Hæstiréttur íslands

Mál nr. 270/2004


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Þinglýsing


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. nóvember 2004.

Nr. 270/2004.

Sparisjóður Hafnarfjarðar

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Byggðaverks ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Þinglýsing.

B ehf. gaf á árinu 1999 út tryggingabréf að fjárhæð 25 milljónir króna þar sem félagið setti að veði nánar tilgreint lausafé til tryggingar skuldum þess við SH. Tryggingabréfinu var ekki þinglýst fyrr en að liðnum fresti 1. mgr. 48. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Hafði veðsetning samkvæmt bréfinu því ekki gildi gagnvart skuldheimtumönnum B ehf. Þann 23. október 2002 afsalaði B ehf. til F ehf., félags í eigu SH, hluta af því lausafé sem var veðsett. Var lausaféð metið á 5.950.425 krónur. Bú B ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 21. febrúar 2003. Frestdagur við skiptin var 5. nóvember 2002. Talið var að afhending hinna veðsettu muna gæti ekki talist greiðsla með venjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var heldur ekki fallist á að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. i.f. Var því fallist á riftun greiðslunnar. Að því er snerti endurgreiðslukröfu þrotabúsins var talið að bifreið, sem var á meðal framangreindra muna og hafði verið seld á nauðungarsölu 18. janúar 2003, hafi ekki komið SH að notum í skilningi 142. gr. laga nr. 21/1991. Um aðra muni lá fyrir að SH hafði selt þá fyrir samtals 2.500.000 krónur, en hafði í fórum sínum lítt nothæfa muni, sem metnir hefðu verið á 249.000 krónur í afsalinu. Nam andvirði þeirra 2.208.051 krónu eftir að virðisaukaskattur hafði verið dreginn frá. Hafði upplýsingum um þetta ekki verið mótmælt af hálfu þrotabúsins. Var SH því dæmt til að greiða þrotabúi B ehf. 2.208.051 krónu með dráttarvöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara lækkunar á endurgreiðslukröfu hans. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fjárvari ehf., sem fékk þann 23. október 2002 afsal það frá Byggðaverki ehf., sem dómkröfur stefnda beinast að, mun að öllu leyti hafa verið í eigu áfrýjanda. Hefur áfrýjandi fyrir sitt leyti fallist á að kröfum stefnda teljist réttilega beint að sér.

 

 

I.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi var tryggingarbréfi áfrýjanda í lausafjármuni Byggðaverks ehf., sem út var gefið 8. október 1999, ekki þinglýst fyrr en eftir að frestur samkvæmt 1. mgr. 48. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 rann út. Veðsetningin samkvæmt bréfinu hafði því ekki gildi gagnvart skuldheimtumönnum veðsalans, sbr. 2. mgr. 48. gr. laganna. Þó að þessi ráðstöfun hafi í sjálfri sér verið gild gagnvart veðþola samkvæmt ákvæðum 48. gr. þinglýsingalaga, eins og áfrýjandi telur, er ekki unnt að fallast á að afhending hinna veðsettu muna geti af þeirri ástæðu talist greiðsla með venjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er það í samræmi við dómaframkvæmd, að lausafjármunir geti ekki talist venjulegur greiðslueyrir við greiðslu skulda, nema sýnt sé fram á að afhending slíkra muna hafi tíðkast í skiptum aðila eða aðrar sérstakar aðstæður séu taldar réttlæta slíkan greiðslueyri.

Ekki verður heldur fallist á, að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum, eins og það er orðað í niðurlagi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Er þá haft í huga, að  fyrirsvarsmönnum áfrýjanda, sem var viðskiptabanki Byggðaverks ehf., var vel ljós erfið fjárhagsstaða félagsins í október 2002. Mátti þeim þá jafnframt vera ljóst, að með afhendingu munanna var að því stefnt að gera hlut áfrýjanda gagnvart öðrum skuldheimtumönnum betri en lög stóðu til, þar sem veðréttur hans naut ekki lögverndar gagnvart þeim, svo sem áður sagði.

Frestdagur við skipti á þrotabúi Byggðaverks ehf. var 5. nóvember 2002. Af framansögðu leiðir að krafa stefnda um staðfestingu hins áfrýjaða dóms, að því er varðar riftun á greiðslunni 23. október 2002, verður tekin til greina.

II.

Kemur þá til úrlausnar, hverjar greiðslur áfrýjandi skuli inna af höndum til stefnda vegna riftunarinnar.

Í 142. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið svo á, að sá sem hafi hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð, skuli greiða þrotabúi fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið honum að notum. Í málinu liggur fyrir, að bifreiðin ZH-341 var seld á uppboði að kröfu skuldheimtumanna Byggðaverks ehf. 18. janúar 2003. Uppboðið var fullnustugerð, sem átti ekki að neinu leyti rót sína að rekja til afsalsins 23. október 2002. Verður að líta svo á, að uppboðið hafi leitt til þess, að afhending þessarar bifreiðar til áfrýjanda með afsalinu 23. október 2002 hafi alls ekki komið honum að notum í skilningi lagaákvæðisins. Gildir þá einu, þó að svo standi á, að áfrýjandi hafi orðið uppboðskaupandi og fengið meginhluta söluverðsins, sem nam 665.000 krónum, eða 521.610 krónur, úthlutaðan sér vegna veðréttar síns í bifreiðinni. Á tíma uppboðsins hafði veðréttur áfrýjanda ekki enn orðið að þoka fyrir rétti stefnda, enda var bú hans ekki tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en 21. febrúar 2003. Verður samkvæmt þessu fallist á þann málflutning áfrýjanda fyrir Hæstarétti, að sýkna beri hann alfarið af kröfu stefnda um endurgreiðslu á andvirði bifreiðarinnar.

Í greinargerð sinni í héraði gerði áfrýjandi grein fyrir ráðstöfun sinni á öðrum munum, sem afsalið 23. október 2002 tók til. Er þessu lýst í lok I. kafla hins áfrýjaða dóms, þar sem greint er frá málavöxtum, en tekið er fram í upphafi niðurstöðukafla dómsins, að ekki sé deilt um þá. Stefndi hefur ekki heldur vefengt þetta við málflutning sinn fyrir Hæstarétti, en hins vegar talið að þetta skipti ekki máli, þar sem dæma beri honum endurgreiðslu miðað við þær fjárhæðir sem afsalið 23. október 2002 greini. Þykir við svo búið unnt að leggja upplýsingar áfrýjanda um þetta til grundvallar dómi í málinu.

Áfrýjandi kveðst hafa selt muni fyrir samtals 2.500.000 krónur og þá hafi verið eftir í fórum hans lítt nothæfir hlutir, sem metnir hafi verið á 249.000 krónur í afsalinu 23. október 2002. Samtals nemi þetta 2.749.000 krónum. Að frádregnum virðisaukaskatti verði fjárhæðin 2.208.051 króna og hafi honum því orðið að notum greiðsla frá stefnda með þeirri fjárhæð. Verður hann dæmdur til að greiða stefnda hana með vöxtum, eins og greinir í dómsorði, en ekki er deilt um upphafsdag þeirra í málinu.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur að því er varðar riftun á greiðslu Byggðaverks ehf. til áfrýjanda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 23. október 2002.

Áfrýjandi greiði stefnda, þrotabúi Byggðaverks ehf., 2.208.051 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2003 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2004.

Mál þetta var þingfest 17. desember 2003 og tekið til dóms 18. þ.m.  Stefnandi er þrotabú Byggðaverks ehf., kt. 691293-3949, Mörkinni 1, Reykjavík en stefndi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, kt. 610269-5599, Strandgötu 8-10 Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi þær að rift verði með dómi greiðslu Byggðaverks ehf. 23 október 2002 til stefnda upp í skuld sem fram fór með því að félagið afsalaði stefnda tilteknum vélum, gámum, vinnupöllum, vinnuskúrum, byggingakrana, sendibifreiðinni ZH-341, tölvu og skrifstofubúnaði og fleiri tækjum og tólum að verðmæti samtals 5.950.425 krónur. 

Í öðru lagi er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.950.425 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. júlí 2003 til greiðsludags. 

Í þriðja lagi gerir stefnandi kröfu um málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  En til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar. 

I.

Ekki er deilt um málavexti.  Bú Byggðaverks ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 21. febrúar 2003.  Frestdagur við skiptin er 5. nóvember 2002.  Innköllun til skuldheimtumanna birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaði 12. mars 2003.  Fyrsti skiptafundur í búinu var haldinn 12. júní 2003. 

Við athugun skiptastjóra á málefnum búsins kom meðal annars fram að þann 23. október 2002 seldi Byggðaverk ehf.  lausafé til Fjárvara ehf. sem er í eigu stefnda.  Í 2. grein afsalsins eru eftirfarandi lausafjármunir taldir upp:

 

Nr.       Skýring                                     Lengd Breidd Flatar-mál        Verðmat                       Þar af

                                                                                                                               VSK

1              Vinnuskúr (fataskúr)            5,6           3,5           19,6 m2                          100.000 kr.                 19.680

2              Gámur 10´                              3,0           2,0           6,0 m2                     24.900 kr.                   4.900

3              Gámur 10´                              3,0           2,0           6,0 m2                     31.125 kr.                   6.125

4              Vinnupallar                            0,0           0,0           0,0 m2                1.992.000 kr.               392.026

                Byggingarkrani, ásamt

                kranasporum. Liebherr árg.

5              73. Skr.nr. AB 0047.                                                                        1.618.500 kr.               318.521

6              Vinnuskúr                              6,1           3,0           18,3 m2                 150.000 kr.                 29.520

7              Vinnuskúr (kaffistofa)         5,5           3,1           17,1 m2                 150.000 kr.                 29.520

8              Verkfæraskúr                         2,4           2,0           4,8 m2                     15.000 kr.                   2.952

9              Gámur 10´                              3,0           2,0           6,0 m2                     24.900 kr.                   4.900

10            Gámur 20´                              6,0           2,4           14,4 m2                   62.250 kr.                 12.251

11            Vinnuskúr (kaffiskúr)           5,5           3,0           16,5 m2                 100.000 kr.                 19.680

12            Gámur 20´                              6,0           2,4           14,4 m2                   62.250 kr.                 12.251

13            Vinnuskúr með salerni         5,5           3,0           16,5 m2                 150.000 kr.                 29.520

14            Gámur 20´                              6,0           2,4           14,4 m2                   62,250 kr.                 12.251

15            Gámur 20´                              6,0           2,4           14,4 m2                   62.250 kr.                 12.251

16            Vinnuskúr                              5,5           3,0           16,5 m2                 100.000 kr.                 19.680

                Sendibíll. Toyota Hiace árg.

17            1999 Skr. nr. ZH-341.                                                                         996.000 kr.               196.013HHH

18            Handverkfæri                                                                                      124.500 kr.                 24.502

19            Tölvu- og skrifstofubúnaður                                                           124.500 kr.                 24.502

                                                                                                Samtals        5.950.425 kr.          1.171.044

 

Í þriðju grein afsalsins segir að umsamið kaupverð sé að fullu greitt með yfirtöku hluta áhvílandi veðskulda en í fjórðu grein segir að tryggingabréf að fjárhæð 25 milljónir hvíli á hinu seldu lausafjármunum.  Með öðrum orðum tók stefndi ofangreint lausafé upp í skuld Byggðaverks ehf. við stefnda og var lausaféið metið á 5.950.425 krónur.

Áminnst tryggingarbréf að höfuðstól 25 milljónir krónur var gefið út 8. október 1999 með veði í ýmsum lausafjármunum, meðal annars flestum þeim munum sem seldir voru með afsalinu 23. október 2002.  Þá gaf félagið einnig út tryggingarbréf til stefnda 8. október 1999 að höfuðstól 1.680.000 krónur með veði í bifreiðinni ZH-341, Toyota Hiace árgerð 1999.  Þessarar bifreiðar er getið í afsalinu.  Bæði þessi tryggingarbréf voru afhent til þinglýsingar 12. nóvember 1999.

Hinn 18. janúar 2003 fór fram uppboð á bifreiðinni ZH-341 og fékk stefndi úthlutað af andvirðinu 521.603 krónur upp í kröfu sína samkvæmt síðastnefnda tryggingarbréfinu.  Þann 13. desember 2002 seldi Fjárvari ehf. vinnuskúra þá og gáma sem hann hafði keypt með fyrrgreindum samningi við Byggðaverk ehf.  Söluverð þessara gáma var 1.000.000 krónur.  Með kaupsamningi 30. desember 2003 voru eftirstöðvar þessara lausafjármuna, að undanskildum handverkfærum og tölvubúnaði, seldir á 1.500.000 krónur.  Sá búnaður sem enn er í vörslum stefnda eða dótturfélaga hans eru metin á samtals 249.000 krónur samkvæmt áðurnefndu afsali.  Samtals hafa þessar eignir því nýst stefnda til greiðslu upp í kröfu hans á hendur Byggðaverki ehf. á grundvelli framangreindra tveggja tryggingarbréfa, að fjárhæð 3.270.603 krónur.

Með bréfi 25. júní 2003 lýsti stefnandi yfir riftun á sölu Byggðaverks ehf. samkvæmt áðurnefndu afsali og krafðist endurgreiðslu á söluverði.  Stefndi hafnaði þeirri málaleitan stefnanda.

II.

Riftunarkrafa stefnanda er á því reist að ofangreind ráðstöfum hafi farið fram innan sex mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á búi Byggðaverks ehf.  Greiðslan hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri sem stefndi hafi haft beinan fjárhagslegan hag af.  Um lagastoð fyrir þessari kröfu vísar stefnandi til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á 141. gr. laga nr. 21/1991 og telur að þessi ráðstöfun hafi augljóslega verið stefnanda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hafi ráðstöfunin leitt til þess að eignir hafi ekki verið til reiðu fyrir aðra kröfuhafa.  Skuldarinn hafi fyrir löngu verið orðinn ógjaldfær og stjórnendum stefnda hafi mátt vitað um fjárhagsstöðu félagsins er gengið hafi verið frá samningi.

Stefnandi tekur fram að tryggingarbréf að fjárhæð 25 milljónir króna skipti ekki máli í þessu sambandi.  Tryggingarbréfið hafi verið gefið út 8. október 1999 en ekki þinglýst fyrr en meira en þrjár vikur hafi verið liðnar frá útgáfu þess.  Veðréttur samkvæmt bréfinu sé því fallinn niður gagnvart skuldheimtumönnum félagsins, sbr. 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.

Fjárkrafa stefnanda byggist á 142. gr. laga nr. 21/1991.  Um dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi bendir á að í veðlögum frá 1887 hafi verið ákvæði í 7. gr. þess efnis að veðbréfi sem þinglýst hafi verið of seint hafi ekki haldið verðgildi sínu þótt því væri þinglýst síðar.  Með lögum nr. 65/1957 hafi frestur til að þinglýsa verið ákveðinn þrjár vikur frá útgáfudegi bréfs.  Sama regla hafi gilt og áður að veðsetningin hafi orðið ógild gagnvart veðþolanum og síðari veðhöfum ef veðbréfi hafi verið þinglýst of seint.  Þessi regla hafi verið tekin upp í 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 en þó nokkuð breytt.  Nú haldi bréf fullu veðgildi bæði gagnvart veðþola og síðari samnings­veðhöfum sem séu grandsamir um veðsetninguna.

Samkvæmt þessu hljóti réttur veðhafa að víkja fyrir rétti fjárnámshafa í eignina og einnig fyrir rétti þrotabús veðþolans.  Hafi nauðungarsala farið fram á hinum veðsetta hlut áður en bú veðþola sé tekið til gjaldþrotaskipta og andvirðinu sé ráðstafað til veðhafa sem byggi kröfu sína á veðbréfi sem þinglýst hafi verið of seint, þá standi sú ráðstöfun, burt séð frá því hvort réttur veðþola hafi þurft að víkja fyrir þrotabúinu ef hann hafi ekki náð fullnustu fyrir úrskurðardag.  Andvirði bifreiðarinnar ZH-341 hafi verið ráðstafað til stefnda þrátt fyrir að veðbréf hans væri haldið ofangreindum annmörkum og skiptastjóri hafi ekki gert athugasemdir við þá ráðstöfun. 

Stefndi telur að það sama eigi við þegar veðþolinn greiði veðskuldina eða hluta hennar með þeim hætti sem í máli þessu getur.  Byggist það á því að veðréttur stefnda í lausafjármununum hafi verið í fullu gildi gagnvart veðþolanum þegar greiðslan hafi farið fram og síðari veðhöfum hafi ekki verið til að dreifa.  Greiðslan hafi því verið fullkomlega eðlileg og ekki farið í bága við ákvæði 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Stefndi hafi á þessum tíma getað sótt rétt sinn á hendur félaginu á grundvelli veðréttar síns, líkt og hann hafi gert með bifreiðina, og sú fullnusta hafi staðið óhögguð þrátt fyrir að bú félagsins hafi síðar orðið gjaldþrota.  Ekkert ótilhlýðilegt hafi verið við þessa greiðslu.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að veðrétturinn viki gagnvart rétti þrotabúsins lítur stefndi svo á að greiðslan hafi verið eðlileg eins og sakir hafi staðið, sbr. 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga in fine. 

Varakrafa stefnda um lækkun dómkrafna byggist á því að umræddar eignir hafi ekki nýst stefnda með þeim hætti sem gert hafi verið ráð fyrir.  Fyrir liggi að stefndi hafi ekki fengið bifreiðina ZH-341 afhenta eins og afsalið hafi gert ráð fyrir.  Á bifreiðinni hafi hvílt veðskuld sem ekki hafi verið greidd og svo hafi farið að hún hafi verið seld á uppboði.  Eftir standi að aðrar eignir hafi selst á 2.500.000 krónur auk þess sem verðmæti að fjárhæð 249.000 krónur sé enn í vörslum stefnda og hafi ekki selst.  Er gerð sú krafa að endurgreiðslukrafan taki mið af þessari staðreynd.

Af öllum atvikum megi vera ljóst að stefndi hafi verið í góðri trú er afsalið hafi verið gefið út.  Engin skilyrði séu því til að rifta greiðslunni á grundvelli 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Um leið sé ljóst að endurgreiðslukrafan geti ekki byggst á ákvæðum 1. mgr. 142. gr. nr. 21/1991.

III.

Eins og framan er rakið er ekki deilt um málavexti.  Byggðaverk ehf. stóð í skuld við stefnda, annars vegar samkvæmt tryggingarbréfi að höfuðstól 25 milljónir krónur með veði í safni lausafjármuna og hins vegar samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð 1.680.000 krónur með veði í bifreiðinni ZH-341.  Tryggingarbréfin eru bæði útgefin 8. október 1999.  Byggðaverk ehf. greiddi hluta af veðkröfum 23. október 2002 með því að selja dótturfélagi stefnda, Fjárvara ehf., flesta hinna veðsettu lausa­fjármuna, samtals á 5.950.425 krónur.  Áður höfðu aðilar fengið verkfræðistofu til þess að meta munina til verðs.  Byggðaverk ehf. var síðan úrskurðað gjaldþrota 21. febrúar 2003.

Óumdeilt er að tryggingarbréfunum var ekki þinglýst innan þriggja vikna frestsins sem 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 gerir að skilyrði fyrir því að sjálfsvörsluveð í lausafé haldi gildi gagnvart grandlausum skuldheimtumanni.

Veðsamningur komst á milli stefnda og Byggðaverks ehf. við undirritun tryggingarbréfanna tveggja.  Fallast má á með stefnda að veðréttur hans var í fullu gildi gagnvart veðþolanum er greiðslan fór fram þar sem síðari veðhöfum eða öðrum kröfuhöfum var ekki til að dreifa.  Á þeim tíma fór greiðslan ekki í bága við 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.  Gjaldþrot félagsins og mótmæli stefnanda nú, en stefnandi telst grandlaus skuldheimtumaður í skilningi 48. gr. þinglýsingarlaga, veldur því hins vegar að veðsamningurinn nýtur ekki réttarverndar gagnvart stefnanda.  Ástæðan er sú að stefndi gerði ekki þær ráðstafanir við þinglýsingu tryggingar­bréfanna sem þinglýsingarlög mæla fyrir um til þess að veðsamningur héldi gildi sínu.

Greiðslan fór fram innan sex mánaða fyrir frestdag og fór fram með lausafjármunum.  Slík greiðsla telst óvenjulegur greiðslueyrir í viðskiptum við lánastofnun.  Skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 eru því uppfyllt í málinu.

Varakrafa stefnda um lækkun dómkrafna byggist á því að stefndi hafi fengið minna fyrir eignirnar við sölu þeirra heldur en við kaup.  Ekki verður talið að það sé á áhættu stefnanda að minna fékkst fyrir eignirnar heldur en virðingargjörð og samningur aðila hljóðaði á um.  Verður talið að miða verði við kaupverð enda ekki upplýst um vörslu munanna eða önnur atvik sem leiddu til þess að verðmæti þeirra rýrnaði.  Endurgreiðslukrafa stefnanda verður því tekin til greina samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti.  Eftir þeirri niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Rift er greiðslu Byggðaverks ehf. til stefnda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, upp í skuld við stefnda sem fram fór með því að Byggðaverk ehf. afsalaði 23. október 2002 til stefnda tilteknum vélum, gámum, vinnupöllum, vinnuskúrum, byggingarkrana, sendibifreiðinni ZH-341, tölvu- og skrifstofubúnaði og fleiri tækjum að verðmæti samtals 5.950.425 krónur, allt samkvæmt afsali 23. október 2002.

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Byggðaverks ehf., 5.950.425 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. júlí 2003 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.