Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Fimmtudaginn 3. apríl 2014. |
|
Nr. 213/2014.
|
A (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn B C og D (Hilmar Magnússon hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur fjárræði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson, og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur fjárræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fjárræðissvipting hans verði felld úr gildi. Þá er krafist þóknunar til handa skipuðum verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málið verði „fellt niður fyrir Hæstarétti Íslands“, en til vara að því verði vísað frá réttinum. Að þessu frágengnu krefjast þau staðfestingar hins kærða úrskurðar, en að öðrum kosti að sóknaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið varðandi nánar tilgreindar eignir. Þá krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.
Verjandi sóknaraðila kærði úrskurð héraðsdóms sem fyrr segir 18. mars 2014. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing sóknaraðila, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. sama mánaðar, þar sem sóknaraðili afturkallaði „umboð“ lögmanns síns. Lögmaðurinn var skipaður verjandi sóknaraðila í þinghaldi 2. október 2013 samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga og hefur ekki verið leystur frá þeim starfa. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila, og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur, til hvors þeirra.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014.
Með beiðni dagsettri 16. september 2013, móttekinni 17. sama mánaðar, hafa sóknaraðilar, b, kt. [...], [...],[...], C, kt. [...],[...],[...] og D, kt. [...],[...],[...], krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], Læ[...],[...], verði sviptur fjárræði ótímabundið á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Til vara er þess krafist að varnaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið varðandi eftirtaldar eignir: [...], viðskiptabréf nr. [...], samkvæmt framlögðu skattframtali fyrir árið 2013, bankareikning nr. [...], einnig samkvæmt skattframtali 2013, og loks gjaldeyrisreikning nr. [...], samkvæmt sama skattframtali. Þá er þess krafist að lögmannsþóknun og útlagður kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga.
Um aðild sína vísa sóknaraðilar til a- og c-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, en sóknaraðilinn B er bróðir varnaraðila, C er systurdóttir hans og D bróðurdóttir.
Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila og krefst hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Málið var tekið til úrskurðar 28. febrúar 2014.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili, sem er 82 ár gamall, hafi greinst með Alzheimer sjúkdóm í september 2011. Ári síðar, í september 2012, hafi Björn Einarsson öldrunarlæknir, sem annast hafi um varnaraðila, gefið út vottorð um að ástand varnaraðila færi hægt og sígandi aftur. Hafi hann mælt með því við Sýslumanninn í Reykjavík að honum yrði skipaður ráðsmaður, enda hefði varnaraðili töluverð fjárhagsleg umsvif og væri ekki fyllilega fær um að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. Fram kemur einnig í beiðninni að E fasteignasali hafi verið varnaraðila innan handar síðustu 20 árin, en E hafi nú verulegar áhyggjur af ástandi varnaraðila og telji að honum hafi ört hrakað. Geri varnaraðili sér vart lengur grein fyrir stöðu mála og hafi ekki getu til að sjá um eignir sínar og útleigu þeirra. Hafi hann gefið ýmis fyrirmæli sem stangist á við fyrri ákvarðanir og undirritaða samninga. Í beiðninni lýsa sóknaraðilar áhyggjum sínum af ástandi varnaraðila. Telja þeir að hann eigi erfitt með að verjast ágengni fólks, en borið hafi á því að ýmsir aðilar hafi misnotað ástand hans, þeim til hagsbóta en á kostnað varnaraðila. Lýsi það sér bæði í endurgjaldslausum afnotum af húsnæði í eigu varnaraðila, auk beinna fjárgreiðslna. Nefna sóknaraðilar ýmis dæmi þessu til stuðnings. Sóknaraðilar áætla að verðmæti fasteigna varnaraðila sé á bilinu [...], en skuldir nálægt [...].
Í nýju vottorði Björns Einarssonar öldrunarlæknis, dagsettu 24. september 2013, sem aflað var í kjölfar beiðni sóknaraðila, rekur læknirinn samskipti sín við varnaraðila allt frá septembermánuði 2011. Kemur þar fram að varnaraðili hafi í janúar 2012 fengið þá greiningu að hann væri með Alzheimer sjúkdóm og hafi hann í kjölfarið verið settur á viðeigandi lyf. Lyfjaheldni hafi þó verið léleg og hafi hann tekið lyfið óreglulega, eða „eftir þörfum“. Hafi hann síðan verið í eftirliti hjá lækninum. Kveðst læknirinn hafa skrifað vottorð til Sýslumannsins í Reykjavík og óskað eftir því að varnaraðili fengi fjárhaldsmann, en varnaraðili hafi þó aldrei leitað eftir því. Síðan segir þar eftirfarandi: „Hann kom síðast til mín 03.09.2013 og hafði þá hrakað mikið. Hann var þá kominn með skerta dómgreind og innsæi á eigið ástand og einnig fjárhagsmál sín. Hann hafði lent í ýmsum vandamálum varðandi fjármál. Skv. C frænku hans, hafði F reynt að hafa af honum fé, og G arkitekt borgaði ekki leigu af húsnæði í eigu A, sem hann leigði henni, og A sýndi óráðsíu í fjármálum í bankanum og virtist ekki hafa neitt innsæi í fjárhæðir. Einnig hafði hann samþykkt óhagstæðan húsaleigusamning. Í læknisfræðilegu mati mínu við þessa komu var minni A orðið verra og hann hafði aðsóknarhugmyndir og var greinilega með mikið skert innsæi og dómgreind á eigið sjúkdómsástand og færni sína og styður það mat mitt að hann sé ófær um að verja hagsmuni sína fjárhagslega og finnst mér því full ástæða til að svipta hann fjárræði og skipa honum fjárhaldsmann.“
Undir rekstri málsins óskaði varnaraðili eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort hann væri fær um að ráða fé sínu vegna þess Alzheimer sjúkdóms sem hann væri haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum. Í þinghaldi 13. nóvember 2013 skipaði dómari Helgu Hansdóttur öldrunarlækni, sem sérfróðan matsmann til að láta í ljós álit sitt á framangreindu. Í vottorði læknisins, sem dagsett er 21. nóvember 2013, segir að varnaraðili sé með vægan/meðalslæman Alzheimer´s sjúkdóm. Hann sé með skerta vitræna getu sem geti hamlað honum við umsýslu fjármála. Hins vegar sýni hann eðlilega dómgreind þegar komi að ákvörðunum í fjármálum og eðlilegt innsæi í stöðu mála. Í niðurstöðu sinni segir læknirinn eftirfarandi: „Ég tel að þrátt fyrir Alzheimers sjúkdóm geti A tekið ákvarðanir sjálfur um sín fjármál. Hann þarf þó líklega aðstoð við að gæta þess að greiða reikninga í tíma, aðstoð við gerð samninga og við reikningsgerð en það réttlætir ekki að mínu mati að hann sé sviptur fjárræði. Það er skynsamlegt að A útnefni sér umsjónarmann í fjármálum í ljósi þess að hann er með sjúkdóm sem versnar með tímanum.“
Við fyrirtöku málsins 6. desember 2013 lögðu sóknaraðilar fram beiðni um að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir yfirmatsmenn til að endurmeta það sem áður hafði verið metið. Til starfans voru dómkvaddir Jón Snædal og Pálmi V. Jónsson, yfirlæknar á Öldrunarlækningadeild Landspítala. Matsgerð þeirra er dagsett 20. febrúar 2014 og byggir hún á samtölum við varnaraðila, C, einn sóknaraðila í máli þessu, og H, endurskoðanda varnaraðila, auk tveggja taugasálfræðilegra matsgerða, 10. janúar 2012 og 22. janúar 2014, ásamt öðrum sjúkragögnum. Í niðurlagi matsgerðar segir svo: „Yfirmatsmenn telja hafið yfir skynsamlegan vafa að sjúkdómsgreiningin sé heilabilun og að öllum líkindum að hún sé af Alzheimer´s gerð. Þeir sem þjást af slíkum sjúkdómi, sem kominn er af fyrsta stigi, eru ekki færir um að annast fjármál sín og eru í hættu á margvíslegri misnotkun, þar með talinni fjárhagslegri misnotkun. Í ljósi þess að Alzheimer´s sjúkdómur er langvinnur og ágengur og mun því versna með tímanum leggja yfirmatsmenn til að A verði verndaður fyrir fjárhagslegri misnotkun með þeim ráðum sem til þess duga að lögum.“
Við aðalmeðferð málsins gaf varnaraðili skýrslu fyrir dóminum, ásamt C og D, tveimur sóknaraðila þessa máls, svo og annar dómkvaddra yfirmatsmanna, Jón Snædal öldrunarlæknir.
Varnaraðili kvaðst hafna kröfu sóknaraðila um forsjársviptingu. Hann sagðist vita að hann væri haldinn Alzheimer´s sjúkdómi, en taldi hann á lágu stigi og því gæti hann vel sinnt fjármálum sínum. Tók hann fram að hann nyti stuðnings endurskoðanda síns við utanumhald eigna sinna. Aðspurður um framlagða yfirmatsgerð kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa rætt við þá lækna sem stóðu að henni.
C tók fram að hún hefði þekkt varnaraðila allt sitt líf. Hún sagðist skynja miklar breytingar á honum síðustu 2-3 árin og lýsti það sér einkum í minnisglöpum. Kæmi fyrir að hann vissi hvorki hvaða dagur væri né ár. Hún sagðist oft hafa rætt þann möguleika við varnaraðila að hann fengi sér fjárhaldsmann, en hann hafi ætíð hafnað slíku, og gefið skýrt til kynna að hann væri fullfær um að sjá um fjármál sín. C tók fram að bæði hún og aðrir sóknaraðilar teldu að verið væri að misnota varnaraðila og hafa af honum fé, og nefndi dæmi þess. Taldi hún að nauðsynlegt væri að vernda hann fyrir slíku. D sagðist einnig skynja að minni varnaraðila hefði hrakað á síðasta ári. Taldi hún jafnframt að verið væri að misnota varnaraðila og hafa af honum fé.
Jón Snædal öldrunarlæknir staðfesti að hafa unnið fyrirliggjandi yfirmatsgerð, ásamt Pálma V. Jónssyni öldrunarlækni. Kvaðst hann í engum vafa um að varnaraðili væri haldinn Alzheimer´s sjúkdómi og taldi að sjúkdómurinn væri í hans tilviki á skalanum 5 af 7. Það merki að sjúklingur sé með „klára heilabilun“. Slíkur einstaklingur sé ekki fær um flest allar flóknari athafnir daglegs lífs. Hann taldi jafnframt að sjúkdómur varnaraðila væri þess eðlis að varnaraðili gæti ekki lengur sinnt fjárhagsmálefnum sínum. Svipting fjárræðis væri því eina úrræðið, enda hefði varnaraðili ekki sjálfur fallist á að honum yrði skipaður fjárhaldsmaður. Spurður um niðurstöður úr taugasálfræðilegu mati sem gert hefði verið nú nýverið sagði læknirinn að merkjanlegur munur væri á því mati og því sem gert hefði verið í janúar 2012. Sá munur bæri vott um að sjúkdómurinn hefði á þessum tíma ágerst á nokkrum sviðum, og ætti það sérstaklega við um minnið, en ekki síður um innsæi varnaraðila í sjúkdóm sinn.
Samkvæmt a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 má svipta mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur, sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja, ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests. Í athugasemdum í greinargerð með lögum þessum segir eftirfarandi í umfjöllun um sviptingu fjárræðis: „Við sviptingu fjárræðis eru einkum tvö sjónarmið sem að baki búa. Annars vegar er það verndarsjónarmið gagnvart hinum svipta, þ.e. einkum til að koma í veg fyrir að óvandaðir samferðamenn notfæri sér veikleika hans í því skyni að hafa af honum fé, og reyndar einnig verndarsjónarmið sem lúta að grandlausum viðsemjendum hans. Hins vegar er það sjónarmið að bæta úr þörf sem skapast þegar taka þarf lögmætar ákvarðanir um fjármuni manns sem ekki er fær um að gera það sjálfur, t.d. að selja hús hans eða reka fyrirtæki hans.“
Að virtum gögnum málsins, og þá sérstaklega framlögðum læknisvottorðum og yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna, ásamt framburði þeirra aðila sem gefið hafa skýrslu fyrir dóminum, er það mat dómsins að nauðsyn beri til að gripið verði til viðeigandi úrræða vegna sjúkdóms varnaraðila og til að varna því að einstaklingar notfæri sér veikleika hans til að hafa af honum fé. Samkvæmt gögnum málsins á varnaraðili miklar eignir, bæði fasteignir og fé á bankareikningum, og telja sóknaraðilar að óvandaðir einstaklingar séu að misnota hann í því skyni að hafa af honum fé. Hafa þeir nefnt nokkur dæmi því til stuðnings, og þykja framlögð gögn skjóta stoðum undir þær ályktanir þeirra. Varnaraðili viðurkennir sjálfur að hann sé haldinn Alzheimer´s sjúkdómi, en telur að hann sé á lágu stigi. Hefur hann hafnað því að honum verði skipaður ráðsmaður, enda telur hann sig fullfæran um að annast um fjármál sín. Sú ályktun varnaraðila samrýmist þó ekki áliti þeirra lækna sem lagt hafa mat á ástand sjúkdóms hans. Í ljósi þessa þykja því uppfyllt skilyrði a-liðar 4. gr. laga nr. 71/1997 til þess að verða við aðalkröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hilmars Magnússonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 700.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, þóknun fyrri skipaðs verjanda varnaraðila, Daníels Pálmasonar hdl., 180.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og þóknun síðari skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., 450.000 krónur, einnig að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá ber að greiða úr ríkissjóði annan málskostnað, þ.e. kostnað vegna öflunar læknisvottorða og matsgerða dómkvaddra matsmanna, samtals 486.700 krónur.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur fjárræði ótímabundið.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hilmars Magnússonar hrl., 700.000 krónur, þóknun fyrri skipaðs verjanda varnaraðila, Daníels Pálmasonar hdl., 180.000 krónur, og þóknun síðari skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., 450.000 krónur. Annar málskostnaður, þ.e. kostnaður vegna öflunar læknisvottorða og matsgerða dómkvaddra matsmanna, samtals 486.700 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.