Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2006


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 8. mars 2007.

Nr. 474/2006.

Klara Lind Jónsdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Vátryggingarsamningur.

K krafðist viðurkenningar á því að S væri skylt að bæta henni tjón það sem hún hefði orðið fyrir vegna innbrots í íbúð hennar 8. mars 2005. S krafðist sýknu þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði vátryggingaskilmála fjölskyldutryggingarinnar sem  K hafði keypt hjá S, um að á vettvangi væru „ótvíræð merki um innbrot”. Þeir rannsóknarlögreglumenn sem komu á vettvang hins meinta innbrots báru fyrir dómi að ummerki á vettvangi hefðu ekki gefið til kynna að þar hefði verið framið innbrot. Þá var ekki ráðið að ummerki á glugganum hafi verið með þeim hætti að brotist hefði verið inn um hann. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki væri uppfyllt framangreint skilyrði vátryggingaskilmálans. Var S því sýknað af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2006. Hún krefst þess að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að bæta henni það tjón sem hún hafi orðið fyrir vegna innbrots í íbúð hennar að Rauðalæk 15, Reykjavík 8. mars 2005. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í héraðsdómi snýst ágreiningur málsaðila um hvort uppfylltir séu vátryggingaskilmálar fjölskyldutryggingar hjá stefnda þannig að stefndi skuli ábyrgjast tjón vegna ætlaðs innbrots í íbúð áfrýjanda 8. mars 2005. Í skilmálum stefnda segir meðal annars: „Það er forsenda fyrir bótaskyldu að á vettvangi séu ótvíræð merki um innbrot.“

Samkvæmt gögnum lögreglu barst tilkynning um innbrot í íbúð áfrýjanda klukkan 02.22 aðfaranótt 8. mars 2005 og var lögregla kominn á staðinn fjórum mínútum síðar. Þá um nóttina var Ómar Pálmason rannsóknarlögreglumaður frá tæknideild lögreglunnar sérstaklega kallaður til að rannsaka vettvang. Hann kom þangað klukkan 02.40 og lauk vettvangsrannsókn 45 mínútum síðar. Í skýrslu hans um rannsóknina segir: „Reynt var að spenna upp glugga á þvottahúsi með járni, glugginn er stífur í rammanum og erfitt að opna hann. Sterkar líkur eru á því að glugginn hafi verið opinn þar sem skemmdir á gluggafaginu voru litlar. Hespur voru óskemmdar sem og læsingajárn. Ekki er hægt að sjá að innbrot hafi átt sér stað, þjófavarnarkerfi er í íbúðinni en það var ótengt þetta kvöld.“ Þá segir að leitað hafi verið fingrafara við gluggann, en sú leit hafi ekki skilað árangri. Einnig tók lögreglumaðurinn ljósmyndir af glugganum, en þó ekki af innra byrði hans. Fyrir dómi staðfesti rannsóknarlögreglumaðurinn þá niðurstöðu sína að ummerki á vettvangi hefðu ekki gefið til kynna að þar hefði verið framið innbrot. Hið sama gerði rannsóknarlögreglumaðurinn Guðmundur Páll Jónsson sem fyrst kom á vettvang ásamt lögreglumanninum Vilborgu Magnúsdóttur, en hún kvaðst enga ályktun geta dregið af ummerkjum. Af framburði Kristjáns Ibsen Ingvasonar trésmiðs, sem lagaði gluggann eftir að lögregla hafði rannsakað vettvang, verður ekki ráðið að ummerki á glugganum hafi verið með þeim hætti að brotist hafi verið inn um hann, en Kristján tiltók þó jafnframt að glugginn hafi verið svo gamall og lúinn að hann hefði ekki getað verið að fullu lokaður í nokkurn tíma fyrir hið meinta innbrot. Með þessum athugasemdum er fallist á með héraðsdómi að ekki sé uppfyllt það skilyrði vátryggingarskilmála stefnda fyrir greiðsluskyldu hans að á vettvangi hafi verið ótvíræð merki um innbrot. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                           Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2006.

Mál þetta, sem var dómtekið 30. maí sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af  Klöru Lind Jónsdóttir, Danmörku á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík með stefnu birtri 21. desember 2005.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að bæta stefnanda það tjón sem hún varð fyrir vegna innbrots í íbúð hennar að Rauðalæk 15, Reykjavík, þann 8. mars 2005, úr fjölskyldutryggingu sem stefnandi hafði keypt hjá stefnda.Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi er eigi virðisaukaskattsskyld.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Málavextir.

Hinn 8. mars 2005, kl. 02.22 barst lögreglu tilkynning um að verið væri að brjótast inn í kjallaraíbúð stefnanda að Rauðalæk 15 í Reykjavík. Tilkynnandi var Saga Jónsdóttir, hálfsystir stefnanda. Lögregla fór þegar á staðinn og voru fyrstu lögreglumenn mættir á vettvang, kl. 02:26. Fyrir liggja skýrslur þriggja lögreglumanna um aðstæður á vettvangi þ.e. Vilborgar Magnúsdóttur lögreglumanns, Guðmundar Páls Jónssonar rannsóknar-lögreglumaður og Ómars Pálmason frá tæknideild lögreglunnar. Stefnandi var með fjölskyldutryggingu hjá stefnda umrætt sinn, þ. á m. tryggingu vegna innbrotsþjófnaðar. Ágreiningur er með aðilum hvort fullnægt sé skilyrðum tryggingarinnar.

Hinn 9. mars 2005 sendi stefndi aðila á vettvang til að lagfæra umræddan glugga þar sem hann var stífur í rammanum og smávægilegar skemmdir voru á gluggafagi. Við það verk var jafnframt skipt um krækjur á glugganum.

Hinn 28. apríl 2005 hafnaði stefndi bótaskyldu úr innbústryggingu fjölskyldutryggingar vegna framangreinds atburðar. Bent var á að það væri forsenda bótaskyldu úr innbústryggingunni vegna innbrotsþjófnaðar að ótvíræð merki væru á vettvangi um innbrot. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar væri ekki hægt að sjá að innbrot hefði átt sér stað.

Með bréfi 19. maí 2005, óskaði stefnandi eftir því að félagið endurskoðaði afstöðu sína til bótaskyldu í málinu. Með bréfi stefnda,  19. júní 2005, var afstaða félagsins ítrekuð.

Með bréfum stefnanda til lögreglunnar í Reykjavík  frá 30. júní 2005 og 12. júlí 2005, var óskað eftir að teknar yrðu lögregluskýrslur af nánar tilgreindum einstaklingum. Því erindi var hafnað 3. nóvember 2005. Vísað var til þess að rannsókn lögreglunnar væri lokið og að ekki væri talið að þetta fólk gæti varpað frekara ljósi á málið.

Með bréfi lögmanns stefnanda til lögreglunnar 7. nóvember 2005, óskaði hann eftir því að upplýst yrði hvort teknar hefðu verið myndir af læsingarjárnum eða innra byrði gluggans, sem stefnandi hélt fram að farið hefði verið inn um, og ef svo væri ekki hver væri ástæðan fyrir því að það hefði ekki verið gert. Í svari lögreglustjórans, 9. nóvember 2005, kom fram að ekki hefðu verið teknar fleiri myndir af umræddum glugga en fram kæmu í skýrslu tæknideildar embættisins. Þá kom fram í bréfinu sú afstaða rannsóknarmanna á vegum lögreglunnar að ekki væru merki um að innbrot hefði verið framið umrætt sinn.

Stefnandi telur því nauðsynlegt að hefja mál þetta til viðurkenningar á því að um innbrot hafi verið að ræða.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hún hafi keypt hjá stefnda fjölskyldutryggingu þar sem innifalin er m.a. innbrotsþjófnaðartrygging. Samkvæmt D-lið á yfirlitsmynd yfir vátryggingarsvið innbústryggingar, sem gilti um þá vátryggingu sem stefnandi tók hjá stefnda, bætir stefndi tjón vegna innbrota í læsta íbúð vátryggingartaka. Í nefndum D-lið segir:  „Það er forsenda fyrir bótaskyldu að á vettvangi séu ótvíræð merki um innbrot.”

Stefnandi telur ótvírætt að skilyrði vátryggingarsamningsins fyrir greiðslu bóta vegna innbrotsins séu uppfyllt, þ.e. að innbrot hafi verið framið í læsta íbúð hennar 8. mars 2005 og að á vettvangi hafi verið ótvíræð ummerki innbrotsins. Því er stefndi bótaskyldur vegna þess tjóns sem hlaust af innbrotinu, en umtalsvert magn eigna hennar var numið á brott í því.

Stefnandi telur að staðfest sé í skýrslu Guðmundar Páls Jónssonar rannsóknar-lögreglumanns, að brotist hafi verið inn um glugga sem liggur inn í geymslu og þvottahús íbúðarinnar. Í skýrslu lögreglumannsins kemur fram að glugginn, sem farið var inn um, hafi verið spenntur upp og við það hafi hann skemmst. Enn fremur segir í skýrslu Vilborgar Magnúsdóttur lögreglumanns, að átt hafi verið við glugga sem tilheyrði geymslunni í íbúðinni og að sjá mætti að brotið hefði verið upp úr gluggakarminum. Á mynd 2 í skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík má einnig sjá greinilegar skemmdir á glugganum sem farið var inn um. Stefnandi telur, með vísan til skýrslna lögreglumannanna og mynda af vettvangi, að um sé að ræða ótvíræð merki um innbrot í íbúð sína. Uppfyllt er því skilyrði um innbrot í læsta íbúð stefnanda.

Stefnandi bendir á að Guðmundur Páll rannsóknarlögreglumaður lýsi því í skýrslu sinni hvernig rótað hafi verið í allri íbúðinni, skúffur og skápar opnuð og tvö málverk sem höfðu verið inni í stofu tekin niður og sett fram á gang. Af öðrum gögnum málsins, svo sem ljósmyndum í lögregluskýrslum af vettvangi, má sjá ótvíræð merki um að innbrot hafi verið framið. Veruleg fjárverðmæti voru sannanlega numin brott í innbrotinu. Skilyrði fyrir greiðsluskyldu stefnda úr vátryggingunni eru því uppfyllt.

Stefnandi telur að allt framangreint feli í sér ótvíræð merki um innbrot og vekur athygli á því að í skilmálum stefnda segir ekkert um hvernig merki skuli vera eftir innbrot, heldur einungis að þau séu ótvíræð.

Stefnandi tilkynnti stefnda um innbrotið strax daginn eftir, þ.e. hinn 9. mars 2005, eins og áskilið er í grein 1 í sameiginlegum skilmálum vátryggingar stefnanda hjá stefnda. Starfsmenn stefnda komu sama dag á vettvang og lagfærðu skemmdir á glugganum sem farið var inn um ásamt því að skipta um læsingar og hespur á glugganum.

 Þar sem glugginn var sannanlega læstur – enda hefðu læsingar og hespur að öðrum kosti ekki skemmst við að glugginn var spenntur upp – og þar sem augljós ummerki um innbrot má sjá á ljósmyndum af vettvangi og þeim munum sem stolið var, telur stefnandi að öll skilyrði fyrir greiðsluskyldu úr vátryggingunni séu uppfyllt.

Stefnandi tekur fram að í skýrslu Ómars Pálmasonar rannsóknarlögreglumanns komi fram að hann hafi tekið fingraför og skoðað vettvang. Ómar taldi einnig að skemmdir væru á þeim glugga sem farið var inn um. Þá taldi hann að reynt hefði verið að spenna upp gluggann með járni og að erfitt hefði verið að opna hann. Þrátt fyrir það telur hann af einhverjum ástæðum líkur á því að glugginn hafi verið opinn. Tæknideild lögreglunnar tók þó aðeins eina mynd þar sem skemmdir gluggans sjást. Er rétt að taka fram í því samhengi að stefnandi hefur ítrekað óskað eftir öðrum og nákvæmari myndum af vettvangi, án árangurs. Ekkert í gögnum málsins styður það mat Ómars að glugginn hafi verið opinn. Þvert á móti felst í yfirlýsingum hans sjálfs, um að reynt hafi verið að spenna gluggann upp með járni, að hann hafi verið læstur þegar innbrotið átti sér stað.

Stefnandi bendir á, að þeir sem komu að innbrotinu, m.a. lögreglumenn, beri að brotist hafi verið inn um gluggann, hann spenntur upp, og glugginn beri þess skýr merki. Þá má einnig sjá af einu skýru myndinni sem til er af glugganum, að hann ber þess merki að hafa verið spenntur upp og skemmdur þegar innbrotið átti sér stað. Þá bera systir og faðir stefnanda, sem komu á vettvang um nóttina, að læsingar á glugganum hafi verið skemmdar eftir innbrotið. Læsingarnar voru fjarlægðar af stefnda, eins og nefnt var að ofan, og nýjar settar í stað þeirra vegna þess að þær skemmdust við innbrotið.

Stefnandi telur því sannað og hafið yfir allan skynsamlegan vafa að glugginn í geymslunni hafi verið spenntur upp og innbrotsþjófarnir farið inn um hann. Sú staðreynd að starfsmenn stefnda löguðu gluggann og skiptu um læsingar og hespur sannar það ein og sér. Stefnandi byggir á því að þar sem stefndi eyddi sönnunargögnum á vettvangi, þegar skipt var um hespur og læsingajárn sem eyðilögðust í innbrotinu, um leið og glugginn var lagaður daginn eftir innbrotið, verði stefndi látinn bera hallann af skorti á þeirri sönnun sem hann hefði ella getað tryggt sér.

 Stefnandi hefur ítrekað farið þess á leit við lögreglu að innbrotið verði rannsakað frekar, m.a. að skýrslur verði teknar af þeim aðilum sem komu að innbrotinu fyrir hönd stefnda og skiptu um læsingar og löguðu gluggann. Þeim beiðnum hefur verið hafnað. Einnig hefur stefnandi óskað eftir skýringum á því af hverju ekki voru teknar myndir af læsingum og innra byrði gluggans en haldbærar skýringar á því hafa ekki fengist frá lögreglu.

Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til lögregluskýrslna, mynda á vettvangi og annarra gagna málsins, telur stefnandi augljóst að innbrot hafi átt sér stað í íbúð hennar að Rauðalæk 15 hinn 8. mars 2005. Stefnandi telur enn fremur ljóst að stefndi eyddi sönnunargögnum sem leitt hefðu málsatvik í ljós. Stefndi verði því látinn bera hallann af því ef málsatvik eru ekki nægilega upplýst. Því sé fullnægt skilyrðum í skilmálum vátryggingar stefnda um að innbrotsþjófnaður hafi orðið í læstri íbúð vátryggingartaka og að ótvíræð ummerki um innbrot hafi verið á vettvangi. Stefnandi telur því að stefndi sé bótaskyldur vegna innbrotsins og beri að greiða bætur úr vátryggingu sem stefnandi keypti hjá honum.

Stefnandi byggir einnig á almennum reglum vátryggingaréttar og samningaréttar um skýringu vátryggingaskilmála vátryggðum í hag.

Stefnandi telur tjón sitt verulegt. Listi er yfir þá hluti sem teknir voru úr íbúð stefnanda í innbrotinu og nemur verðmæti þeirra um 1-2 milljónum króna. Einnig er fyrirliggjandi í málinu viðskiptakvittun fyrir peningaúttekt daginn fyrir innbrotið. Hugðist stefnandi nota þá peninga til að greiða fyrir skírnarveislu sonar síns. Fjármununum var stolið í innbrotinu.

Stefnandi krefst þess, að viðurkenndur verði réttur hennar til bóta úr vátryggingunni. Heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu í málinu byggir á 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Það er ærið kostnaðarsamt og krefst mikillar fyrirhafnar að leiða nákvæmt tjón stefnanda í ljós, þar sem miklu af innbúi stefnanda var stolið í innbrotinu og meta þarf verðmæti hvers einstaks hlutar. Verður það ekki gert nema með matsgerð dómkvaddra matsmanna. Til að halda kostnaði af málaferlunum í lágmarki fer stefnandi því fyrst fram á það að réttur hennar til greiðslu bóta verði viðurkenndur, áður en hún leggur í kostnað við að sýna fram á nákvæmt tjón sitt af innbrotinu. Þó eru lögð fram gögn sem sýna hvaða munum var stolið í innbrotinu, sbr. fyrrnefndan tölvupóst stefnanda til lögreglunnar í Reykjavík, dags. 10. mars 2005, sem og úttektarkvittun úr banka sem sannar að stefnandi hafði undir höndum 370.000 kr. í reiðufé sem var stolið í innbrotinu.

Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og er því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína af greiðslukröfu úr innbústryggingu vegna innbrots-þjófnaðar í fjölskyldutryggingu stefnanda hjá stefnda, á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði til greiðslu úr tryggingunni, samkvæmt skilmálum hennar, að „á vettvangi séu ótvíræð merki um innbrot“. Þá kemur einnig fram í skilmálunum að vátryggingin bæti ekki „[t]jón vegna þjófnaðar úr ólæstum vistarverum [...]“. Framangreind skilyrði greiðsluskyldu úr innbústryggingu vegna innbrotsþjófnaðar er nánar tiltekið að finna í D-lið á yfirlitsmynd yfir vátryggingarsvið innbústryggingar í vátryggingarskilmálum stefnda fyrir fjölskyldutryggingu.

Stefndi vísar sýknukröfu sinni til stuðnings fyrst og fremst til skýrslu Ómars Pálmasonar frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík, þar sem fram kemur sú niðurstaða hans að ekki hafi verið hægt að sjá að innbrot hafi verið framið umrætt sinn. Að mati Ómars voru sterkar líkur á því að margumræddur gluggi hafi verið opinn þar sem skemmdir á gluggafaginu voru litlar og hespur sem og læsingarjárn voru óskemmd. Sjá má skemmdir á gluggafaginu á myndum sem fylgdu skýrslu tæknideildar. Loks kemur fram í skýrslu tæknideildar að leitað hafi verið fingrafara með fingrafaradufti á og við umræddan glugga og á munum sem stefnandi heldur fram að brotamaður hafi fært úr stað, en að sú leit hafi ekki skilað árangri.

Þá vísar stefndi til skýrslu Vilborgar Magnúsdóttur lögreglumanns en þar kemur ekkert fram um að innbrot hafi verið framið. Eingöngu segir að átt hafi verið við glugga sem tilheyri geymslunni í íbúðinni og að sjá hafi mátt hvar brotið hafi verið úr gluggakarminum.

Stefndi vísar einnig til þess framburðar stefnanda fyrir lögreglu þar sem hún kveður sig hafa sett öryggiskerfi það sem var í íbúðinni á áður en hún yfirgaf hana. Það öryggiskerfi gaf engin merki um að brotist hefði verið inn í íbúðina. Þá varð nágranni stefnanda, Ólafur Gylfason, ekki var við neinn umgang í kjallaranum umrætt sinn.

Loks vísar stefndi til ljósmyndar sem tekin var 19. mars 2005, ellefu dögum eftir hið ætlaða innbrot. Á þeirri mynd sést stefnandi bera skartgripi á höndum, en af tölvubréfi stefnanda til Guðmundar Páls Jónssonar rannsóknarlögreglumanns, dags. 10. mars 2005, verður ekki annað ráðið en að öllum, eða a.m.k. langflestum, skartgripum í eigu stefnanda hafi verið stolið í hinu ætlaða innbroti og þeir sundurliðaðir með nákvæmum hætti. Í ljósi þessa hvílir það á stefnda að gefa trúverðugar skýringar á skartgripum þeim sem hún bar á ljósmyndinni.

Stefndi byggir á því, að viðgerð aðila á vegum stefnda á glugganum hafi engin áhrif á sönnunarstöðu í máli þessu enda liggur fyrir samkvæmt skýrum niðurstöðum vettvangs-rannsóknar tæknideildar lögreglunnar, sem framkvæmd var fyrir viðgerð, að ekki hafi verið hægt að sjá að innbrot hafi verið framið umrætt sinn.

Samkvæmt framangreindu telur stefndi ósannað að uppfyllt séu skilyrði þess að stefnda beri að greiða úr innbústryggingu vegna innbrotsþjófnaðar. Stefndi byggir á því að stefnandi beri alla sönnunarbyrði um að þessum skilyrðum sé fullnægt og að honum hafi engan veginn tekist sú sönnun. Vekur stefndi athygli á því skilyrði greiðsluskyldu úr tryggingunni að merki um innbrot skuli vera „ótvíræð“.

Um lagarök vísar stefndi til D-liðar á yfirlitsmynd yfir vátryggingarsvið innbústryggingar í vátryggingarskilmálum stefnda fyrir fjölskyldutryggingu og meginreglna vátryggingaréttar. Krafa stefnda um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstöður.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort fullnægt sé skilmálum fjölskyldutryggingar hjá stefnda en samkvæmt þeim er það forsenda fyrir bótaskyldu að á vettvangi séu ótvíræð merki um innbrot.

Eins og að framan greinir kom systir stefnanda fyrst á vettvang.  Fjórum mínum eftir að tilkynning barst, var lögreglan komin á staðinn.  Þeir lögreglumenn sem skrifuðu skýrslur um málið hafa staðfest þær fyrir dómi. Í lögregluskýrslu Vilborgar Magnúsdóttur er lýsing á aðkomunni að íbúðinni. Fyrir dómi kom fram hjá vitninu, að það væri eins og viðvaningar hefðu verið á ferð og mikið hafi verið rótað. Hún sagði að á vettvangi hefðu lögreglumönnunum fundist aðkoman athugaverð og það hafi verið rætt, hvort í raun hafi verið um innbrot að ræða. Þá liggur fyrir lögregluskýrsla Guðmundar Páls Jónssonar. Þar kemur fram, að farið hafi verið inn um glugga sem sé norðan megin á húsinu. Glugginn mun hafa verið spenntur upp og hafi hann skemmst lítillega við það. Fyrir dómi kom fram hjá vitninu, að hann taldi vettvang tortryggilegan og það sé í fyrsta skipti á átján ára starfsferli þar sem búið sé að taka stórar verðlausar myndir og setja fram eins og það eigi að hlaupa með þær burtu. Hann sagðist nokkuð viss um að ef glugginn hefði verið spenntur upp þá hefði glerið brotnað.  Um einfalt gler var að ræða og karmurinn fúinn. Í skýrslu tæknideildar lögreglunnar, ritaðri af Ómari Pálmasyni, kemur fram að reynt hafi verið að spenna upp glugga í þvottahúsi með járni, en glugginn hafi verið stífur í rammanum og erfitt að opna hann. Síðan segir að sterkar líkur séu á því að glugginn hafi verið opinn þar sem skemmdir á gluggafaginu hafi verið litlar. Þá hafi hespur og læsingarjárn verið óskemmd.  Niðurstaðan er sú, að ekki sé hægt að sjá að innbrot hafi átt sér stað. Þjófavarnarkerfi hafi verið í húsinu  en það verið ótengt. Einnig var leitað að fingraförum með fingrafaradufti og sú leit hafi ekki borið árangur. Í skýrslu vitnisins fyrir dómi kom fram að hann sjái um vettvangsrannsóknir. Hann man eftir málinu vegna  framhaldsins, því stefnandi hafði samband við hann eftir að hann gerði skýrsluna og bað hann að breyta skýrslunni þar sem hún fengi þetta ekki greitt úr tryggingunum. Hans mat, eftir sjö ára reynslu á innbrotsvettvangi, er að það sé ólíklegt að um innbrot hafi verið að ræða. Þetta hafi verið sviðsetning. Hann telur að glugginn hafi verið opinn þar sem litlar eða engar skemmdir voru á glugganum.

Þá verður ekki hjá því litið, að mati dómsins, að tilviljanir eru óvenjulegar í máli þessu.  Stefnandi fór út að degi til með börn sín tvö, átta ára stúlku og þriggja mánaða dreng.  Hún borðaði hjá foreldrum sínum uppi í Grafarvogi og ílengdist þar.  Um nóttina, þ.e. aðfaranótt þriðjudagsins 8. mars um kl. 02, fór systir stefnanda að sækja þurrmjólk handa yngra barninu og skóladót fyrir eldra barnið og kom þá að íbúðinni þar sem útidyrahurðin var opin og hún kvaðst hafa heyrt þrusk inni. Daginn áður, þ.e. mánudaginn 7. mars, hafi stefnandi tekið út úr banka 370.000 kr. í reiðufé vegna skírnarveislu sonar hennar sem fyrirhuguð var í lok mars.  Þessir peningar voru geymdir í skúffu í stofunni. Þjófavarnarkerfi var í íbúðinni og í skýrslu lögreglumanna á vettvangi kemur fram að stefnandi vissi ekki hvort kerfið hafi verið á eða ekki, en hún taldi sig hafa sett það á.  Fyrir dómi kom fram að hún hafi alltaf sett kerfið á þegar hún yfirgaf íbúðina.  Hún kveðst að lokinni rannsókn um nóttina hafa sett kerfið á þegar hún fór af vettvangi ásamt lögreglumönnunum og þá hafi það ekki farið í gang og hún hafi þurft að setja það aftur í gang.  Henni finnst ekki óeðlilegt að svo hafi einnig verið umræddan dag. Hún kvað það hafa komið fyrir er hún hafi verið að koma heim, vitandi það að hún hafi sett kerfið á áður en hún fór út, að hún hafi sett kerfið á.   Hörður Henrýsson, tæknimaður hjá  Securitas, fullyrti fyrir dómi, að öryggiskerfið í íbúðinni hafi verið í lagi. Hann kvað sjaldgæft að brotist væri inn á heimili með öryggiskerfi eða um það bil eitt til tvö tilvik á ári. Þá upplýsti Ólafur Þór Ólafsson, tjónamatsmaður hjá stefnda, að hann hafi óskað eftir því við stefnanda rétt eftir atburðinn að hann fengi að skoða vegsummerki á vettvangi, en hún hafi ekki séð sér fært að taka á móti honum fyrr en 22. mars. Þá upplýsti vitnið að forvarnar- og rannsóknarfulltrúinn hjá Sjóvá hafi óskað eftir frekari gögnum í málinu og í framhaldinu sendi stefnandi myndir af því sem hún taldi hafa horfið úr hinu meinta innbroti. Meðal annars var mynd af henni með skartgripina sem tilkynnt var að hefðu horfið og  liggur myndin fyrir í málinu. Vitnið kveður að þeir hafi sent myndirnar til sérfræðinga og þeir öfluðu gagna sem liggja þar að baki, en myndirnar voru teknar á digital myndavél. Bæði gerð myndavélarinnar og dagsetning vakti athygli hjá stefndu, en myndavélin var af sömu tegund og tilkynnt var horfin í innbrotinu og framlögð mynd var tekin 19. mars eða 11 dögum eftir ætlað innbrot. Stefnanda segir aðspurð fyrir dómi, að það sé færanleg dagsetning á myndavélinni hennar og dóttir hennar hafi verið mjög gjörn á að endurstilla dagsetninguna og hafa hana á afmælisdegi hennar.

Þegar á allt þetta er litið, telur dómurinn varhugavert að líta svo á að fullnægt sé skilmálum tryggingarinnar þ.e. „að á vettvangi séu ótvíræð merki um innbrot“ en það er forsenda fyrir bótaskyldu stefnda.  Er stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda. 

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda 200.000 kr. í málskostnað.

Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Tómas Eiríksson hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                                              DÓMSORÐ

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Klöru Lindar Jónsdóttur, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.