Hæstiréttur íslands

Mál nr. 490/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skattur
  • Skattskylda
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004.

Nr. 490/2003.

María H. Guðmundsdóttir

(Jónas Þór Guðmundsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Skattar. Skattskylda. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur. Gjafsókn.

M krafðist þess að sá hluti úrskurðar héraðsdóms er laut að ákvörðun skattstjórans um álagningu tekjuskatts og útsvars á sóknaraðila vegna tekjuársins 2001 yrði felldur úr gildi. Tekið var fram að tekjur M umrætt ár, sem mynduðu stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars, hefðu verið fengnar sem laun frá hlutafélagi, bætur úr almannatryggingum og loks sem ellilífeyrir frá Lífeyrissjóðnum Framsýn en sá þáttur nam tæplega fimmtungi af samanlögðum tekjum M. Sakarefni málsins varðaði aðeins álagningu skatts á þennan hluta tekna M og þá einungis að því leyti, sem lífeyrisgreiðslur gætu talist vera vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af innborguðum iðgjöldum en M vefengdi ekki að skattur væri réttilega lagður á meginhluta tekna hennar umrætt ár. Í ljósi þess að málsókn M var reist á því að fá skattálagningu endurskoðaða að því er varðaði eitt tiltekið atriði var talið að krafa hennar hefði gengið langt út yfir markmiðið með málsókninni. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar og 9. janúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sá hluti hins kærða úrskurðar er lýtur að ákvörðun skattstjórans í Reykjavík 31. júlí 2002 um álagningu tekjuskatts og útsvars á sóknaraðila vegna tekjuársins 2001 verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka hann til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

 

I.

Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að hún hafi greitt iðgjöld til lífeyrissjóðs á árunum 1980 til 1995 að báðum árum meðtöldum, en hafið töku ellilífeyris árið 1997 hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn. Hafi hún greitt iðgjöld til þess sjóðs og áður forvera hans, Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar. Við útborgun lífeyrisins og síðar skattálagningu 2002 hafi verið lagður tekjuskattur og útsvar á lífeyri hennar árið 2001 eins og lagt var á launatekjur almennt með 38,78% skatti.  Telur sóknaraðili það ekki standast, heldur hafi átt að skipta lífeyrisgreiðslum upp þannig að annars vegar væri höfuðstóll, sem innborguð iðgjöld hennar og atvinnurekanda höfðu myndað, og hins vegar vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af iðgjöldunum. Af síðarnefnda hlutanum, sem hún telur hafa numið 81% af lífeyrisgreiðslunum í heild, hafi ekki átt að greiða tekjuskatt og útsvar, heldur 10% fjármagnstekjuskatt samkvæmt lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. 

Með stefnu til héraðsdóms krafðist sóknaraðili þess að ákvörðun skattstjórans í Reykjavík 31. júlí 2002 um álagningu tekjuskatts og útsvars á sig vegna tekjuársins 2001 yrði felld úr gildi. Hún krafðist þess jafnframt að viðurkennt yrði að við álagningu tekjuskatts og útsvars á greiðslur til hennar úr Lífeyrissjóðnum Framsýn tekjuárið 2001 beri varnaraðila að skattleggja þann hluta greiðslnanna, sem fól í sér vexti, verðbætur og aðra ávöxtun innborgaðs iðgjalds til lífeyrissjóðsins, með sömu skattprósentu og aðrar fjármagnstekjur. Varð niðurstaða málsins sú að báðum kröfuliðum var vísað frá dómi. Forsendur héraðsdómara fyrir frávísun fyrri kröfunnar voru reistar á því að í henni fælist að álagning tekjuskatts og útsvars á sóknaraðila yrði felld úr gildi í heild sinni og að sú kröfugerð væri of víðtæk og ekki í samræmi við málsástæður sóknaraðila. Í kæru til Hæstaréttar lýsir sóknaraðili yfir að hún uni að svo stöddu niðurstöðu héraðsdóms að því er seinni kröfuna varðar þannig að einungis sé krafist endurskoðunar úrskurðarins um hina fyrri. Er jafnframt tekið fram að þessi háttur á kæru horfi til einföldunar við úrlausn málsins fyrir dómi, enda dugi fyrri dómkrafan fyllilega að mati sóknaraðila til að fá efnisdóm um álitaefnið, sem sé ólögmæt mismunun við skattlagningu.

II.

Sóknaraðili mótmælir því að krafan í málinu sé of víðtæk eins og héraðsdómari hafi komist að niðurstöðu um. Þvert á móti geti dómkrafan ekki öðruvísi verið eigi hún að vera dómhæf. Bendir hún á að ákvörðun skattstjóra við álagningu skatta hennar samkvæmt 95. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum hafi verið byggð á útreikningsaðferð, sem lýst sé í 1. mgr. 67. gr. laganna. Eftir þeirri aðferð hafi verið fundinn tekjuskattsstofn, sem allar samanlagðar tekjur mynduðu ósundurgreint að teknu tilliti til heimilla frádráttarliða. Á þann stofn hafi verið lagður tekjuskattur og útsvar. Þetta sé grundvallaratriði í málinu og því óhjákvæmilegt að dómkrafan sé á þann veg að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi í heild sinni. Að öðrum kosti væri krafan ekki dómhæf. Að þessu leyti sé nauðsynlegt að greina á milli annars vegar ákvörðunar skattstjóra samkvæmt 95. gr. laga nr. 75/1981 og hins vegar til dæmis úrskurða yfirskattanefndar í einstökum málum, sem stundum sé krafist ógildingar á að hluta. Þeir skiptist oft í marga sjálfstæða þætti þar sem fjallað sé um óskyld atriði. Þegar svo hátti til sé eðlilegt að krefjast þess að úrskurður verði felldur úr gildi að því leyti, sem hann taki til ákveðins atriðis, sem deilt sé um. Á þessu tvennu sé grundvallarmunur.

Málsástæðum fyrir frávísunarkröfu varnaraðila er lýst í hinum kærða úrskurði.

III.

Tekjur sóknaraðila 2001, sem mynduðu stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars, námu samtals 1.223.484 krónum. Voru þær fengnar sem laun frá hlutafélagi, bætur úr almannatryggingum og loks sem ellilífeyrir frá Lífeyrissjóðnum Framsýn, en síðastnefndi þátturinn nam 242.642 krónum og þar með tæplega fimmtungi af samanlögðum tekjum sóknaraðila umrætt ár. Sakarefni málsins varðar aðeins álagningu skatts á þennan hluta tekna sóknaraðila og þá einungis að því leyti, sem lífeyrisgreiðslur geti talist vera vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af innborguðum iðgjöldum. Sóknaraðili vefengir ekki að skattur sé réttilega lagður á meginhluta tekna hennar umrætt ár. Engu að síður krefst hún þess að skattálagningin verði felld úr gildi í heild sinni, en ekki að hún verði endurskoðuð með tilliti til þess að tekið verði mið af þeirri aðferð við skattálagningu, sem hún telur rétta að því er varðar hluta lífeyrisgreiðslunnar. Málsóknin er þannig ekki á því reist að skattálagningu beri að hnekkja í heild sinni af forms- eða efnisástæðum eða að krafist sé skattfrelsis sóknaraðila til handa, heldur er tilgangur með henni sá að fá skattálagningu endurskoðaða að því er varðar eitt tiltekið atriði. Krafa sóknaraðila gengur því langt út yfir markmiðið með málsókninni. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. október sl., er höfðað 22. október 2002.

         Stefnandi er María H. Guðmundsdóttir, Lindargötu 61, Reykjavík,

         Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur

         Í málinu eru af hálfu stefnanda gerðar eftirfarandi kröfur:

         Að ákvörðun skattstjórans í Reykjavík frá 31. júlí 2002 um álagningu tekjuskatts og útsvars á stefnanda, Maríu H. Guðmundsdóttur, vegna tekjuársins 2001, sbr. álagningarseðil 2002, verði felld úr gildi.

         Að viðurkennt verði með dómi, að við álagningu tekjuskatts og útsvars á greiðslur stefnanda úr Lífeyrissjóðnum Framsýn tekjuárið 2001, beri stefnda að skattleggja þann hluta greiðslnanna, sem fól í sér vexti, verðbætur og aðra ávöxtun innborgaðs iðgjalds í lífeyrissjóðinn, með sömu skattprósentu og aðrar fjármagnstekjur, sbr. 3. og 4. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, sbr. l.- 8. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

         Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt lögum nr. 50/1988 eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.     

         Stefndi gerir þær kröfur aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

         Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

         Hinn 7. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um framkomna frávísunar­kröfu stefnda.  Er einungis sá þáttur hér til umfjöllunar. 

         Í þessum þætti málsins er sú krafa gerð af hálfu stefnda að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.  Verði frávísunarkröfu hafnað er sú krafa gerð að ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms í málinu.

         Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, auk virðisaukaskatts, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.  Til vara að ávörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms.

Málavextir

         Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hún sé fædd árið 1925 og hafi starfað lengi sem launþegi á almennum vinnumarkaði og hafi greitt um margra ára skeið iðgjöld í lífeyrissjóð, svo sem skylt hafi verið samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og áður lögum nr. 9/1974, um starfskjör launþega o.fl., en nú samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Nánar tiltekið hafi stefnandi greitt iðgjald til Lífeyrissjóðsins Framsýnar (og áður forvera hans, Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar) frá og með janúarmánuði 1980 til ársloka 1995. Stefnandi hafi hafið töku lífeyris 1. janúar 1997.

         Í skyldutryggingu lífeyrisréttinda samkvæmt ofangreindum lögum felist að öllum launamönnum hafi verið rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði, samkvæmt nánari ákvæðum í lögunum.  Hið sama hafi gilt um þá sem stundað hafi atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi frá 9. júní 1980.  Iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda hafi borið að ákveða í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.  Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs hafi verið 10% af iðgjaldsstofni (heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar störf).  Um skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda hafi farið eftir þeim kjarasamningi, sem ákvarðað hafi lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein, eða sérlögum ef við hefur átt.

         Samkvæmt 5. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1995 og a-lið 2. gr. laga nr. 141/1997, séu iðgjöld launþega, sem greidd séu til lífeyrissjóða samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, frádráttarbær frá tekjum að hámarki 4% af iðgjaldsstofni (sbr. þó nú svonefnda viðbótartryggingarvernd).  Þessi regla, um frestun á skattgreiðslum af iðgjaldi til lífeyrissjóðs, hafi lengst af gilt að meginstefnu til, þó að frátöldu árabilinu 1988 til 1995, sbr. lög nr. 45/1987 og 30/1995, þegar heimild til frádráttarins var felld niður.  Þá hafi framlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs ekki talist til tekna hjá launþega, sbr. nú 28. gr. laga nr. 7511981, sbr. b-lið 17. gr. laga nr. 133/2001, og jafnframt verið frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá atvinnurekanda, sbr. nú 1. tölulið 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 86/2000.

         Í framangreindum reglum felist, að vinnuveitendur hafi dregið 4% af launum starfsmanna eins og stefnanda og greitt til lífeyrissjóðs ásamt 6% mótframlagi, sem hafi verið hluti af launakjörum.  Lengst af hafi ekki verið greiddur skattur af þessum 4% af launum, fyrr en við útgreiðslu lífeyris úr lífeyrissjóði.  Þetta feli m.ö.o. í sér að lengst af hafi einvörðungu verið greiddur skattur af 96% af launatekjum, þegar þær falla til, en skattgreiðslum hafi verið frestað af þeim 4% af launum, sem greidd séu sem iðgjald til lífeyrissjóðs, þar til við útborgun úr sjóðnum.

         Við útborgun lífeyris úr lífeyrissjóði hafi lífeyrisþegum, þ. á m. stefnanda, verið gert að greiða skattinn, ekki eingöngu af höfuðstólnum, sem innborgað iðgjald launþega og atvinnurekanda hafi myndað, heldur einnig af vöxtum, verðbótum og annarri ávöxtun, sbr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, en í því ákvæði séu eftirlaun og lífeyrir tilgreind meðal skattskyldra tekna, sbr. og 6. tölulið 2. mgr. 8. gr. sömu laga, sbr. 1. gr. laga nr. 97/1996 og b-lið 1. gr. laga nr. 154/1998.  Skattprósentan hafi verið sú sama og af launatekjum, 38,78% í Reykjavík vegna tekjuársins 2001, og eigi það bæði við um höfuðstólinn og tekjur af honum, þ.e. fjármagnstekjurnar, sbr. annars vegar 1. mgr. 23. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 3. gr. laga nr. 122/1996 og 6. gr. laga nr. 144/2000, sbr. og ákvæði nr. V til bráðabirgða í lögum nr. 4/1995, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 144/2000, sbr. og hins vegar 1. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 49/1987, 4. gr. laga nr. 117/1989 og 1. gr. laga nr. 15012004.

         Samkvæmt 6. tölulið 4. gr. laga nr. 75/1981 séu lífeyrissjóðir undanþegnir skattskyldu og greiði því ekki tekjuskatt af ávöxtun lífeyris fyrir lífeyrisþega eins og stefnanda.

         Með lögum nr. 97/1996, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með áorðnum breytingum, hafi verið mælt fyrir um sérstakan skatt á fjármagnstekjur.  Meginefni þeirra reglna, sem í lögunum fólst, hafi verið eftirfarandi, að því er varðar skattskyldu, skattstofn og skattfjárhæð:  Í fyrsta lagi hafi verið tekin upp skattlagning vaxtatekna einstaklinga utan rekstrar, en þær hafi áður verið skattfrjálsar.  Þar hafi verið um að ræða vexti, verðbætur og aföll.  Einnig arð upp að ákveðinni fjárhæð og söluhagnað af íbúðarhúsnæði að vissum skilyrðum uppfylltum.  Einstaklingum skyldi heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt sinn til greiðslu fjármagnstekjuskatts, en ekki hafi verið gert ráð fyrir sérstöku frítekjumarki vegna fjármagnstekna.  Í öðru lagi skyldu fjármagnstekjur einstaklinga skattlagðar á samræmdan hátt, þ.e. greiddur skyldi 10% skattur, en í því hafi falist skattalækkun á húsaleigu, á arð og á söluhagnað hlutabréfa, lausafjármuna og íbúðarhúsnæðis.  Af upptöku skattsins hafi leitt að fimm flokkar mismunandi tekjuskattsprósentu á fármagnstekjur, sem áður hafi verið gert ráð fyrir í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, voru felldir saman í einn.  Í þriðja lagi hafi skattskyldan verið rýmkuð, þannig að lögaðilar, svo sem ríkið, sveitarfélög, stofnanir og félög, sem áður hafi verið undanþegnir skattskyldu, skyldu greiða 10% skatt af fjármagnstekjum sínum, eins og einstaklingar utan rekstrar.  Á hinn bóginn hafi verið ákveðið að nokkrar tilgreindar stofnanir skyldu undanþegnar fjármagnstekjuskatti.  Þar hafi verið um að ræða stofnanir, sem atvinnu hafi af útlánum og greiði skatt í samræmi við almenn lög á því sviði, svo og lífeyrissjóði.  Í fjórða lagi hafi verið gerðar breytingar á því hvað væri heimilt að draga frá tekjum manna utan atvinnurekstrar við ákvörðun skattstofns, en þar hafi einkum verið um að ræða að felldir hafi verið niður ýmsir sérfrádrættir.

         Í lögum nr. 97/1996 hafi hvorki verið gert ráð fyrir að útsvar samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga legðist á fjármagnstekjurnar né aðrir skattar á einstaklinga, sem taki mið af tekjuskattsstofni.  Ekki hafi heldur verið gert ráð fyrir tengslum milli fjármagnsteknanna sem skattstofns og annarra laga, t.d. almannatryggingalaga, laga um félagslega aðstoð o.fl. laga, nema umrædd lög kvæðu á um slíkt sérstaklega. ­ Tekið sé fram, að frá gildistöku laganna hafi verið gerðar á þeim breytingar með lögum nr. 137/1996, 141/1997, 95/1998, 154/1998, 29/1999, 49/2000 og 86/2000.

         Tilgangurinn með lögum nr. 97/1996, þar sem lögtekinn var sérstakur 10% skattur á fjármagnstekjur, hafi fyrst og fremst verið samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga.  Nauðsyn á samræmingu í þessu efni hafi af löggjafans hálfu einkum verið rökstudd með vísan til efnahagslegra forsendna, tekjujöfnunar og jafnræðis.  Þrátt fyrir þennan tilgang hafi 10% fjármagnstekjuskatturinn ekki verið látinn taka til vaxta, verðbóta og annarrar ávöxtunar af iðgjaldi til lífeyrissjóða.  Hafi það verið eini flokkur fjármagnstekna einstaklinga, sem ekki hafi fallið undir hinn sérstaka fjármagnstekjuskatt.

         Stefnandi telji að framangreint fyrirkomulag fari í bága við 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. gr. viðauka nr. I við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. sáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994 og 25/1998.  Nánar tiltekið, að það feli í sér ólögmæta mismunun með tilliti til skerðingar á stjórnskipulega vernduðum eignum stefnanda að skattleggja ávöxtunarhluta greiðslna hans úr lífeyrissjóði með sömu skattprósentu og launatekjur, en ekki með sömu skattprósentu og tekjur af öðru fjármagni, þ.e. 10% fjármagnstekjuskatti.

         Hagsmunafélag stefnanda, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hafi um árabil látið mál þetta til sín taka og hafi leitað fyrir hönd félagsmanna sinna eftir stuðningi við sjónarmið sín í málinu hjá framkvæmdarvaldinu, sbr. bréf lögmanns stefnanda til fjármálaráðherra, dags. 7. desember 1999, en með þeim hafi fylgt álitsgerðir prófessoranna dr. Gunnars G. Schram og Sigurðar Líndal, dags. 4. apríl 1999 og 3. desember 1999, sbr. og ítrekunarbréf dags. 1. febrúar 2000. Þær umleitanir hafi ekki borið árangur, sbr. svarbréf fjármálaráðuneytisins, dags. 9. febrúar 2000, ásamt meðfylgjandi útreikningum Talnakönnunar hf., dags. í febrúar 2000.

         Með ákvörðun þann 31. júlí 2002 á grundvelli 95. gr. laga nr. 75/1981, sem tilkynnt var stefnanda með álagningarseðli (skatt- og innheimtuseðli) 2002, hafi skattstjórinn í Reykjavík lagt tekjuskatt á stefnanda vegna tekna á árinu 2001.  Þar hafi  ávöxtunarhluti lífeyrisgreiðslna stefnanda verið skattlagður með sömu skattprósentu og almennar launatekjur, þ.e. 38,78% skatti.

         Þar sem ekki hafi fengist lausn á málinu, sjái stefnandi sig tilneydda til þess að leita úrlausnar um kröfur sínar og sjónarmið hjá dómstólum með því að höfða mál þetta.

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi byggir kröfur sínar á því að það standist ekki 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og l. gr. viðauka nr. I við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. sáttmálans, að skattleggja þann hluta greiðslna stefnanda úr lífeyrissjóði, sem til sé kominn vegna vaxta, verðbóta og annarrar ávöxtunar iðgjalda til lífeyrissjóðs, við útborgun, með sömu skattprósentu og launatekjur, en ekki með sömu skattprósentu og tekjur af öðru fjármagni, þ.e. 10% fjármagnstekjuskatti.  Eins og málum sé nú háttað njóti iðgjöld til lífeyrissjóða og ávöxtun þeirra að vísu að nokkru leyti sérstöðu og hagræðis, að því er varðar skattskyldu.  Þannig hafi iðgjöld launamanna og atvinnurekenda til lífeyrissjóða lengst af verið frádráttarbær frá tekjum, áður en almennur tekjuskattur hafi verið á þær lagður.  Þá séu lífeyrissjóðir ekki skattskyldir. Þeir greiði því ekki tekjuskatt af ávöxtun lífeyris fyrir lífeyrisþega.  Þetta haggi því þó ekki að lífeyrisgreiðslur skattleggist sem tekjur hjá lífeyrisþega við útborgun, með almennu tekjuskattshlutfalli, og eigi það bæði við um inngreidd iðgjöld og fjármagnstekjur af þeim.  Samkvæmt þessu sé ljóst að af þeim hluta lífeyrisgreiðslna, sem eiga rót að rekja til iðgjalda, hafi lengst af ekki verið greiddur skattur, hvorki almennur tekjuskattur né sérstakur fjármagnstekjuskattur.  Eðlilegt sé því og sjálfsagt að lífeyrisþegar, eins og stefnandi, greiði skatt við útborgun lífeyris, en skylt sé að haga álagningu hans þannig að jafnræðis sé gætt.

         Í 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sé mælt fyrir um vernd eignarréttarins.  Ákvæðið banni auðvitað ekki skatta, sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Hins vegar felist í ákvæðinu sérstök jafnræðisregla.  Þá feli skatthugtakið í sér það skilyrði að skatta verði að leggja á eftir almennum, efnislegum mælikvarða og jafnræðisreglu.

         Með 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 hafi jafnræðisreglan verið lögfest í 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Samkvæmt 1. mgr. hennar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til þeirra atriða, sem talin séu upp í ákvæðinu.  Þannig sé óheimilt að mismuna mönnum með lögum, m.a. á grundvelli efnahags og stöðu að öðru leyti.  Með lögfestingunni hafi jafnræðisreglan fengið ákveðnari og rýmri merkingu en sú óskráða meginregla, sem áður hafi gilt.  Því sé haldið fram að eftir lögfestinguna beri að gera auknar kröfur til þess að jafnræðis sé gætt í samskiptum ríkisvaldsins við borgarana.  Jafnframt að þessi aukna réttarvernd hafi þýðingu, bæði með beinum hætti og við skýringu á 72. gr. stjórnarskrárinnar, að því er taki til mismununar við álagningu skatta.

         Í l. gr. viðauka nr. I við mannréttindasáttmála Evrópu sé eignarrétturinn verndaður.  Með 14. gr. sáttmálans sé lagt bann við mismunun gagnvart þeim réttindum, sem sáttmálinn verndi, m.a. á grundvelli þjóðfélagsstöðu, eigna eða annarrar stöðu.  Sáttmálinn hafi verið tekinn í íslensk lög, sbr. lög nr. 62/1994 og 25/1998.

         Stefnandi byggir á því, að áðurnefnt fyrirkomulag samkvæmt tilgreindum ákvæðum skattalaga standist ekki gagnvart umræddum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.  Grundvallist það á því, í fyrsta lagi, að tekjur í formi vaxta, verðbóta og annarrar ávöxtunar af iðgjaldi í lífeyrissjóð, séu skattlagðar með annarri og miklu hærri skattprósentu en tekjur af öðru fjármagni.  Mismunandi skattprósenta á samkynja eða eðlislíkar tekjur, þ.e. fjármagnstekjur, feli í sér mismunun sem ekki fái staðist nema málefnaleg sjónarmið liggi henni að baki.  Með þessu sé þeim, sem á hverjum tíma þurfa að greiða hærri skatt af tekjum af einni tegund fjármagns, þ.e. af ávöxtunarhluta lífeyris, mismunað gagnvart öðrum sem á sama tíma greiði miklu lægri skatt af tekjum af öðru fjármagni.  Þannig sé stefnanda í þessu máli mismunað, en henni hafi verið lögskylt að greiða í lífeyrissjóð.

         Í öðru lagi er byggt á því, að fyrirkomulagið feli í sér mismunun gagnvart stefnanda vegna stöðu hans sem lífeyrisþega í dag.  Í því sambandi skipti höfuðmáli að áður en öllum varð skylt að greiða tiltekinn hluta tekna sinna í lífeyrissjóð, hafi t.d. sumir þeir sem ekki voru launþegar í starfi fyrir aðra, getað lagt fyrir sparnað til efri áranna eingöngu með því að fjárfesta í hlutabréfum, svo dæmi sé tekið, en greitt ekkert í lífeyrissjóð.  Stefnandi, sem verið hafi launþegi, hafi ekki haft þetta val, heldur hafi hún verið tilneydd að leggja fyrir í lífeyrissjóð eftir því sem henni hafi verið það skylt.  Í dag, þ.e. eftir gildistöku laga nr. 97/1996, standi stefnandi hins vegar frammi fyrir því að löggjafinn hafi ákveðið að greiða skuli 10% fjármagnstekjuskatt af öllum fjármagnstekjum öðrum en ávöxtunarhluta lífeyris.  Í ljósi forsögunnar felist í þessu ótvíræð mismunun milli þeirra sem hafi fjármagnstekjur af lífeyrissparnaði eins og stefnandi, og hinna, sem hafi (einnig) tekjur af öðru fjármagni.

         Í þriðja lagi reisir stefnandi mál sitt á því að núverandi fyrirkomulag á skattlagningu ávöxtunarhluta lífeyris feli í sér mismunun gagnvart stefnanda eftir efnahag hans.  Af áðurnefndum ákvæðum skattalaga leiði að þeir efnaminni, eins og stefnandi, eigi þess ekki kost að ávaxta tekjur sínar á þann hátt að þeir eigi möguleika á að geta "notið" þeirrar skattprósentu, sem öðrum efnameiri "stendur til boða", að því er varðar skattlagningu tekna af öðru fjármagni. Hinum efnameiri sé m.ö.o. gefinn kostur á að ávaxta fé umfram það sem þurfi til framfærslu og lagt hafi verið til iðgjalda, og greiða af því lægri skatt, nánar tiltekið einungis 10% skatt af fjármagnstekjunum.  Stefnandi, sem hafi ekki átt fjármuni framyfir það sem gengið hafi til framfærslu og lagt hafi verið til iðgjaldagreiðslu, greiði almennan tekjuskatt af útborguðum lífeyri.  Á þennan hátt sé stefnanda mismunað gagnvart hinum efnameiri.  Grundvallaratriði sé í þessu sambandi, að stefnanda hafi verið skylt, samkvæmt lögum, að greiða í lífeyrissjóð.  Stefnandi hafi þannig ekki haft neitt val um með hvaða hætti hún hefur ávaxtað það fé, sem hún hefur verið skylduð til með lögum að leggja í sparnað.  Engu máli skipti þess vegna þótt hinir efnameiri kunni fyrst að hafa greitt almennan tekjuskatt af þeim tekjum, sem þeir síðar fjárfesti í öðru fjármagni, t.d. hlutabréfum.  Hér sé í reynd um að ræða tilvik, þar sem útkoman verði sú sama og ef um væri að ræða stighækkandi skatt eftir því sem efnahagur manna sé lakari.  Skattaálögur, sem leggist þannig sérstaklega þungt á einstaka menn eða fámennan hóp manna, standast ekki gagnvart tilvitnuðum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

         Stefnandi teljist óumdeilanlega til þeirra hópa í þjóðfélaginu sem búi við hvað lökust kjör og hafi haft hvað lægstar tekjur í gegnum tíðina.  Stefnandi hafi í dag tekjur sem dugi ekki til lágmarksframfærslu.  Vegna þessa hafi stefnandi notið aðstoðar Félagsþjónustu Reykjavíkur.  Samkvæmt skattframtali 2002, vegna tekjuársins 2001, hafi stefnandi haft 12.000 krónur í launatekjur frá Íslenska Sjónvarpsfélaginu hf.  Þá hafi stefnandi fengið greiddar úr Lífeyrissjóðnum Framsýn samtals 242.642 krónur og lögbundnar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins samtals að fjárhæð 968.842 krónur. Af þessum greiðslum sé stefnanda gert að greiða samtals 171.527 krónur í skatta samkvæmt ákvörðun skattstjórans í Reykjavík sem krafist sé ógildingar á.  Hér megi til hliðsjónar benda á útreikninga ríkisskattstjóra á tekjum og sköttum þeirra, sem eldri séu en 67 ára, fyrir árið 2000. Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur, hafi gert samanburð á skattgreiðslum stefnanda af lífeyrisgreiðslum árið 2001 samkvæmt "gildandi" skattareglum, annars vegar, og skattgreiðslunum eins og þær ættu að vera ef fallist yrði á sjónarmið stefnanda, hins vegar.  Samkvæmt útreikningum hans séu vextir, verðbætur og önnur ávöxtun 81% af útborguðum lífeyri frá Lífeyrissjóðnum Framsýn.  Samkvæmt því teljist fjármagnstekjur vera 196.540 krónur af greiðslum frá sjóðnum árið 2001.  Niðurstaða Bjarna sé sú, að skattgreiðsla stefnanda ætti að vera 114.963 krónur ef fallist yrði á sjónarmið stefnanda eða lægri sem nemur 56.564 krónur á ársgrundvelli.  Miðað við núverandi kerfi sé það lækkun um hvorki meira né minna en 33%.

         Áhersla sé lögð á að í málatilbúnaði stefnanda felist ekki krafa um að hún fái fjárgreiðslur úr ríkissjóði umfram aðra.  Þvert á móti.  Málatilbúnaðurinn lúti að því, með hvaða hætti ríkisvaldinu sé heimilt með sköttum að taka af henni hluta þess fjár sem hún hafi unnið sér inn með störfum sínum.  Málið lúti m.ö.o. meðal annars að því að ekki sé heimilt að tengja saman reglur um skattgreiðslur í ríkissjóð og reglur um skyldu til að leggja fyrir hluta af eignum til efri áranna, ef afleiðingarnar verði þær sem raun beri vitni að menn eins og stefnandi verði, á grundvelli efnahags síns og stöðu að öðru leyti, svo miklu lakar settir en aðrir.

         Gagnvart öllum áðurnefndum ástæðum, sem feli í sér mismunun, gildi auðvitað einu þótt með upptöku sérstaks, "samræmds" fjármagnstekjuskatts hafi dregið úr þeirri miklu mismunun, sem áður hafi verið látin viðgangast við skattlagningu af fjármagni.  Þess sé krafist að afstaða verði tekin til ástæðnanna sem hafi í sér fólgna mismunun, í þeirri röð sem þær séu upp taldar.  Í því efni beri að hafa í huga að stefnandi reisi mál sitt á því, aðallega, að hver og ein af ástæðunum sem haldið sé fram að feli í sér mismunun, fari sjálfstætt í bága við stjórnarskrárverndina en til vara að þær geri það tvær eða fleiri saman, enda helgist þær ekki af málefnalegum sjónarmiðum.

         Ekki leiki vafi á að markmið með skattlagningu fjármagnstekna sem slíkra hafi verið málefnaleg og efnahagslegt mat löggjafans um það efni sé ekki véfengt af hálfu stefnanda.  Ljóst sé hins vegar að umrætt fyrirkomulag á skattareglum helgist ekki af neinum málefnalegum, hlutlægum, nauðsynlegum eða eðlilegum ástæðum gagnvart stefnanda, þegar tekið sé mið af þeim afleiðingum, sem mismununin hafi.  Þvert á móti sé fyrirkomulagið ómálefnalegt og því ólögmætt.

         Eins og áður sé vikið að hafi ávöxtunarhluti lífeyrisgreiðslna verið eini flokkur fjármagnstekna einstaklinga, sem ekki hafi verið felldur undir hinn "samræmda" 10% fjármagnstekjuskatt með lögum nr. 97/1996.  Engar beinar skýringar finnist á því í undirbúningsgögnum frá löggjafanum.  Á hinn bóginn sé þar fjallað um hvers vegna lífeyrissjóðirnir sjálfir skyldu undanþegnir skattinum, þ.e. ávöxtunartekjur lífeyris­sjóðanna sjálfra.  Hafi það fyrirkomulag verið talið "eðlilegt".  Hins vegar skipti ástæður löggjafans í því efni auðvitað engu máli gagnvart þeirri mismunun sem stefnandi hafi þurft að sæta og fjallað sé um í þessu máli.  Þannig breyti engu þótt sambærilegt fyrirkomulag kunni, í meginatriðum, að vera í öðrum löndum og lífeyrissjóðir kunni þar að vera undanþegnir skattinum.  Þá skipti heldur engu máli í þessu sambandi, þótt svo kunni að hátta til, að lífeyrissjóðir á almennum markaði njóti ekki bakábyrgðar ríkis eins og ávöxtun sjóða opinberra starfsmanna.

         Eina röksemdin, sem löggjafinn tefli fram sem virðist geta falið í sér afstöðu til skattlagningar á lífeyrisgreiðslurnar sjálfar, þegar þær koma til útborgunar, sé sú að skattlagning, bæði ávöxtunar lífeyrissjóðanna sjálfra og útborgaðs lífeyris, fæli í sér tvísköttun.  En þessi röksemd sé augljóslega að hluta til byggð á misskilningi.  Þannig hefði t.d. mátt koma í veg fyrir tvísköttun með því að fella niður almenna tekjuskatts­skyldu af þeim hluta lífeyrisgreiðslna, sem jafngildi uppsöfnuðum fjármagnstekjum.  Þar væri um útfærsluatriði að ræða.  Hugleiðingar í þessa veru hafi komið fram í umsögn Sambands íslenskra viðskiptabanka til efnahags- og viðskiptanefndar og hafi framsögumaður minnihluta nefndarinnar nefnt þetta sérstaklega í umræðum um frumvarpið á Alþingi.  Samkvæmt því verði að álykta sem svo að þetta hafi hlotið að vera löggjafanum ljóst.  Ekkert verði á hinn bóginn fullyrt um hver raunveruleg ástæða hafi þá verið fyrir því að þetta fyrirkomulag hafi orðið niðurstaðan.  Hins vegar leiði þetta þá til þeirrar ályktunar að hlutlægt metið hafi þetta fyrirkomulag í reynd ekki verið óhjákvæmilegt til að ná þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með lögunum.  Raunar virðist vera á reiki hvert markmiðið með lögunum hafi verið, að því er snertir þetta atriði.

         Að hinu leytinu fari ekkert milli mála að engu breyti, varðandi umrædda mismunun gagnvart stefnanda í þessu máli, þótt lífeyrissjóðir greiði enga skatta og það kunni að koma lífeyrisþegum almennt til góða, m.a. með þeim sjálfsagða hætti að tekjur þeirra séu ekki tvískattaðar.

         Þá sé ljóst, að ekkert samband sé á milli frestunar á skattgreiðslum af iðgjaldi til lífeyrissjóðs og tilkomu 10% fjármagnstekjuskatts.  Heimildin til þess að draga iðgjaldið frá skattstofni, áður en almennur tekjuskattur sé á lagður, hafi verið til staðar áður en sérstakur, "samræmdur" fjármagnstekjuskattur hafi verið tekinn upp með lögum nr. 97/1996.  Meginástæðan fyrir þeirri heimild hafi enda fyrst og fremst verið tilgreind sú, að hvetja til lífeyrissparnaðar.  Þá beri að hafa í huga að frestunin komi auðvitað öllum lífeyrisþegum til góða, hvort sem þeir séu í góðum efnum eða efnalitlir eins og stefnandi.  Löggjafinn geti hvenær sem er afnumið heimildina til frestunar, ef hann kjósi svo, og þess séu reyndar dæmi að hún hafi ekki verið í lögum um tíma, svo sem áður hafi verið nefnt.  Frestun á skattgreiðslum af iðgjaldi til lífeyrissjóðs sé þannig ekki heldur forsenda fyrir núverandi skipan á skattgreiðslum af lífeyri.  Frestunarheimild þessi breyti, samkvæmt framansögðu, engu um þá ólögmætu mismunun, sem felist í reglum um skatt á lífeyris­greiðslur að öðru leyti.

         Ennfremur breyti hér vitaskuld engu þótt stefnandi fái lögbundnar greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, eins og aðrir ellilífeyrisþegar.

         Stefnandi telji sig hafa leitt í ljós, umfram skyldu, að engin hlutlæg eða málefnaleg sjónarmið liggi að baki umræddum skattlagningarreglum.  Hvað sem því líði sé byggt á því að stefndi verði að sýna fram á að einhver hlutlæg og málefnalega sjónarmið hafi getað réttlætt svo hróplega mismunun, sem rakin sé að framan.  Jafnframt að það fyrirkomulag sem valið hafi verið hafi verið óhjákvæmilegt til þess að ná lögmætum mark­miðum, sem kunni að hafa verið stefnt að.

         Með vísan til framangreindra málsástæðna og lagaraka telji stefnandi að umrædd skipan á skattlagningu lífeyris samrýmist ekki jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og tilgreindum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.  Því beri að taka þá kröfu hans til greina að ákvörðun skattstjórans í Reykjavík frá 31. júlí 2002, um álagningu tekjuskatts á stefnanda vegna tekjuársins 2001, verði felld úr gildi, enda sé hún byggð á margnefndum skattareglum.

         Byggt er á því að til þess að kröfum 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. viðauka nr. I við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. hans, um jafnræði, sé fullnægt gagnvart stefnanda við álagningu tekjuskatts á greiðslur úr Lífeyrissjóðnum Framsýn tekjuárið 2001, beri stefnda að skattleggja þann hluta greiðslnanna, sem hafi falið í sér vexti, verðbætur og aðra ávöxtun innborgaðs iðgjalds í lífeyrissjóðinn, með sömu skattprósentu og aðrar fjármagnstekjur, þ.e. með 10% skatti, sbr. 3. og 4. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, sbr. 1.- 8. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.  Því beri að taka til greina kröfu um viðurkenningu í þá átt.

         Svo sem fram sé komið byggi stefnandi kröfur sínar á 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. gr. viðauka nr. I við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. sáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994 og 25/1998.  Heimild til þess að hafa uppi viðurkenningarkröfu með þeim hætti, sem gert sé, sé í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en stefnandi hafi ótvírætt lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um réttarstöðu sína í þessu tilliti.  Krafa um málskostnað sé reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.  Áskilinn sé réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning á síðari stigum málsins.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, en samkvæmt þeim sé lögmönnum skylt að innheimta 24,5% virðisaukaskatt ofan á þóknun sína.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og ber henni því nauðsyn til að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda til þess að verða skaðlaus af málsókn þessari.  Um aðild vísist til dómvenju og um fyrirsvar til 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. og 8. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, sbr. reglugerð nr. 96/1969, 5. gr., tölulið 14.  Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök varðandi frávísunarkröfu

         Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 teljist lífeyrisgreiðslur til tekna.

         Um tekjuskatt af launagreiðslum fari eftir 1. mgr. 67. gr. sömu laga.  Samkvæmt gildandi lögum sé alveg skýrt hvernig skattleggja beri lífeyrisgreiðslur.  Greiðslur úr lífeyris­sjóðum falli undir tekjuhugtak A-liðar 7. gr. laganna og um skattlagningu þeirra fari samkvæmt almennu hlutfalli, sbr. l. mgr. 67. gr. laganna.  Þær falli ekki undir 3. og 4. mgr. 67. gr. um tekjuskatt af fjármagnstekjum.  Samkvæmt gildandi lögum sé því ótvírætt að lífeyrisgreiðslur teljist ekki til fjármagnstekna.  Þá er sérstaklega kveðið á um það í 6. tölulið 2. mgr. 8. gr. laganna að "vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljist til tekna sem lífeyrir skv. A-lið 7. gr. þegar slíkar greiðslur eru greiddar út."

         Stefnandi geri þá kröfu að álagning tekjuskatts vegna tekjuársins 2001 verði felld úr gildi.  Stefndi byggir á því að dómkröfur stefnanda málsins hljóti að teljast ódóm­hæfar af nokkrum ástæðum og fari þannig í bága við 24., 25. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo og meginreglur einkamálaréttarfars.

         Tekjuskattsstofn stefnanda gjaldárið 2002, vegna tekna árið 2001, sé myndaður af þremur þáttum.  Í fyrsta lagi sé um að ræða launagreiðslu að fjárhæð 12.000 krónur frá hlutafélagi, í öðru lagi bætur úr almannatryggingum að fjárhæð 968.842 krónur og í þriðja lagi lífeyri frá Lífeyrissjóðnum Framsýn.  Sé framtalinn tekjuskattsstofn þannig 1.223.484 krónur á skattframtali og við álagningu hafi verið lagður á þær tekjuskattur og útsvar. Sakarefni málsins varði hins vegar brot af einum lið þessara tekna, sem þó sé ókleift að skilgreina sem sérgreinda hagsmuni eða fjárhæð á þann hátt sem stefnandi seti sakarefnið fram.  Dómkrafa stefnanda um að ákvörðun skattstjóra um álagningu verði felld úr gildi sé þannig of víðtæk og almenn þannig að dómur verði á hana lagður.   Hafi stefnandi engin rök fært fram fyrir því að ógilda beri álagningu tekjuskatts eða útsvars í heild.

         Ekki verði séð að málsástæður þær sem stefnandi styðji kröfugerð sína geti í neinum tilvikum réttlætt að felld verði úr gildi álagning á bætur þær sem stefnandi hafi fengið frá almannatryggingum eða greiðslu frá hlutafélagi.  Þá nái málsástæður stefnanda ekki til þess hluta sem hún telji hafa verið höfuðstólshluta lífeyrisins.  Rétt sé að nefna í þessu sambandi að bæturnar sem stefnandi hafi fengið árið 2001 úr almannatryggingum, að fjárhæð 968.842 krónur, hafi verið vel yfir skattleysismörkum.  Með vísan til þessa verði ekki annað séð en verulegt ósamræmi sé á milli kröfugerðarinnar að þessu leyti og þeirra efnislegu forsendna sem hún sé reist á í stefnu.

         Í öðru lagi geri stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að "við álagningu tekjuskatts á greiðslur stefnanda úr Lífeyrissjóðunum Framsýn fyrir tekjuárið 2001 beri að skattleggja þann hluta greiðslnanna sem feli í sér vexti, verðbætur og aðra ávöxtun innborgaðs iðgjalds í lífeyrissjóðinn, með sömu skattprósentu og aðrar fjármagnstekjur" eins og það sé orðað í stefnu.  Fyrst sé að nefna að ekki sé á valdsviði dómstóla að leggja á skatta og gjöld eins og annar kröfuliður stefnanda feli sérstaklega í sér og í raun kröfugerðin öll. Í stefnu sé ekki að finna ótvíræðar tölulegar forsendur fyrir þessari kröfu, þ.e. hvaða hluta teknanna stefnandi telji vera fjármagnstekjur og hvaða hluta ekki, heldur sé í málsástæðum vísað til bréfs tryggingafræðings sem geymi útreikning, byggðan á ýmsum gefnum og óvissum forsendum og háður ýmsum fyrirvörum.  Hér sé um að ræða óþekkta stærð; óþekkta hagsmuni, sem hvorki stefnandi, stefndi eða Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi getað eða geti metið sérstaklega til fjár sem skilgreindan hluta lífeyrisgreiðslna.  Nefndu bréfi tryggingafræðings mótmæli stefndi sem röngu og þýðingarlausu, enda sé útreikningur sá miðaður við alls kyns óvissuþætti og háður miklum fyrirvörum.  Stefndi telji ástæðu til að mótmæla nefndu bréfi og útreikningum tryggingafræðings sérstaklega bæði vegna frávísunarkröfu og vegna sýknukröfu.

         Í nefndu bréfi tryggingafræðings sé þess freistað, að beiðni lögmanns stefnanda, að meta með útreikningum hvernig lífeyrisgreiðslur hennar á árinu 2001 skiptust annars vegar í höfuðstól eða uppsöfnuð iðgjöld og hins vegar verðbætur og vexti.  Stefndi mótmæli þessum útreikningi þar sem hann eigi sér ekki stoð í raun, enda sé lífeyrisgreiðslum stefnanda frá Framsýn tekjuárið 2001 ekki skipt upp með þessum hætti.  Í mati tryggingafræðingsins séu settir mikilvægir fyrirvarar, t.d. þeim að sjóðurinn greiði einnig örorku-, maka- og barnalífeyri.  Fullyrt sé að mestur hluti iðgjalda fari þó í ellilífeyri.  Í matinu sé einnig sagt að "enda þótt réttindin í samtryggingasjóði séu ekki eins fastbundin við einstaklinginn og í séreignasjóði [megi] líta svo á að hver sjóðfélagi eigi tiltekinn hlutfallslegan rétt til eignar sjóðsins og nemur áunnum rétti hans í hlutfalli við þann heildarrétt sem áunninn er."  Þessi forsenda sé að sjálfsögðu ekki alls kostar rétt miðað við samþykktir Lífeyrissjóðsins Framsýnar.  Í útreikningi tryggingafræðingsins segi einnig að hin umbeðna skipting sé metin með þeim hætti að taka iðgjöld stefnanda ár fyrir ár og framreikna þau til loka ársins 1996 með vöxtum og verðbótum.  Séu síðan lagðir til grundvallar nafnvextir sjóðsins og raunvextir miðað við vísitölur lánskjara og neysluverðs.  Þessi forsenda sé gefin en í raun samrýmist hún eða matið að örðu leyti ekki samþykktum Framsýnar og ákvæðum 10. og 11. kafla þeirra, en þar sé fjallað um með hvaða hætti réttur stefnanda og annarra til ellilífeyris úr samtryggingasjóði sé fundinn út.

         Meginniðurstaða tryggingafræðingsins um skiptinguna 19% / 81%, og töluleg fram­­setning stefnanda, á því hlutfalli byggð, séu samkvæmt framansögðu rangar þar sem hún sæki enga stoð í réttarsamband stefnanda við Lífeyrissjóðinn Framsýn að lögum eða samkvæmt samþykktum sjóðsins.  Útreikningur hans sé því samkvæmt framansögðu byggður á allt öðrum forsendum en samþykktir Framsýnar gefi til kynna, fyrir utan það að vera ekki í samræmi við raunveruleikann, þar sem sjóðurinn geri enga skilagrein fyrir vöxtum eða verðbótum eða skilgreini slík réttindi sem hluta af lífeyrisgreiðslum.

         Með vísan til framangreinds varði dómkröfur stefnanda í raun ímyndað álitaefni og hagsmuni sem ekki séu skilgreindir sem hluti af þeim lífeyrisgreiðslum sem stefnandi hafi fengið frá Lífeyrissjóðnum Framsýn.  Af framangreindum ástæðum krefjist stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi.  Fyrsta dómkrafa stefnanda sé í ósamræmi við málatilbúnað hennar þar sem hún taki til álagningar skatta að stærstum hluta, víðtækari en sakarefni málsins gefi til kynna.  Sé krafan þannig of víðtæk og almenn til að uppfyllt sé skilyrði 25. gr. laga nr. 9I/1991.  Önnur krafa stefnanda sé óljós af þeim ástæðum sem að framan greini og í raun aðeins beiðni um álit lögfræðilegs eðlis andstætt 24. gr. og 25. gr. nefndra laga.  Krafan feli ekki í sér áþreifanlegt eða raunhæft sakarefni sem unnt sé að dæma um.  Dómkröfur stefnanda í heild og málatilbúnaður feli í reynd í sér ímyndað álitamál, en ekki tiltekið, áþreifanlegt sakarefni, réttindi eða réttarsamband, sem dómstólum sé unnt að leggja efnisdóm á.

Niðurstaða

         Fyrri krafa stefnanda lýtur að því að ákvörðun skattstjórans í Reykjavík frá 31. júlí 2002 um álagningu tekjuskatts vegna tekjuársins 2001 verði felld úr gildi.

         Samkvæmt álagningarseðli skattstjórans í Reykjavík nemur stofn stefnanda til útreiknings tekjuskatts og útsvars 1.233.484 krónum.  Í skattframtali stefnanda 2002 kemur fram að tekjur stefnanda eru þríþættar.  Er þar um að ræða greiðslur frá Íslenska sjónvarpsfélaginu hf., greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og svo greiðslur frá Reiknistofu lífeyrissjóða ehf., þ.e. frá Lífeyrissjóðnum Framsýn.  Saman mynda þessar greiðslur tekjuskattsstofninn.

         Í tilkynningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar til stefnanda, dags. 28. desember 2001, um greiðslur úr lífeyrissjóðnum árið 2001 segir einungis að greiðslur til stefnanda hafi numið 242.642 krónum.  Er þar ekki að finna neina sundurliðun á því hve stór hluti greiðslnanna sé vegna innborgaðra lífeyrisgreiðslna eða hver sé hluti vaxta og verðbóta eða hver sé hluti ávöxtunar innborgaðs iðgjalds í lífeyrissjóðinn.

         Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki ráðið að stefnandi telji á sér brotið við álagningu tekjuskatts og útsvars að öðru leyti en tekur til vaxta, verðbóta  og annarrar ávöxtunar innborgaðs iðgjalds í lífeyrissjóðinn.  Þrátt fyrir það er gerð sú krafa að álagning skattstjórans í Reykjavík um álagningu tekjuskatts og útsvars á stefnanda verði felld úr gildi í heild sinni.  Telst þessi kröfugerð of víðtæk og er hún ekki í samræmi við málsástæður stefnanda í málinu.  Ber því að vísa þessum kröfulið frá dómi.

         Síðari kröfuliður lýtur að því að viðurkennt verði með dómi að við álagningu tekjuskatts og útsvars á greiðslur stefnanda úr Lífeyrissjóðnum Framsýn tekjuárið 2001, beri stefnda að skattleggja þann hluta greiðslnanna, sem fól í sér vexti, verðbætur og aðra ávöxtun innborgaðs iðgjalds í lífeyrissjóðinn, með sömu skattprósentu og aðrar fjármagnstekjur.

         Eins og áður er getið er í tilkynningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar til stefnanda um greiðslur úr lífeyrissjóðnum árið 2001 ekki að finna neina sundurliðun á því hve stór hluti greiðslnanna sé vegna innborgaðra lífeyrisgreiðslna eða hver sé hluti vaxta, verðbóta eða annarrar ávöxtunar.  Í stefnu er ekki að finna ótvíræðar tölulegar forsendur fyrir kröfunni, þ.e. hvaða hluta teknanna stefnandi telur vera fjármagnstekjur.  Hins vegar vísar stefnandi í málatilbúnaði sínum til útreiknings Bjarna Þórðarsonar tryggingastærðfræðings, en að beiðni stefnanda var óskað eftir mati Bjarna á því hvernig ellilífeyrisgreiðslur Maríu á árinu 2001 skiptust annars vegar í höfuðstól og hins vegar í verðbætur og vexti.  Eins og segir í greinargerð stefnda er útreikningur Bjarna Þórðarsonar byggður á ýmsum gefnum og óvissum forsendum og háður ýmsum fyrirvörum, enda hefur Lífeyrissjóðurinn Framsýn ekki metið vexti og verðbætur sérstaklega til fjár sem skilgreindan hluta lífeyrisgreiðslna.

         Telja verður að krafa stefnanda samkvæmt þessum kröfulið sé ekki nægilega skýr til þess að dómur verði á hana lagður.  Hafa þeir hagsmunir sem stefnandi krefst dóms um ekki verið skilgreindir, enda skilgreinir Lífeyrissjóðurinn Framsýn ekki sérstaklega í lífeyrisgreiðslum sínum hlutfall vaxta og verðbóta, eins og áður segir.  Felur krafan því ekki í sér áþreifanlegt eða raunhæft sakarefni sem unnt er að dæma um heldur fremur ímyndað álitaefni.  En þar sem kröfur stefnanda eru svo samtvinnaðar ber, með því að fyrri kröfulið stefnanda er vísað frá dómi, þegar af þeirri ástæðu að vísa síðari kröfulið í stefnu frá dómi.

         Samkvæmt framansögðu er máli þessu vísað frá dómi.

         Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jónasar Þórs Guðmundssonar hdl., 300.000 krónur, og útlagður kostnaður stefnanda, 121.388 krónur, eða samtals 421.388 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

         Máli þessu er vísað frá dómi.

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jónasar Þórs Guðmundssonar hdl., 300.000 krónur, og útlagður kostnaður stefnanda, 121.388 krónur, eða samtals 421.388 krónur, greiðist úr ríkissjóði.