Hæstiréttur íslands
Mál nr. 216/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fyrirsvar
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 7. júní 2011. |
|
Nr. 216/2011. |
Rallýkross-klúbburinn (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fyrirsvar. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans gegn A var vísað frá dómi með vísan til 4. mgr. 17. gr. sem og 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar sagði að dómkrafa R lyti að viðurkenningu á réttarstöðu hans gagnvart A sem sjálfstæður lögaðili. Við úrlausn um frávísunarkröfu A reyndi á hið sama og væri því óhjákvæmilegt að í reynd væri tekin afstaða til efnisþátta í dómkröfu R. Var talið að R hefði ekki tekist að sýna fram á að þeir fjórir menn, sem höfðað hefðu málið í hans nafni, færu með fyrirsvar fyrir hann. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um frávísun málsins með vísan til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess að „þeim Einari Jóhanni Gíslasyni ..., Guðbergi P. Guðbergssyni ..., Birgi Vagnssyni ... og Ólafi Sigurjónssyni ... verði in solidum“ gert að greiða sér kærumálskostnað.
Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði hafa fjórir nafngreindir menn „allir vegna Rallýkross-klúbbsins“ höfðað mál þetta og krafist þess að viðurkennt verði að sóknaraðili sé sjálfstætt félag, með sjálfstæða stjórn og fjárhag, sem ekki tengist eða heyri undir varnaraðila. Þar greinir og að fyrir liggi ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 27. febrúar 2008 og úrskurður fjármálaráðherra 18. júní sama ár um að sóknaraðili hafi á stofnfundi varnaraðila 22. október 2002 formlega orðið deild innan varnaraðila. Í hinum síðarnefnda úrskurði hafi jafnframt verið staðfest ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um skráningu nýrrar stjórnar varnaraðila, flutningur á lögheimili hans og loks að nafni sóknaraðila skyldi breytt í „Rallýcrossdeild-AÍH“.
Í kæru sinni tekur sóknaraðili fram að málið sé höfðað af fjórum einstaklingum í hans nafni til viðurkenningar á sjálfstæði hans. Því sé ljóst að fyrirsvarsmenn sóknaraðila höfði málið vegna hans en ekki í eigin nafni og aðild að kröfu sóknaraðila sé því skýr. Hann mótmæli því sem fram komi í hinum kærða úrskurði að sóknaraðili hafi verið sameinaður öðrum félögum undir merkjum varnaraðila 22. október 2002, enda hafi héraðsdómur með úrskurðinum tekið afstöðu til þess efnisatriðis sem um sé deilt í málinu. Hann ítrekar að ágreiningur málsins snúist um hvort sóknaraðili hafi í raun einhver slík tengsl við varnaraðila að þeim síðarnefnda hafi verið rétt eða skylt að hlutast til um málefni þess fyrrnefnda. Ótækt sé að gera ráð fyrir slíkum rétti varnaraðila áður en málið hafi verið flutt um þann efnisþátt.
Dómkrafa sóknaraðila lýtur að viðurkenningu á réttarstöðu hans gagnvart varnaraðila sem sjálfstæður lögaðili. Við úrlausn um frávísunarkröfu varnaraðila reynir á hið sama og er því óhjákvæmilegt að þá sé í reynd tekin afstaða til efnisþátta í dómkröfunni.
Einn þeirra nafngreindu fjórmenninga, sem höfða mál þetta í nafni sóknaraðila, sótti stofnfund varnaraðila 22. október 2002 sem formaður Rallýkross-klúbbsins og samþykkti tillögu um að klúbburinn yrði sameinaður tveimur öðrum nafngreindum félögum undir merkjum varnaraðila. Var hann á fundinum kosinn í stjórn hins nýja félags. Ekki er annað komið fram í málinu en að aðrir sem mættir voru á fund þennan hafi verið í góðri trú um heimild hans til að samþykkja tillöguna fyrir hönd klúbbsins. Ekki verður heldur af gögnum málsins séð að nokkuð hafi verið aðhafst af hálfu sóknaraðila í nokkur ár eftir þennan fund til að draga í efa þátt sóknaraðila í sameiningu félaganna, þrátt fyrir að hann haldi því nú fram að forsendur hafi síðar brostið fyrir sameiningunni. Með hliðsjón af þessu verður talið að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að fyrrgreindir fjórir menn fari með fyrirsvar fyrir hann og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þann 4. febrúar sl., var höfðað 15. september 2009.
Mál þetta höfða Einar Jóhann Gíslason, Bakkahjalla 5, Kópavogi, Guðbergur P. Guðbergsson, Roðamóa 9, Mosfellsbæ, Birgir Vagnsson, Vesturási 60, Reykjavík og Ólafur Sigurjónsson, Heiðarbrún 5, Reykjanesbæ, allir vegna Rallýkross-klúbbsins.
Stefndi er Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar, Lindarbergi 50, Hafnarfirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að Rallýkross-klúbburinn sé sjálfstætt félag, með sjálfstæða stjórn og fjárhag, sem ekki tengist eða heyrir undir Akstursíþróttadeild Hafnarfjarðar og hafi aldrei gert það. Þá er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að Rallýkrossbrautin við Kapelluhraun í Hafnarfirði sé eign Rallýkross-klúbbsins. Krafist er málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda. Stefndi krefst málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er frávísunarkrafa stefnda til úrlausnar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.
I.
Stefnandi kveður forsögu máls þessa vera þá að þann 8. janúar 1991 hafi Rallýkross-klúbburinn sótt um kennitölu hjá fyrirtækjaskrá og verið úthlutað kennitölunni 480191-1539. Tilgangur félagsins hafi verið félagsstarfsemi og rekstur rallýkrossbrautar. Þeir aðilar sem stóðu að stofnun félagsins hafi verið Guðbergur Guðbergsson, Einar Gíslason, Karl Gunnlaugsson, Birgir Vagnsson, Hlöðver Gunnarsson, Jón Halldórsson og Ólafur Sigurjónsson. Í kjölfarið hafi félagið verið skráð í fyrirtækjaskrá sem frjáls félagasamtök og hafi félagið starfað á sviði akstursíþrótta. Eftir stofnun klúbbsins hafi þeir Karl Gunnlaugsson, Hlöðver Gunnarsson og Jón Halldórsson gengið frá klúbbnum og teljist því ekki lengur til félagsmanna. Til hægðarauka verði hér eftirleiðis einnig vísað til Rallýkross-klúbbsins sem stefnanda, enda mál þetta höfðað af aðilum klúbbsins vegna hans.
Félagið hafi í upphafi starfað undir heitinu Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur, Rally-Cross deild. Meðal þess sem félagið tók sér fyrir hendur hafi verið bygging rallýkrossbrautarinnar við Kapelluhraun í Hafnarfirði, en félagsmenn hafi látið persónulega fé af hendi rakna til byggingarinnar auk þess sem félagið var styrkt af opinberum aðilum, m.a. Íþrótta- og tómstundaráði og Reykjavíkurborg. Þann 19. nóvember 1990 hafi þáverandi félagsmenn gert með sér samning um byggingu rallýkrossbrautarinnar og í kjölfarið hafi verið gerður lóðarleigusamningur við Skógrækt ríkisins, dags. 21. nóvember 1990.
Rallýkrossbrautin við Kapelluhraun hafi síðan verið reist fyrir tilstilli félagsmanna og nýtt af þeim í kjölfarið. Alla tíð hafi lóðarleiga vegna brautarinnar verið greidd af félagsmönnum og þeir einir farið með yfirráð yfir brautinni.
Þann 21. október 2002 hafi einn stofnenda Rallýkross-klúbbsins, Guðbergur Guðbergsson, ásamt Halldóri Jóhannssyni, Ingvari Erni Karlssyni, Guðjóni Magnússyni og Aroni Reynissyni sótt um kennitölu fyrir Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar (AÍH). Hafi þeim verið úthlutuð kennitalan 611002-2030 og sé það félag stefndi í máli þessu.
Stofnfundur stefnda, skv. óundirritaðri fundargerð, var haldinn þann 22. október 2002. Á fundinum hafi samkvæmt fyrrgreindri fundargerð verið mættur f.h. Rallýkross-klúbbsins Guðbergur Guðbergsson. Á fundinum hafi verið lögð fram tillaga að sameiningu Rallýkross-klúbbsins, Mótorsportklúbbs Íslands og Vélíþróttafélags Hafnarfjarðar undir merkjum AÍH. Lögð hafi verið fram drög að lögum hins nýja félags sem skyldi vera deildarskipt og skyldi hvert félag fyrir sig starfa áfram undir sinni kennitölu sem deild innan AÍH. Á fundinum hafi fyrrgreindur Guðbergur kosinn gjaldkeri AÍH.
Forsendur fyrir stofnun félagsins hafi verið þær að fyrrgreind akstursíþróttafélög áttu í viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um úthlutun lóðar til þess að hægt væri að byggja akstursíþróttabraut. Afstaða bæjarfélagsins hafi verið sú að ekki væri hægt að semja við einn hinna einstöku aðila heldur yrðu þeir að koma fram undir einu merki ef samningar ættu að nást. Skemmst sé frá því að segja að eftir stofnun félagsins hafi fyrrgreindar umræður runnið út í sandinn og ekkert orðið úr lóðaúthlutuninni. Eftir að ljóst var að ekki næðust samningar við Hafnarfjarðarbæ hafi ekki verið um frekari samskipti að ræða milli stefnanda og stefnda sem gáfu til kynna að nokkuð samstarf eða deildaskipting væri þar á milli. Hafi stefnandi ráðið öllum sínum málefnum sjálfur, gert samninga í eigin nafni og haft sjálfstæðan fjárhag.
Þann 19. mars 2007 hafi verið send tilkynning til Fyrirtækjaskrár þess efnis að búið væri að kjósa nýja stjórn hjá stefnanda, auk þess sem tilkynnt var um flutning á lögheimili félagsins. Tilkynningin hafi verið undirrituð af Gunnari Bjarnasyni og Gunnari Hjálmarssyni. Þann 25. júlí 2007 hafi síðan borist tilkynning um að nafni félagsins hefði verið breytt úr Rallýkross-klúbburinn yfir í Rallycrossdeild AÍH.
Þann 1. október 2007 hafi Fyrirtækjaskrá borist mótmæli frá fyrrgreindum Guðbergi Guðbergssyni og Einari Gíslasyni, tveggja stofnenda stefnanda, þar sem því var mótmælt að fyrrgreindar breytingar hefðu verið gerðar með lögmæltum hætti og þess óskað að skráningin yrði færð í það horf sem hún var áður en fyrrgreindar tilkynningar bárust Fyrirtækjaskrá. Átt hafi sér stað nokkur bréfaskipti milli aðila og Fyrirtækjaskrár þar sem lögð voru fram frekari gögn og aðilar leituðust við að skýra mál sitt.
Í ákvörðun Fyrirtækjaskrár, dags. 27. febrúar 2008, kemur fram að stefnandi hafi á stofnfundi stefnda, þann 22. október 2008, formlega orðið deild innan þess félags. Breytingar stefnda, sem tilkynntar voru 19. mars og 25. júlí 2007, hefðu því verið gerðar með lögformlegum hætti og bæri að skrá þær í fyrirtækjaskrá.
Ákvörðun Fyrirtækjaskrár hafi verið kærð til fjármálaráðuneytisins með kæru dags. 13. mars 2008. Ráðuneytið hafi úrskurðað í málinu þann 18. júní 2008. Í úrskurði ráðuneytisins hafi ákvörðun Fyrirtækjaskrár verið staðfest að því leyti að talið var að stefnandi hefði formlega orðið deild innan stefnda á stofnfundi þess félags þann 22. október 2002. Þá hefði jafnframt verið staðfest ákvörðun Fyrirtækjaskrár um skráningu nýrrar stjórnar, flutning lögheimilis og breytingu á nafni stefnanda. Eftir að úrskurður fjármálaráðuneytisins féll hafi stefndi jafnframt krafist eignarréttar yfir rallýkrossbrautinni í Kapelluhrauni, á þeim grundvelli að um sé að ræða eign AÍH á grundvelli sameiningarinnar.
Málsatvik eins og þau horfa við stefnda eru þau helst að á stofnfundi þann 22. október 2002 hafi verið stofnað Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar, (skammstafað; AÍH), stefndi í þessu máli. Á fundinum hafi verið samþykkt tillaga að sameiningu þriggja félaga; Rallýkross-klúbbsins, kt. 480191-1539, Mótorsportsklúbbs Íslands, kt. 480499-2049 og Vélíþróttafélags Hafnarfjarðar, kt. 691200-3450, undir merki Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, kt. 611002-2030. Á stofnfundinum hafi verið samþykkt lög fyrir hið nýja félag, er vera skyldi deildarskipt og skyldi hvert stofnfélaganna starfa áfram undir sinni kennitölu sem íþróttadeild innan AÍH. Í nóvember 2002 hafi AÍH fengið inngöngu í Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH). Þá sé stefndi einnig aðili að Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ).
Á aðalfundi stefnda fyrir árið 2007 er haldinn var 14. mars 2007, hafi auk kjörs í aðalstjórn félagsins, verið kjörin ný stjórn fyrir rallýkrossdeild félagsins. Hana hafi skipað: Gunnar E. Bjarnason, Páll Pálsson og Baldur Pálsson, og varastjórn: Hilmar Þráinsson, Gunnar Örn Hjálmarsson og Kristinn V. Sveinsson. Eins og greini í úrskurði Fjármála-ráðuneytisins, dags. 18. júní 2008, í máli nr. FJR08030057/120, hafi fyrirtækjaskrá RSK þann 19. mars 2007 verið send tilkynning um nýja stjórn rallýkrossdeildar stefnda og þann 25. júlí 2007 um breytingu á nafni deildarinnar úr Rallýkross-klúbburinn yfir í Rallýcrossdeild AÍH. Vegna mótmæla er fyrirtækjaskrá RSK bárust þann 1. október 2007 frá tveimur stefnenda í þessu máli, þeim Guðbergi P. Guðbergssyni og Einari J. Gíslasyni, þar sem því var haldið fram að Rallýkross-klúbburinn hefði ekki sótt með lögformlegum hætti um aðild að AÍH, hafi fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra ákvarðað í málinu þann 27. febrúar 2008. Með úrskurði Fjármálaráðuneytisins, dags. 18. júní 2008, hafi ráðuneytið staðfest ákvarðanir fyrirtækjaskrár RSK, um að Rallýkross-klúbburinn hafi á stofnfundi Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, þann 22. október 2002, formlega orðið deild innan þess félags, og um skráningu á breytingu á nafni félagsins úr Rallýkross-klúbbnum í Rallýcrossdeild AÍH. Ekki hefur verið krafist ógildingar fyrir dómstólum á umræddri ákvörðun fyrirtækjaskrár RSK og/eða úrskurði Fjármálaráðuneytisins, dags 18. júní 2008.
Núverandi aðalstjórn stefnda skipi; Gunnar E. Bjarnason formaður, Óskar Páll Þorgilsson, Gunnar Örn Hjálmarsson, Aron Reynisson og Jón R. Vilhjálmsson. Núverandi stjórn Rallýkrossdeildar AÍH hafi verið kjörin á aðalfundi 20. janúar 2009, og hana skipi; Gunnar E. Bjarnason (formaður), Gunnar Örn Hjálmarsson, Jörgen Tommy Jensson, Ólafur Ingi Ólafsson, Guðmundur Ingi Arnarsson og Ólafur Tryggvason.
Stefndi kveður það ekki rétt, sem haldið sé fram í stefnu, að eftir stofnun stefnda, hafi samningaviðræður við Hafnarfjarðarbæ um úthlutun lóðar í Kapelluhrauni undir akstursíþróttabraut runnið út í sandinn. Málið hafi haldið áfram í ferli hjá Hafnarfjarðarbæ, sbr. fundargerðir skipulags- og byggingarráðs. Hins vegar hafi það ferli tekið langan tíma þar sem ákvarða þurfti deiliskipulag fyrir svæðið í heild sinni. Í því ferli hafi m.a. þurft að bíða umsagna frá fjölmörgum aðilum og athugana á svæðinu. Á þessu ári hafi svo formleg afhending á landinu til stefnda frá Hafnarfjarðarbæ átt sér stað. Á hinn bóginn hafi keppnishald í rallýkross nánast legið niðri á árabilinu 2003 til 2007 og t.d. engin starfsemi verið á Rallýkrossbrautinni í Kapelluhrauni á þeim tíma. Það sé hreinn uppspuni sem haldið er fram af stefnendum í stefnu á bls. 6, að félagsmenn stefnda hafi óskað eftir að taka brautina á leigu eða kaupa hana af félagsmönnum Rallýkross-klúbbsins, enda hafi Rallýkross-klúbburinn á þessum tíma verið deild innan AÍH.
Stefndi tekur fram að fjölmargir af félagsmönnum Rallýkrossdeildar AÍH hafi líkt og stefnendur komið að byggingu Rallýkrossbrautarinnar í Kapelluhrauni, og unnið að því verkefni launalaust í svo tugum og jafnvel hjá sumum hundruðum klukkustunda skipti. Brautin hafi verið byggð fyrir styrki frá opinberum aðilum s.s. Íþrótta- og tómstundaráði og Reykjavíkurborg, er aflað var á þeim forsendum að um íþrótta- og félagasamtök á sviði akstursíþrótta væri að ræða, og með vinnuframlagi félagsmanna Rallýkross-klúbbsins (nú Rallýkrossdeildar AÍH) sem á þessum tíma hafi líklega talið á bilinu 70-100 manns. Stefnendur hafi því á engan hátt staðið einir að byggingu brautarinnar, eins og gefið sé til kynna í stefnunni, en komið að henni líkt og aðrir félagsmenn.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að félagið hafi í raun aldrei sameinast stefnda eða orðið deild innan þess félags. Á stofnfundi þeim sem áður hefur verið fjallað um, og haldinn var þann 22. október 2002, hafi einungis einn aðili mætt fyrir hönd stefnanda, fyrrgreindur Guðbergur Guðbergsson. Ekki liggi fyrir í málinu nein gögn sem gefa til kynna að hann hafi verið bær til að veita samþykki félagsins til svo víðtækrar og róttækrar aðgerðar og að sameina félagið stefnda og gera það að deild innan þess félags. Ekki liggi fyrir neinar fundargerðir stefnanda eða annað umboð sem heimilaði fyrrgreindum Guðbergi að sameina stefnanda stefnda á stofnfundinum þann 22. október 2002. Ekki liggi fyrir að málið hafi verið rætt í stjórn stefnanda eða á aðalfundi og því síður að kosið hafi verið um formlega sameiningu og fyrrgreindum Guðbergi veitt umboð til að mæta á stofnfundinn í þeim tilgangi að samþykkja sameiningu. Samkvæmt lögum stefnanda þurfi samþykki tveggja stjórnarmanna fyrir öllum ákvörðunum er ekki séu í fjárhagsáætlun félagsins. Þá sé jafnframt tekið fram að engum skuli heimilt að skuldsetja félagið án samþykki meirihluta stjórnar. Ekki sé hægt að líta svo á að Guðbergur hafi haft stöðuumboð til slíkra ráðstafana á þeim grundvelli einum saman að sitja í stjórn félagsins. Skipti í þessu samhengi engu hvað stefndi mátti ætla um heimild fyrrgreinds Guðbergs til að skuldbinda félagið með þessum hætti en villa hans um umboð Guðbergs leiði ekki til þess að stefnandi verði bundinn af þeirri ráðstöfun, en umbjóðendur verði almennt ekki bundnir við ráðstafanir umboðsmanna fari þeir út fyrir umboð sitt skv. 10. sbr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Með sameiningu stefnanda og stefnda liggi fyrir að stefnandi hefði orðið deild innan stefnda og lotið lögum þess félags hvað varðar stjórnskipan og fundarhöld. Með slíkri sameiningu hefði sjálfstæði stefnanda því verið verulega takmarkað. Í lögum félagsins segi að félagið sé lokað félag stofnfélaga er komu að og ráku Rallykrossdeild B.I.K.R. Verði því að telja að slík skerðing á sjálfsákvörðunarrétti félagins og sameining þess við stefnda sé svo veruleg breyting á starfsemi þess að samþykkja hefði þurft slíka ráðstöfun á aðalfundi félagsins, þar sem allir félagsmenn hefðu tækifæri til að koma að skoðunum sínum og kjósa um hina umdeildu ráðstöfun. Til samanburðar megi nefna að hvað varðar samruna hluta- og einkahlutafélaga þarf hluthafafundur hins yfirtekna félags að samþykkja slíka ráðstöfun.
Sem fyrr segir liggi ekki fyrir nein gögn í málinu um að málið hafi verið rætt við hinn almenna félagsmann eða einu sinni í stjórn félagsins. Stefnendur byggi því á því að fyrrgreindur Guðbergur hafi ekki haft neitt umboð frá félaginu til að sameina það stefnda og hafi hann því ekki getað mætt lögformlega fyrir hönd þess á stofnfundinn og ráðstafað hagsmunum félagsins með þeim hætti sem stefndi heldur fram. Nærvera hans á stofnfundinum og samþykki hans við sameiningunni því verið algjörlega óskuldbindandi fyrir félagið og beri þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefnanda í máli þessu.
Sérstaklega sé vakin athygli á því að það er stefndi sem hefur haldið því fram alla tíð að sameiningin hafi náð fram að ganga og að stefnandi sé deild innan stefnda. Um leið og fyrirsvarsmönnum stefnanda varð kunnugt um að stefndi hafði kosið nýja stjórn og breytt nafni félagsins hafi því verið mótmælt harðlega, bæði til stefnda og Fyrirtækjaskrár. Þau einu gögn sem liggi fyrir í málinu um hina meintu sameiningu sé hin óundirritaða stofnfundargerð stefnda en ekkert liggi fyrir um afstöðu stefnanda eða félagsmanna hans. Telji stefnandi því að sönnunarbyrðin fyrir því að umrædd sameining hafi náð fram að ganga hvíli á stefnda.
Fallist dómurinn ekki á að fyrrgreindan Guðberg Guðbergsson hafi skort umboð til að skuldbinda félagið og takmarka sjálfstæði þess með þeim hætti sem þegar hefur verið lýst, byggi stefnandi á því að þær forsendur sem stóðu að baki sameiningunni hafi brostið stuttu síðar og hafi félagið því ekki verið skuldbundið af ráðstöfununum.
Eins og áður hafi verið lýst hafi forsendur þess að félag stefnda var stofnað verið þær að Hafnarfjarðarbær krafðist þess að hinir ýmsu akstursíþróttaklúbbar kæmu fram undir einum merkjum í samningaviðræðum sínum um úthlutun lóðar til byggingar akstursíþróttabrautar. Sjá megi af fundum þeim sem áttu sér stað áður en til stofnunar AÍH kom að hugmyndin var að stofna einkahlutafélag utan um starfsemi klúbbanna.
Sem fyrr segi hafi fyrrgreindar viðræður runnið út í sandinn stuttu eftir að hinn umdeildi stofnfundur var haldinn og hafi því forsendur til sameiningar klúbbanna verið brostnar. Stefnandi hafi staðið í þeirri trú að vegna þess að samningaviðræðurnar við Hafnarfjarðarbæ hefðu ekki tekist og forsendur fyrir sameiningunni væru brostnar væri félagið í raun ekki sameinað stefnda. Fyrrgreindur Guðbergur Guðbergsson, þrátt fyrir að hafa verið kosinn sem gjaldkeri stefnda á stofnfundi, hafi til dæmis aldrei gegnt því embætti í raun, enda hafi honum engin fundarboð borist og ekki hafi annað verið að sjá en að engin starfsemi væri hjá stefnda eftir að fyrrgreindar viðræður um lóðarúthlutun enduðu. Hafi stefnandi því talið að félagið hefði liðið undir lok áður en það hóf störf og því væru allar ákvarðanir sem teknar hefðu verið varðandi það óskuldbindandi.
Þessu til stuðnings megi benda á að ekki áttu sér stað nein samskipti milli aðila þar til árið 2007 er Aron Reynisson, einn fyrirsvarsmanna stefnda, hafði samband við stefnanda í því skyni að fá leigða braut félagsins við Kapelluhraun, til æfinga og fyrir keppnir. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að stefnandi upplýsti um að hann hefði þegar leigt brautina öðrum aðila að það ferli sem áður hefur verið lýst, hvað varðar nafnbreytingu og breytingu á stjórn og lögheimili félagsins, hófst. Stefndi hafi áður, í fimm ár, látið stefnanda afskiptalausan með öllu og höfðu félagsmenn enga ástæðu til að halda að fyrrgreindar ráðstafanir um sameiningu hefðu verið skuldbindandi eða að félagið væri deild innan stefnda.
Ennfremur því til stuðnings að stefnandi hafi ekki talið sig hafa sameinast stefnda, sé vakin athygli á því að fundargerð stofnfundarins frá 22. október var óundirrituð og því aldrei formlega tekið af skarið með sameiningu félaganna. Hafi stefnandi því mátt gera ráð fyrir því að formleg sameining færi ekki fram fyrr en eftir að samningar um úthlutun lóðar hefðu tekist við Hafnarfjarðarbæ.
Eftir fyrrgreindan stofnfund og þegar viðræður við Hafnarfjarðarbæ slitnuðu áttu hafi aðilar ekki átt í neinum samskiptum um fimm ára tímabil. Á þeim tíma hafi stefnandi komið fram í eigin nafni hvað varðar öll hans lögskipti, gert sjálfstæða samninga og haft sjálfstæðan fjárhag. Þar sem upprunalegar forsendur sameiningarinnar voru brostnar með öllu, félagsmenn töldu að hún hefði ekki átt sér stað og aldrei var formlega gengið frá henni verði að líta svo á að hún hafi aldrei átt sér stað og fallast á kröfu stefnanda í máli þessu.
Þá sé sérstaklega vakin athygli á því að fyrstu viðbrögð stefnanda, eftir að tilkynnt var um breytingu á stjórn, nafni og lögheimili, hafi verið að mótmæla breytingunum og leita réttar síns vegna málsins. Bendi allt framangreint til þess að sameiningin hafi aldrei átt sér stað í raun og aðgerðir vegna hinnar meintu sameiningar, mörgum árum eftir hinn meinta stofnfund og tímabil þar sem stefnandi hafði ekki orðið var við afstöðu stefnda um árabil, séu einungis tilraun til þess að koma höndum yfir eign stefnanda, rallýkrossbrautina að Kapelluhrauni.
Eins og að framan greinir hafi það verið meðlimir Rallýkross-klúbbsins sem stóðu að byggingu rallýkrossbrautarinnar og lögðu þar til eigið fé, auk þess sem þeir fengu styrki frá opinberum aðilum. Meðlimir Rallýkross-klúbbsins hafi gert með sér félagssamning um byggingu brautarinnar, klúbburinn sé skráður sem leigutaki fyrir lóðinni sem brautin hvílir á og hafi klúbburinn alla tíð greitt lóðarleigu vegna brautarinnar og önnur fasteignagjöld.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að Rallýkross-klúbburinn hafi aldrei í raun verið sameinaður stefnda sé jafnframt krafist viðurkenningar á því að Rallýkross-klúbburinn sé réttur eigandi að rallýkrossbrautinni við Kapelluhraun í Hafnarfirði til þess að enginn vafi leiki á um málið. Stefnendur telji ljóst að hafi aldrei orðið af sameiningunni sé ljóst að aldrei hafi orðið neinar breytingar yfir eignarhaldi brautarinnar og meðlimir Rallýkross-klúbbsins séu þeir einu sem hafi nokkuð tilkall til eignarhalds þar yfir.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að orðið hafi af sameiningunni í raun og að Rallýkross-klúbburinn sé deild innan stefnda geri stefnendur engu að síður þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að eignarhald rallýkrossbrautarinn í Kapelluhrauni sé engu að síður á höndum stefnenda sem þeirra félaga Rallýkross-klúbbsins sem komu að byggingu brautarinnar og vörðu til þess fjármunum.
Stefnendur byggja þessa kröfu sína á því að þeir hafi persónulega lagt til fjármuni við byggingu brautarinnar og aldrei hafi staðið til, né verið nokkur heimild til staðar til þess að afsala þeim eignaréttindum til þriðja aðila, hvort sem væri með sameiningu félagsins eða öðrum hætti. Þessu til stuðnings sé vakin athygli á því að félagsmenn Rallýkross-klúbbsins hafa litið á rallýkrossbrautina sem sína eign og nýtt hana sem slíka allt frá því að hún var reist. Umrædd rallýkrossbraut sé eina eign félagsins og ljóst sé að til að afsala réttindum yfir henni, réttindum sem tilheyrðu öllum félagsmönnum vegna fjárframlaga þeirra, hefði þurft samþykki allra félagsmanna, en það liggi hvergi fyrir í málinu. Þvert á móti hafi félagsmenn nýtt brautina sem sína eigin og gert sjálfstæða samninga um hana.
Þess ber að geta að fyrir munnlegan málflutning var fallið frá þeirri kröfu stefnenda að viðurkennt yrði að rallýkrossbrautin í Kapelluhrauni í Hafnarfirði væri eign félagsmanna Rallýkross-klúbbsins, færi svo að dómurinn féllist ekki á sjálfstæði Rallýkross-klúbbsins, sbr. framangreint.
Þá hafi, sem fyrr segir, lóðarleiga og önnur gjöld vegna brautarinnar alla tíð verið greidd af félagsmönnum Rallýkross-klúbbsins. Ekki hafi orðið nein breyting þar á með hinni meintu sameiningu félaganna, en félagsmenn AÍH muni hafa reynt að fá brautina á leigu auk þess að kaupa hana af félagsmönnum í Rallýkross-klúbbnum. Bendi þetta til þess að stefndi hafi aldrei litið á brautina sem sína eign, þar til hann sá sér leik á borði eftir úrskurð fjármálaráðuneytisins og tók þá brautina í sínar vörslur.
Um lagarök er auk ofangreindra, tilvísaðra ákvæða vísað til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar um umboðsmennsku og skuldbindingargildi samninga.
Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á eftirfarandi ástæðum og rökstuðningi;
Allur málatilbúnaður í stefnu, hvað varðar málsaðild, kröfugerð, og umfjöllun um málsatvik og málsástæður, sé afar óljós, óskýr og vægast sagt ekki greinargóður og uppfylli engan veginn skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. d, e og f liði umræddrar lagagreinar. Í stefnu sé ýmist rætt um stefnanda/stefnendur málsins sem einn eða fleiri aðila. Í kynningu á málsaðild segir að málið sé höfðað fyrir hönd; Einars J. Gíslasonar, Guðbergs P. Guðbergssonar, Birgis Vagnssonar og Ólafs Sigurjónssonar, vegna Rallýkross-klúbbsins. Þar segir jafnframt að málið sé höfðað til viðurkenningar á sjálfstæði stefnanda. Í dómkröfum sé stefnandi tilgreindur í eintölu. Neðst á bls. 1 í stefnu segir að málið sé höfðað af aðilum Rallýkross-klúbbsins vegna hans. Í umfjöllun í stefnu sé síðan ýmist vísað til stefnanda í eintölu eða fleirtölu og á bls. 6 í stefnu segir að stefnendur geri við þær aðstæður, að verði litið á Rallýkross-klúbbinn sem deild innan stefnda, kröfu um viðurkenningu á því að eignarhald rallýkrossbrautarinnar í Kapelluhrauni sé á höndum þeirra persónulega. Óskýrt sé þannig hvort sóknarmegin sé byggt á því að stefnendur málsins séu ofangreindir fjórir einstaklingar persónulega ellegar Rallýkross-klúbburinn (nú Rallýkrossdeildar AÍH) eða loks að stefnendur séu ofangreindir fjórir einstaklingar og Rallýkross-klúbburinn. Hvað síðastgreint varðar vísast þó til að í kynningu á málsaðilum í inngangi stefnu, er hvorki tilgreind kennitala né heimilisfang við Rallýkross-klúbbinn (nú Rallýkrossdeild AÍH), eins og skylt er ef um málsaðila er að ræða sbr. 1. tl. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ofangreindir fjórir einstaklingar séu hins vegar þar allir tilgreindir með fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi. Í skrá stefnenda yfir framlögð skjöl séu og málsaðilar tilgreindir umræddir fjórir menn gegn stefnda, en ekki Rallýkross-klúbburinn (nú Rallýkrossdeild AÍH), þannig að helst virðist mega skilja þetta svo að stefnendur séu umræddir fjórir einstaklingar, en Rallýkross-klúbbnum (nú Rallýkrossdeild AÍH) sé ekki haldið fram sem málsaðila. Í dómkröfum í stefnu segir hins vegar að ,,Stefnandi” geri þá kröfu, en þar eins og annars staðar sé ekki ljóst við hvern sé átt þegar getið er um stefnanda eða stefnendur. Samkvæmt dómkröfu í stefnu krefjist stefnendur/stefnandi viðurkenningar á því að Rallýkross-klúbburinn sé sjálfstætt félag frá stefnda og ásamt félagsmönnum í honum eigandi að tilteknu mannvirki. Ekki sé þannig samræmi á milli aðildar að dómkröfum í málinu og tilgreindra stefnenda þess. Engin grein sé heldur gerð fyrir því í stefnu á hverjum grundvelli þessir fjórir einstaklingar telji sig þess umkomna að ákvarða einhliða í málefnum Rallýkrossdeildar AÍH (áður Rallýkross-klúbbsins) og til málshöfðunar í eigin nafni vegna félagsins. Vísast hér um að eins og fram komi í stefnunni er Rallýkrossdeild AÍH (og áður Rallýkross-klúbburinn) ,,almennt félag” skv. hugtakaskilgreiningu félagaréttar, þ.e. skráð hjá fyrirtækjaskrá sem frjáls félagasamtök, og stefnendur eru því ekki, né voru í október 2002, persónulega eigendur að félaginu. M.a. af þessum sökum verði ekki séð að stefnendur hafi lögvarða hagsmuni hvað varðar úrlausn þess lögfræðilega álitaefnis sem lagt er fyrir dóminn skv. málatilbúnaði stefnenda, og eigi því m.a. með vísan til 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að vísa málinu þegar í stað frá dómi. Í þeim þætti dómkrafna stefnenda er lýtur að Rallýkrossbrautinni við Kapelluhraun í Hafnarfirði, gera stefnendur kröfur um viðurkenningu á eignarrétti Rallýkross-klúbbsins og félagsmanna í honum að brautinni. Þarna sé krafist dóms um viðurkenningu á eignarrétti Rallýkross-klúbbsins, sem eins og áður segir er ekki málsaðili, og ótilgreindra félagsmanna, sem ekki heldur eru aðilar málsins. Hér er því enn bent á það ósamræmi sem er á milli tilgreindra málsaðila og dómkrafna stefnenda í málinu. Þá gæti ósamræmis hvað varðar dómkröfur og málsástæður stefnenda. Samkvæmt umfjöllun á bls. 6 í stefnu haldi stefnendur því fram að viðurkenna eigi að eignarhald að rallýkrossbrautinni sé í þeirra höndum, þ.e. umræddra fjögurra einstaklinga persónulega, meðan dómkröfur stefnenda eru í aðra átt, þ.e. um viðurkenningu á eignarrétti Rallýkross-klúbbsins (nú Rallýkrossdeildar AÍH) og félagsmanna hans að brautinni. Þá gæti innbyrðis ósamræmis hvað varðar málsástæður stefnenda, s.s. hvað varðar eignarhald að Rallýkrossbrautinni, þar sem því sé ýmist haldið fram að rallýkrossbrautin sé eign Rallýkross-klúbbsins eða persónuleg eign félagsmanna í Rallýkross-klúbbnum. Þá endurspeglist óljós tilgreining á málsaðilum yfir í umfjöllun um málstæður. Af umfjöllun í stefnu á bls. 5 mætti skilja að kærur til fyrirtækjaskrár og Fjármálaráðuneytisins er vörðuðu skráningu félagsins, kjör nýrrar stjórnar og breytingu á nafni deildarinnar, hafi verið gerðar í nafni Rallýkross-klúbbsins (nú Rallýkrossdeildar AÍH), en samkvæmt úrskurði Fjármálaráðuneytisins hafi aðilar þess kærumáls verið Guðbergur P. Guðbergsson og Einar J. Gíslason, auk stefnda varnarmegin.
Samkvæmt ofangreindu sé aðild stefnenda að málinu algerlega vanreifuð í stefnu. Eins og gerð hafi verið grein fyrir hér að ofan, telji stefndi að umræddur Rallýkross-klúbbur sé ekki lengur til sem sjálfstætt félag, heldur sem deild innan stefnda, þ.e. Rallýkrossdeild AÍH, sbr. skráningu þess hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Þegar um málshöfðun fyrir skráð almennt félag sé að ræða, sé það stjórn félagsins sem er í fyrirsvari, og höfðar málið í nafni félagsins. Stefnendur séu ekki stjórnarmenn hjá Rallýkrossdeild AÍH og hafa því ekki fyrirsvar í málefnum félagsins. Samkvæmt skráningu hjá fyrirtækjaskrá skipuðu stefnendur heldur ekki stjórn hjá Rallýkross-klúbbnum þegar félagið sameinaðist AÍH, og ekki sé heldur á því byggt í stefnu að svo hafi verið. Ef ekki er fyrir hendi stjórn í almennu félagi, verði að telja að nauðsyn sé á samaðild allra félagsmanna að baki málshöfðun fyrir félagið, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ljóst sé að stefnendur eru aðeins lítill hluti af þeim er töldust félagsmenn í Rallýkross-klúbbnum (og áður Rallýkrossdeild B.I.K.R) við sameininguna 22. október 2002. Loks séu stefnendur einungis fjórir af þeim sjö aðilum sem á árinu 1991 stofnuðu Rallýkross-klúbbinn. Frávísunarkrafa stefnda sé því m.a. byggð á 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Að síðustu sé hér vísað til, hvað varðar dómkröfur stefnenda þar sem krafist er viðurkenningar á sjálfstæði Rallýkross-klúbbsins (nú Rallýkrossdeildar AÍH) frá stefnda, að í málinu er ekki gerð krafa um ógildingu á gagnstæðri ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 27. febrúar 2008 og úrskurði Fjármálaráðuneytisins í máli nr. FJR08030057/120, er staðfesti ákvörðun fyrirtækjaskrár, m.a. hvað varðar stöðu félagsins.
Vísað er einkum til réttarfarsákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað er til 80. gr. þeirra laga, a-, d-, e- og f-liðar og reglna um skýran og glöggan málatilbúnað og frávísunarástæður vegna galla á málatilbúnaði. Sömuleiðis er vísað til 1. og. 2. mgr. 18. gr. sömu laga, svo og 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991. Þá er vísað til 1. mgr. 25. gr. laganna.
IV.
Eins og rakið er í lýsingu málavaxta að framan lýtur ágreiningur aðila máls að því hvort sameining Rallýkross-klúbbsins, Mótorsportklúbbs Íslands og Vélíþróttafélags Hafnarfjarðar undir merkjum AÍH þann 22. október 2002 hafi haft gildi að lögum. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að Rallýkross-klúbburinn sé enn undir stjórn félagsmanna hans og starfi innan Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur. Stefndi byggir hins vegar, með vísan til skráningar hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, á því að Rallýkross-klúbburinn sé ekki lengur til sem sjálfstætt félag. Hann hafi runnið saman við áðurnefnd félög á lögmætan hátt og sé nú deild innan stefnda og gangi nú undir nafninu Rallýcrossdeild AÍH,
Við munnlegan flutning málsins féll stefnandi frá þeirri kröfu að viðurkennt yrði með dómi að eignarhald rallýkrossbrautarinn í Kapelluhrauni væri á höndum félaga Rallýkross-klúbbsins sem komu að byggingu brautarinnar og vörðu til þess fjármunum, í því tilfelli að sameiningin yrði talin gild. Í málflutningi skýrði lögmaður stefnanda þessa breytingu á kröfugerð svo, að til þess að umrædd varakrafa hefði mátt komast að hefðu fyrirsvarsmenn einnig þurft að vera persónulega aðilar að málinu til vara, en svo hafi ekki verið tilgreint í stefnu. Varðandi þetta atriði verður að taka undir með stefnda að málatilbúnaður stefnanda hafi verið mjög á reiki í stefnu varðandi málsaðild þar sem ýmist hafi verið vikið að stefnanda eða stefnendum. Að þessu leyti þykir stefnandi hafa skýrt málatilbúnað sinn með umræddri breytingu á kröfugerð sinni.
Eftir stendur ágreiningur um það hvort stefnandi geti gert kröfu um viðurkenningu á því að Rallýkross-klúbburinn sé sjálfstætt félag, með sjálfstæða stjórn og fjárhag, sem ekki tengist eða heyri undir Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar.
Ekki liggur fyrir í málinu, hverjir voru í stjórn Rallýkross-klúbbsins á hverjum tíma. Hins vegar er ljóst af gögnum málsins að Guðbergur P. Guðbergsson kom fram fyrir hönd Rallýkross-klúbbsins, er hann var sameinaður hinum áðurnefndu félögum undir merkjum AÍH þann 22. október 2002.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Guðbergur kom fram fyrir hönd Rallýkross-klúbbsins. Það sést meðal annars á lóðaleigusamningi Rallýkross-klúbbsins við skógrækt ríkisins sem og samskiptum milli Rallýkross-klúbbsins og Reykjavíkurborgar í tengslum við styrkveitingar þess síðarnefnda til hins fyrrnefnda. Ljóst er þó af gögnum málsins að Einar Jóhann Gíslason kom á einhverjum tímapunkti einnig fram fyrir hönd Rallýkross-klúbbsins.
Óumdeilt er að á fundinn þann 22. október 2002. var mættur fyrir hönd Rallýkross-klúbbsins Guðbergur P. Guðbergsson. Hann hefur síðar sent frá sér þá yfirlýsingu að hann hafi ekki haft umboð til þess að binda Rallýkross-klúbbinn. Í yfirlýsingu sinni segir Guðbergur sig ekki hafa verið formann Rallýkross-klúbbsins, heldur hafi það verið Einar Jóhann Gíslason. Í sömu yfirlýsingu segist Guðbergur hafa komið að málinu með hagræðingu í huga, vegna fyrirhugaðrar stækkunar á svæði því er Rallýkross-klúbburinn hafði til afnota en Hafnarfjarðarbær hafði gert þá kröfu að aðilar þeir sem komu runnu inn í Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar kæmu sér saman undir einu merki, í þeim tilgangi að auðvelda samninga um úthlutun á landi til iðkunar akstursíþrótta. Samkvæmt óundirritaðri stofnfundargerð Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, dagsettri 22. október 2002, var Guðbergur kosinn gjaldkeri hins nýja félags.
Ekki hefur verið sýnt fram á að nokkur starfsemi hafi farið fram í Rallýkross-klúbbnum á tímabilinu frá sameiningu til ársins 2007. Þó var síðla árs 2006 gerður leigusamningur vegna rallýkross brautar sem hafði verið í eigu Rallýkross-klúbbsins en þann samning undirrita Guðbergur P. Guðbergsson og Einar Jóhann Gíslason. Ekkert liggur fyrir um efndir þess samnings.
Fram kemur í 1. mgr. 9. gr. laga stefnda Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar að deildir skuli halda aðalfund fyrir 20. nóvember hvert ár. Ekkert liggur fyrir um að slíkir fundir hafi verið haldnir í Rallýkross-klúbbnum á tímabilinu frá sameiningu til ársins 2007. Verður því í ljósi 6. mgr. 9. gr. laga stefnda, að telja það hafa verið rétt af stefnda að halda aðalfund þann 14. mars 2007. Á þeim fundi var kjörin ný stjórn fyrir Rallýkross-klúbbinn og var sú stjórn tilkynnt til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra. Þeir sem höfðuðu mál þetta vegna stefnanda eru ekki aðilar að þeirri stjórn. Skráning þeirrar stjórnar var staðfest með ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkiskattstjóra þann 27. febrúar 2008 og svo aftur með úrskurði Fjármálaráðuneytisins þann 18. júní 2008 í máli FJR08030057/120, einnig var í þeim úrskurði staðfest breyting á nafni félagsins úr Rallýkross-klúbburinn í Rallýcrossdeild AÍH, sem og flutningur á lögheimili félagsins. Ennfremur staðfesti ráðuneytið ákvörðun fyrirtækjaskrár um að Rallýkross-klúbburinn hafi á stofnfundi stefnda Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, þann 22. október 2002, formlega orðið deild innan þess félags. Ekki hefur verið krafist ógildingar á þeirri ákvörðun með dómi.
Stjórnendur félaga, stofnana eða samtaka koma fram einir eða fleiri í sameiningu sem fyrirsvarsmenn slíkra aðila eftir því sem leiðir af almennum reglum. Þeir aðilar sem höfðuðu mál þetta vegna stefnanda hafa ekki sýnt fram á að þeir séu réttilega að því komnir að reka þetta mál fyrir hönd Rallýkross-klúbbsins, nú Rallýcrossdeild AÍH, sem fyrirsvarsmenn.
Þegar fleiri en einn eiga óskipt réttindi eða óskipta skyldu ber þeim að standa saman að málsókn. Ef réttur eða skylda stendur óaðskiljanlega saman í höndum fleiri en eins manns verða þeir að standa saman að máli, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber því að skoða hvort þau skilyrði eru hér uppfyllt.
Sótt var um kennitölu fyrir Rallýkross-klúbbinn þann 8. janúar 1991. Sú umsókn er undirrituð af sjö aðilum. Í kjölfarið var félagið skráð sem frjáls félagasamtök í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Áður, eða þann 19. nóvember 1990 hafði verið gerður félagssamningur um byggingu rallýkross brautar. Sá samningur er undirritaður af sex aðilum. Verður því ekki annað séð en að einhverjar breytingar hafi orðið á félagatali Rallýkross-klúbbsins á þeim tíma er hann starfaði, þó svo að fram komi í 5. gr. laga Rallýkross-klúbbsins dagsettum þann 27. október 1998, að félagið sé lokað félag „stofnfélaga er komu að og ráku Rallýkrossdeild B.I.K.R“. Enda kemur fram í 4. gr. að félagar séu „stofnendur og aðrir velunnarar sem koma að uppbyggingu svæðisins“
Verður ekki talið sannað að hér séu fram komnir í hópi þeirra sem mál þetta höfða vegna stefnanda, allir þeir sem áttu aðild að Rallýkross-klúbbnum, enda verður að telja harla ólíklegt að styrkir að fjárhæð krónur 4.500.000 hefðu fengist frá Reykjavíkurborg til uppbyggingar akstursíþróttasvæðis í eigu lokaðs og fámenns félags. Ætla verður að slíkir styrkir séu veittir í því skyni að styrkja íþróttastarf á vegum frjálsra félagasamtaka en Rallýkross-klúbburinn var einmitt skráður sem slíkur.
Þegar allt framanritað er virt og litið til 4. mgr. 17. gr. sem og 1. og 2. mgr. 18.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.
Eftir þeirri niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda, Rallýkross-klúbbnum, gert að greiða stefnda, Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar, málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Rallýkross-klúbburinn, greiði stefnda, Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar, 200.000 krónur í málskostnað.