Hæstiréttur íslands

Mál nr. 418/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Fimmtudaginn 19. júní 2014.

Nr. 418/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „á meðan á áfrýjunarfresti stendur eða á meðan mál hans er til meðferðar hjá æðri dómi“, allt til miðvikudagsins 9. júlí 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 195. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu, en eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. stendur. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili með dómi Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2014 sakfelldur fyrir mörg brot sem framin voru á tímabilinu frá september 2013 fram í mars 2014 og dæmdur í tveggja ára fangelsi. Þá hefur varnaraðili allt frá árinu 2006 margsinnis verið dæmdur til refsingar vegna ýmiss konar brota. Er því fullnægt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. fyrrgreindra laga um að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan á áfrýjunarfresti stendur. Samkvæmt þessu og að virtri kröfugerð sóknaraðila verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 9. júlí 2014 klukkan 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli [...] er til meðferðar fyrir æðra dómi eða á meðan áfrýjunarfrestur skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 stendur yfir, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 9. júlí 2014 kl. 00:00.

Dómfelldi mótmælir kröfunni.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að dómfelldi hafi verið handtekinn þann 18. mars sl. vegna gruns um líkamsárás, sbr. mál lögreglu nr. 007-2014-14097, og hafi næsta dag verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-99/2014, R-134/2014 og R-160/2014, samfleytt til dagsins í dag. Úrskurður nr. R-99/2014 hafi verið kærður til Hæstaréttar sem hafi staðfest hann, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 208/2014, þann 24. mars sl.

Embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út tvær ákærur á dómfellda vegna fjölda auðgunarbrota, tveggja líkamsárása og sérrefsilagabrota dagsett 15. apríl sl. og vegna skjalabrots dagsett 5. maí 2014. Ríkissaksóknari hafi einnig gefið út ákæru dagsetta 30. apríl sl. vegna sérstaklega hættulegrar líkamsárásar þann 10. janúar sl. þar sem skotið hafi verið úr loftbyssu í andlit brotaþola.

Ákærur þessar hafi verið sameinaðar fyrir Héraðsdómi Reykjaness undir málsnúmeri S-206/2014. Aðalmeðferð hafi farið fram í málinu og hafi það verið dómtekið þann 3. júní sl. Með dómi uppkveðnum fyrr í dag hafi dómfelldi verið dæmdur til fangelsisrefsingar en dómurinn sé ekki fullnustuhæfur.

Dómfelldi eigi langan brotaferil og hafi verið dæmdur 6 sinnum til fangelsisrefsingar og hlotið alls 13 dóma frá árinu 2006. Síðast hafi dómfelldi hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot þann 14. nóvember og þann 12. apríl 2013 hafi hann hlotið 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, þjófnað og annað með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. [...]. Dómfelldi hafi lokið afplánun síðastnefnda dóms í júlí 2013 og brot þau sem hann hefur nú hlotið dóm fyrir hófust fljótlega eftir að afplánun hans lauk og séu ítrekun við fyrri dóma. Þykir að mati lögreglu ljóst að dómfelldi hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans með vísan til fjölda tilfella á skömmum tíma, alvarleika brotanna, dóms í máli nr. [...] og sakaferils dómfellda.

 Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, dóms í máli nr. [...] og ferils dómfellda telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að hann muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur standi yfir eða meðan mál hans eru til meðferðar fyrir æðri dómi.

Sakarefni málanna séu talin varða við 1. mgr. 155. gr., 217. gr., 2. mgr. 218. gr., 244. gr., og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 og laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, en brot gegn ákvæðunum geta varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. og 3. mgr. 97. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, framlagðra krafna og úrskurða auk dóms Hæstaréttar á hendur dómfellda um gæsluvarðhald áður en dómur var kveðinn upp í dag í máli [...], þess dóms, c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga

Dómur var kveðinn upp fyrr í dag, þar sem dómþoli var dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhaldsvist er dómþoli hefur sætt frá 19. mars sl. dregst að fullri dagatölu frá refsingunni. Ákærði lýsti því yfir að hann taki sér frest til að segja til um áfrýjun á niðurstöðu héraðsdóms. Ekki liggur fyrir afstaða saksóknara ríkisins um áfrýjun.

Með hliðsjón af brotaferli ákærða og þess að hann hefur nú hlotið fangelsisrefsingu, telur dómurinn að ætla megi að ákærði haldi brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna með hliðsjón af brotum ákærða og sakaferli. Er því fallist á það með lögreglustjóra að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé uppfyllt og er krafan tekin til greina eins og segir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Dómfelldi, X, [...], sæti gæsluvarðhaldi, á meðan á áfrýjunarfresti stendur eða á meðan mál hans er til meðferðar hjá æðri dómi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 9. júlí 2014 kl. 16:00.