Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Börn


Föstudaginn 8

                                                    Föstudaginn 8. janúar 1999.

Nr. 3/1999.                                           X

                                                    (Óskar Thorarensen hdl.)

                                                    gegn

                                                    Reykjavíkurborg

                                                    barnaverndarnefnd Reykjavíkur

                                                    Y og

                                                    Z

                                                    (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Börn.

Sveitarfélagið R og barnaverndarnefnd ásamt fósturforeldrum barnsins Þ kröfðust dómkvaðningar matsmanna til að meta hæfi móður þess, A, til að fara með forsjá barnsins. Skömmu áður hafði A fengið úrskurð barnaverndaryfirvalda um forsjársviptingu ógilta með dómi héraðsdóms. Jafnframt hafði fóstursamningur barnaverndaryfirvalda við Y og Z verið ógiltur með dómnum. Þessum dómi hafði verið áfrýjað og var það tilgangur matsbeiðenda að leggja matsgerðina fram í hæstaréttarmálinu. Fallist á kröfu matsbeiðenda, m.a. með vísan til hagsmuna barnsins, enda ekki talið útilokað að matsgerð gæti skipt máli um úrlausn ágreinings aðila.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 1998, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að matsmenn skuli dómkvaddir í samræmi við beiðni þeirra. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krefst sóknaraðili þess að beiðni þessari verði synjað. Hún krefst og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðilans Reykjavíkurborgar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp hinn kærða úrskurð.

Beiðni varnaraðila lýtur að því að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að skila rökstuddri álitsgerð um geðheilsu sóknaraðila og þroska, persónulegar og félagslegar aðstæður hennar, hæfi hennar til að fara með forsjá sonar hennar Þ, sem fæddur er     ... janúar 1995, og hvaða afleiðingar ógilding fóstursamnings, sem gerður var við varnaraðilana Y og Z myndi hafa í för með sér fyrir þroska drengsins og uppeldi. Varnaraðilar kveða tilgang dómkvaðningar að fá hnekkt því mati héraðsdóms að sóknaraðili skuli fara með forsjá barnsins.

Sóknaraðili hefur mótmælt beiðninni með því að barnaverndaryfirvöld hafi þegar haft mjög rúman tíma til rannsóknar málsins og hafi sóknaraðili þegar þurft að sæta geðrannsókn og sálfræðirannsókn. Sé óeðlilegt, meðal annars með vísan til        4. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna, að gera sóknaraðila að þola frekari rannsóknir vegna málsins. Þá bendir sóknaraðili á, að aðilar hafi lýst gagnaöflun lokið fyrir héraðsdómi og vísar hún til málsforræðisreglunnar í því sambandi. Einnig byggir sóknaraðili á því að hinum dómkvöddu matsmönnum sé ætlað að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms. Sú leið til endurskoðunar dómsins sé á hinn bóginn ekki fær, heldur eigi varnaraðilar þann kost einan í því efni að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, svo sem þeir hafi raunar gert.

Eins og mál þetta liggur fyrir geta þær málsástæður sóknaraðila sem að framan greinir ekki staðið því í vegi, að fram fari mat á þeim atriðum er í matsbeiðni greinir. Er heldur ekki loku fyrir það skotið að synjun um öflun umbeðinnar matsgerðar væri í andstöðu við hagsmuni barnsins, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 58/1992. Þá verður því ekki slegið föstu að slík matsgerð geti að öðru leyti ekki skipt máli um úrlausn ágreinings aðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 23. desember 1998.

                Tilgangur matsbeiðenda með dómkvaðningunni er að fá hnekkt því mati Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. desember sl. að matsþoli sé hæf til að fara með forsjá sonar síns.  Í því skyni hafa þeir áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. 

                Fyrir héraðsdómi lá ekki matsgerð dómkvaddra matsmanna heldur álitsgerðir ýmissa sérfræðinga.  Þá var dómurinn skipaður einum sérfróðum meðdómsmanni. 

                Mómæli matsþola lúta að því að beiðni um dómkvaðningu sé of seint fram komin, aðilar hafi lýst gagnaöflun lokið og í raun sé verið að fara fram á að matsmenn rannsaki sömu atriði málsins og þegar hafi verið rannsökuð. 

                Matsbeiðendur hafa áfrýjað dómnum til Hæstaréttar og hyggjast leggja matsgerðina þar fram.  Það á því undir Hæstarétt að meta hvort væntanleg matsgerð kemst þar að og hvort á henni verður byggt.  Ekki verður séð af málatilbúnaði matsþola að önnur atriði  standi í vegi fyrir því að verða við kröfu matsbeiðenda og verður hún því tekin til greina en málskostnaður úrskurðast ekki á þessu stigi málsins eins og matsþoli hefur krafist.

Úrskurðarorð:

                Matsmenn skulu dómkvaddir í samræmi við beiðni matsbeiðenda.