Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Útivist í héraði
- Lögmaður
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 23. mars 2010. |
|
Nr. 161/2010. |
Guðmundur Þórðarson (Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn Birni Theódór Líndal Gísla Kristbirni Björnssyni Þorkeli Guðjónssyni og Ágústi Ólafssyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Útivist í héraði. Lögmenn. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli GÞ gegn B, GK, Þ og Á var vísað frá dómi. Við þingfestingu málsins sótti GK þing en ekki B, Þ og Á. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 hafi dómara því borið að dæma málið á hendur B, Þ og Á eftir kröfum og málatilbúnaði GÞ að því leyti sem var samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar væru á málinu sem vörðuðu frávísun án kröfu. Við málsmeðferðina gagnvart þeim hafi dómari ekki getað, svo sem hann gerði, byggt á vörnum sem fram höfðu komið af hálfu GK. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins úr hendi varnaraðilans Gísla og kærumálskostnaðar. Láti aðrir varnaraðilar málið til sín taka fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar óskipt úr hendi allra varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness gegn varnaraðilum og gerði í stefnu kröfu um að þeir yrðu dæmdir til að greiða honum stefnukröfuna óskipt. Við þingfestingu málsins 28. október 2009 mætti varnaraðilinn Gísli og fékk frest til að leggja fram greinargerð. Af hálfu annarra stefndu, varnaraðilanna Björns Theódórs Líndal, Þorkels Guðjónssonar og Ágústs Ólafssonar, var ekki mætt. Eftir að bókað hafði verið um þingsókn varnaraðilans Gísla var fært til bókar: „Aðrir stefndu eru ekki mættir og fer stefnandi fram á að málið verði dómtekið á hendur þeim. Er svo gert.“ Þessi meðferð gagnvart þeim stefndu sem ekki mættu er í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.
Næsta dómþing var háð 25. nóvember 2009. Þá mætti Þórður H. Sveinsson héraðsdómslögmaður og lagði fram greinargerð „fyrir stefnda“ þar sem aðallega var gerð krafa um að málinu yrði vísað frá dómi. Í greinargerðinni er ekki nefnt hver hinn stefndi sé sem henni sé skilað fyrir. Í þingbókina var skráð: „Af hálfu stefnda sótti þing Þórður H. Sveinsson hdl. og lagði fram ... greinargerð ásamt fylgiskjölum. Hann mótmælir því að málið hafi verið dómtekið á aðra stefndu en Gísla, þar sem stefndi Gísli hafi verið mættur.“ Varnaraðilinn Gísli gat ekki farið með umboð til að mæta á dómþing við þingfestingu málsins fyrir aðra varnaraðila, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, auk þess sem málið hafði þá verið tekið til dóms á hendur þeim svo sem skýrlega var fært til bókar. Miðað við þetta verður talið að greinargerðinni hafi aðeins verið skilað fyrir varnaraðilann Gísla. Allt að einu var án nokkurra skýringa bókað þegar málið var tekið fyrir eftir þetta að nefndur lögmaður sæki þing „af hálfu stefndu“. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna virðist þó vera talið að lögmaðurinn hafi einungis flutt málið fyrir varnaraðilann Gísla. Í hinum kærða úrskurði er komist svo að orði: „Af hálfu stefndu skilaði stefndi Gísli greinargerð í málinu.“ Síðan er í úrskurðinum ýmist talað um stefnda eða stefndu þegar fjallað er um fram komnar varnir. Úrskurðarorðin verða ekki skilin á annan veg en þann að málinu í heild hafi verið vísað frá dómi, þó að einungis varnaraðilinn Gísli fái sér tildæmdan málskostnað. Hinn kærði úrskurður um að vísa málinu frá dómi er byggður á málsvörnum varnaraðilans Gísla og skjölum sem hann lagði fram.
Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 átti héraðsdómari að dæma málið á hendur varnaraðilunum Birni, Þorkeli og Ágústi eftir kröfum og málatilbúnaði sóknaraðila að því leyti sem var samrýmanlegt framkomnum gögnum við þingfestinguna nema gallar væru á málinu sem vörðuðu frávísun án kröfu. Við málsmeðferðina gagnvart þeim gat dómari ekki, svo sem hann gerði, byggt á vörnum sem fram höfðu komið af hálfu varnaraðilans Gísla eða sönnunargögnum sem hann hafði lagt fram. Af þessum ástæðum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Ekki eru efni til að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila um málskostnað í héraði úr hendi varnaraðilans Gísla, þar sem sú krafa kemur til dóms í héraði við væntanlega meðferð málsins þar.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verða varnaraðilar óskipt dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Varnaraðilar, Björn Theódór Líndal, Gísli Kristbjörn Björnsson, Þorkell Guðjónsson og Ágúst Ólafsson greiði óskipt sóknaraðila, Guðmundi Þórðarsyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2010.
Mál þetta var þingfest 28. október 2009 og tekið til úrskurðar 3. febrúar 2010. Stefnandi er Guðmundur Þórðarson, Hamraborg 9, Kópavogi. Stefndu eru Björn Theódór Líndal, Tjarnargötu 28, Reykjavík, Gísli Kristbjörn Björnsson, Sogavegi 22, Reykjavík, Þorkell Guðjónsson, Laugavegi 81, Reykjavík, og Ágúst Ólafsson, Húsalind 11, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða óskipt skuld að fjárhæð 8.208.783 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. janúar 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu stefndu skilaði stefndi Gísli greinargerð í málinu. Stefndi gerir aðallega kröfu um að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að dómkrafa stefnanda verði stórlega lækkuð. Þá gerir stefndi kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa um að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað. Jafnframt gerir stefnandi kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.
I.
Í stefnu málsins segir að stefnandi reisi kröfur sínar á reikningi stefnanda, útgefnum 11. janúar 2008 og með eindaga 18. janúar sama ár, að fjárhæð 6.593.400 krónur, auk 24,5% virðisaukaskatts, samtals 8.208.783 krónur, fyrir þjónustu við stefndu að sameiginlegri beiðni þeirra um sölu- og samningsgerð á öllum hlutum í Eignarhaldsfélaginu Vogum ehf., að nafnverði 500.000 krónur, sem voru í eigu stefndu ásamt eignum félagsins og skuldbindingum. Stefnandi segir að Casa Firma, lögmannsstofa, fasteigna-, firma- og atvinnutækjasala stefnanda, hafi haft milligöngu um kaupin.
Stefnandi kveður að stefndu hafi leitað til stefnanda um þessa þjónustu, þar sem þeir hefðu talið að stefnandi hefði kaupanda að hlutunum. Þeir séu því skyldir til að greiða stefnanda fyrir þá þjónustu. Fyrir milligöngu stefnanda hafi komist á samningur um bindandi kaup um hlutina við Byggingarfélagið Sólhof ehf. Kaupandinn hafi gert bindandi kauptilboð, dags. 11. desember 2007, um kaup hlutanna og þar með yfirtöku eigna félagsins og skuldbindinga fyrir 356.400.000 krónur. Næsta dag, 12. desember 2007, hefðu kaupandi og seljendur, stefndu í máli þessu, gert bindandi kauptilboð um hlutina. Þar með hafi verið kominn á bindandi kaupsamningur sem síðan hafi verið undirritaður af báðum aðilum 21. desember 2007. Af skattalegum ástæðum hafi að ósk stefndu verið gerður nýr kaupsamningur um þessi kaup, lítt breyttur, sem hafi verið undirritaður 3. janúar 2008. Hafi stefnandi þar með veitt stefndu umbeðna þjónustu. Auk þess hafi stefnandi fylgt þessum kaupum eftir með ótal ferðum og fundahöldum allt árið 2008 til að ljúka ýmsum ágreiningi samningsaðila við samninga þeirra.
Ekki hafi verið undirritaður skriflegur samningur um þessa þjónustu stefnanda við stefndu, en stefndu hefðu óskað eftir henni og bindandi samningur komist á um hana og þóknun stefnanda. Þjónustan hafi verið veitt stefndu með fullnægjandi hætti. Beri stefndu því að greiða stefnanda þá sanngjörnu og eðlilegu þóknun sem komi fram í áðurgreindum reikningi stefnanda.
Um þóknun fyrir þjónustuna skyldi fara eftir gjaldskrá Casa Firma & Guðmundar Þórðarsonar hdl. um 5 - 7% af heildarsölu, þ.m.t. yfirteknar veðskuldir og ábyrgðir sem og vörubirgðir auk vsk. Stefndu hafi verið kunnug þessi gjaldskrá, sem liggi frammi á áberandi stað á skrifstofu stefnanda og sé birt á heimasíðu Casa Firma. Hafi stefndu samþykkt að þóknun stefnanda fyrir umbeðna þjónustu yrði við hana miðuð. Stefnandi hefði hins vegar veitt stefndu stórafslátt frá gjaldskránni og aðeins reiknað sér 1,85%, eða 6.593.400 krónur, auk virðisaukaskatts. Þessi krafa stefnanda sé í alla staði sanngjörn og eðlileg fyrir veitta þjónustu, sem hafi í senn verið bæði lögmannsþjónusta og sölu- og samningsgerð á öllum hlutum í Eignarhaldsfélaginu Vogum ehf.
II.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins á því að stefnandi hafi þegar gert bindandi samning við stefnda um greiðslu söluþóknunar vegna kaupsamnings um Eignarhaldsfélagið Voga ehf. Sá samningur hafi verið gerður rúmum tveimur mánuðum eftir dagsetningu reiknings sem stefnandi reisir dómkröfur sína á. Verði ekki litið öðruvísi á en stefnandi hafi með samningnum dregið til baka útgefinn reikning, bæði hvað varðar fjárhæð söluþóknunar og gjalddaga hennar. Auk þess sé ljóst að stefnandi hafi með þessum samningum ákveðið að skipta söluþóknun pro rata á hvern stefndu í samræmi við eignarhlutdeild þeirra að félaginu og þar með fallið frá kröfu um óskipta ábyrgð þeirra á söluþóknuninni. Af þessu leiði að dómkröfur og málsástæður stefnanda fullnægi ekki skilyrðum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og séu þær vanreifaðar.
Þá byggir stefndi kröfu sína um frávísun málsins á því að stefnandi hafi að öðru leyti ekki skýrt á þann hátt sem áskilið sé í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 hvernig dómkrafa hans sé tilkomin, þ.á m. hafi hann ekki lagt fram skriflegan samning um þjónustu sína við stefnda, en slíkan samning beri honum skilyrðislaust að gera samkvæmt 9. gr. laga nr. 99/2004 og leggja fram í máli þessu, sbr. g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi telur að þetta feli einnig í sér vanreifun málsins og fullnægi ekki þeim kröfum sem gerðar séu í e-lið og g-lið 1. mgr. 80 gr. nefndra laga.
III.
Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður stefnanda því að grundvöllur málsins hefði verið lagður í stefnu málsins. Þar komi skýrt fram á hverju kröfur stefnanda séu reistar og þær reifaðar með fullnægjandi hætti. Stefnandi heldur því fram að stefndu hafi getað tekið til varna í málinu, eins og greinargerð í málinu beri með sér. Stefnandi telur að þau atriði sem frávísunarkrafa er byggð á varði efni máls og geti ekki varðað frávísun. Þá verði gögn málsins skýrð þegar málið verði tekið til efnismeðferðar.
IV.
Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi kröfur sínar á óskiptri skuldarábyrgð stefndu vegna reiknings að fjárhæð 8.208.783 krónur fyrir þjónustu stefnanda vegna sölu- og samningsgerðar á öllum hlutum í Eignarhaldsfélaginu Vogum ehf.
Ekki var gerður skriflegur samningur um þjónustu stefnanda, en hann heldur því fram að samið hafi verið um að þóknun skyldi fara eftir gjaldskrá Casa Firma & Guðmundar Þórðarsonar hdl. Stefndu gera margvíslegar athugasemdir við störf stefnanda. Þá er því mótmælt að stefndu hafi verið kynnt gjaldskráin. Þvert á móti hafi stefndu lagt áherslu á að hver hinna stefndu bæri einungis ábyrgð á greiðslu söluþóknunar miðað við hlut sinn í eignarhaldsfélaginu.
Af hálfu stefndu hafa verið lagðir fram samningar stefnanda við hvern og einn stefnda um söluþóknun, dags. 19. mars 2008, vegna sölumeðferðar á Eignarhaldsfélaginu Vogum ehf. Samningar þessir byggja á skiptri skuldarábyrgð stefndu. Þannig segir í samningi stefnda Gísla að heildarsöluþóknun sé 6.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, en hlutur hans sé „í samræmi við 33% eignarhlut hans í Eignarhaldsfélaginu Vogum kr. 1.980.000, að viðbættum virðisaukaskatti kr. 485.100, samtals kr. 2.465.100. Eftirstöðvar á þessum hlut eru við undirskrift samnings þessa kr. 500.000, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti kr. 122.500, samtals kr. 622.500. Þessi upphæð verður innheimt um leið og íbúð selst að Breiðamörk 23 Hveragerði eða skuldabréf selst sem gefið var út af kaupanda eignar Eignarhaldsfélagsins Voga ehf. Þó verður slík greiðsla eigi seinna til útborgunar en nemur 1. gjalddaga bréfanna.“ Sams konar samningur var undirritaður af stefnanda og stefnda Ágústi. Einnig liggja fyrir samningar við stefndu Björn og Þorkel um skipta skuldarábyrgð, en þeir eru ekki undirritaðir. Í stefnu málsins er þessara samninga að engu getið og málsgrundvöllur stefnanda fer á skjön við gögn málsins um skipta skuldarábyrgð. Er málið því vanreifað og ekki dómhæft. Með vísan til d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður máli þessu vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum og með hliðsjón af 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda Gísla málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Guðmundur Þórðarson, greiði stefnda, Gísla Kristbirni Björnssyni, 200.000 krónur í málskostnað.