Hæstiréttur íslands
Mál nr. 494/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Einkaréttarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 21. maí 2015. |
|
Nr. 494/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Albert Ísleifssyni (Arnar Þór Stefánsson hrl.) (Oddgeir Einarsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Einkaréttarkrafa.
AÍ var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa skellt höfði A, þáverandi unnustu sinnar, í gólfið, haldið henni niðri, sparkað í vinstra auga hennar íklæddur skóm og tekið síðan í hár hennar og ýtt henni upp í rúm. Ekki var fallist á með AÍ um að ómerkja bæri héraðsdóminn þar sem að hann hefði átt að vera fjölskipaður, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá var hafnað hluta af bótakröfu A þar sem að tölva sem AÍ hafði eyðilagt hefði verið í eigu annars aðila. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot A hefði verið sérstaklega hættulegt með tilliti til þeirrar aðferðar sem var beitt og var að auki höfð hliðsjón af 3. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1940. Var refsing A ákveðin fangelsi í tólf mánuði en fullnustu níu mánaða hennar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, til vara að dómur héraðsdóms verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni en að því frágengnu að krafan verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.010.704 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði hefur fært þau rök fyrir ómerkingarkröfu sinni að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eins og málið var vaxið var ekki við úrlausn þess ástæða til að víkja frá þeirri meginreglu 2. mgr. sömu lagagreinar að einn héraðsdómari skuli skipa dóm í hverju máli.
Með vísan til forsendna hin áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæðis en brot ákærða var sérstaklega hættulegt með tilliti til þeirrar aðferðar sem beitt var.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Það horfir hins vegar refsingu hans til þyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að brotið beindist að unnustu hans á heimili hennar og var hrottafengið. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði, en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni enda haldi hann almennt skilorð á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Samkvæmt gögnum málsins mun tölva sú er ákærði eyðilagði í framhaldi af líkamsárásinni hafa verið í eigu bróður brotaþola. Verður ákærða því ekki gert að greiða brotaþola tjón á tölvunni og hugbúnaði hennar samtals að fjárhæð 198.900 krónur, en að öðru leyti er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skaðabætur til brotaþola vegna fjártjóns hennar. Samkvæmt því verður ákærða gert að greiða brotaþola 111.804 krónur í skaðabætur. Með hliðsjón af háttsemi ákærða og þeim afleiðingum sem hún hefur haft fyrir brotaþola eru miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Albert Ísleifsson, sæti fangelsi í tólf mánuði en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði brotaþola, A, 911.804 krónur með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 830.366 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 28. janúar sl. á hendur Alberti Ísleifssyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 29. október 2012 veist með ofbeldi að A, kennitala [...], þáverandi unnustu sinni, á heimili hennar að [...] í [...]. Ákærði skellti höfði A í gólfið þannig að hægri hluti andlits hennar lenti í gólfinu og hélt henni niðri, sparkaði í vinstra auga hennar íklæddur skóm, tók síðan í hár hennar og ýtti henni upp í rúm þar sem hann tók kverkataki um háls hennar. Við þetta hlaut A bólgur, roða og eymsli yfir báðum kinnbeinum, glóðarauga vinstra megin, roða, bólgu og mar og eymsli yfir vinstri augntóft, bólgu og eymsli vinstra megin á enni, bólgu, roða og eymsli yfir hægra gagnauga, tognun og ofreynslu á hálshrygg, hruflsár yfir bringubeinsskafti, tognun og ofreynslu á rif og bringubein, væg eymsli yfir neðri hluta kviðar, skrámu á hægri upphandlegg og tognun og ofreynslu á vinstri litlu tá.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu brotaþola er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 310.704 krónur auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 29. október 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist miskabóta úr hendi ákærða, að fjárhæð 1.700.000 krónur auk vaxta, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. október 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist þóknunar réttargæslumanns.
Ákærði neitar sök. Krefst hann aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Brotaþoli mætti á lögreglustöð, þriðjudaginn 6. nóvember 2012, og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Læknir á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 8. desember 2012 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á slysadeild 29. október, kl. 17.40. Í vottorðinu kemur m.a. fram að brotaþoli sé ung, grannvaxin og hraustleg kona. Við komu hafi hún verið með mar á andliti og eftirstöðvar áverka. Skoðun hafi leitt í ljós áberandi roða og bólgu yfir báðum kinnbeinum. Yfir vinstra kinnbeini hafi verið um 5 sinnum 5 cm rauð bólguhella og yfir hægra kinnbeini stór roðahella um 5 cm í þvermál. Hún hafi verið verulega aum við þreifingu yfir kinnbeinum. Á vinstra auga hafi hún verið með glóðarauga og verulega aum við þreifingu á vinstri augntóft. Roði, bólga og mar verið þar yfir. Vinstra megin á enni hafi verið 1 sinnum 2 cm bólgið svæði og hún verulega aum við þreifingu. Eymsli verið yfir hægra gagnauga og bólgið svæði um 3 sinnum 3 cm og roði þar yfir. Verkjaleiðni verið upp á kinnbein beggja vegna. Brotaþoli hafi fundið fyrir verkjum er hún sneri höfði um 45° til vinstri og við hliðarsnúning þegar komin væri í 60 til 90° snúning til hægri. Hruflsár hafi verið á bringubeinsskafti og hún aum við þreifingu yfir öllu bringubeini. Hún hafi verð aum yfir bringubeini þegar brjóstkassa var þrýst saman og verið með takverk við djúpa innöndun fyrir miðju brjósti. Verið hafi væg þreifieymsli yfir miðjum neðri hluta kviðar. Skráma um 5 cm að lengd hafi verið á miðjum hægri upphandlegg. Bólga og mar hafi verið yfir litlu tá, vinstra megin. Í vottorðinu kemur fram að brotaþola hafi greinilega verið mjög brugðið og hún niðurbrotin við skoðun á bráðamóttöku. Fram kemur að teknar hafi verið ljósmyndir af áverkum og væru þær varðveittar í sjúkraskrá brotaþola.
Ákærði og brotaþoli gáfu skýrslu fyrir dómi. Auk þeirra gáfu skýrslur nágrannar brotaþola, vinur brotaþola, hjúkrunarfræðingur á áfallamiðstöð Landspítala og læknir á slysa- og bráðadeild er ritað hefur læknisvottorð vegna brotaþola. Ekki er ástæða til að reifa framburði fyrir dómi frekar en hér fer á eftir.
Ákærði greindi svo frá að hann og brotaþoli hafi átt í sambandi í 3 ár fyrir þann atburð er mál þetta snúist um. Um ,,sundur saman“ samband hafi verið að ræða. Mánudaginn 29. október 2012, hafi ákærði verið á leið í vinnu sína. Hafi hann og brotaþoli vaknað seint. Tiltekinn maður hafi hringt í síma brotaþola og hún ekki viljað svara símanum. Um hafi verið að ræða mann er ákærða hafi grunað að brotaþoli væri að stofna til kynna við. Þau hafi byrjað saman stuttu eftir þetta. Við þetta hafi ákærði og brotaþoli farið að rífast og hreytt ónotum hvort í annað. Ákærði hafi brotið tölvu brotaþola. Einnig hafi hann brotið reykáhald er brotaþoli hafi átt. Brotaþoli hafi klórað ákærða. Ákærði hafi ýtt henni frá sér og hún við það dottið á eldhúsinnréttingu í íbúðinni. Við það hafi brotaþoli farið að gráta. Ákærði kvaðst hafa séð áverka á andliti brotaþola eftir fallið, en hún hafi verið þrútin í kringum auga. Nágranni hafi bankað upp á. Ákærði hafi að ósk brotaþola hringt í vin brotaþola og beðið hann um að koma. Sá hafi komið á staðinn og skutlað brotaþola á slysadeild, en ákærði hafi þá verið lagður af stað í vinnuna. Slitnað hafi upp úr sambandi ákærða og brotaþola við atvikið þennan dag. Hafi það ,,fyllt mælinn“. Ákærði kvaðst ekki hafa skellt höfði brotaþola í gólfið þennan dag, eða hafa haldið henni niðri. Ekki hafi hann heldur sparkað í auga hennar, svo sem hún héldi fram. Hann hafi ekki heldur tekið hana háls- eða kverkataki. Ákærði kvaðst kannast við að hafa verið í samskiptum við brotaþola á fésbókinni eftir atvikið. Myndi hann ekki hvað þau hafi rætt um.
Brotaþoli hefur lýst atvikum þannig að hún og ákærði hafi verið búin að vera í sambandi. Því hafi lokið og þau verið byrjuð saman á ný. Umræddan dag hafi ákærði og brotaþoli vaknað. Þau hafi farið að rífast en brotaþoli hafi sagt eitthvað sem ákærða hafi ekki líkað. Hafi ákærði ,,snappað“. Hafi hann tekið um höfuð brotaþola og skellt því í gólf íbúðarinnar. Í framhaldi hafi hann sparkað í höfuð brotaþola og sparkið komið í hægra auga hennar. Ákærði hafi næst tekið brotaþola upp í rúm og tekið um háls hennar. Hafi ákærði um leið sagt að hann vissi af því að brotaþoli héldi framhjá ákærða. Ákærði hafi tekið brotaþola kverkataki upp við rúmgaflinn. Ekki myndi brotaþoli eftir hvort ákærði hafi notað báðar hendur við kverkatakið. Brotaþoli hafi orðið mjög hrædd en ákærði hafi haldið takinu í nokkurn tíma. Ákærða hafi ekki runnið bræðin og áfram öskrað á brotaþola. Hafi hann brotið tölvu hennar og síma. Brotaþoli hafi óttast mjög um líf sitt. Eftir kverkatakið hafi ákærði ekki ráðist aftur á hana. Hann hafi hins vegar stigið á gleraugu brotaþola og brotið þau. Eftir þetta hafi æðið runnið af ákærða og hann beðið brotaþola fyrirgefningar. Atlaga ákærða gagnvart brotaþola hafi sennilega staðið í einar 10 mínútur. Rangt væri er ákærði héldi fram að ákærði hefði hrint brotaþola á eldhúsinnréttingu í íbúðinni. Nágranni brotaþola hafi bankað á dyr íbúðarinnar þegar mesti hávaðinn hafi verið í gangi. Hafi ákærði sagt nágrannanum að fara. Hafi nágranninn greinilega verið skelkaður. Ákærði hafi hringt í vin brotaþola og sagt honum að koma til hennar, en ákærði hafi verið á leið til vinnu sinnar. Brotaþola hafi tekist að róa ákærða niður áður en hann hafi farið. Vinur brotaþola hafi komið skömmu síðar og hún sagt honum hvað komið hafi fyrir. Hafi vinurinn ekið brotaþola á slysadeild. Einhver hafi ekið bifreiðinni fyrir vin brotaþola. Á leið út úr húsinu hafi brotaþoli hitt fyrir sambýliskonu nágrannans og hún tekið utan um brotaþola til að hughreysta hana. Brotaþoli kvað ákærða hafa sett sig í samband við sig eftir þetta í gegnum fésbókina. Hafi ákærði verið að reyna að biðjast fyrirgefningar. Sambandi brotaþola og ákærða hafi lokið við árásina. Brotaþoli kvaðst hafa brotnað niður við atburðinn. Hafi hún rætt við geðlækna vegna málsins og hjúkrunarfræðing er sinnt hafi brotaþola. Ákærði hafi áður verið búinn að beita brotaþola líkamlegu ofbeldi, en aldrei í þeim mæli er gerst hafi 29. október 2012. Brotaþoli kvað ákærða hafa komið á heimili sitt eftir að kæra hafi verið lögð fram í málinu. Hafi hann sagt brotaþola að hún skyldi draga kæruna til baka. Teknar hafi verið myndir af áverkum brotaþola. Væru þær allar dagsettar. Brotaþoli hafi afhent réttargæslumanni sínum þessar myndir.
Nágranni brotaþola kvað kærustu sína hafa beðið sig um að banka á dyr íbúðar ákærða og brotaþola mánudaginn 29. október 2012, en mikil læti hafi heyrst úr íbúðinni. Sjálfur kvaðst nágranninn ekki hafa heyrt lætin. Hafi kærastan talið að ákærði og brotaþoli væru að gera meira en að rífast. Hafi nágranninn bankað á dyr íbúðarinnar. Ákærði hafi komið til dyra og öskrað eitthvað á sig. Ekki myndi hann hvað ákærði hafi sagt, en það hafi snúist um að málið kæmi honum ekki við. Ákærði hafi verið frekar æstur. Hafi brotaþoli verið inni í íbúðinni grátandi og horft niður í gólfið. Ekki hafi hann séð ummerki átaka í íbúðinni. Hann hafi ekki skipt sér meira af málinu.
Kærasta nágranna brotaþola kvað milliveggi í íbúðum að [...] vera mjög þunna og mjög hljóðbært í húsinu. Umræddan morgun hafi heyrst dynkir úr íbúð ákærða og brotaþola og hávaði eins og hlutum væri kastað. Þá hafi heyrst að brotaþoli var grátandi og hún hafi öskrað. Greinilegt hafi verið að mikið gengi á. Hafi hana grunað að ákærði væri að beita brotaþola líkamlegu ofbeldi. Lætin hafi haldið áfram. Hafi hún beðið kærasta sinn um að fara yfir til þeirra og athuga hvað væri í gangi. Hafi hann gert það. Við þá heimsókn hafi lætin hætt. Kvaðst hún telja að ákærði hafi komið til dyra og sagt kærastanum að fara. Kærastinn hafi stuttu síðar farið út og hún skömmu eftir það til að viðra hundinn. Er hún hafi komið til baka hafi brotaþoli komið út úr íbúð sinni. Hafi hún öll verið marin og blá í andliti og kærasta nágrannans verið hissa á hve mikið brotaþoli hafi verið bólgin. Einnig hafi brotaþoli verið útbólgin af gráti. Hafi hún sagt að ákærði hafi lamið sig og að hún væri á leið á slysadeild.
Vinur brotaþola kvað ákærða hafa hringt í sig að morgni 29. október 2012 og beðið sig um að koma. Vinurinn hafi ekki átt heimangengt. Brotaþoli hafi hringt skömmu síðar grátandi og beðið hann um að koma. Hafi vinurinn farið á heimili brotaþola. Brotaþoli hafi öll verið marin og blá. Hann hafi síðan ekið brotaþola á slysadeild. Brotaþoli hafi sagt hvað komið hafi fyrir. Hafi hún verið mjög hrædd. Hún hafi verið grátandi og í slæmu andlegu ástandi. Þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn er ákærði hafi lagt hendur á brotaþola. Vinurinn kvaðst hafa verið á heimili brotaþola einhverju síðar er ákærði hafi komið þangað ásamt einhverjum drengjum. Ákærði hafi dregið brotaþola afsíðis. Félagar ákærða hafi gengið í skrokk á ákærða sjálfum.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa veitt brotaþola áverka samkvæmt ákæru. Hafi brotaþoli fengið áverka við að falla á eldhúsinnréttingu á heimili brotaþola.
Brotaþoli leitaði á slysadeild í kjölfar atviksins 29. október 2012. Var hún greind með áverka samkvæmt ákæru. Teknar voru ljósmyndir af brotaþola sem sýna útbreidda áverka í andliti. Læknir lýsir mörgum áverkum í andliti brotaþola, auk mars á augnloki og augnsvæði. Þá er lýst tognun og ofreynslu á hálshrygg, tognun og ofreynslu á rif og bringubeini. Loks er lýst tognun og ofreynslu á tá. Þótti ástæða til að taka hjartalínurit af brotaþola, auk þess að senda hana í sneiðmyndatöku af höfði og andlitsbeinum. Nágrannar brotaþola heyrðu mikil læti að morgni 29. október 2012 og heyrðu brotaþola gráta. Kvaðst kærasta nágrannans hafa séð brotaþola þennan morgun og hafi hún öll verið marin og blá, auk þess að vera grátbólgin. Vinur brotaþola lýsti ástandi hennar með svipuðum hætti, en hann fór með brotaþola á slysadeild. Er brotaþoli gaf skýrslu fyrir dóminum var augljóst að alvarlegir atburðir höfðu átt sér stað í íbúðinni umrætt sinn og brotaþoli lent í slæmri lífsreynslu. Brotaþoli var trúverðug í frásögn sinni. Sú skýring ákærða að brotaþoli hafi fengið umrædda áverka við að falla á eldhúsinnréttingu á heimili brotaþola fær ekki staðist og brotaþoli ótrúverðugur að því leyti.
Þegar litið er til trúverðugs framburðar brotaþola, vottorðs læknis um áverka er greindust á brotaþola á slysadeild í framhaldi af atvikum og litið er til vættis nágranna sem heyrðu mikil læti koma úr íbúðinni og brotaþola öskra og gráta, þykir dóminum hafið yfir allan vafa að ákærði hafi veist að brotaþola í íbúðinni umrætt sinn. Áverkar samkvæmt læknisvottorði og ákæru samrýmast þeirri frásögn brotaþola af atvikum að ákærði hafi skellt höfði brotaþola í gólf íbúðarinnar, að ákærði hafi haldið henni niðri og sparkað í höfuð brotaþola þannig að sparkið hafnaði í vinstra auga hennar. Ekki kemur fram í áverkavottorði, né á ljósmyndum, að brotaþoli hafi greinst með mar á hálsi. Til grundvallar kverkataki, liggur þá einungis staðhæfing brotaþola sjálfs. Gegn neitun ákærða verður ekki talið sannað að ákærði hafi tekið brotaþola kverkataki. Brotaþoli greindist með alvarlega og útbreidda áverka eftir árás ákærða en um unga og grannvaxna konu er að ræða. Ákærði kom fyrir dóminn og er hann þrekvaxinn og stæðilegur maður. Ákærði hefur gengið harkalega fram gegn brotaþola. Þá er spark í höfuð einstaklings sem liggur á gólfi mjög hættulegt athæfi. Þegar þessi atriði eru virt verður ákærði sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 2009. Þess er getið hér að ákærði var [...] 2012 dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir þjófnað. Þá var hann dæmdur í sekt, [...] 2013, fyrir brot gegn lögreglulögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart þáverandi unnustu sinni. Gekk ákærði harkalega fram. Á hann sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar verður höfð hliðsjón af 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 16 mánuði. Með hliðsjón af háttseminni og sakaferli ákærða er ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna.
Af hálfu brotaþola er krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Gerð er krafa um skaðabætur að fjárhæð 310.704 krónur, auk vaxta og 1.700.000 króna í miskabætur, auk vaxta. Ákærði hefur með ólögmætri háttsemi sinni valdið brotaþola miskatjóni samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Með hliðsjón af háttseminni og þeim afleiðingum er hún hefur haft fyrir brotaþola eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur. Sannað er að ákærði braut tölvu brotaþola, gleraugu og síma. Þá hefur brotaþoli þurft að leita læknisaðstoðar vegna áverka af völdum ákærða. Ákærði hefur með þessu valdið brotaþola tjóni sem hann ber skaðabótaábyrgð á. Samkvæmt því verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 310.704 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorugtveggja að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Ákærði, Albert Ísleifsson, sæti fangelsi í 16 mánuði.
Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 1.510.704 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. október 2012 til 7. apríl 2013 en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 678.100 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns, 325.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 225.900 krónur.