanda hafi ekki tilheyrt hópi „flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands.“
Eiginmaður stefnanda starfaði í sendiráði Íslands í Brussel í Belgíu frá hausti 2002 og fram til ársins 2010. Starfaði hann þar sem fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins, en þar hafði hann verið skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra fram til ársins 2002.
Hinn 12. maí 2004 sendi utanríkisráðuneytið flutningsskyldum starfsmönnum bréf með tölvupósti á netfangið UTN_Allir. Tölvupóstur sem sendur er frá því netfangi mun berast öllum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar á Íslandi og öllum starfsstöðvum erlendis, bæði útsendum og staðarráðnum starfsmönnum. Í bréfinu var aðdraganda að stofnun eftirlaunasjóðs maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar lýst, upplýst var um reglur hans og eintak af þeim sent til kynningar og leiðbeint um hvað makar flutningsskyldra starfsmanna þyrftu að gera til að öðlast aðild að sjóðnum. Þá var tekið fram að maki flutningsskylds starfsmanns yrði að fylla út umsóknareyðublað og skila því til ráðuneytisins þar sem það yrði undirritað. Erindi þessu mun ekki hafa verið beint að stefnanda og eiginmanni hennar þar sem erindið átti eingöngu við um flutningsskylda starfsmenn utanríkisþjónustunnar og maka þeirra. Ítrekunarerindi var sent með tölvupósti á netföng maka flutningsskyldra starfsmanna og mun stefnandi ekki hafa verið meðal viðtakenda.
Eins og að framan greinir undirritaði fulltrúi utanríkisráðuneytisins hinn 28. október 2004 samning milli stefnanda og stefnda, utanríkisráðuneytisins, en stefnandi hafði 24. maí undirritað hann. Eiginmaður stefnanda samþykkti samninginn sem starfsmaður utanríkisþjónustunnar. Því er ágreiningslaust að stefndi undirritaði samning um að stefnandi skyldi fá greiðslur úr eftirlaunasjóðnum. Eftir undirritun ráðuneytisins á samninginn var hann sendur stefnanda. Samkvæmt því sem fram kemur í samningnum heimilar stefnandi utanríkisráðuneytinu að stofna reikning í hennar nafni hjá Íslandsbanka eða öðrum banka, og leggja inn á þann reikning greiðslur í samræmi við reglur nr. 321/2004. Reglurnar skyldu gilda um greiðslur í sjóðinn, réttindi rétthafa og útborgun inneignar. Um ávöxtun sjóðsins skyldi gilda samningur utanríkisráðuneytisins og Íslandsbanka um vörslur sjóðsins.
Hinn 30. nóvember 2006 sendi eiginmaður stefnanda tölvupóst til utanríkisráðuneytisins þar sem hann grennslaðist fyrir um greiðslur stefnda inn á bankareikninginn, samanber reglur nr. 321/2004.
Hinn 4. desember 2006 svaraði ráðuneytið og upplýsti að mistök hefðu verið gerð í ráðuneytinu en reglurnar ættu einungis við um flutningsskylda starfsmenn.
Hinn umdeildi samningur komst aldrei til framkvæmda og voru greiðslur til stefnanda aldrei inntar af hendi í samræmi við efnisatriði hans. Greiðslur til rétthafa samkvæmt samningnum voru fyrst inntar af hendi snemma árs 2004 vegna ársins 2003 á grundvelli heimildar í fjárlögum sama árs. Frá þeim tíma er samningseyðublað stefnanda var undirritað árið 2004 og þar til eiginmaður stefnanda bar sig eftir greiðslum fyrir hönd stefnanda á árinu 2006 hafði stefndi þegar innt af hendi greiðslur til rétthafa vegna áranna 2003, 2004 og 2005.
Stefnandi og eiginmaður hennar vildu ekki una þessari afstöðu og snéru sér til landbúnaðarráðuneytisins um úrlausn. Það ráðuneyti mun ekki hafa gert athugasemdir við samningagerðina með hliðsjón af þeirri kjaraviðmiðun sem ráðherra ákvað. Af stefnanda hálfu var ítrekað leitað upplýsinga frá utanríkisráðuneytinu um viðmið þau sem greiðslur væru byggðar á skv. ákvæði 3. gr. reglna nr. 321/2004. Beiðnum þessum var ekki svarað af hálfu utanríkisráðuneytis. Fyrirspurnir landbúnaðarráðuneytisins sama efnis munu heldur ekki hafa borið árangur.
Hinn 30. desember 2009 rituðu stefnandi og eiginmaður hennar bréf til utanríkisráðuneytisins og kröfðust þess að greiðslur yrðu inntar af hendi samkvæmt samningnum og reglunum. Ráðuneytið ritaði svarbréf, dags. 18. jan. 2010, og hafnaði greiðsluskyldu. Bar ráðuneytið fyrir sig að eiginmaður stefnanda væri ekki flutningsskyldur starfsmaður utanríkisþjónustunnar heldur starfsmaður annars ráðuneytis. Þá var vísað til framangreinds tölvuskeytis ráðuneytisins til eiginmanns stefnanda frá 4. des. 2006.
Með bréfi stefnanda og eiginmanns hennar til utanríkisráðuneytisins, dags. 22. jan. 2010, var röksemdum ráðuneytisins í bréfi þess 18. jan. s.á. alfarið hafnað og farið fram á að ráðuneytið upplýsti um greiðslugrunn lífeyrisgreiðslna. Ráðuneytið veitti þær upplýsingar með bréfi, dags. 17. feb. s.á. og aftur 17. feb. 2011, eftir beiðni stefnanda.
Hinn 4. apríl 2011 rituðu stefnandi og eiginmaður hennar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem kröfur stefnanda voru útlistaðar og ítrekaðar. Því bréfi er svarað af hálfu þess ráðuneytis, dags. 22. feb. 2012.
Hinn 26. júní 2014 krafði stefnandi ráðuneytið efnda samkvæmt samningi aðila. Með svarbréfi stefnda, utanríkisráðuneytisins, dags. 17. september s.á., var kröfum stefnanda hafnað.
Í kjölfarið var mál þetta síðan höfðað í október 2014.
II
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hún eigi samningsbundna og lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda vegna samnings þess sem aðilar hafi gert með sér árið 2004 um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands. Samningur aðila sé skýr, undirritaður af báðum aðilum, þar sem stefndi hafi tekist á hendur þær skyldur að greiða í eftirlaunasjóð til handa stefnanda tilteknar fjárhæðir, sem svo stefnanda hafi borið að fá útgreidda við starfslok eiginmanns hennar hjá stefnda, allt samkvæmt reglum þeim sem hafi gilt um greiðslu í eftirlaunasjóð maka, sbr. reglur nr. 321/2004 og síðar nr. 104/2009. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi sent stefnanda samninginn vorið 2004 og boðið henni og eiginmanni hennar að undirrita samninginn og gangast þar með undir þau eftirlaunakjör og þiggja þær eftirlaunagreiðslur sem samningurinn og framangreindar reglur mæltu fyrir um.
Stefnandi byggir á því að samningur aðila hafi verið til samræmis við þau kjör sem stefndi hafi skuldbundið sig til að veita eiginmanni stefnanda og um leið stefnanda. Samkvæmt bréfi þáverandi landbúnaðarráðherra til utanríkisráðuneytisins, dags. 13. júní 2002, skyldu laun eiginmanns stefnanda ekki vera lakari en hann hafi þá notið og vera sambærileg launum sendifulltrúa í utanríkisþjónustunni. Í bréfi fyrrverandi landbúnaðarráðherra til eiginmanns stefnanda, dags. 20. des. 2010, segi m.a. að hann hafi kynnt sér „í árslok 2002, eftir íhlutun af minni hálfu, kom þetta fyrirkomulag launakjara þinna að fullu til framkvæmda hjá utanríkisráðuneytinu. Það fól það í sér að kjör þín og fjölskyldu þinnar voru gerð sambærileg og hin sömu og hjá sendifulltrúa í sendiráðinu, sem var annar æðsti stjórnandi þess“. Í þessum orðum felist staðfesting á því að stefndi hafi ætlað eiginmanni stefnanda og um leið stefnanda öll hin sömu kjör og starfsmenn utanríkisþjónustunnar, þ.e. starfsmenn sendiráða, fengju. Þau kjör sem bréfin lýsi hafi utanríkisráðuneytið samþykkt að inna af hendi og greitt eiginmanni stefnanda samkvæmt þeim og staðfest þar með að kjörin yrðu jafnsett því að um flutningsskyldan starfsmann væri að ræða.
Stefnandi heldur því fram að rök þau sem færð séu fram í reglum nr. 321/2004 og síðar í reglum nr. 104/2009, fyrir greiðslum í eftirlaunasjóð, eigi án nokkurs vafa við um stöðu stefnanda á meðan hún dvaldi erlendis ásamt eiginmanni sínum. Í 2. mgr. 1. gr. reglnanna segir að rök fyrir greiðslum séu m.a. að ekki sé um að ræða að makar geti stundað atvinnu eða komið sér upp lífeyrisréttindum þegar þeir fylgi mökum sínum til starfa erlendis fyrir íslenska ríkið. Sem maki starfsmanns sendiráðs Íslands í Brussel hafi stefnanda verið óheimilt að starfa þar í landi, enda sé maka starfsmanns sendiráðs óheimilt að starfa í gistiríkinu. Stefnandi sé viðskiptafræðingur að mennt og hafi því hvorki getað notið menntunar sinnar í starfi á meðan á dvöl erlendis stóð né getað aflað tekna á sama tímabili, sökum stöðu sinnar sem maki starfsmanns í sendiráði Íslands.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með greiðslu svokallaðrar staðaruppbótar til eiginmanns stefnanda, sem stafi að hluta vegna takmörkunar maka á tekjuöflun og röskunar á högum maka, viðurkennt í verki að framangreindar reglur um greiðslur í eftirlaunasjóð hafi náð einnig til stefnanda sem maka. Í því sambandi vísist sérstaklega til þess að samkvæmt 2. gr. reglna nr. 321/2004, sbr. einnig 2. gr. reglna nr. 104/2009, er mælt fyrir um makabætur sem greiddar séu til maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Makabætur þessar séu hluti af staðaruppbót.
Stefnandi byggir á því að ekki stoði fyrir stefnda að bera fyrir sig að áhrif hafi á gildi samnings aðila að eiginmaður stefnanda hafi ekki verið starfsmaður utanríkisþjónustunnar en stefndi hafi gengist undir það gagnvart eiginmanni stefnanda og um leið stefnanda að veita þeim sömu kjör og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni njóti.
Af hálfu stefnda hafi því verið haldið fram í bréfum til stefnanda að stefndi hafi ritað undir samninginn vegna mistaka. Stefnandi hafni þessu alfarið að um mistök hafi verið að ræða. Samningurinn hafi verið undirritaður af sama aðila og hafi upplýst eiginmann stefnanda um áðurnefnd starfskjör og hafi því verið fullkunnugt um að maki stefnanda hafi verið sendur af landbúnaðarráðuneytinu til starfa í Brussel og hvaða kjör landbúnaðarráðherra hafi ákveðið. Þó svo að mistök kunni að hafa verið gerð sé það ekki afsakanlegt fyrir stefnda og hafi engin áhrif á skuldbindingu aðila samkvæmt þeim samningi sem sannanlega hafi verið gerður.
Stefnandi leggur áherslu á að hún hafi allan tímann verið í góðri trú um rétt sinn gagnvart stefnda. Það sé ekki afsakanlegt gagnvart stefnanda að tilkynna meira en tveimur árum eftir undirritun samningsins að mistök hafi átt sér stað við undirritun.
Til vara séu stefnukröfur reistar á því að umrædd skylda hvíli engu að síður á herðum stefnda sökum þeirra loforða sem landbúnaðarráðherra hafi veitt stefnanda og eiginmanni stefnanda um að kjör hans og fjölskyldu skyldu vera hin sömu og starfsmenn utanríkisþjónustunnar fengju.
Til þrautavara reisir stefnandi kröfur sínar á því, að stefnda beri engu síður að efna samning aðila enda standi hann sem sjálfstæð samningsskuldbinding milli aðila og takmarkist ekki af flutningsskyldu samkvæmt reglunum þar sem þær reglur njóti ekki lagastoðar. Hvorki í reglum nr. 321/2004 né reglum nr. 104/2009, sem leystu hinar fyrri af hólmi, sé vísað til þess á hvaða lagaheimild reglurnar byggi eða séu settar.
Um lagarök vísast til reglna kröfuréttar, vinnuréttar og stjórnsýsluréttar. Vísað sé til meginreglna samningaréttar, til laga þeirra sem um starfsmenn utanríkisþjónustu og ráðuneyta gilda, m.a. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lög nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands. Um vexti sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að hinn umdeildi samningur málsaðila hafi verið undirritaður vegna gáleysis eða mistaka. Sjóðurinn taki einungis til maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisráðuneytisins. Þar sé ekki getið um starfsmenn annarra ráðuneyta. Þessar upplýsingar einar og sér ættu að hafa leiðrétt misskilning stefnanda í málinu vegna þess að maki stefnanda hafi ekki verið flutningsskyldur eins og eigi við um sendimenn utanríkisráðuneytisins.
Stefndi mótmælir því alfarið að umdeildur samningur hafi verið til samræmis við þau kjör sem samið hafi verið um milli stefnda og stefnanda. Stefnandi hafi flutt til Brussel 1. september 2002 en eftirlaunasjóðurinn hafi verið stofnaður 23. mars 2004.
Stefndi áréttar að eftirlaunasjóðurinn hafi verið stofnaður til hagsbóta maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Hann hafi á engan hátt verið hluti af starfskjörum viðkomandi sendimanna stefnda.
Krafa stefnanda byggist meðal annars á því að með greiðslu svokallaðrar staðaruppbótar til maka stefnanda hafi verið viðurkennt í verki að framangreindar reglur um greiðslur í eftirlaunasjóð hafi einnig náð til stefnanda sem maka. Stefndi bendir á að í 2. gr. reglnanna um eftirlaunasjóðinn séu rakin skilyrðin fyrir því að öðlast aðild að sjóðnum. Skilyrðin séu þrjú og uppfylli stefnandi ekki það skilyrði að vera maki flutningsskylds starfsmanns utanríkisþjónustunnar. Ekki sé hægt að líta svo á að greiðsla makahluta staðaruppbóta þýði að viðurkenndur sé réttur til aðildar að eftirlaunasjóðnum ef öðrum skilyrðum 2. gr. reglnanna sé ekki fullnægt.
Þá bendir stefndi á að í málatilbúnaði stefnanda sé það viðurkennt að maki stefnanda hafi ekki verið starfsmaður utanríkisþjónustunnar. Ekki verði bæði haldið og sleppt í málinu. Stefnandi hafi hér viðurkennt að maki hans hafi verið starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins. Sem slíkur hafi eiginkona hans aldrei átt kost á eftirlaunasamningi á sama hátt og sendimenn utanríkisráðuneytisins.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að hún ætti aðild að eftirlaunasjóðnum og uppfyllti skilyrði reglna 321/2004. Reglurnar hafi verið birtar í Stjórnartíðindum og hafi stefnanda mátt vera ljóst að þær ættu ekki við í hennar tilviki. Sé því ekki unnt að leggja til grundvallar að stefnandi hafi verið í góðri trú. Þó tekur stefndi fram að ef talið yrði að stefnandi hafi veri í góðri trú verði ekki byggt á samningi sem hafi stofnast fyrir hrein mistök og hafi augljóslega verið í trássi við reglur og án fjárheimildar.
Stefndi bendir á að stefnanda hafi verið ljóst að ekki hafi verið stofnaður bankareikningur í hennar nafni á grundvelli samningsins og þar af leiðandi enginn grundvöllur til útgreiðslu, en í samningnum hafi einnig verið tekið fram að framlög yrðu tekjufærð og þar fjallað um skattskyldu. Stefnandi hafi vitað að ekkert af þessu hafi gengið eftir og því hlotið að vera grandsöm um að þessum samningi ætti ekki að hrinda í framkvæmd og gagnkvæmur vilji til að uppfylla hann væri ekki fyrir hendi. Stefndi byggir á því að þessi atriði sýni einnig tómlæti af hálfu stefnanda sem sjálfstætt leiði til sýknu af kröfum stefnanda.
Stefndi mótmæli málsástæðum stefnanda til vara og þrautavara. Hið ætlaða loforð landbúnaðarráðherra hafi eingöngu tekið til maka stefnanda og kveðið á um launakjör makans og staðaruppbót. Stefndi telur að lagaheimild sé fyrir stofnun eftirlaunasjóðsins á fjárlögum fyrir árið 2003 og síðar. Þá bendir stefndi á að stefnandi geti ekki byggt rétt til greiðslu lífeyris á heimild sem hvorki hafi verið fyrir hendi né þaðan af síður lagastoð fyrir.
IV
Við upphaf aðalmeðferðar gáfu eftirtaldir vitnaskýrslu. Guðmundur Sigþórsson maki stefnanda, Ingimar Jóhannsson fv. skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra, Pétur Ásgeirsson sendiherra, Helga Hauksdóttir mannauðsstjóri utanríkisráðuneytisins og Hjördís Jónsdóttir starfsmaður Íslandsbanka.
Í málinu krefur stefnandi um efndir á samningi um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands. Samningurinn var undirritaður fyrir hönd utanríkisráðuneytisins hinn 28. október 2004. Stefndi heldur því hins vegar fram að samningur þessi hafi verið gerður fyrir mistök en eiginmaður stefnanda hafi ekki tilheyrt hópi „flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands“.
Samkvæmt 10. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971 eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar skyldir til að starfa sem fulltrúar utanríkisþjónustunnar erlendis, samkvæmt ákvörðun ráðherra. Vegna þessarar lögbundnu flutningsskyldu hafa makar þessara starfsmanna utanríkisþjónustu almennt takmarkaða möguleika til atvinnuþátttöku og ávinna sér því lakari rétt til lífeyris en þeir sem starfa samfellt á vinnumarkaði. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglna nr. 321/2004 um eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands eru rök fyrir greiðslum samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þau að vegna tíðra breytinga á búsetu sé almennt ekki um það að ræða að makar geti stundað atvinnu eða komið sér upp lífeyrisréttindum þegar þeir fylgja mökum sínum, þ.e. flutningsskyldum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar, til starfa erlendis fyrir íslenska ríkið. Samkvæmt því sem að framan greinir er það skilyrði fyrir aðild að sjóðnum að vera maki flutningsskylds starfsmanns utanríkisþjónustunnar.
Frá gildistöku EES-samningsins hefur tíðkast að ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands, önnur en utanríkisráðuneytið, sendi fulltrúa sína til starfa í sendiráðinu í Brussel. Hlutverk þeirra er að hafa umsjón með framkvæmd EES-samningsins á því málefnasviði sem varðar viðkomandi ráðuneyti. Viðkomandi ráðuneyti ákveður sjálft hvaða starfsmaður þess skuli gegna starfinu, hve lengi og hefur boðvald yfir þeim. Í daglegum störfum sínum í sendiráðinu starfa fulltrúar ráðuneytanna einnig undir stjórn sendiherra Íslands í Brussel. Á starfstíma sínum í sendiráðinu er fulltrúi ráðuneytis í sendiráðinu ávallt í ráðningarsambandi við ráðuneyti sitt. Tími þess er mismunandi. Algengt er að þeir starfi í 2-4 ár. Sá tími getur verið lengri eða skemmri, allt eftir ákvörðun viðkomandi ráðuneytis. Þessi starfsmenn eru ekki flutningsskyldir líkt og starfmenn utanríkisráðuneytisins eru.
Í bréfi þáverandi landbúnaðarráðherra frá 24. apríl 2002 til eiginmanns stefnanda var honum falið „að starfa tímabundið sem fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins við sendiráð Íslands í Brussel og vera tengiliður ráðuneytisins við EFTA, ESA og aðrar stofnanir EES, svo sem ESB og aðildarríki þess, samkvæmt nánari fyrirmælum landbúnaðarráðuneytisins. Um starfsaðstöðu og nánara fyrirkomulag daglegra starfa skal jafnframt haft samráð við yfirstjórn sendiráðs Íslands í Brussel hverju sinni.“ Eiginmaður stefnanda var því aldrei starfsmaður utanríkisráðuneytisins og á honum hvíldi ekki flutningsskylda.
Stefnandi heldur því fram að henni hafi verið boðin aðild að umræddum eftirlaunasjóði maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands með því að henni hafi sérstaklega verið sent kynningarbréfið og samningsformið. Með vísan til skýringa stefnda, vitnaburðar fyrir dómi sem og framlagðra gagna er ekki á það fallist. Í framlögðum gögnum, sem og í vitnaskýrslu Péturs Ásgeirssonar, kom fram að kynningarbréf vegna eftirlaunasjóðsins, sem og fylgiskjöl með því bréfi, þar á meðal samningsformið, hafi hinn 12. maí 2004 verið sent í tölvupósti á póstfangið UTN_Allir, en um það bil 200 manns hafa aðgang að því póstfangi. Umrætt kynningarbréf ber það skýrlega með sér að það sé sent „til allra flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar og maka þeirra.“ Sama dag var félögum í makafélaginu, eða 36 mökum flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sent kynningarbréfið sérstaklega. Stefnandi var ekki þar á meðal, enda ekki í því félagi. Stefnandi hafi hins vegar verið sú eina utan félaga í makafélaginu, sem hafi sent samningsformið útfyllt til baka en það undirritaði hún 24. maí 2004 og utanríkisráðuneytið hinn 28. október sama ár. Samningurinn ber heitið „Samningur um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands.“ síðan er vísað til 2. gr. reglna 321/2004. Þar er kveðið á um hverjir eigi aðild að sjóðnum, þ.e. makar flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Í ljósi þess hvernig gengið var frá ráðningu eiginmanns stefnanda, samanber bréf þáverandi landbúnaðarráðherra dags. 24. apríl 2002, var eiginmaður stefnanda ekki starfsmaður utanríkisþjónustunnar með flutningsskyldu, samanber 10. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971, heldur starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins. Því gat stefnandi aldrei átt aðild að eftirlaunasjóðnum og getur ekki byggt rétt sinn á samningi þeim sem gerður var 28. október 2004. Engu skiptir þótt samningurinn hafi verið undirritaður fyrir mistök í utanríkisráðuneytinu. Slík undirritun gefur stefnanda ekki rétt til aðgangs að eftirlaunasjóðnum, sem er grundvallaður á reglum nr. 321/2004, þar sem stefnandi uppfyllir ekki skilyrði þau sem reglurnar setja fyrir aðild að sjóðnum. Stefnandi gat því aldrei verið í góðri trú um að hún ætti aðild að eftirlaunasjóðnum og rétt til greiðslna samkvæmt reglum hans.
Í vitnaskýrslu Péturs Ásgeirssonar kom fram að fyrsta greiðsla samkvæmt samningnum við maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar hafi átt sér stað sex dögum eftir undirritun hans á samningana, eða 4. nóvember 2004. Ekki hafi þó komið til greiðslu til stefnanda. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins hvort stefnandi hafi þá verið látin vita eða ekki og brestur vitnið minni til þess hvað hafi gerst í framhaldinu. Hins vegar hafi maki stefnanda sent vitninu tölvupóst hinn 30. nóvember 2006 og bent á að ekkert hafi verið greitt samkvæmt samningnum. Vitnið hafi svarað hinn 4. desember 2006 og beðið afsökunar á þeim mistökum að hann hafi greinilega undirritað samninginn fyrir mistök og síðan segir að reglurnar „eigi auðvitað aðeins við um flutningsskylda starfsmenn“. Að mati dómsins bar ráðuneytinu strax og mistökin uppgötvuðust hinn 4. desember 2006 að láta stefnanda vita að engar greiðslur yrðu inntar af hendi samkvæmt honum. Eins og mál þetta liggur fyrir verður stefndi ekki látinn bera hallann af því þar sem stefnandi mátti vita að hún ætti ekki rétt samkvæmt reglum 321/2004.
Þá byggir stefnandi á bréfi fyrrverandi landbúnaðarráðherra, dags. 13. júní 2002, til utanríkisráðuneytisins þar sem segir að við ákvörðun á launakjörum maka stefnanda skuli taka mið af launum skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu auk staðaruppbótar erlendis samkvæmt reglum utanríkisráðuneytisins. Laun makans skuli ekki vera lakari er hann njóti nú og vera sambærileg launum sendifulltrúa í utanríkisþjónustunni. Dómurinn lítur svo á að stefnandi geti ekki byggt kröfu sína um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar á þessu bréfi en þar er fjallað um launakjör eiginmanns hennar. Þá flutti stefnandi ásamt fjölskyldu sinni til Brussel 1. september 2002 en eftirlaunasjóðurinn var stofnaður síðar, eða 23. mars 2004. Yfirlýsing þáverandi landbúnaðarráðherra dags. 20. desember 2010 breytir hér engu.
Þá heldur stefnandi því fram að með því að í bréfi ráðherra til maka hennar hafi verið vísað til þess að makinn ætti rétt til staðaruppbótar erlendis samkvæmt reglum utanríkisráðuneytisins, þ.e. fyrirmæla- og leiðbeiningarbók utanríkisþjónustunnar, þá eigi hann rétt á öllum greiðslum sem flutningsskyldir starfsmenn utanríkisþjónustunnar fá, þar á meðal greiðslur samkvæmt reglum 321/2004. Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki fallist á þessa málsástæðu stefnanda. Þar að auki kom það fram í vitnaframburði Péturs Ásgeirssonar að reglna nr. 321/2004 sé ekki getið í nefndri fyrirmæla- og leiðbeiningarbók.
Málsástæða stefnanda til þrautavara er að lagastoð skorti fyrir reglum nr. 321/2004 sem og reglum nr. 104/2009, sem leystu hinar fyrri af hólmi. Lagastoð reglnanna sé nauðsynlegt skilyrði þess að þær hafi gildi sem réttarheimild. Að því gefnu að reglurnar hafi ekki lagastoð telur stefnandi ljóst að utanríkisráðherra hafi verið óheimilt að setja reglurnar. Stefnandi telji það ekki breyta því að stefndi sé eftir sem áður skuldbundinn samkvæmt efni samnings aðila, en um fjárhæðir, ávöxtun og greiðslufyrirkomulag verði hins vegar að hafa hliðsjón af efni reglnanna hvað þá þætti varðar. Skilyrðið um að rétthafi sé maki flutningsskylds starfsmanns í utanríkisþjónustunni hafi þegar af þessari ástæðu enga þýðingu.
Ekki er fallist á þetta sjónarmið stefnanda. Hafi reglurnar ekki lagastoð, svo sem stefnandi heldur fram, sé ljóst að á þeim verði hvorki byggt gagnvart stefnanda né þeim 36 mökum flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem gerður var samningur við.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Herborgar Árnadóttur.
Málskostnaður fellur niður.