Hæstiréttur íslands

Mál nr. 196/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 26

 

Mánudaginn 26. maí 2003.

Nr. 196/2003.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X sætti gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. maí sl., þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. júní nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt nýtt sakavottorð varnaraðila. Þar kemur fram að hann var 25. apríl 2003 dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir brot á 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í fjögurra mánaða fangelsi, þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár. Það getur ekki verið liður í rökstuðningi við umfjöllun um kröfu um gæsluvarðhald að varnaraðila sé getið á svonefndri kæruskrá lögreglu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. maí 2003.

                Lögreglustjórinn á Selfossi hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, allt til klukkan 16:00, föstudaginn 13. júní 2003.

                Kærði hefur mótmælt kröfunni.

                Lögreglan á Selfossi handtók kærða klukkan 05:32 nú í morgun, eftir að húsráðandi að S á Selfossi tilkynnti um að kærði hafi óleyfilega farið inn í hús sitt. Lögreglumenn munu áður hafa fengið tvær aðrar tilkynningar um húsbrot í öðrum húsum í nágrenninu skömmu áður. Í annað skiptið mun hinn ókunni maður hafa farið í svefnherbergi tveggja telpna og viðhaft kynferðislega tilburði gagnvart þeim að sögn lögreglu. Kærði hefur hjá lögreglu viðurkennt að hafa farið í öll þessi þrjú hús, en ekki muna eftir athöfnum sínum þar. Þá er fram komið að lögregla mun hafa handtekið kærða vegna gruns um tilraun til innbrots 4. apríl sl. Einnig mun lögregla hafa handtekið kærða 24. apríl sl. vegna gruns um tvær tilraunir kærða til að nauðga tveimur konum þann sama dag. Þá hefur lögregla kærða grunaðan um að hafa 3. maí sl. brotist í tvígang inn á heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar og haft þar uppi hótanir. Rannsókn lögreglu mun enn standa yfir vegna allra þessara ætluðu brota.

Fram kemur í kæruskrá lögreglu að frá árinu 2000 hefur kærði um það bil 20 sinnum komið við sögu lögreglu vegna ýmiss konar afbrota. Í framlögðu sakavottorði kærða frá 29. apríl sl. kemur m.a. fram að 1. febrúar 2000 var kærða gerð sektarrefsing vegna húsbrots. Hinn 5. desember 2000 kærði dæmdur til 30 daga fangelsisrefsingar, skilorðsbundinnar í tvö ár, vegna frelsissviptingar og blygðunarsemisbrots. Hinn 30. apríl 2001 var kærði svo dæmdur í 90 daga fangelsi, skilorðsbundins í þrjú ár, vegna líkamsárásar. Auk þessa er fram komið að kærði hefur tjáð lögreglu að hann hafi fyrir u.þ.b. einum mánuði hlotið fimm mánaða fangelsisdóm vegna húsbrota. Fjórir mánuðir af þeirri refsingu munu vera skilorðsbundnir. Lögregla kveðst þó ekki hafa fullnægjandi upplýsingar um þennan dóm, en vita af brotum þeim sem þar voru til meðferðar, en einnig hafi verið um kynferðisbrot að ræða.

                Kærði á að baki alllangan sakarferil og hefur hann m. a. hlotið refsingar fyrir sams konar brot og nú eru til rannsóknar. Nú stendur yfir rannsókn vegna gruns um að kærði hafi undanfarið framið margvísleg afbrot. Þá er fram komið að kærði er á þunglyndislyfjum, en neytir jafnframt alloft áfengis. Hefur kærði sjálfur sagt að hann muni lítt eftir atvikum meðan hann er ölvaður, en kærði kveðst vera alkóhólisti. Að virtum brotaferli kærða og þeim upplýsingum lögreglu um háttsemi hans undanfarið er fallist á að það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Ber því, með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að fallast á framkomna kröfu um gæsluvarðhald yfir kærða, eins og krafist er af lögreglustjóra.

                Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. júní 2003, klukkan 16:00.