Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
|
|
Miðvikudaginn 26. júní 2013. |
|
Nr. 431/2013.
|
A (Ívar Þór Jóhannsson hdl.) gegn velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í fjögur ár. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hvorki í vottorði sérfræðings í geðlækningum né öðrum gögnum málsins væri rökstutt hvers vegna krafist væri svo langrar sviptingar. Var A því sviptur sjálfræði í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2013 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í fjögur ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími en kveðið er á um í hinum kærða úrskurði. Þá er gerð krafa um að þóknun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að skilyrði a. og b. liða 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga, til þess að svipta sóknaraðila sjálfræði, séu fyrir hendi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna er heimilt að svipta mann lögræði sínu tímabundið, ef ótímabundin svipting þykir ekki nauðsynleg. Í vottorði sérfræðings í geðlækningum, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði, er lýst sjúkdómsgreiningu sóknaraðila og gerð grein fyrir því að hann sé nú í langvarandi geðlæknismeðferð og endurhæfingu á öryggisgeðdeild Landspítalans og þeirri meðferð sé ekki lokið. Þá sé sóknaraðili að bíða eftir búsetuúrræði fyrir geðfatlaða á vegum varnaraðila þar sem hann fengi stuðning og yrði undir eftirliti. Er það niðurstaða læknisins að einsýnt sé að um ,,mjög langvarandi vandamál“ sé að ræða, sem jafnvel geti verið ævilangt. Hvorki er í vottorðinu né í öðrum gögnum málsins rökstutt hvers vegna krafist sé jafn langrar sviptingar sjálfræðis og gert er. Þannig er ekki að finna greinargerð um meðferð, sem spanni þann tíma, sem sviptingunni er ætlað að vara eða með öðrum hætti rennt stoðum undir að þörf sé tímabundinnar sviptingar þann tíma, sem um ræðir. Í ljósi framangreinds og 1. mgr. 12. gr. lögræðislaga, um að svipting lögræðis skuli ekki ganga lengra en þörf sé á hverju sinni, hafa ekki verið færðar sönnur á að nauðsyn sé svo langrar sviptingar, sem héraðsdómur hefur úrskurðað. Verður sóknaraðili sviptur sjálfræði í tvö ár.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðili, A, er sviptur sjálfræði í tvö ár.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Ívars Þórs Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, 100.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2013.
Með beiðni, dagsettri 5. júní 2013, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], með skráð heimilisfang að [...],[...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í fjögur ár á grundvelli a og b liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili krefst aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Beiðni sú um sjálfræðissviptingu varnaraðila sem hér er til meðferðar er sett fram í framhaldi af sjálfræðissviptingu hans til eins árs sem ákveðin var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2012, sem staðfestur var í Hæstarétti 27. sama mánaðar. Varnaraðili lagði fram kröfu um að sjálfræðissvipting yrði felld niður 24. apríl 2013 en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí s.l. Beiðni þessi var móttekin af héraðsdómi 5. júní sl. Málið var þingfest og tekið til úrskurðar 10. júní sl.
Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð B geðlæknis sem dagsett er 23. maí 2013. Þá liggur einnig fyrir læknisvottorð C geðlæknis sem dagsett er 29. maí 2012.
Hið síðarnefnda læknisvottorð lá til grundvallar lögræðissviptingu varnaraðila 6. júní 2012. Kemur þar m.a. fram að varnaraðili greinist með aðsóknargeðklofa og fíknisjúkdóm. Hann eigi að baki 40 innlagnir á geðdeild og tæplega 300 komur á göngudeildir, flestar á bráðamóttöku. Læknismeðferð hafi ekki borið tilætlaðan árangur og hafi vímuefnaneysla varnaraðila hamlað bata. Varnaraðili hafi neytt áfengis frá 13 ára aldri og vímuefna frá 19 ára aldri. Hann hafi komið átta sinnum á fíknigeðdeild undanfarandi vetur, en endurtekið útskrifað sig gegn læknisráði. Hann hafi svarað lyfjameðferð í innlögnum, en ekki tekið lyf sín að undanförnu og verið í neyslu örvandi lyfja. Hann sé heimilislaus, en dvelji í gistiskýli eða fái að gista hjá kunningjum. Varnaraðili sé með mikil geðrofseinkenni og líði verulega illa, en meðferðarheldni hans hafi verið afar léleg.
Í fyrrnefndu vottorði B kemur fram í niðurstöðu að varnaraðili hafi lengi verið að glíma við tvo alvarlega geðsjúkdóma, geðklofa með aðsóknarkennd og sprautufíkn. Hann hafi lagst 40 sinnum inn á geðdeild og leitað u.þ.b. 300 sinnum á göngudeildir og bráðamóttöku. Hann sé með viðvarandi innsæisleysi varðandi vandamál sín, sé með hugsanatruflanir og meðferðarheldni hans hafi verið afar léleg. Hann sé nú í langvarandi geðlæknismeðferð og endurhæfingu á Öryggisgeðdeild Landspítalans og sé þeirri meðferð ekki lokið. Það sé einnig augljóst að hann sé ófær um að búa sjálfstæðri búsetu. Hann sé nú að bíða eftir búsetuúrræðum fyrir geðfatlaða á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, þar sem hann fengi stuðning allan sólarhringinn og eftirlit yrði með lyfjatöku hans, næringu og vímuhegðun. Varnaraðili hafi mjög takmarkaðan skilning á því að hann sé í þörf fyrir geðlæknismeðferð og eftirlit og að hann þurfi á búsetustuðningi að halda. Geðheilsu hans sé hætta búin ef geðsjúkdómar hans séu ekki meðhöndlaðir og einnig sé hann hættulegur umhverfi sínu ef hann fari í geðrofsástand. Að mati læknisins sé það einsýnt að hér sé um mjög langvarandi vandamál að ræða ef ekki ævilangt. Kveðst læknirinn mæla með fjögurra ára sjálfræðissviptingu.
Við meðferð málsins gaf B geðlæknir skýrslu. Staðfesti hann vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess.
Varnaraðili talaði einnig máli sínu fyrir dóminum, auk þess að leggja fram skriflega skýrslu sína. Af hálfu varnaraðila var einnig skilað skriflegri greinargerð.
Það er mat dómsins að framburður varnaraðila hafi ekki verið með þeim hætti að varpað hafi rýrð á réttmæti fyrirliggjandi læknisvottorða eða þeirra ályktana sem þar eru dregnar um heilsufar hans, en heilsufari varnaraðila er lýst mjög á sama veg í báðum fyrirliggjandi vottorðum. Verður ekki talið efni séu til að afla frekari sérfræðilegra gagna í málinu.
Með vísan til þess sem rakið er hér að framan og þá einkum vottorða tveggja geðlækna þykir sýnt að varnaraðili er haldinn þeim geðsjúkdómum, sem að framan eru raktir. Má sjá af gögnum málsins, sem og framburði hans sjálfs fyrir dómi að hann hefur ekki innsæi í sjúkdómsástand sitt og verður talið að hann sé af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a og b liði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997. Verður af framangreindum ástæðum fallist á beiðni sóknaraðila. Með vísan til sjúkrasögu varnaraðila og fyrirliggjandi læknisvottorða verður að telja sýnt að veikindi varnaraðila eru langvarandi og alvarleg. Eru því ekki efni til að marka sjálfræðissviptingu hans skemmri tíma en krafist er, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í fjögur ár.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ívars Þórs Jóhannssonar hdl. 75.300 krónur.